Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2006


Lykilorð

  • Bifreið
  • Umferðarlög
  • Skaðabótamál
  • Vátrygging
  • Fyrning
  • Málsástæða


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. september 2006.

Nr. 58/2006.

María Kristín Gunnarsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf. og

Ármanni Gunnarssyni.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Umferðarlög. Skaðabótamál. Vátrygging. Fyrning. Málsástæður.

M varð fyrir slysi við akstur bifreiðar 30. janúar 1994 og samkvæmt matsgerðum dómkvaddra matsmanna taldist heilsufar hennar orðið stöðugt vegna áverka sem hún hlaut, 30. apríl sama ár. Var fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 því löngu liðinn þegar stefna var birt í málinu 27. janúar 2004, en ekki var fallist á röksemdir M um að fyrning hefði verið rofin á fyrra tímamarki.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2006. Hún krefst þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til að greiða sér 1.818.050 krónur, með 2% ársvöxtum frá 30. janúar 1994 til 1. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til að greiða sér 1.401.211 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

          Eins og fram kemur í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína á því að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi viðurkennt bótaskyldu sína vegna líkamstjóns, sem áfrýjandi varð fyrir í bifreiðarslysi í janúar 1994. Viðurkenningin hafi annars vegar byggst á greiðslu félagsins á kostnaði við að afla læknisvottorða og matsgerðar tveggja lækna á árunum 2003 og 2004, en hins vegar á því að félagið hafi áætlað vátryggingaskuld vegna slyss áfrýjanda og fært hana í svonefndan bótasjóð sinn. Telur áfrýjandi félagið hafa hagnast á ólögmætan hátt með þessari bókfærslu. Að auki hafi því borið að tilkynna áfrýjanda sérstaklega um hana og felist í því sviksamleg launung að svo hafi ekki verið gert. Vísar áfrýjandi til 7. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda því til stuðnings að krafan hafi ekki fallið niður fyrir fyrningu við þessar aðstæður. Áfrýjandi bendir jafnframt á að málsástæðna sem þetta varða sé hvorki getið né úr þeim leyst í hinum áfrýjaða dómi. Komi því til álita að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm án kröfu og vísa málinu heim til nýrrar málsmeðferðar.

Þann 28. maí 2005 kvað héraðsdómari upp úrskurð, þar sem upphaflegum aðal- og varakröfum áfrýjanda var vísað frá dómi, en kröfur þessar voru sérstaklega byggðar á nefndum málsástæðum áfrýjanda. Eftir stóð þá í málinu þrautavarakrafa hennar en það er sú krafa sem gekk til dóms í héraði og er til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Sú krafa var í stefnu sögð byggjast á þessum sömu málsástæðum auk annarra sem sérstaklega ættu við um hana.

Fallast má á að héraðsdómari hefði átt að gera grein fyrir þessum málsástæðum í hinum áfrýjaða dómi og taka afstöðu til þeirra. Slíka afstöðu hafði hann hins vegar tekið í úrskurðinum 28. maí 2005 þar sem hann meðal annars taldi að ekkert samhengi væri milli þessara málsástæðna og þess að áfrýjandi teldi sig eiga rétt til bóta á grundvelli ákvæða umferðarlaga, almennra skaðabótareglna og skaðabótalaga. Áfrýjandi kærði þennan úrskurð ekki til Hæstaréttar svo sem henni var unnt að gera og er hann ekki til endurskoðunar í málinu nú. Við þessar aðstæður eru ekki efni til að ómerkja héraðsdóminn, enda hefur áfrýjandi getað byggt kröfugerð sína fyrir Hæstarétti á þessum málsástæðum og fær því tekna afstöðu til þeirra á báðum dómstigum.

       Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. kveðst hafa greitt áðurnefndan kostnað á árunum 2003 og 2004 í því skyni að kanna hvort afleiðingar af völdum slyssins hafi verið varanlegar og hvenær tímabært hafi verið að meta þær með tilliti til þess hvort kröfur kynnu að vera fyrndar. Í þessu fólst ekki viðurkenning á bótaskyldu félagsins. Fyrrgreindar færslur í bókhaldi stefnda geta heldur enga þýðingu haft fyrir kröfu áfrýjanda. Með þeim var stefndi einungis að sinna þeirri lögboðnu skyldu sinni að áætla kostnað fyrir tjónum sem á hann kynnu að falla, án þess að nokkur vissa hafi þá legið fyrir um hvort slíkar kröfur kæmu fram eða teldust réttmætar. Slíkar færslur eru óviðkomandi réttarstöðu áfrýjanda gagnvart stefnda og hvíldi engin skylda á honum að tilkynna áfrýjanda um þær. Verður því ekki fallist á málsástæður áfrýjanda sem að þessu lúta. Áfrýjandi telur að skýra verði ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um upphafstíma fyrningar „með hliðsjón af“ 29. gr. þágildandi laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 og 125. gr. núgildandi laga um sama efni nr. 30/2004. Fyrstnefnda ákvæðið er sérákvæði um slit fyrningar bótakrafna vegna tjóns af notkun skráningarskyldra vélknúinna ökutækja en þau síðarnefndu eiga einvörðungu við um slit á fyrningu krafna, sem rísa af vátryggingarsamningi. Krafa áfrýjanda er ekki reist á slíkum samningi heldur er óumdeilt að hún byggist á ákvæðum XIII. kafla laga nr. 50/1987. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að málsgögnum til Hæstaréttar fylgdi ekki úrskurður 28. maí 2005, sem fyrr var getið.

