Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Miðvikudaginn 12. janúar 2005. |
|
Nr. 5/2005. |
Tryggingastofnun ríkisins(Karl Axelsson hrl.) gegn Óskari Geir Péturssyni (enginn) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
T krafðist þess að Ó yrði gert að leggja fram tryggingu til greiðslu málskostnaðar í máli sem Ó hafði höfðað á hendur T. Til stuðnings kröfu sinni lagði T meðal annars fram endurrit af árangurslausri fjárnámsgerð hjá Ó frá í september 2003, þar sem Ó hafði lýst yfir eignaleysi, auk upplýsinga um tvær aðrar vanskilakröfur. Þá staðhæfði T að Ó væri jafnframt eignalaus nú og ekki þinglýstur eigandi þess húsnæðis sem hann byggi í. Hafði Ó ekki andmælt þessum staðhæfingum. Var fallist á kröfu T um málskostnaðartryggingu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð allt að 500.000 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum höfðaði varnaraðili málið 17. nóvember 2004 og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatrygginga 15. janúar 2003 í máli sínu nr. 207/2002 á hendur sóknaraðila. Við þingfestingu málsins í héraði 25. nóvember 2004 krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar á grundvelli b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Því mótmælti varnaraðili. Þegar héraðsdómari tók þetta ágreiningsatriði fyrir í þinghaldi 2. desember 2004 ítrekaði sóknaraðili kröfu sína um málskostnaðartryggingu, sem yrði að fjárhæð allt að 500.000 krónur, auk þess að krefjast málskostnaðar í þessum þætti málsins. Til stuðnings því að líkur væru fyrir að varnaraðili væri ófær um að greiða málskostnað í málinu lagði sóknaraðili fram dóm Hæstaréttar 3. desember 2003 í máli nr. 438/2003, en þar kærði varnaraðili úrskurð héraðsdóms um frávísun fyrra máls hans gegn sóknaraðila um sama sakarefni frá dómi. Var sá úrskurður staðfestur með dóminum og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað. Lagði sóknaraðili einnig fram gögn um tilraunir sínar til að innheimta þann málskostnað, en þær hafi ekki borið árangur þar sem ekki hafi tekist að boða varnaraðila til fjárnáms fyrir kröfunni. Enn fremur lagði sóknaraðili fram þinglýsingarvottorð vegna húss, þar sem varnaraðili er talinn til heimilis, svo og útskrift úr svonefndri vanskilaskrá, en í henni var getið um árangurslaust fjárnám, sem gert hafi verið hjá varnaraðila 24. september 2003, og þrjár vanskilakröfur á hendur honum frá árunum 2001, 2003 og 2004. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila um málskostnaðartryggingu sem fyrr segir hafnað, en fyrir héraðsdómi voru ekki lögð fram frekari gögn en áður er getið um efnahag varnaraðila.
Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili lagt fram endurrit af áðurnefndri fjárnámsgerð hjá varnaraðila, sem lokið var án árangurs 24. september 2003. Af endurritinu verður ráðið að fjárnáms hafi þar verið krafist fyrir einni af þeim þremur vanskilakröfum, sem getið er um í fyrrgreindri útskrift úr vanskilaskrá, en heildarfjárhæð hennar var sögð nema 1.295.022 krónum. Mætti varnaraðili sjálfur til gerðarinnar og kvaðst vera eignalaus. Í kæru staðhæfir sóknaraðili að varnaraðili sé jafnframt eignalaus nú, en það sé staðfest í málinu að hann hafi engar eignir talið fram til skatts síðastliðin þrjú ár og að hann sé ekki þinglýstur eigandi þess húsnæðis, sem hann búi í. Í málinu hefur varnaraðili ekki andmælt þessum staðhæfingum. Að þessu öllu virtu og með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki komist hjá því að taka til greina kröfu sóknaraðila um málskostnaðartryggingu. Að teknu tilliti til gagna málsins er fjárhæð hennar hæfilega ákveðin 350.000 krónur. Ber varnaraðila að setja hana á þann hátt og innan þess frests, sem nánar greinir í dómsorði.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Varnaraðila, Óskari Geir Péturssyni, ber að setja innan þriggja vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu í formi peningagreiðslu, bankareiknings eða bankaábyrgðar að fjárhæð 350.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn sóknaraðila, Tryggingastofnun ríkisins.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2004.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17. nóvember sl. af Óskari Geir Péturssyni, kt. 010952-4099, Bakkagötu 3, Kópaskeri, á hendur Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík. Við þingfestingu málsins krafðist stefndi þess að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu og var sú krafa tekin til úrskurðar 2. þessa mánaðar.
