Hæstiréttur íslands
Mál nr. 373/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Innsetning
|
|
Þriðjudaginn 3. september 2002. |
|
Nr. 373/2002. |
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis(Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Oddi Ingimarssyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Aðför. Innsetning.
O var talið heimilt að fá fullan og ótakmarkaðan aðgang að skrá yfir stofnfjáreigendur S, sem tilgreindi nafn stofnfjáreiganda, heimilisfang og kennitölu, ásamt stofnfjáreign hvers þeirra, með þeim hætti að hann fengi að rita niður upplýsingar úr skránni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð ótakmarkaðan aðgang að skrá yfir stofnfjáreigendur sóknaraðila með nánar tilgreindum upplýsingum, þannig að hann ætti kost á að rita niður upplýsingar úr skránni. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Í hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari með réttu sagt ágreining aðila lúta að því hvað felist í orðunum að „eiga aðgang“ að skrá þeirri er greinir í 8. gr. samþykkta sóknaraðila. Slík orðskýring fellur eftir eðli málsins undir 78. gr. laga nr. 90/1989. Héraðsdómari hefur komist að þeirri niðurstöðu að í orðunum felist að heimilt sé að rita upplýsingar úr skránni. Með þessari athugasemd og vísan til forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, greiði varnaraðila, Oddi Ingimarssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2002.
Mál þetta var þingfest 10. júlí 2002 og tekið til úrskurðar 19. júlí 2002.
Gerðarbeiðandi er Oddur Ingimarsson, kt. 130578-3499, Eggertsgötu 32, Reykjavík.
Gerðarþoli er Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, kt. 610269-5089, Ármúla 13a, Reykjavík.
Dómkröfur gerðarbeiðanda eru þær að gerðarbeiðanda verði veittur fullur og ótakmarkaður aðgangur að skrá yfir stofnfjárfesta Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, skv. 8. gr. samþykkta fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, sem afgreiddar voru á aðalfundi 15. apríl 1994, með áorðnum breytingum. Skrá þessi skal tilgreina nafn stofnfjáreiganda, heimilisfang og kennitölu, ásamt stofnfjáreign hvers stofnfjáreiganda. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola.
Gerðarþoli krefst þess að beiðni gerðarbeiðanda um beina aðför á hendur gerðarþola verði hafnað. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gerðarbeiðanda að mati dómsins.
Verði fallist á beiðni gerðarbeiðanda að einhverju leyti, krefst gerðarþoli þess að í úrskurði héraðsdóms verði kveðið á um að málskot til Hæstaréttar fresti aðfarargerð á hendur gerðarþola.
Málsatvik og helstu ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að gerðarbeiðandi, sem er stofnfjáreigandi í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, hefur reynt að fá aðgang að skrá yfir stofnfjáreigendur sparisjóðsins, sem hann telur sig hafa ótvíræða heimild til. Í bréfi, dagsettu 1. júlí 2002 fór gerðarbeiðandi fram á að stjórn sparisjóðsins veitti honum fullan og óhindraðan aðgang að hinni umræddu skrá fyrir kl. 16.00 hinn 4. júlí 2002. Gerðarbeiðandi fór fram á ótakmarkaðan aðgang að skránni en í slíkum aðgangi taldi hann felast að honum yrði afhent afrit, ljósrit, rafrænt afrit eða gert mögulegt að afrita hana til þeirrar nýtingar sem hann ætti rétt á samkvæmt ákvæðum samþykkta gerðarþola og laga. Jafnframt var gerðarþola gert ljóst að ef ekki yrði við ósk gerðarbeiðanda fyrir lok tímafrests myndi hann krefjast beinnar aðfarargerðar, samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga um aðför nr. 90/1989.