Dómsorð:

          Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

          Áfrýjandi, María Kristín Gunnarsdóttir, greiði stefndu, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Ármanni Gunnarssyni, hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                   

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. september sl., er höfðað með stefnu birtri 27. janúar 2004.

Stefnandi er María Kristín Gunnarsdóttir, Hafnargötu 26, Vogum.

Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík og Ármann Gunnarsson, Arnartanga 7, Mosfellsbæ.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 1.818.050 krónur með 2,5% ársvöxtum frá 30. janúar 1994 til 1. janúar 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. greinar laga nr. 38/2001. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Þann 30. janúar 1994 hafði stefnandi, sem kom ofan úr Mosfellssveit, stöðvað bifreið sína A-12642 á Vesturlandsvegi til móts við afleggjarann heim að Lágafellskirkju og beðið, vegna umferðar á móti, eftir að geta beygt til vinstri. Hafi þá viljað svo til, að bifreiðin G-27474, í eigu stefnda Ármanns Gunnarssonar, hafi verið ekið aftan á bifreið stefnanda á allmikilli ferð og orðið af harður árekstur, þar sem báðar bifreiðarnar hafi skemmst nokkuð. Stefnandi, ökumaður bifreiðarinnar A-12642, hafi slasast við áreksturinn, enda hafi hún fengið á sig mikið högg er ekið var aftan á bifreið hennar og síðan slink er bifreiðin stöðvaðist. Í læknisvottorði slysadeildar frá 12. desember 2003, en þangað hafi stefnandi farið daginn eftir slysið, þann 31. janúar 1994, segi meðal annars: „Fann lítt til í byrjun, en síðan aukinn dofi í baki og upp í háls. Kvaðst hafa vaknað upp margoft um nóttina, aðallega vegna verkja aftan til í hálsi, en einnig framanverðu, við kyngingu. Einnig er hún að fá óþægindi í herðar og niður í mitt bak marblettur er yfir 4. og 5. brjósthryggjarlið. Væg þreifieymsli eru þar í vöðvum, en ekki yfir hryggjarliðum. Hálsvöðvar eru og aumir viðkomu, hálshreyfingar óhindraðar, en mjög varfærnislegar. Hægt er að framkalla dofatilkenningu út í vinstri handlegg, ef þrýst er á hnakkavöðva, en neurologisk skoðun er að öllu leyti eðlileg.“

Í læknisvottorði Heilsugæslustöðvar Mosfellsumdæmis frá 29. júlí 2002 segir svo: „María leitaði síðan hingað á heilsugæsluna 11.03/94 og fram kom að hún hafi farið á slysadeild í upphafi og komið þar einnig í endurskoðun, þá fyrst og fremst vegna verkja í hnakka. Fram að þessari komu var hún í veikindafríi og vetrarfríi. Hóf störf í byrjun viku fyrir komu og fann þá fljótlega aukna verki í hálsi og herðum og út í vinstri handlegg. Við komu var hún mjög slæm, reyndi að ganga um með hálskraga, sem hún hafði fengið á slysadeild en lagaðist ekkert við það. Hún var hvellaum yfir levator scapule, supraspinatus og út í festu vinstri axlar. Trapezius var aumur bilat upp í rósettufestur, scalaneus ant. et post, sternocleidomasteodeus, allt aumt. Skrifuð var beiðni um sjúkraþjálfun sem send var til sjúkraþjálfunar Ártúnshöfða.“

Stefnandi kveður, að hún hafi í framhaldi af skoðun lækna Heilsugæslustöðvarinnar í Mosfellsbæ í mars 1994, farið í sjúkraþjálfun hjá sjúkraþjálfun Ártúnshöfða og hlotið við það nokkurn bata.

Árið 1995 hafi vinnufyrirkomulag hennar á Sóltúni verið þannig að hún hafi einungis unnið aðra hverja viku, þ.e. eina viku og átt svo frí í viku. Árið 1995 hafi stefnandi síðan flutt til Hólmavíkur með fjölskyldu sinni. Þar hafi stefnandi unnið við grunnskólann sem stuðningsfulltrúi og síðan við leikskólann. Árið 1997 hafi stefnandi eignast sitt annað barn og farið þá í fæðingarorlof og unnið lítið þar til 1999. Árið 1997, 1998 og hluta af árinu 1999 hafi stefnandi unnið tvo til þrjá tíma á dag hjá Pósti og síma. Allan þennan tíma hafi stefnandi fundið fyrir meiðslunum, en haldið þeim niðri með verkjalyfjum og með því að hvíla sig og með léttri vinnu, en störf þau sem stefnandi hafi unnið á Hólmavík og síðan hjá Pósti og síma hafi ekki reynt mikið á stefnanda líkamlega. Árið 1999 hafi stefnandi flutt með fjölskyldu sinni í Voga á Vatnsleysuströnd. Hafi stefnandi unnið þar hálfan daginn hjá Nesbúinu, en hafið að vinna allan daginn haustið 2001. Við það að hefja vinnu allan daginn hjá Nesbúinu, þar sem stefnandi hafi unnið við að setja egg í bakka og búa um þau til sölu, kveður stefnandi að henni hafi allt í einu snarversnað í hálsi og herðum. Hafi hún vegna þessa leitað sér lækninga, svo sem fram komi á gögnum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en hún hafi kvartað yfir verkjum í hálsi og öxlum.

