Hæstiréttur íslands
Mál nr. 144/2000
Lykilorð
- Skuldabréf
- Sjálfskuldarábyrgð
- Samningalög
- Ógildingarkrafa
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2000. |
|
Nr. 144/2000. |
Sigríður Kolbrún Guðmundsdóttir (Sigurður Eiríksson hdl.) gegn Sparisjóði Höfðhverfinga (Ólafur Birgir Árnason hrl.) |
Skuldabréf. Sjálfskuldarábyrgð. Samningalög. Ógildingarkrafa.
B fékk víxillán hjá SH árið 1993. Bar víxillinn nafn B sem samþykkjanda og nafn S sem útgefanda og framseljanda. Sambúðarmaður S ritaði nafn sitt á bakhlið víxilsins. Vanskil urðu og var lánið framlengt með nýjum víxli, sem bar sams konar nafnritun og sá fyrri. Enn urðu vanskil og var láninu komið í skil með útgáfu skuldabréfs, sem tryggt var með sjálfskuldarábyrgð S og sambúðarmanns hennar. Vanskil urðu á greiðslu bréfsins, en S greiddi tiltekna fjárhæð upp í skuldina og féll SH frá frekari kröfum á hendur S vegna skuldarinnar. Í kjölfarið höfðaði S, sem hafði lengi átt við veikindi að stríða, mál á hendur SH og krafðist ógildingar á undirritun sinni á skuldabréfið. Bar hún fyrir sig 31.gr., 33.gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekki var talið, þrátt fyrir veikindi S, að hún hefði ekki gert sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð, sem hún tókst á herðar með undirritun sinni. Þá þótti aðdragandi lánveitingarinnar ekki þess eðlis að unnt væri að fallast á að undirritunin væri ógild. Var kröfu S um ógildingu hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson og Gunnlaugur Claessen og Sigurður Líndal prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2000. Krefst hún þess að ógilt verði með dómi undirritun hennar um sjálfskuldarábyrgð á skuldabréf, útgefið í maí 1995 að fjárhæð 1.600.000 krónur, sem greitt skyldi með 96 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 15. júní 1995. Hún krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Svo sem rakið er í héraðsdómi á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til þess að 4. júní 1993 samþykkti stefndi að veita Baldvin Arngrímssyni víxillán að fjárhæð 1.030.000 krónur. Af gögnum málsins verður ráðið að það hafi verið innt af hendi 7. sama mánaðar. Vanskil urðu og var lánið framlengt með nýjum víxli 19. ágúst sama árs. Ber sá víxill nafnritun Baldvins sem samþykkjanda og áfrýjanda sem útgefanda og framseljanda, en sambúðarmaður áfrýjanda, Anton Antonsson, ritaði nafn sitt á bakhlið víxilsins. Er óumdeilt að nafnritunum á fyrri víxlinum var hagað með sama hætti. Vanskil urðu einnig á greiðslu þessa víxils og af hálfu stefnda er komið fram að hann hafi í kjölfarið fengið dóm um greiðsluskyldu þeirra, sem að framan er getið. Að ósk áfrýjanda og sambúðarmanns hennar var láninu ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði komið í skil í maí 1995 með þeim hætti að skuldararnir undirrituðu skuldabréf að fjárhæð 1.600.000 krónur, sem skyldi greitt upp á átta árum. Ritaði Baldvin nafn sitt sem skuldara, en áfrýjandi og Anton sem sjálfskuldarábyrgðarmenn. Ekki var greitt af bréfinu þegar kom að gjalddögum þess. Stefndi hefur hins vegar ekki mótmælt því, sem fram kom í stefnu og skýrslu Antons fyrir dómi, að hinn fyrrnefndi hafi fengið greiddar 604.000 krónur upp í skuldina frá áfrýjanda með þeim hætti, sem greinir í héraðsdómi. Stefndi lýsti því jafnframt yfir undir rekstri málsins að hann hafi fallið frá frekari kröfum á hendur áfrýjanda vegna umræddrar skuldar. Málavextir og málsástæður aðilanna eru að öðru leyti raktar í héraðsdómi.