Gerðarþoli varð ekki við þessari áskorun gerðarbeiðanda. Stjórnarformaður gerðarþola sendi gerðarbeiðanda bréf, dagsett 4. júlí 2002, þar sem hann staðfesti heimild gerðarbeiðanda og annarra stofnfjáreigenda til að koma á skrifstofu sparisjóðsins, eftir nánara samkomulagi, og kynna sér efni skrárinnar. Hins vegar taldi hann að í 8. gr. samþykkta sparisjóðsins fælist ekki heimild til afritunar á skránni í neinu formi. Í bréfinu kom fram að gerðarþoli teldi gerðarbeiðanda hafa framið trúnaðarbrot með því að lesa skrá stofnfjáreigenda inn á segulband og afhenda óviðkomandi aðilum og að ekki stæði til að verðlauna gerðarbeiðanda með því að koma honum í aðstöðu til að fremja ný trúnaðarbrot gagnvart gerðarþola. Meginreglan um aðgang stofnfjáreigenda að skránni hlyti að víkja þegar tilgangurinn væri óheiðarlegur.
Málsástæður og lagarök aðila
Gerðarbeiðandi telur sig eiga rétt á fullum og ótakmörkuðum aðgangi að skrá yfir stofnfjárfesta Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í samræmi við 8. gr. samþykkta fyrir sparisjóðinn, og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Hann hafi ítrekað reynt að fá notið réttar síns til aðgangs að umræddri skrá en án árangurs.
Gerðarbeiðandi telur að markmiðið með því að tryggja aðgang að skránni felist meðal annars í því að auðvelda stofnfjáreigendum að ná hver til annars um málefni sparisjóðsins og undirbúa sig fyrir fundi eða gera þeim mögulegt að nýta rétt sinn til að krefjast fundar með fulltingi nægilegs fjölda stofnfjáreigenda, sem sé einlægur ásetningur gerðarbeiðanda í þessu máli. Megi í þessu sambandi benda á að 1/3 stofnfjáreigenda þurfi til að krefjast fundar, sbr. 19. gr. samþykktanna, og verði sú krafa ekki gerð að slíkum fjölda detti samtímis í hug að krefjast fundar án þess að geta náð hver til annars. Það sé augljóst mál að skrá þessi nái ekki tilgangi sínum ef stofnfjáreigendum leyfist aðeins að koma á vettvang og lesa skrána en hún tilgreini rúmlega 1100 einstaklinga. Gerðarbeiðandi telur að gerðarþoli fullnægi ekki ákvæðum 8. gr. samþykktanna nema með því að veita gerðarbeiðanda aðgang sem felist í því að afhenda honum ljósrit af skránni, skrána á tölvutæku formi eða gera honum kleift að skrifa nöfnin á skránni niður. Krafan um fullan og ótakmarkaðan aðgang að skrá yfir stofnfjárfesta feli í sér að gerðarþola verði gert mögulegt að afrita skrána til þeirrar nýtingar sem hann eigi rétt á og vernduð sé með ákvæðum samþykkta gerðarþola og laga nr. 113/1996.
Ekki sé því fallist á að gerðarbeiðandi hafi nálgast eða orðið sér úti um upplýsingar á óheiðarlegan hátt né að tilgangur hans hafi verið óheiðarlegur. Þvert á móti verði að telja að gerðarbeiðandi hafi einungis verið að nýta sér ótvíræðan rétt sinn skv. 8. gr. samþykktar fyrir sparisjóðinn og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, til að nálgast upplýsingar til að komast í samband við aðra stofnfjáreigendur.
Gerðarbeiðandi mótmælir þeim sjónarmiðum gerðarþola að hafna beri framgangi gerðarinnar á þeirri forsendu að hún sé tilgangslaus. Hann kveður þann lista sem hann hafi fengið aðgang að einungis hafa verið með nöfnum og heimilisföngum en ekki kennitölum og stofnfjáreign og hafi réttur hans til aðagangs því verið takmarkaður.
Af hálfu gerðarbeiðanda er bent á að fram til 1994 hafi skrá yfir alla stofnfjáreigendur gerðarþola verið birt með ársreikningum og því skjóti skökku við að hindra aðgang að skránni með umræddum hætti.
Gerðarbeiðandi telur málsmeðferð Persónuverndar máli þessu óviðkomandi. Gerðarbeiðandi ætli sér ekki að leggja út í neina vinnslu skrárinnar og því eigi ákvæði um vinnslu upplýsinga í lögum um persónuvernd ekki við um hann. Gerðarþoli sé vinnsluaðili skrárinnar. Ef gerðarbeiðandi komi til með að brjóta á einhvern hátt gegn lögum um persónuvernd beri hann ábyrgð á því. Gerðarþoli geti því ekki neitað gerðarbeiðanda um að afrita skrána með vísan til laga um persónuvernd.