Kveður stefnandi að henni hafi um þetta leyti verið bent á að hún ætti rétt á bótum ef þetta væru afleiðingar umferðaróhappsins þann 30. janúar 1994, en stefnandi kveður að hún hafi aldrei verið upplýst um þann rétt sinn, hvorki af tryggingafélaginu eða öðrum. Þá hafi hún fyrstu árin eftir slysið trúað því að verkirnir og óþægindin sem hún fékk við áreksturinn hyrfu. Það hafi hins vegar ekki orðið og hefðu áverkarnir snarversnað um haustið 200l og enn versnað síðan. Um þetta leyti kveður stefnandi að hún hafi leitað sér lögmannsaðstoðar. Fyrst hjá Vilhjálmi Þórhallssyni, hrl. og síðan Steingrími Þormóðssyni, hrl.

Stefnandi kveður að hún hafi leitað til Sverris Bergmann, taugalæknis, vegna áverkanna og hafi hún á hans vegum verið lögð inn á Landspítalann til rannsóknar. Í vottorði hans frá 17. október 2003 segi m.a: „Í umferðarslysinu 30.01.1994 hefur MKG fengið slæman hálshnykk. í kjölfarið fylgdu verkir í hálsi og út í vinstri handlegg og minnkað úthald, en þetta er vel þekkt einkum hið síðasttalda eftir áverka af þessu tagi. Til áverkans má því rekja að MKG var í raun frá vinnu í 4 mánuði og þurfti síðan að aðlaga sig hálfu starfi allt fram á árið 2001. Þessi breyting á högum er hiklaust afleiðing af áverka þeim sem hún hlaut í umferðarslysinu. Tognanirnar í áverkanum hafa leitt til viðvarandi verkja áfram í hálsi einkum vinstra megin undir vinstra herðablaði og út í vinstri handlegg enda þótt úthaldið hafi lagast og ekki eru merki um þrýsting að taugarótum. Hins vegar er möguleiki á því að sá spasmótiski tortiretrocollis til vinstri þótt vægur sé og sem MKG nú hefur sé afleiðing áverkans og mun ég gera ráðstafanir til þess að hún fái sérstaka meðferð vegna þessa einkennis, annað hvort með staðbundnum deyfingum í sársaukapunkta á hálsi eða með sérhæfðri meðferð með Botúlínum inngjöfum.“

Þann 24. nóvember 2003 var beðið um mat á þeim áverkum sem stefnandi hefði hlotið i árekstrinum þann 30. janúar 1994.

Í mati þeirra Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar frá 16. desember 2003 segi:

„Fyrir slysið 30.01.1994 var María Kristín Gunnarsdóttir heilsuhraust og einkennalaus. Við slysið 30.01.1994 hlaut María tognunaráverka á háls. Hafði óþægindi í hálsi, herðasvæði vinstra megin út í öxl og var svo lýst við fyrstu komur á Slysadeild og heimilislækni. Hún hefur enn í dag samskonar óþægindi. Við skoðun finnast engin eymsli við þreifingu en óþægindin koma fram við snúning höfuðs til vinstri. Skoðun grip- og ganglima og taugakerfis var eðlileg. Þannig hefur María í dag mjög væg einkenni eftir hálstognun. Varanlegur miski er metinn 5%.

Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að María er ómenntuð en hefur starfsreynslu við vefnaðarvörugerð og umönnun. Gert er ráð fyrir að María hefði getað unnið slík störf áfram hefði hún ekki lent í slysinu. Eftir slysið hefur María haft óþægindi í hálsi sem um tíma dró nokkuð úr vinnugetu hennar, en vinnuframlag utan heimilis hefur verið breytilegt eftir álagi á heimilinu og vinnuframboði á vinnumarkaði. Óþægindi í hálsi eru líkleg til að draga úr vinnugetu hennar.“ Niðurstaða matsmannanna var sú að varanleg örorka stefnanda var metinn 5%.

Stefnandi óskaði yfirmats og í matsgerð yfirmatsmannanna Guðrúnar Karlsdóttur og Torfa Magnússonar lækna og Viðars Más Matthíassonar lögfræðings frá 21. desmber sl. segir um matsefnin:

 

„10. Afstaða til matsefna.

10.1          Líkamlegir áverkar, sem rekja má til slyssins.

Í yfirmatsbeiðni er óskað eftir afstöðu yfirmatsmanna til þess, hverjir séu í dag líkamlegir áverkar matsbeiðanda sem rekja megi til slyssins, þann 30. janúar 1994 og hvernig má reikna með að þessir áverkar lýsi sér í framtíðinni.

Það er skoðun yfirmatsmanna, að yfirmatsbeiðandi hafa við umferðarslysið fengið hnykk á háls og hálstognun. Vegna þessa tognunaráverka hefur hún verki í hálsi og herðasvæði með vægri skerðingu á hálshreyfingum. Einkenni hafa nú verið til staðar í rúmlega tíu ár og er líklegt að þau muni verða til staðar til frambúðar í svipuðum mæli og nú er.