II.
Óumdeilt er í málinu að áfrýjandi og sambúðarmaður hennar áttu frumkvæði að því að Baldvin Arngrímsson leitaði um vorið 1993 eftir kaupum á íbúð að Hafnarstræti 79 á Akureyri, sem var þá í eigu Gunnlaugs Halldórssonar. Er jafnframt komið fram að Baldvin og Anton Antonsson eru skyldir, en nánari skýring á því liggur ekki fyrir. Lán, sem hvíldu þá á íbúðinni, voru í vanskilum. Með aðstoð Antons leitaði Baldvin eftir því við sparisjóðsstjóra stefnda að honum yrði veitt lán, sem næmi fjárhæð víxils þess, sem að framan greinir, en hana þyrfti hann að fá að láni til þess að af kaupum gæti orðið, meðal annars til að greiða vanskil af áhvílandi lánum. Var lánið veitt Baldvin í kjölfar þessa með ábyrgð áfrýjanda og Antons. Meðal málsskjala er kaupsamningur 4. júní 1993 um áðurnefnda íbúð og er hann undirritaður samkvæmt umboði af Antoni Antonssyni fyrir hönd seljandans, Gunnlaugs Halldórssonar.
Við skýrslugjöf fyrir dómi skýrði sparisjóðsstjórinn svo frá að áfrýjandi og Anton hafi á þessum tíma verið í ábyrgð fyrir skuldum áðurnefnds Gunnlaugs við stefnda, sem voru í vanskilum. Hafi þau krafist þess að andvirði víxilsins yrði varið til að greiða upp þessar skuldir, sem hafi verið gert. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var lögð fram kvittun frá stefnda til Gunnlaugs 7. júní 1993 fyrir greiðslu skuldar að fjárhæð 235.933,50 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum og kostnaði. Hefur áfrýjandi ekki mótmælt þeirri staðhæfingu stefnda að skuld Gunnlaugs, sem hún og Anton voru í ábyrgð fyrir, hafi verið greidd af andvirði víxilsins. Verður lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu að svo hafi verið. Er samkvæmt því ljóst að þau hafa haft nokkra hagsmuni af því að Baldvin yrði veitt áðurnefnt lán í þessu skyni.
Ekki er um það ágreiningur að Baldvin lofaði við lánveitinguna að greiða víxilinn með bótafé, sem hann fengi fljótlega í hendur vegna slyss, sem hann hafi orðið fyrir. Er jafnframt komið fram að Baldvin fékk umræddar skaðabætur greiddar með rúmlega 3.000.000 krónum. Þær fékk hann hins vegar mun síðar en hann hafði vænst og var fénu að öllu leyti varið til að greiða aðrar kröfur á hendur honum. Reisir áfrýjandi málsóknina meðal annars á því að hún hafi gengið í ábyrgð fyrir Baldvin í trausti þess að stefndi myndi sjá til þess að bótafénu yrði varið til að greiða víxilinn. Ekkert er hins vegar fram komið um að sparisjóðsstjórinn hafi vakið traust hjá áfrýjanda um að hann myndi sérstaklega hlutast til um að gera ráðstafanir í þessu skyni. Hún ábyrgðist lánið að ósk Baldvins sjálfs, en ræddi málið ekki við sparisjóðsstjórann á þessu stigi. Verður ekki annað ráðið en að hún og sambúðarmaður hennar hafi treyst loforði Baldvins um endurgreiðslu með bótafénu og að þau yrðu þann veg fljótlega losuð undan skuldbindingu sinni. Af hálfu stefnda er fram komið að loforð um greiðslu af bótafénu hafi einnig valdið því að Baldvin var veitt lánið, þrátt fyrir vitneskju stefnda um bága fjárhagsstöðu hans.