Þar sem gerðarþoli hafi ekki veitt gerðarbeiðanda aðgang að skrá yfir stofnfjáreigendur til að fullnægja skyldu sinni, skv. 8. gr. samþykkta fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, sem afgreiddar hafi verið á aðalfundi 15. apríl 1994, með áorðnum breytingum, og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 sé krafist að slíkur aðgangur verði veittur með tilvísun í 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Af hálfu gerðarbeiðanda er kröfu gerðarþola um að málsskot fresti aðför mótmælt. Um sé að ræða undantekningarheimild þar sem meginreglan sé sú samkvæmt 2. mgr. 84. gr. aðfararlaga að málskot fresti ekki aðför. Gerðarbeiðandi eigi rétt á að njóta ótvíræðs réttar síns til aðgangs að skránni án frekari tafa.
Gerðarþoli telur óumdeilt að gerðarbeiðanda sé heimill aðgangur að skrá yfir stofnfjáreigendur í samræmi við 8. gr. samþykkta gerðarþola. Í því felist að gerðarbeiðanda sé heimilt að koma á skrifstofu gerðarþola og kynna sér skrána, sem hafi að geyma þær upplýsingar sem fram komi í 8. gr. samþykktanna og tilgreindar séu í kröfugerð gerðarbeiðanda.
Þegar af þessari ástæðu verði að hafna kröfu gerðarbeiðanda, enda sé hún tilhæfulaus. Ljóst sé að enginn ágreiningur sé um að gerðarbeiðandi hafi rétt til aðgangs að skránni, skv. ákvæðum 8. gr. samþykkta fyrir gerðarþola, og því hafi honum ekki verið með ólögmætum hætti aftrað frá því að neyta réttinda sinna, svo sem ákvæði 78. gr. laga nr. 90/1989 áskilji.
Gerðarþoli kveður beiðni gerðarbeiðanda staðfesta að honum hafi ekki verið meinaður aðgangur að hinni umdeildu skrá heldur hafi honum verið meinað um að fá umráð yfir eða afrit af skránni, sem hann geti haft með sér af skrifstofu gerðarþola, til eigin nota. Þannig krefjist gerðarbeiðandi þess að fá aðgang að skránni, en eigi við að honum verði afhent afrit af skránni. Krafa gerðarbeiðanda sé þannig fram sett að hún nái ekki tilgangi sínum og geti ekki leitt til þess að dómurinn skeri úr um það hvort gerðarbeiðanda sé heimilt að fá afrit af hinni umdeildu skrá.
Ágreiningur aðila lúti ekki að því hvort gerðarbeiðanda sé heimill aðgangur að hinni umdeildu skrá, heldur því hvernig beri að túlka ákvæði 8. gr. fyrrnefndra samþykkta, varðandi rétt til þess að taka með sér afrit af skránni af skrifstofu gerðarþola, þar sem hún skuli varðveitt. Úr slíkum ágreiningi verði ekki leyst eftir ákvæðum aðfararlaga um heimildir til aðfarar án undangengins dóms eða réttarsáttar.
Gerðarþoli byggir einnig á því að gerðarbeiðanda sé ekki tækt að krefjast með beinni aðfarargerð afrits af skrá yfir stofnfjáreigendur hjá gerðarþola án undangengins dóms þess efnis. Ákvæði 78. gr. laga nr. 90/1989 feli í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu að aðfarar verði ekki fram komið nema á grundvelli aðfararheimildar. Óumdeilt sé að gerðarbeiðandi byggi ekki kröfu sína á aðfararheimild. Ákvæði 78. gr. laga nr. 90/1989 veiti aðeins heimild til þess að framkvæma aðför samkvæmt 72. gr. eða 73. gr. laga nr. 90/1989, án þess að aðfararheimild liggi fyrir, enda sé öðrum skilyrðum greinarinnar uppfyllt. Ákvæði 72. gr. og 73. gr. laga nr. 90/19898 fjalli um útburðar- og innsetningargerðir, þ.e. um vörslu- og umráðasviptingu fasteignar eða annarra hluta sem gerðarbeiðandi sanni betri rétt sinn að. Gerðarbeiðandi hafi ekki haldið því fram að hann eigi réttindi sem leiði til þess að hann geti tekið umráð skrár yfir stofnfjáreigendur af gerðarþola með vörslutöku samkvæmt 73. gr. aðfararlaga.