10.2          Batahvörf.

Þá er óskað eftir afstöðu yfirmatsmanna til þess hvenær ástand yfirmatsbeiðanda vegna áverkanna, hafa orðið eins og það er nú í dag.

Yfirmatsmenn telja, að einkenni hennar hafi verið umtalsverð fyrstu þrjá mánuðina eftir slysið, þ.e. til 30. apríl 1994, en farið batnandi. Ástand hennar, vegna áverkanna er að áliti yfirmatsmanna svipað og það var síðastgreindan dag, sem telst batahvörf í skilningi skaðabótalaga, eins þau voru á slysdegi.

10.3          Hefur heilsa matsbeiðanda versnað frá árinu 1998 til dagsins í dag vegna

þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu?

Yfirmatsmenn telja, að í heildina séð hafa einkenni matsbeiðanda verið óbreytt frá árinu 1998 til dagsins í dag. Einkenni hafa þó verið breytileg, þó fyrst og fremst tengt vinnuálagi og aðstæðum hennar. Frá árinu 1998 hafa því ekki orðið neinar ófyrirsjáanlegar breytingar á einkennum hennar.

10.4          Hver er örorka yfirmatsbeiðanda í dag, vegna slyssins, þann 30. janúar

1994, metin á grundvelli staðals Tryggingastofnunar ríkisins?

Á matsfundi var yfirmatsbeiðandi spurð þeirra spurninga, sem settar eru fram í staðli sem er fylgiskjal 1. með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Gefin voru stig í samræmi við fyrirmæli staðalsins. Þegar stig matsbeiðanda voru talin saman, kom fram að stigafjöldi var lægri en krafist er til að matsbeiðandi hefði verið metin til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Að öðru leyti telja yfirmatsmenn að reglugerðin og staðallinn veiti þeim ekki færi á að tilgreina með nákvæmari hætti en hér greinir, hver örorka yfirmatsbeiðanda sé samkvæmt téðri reglugerð og staðli.

10.5          Hver er varanlegur miski yfirmatsbeiðanda, vegna þeirra áverka er hún

hlaut í slysinu, þann 30. janúar 1994 ef miskinn er grundvallaður á þeim

miskatöflum sem gilda skv. dönsku skaðabótalögunum?

Yfirmatsmenn telja, að aðferðafræði við mat á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. dönsku skaðabótalaganna og 4. gr. íslenzku skaðabótalaganna sé hin sama. í því felst, að í báðum tilvikum á að meta varanlegan miska þannig að miða eigi við það tímamark, þegar heilsufar tjónþola sé orðið stöðugt í skilningi skaðabótalaga, eins og þau voru á slysdegi. Yfirmatsmenn telja það tímamark vera 30. apríl 1994.

Varanlegan miska á í báðum tilvikum að meta þannig, að líta ber til þess hvers eðlis líkamstjónið er frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola.

Fyrri hluti matsins á varanlegum miska er almennur, þ.e. miðast við eðli líkamstjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Það mat er töflumat metið samkvæmt töflum sem Arbejdsskadestyrelsen gefur út í Danmörku, en örorkunefnd á Íslandi, sbr. 3. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Yfirmatsmenn telja, að stoð sé fyrir því í lögskýringargögnum með skaðabótalögum að styðjast við dönsku töfluna um mat á varanlegum miska, þ.e. þegar hún fer ekki í bága við þá töflu, sem örorkunefnd hefur gefið út.

Síðari hluti matsins, þ.e. mat á því hvaða erfiðleikum líkamstjónið veldur í lífi tjónþola opnar fyrir þann möguleika að taka tillit til sérstakra afleiðinga sem líkamstjónið hefur haft í för með sér fyrir tjónþola. Þessi síðari hluti matsins á varanlegum miska er því sérstakur og heimilar að taka tillit til sérstakra afleiðinga umfram það sem sambærileg meiðsl almennt hafa í för með sér.

Þegar varanlegur miski yfirmatsbeiðanda er metinn ber því fyrst að líta til þess hvaða meiðsl hún hlaut og hver einkenni hennar séu.

Yfirmatsbeiðandi hefur einkenni um hálstognun með daglegum einkennum sem aukast við álag. Einnig er til staðar mjög væg hreyfiskerðing í hálsi.

I dönsku miskatöflunni stendur valið á milli tveggja flokka, annars vegar flokks þar sem afleiðingar tognunar í hálshrygg felast í vægum daglegum einkennum og reiknast til 5 stiga miska og hins vegar afleiðingum eftir tognun í hálshrygg þar sem til staðar eru stöðug meðalerfið einkenni og jafnvel útgeislandi verkir og væg hugræn einkenni, en þau einkenni gefa 10 stig i varanlegum miska. Að áliti yfirmatsmanna eru einkenni yfirmatsbeiðanda heldur meiri en fyrri flokkurinn gefur til kynna, en nær ekki síðari flokknum. Samkvæmt dönsku miskatöflunni væri því eðlilegt að meta varanlegan miska yfirmatsbeiðanda 7 stig.

10.6          Hver er varanlegur miski yfirmatsbeiðanda, vegna þeirra áverka er hún

hlaut í slysinu, þann 30. janúar 1994 ef miskinn er grundvallaður á þeim

miskatölum sem gilda skv. miskatöflu örorkunefndar?

Um aðferðafræði við matið vísa yfirmatsmenn til þess sem segir í síðasta kafla.