Í skýrslu Antons fyrir dómi kom fram að áfrýjandi hafi hikað við að verða við beiðni Baldvins um ábyrgð vegna annarra ábyrgða, sem hún hafi tekist á hendur, og fallið höfðu á hana. Í bréfi lögmanns hennar til stefnda 2. febrúar 1997 er jafnframt getið um fjárhagslegt tjón hennar 1994 vegna ábyrgðar fyrir annan mann. Er samkvæmt þessu víst að henni hafi í júní 1993 mátt vera fullljós sú áhætta, sem því fylgdi að gangast í ábyrgð fyrir annan.
III.
Áfrýjandi styður kröfu sína öðrum þræði við tvö læknisvottorð um heilsufar hennar, sem fram hafa verið lögð í málinu, og nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi. Áfrýjandi kom ekki fyrir dóm, en sambúðarmaður hennar gerði í skýrslu sinni grein fyrir líkamlegri og andlegri heilsu áfrýjanda. Er ljóst að hún hefur lengi átt við veikindi að stríða. Að virtu því, sem fram er komið, telst engu að síður ósannað að heilsu áfrýjanda hafi verið þannig farið að hún hafi ekki getað gert sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð, sem hún tókst á herðar með nafnritun sinni á víxilinn.
Til stuðnings kröfu sinni vísar áfrýjandi til ákvæða 31. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum. Ekki hefur verið skotið stoðum undir að krafan geti náð fram að ganga á grundvelli tveggja fyrstnefndu lagagreinanna. Samkvæmt því, sem að framan hefur verið rakið um atvik og aðdraganda þess að umrætt lán var veitt, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður ekki heldur fallist á að næg efni séu til að verða við kröfunni með stoð í síðastnefnda ákvæðinu. Samkvæmt því verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. desember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. þ.m. að undangengnum aðalflutningi þann dag, hefur Sigurður Eiríksson, hdl., höfðað með stefnu útgefinni á Akureyri 30. mars 1999, birtri og þingfestri 8. apríl s.á., fyrir hönd Sigríðar K. Guðmundsdóttur, kt. 160852-2599, Gilsá I, Eyjafjarðarsveit, á hendur Sparisjóði Höfðhverfinga, kt. 610269-6569, Túngötu 11 A, Grenivík, til ógildingar á fjárskuldbindingu og til greiðslu málskostnaðar.
Dómkröfur stefnanda eru þær að ógild verði með dómi undirritun stefnanda sem sjálfskuldarábyrgðaraðilja á skuldabréf útgefið í maí 1995 að fjárhæð kr. 1.600.000, sem greiða bar með 96 afborgunum á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn 15. júní 1995, en aðalskuldari er Baldvin Arngrímsson, kt. 191249-4379, Hrefnugötu 7, 105 Reykjavík. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmd til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins. Til vara er krafist sýknu og að málskostnaður falli niður. Til þrautavara er þess krafist að málskostnaður falli niður.
Í stefnu rekur stefnandi málavexti og málsástæður svo, að sumarið 1993 hafi Baldvin Arngrímsson, kt. 191249-4379, Hrefnugötu 7, 105 Reykjavík, aðalskuldari ofangreinds veðskuldabréfs, verið í vinnu hjá þeim stefnanda og Antoni Antonssyni, kt. 211244-7049, þá búsettum að Túngötu 30, Grenivík, við að múra hús stefnanda að Túngötu 30.
Hafi Baldvin fengið á þessum tíma áhuga á að flytja til Akureyrar og því farið að leita fyrir sér á fasteignamarkaði á Akureyri. Anton Antonsson hafi bent honum á að hann vissi af íbúð sem væri til sölu á fasteignasölunni Eignakjör á Akureyri, sem sennilega væri unnt að eignast með yfirtöku vanskilaskulda. Hafi Baldvin þá snúið sér til fyrrgreindrar fasteignasölu og fengið að skoða umrædda íbúð, sem er að Hafnarstræti 79, miðhæð, hér í bæ. Páll Halldórsson, fasteignasali, hafi sagt honum að íbúð þessi væri á leiðinni í nauðungarsölu og möguleiki væri að kaupa hana með yfirtöku vanskilaskulda og með því að koma þeim í skil. Hafi Páll reiknað út hversu mikið fé þurfti í þessu skyni og reyndist það vera rúmlega kr. 1.000.000- með sölulaunum.