Telji dómurinn að skilyrði séu til þess að að taka efnislega afstöðu til réttar sóknaraðila til þess að fá afrit af skrá yfir stofnfjáreigendur hjá gerðarþola, kveðst gerðarþoli byggja á því að gerðarbeiðandi eigi ekki rétt til þess að fá slíkt afrit.
Í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 sé kveðið á um að aðgangur að stofnfjáreigendaskrá sparisjóða skuli verða bundinn við stofnfjáreigendur. Nánari ákvæði um rétt stofnfjáreigenda til aðgangs að skránni hafi stofnfjáreigendur sjálfir sett í 8. gr. samþykkta fyrir gerðarþola. Í lokasetningu 8. gr. segi að skrá yfir stofnfjáreigendur skuli ætíð geymd í skrifstofu gerðarþola og að stofnfjáreigendur skuli hafa aðgang að henni þar. Samkvæmt ákvæðinu hafi gerðarþoli skyldu til að varðveita skrána á skrifstofu sinni og sjá til þess að aðrir en stofnfjáreigendur fái ekki aðgang að henni. Í þessari skyldu felist að gerðarþola sé óheimilt að afhenda skrána eða afrit af skránni til annarra aðila og óheimilt að samþykkja að eintak af skránni sé varðveitt annarsstaðar en á skrifstofu gerðarþola. Með þessu fyrirkomulagi hafi stofnfjáreigendur valið að hafa skrána lokaða gagnvart almenningi og takmarkað aðgengi annarra stofnfjáreigenda til að tryggja friðhelgi um fjárhagsmálefni sín. Aðgangur stofnfjáraðila að skránni tryggi að þeir geti staðreynt hver sé skráð stofnfjárhæð þeirra og veitt þeim tækifæri til þess að sjá hverjir aðrir séu stofnfjáraðilar. Þessi aðgangur sé alls ekki hugsaður í þeim tilgangi að stofnfjáreigandi geti safnað upplýsingum um stofnfjáreign annarra stofnfjáraðila enda slík söfnun upplýsinga háð samþykki Persónuverndar. Réttur stofnfjáreigenda til friðhelgi um fjárhagsmálefni sín væri freklega brotinn ef gerðarþoli afhenti hverjum stofnfjáraðila sem eftir því óskaði afrit af skránni og gæti gerðarþoli þá ekki tryggt að einungis stofnfjáraðilar hefðu aðgang að skránni, sem honum beri skylda til eftir 8. gr. samþykktanna.
Gerðarþoli telur að ef gerðarbeiðandi vilji breyta samþykktum sparisjóðsins verða hann að bera slíka ósk um breytingu á samþykktunum fram á fundi stofnfjáreigenda.
Gerðarþoli vísar til þess að samsvarandi reglur um aðgang hluthafa að hlutaskrá sé að finna í hlutafélagalögum, en við þann samanburð sé rétt að hafa í huga að stofnfjáreign í sparisjóði líkist fremur inneign á bankareikningi en hlutafjáreign.
Þá vísar gerðarþoli til þess að með lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hafi verið settar ítarlegri og strangari skilyrði um meðferð og vinnslu persónuupplýsinga en áður hafi verið talin gilda hérlendis. Hann telur að stofnfjáreigendaskráin innihaldi skipulagsbundið safn persónuupplýsinga og falli því undir 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000. Fyrir liggi í skjölum málsins að gerðarbeiðandi krefjist þess að fá afrit af stofnfjáreigendaskrá afhent í þeim tilgangi að vinna með hana. Gerðarbeiðandi uppfylli ekkert af skilyrðum 8. gr. laganna fyrir slíkri vinnslu og hvorki felist í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði né í samþykktum gerðarþola heimild til slíkrar vinnslu. Til þess að gerðarbeiðandi geti framkvæmt þá vinnslu með stofnfjáreigendaskrána sem hann sækist eftir þurfi hann áður að afla heimildar Persónuverndar, samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.