Í miskatöflu örorkunefndar kemur fram að eymsli og óveruleg hreyfiskerðing vegna áverka á hálshrygg gefi miskamat allt að 5 stigum og að miðlungi mikil eymsli, hreyfiskerðing og dofatilfinning gefi miskamat á bilinu 6-10 stig. Einkenni yfirmatsbeiðanda ná ekki því sem sett er fram í síðari flokknum. Einkenni hennar felast í eymslum og óverulegri hreyfiskerðingu, og meta matsmenn varanlegan miska hennar eftir leiðbeinandi töflum örorkunefndar 5 stig. Yfirmatsmenn telja, að í þessu almenna mati sé tekið tillit til þeirra erfiðleika, sem líkamstjónið hefur í för með sér í lífi yfirmatsbeiðanda og því komi hinn sérstaki hluti miskamatsins ekki til skoðunar.

10.7          Mat á varanlegri örorku.

Mat á varanlegri örorku fer fram samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga. Það er ekki læknisfræðilegt örorkumat, heldur fjárhagslegt, þar sem margir þættir auk líkamstjónsins koma til athugunar. Samkvæmt orðalagi 5. gr. á að meta hvort líkamstjón hefur valdið varanlegri skerðingu á getu til að afla atvinnutekna. Við þetta mat á einnig að líta til þess sem segir í 2. mgr. 5. gr., þ.e. að þegar tjón vegna örorku sé metið skuli líta til þeirra kosta, sem tjónþoli á til þess að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. í þessu felst að tjónþola er skylt að takmarka tjón sitt með því að vinna við þau störf, sem sanngjarnt er að ætlast til, að hann starfi við.

Matið samkvæmt 5. gr. er framkvæmt þannig, að bornar eru saman tvær atburðarásir, sem báðar miða við forspá um atvinnuþátttöku tjónþola, þ.e. annars vegar sú framvinda, sem orðið hefði í atvinnuþátttöku hans ef hann hefði ekki orðið fyrir því líkamstjóni sem til mats og skoðunar er. Hins vegar sú framvinda sem orðin er frá slysi og fram til batahvarfa og frá því tímamarki og verður að líkindum í framtíðinni að því er atvinnuþátttöku varðar að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar sem líkamstjónið er. Við þessa síðari atburðarás getur þurft að gera tilhliðranir ef sýnt þykir að tjónþoli hefur ekki sinnt skyldu sinni til að takmarka tjón sitt með þeim hætti sem segir í 2. mgr. 5. gr. og áður er vikið að. Það er mismunur á getu til atvinnuþátttöku samkvæmt þessum tveimur atburðarásum, sem á að ákvarða starfsorkuskerðinguna, þ.e. hina varanlegu örorku.

Sé litið til fyrri atburðarásarinnar liggja fyrir nokkrar upplýsingar um atvinnuþátttöku yfirmatsbeiðanda frá því að hún lauk skólagöngu. Telja verður að hún hafi haft fulla atvinnuþátttöku fram að líkamstjóninu og skiptir ekki máli í því sambandi skemmri tímabil atvinnuleysis. Yfirmatsmenn telja, að af atvinnuþátttöku hennar fyrir líkamstjónið sé engin ástæða til að ætla annað en að hún myndi hafa haft fulla atvinnuþátttöku ef líkamstjón hennar hefði ekki komið til. Um þetta leikur enginn sérstakur vafi í tilviki yfirmatsbeiðanda.

Þegar litið er til síðari atburðarásarinnar, þ.e. atvinnuþátttöku matsbeiðanda frá því að hann varð fyrir líkamstjóni 30. janúar 1994 og frá batahvörfum 30. apríl sama árs, er ljóst að frá þessum tíma hefur hún einnig haft fulla atvinnuþátttöku eða því sem næst. Yfirmatsmenn telja að leggja beri trúnað á þær upplýsingar yfirmatsbeiðanda um að einkenni hennar, er hún fékk í slysinu 30. janúar 1994, hafi alltaf versnað í réttu hlutfalli við hve mikið hún hefur unnið. Ber einnig að líta til þess að yfirmatsbeiðandi hefur a.m.k. hagað vinnu sinni svo, að þessi einkenni hafi ekki valdið henni miklum vanda í gegnum tíðina. Á hinn bóginn er ljóst, að einkennin standa því í vegi að hún geti unnið fullan vinnudag, t.d. í þeirri vinnu sem hún er í nú. Af atvinnusögu hennar má ráða að hún hefur sinnt störfum sem teljast líkamleg. Óvíst er að hún eigi kost á öðrum og léttari störfum þar sem líkamstjónið myndi ekki há henni eitthvað. Yfirmatsmenn telja að ekki sé unnt að gera ráð fyrir að yfirmatsbeiðandi ráði við hærra starfshlutfall í núverandi starfi, en hún gegnir í dag. Með hliðsjón af því að einkenni hennar hafa ekki háð henni í öllum störfum þau tíu ár, sem liðin eru frá batahvörfum, en við það tímamark á að miða mat á varanlegri örorku, og því að yfirmatsbeiðandi sinnir nú því sem næst 80% starfi, og að hún getur sinnt heimilisstörfum, telja yfirmatsmenn að varanleg örorka hennar sé hæfilega metin 10%.“

Stefnandi byggir bótakröfu sína á hendur stefndu á, að sú bifreið sem ók á bifreið stefnanda hafi verið ábyrgðartryggð hjá hinu stefnda félagi. Eigandi bifreiðarinnar hafi verið stefndi Ármann Gunnarsson, sem stefnandi byggir á að hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er hann ók á bifreið stefnanda. Stefnandi eigi því kröfu á hann samkvæmt 3. mgr. 90. greinar umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.  Einnig samkvæmt 1. mgr. 90. greinar samanber 88. gr. og 89. gr., ásamt hinu stefnda félagi. Stefnandi leggur áherslu á, að ekið hafi verið aftan á bifreið hennar og að sá sem það hafi gert hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.

