Hæstiréttur íslands
Mál nr. 150/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 15. mars 2007. |
|
Nr. 150/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. Snorrason saksóknari) |
|
|
gegn |
|
|
X(Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. Farbann.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. eða c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hins vegar var honum gert að sæta farbanni samkvæmt 110. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. mars 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að beitt verði farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að því frágengnu krefst hann að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var varnaraðili, sem er litháískur ríkisborgari, handtekinn ásamt öðrum manni er þeir reyndu að selja þrjú armbandsúr, sem grunur leikur á að hafi verið stolið úr verslun í Reykjavík. Fallist er á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Fyrir liggur að hann hafi komið til hingað til lands tæpri viku áður en hann var handtekinn og hefur hann takmörkuð tengsl við landið. Ekki þykir nægjanlega fram komið að skilyrðum b. eða c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi en rétt er að varnaraðila verði bönnuð brottför af landinu samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, X, er bönnuð brottför frá Íslandi allt til föstudagsins 30. mars 2007, kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2007
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X, litháskur ríkisborgari, fd. 6. janúar 1979, til heimilis í Litháen, sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 3. apríl 2007, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í gær hafi borist tilkynning frá verslun Kornelíusar, Bankastræti 6, Reykjavík, vegna tveggja útlendinga sem væru að reyna að selja úr sem talið var að væri þýfi. Þegar lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi þeim verið vísað á kærða og annan mann sem hafi verið með honum. Tilkynnandi hafi greint frá því að kærði og samferðamaður hans, Y, hefðu komið skömmu áður inn í verslun hans að Bankastræti 12 og boðið honum armbandsúr til sölu. Hafi honum þótt mennirnir grunsamlegir og hafi úrin verið sömu tegundar og hann hefði áður fengið upplýsingar um að hefði verið stolið úr versluninni MEBU í Kringlunni. Hafi tilkynnandi ákveðið að fylgja mönnunum eftir þar sem þeir hafi farið inn í verslun Kornelíusar þar skammt frá en þar hafi hann tekið úrin af mönnunum. Eigandi verslunar Kornelíusar greindi lögreglumönnum frá því að mennirnir hefðu komið inn í verslunina og boðið honum armbandsúr til kaups. Lagt hafi verið hald á armbandsúrin en þau hafi verið þrjú talsins.
Kærði og Y hafi verið handteknir og færðir á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Vegna tungumálaörðugleika hafi gengið illa að tala við kærða og hafi hann verið ósamvinnuþýður og hafi komið til átaka við kærða á lögreglustöðinni. Við leit á kærða hafi fundist gasvopn og hnífur. Kærði hafi neitað að gefa upp persónuupplýsingar en þær upplýsingar hafi fengist síðar sama dag við nánari athugun á dvalarstað kærða, sbr. upplýsingaskýrslu Hákons B. Sigurjónssonar lögreglufulltrúa, dags. í dag.
Að sögn fyrirsvarsmanns MEBU, A, hafi úrunum verið stolið í versluninni í gær og sé verðmæti þeirra kr. 262.780, sbr. nánar framburðarskýrslu A frá því í dag.
Í gærkvöldi hafi borist upplýsingar frá Interpol um að kærði hefði á árunum 1993 2001 hlotið fjóra refsidóma. Árið 1993 hafi kærði verið dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir rán og 1996 í 4 ára fangelsi fyrir rán og eignaspjöll. Árið 2001 hafi kærði verið dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir rán og sama ár í 3 ára fangelsi fyrir þjófnað.
Skv. upplýsingum frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi kærði komið til landsins 7. þ.m.
Kærði hafi verið yfirheyrður í dag en neiti sök. Við yfirheyrslu segist kærði hafa tekið við armbandsúrunum í gær frá rússneskumælandi manni sem hafi beðið hann og Y um að selja úrin fyrir sig og ekkert hefði verið talað um að úrin væru þýfi. Sé nánar vísað til framburðarskýrslu kærða. Einnig sé vísað nánar til framburðarskýrslu Y.
Að mati lögreglu þyki vera fyrir hendi rökstuddur grunur um meint auðgunarbrot kærða. Unnið sé að rannsókn málsins en við það sé miðað að rannsókninni verði flýtt svo unnt verði að taka ákvörðun um saksókn sem fyrst, sbr. 111. og 112. gr. laga nr. 19/1991. Kærði sé erlendur ríkisborgari og með takmörkuð tengsl við landið að öðru leyti en því að hann dveljist á sama gistihúsi og bróðir hans, B, sem dvalist hafi hér á landi vegna atvinnu síðastliðinn mánuð. Eins og að framan greini sé kærði nýkominn til landsins, hann sé án atvinnu og með dvalarstað á gistiheimili. Með hliðsjón af sakaferli kærða í Litháen, fyrirliggjandi meintu auðgunarbroti kærða svo skömmu eftir komuna til landsins sem og að kærði var vopnaður þegar hann hafi handtekinn þyki benda til þess að dvöl hans hér á landi kunni að tengjast fyrirhuguðum afbrotum hér á landi. Að mati lögreglu þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir frekari brot og til að tryggja nærveru kærða hér á landi þar til máli hans sé lokið.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og b- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Fyrir dóminn hafa verið lögð gögn er styðja þá fullyrðingu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, að rökstuddur grunur sé um meint brot kærða en hann hefur ekki gefið líklegar skýringar á atvikum eða vopnaburði sínum. Hann kannaðist hins vegar við að hafa haft þýfið undir höndum. Þá hefur ákærði aðeins dvalist hér á landi í tæpa viku og fyrir liggur að hann á að baki afbrotaferil í heimalandi sínu.
Telja verður að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn stendur og ástæða þykir að ætla að hann muni halda brotum sínum áfram gangi hann laus. Með vísan til þess og með því að fullnægt er skilyrðum b.- og c.- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er krafa lögreglustjórans tekin til greina. Þegar litið er til alvarleika afbrots kærða verður gæsluvarðhaldinu hins vegar markaður skemmri tími eins og í úrskurðarorði greinir.
Sigríður Hjaltested settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, litháskur ríkisborgari, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. mars 2007, kl. 16:00.