Þar sem gerðarbeiðandi teljist hvorki vera ábyrgðaraðili í skilningi 4. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000 né vinnsluaðili í skilningi 5. tl. sömu greinar hafi hann enga heimild til að hafa afrit af stofnfjáreigendaskrá undir höndum. Sú staðreynd að gerðarbeiðandi sé sjálfur á stofnfjáreigendaskránni veiti honum ekki heimild til þess að fá hana afhenta í þeim tilgangi að vinna hana sem ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili, hvað þá að afhenda hana samkeppnisaðila gerðarþola til vinnslu, eins og viðurkennt sé af gerðarbeiðanda og skýrt komi fram í gögnum málsins.
Gerðþoli telur að gerðarbeiðanda uppfylli ekki uppfylla neitt þeirra skilyrða sem kveðið sé á um í 11. og 12. gr. laga nr. 77/2000 né hafi hann sýnt fram á að hann gæti uppfyllt þau. Hann sé hvorki ábyrgðaraðili né hafi hann sýnt fram á að hann sé fær um að gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir eða innra eftirlit til að vernda persónuupplýsingar svo sem kveðið sé á um.
Gerðarþoli telur ljóst að þeir stofnfjáreigendur sem áhuga hafi á því að veita gerðarbeiðanda brautargengi, hafi vafalaust þegar sett sig í samband við hann og samverkamenn hans. Hinir sem ekki vilji leggja málinu lið og kjósi frið um einkalíf og eignarétt sinn, eigi rétt til þess að njóta þess og eigi kröfu á gerðarþola um að hann framfylgi skyldum sínum í samræmi við 8. gr. samþykkta sparisjóðsins.
Gerðarþoli kveðst hafa kært meðferð gerðarbeiðanda, samstarfsmanna hans og Búnaðarbankans hf., á þeim persónuupplýsingum sem þeir með óheimilum hætti hafi komist yfir til Persónuverndar með bréfi 12. júlí 2002. Gerðarþoli telji óheimilt að verða við beiðni gerðarbeiðanda um afhendingu á afriti af skrá um stofnfjáreigendur fyrr en Persónuvernd hafi tekið afstöðu til þess hvort ætluð notkun sé heimil og ef hún verði talin heimil, hvaða skilyrðum varsla og vinnsla gerðarbeiðanda á umræddum persónuupplýsingum skuli vera háð.
Gerðarþoli telur framangreind rök leiða til þess að óhjákvæmilegt sé að hafna beiðni gerðarbeiðanda, enda fráleitt að telja að réttur hans til að fá afrit af skrá yfir stofnfjáreigendur gerðarþola sé fyrir hendi eða svo skýr sem ákvæði 78. gr. laga nr. 90/1989 áskilji.
Niðurstaða
Gerðarbeiðandi styður kröfu sína um beina aðfararheimild við 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Í ákvæðinu eru sett skilyrði fyrir því að héraðsdómari heimili að skyldu verði fullnægt með aðfarargerð án þess þess að aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi fyrir. Þessi skilyrði eru að manni sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann telst eiga og getur fært sönnur að með þeim gögnum sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna. Þá er það skilyrði að aðfarargerðin varði skyldu sem um getur í 72. eða 73. gr. laganna.
Af hálfu gerðarbeiðanda er byggt á því að um krafan lúti að skyldu sem fullnægja mætti með aðför samkvæmt 73. gr. laganna ef aðfararheimild lægi fyrir. Í 73. gr. segir að ef aðfararheimild kveði á um skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð annars en þess sem 72. gr. tekur til, skuli sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með því að taka það með valdi úr umráðum gerðarþola og afhenda gerðarbeiðanda. Ákvæði 72. gr. er einkum talið taka til umráða yfir fasteignum en 73. gr. til umráða yfir öðru. Krafa um beina aðfarargerð þarf ekki að vera byggð á því að gerðarbeiðandi telji sig eiganda þess sem gerðin beinist að heldur getur krafan lotið að aðgangi að einhverju sem tilheyrir honum ekki.