Krafa stefnanda sé byggð á framangreindum málsástæðum og einnig ákvæðum skaðabótalaga, svo sem 2. grein, 3. grein, 4. grein, 5. grein, 6. grein og 7. grein laganna.

Stefnandi byggir kröfu sína á niðurstöðu yfirmatsgerðar frá 21. desember 2004 og sundurliðast hún svo:

Þjáningabætur:                        950x90

kr. 85.500

Miskabætur                 5.455.000 x 7%

kr. 381.850

Tímabundin örorka

kr. 100.000

Varanleg/fjárhagsleg örorka 1.601.000 x 7,5 x 10%

kr. 1.200.700

Annað fjártjón

kr. 50.000

Samtals

kr.  1.818.050.

Annað fjártjón sé sá kostnaður sem stefnandi hafi haft af slysinu og ekki eru beinar kostnaðarnótur fyrir. Beri þar fyrst að telja ferðir hennar til sjúkraþjálfara fyrst eftir slysið og síðan ferðir til lækna fyrst á slysadeild og síðan til lækna í Mosfellsbæ. Þá til lækna haustið 2001 er stefnandi hafi farið að finna verulega fyrir áverkunum á nýjan leik og síðan til mætingar hennar hjá  Sverri  Bergmann  og  síðan matsmönnum.   Allt  kosti þetta  akstur og símhringingar. Þá hafi stefnandi keypt lyf sem rekja megi til áverkanna í miklum mæli frá haustinu 2001 til dagsins í dag.

Stefnandi byggir á að krafa hennar geti ekki verið fyrnd eða hafa orðið tómlæti að bráð.

Stefnandi byggir á því að hún hafi ekki verið upplýst um það af félaginu eða öðrum við slysið eða eftir það að hún ætti rétt á bótum samkvæmt skaðabótalögum. Stefnandi byggir á að hið stefnda félag hafi átt að upplýsa stefnanda um að hún ætti bótarétt, sérstaklega eftir að félagið vissi að stefnandi var að leita sér bata fyrst eftir slysið hjá sjúkraþjálfurum. Félaginu hafi því ekki getað dulist að stefnandi hafi orðið fyrir líkamlegum áverkum. Gögn þessa máls sýni að félagið hafi ekki á nokkurn hátt kannað þessi atriði, en öll læknisfræðigögn, svo sem frá slysavarðstofu LSH, séu fyrst fengin af lögmanni stefnanda.

Stefnandi kveður að er henni hafi versnað af áverkunum um haustið 2001, hafi vinnufélagi hennar upplýst hana um, að ef þessir erfiðleikar stöfuðu af áverkum sem hún hefði hlotið í umferðarslysi, ætti hún hugsanlega rétt á bótum. Það hafi verið þá fyrst sem stefnandi hafi farið að kanna rétt sinn í þessum efnum. Hún hafi því ekki sýnt af sér tómlæti. Stefnandi kveður einnig að fyrstu árin eftir slysið hefði hún trúað því, að áverkarnir hyrfu og tímar hafi komið þar sem hún hafi ekki mikið orðið vör við áverkana, enda hafi hún þá ekki unnið mikið. Það hafi hins vegar verið haustið 2001, er hún hafi farið að vinna tiltölulega erfiða vinnu, sem áverkarnir hafi sagt til sín. Það hafi ekki verið fyrr en þá sem stefnandi hafi farið að gera sér grein fyrir, að hún hafi hlotið alvarlega áverka í árekstrinum 30. janúar 1994. Það hafi ekki verið fyrr en þá sem hún hafi náð að kynna sér hverjar kröfur hún ætti hugsanlega vegna slyssins 30. janúar 1994 og í raun ekki endanlega fyrr en árið 2003 og í byrjun ársins 2004 með ofangreindu mati þeirra Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar og nú síðast með matsgerð yfirmatsmanna.

Stefnandi byggir á, að efni 99. greinar umferðarlaga verði að túlka á þann veg, að fjárkröfur samkvæmt ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga fyrnist í fyrsta lagi á fjórum árum, frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Hið stefnda félag hafi sönnunarbyrði um hvenær stefnandi hafi fyrst fengið vitneskju um kröfu sína og að stefnandi hafi sannanlega ekki átt þess kost að leita fullnustu kröfunnar fyrr en 2003 í fyrsta lagi. Í þessu sambandi skuli tekið fram, að hið stefnda félag hafi ekki lagt fram nokkurt skjal eða bréf um að félagið hafi tilkynnt stefnanda um bótaskyldu félagsins. Stefnandi byggir á að krafa hennar sé skaðabótakrafa sem fyrnist á 10 árum frá því að skaðabótakrafan hafi stofnast, sem hafi verið þann 30. janúar 1994.