Málið höfðar stefnandi til að fá felldan úr gildi úrskurð Úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 15. janúar 2003 í máli hans gegn stefnda. Stefnandi varð fyrir slysi við vinnu sína sem stýrimaður um borð í fiskiskipi 7. janúar 2000. Hefur varanleg örorka hans vegna slyssins verið metin 5% af læknum Tryggingastofnunar og var sú niðurstaða staðfest með umræddum úrskurði nefndarinnar. Telur stefnandi að örorka sín sé í raun mun meiri.
Stefnandi hefur tvívegis áður höfðað mál til að fá hnekkt þessum úrskurði. Fyrsta málinu var vísað frá dómi úrskurði héraðsdóms 27. október 2003, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. desember sama ár. Annað málið var fellt niður 12. júlí 2004, er útivist varð af hálfu beggja aðila.
Stefndi styður kröfu sína um málskostnaðartryggingu við b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Hann hefur bent á að stefnandi hafi verið dæmdur til að greiða sér 150.000 krónur í málskostnað með ofangreindum dómi Hæstaréttar 3. desember 2003. Hann hafi ekki greitt. Stefnandi hefur lagt fram afrit af bréfum sínum til lögmanns stefnanda, stefnanda sjálfs og fjárnámsbeiðni. Fram kemur að stefnandi sinnti ekki boðunum um að mæta til fjárnámsgerðar og lauk svo að stefndi afturkallaði beiðni sína. Þá hefur hann lagt fram þinglýsingarvottorð er hann segir sýna að stefnandi eigi ekki fasteign þá er hann býr á. Loks hefur stefndi lagt fram yfirlit úr skrám Lánstrausts hf. þar sem kemur fram að skráð er árangurslaust fjárnám og að dagsetning kröfu sé 24. september 2003. Embætti er sagt vera Sýslumaðurinn í Hafnarfirði. Þá hefur stefndi bent á þau skattframtöl er stefnandi hefur lagt fram og segir þau sýna að hann sé og hafi verið eignalaus síðustu ár.
Stefnandi andmælir því ekki að hann sé eignalaus. Hann vísar til réttar síns til að fá úrlausn dómstóla um réttindi sín samkvæmt 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Forsendur og niðurstaða.
Óumdeilt er að stefnandi er ekki auðugur. Af gögnum þeim sem hann hefur sjálfur lagt fram má ráða að hann á lítið eða ekkert af veraldlegum verðmætum. Það eitt leiðir þó ekki til þess að honum verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Sama á við þó stefndi eigi gjaldfallna kröfu á hendur honum.
Lagt hefur verið fram yfirlit frá Lánstrausti hf. eins og áður greinir. Skilja verður yfirlitið svo að þann 24. september 2003 hafi verið gert fjárnám hjá stefnanda, sem hafi lokið sem árangurslausu. Endurrit þessarar gerðar hefur ekki verið lagt fram og því er ekki upplýst hvort stefnandi hafi sjálfur verið viðstaddur gerðina, eða einhver fyrir hans hönd og þá hver. Þannig er ekki ljóst hvort þessi gerð gefur einhverja mynd af fjárhagsstöðu stefnanda og greiðslugetu.
Samkvæmt ákvæði b-liðar 1. mgr. 133. gr. skal stefnanda gert að leggja fram málskostnaðartryggingu ef leiddar hafa verið líkur að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Skýra ber ákvæði þetta með hliðsjón af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi máls þessa er félítill. Eins og hér stendur á hafa þó ekki verið leiddar svo sterkar líkur að ógjaldfærni hans að þessu leyti, að honum verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Verður því að hafna kröfu stefnda.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, um að stefnanda, Óskari Geir Péturssyni, verði gert að setja málskostnaðartryggingu.