Krafa gerðarbeiðanda, eins og hún er fram sett í aðfararbeiðni, lýtur að því að honum verði með dómsúrskurði veittur fullur og ótakmarkaður aðgangur að skrá yfir stofnfjárfesta Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.
Þessi krafa lýtur ekki að því að umrædd skrá verði tekin úr umráðum gerðarþola og afhent gerðarbeiðanda heldur að því að fullnægt verði þeim rétti sem óumdeilt er að hann á, samkvæmt 8. gr. samþykkta sparisjóðsins og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka, til þess að fá aðgang að skránni.
Með vísan til dómvenju um túlkun á því hvaða skyldum verði fullnægt með beinni aðfarargerð þykja ákvæði 73.og 78. gr. aðfararlaga heimila að skyldu eins og þeirri sem um er fjallað í máli þessu verði fullnægt með aðfarargerð án undangengins dóms ef réttur gerðarbeiðanda telst nægilega ljós.
Í 78. gr. aðfararlaga er að finna þau skilyrði fyrir beitingu þess réttarfarshagræðis sem ákvæðið veitir að réttindi gerðarbeiðanda verði að vera svo ljós að sönnur verði færðar fyrir réttmæti þeirra með þeim gögnum sem afla má samkvæmt 1. mgr. 83. gr. Dómari getur því ekki vikið sér undan að skera úr ágreiningi um réttindi sem krafa um beina aðfararheimild er reist á þótt í málinu reyni á túlkun á réttarheimildum eða samningum sem byggt er á, svo framarlega sem úr ágreiningnum verður leyst með réttum hætti án þess leiða þurfi vitni, afla mats- eða skoðunargerðar eða leggja þurfi út í aðra tímafreka sönnunarfærslu.
Fyrir liggur að gerðarbeiðandi hefur fengið aðgang að skrá yfir stofnfjárfesta sparisjóðsins en það eintak hafði ekki að geyma allar þær upplýsingar sem kveðið er á um í 8. gr. samþykktanna þar sem kennitölur og upplýsingar um stofnfjáreign hvers og eins vantaði. Í bréfi gerðarbeiðanda til gerðarþola dagsettu 2. júlí 2002 var vísað til 1. mgr. 8. gr. samþykktanna og farið fram á að gerðarbeiðanda yrði veittur fullur og óskoraður aðgangur að skránni fyrir tiltekið tímamark en ekki skilgreint sérstaklega hvað fælist í kröfu um slíkan aðgang. Bréf formanns stjórnar gerðarþola til gerðarbeiðanda frá 4. júlí 2001 verður ekki skilið á annan veg en þann að öllum frekari aðgangi gerðarbeiðanda að skránni sé hafnað.
Samkvæmt því liggur fyrir að gerðarþoli hafði neitað gerðarbeiðanda um þann aðgang að skránni sem hann átti rétt á samkvæmt 8. gr. samþykkta gerðarþola og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 og hafði hann því fullt tilefni til að setja fram kröfu um að verða veittur slíkur aðgangur með beinni aðfarargerð.
Í greinargerð gerðarþola í máli þessu er framangreindur réttur gerðarbeiðanda viðurkenndur en honum hefur þó ekki verið sérstaklega boðið að sjá skrána. Fyrir liggur að gerðarbeiðandi telur viðurkenningu gerðarþola ekki fullnægjandi þar sem ágreiningur er með aðilum um hvað telst fullur og ótakmarkaður aðgangur að skránni.
Gerðarbeiðandi telur að gerðarþoli fullnægi ekki framangreindum ákvæðum um aðgang að skránni nema með því að afhenda honum afrit, ljósrit, rafrænt afrit eða að gera gerðarbeiðanda mögulegt að afrita hana til þeirrar nýtingar sem hann eigi rétt á. Í því sambandi hefur gerðarbeiðandi nefnt að hann fái að skrifa upp upplýsingar úr skránni en fyrir liggur að gerðarbeiðanda hefur verið neitað um það. Ágreiningur málsaðila lýtur því einkum að heimild gerðarbeiðanda til að afla sér afrits af skránni.