Stefnandi byggir einnig á 11. grein skaðabótalaga. Að hafi á einhverjum tíma verið samið um að bætur stefnanda vegna slyssins yrðu engar, þá hafi áverkarnir sannanlega tekið ófyrirsjáanlegum breytingum frá þeirri stöðu mála og heilsa hennar versnað verulega vegna áverkanna.

Um lagarök vísar stefnandi til bótakafla umferðarlaga, til grunnreglna vátryggingaréttarins um grundvöll vátrygginga, sem og til 3. mgr. 2. greinar laga nr. 60/1994, II. kafla laganna. Einnig vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttarins um ólögmæta auðgun og til reglna skaðabótaréttarins um fullar bætur. Þá er einnig vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, einkum til 2. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 10. gr. Stefnandi vísar að síðustu til grunnraka 7. greinar fyrningarlaga.

Stefnandi vísar einnig til eftirfarandi sönnunarreglna: 67. greinar og 68. greinar EML. Þá er einnig vísað til þess að sá sem auðveldara á með að afla sönnunargagna geri það.

Af hálfu stefnda er málavöxtum lýst svo að stefnandi hafi slasast í umferðarslysi þann 30. janúar 1994. Tildrög slyssins hafi verið þau að bifreiðinni G-27474, sem var í eigu stefnda Ármanns Gunnarssonar, hafi verið ekið aftan á bifreið stefnanda. Skv. 3. mgr. 14. gr. ufl. nr. 50/1987 hafi því ökumaður bifreiðar stefnda Ármanns átt sök á árekstrinum. Bifreiðin hafi verið tryggð lögboðinni ökutækjatryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Hafi félagið bætt skemmdir sem orðið hafi á ökutæki því er stefnandi ók. Þá hafi félagið geritt stefnanda ýmsan kostnað vegna slyssins, m.a. sjúkraþjálfun og lækniskostnað.

Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi svo ekki heyrt frekar af málinu næstu árin og ekki getað ályktað annað en að stefnandi hefði náð sér að fullu af afleiðingum slyssins. Felldi stefnandi því úr bókum sínum tjónsáætlun vegna slyssins á árinu 1999. Það hafi svo verið 22. apríl 2002 að þáverandi lögmaður stefnanda hafi sent þessum stefnda erindi vegna málsins. Hann hafi svo sagt sig frá málinu þann 21. ágúst 2002.

Í nóvember 2002 hafi félaginu svo borist umboð núverandi lögmanns stefnanda. Hafi félagið tekið þátt í öflun læknisvottorða vegna slyssins, svo kanna mætti hvort um varanlegar afleiðingar af völdum slyssins væri að ræða og hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins, með tilliti til þess hvort kröfur vegna þess teldust fyrndar skv. 99. gr. ufl. Lögmaður stefnanda hafi óskað eftir því við læknana Atla Þór Ólason og Ragnar Jónsson að þeir legðu mat á hverjar afleiðingar slyssins væru. Hafi niðurstaða þeirra orðið sú að stefnandi hefði mjög væg einkenni eftir hálstognun. Varanlegur miski vegna slyssins væri 5% og varanleg örorka 5%. Þá teldist stefnandi hafa verið veik í skilningi skaðabótalaga í þrjá mánuði, án þess að vera rúmliggjandi.

Lögmaður stefnda hafi sett fram bótakröfur vegna slyssins, með bréfi dags. 8. janúar 2004. Af hálfu stefndu er bótakröfum vegna slyssins hafnað með vísan til þess að málið teljist fyrnt skv. 99. gr. ufl.

Krafa stefndu um sýknu af kröfum stefnanda sé á því byggð að kröfur þessar séu fyrndar skv. fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá sé því enn fremur alfarið hafnað að slysið megi á einhvern hátt að rekja til stórkostlegs gáleysis bílstjóra bifreiðarinnar G-27474.

Hið umstefnda slys hafi orðið 30. janúar 1994, en stefna ekki verið birt fyrr en 26. janúar 2004. Skv. 99. gr. umferðarlaga fyrnast allar bótakröfur skv. XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, á 4 árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Af fyrirliggjandi matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar svo og mati yfirmatsmanna sé ljóst að væntanlega hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins strax einu ári eftir slysið. Matsmenn telji að stefnandi hafi verið veik í skilningi skaðabótalaganna í þrjá mánuði eftir slysið. Skv. ákvæðum 3. gr. skbl. hafi þá ekki verið frekari bata að vænta eftir það tímamark og ástand stefnanda því orðið stöðugt í skilningi skbl. Fjögurra ára fyrningarfrestur skv. 99. gr. ufl. hefur skv. því byrjað að líða í árslok 1995 og krafa stefnanda því endanlega fyrnd í árslok 1999. Sé ekkert sem réttlætt geti að stefnandi hafi dregið svo lengi að leita fullnustu kröfunnar.