Á þessum tíma hafi þannig hagað til að Baldvin átti óuppgerðar skaðabætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir. Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl., hafi annast uppgjör þetta. Slysabætur þessar sagðist Baldvin ætla að nota til að festa kaup á umræddri íbúð.
Anton Antonsson segist hafa ítrekað óskað eftir því við Þórstein Jóhannesson, sparisjóðsstjóra stefnda, að hafa samband við Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl., til að tryggja að bæturnar gengju til Sparisjóðsins, en það hafi ekki verið gert.
Ein af umræddum vanskilaskuldum áhvílandi á Hafnarstræti 79 hafi verið við hinn stefnda Sparisjóð ca. kr. 634.000. Því var það ábending frá Páli Halldórssyni og Antoni Antonssyni að Baldvin Arngrímsson færi á fund Þórsteins Jóhannessonar, sparisjóðsstjóra stefnda, á Grenivík. Það varð úr að Anton Antonsson fór með Baldvini Arngrímssyni til sparisjóðsstjórans þar sem Baldvin Arngrímsson kynnti sig og bar fram erindi og greindi sparisjóðsstjóranum frá fyrirhuguðum kaupum sínum og þar með að stefndi ætti þar hagsmuna að gæta vegna fyrrgreinds vanskilaláns. Jafnframt fór Baldvin fram á það að umrædd fasteign yrði látin nægja sem trygging fyrir skuldinni, þ.e.a.s. skuld Baldvins við Sparisjóðinn.
Þá hafi Baldvin greint sparisjóðsstjóra frá því að hann ætti í vændum skaðabætur, eins og áður er getið og mögulegt væri að ekki væri langt þar til uppgjör bótanna kæmi og bæturnar gætu gengið til greiðslu láns Baldvins við Sparisjóðinn. Hafi Þórsteinn sparisjóðsstjóri fallist á lánveitinguna til Baldvins með því skilyrði að stefnandi yrði sjálfskuldarábyrgðarmaður ásamt Antoni Antonssyni, sem þá hafði nokkru áður verið lýstur gjaldþrota.
Þá hafi sparisjóðsstjórinn stofnað tékkareikning á Baldvin Arngrímsson án hans beiðni. Sparisjóðsstjóranum hafi verið kunnugt um gjaldþrot Antons Antonssonar.
Þá liggur ljóst fyrir að skiptum á gjaldþrotbúi Baldvins Arngrímssonar hafi lokið 21. júní 1989 og hefði hinum stefnda sparisjóði ekki átt að dyljast það, enda auðvelt á þessum tíma að staðreyna slíkt, en eign aðalskuldarans Baldvins, að Ránargötu 10, Flateyri, hafi verið seld nauðungarsölu 24. september 1986.
Stefnandi hafi fallist á að taka á sig ábyrgð þessa til skamms tíma og í trausti þess að hinn stefndi sparisjóður hefði kannað það að aðalskuldarinn, Baldvin Arngrímsson, væri gjaldfær og að að áðurnefndar slysabætur rynnu til greiðslu lánsins. Hafi hún treyst því að sparisjóðsstjóri byggi þannig um hnúta að skaðabæturnar rynnu til þessara hluta.
Tekið er fram að sparisjóðsstjóra stefnda var fullkunnugt um slæma fjárhagsstöðu stefnanda og veikindi hennar og hafði m.a. í tvö skipti stuttu áður greiðslumetið stefnanda vegna húsbréfalána. Þá hafði stefnandi fengið persónulán hjá stefnda og voru a.m.k. tvö lán í vanskilum hjá stefnda þegar til skuldarinnar var stofnað þann 4. júní 1993. Sparisjóðsstjóra stefnda átti því að vera fullkunnugt um þörfina fyrir það að búa þannig um hnúta að tryggt yrði að skaðabæturnar kæmu til greiðslu skuldarinnar.