Eins og fyrr segir lýtur krafa gerðarbeiðanda að því að honum verði veittur fullur og ótakmarkaður aðgangur að skránni og tilgreint hvaða upplýsingar þurfi að vera í henni en ekki nánar tilgreint með hvaða hætti eigi að veita aðgengið. Ekki er þar minnst á töku afrits en gerðarbeiðandi telur það felast í kröfugerðinni.
Dómari getur ekki heimilað að öðrum skyldum verði fullnægt með beinni aðfarargerð en greindar eru í kröfu gerðarbeiðanda eins og hún verður skilin með venjulegri orðskýringu. Verður þar alfarið að byggja á orðalagi kröfunnar eins og það verður skýrt með almennum og eðlilegum hætti en ekki túlkun gerðarbeiðanda á henni. Dómari hefur þó vissar heimildir til að oðra niðustöðu sína með öðrum hætti en fram kemur í kröfugerðum málsaðila og laga úrskurðarorð að málatilbúnaði aðila án þess þó að fara út fyrir kröfugerð.
Ljóst þykir að ekki verður dregin af 8. gr. samþykkta gerðarþola sú ályktun að honum sé skylt að eiga í fórum sér afrit af þeirri skrá sem honum er skylt að halda og veita aðgang að. Ekki eru skilyrði samkvæmt 78. gr, sbr. 73. gr. aðfararlaga, til að fallast á innsetningu í afrit af skrá sem ekki liggur fyrir að hafi verið útbúið eða að skylda gerðarþola til að útbúa slíkt afrit. Ekki verður því fallist á að gerðarbeiðanda verði á grundvelli kröfu sinnar í aðfararmáli þessu veitt heimild til að fullnægja meintum rétti sínum til að fá afrit af skránni úr hendi gerðarþola með aðför án dóms.
Fyrir liggur að gerðarþoli hefur meinað gerðarbeiðanda að skrifa niður upplýsingar úr skránni. Ljóst þykir að minni manna er misgott og óvarlegt að treysta því. Sérstaklega á þetta við þegar um mikið magn upplýsinga er að ræða eins og í þessu tilviki þar sem um er að ræða skrá með um 1100 nöfnum. Það hefur fylgt manninum frá því að hann náði tökum á ritlistinni að skrá upplýsingar til þess að treysta rétta varðveislu þeirra. Telja verður að hver sem tilgangurinn með ákvæði 8. gr. samþykkta gerðarþola er verði orðalagið aðgangur með engu móti túlkað svo þröngt að það heimili stofnfjáreigendum ekki að rita hjá sér með einhverju skriffæri eða nútímalegri aðferðum þær upplýsingar sem skráin hefur að geyma. Sá þröngi skilningur sem gerðarþoli heldur fram styðst ekki við orðalag ákvæðisins og hefði þurft að taka skýrlega fram í ákvæðinu ef aðgangur átti að vera takmarkaður við að afla sér upplýsinga um eigið stofnfé eða einungis nöfn annarra stofnfjáreigenda. Þá verður með engu móti séð að gerðarþoli geti fyrirfram takmarkað aðgang að skránni vegna þess að hann er ekki sáttur við hvernig stofnfjáreigandi kveðst ætla að nýta upplýsingarnar. Ekki verður annað séð en að sá tilgangur sem gerðarbeiðandi hefur tilgreint teljist lögmætur og þótt hann hafi náð markmiðum sínum að hluta kemur það ekki í veg fyrir að fallast megi á kröfu hans.
Gerðarþoli heldur því fram að hann geti synjað gerðarbeiðanda um aðgang að skránni þar sem hann hyggist nýta upplýsingarnar til þess að gera afrit af skrá yfir stofnfjáreigendur en í samþykktunum felist að aðeins megi vera til eitt eintak af skránni. Komi til þess að gerðarbeiðandi riti skrá yfir stofnfjáreigendur er ljóst að um óopinbera uppskrift af skránni verður að ræða miðað við tiltekinn tíma. Sú uppskrift hefur því allt aðra stöðu en sú skrá sem gerðarþola ber að halda en hún getur væntanlega breyst frá degi til dags og þjónar ein þeim tilgangi sem samþykktir gerðarþola og ákvæði laga nr. 113/1996 áskilja. Sú ályktun verður því ekki dregin af samþykktunum að óheimilt sé að stofnfjáreigandi skrifi skrána upp og varðveiti það eintak.
