Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-106

Einar Dagbjartsson (Björn Þorri Viktorsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ásgeir Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lánssamningur
  • Ógilding samnings
  • Ábyrgð
  • Málsástæða
  • Hæfi dómara
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Með beiðni 1. apríl 2020 leitar Einar Dagbjartsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. sama mánaðar í málinu nr. 258/2019: Landsbankinn hf. gegn Einari Dagbjartssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Málið höfðaði gagnaðili til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi aðila 27. júní 2008 að fjárhæð 45.053,16 sterlingspund. Lánið hafði leyfisbeiðandi tekið vegna uppgjörs á sjálfskuldarábyrgð sem hann hafði gengist undir á lánssamningi 27. júlí 2005 milli Hydra ehf., sem síðar fékk heitið Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf., og Landsbanka Íslands hf., að jafnvirði 80.000.000 króna í sterlingspundum. Það lán var samþykkt af 25 sjálfskuldarábyrgðaraðilum og var ábyrgð þeirra hlutfallsleg. Hlutfallsleg ábyrgð hvers og eins þeirra var í samræmi við hlutafjáraukningu sem þeir voru skráðir fyrir í Hydra ehf. á þessum tíma og nam ábyrgð leyfisbeiðanda 44.911 sterlingspundum. Kröfum bankans samkvæmt þeim samningi var síðar ráðstafað til gagnaðila með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 og lýsti gagnaðili kröfu í búið vegna hins fyrri lánssamnings. Eftir að kröfulýsingarfresti lauk lækkaði gagnaðili upphaflega kröfu sína í búið þar sem flestir ábyrgðaraðilar höfðu gert upp ábyrgðir sínar þar með talinn leyfisbeiðandi. Með því lækkaði úthlutun til gagnaðila úr þrotabúinu. Í málinu er meðal annars deilt um hvort upphaflega lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, sbr. 13 og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og hvort gagnaðili hafi valdið leyfisbeiðanda tjóni með því að lækka kröfu sína í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City S.A. ehf.

Í héraðsdómi var fallist á með leyfisbeiðanda að gagnaðili hefði ekki sýnt fram á að hann ætti lögvarða kröfu á hendur leyfisbeiðanda og að víkja ætti síðari lánssamningnum til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var talið að framangreind lækkun gagnaðila á kröfulýsingu sinni hefði verið andstæð því sem til var ætlast samkvæmt 103. gr. laga nr. 21/1991 og hún gerð án samráðs við leyfisbeiðanda. Gagnaðili hefði því ekki gætt að rétti sínum í samræmi við lög við skipti á þrotabúinu og til tjóns fyrir leyfisbeiðanda. Því til viðbótar taldi héraðsdómur að gagnaðili hefði ekki fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að krafa hans á hendur leyfisbeiðanda hefði ekki þegar verið greidd.

Landsréttur tók hins vegar kröfu gagnaðila til greina. Vísaði rétturinn til dómafordæma Hæstaréttar og taldi að hið upphaflega lán hefði verið lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum. Auk þess lægi fyrir að leyfisbeiðandi hefði gengist í ábyrgð að tiltekinni fjárhæð og í sterlingspundum og verið skuldbundinn gagnvart gagnaðila samkvæmt því. Þá vísaði Landsréttur til þess að 103. gr. laga nr. 21/1991 tæki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar og yrði því ekki beitt um skipta ábyrgð. Með vísan til þessa var talið að engin efni væru til að fallast á að víkja bæri samningnum til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936. Þá taldi dómurinn að gögn málsins bæru með sér að fyrir hendi væri skuld samkvæmt lánssamningnum sem ekki hefði verið greidd og væri leyfisbeiðandi því greiðsluskyldur.

Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan bæði að formi til og efni. Tveir þeirra dómara sem dæmdu málið í Landsrétti hafi verið vanhæfir og því sé tilefni til að ómerkja dóminn og vísa málinu aftur til löglegrar meðferðar. Vísar leyfisbeiðandi til þess að Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari hafi verið vanhæfur á grundvelli b. og g. liða 5. gr. laga nr. 91/1991 til að dæma málið í Landsrétti þar sem hann hafi áður ítrekað gætt réttar gagnaðila sem lögmaður varðandi sama sakarefni. Hann hafi jafnframt verið ráðgjafi gagnaðila í gengistryggingarmál á árunum 2011 til 2017. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að Hervör Þorvaldsdóttir landsréttardómari hafi verið vanhæf á grundvelli g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 til að dæma málið í Landsrétti þar sem hún hafi áður dæmt sem héraðsdómari í málum sem vörðuðu túlkun á sama lánssamningi og tekist er á um í þessu máli. Hafi því sami dómari dæmt um sama lánssamning á tveimur dómsstigum. Leyfisbeiðandi telur einnig að dómur Landsréttar uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings fyrir niðurstöðu dóms um sönnunar- og lagatriði, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sem leiði einnig til þess að ómerkja beri dóminn. Leyfisbeiðandi telur og að dómur Landsréttar sé rangur að efni til og vísar þá meðal annars til þess að ekki hafi farið fram heildarmat á atvikum öllum og lánssamningnum í heild til að meta hvort hinn fyrri samningur hefði verið með ólögmætu gengistryggingarákvæði eins og beri að gera samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar. Einnig vísar hann til forsendna héraðsdóms um það hvernig rétt sé að túlka 103. gr. laga nr. 21/1991. Málið hafi verulegt almennt gildi þar sem það lúti að sjónarmiðum varðandi rétt aðila til að fá úrlausn um réttindi og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þá hafi málið einnig verulegt almennt gildi um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991 og um hvaða reglur gildi þegar ábyrgð er að tiltekinni fjárhæð í erlendri mynt á íslensku láni með ólögmætu gengistryggingarákvæði. Loks telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína þar sem um verulega fjárhæð sé að ræða fyrir einstakling.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.