Skuld þessi hafi í upphafi verið í formi víxils, útgefins 4. júní 1993 með gjalddaga 4. ágúst s.á., en þann 19. ágúst s.á. hafi víxillinn verið framlengdur til 17. september 1993. Víxill þessi hafi ekki verið greiddur á gjalddaga og ekki framlengdur. Gert hafi verið fjárnám á grundvelli víxilsins í fasteign stefnanda að Túngötu 30, Grenivík, þann 1. nóvember 1994. Eignin hafi síðan verið seld nauðungarsölu 12. apríl 1995 og hafi ekkert fengist greitt upp í þessa kröfu stefnda.
Hafi þá farið fram samningaviðræður af hálfu stefnanda við sparisjóðinn, sem hafi endað með því að skuldinni hafi verið breytt í skuldabréf til 15 ára með stefnanda og Anton Antonsson sem ábyrgðarmenn og Baldvin Arngrímsson sem aðalskuldara. Var skuldin þá orðin kr. 1.600.000-.
Skuldbreyting þessi kom þannig til að stefnandi hafi þurft að leita til Húsnæðisskrifstofunnar á Akureyri til að afla sér húsnæðis og var það sett að skilyrði af hálfu Húsnæðisskrifstofunnar að gengið yrði frá þessari skuld. Fór svo að vegna innheimtuaðgerða stefnda greiddi Húsnæðisskrifstofan á Akureyri kr. 604.000- upp í skuld stefnanda af inneign stefnanda hjá Húsnæðisskrifstofunni. Á það er bent að kaupsamningur um Hafnarstræti 79 hér í bæ er dagsettur 4. júní 1993, en víxillinn er útgefinn þann sama dag. Þá bjó stefnandi á Grenivík. Fram er komið að Baldvin Arngrímsson greiddi út af tékkareikningi 1187-26-392 daginn eftir undirritun kaupsamnings og þá m.a. miklar skuldir Gunnlaugs H. Halldórssonar, kt. 131162-4052, við hinn stefnda sparisjóð.
Málsástæður stefnanda.
Samkvæmt upplýsingum lauk gjaldþrotaskiptum á búi Baldvins Arngrímssonar 21. júní 1989 og eign hans Ránargötu 10, Flateyri, var seld nauðungarsölu 24. september 1986. Sparisjóðsstjóri stefnda talaði aldrei sjálfur við stefnanda og gerði henni ekki grein fyrir því hvers konar ábyrgð hún var að taka á sig, sbr. nú samkomulag milli fjármálafyrirtækja og neytandasamtakanna og stjórnvalda frá 27. janúar 1998, og framkvæmdi ekki greiðslumat vegna þessarar lántöku.
Þá var ekki framkvæmt greiðslumat á Baldvini Arngrímssyni, sbr. 6. gr. laga nr. 121, 1994 um neytendalán, sem í gildi voru þegar skuldabréfið var undirritað og gerði stefndi þannig stefnanda ekki grein fyrir slæmri greiðslustöðu Baldvins Arngrímssonar, sbr. það sem áður er rakið um fjárhagsstöðu hans.
Þá er því haldið fram af hálfu stefnanda að stefnda hafi verið ljóst að með lánveitingunni myndu leysast innheimtuvandamál tengd Gunnlaugi H. Halldórssyni, kt. 131162-4059, og væri stefndi þannig að leysa nær óleysanlegt innheimtuvandamál sitt á kostnað stefnanda.
Því er haldið fram að stefnandi hafi verið þannig sett á þessum tíma að hún hafi verið ófær um að taka á sig skuldbindingar, er þá bæði átt við fjárhagsstöðu hennar og heilsufarslegt ástand, sbr. vottorð læknanna, Nick Cariglia og Þórarins Tyrfingssonar. Engum hafi verið betur kunnugt eða mátt vera betur kunnugt um framangreindar málsástæður en stefnda og er það álit stefnanda að þetta sé nægjanlegt til ógildingar framangreindrar skuldbindingar samkvæmt 31., 33. og 36. gr. laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11, 1986 og 1. gr. laga nr. 14, 1995.