Gerðarþoli telur að hafna verði beiðninni vegna þess að gerðarbeiðandi geti ekki vegna ákvæða laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 afritað skrá yfir stofnfjáreigendur. Ljóst er að um er að ræða skrá sem samþykktir gerðarþola og lög um viðskiptabanka nr. 113/1996 mæla fyrir um að sé haldin og stofnfjáreigendum er heimilaður aðgangur að. Af ákvæðum í samþykktum sparisjóðsins um réttindi tengd stofnfjáreign verður glögglega ráðið að stofnfjáreigandi hefur lögvarða hagsmuni af því að vita og skrá hjá sér hverjir aðrir eiga stofnfé í sparisjóðnum. Ekki verður fallist á með gerðarþola að lög um persónuvernd komi í veg fyrir þá túlkun á orðalaginu aðgengi sem að framan greinir. Gerðarbeiðandi þarf hins vegar að hlíta ákvæðum laga nr. 77/2000 ef hann nýtir upplýsingar sem hann skráir niður til vinnslu persónuupplýsinga.
Þegar vegnir eru saman hagsmunir gerðarbeiðanda af því að skrá hjá sér upplýsingar um aðra eigendur stofnfjár í sparisjóðnum og hagsmunir þeirra af því að aðrir fái ekki upplýsingar um fjárhagsmálefni þeirra verður að líta til þess að stofnfjáreign veitir mikilsverðan rétt til áhrifa á stjórn sparisjóðsins og líkist stofnfé þeirra meira hlutafé en inneign að þessu leyti. Þykja stofnfjáreigendur því verða að þola að ákvæði samþykktanna um aðgang stofnfjáreigenda verði skýrð með þeim almenna hætti að í því felist heimild annarra stofnfjáreigenda til að rita hjá sér upplýsingar úr skránni. Verði þær upplýsingar hins vegar misnotaðar að þeirra mati eiga þeir þess kost að leita réttar síns vegna þess.
Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að orðið aðgangur, í skilningi 8. gr. samþykkta gerðarþola verður ekki skýrt með öðrum hætti en þeim að það feli í sér að stofnfjáreigandi fái að rita hjá sér upplýsingar úr skránni án takmarkana.
Þar sem gerðarþoli hefur aðeins heimilað gerðarþola aðgang að skrá um stofnfjárfesta með þeirri takmörkun að hann megi ekki rita hjá sér upplýsingar úr skránni og sú takmörkun þykir ekki eiga stoð í samþykktum gerðarþola, lögum nr. 113/1996, eða verða réttlætt með öðrum hætti, þykir rétt að fallast á kröfu gerðarbeiðanda með þeim hætti að honum verði veitt heimild til að láta fullnægja með aðför skyldu gerðarþola til að veita honum fullan og ótakmarkaðan aðgang að skrá sem tilgreini nöfn stofnfjáreigenda, heimilisfang og kennitölu, ásamt stofnfjáreign hvers stofnfjáreiganda og að sá aðgangur feli í sér heimild til að skrá niður upplýsingar úr skránni.
Með hliðsjón af málatilbúnaði málsaðila og atvikum öllum þykir rétt að fallast á kröfu gerðarþola um að kæra til Hæstaréttar fresti aðfarargerð á hendur honum.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Af hálfu gerðarbeiðanda flutti mál þetta Árni Harðarson hdl. en Jóhannes Bjarni Björnsson hdl. af hálfu gerðarþola.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari.
Úrskurðarorð
Gerðarbeiðanda, Oddi Ingimarssyni, er heimil bein aðfarargerð til að fá hjá gerðarþola, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, fullan og ótakmarkaðan aðgang að skrá yfir stofnfjáreigendur gerðarþola, sem tilgreini nafn stofnfjáreiganda, heimilisfang og kennitölu, ásamt stofnfjáreign hvers stofnfjáreiganda, með þeim hætti að gerðarbeiðandi fái að rita niður upplýsingar úr skránni.
Kæra til Hæstaréttar frestar aðfarargerð.
Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 100.000 krónur í málskostnað.