Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-66
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Barnaverndarlagabrot
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 13. apríl 2023 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. mars 2023 í máli nr. 348/2022: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir líkamsárás og barnaverndarlagabrot með því að hafa ráðist að þáverandi kærustu sinni innandyra í sumarhúsi sínu, hrint henni þannig að hún féll á gólf og að hafa tekið hana hálstaki þar sem hún lá á gólfinu með þeim afleiðingum að hún hlaut yfirborðsáverka á hálsi og mar á brjóstkassa, öxl, upphandlegg, mjóbaki og mjaðmagrind. Þá var hann sakaður um að hafa viðhaft framangreinda háttsemi að viðstöddum syni hennar sem hafi vaknað af nætursvefni og orðið óttasleginn er hann varð vitni að því þegar ákærði tók móður hans hálstaki en í þeirri háttsemi ákærða hafi falist ógnun, yfirgangur og ruddalegt athæfi gagnvart honum. Töldust brot hans varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda samkvæmt ákæru og um refsingu sem ákveðin var fangelsi í 45 daga, skilorðsbundið til tveggja ára. Landsréttur taldi sannað að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Landsréttur vísaði til þess að lýsing leyfisbeiðanda á atvikum væri í samræmi við framburð brotaþola en hún hefði einnig borið um aðra háttsemi sem ekki væri ákært fyrir í málinu. Vottorð læknis styddi jafnframt þá lýsingu fram kæmi í ákæru. Þá var talið að háttsemi leyfisbeiðanda hefði falið í sér ógnun, yfirgang og ruddalegt athæfi gagnvart syni brotaþola og það brot hans heimfært til ákvæða barnaverndarlaga í samræmi við ákæru.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þannig hafi Landsréttur ekki metið sönnunargögn með réttum hætti og lagt til grundvallar sakfellingu læknisvottorð sem ekki hefði komið heim og saman við efni ákæru. Þá hafi framburður brotaþola verið sagður trúverðugur þrátt fyrir að ákæruvaldið hefði ekki lagt hann til grundvallar við gerð ákæru.
6. Að virtum gögnum málsins eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.