Af gögnum þeim er stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi haft undir höndum hafi ekki annað verið ráðið en að stefnandi hefði náð fullum bata og mátti stefndi ekki ætla annað. Um væga hálstognun hafi verið að ræða og eins og fram komi á vottorðum læknanna Leifs Jónssonar og heilsugæslulæknis í Mosfellsbæ hafi hún ekki leitað til læknis vegna umferðarslyssins eftir 11. mars 1994. Er því mótmælt að stefndi hafi á einhvern hátt brugðist skyldum samningsaðila með því að upplýsa ekki stefnanda um frekari bótarétt. Hið stefnda félag hafi strax viðurkennt bótaskyldu sína og greitt stefnanda bætur vegna sjúkraþjálfunar o.fl. Hafi því stefnanda strax verið ljóst að hún ætti bótarétt vegna slyssins.

Stefnanda hafi enn fremur verið ljóst að krafa hennar kynni að vera fyrnd. Eins og komi fram í bréfi fyrrverandi lögmanns hennar hafi hann sagt sig frá málinu þar sem komin hafi verið mjög sterk „fyrningarlykt“ af málinu vegna 4 ára fyrningarreglunnar í 99. gr. ufl. Þá sé því alfarið hafnað að með því að greiða útlagðan kostnað vegna læknisvottorða og annarra gagna hafi stefnandi með einhverjum hætti viðurkennt bótaskyldu sína. Öflun þessara gagna hafi verið nauðsynlegur þáttur í mati á því hvort varanlegar afleiðingar af völdum slyssins séu yfir höfuð fyrir hendi og ef svo sé, hvort bótakrafa vegna þeirra teljist fyrnd. Fyrningaregla 99. gr. ufl. byggist á atvikum sem ekki sé unnt að leggja mat á nema slíkra gagna sé aflað. Þyki stefnda því eðlilegt að hann beri kostnað af því, en fráleitt sé að telja að í því felist viðurkenning á bótaskyldu.

Skv. stefnu byggi stefnandi jafnframt á 11. gr. skbl. Geti sú lagagrein alls ekki átt við um mál þetta, enda sé ekki hægt að endurupptaka ákvörðun um bætur fyrir varanlega örorku eða miska, þegar slík ákvörðun bóta hafi aldrei farið fram.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu, er varakrafa stefndu sú, að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega

Kröfum stefnda um bætur vegna tímabundins tekjutjóns er mótmælt. Krafa þessi sé ekki studd neinum gögnum um launamissi stefnanda af völdum slyssins og hverra greiðslna stefndi hafi notið á óvinnufærnitímabili, t.a.m. frá vinnuveitanda og Tryggingastofnun ríkisins.

Skv. 7. gr. skbl., er í gildi voru á tjónsdegi, hafi við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku átt að miða útreikning við árslaun er teldist vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Skv. skattframtali námu tekjur stefnanda á árinu 1993 alls 919.496 krónum. Að viðbættu 6% lífeyrissjóðsframlagi hafi tekjur stefnanda 12 mánuði fyrir slys numið 974.666 krónum.

Er því alfarið hafnað að miða beri við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skbl. eins og þau séu í dag, enda hafi þau laun ekki verið færð í lög fyrr en 5 árum eftir slys stefnanda. Kröfu um annað fjártjón er mótmælt sem algjörlega ósönnuðu. Kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Þá er vöxtum eldri en 4 ára mótmælt sem fyrndum skv. 1. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Um lagarök vísast til meginreglna skaðabótaréttar, laga um skaðabætur nr. 50/1993 og ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987. Um málskostnað og réttarfarssektir vísast til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA

Sýnt er fram á það með mati yfirmatsmanna að varanlegur miski stefnanda vega slyss þess er hún varð fyrir 30. janúar 1994 er 5%. Þá er varanleg örorka hennar 10% samkvæmt yfirmatsgerð þessari.

Í sömu matsgerð kemur fram að matsmenn telja ástand stefnanda vegna áverkanna hafa verið orðið eins og á matsdegi þann 30. apríl 1994 og teljist batahvörf hafa verið þann dag í skilningi skaðabótalaga eins og þau voru á slysdegi. Þessi er og niðurstaða matsmannanna Grétars Guðmundssonar læknis og Bjarna Daníelssonar lögfræðings sem telja stöðugleikatímapunkt hafa verið 30. apríl 1994. Enn fremur kemur fram í báðum matsgerðum að engar breytingar sem máli skipti hafi orðið á heilsufari stefnanda frá því á árinu 1998 til þess dags er matsgerðir eru dagsettar.

Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Í því tilviki sem hér er til úrlausnar liggja fyrir þær niðurstöður matsmanna að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt þegar 30. apríl 1994 og samkvæmt því byrjaði 4 ára fyrningarfrestur umferðarlaganna að líða við upphaf ársins 1995. Stefna í máli þessu var birt 27. janúar 2004 og var þá fyrningarfrestur löngu liðinn. Ekki verður fallist á það með stefnanda að greiðslur sem stefndi Vátryggingafélag Íslands innti af hendi vegna matsgerðar tveggja lækna hafi falið í sér viðurkenningu á greiðsluskyldu stefndu eða orðið til þess að rjúfa fyrningarfrest.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki hjá því komist að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi 19. febrúar 2004 og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði en hann sundurliðast svo: málflutningsþóknun lögmanns stefnanda 700.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti 171.500 krónur og útlagður kostnaður stefnanda að fjárhæð samtals 1.140.289 krónur eða samtals 2.011.789 krónur.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands og Ármann Gunnarsson, skulu sýknir af öllum kröfum stefnanda, Maríu Kristínar Gunnarsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 2.011.789 krónur greiðist úr ríkissjóði.