Vegna máls þessa hafi stefnandi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af völdum stefnda, m.a. með því að hún hafi neyðst til að greiða kr. 604.000- upp í skuldina ásamt því að stefndi gerði með ólögmætum hætti fjárnám í bifreið stefnanda, sem átti að vera undanþegin fjárnámi samkvæmt aðfararlögum.
Stefnandi hafi því ríka fjárhagslega hagsmuni af því að skorið verði úr því með dómi hvort ógilda beri umrædda skuldbindingu.
Varðandi málskostnaðarkröfuna er vísað til laga nr. 91, 1991 og kröfuna um virðisaukaskatt til laga nr. 50, 1988.
Stefndi rekur málavexti svo, að í maí 1993 hafi þeir Baldvin Arngrímsson og Anton Antonsson, sambýlismaður stefnanda, komið á fund Þórsteins Jóhannessonar, sparisjóðsstjóra stefnda, og vildu leita eftir aðstoð við að Baldvin keypti fasteignina Hafnarstræti 79, 3. hæð, hér í bæ, með því að yfirtaka skuldir sem á eigninni hvíldu. Hafi Baldvin vakið athygli á því að sparisjóðurinn ætti hagsmuna að gæta og gaf í skyn að það myndi fást lausn þeirra mála með því að hann yfirtæki þessar skuldir. Átti hann við vanskilaskuld sem Gunnlaugur H. Halldórsson, kt. 131162-4059, var í við stefnda og örðugt myndi að innheimta. Aðdraganda að því að þeir félagar leituðu til stefnda megi rekja til þess að Baldvin var að leita að ódýrri eign og Anton og stefnandi vöktu athygli hans á Hafnarstræti 79, Akureyri. Hafi þeir Anton og Baldvin farið saman á fasteignasölu þá sem hafði eignina til sölu, en hafi upp frá því verið samstíga í gegnum allt ferlið þegar Baldvin var að fjármagna og kaupa eignina. Þannig vissi Anton, samábyrgðarmaður og sambýlismaður stefnanda um allar staðreyndir málsins á öllum stigum. Um frekari málavaxtalýsingu vísast til stefnu. Um stefnuna sé það annars að segja að hún sé ruglingsleg og illa afmörkuð og velta megi því fyrir sér hvort vísa hefði átt málinu frá dómi án kröfu, sem ekki sé þó höfð uppi.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Því er alfarið mótmælt að sparisjóðsstjóri stefnda hafi misnotað sér aðstöðu sína til að áskilja stefnda hagsmuni sem hann ekki átti þegar hann féllst á það með skilyrðum að Baldvin fengi að yfirtaka veðskuldir Gunnlaugs. Skilyrðin voru að Anton og stefnandi myndu ábyrgjast greiðslu víxils sem Baldvin ætlaði að taka til að geta eignast Hafnarstræti 79 með þeim hætti sem lýst er í stefnu. Sparsjóðsstjóra stefnda var kunnugt um bága fjárhagsstöðu þremenninganna, Baldvins, Antons og Sigríðar. Þess vegna sé fráleitt að stefndi hafi með þessari ráðstöfun ætlað að leysa nær óleysanlegt innheimtuvandamál sitt á kostnað stefnanda eins og segi í stefnu. Hafi stefndi haft jafngóða vitneskju og haldið sé fram í stefnu um fjárhagsstöðu þeirra þremenninga sé það meira en lítið einkennileg röksemdafærsla að þarna hafi stefndi séð sér leið til að leysa nær óleysanlegt innheimtuvandamál sitt. Hefur það enda komið á daginn að svo reyndist ekki vera, sbr. dskj. nr. 50. Framkoma sparisjóðsstjóra og stefnda hafi í öllu einkennst af því, að koma Baldvini til hjálpar við útvegun húsnæðis. Markmiðið var að hann gæti fengið húsnæðið á sem ódýrastan hátt. Hafi Baldvin vakið þá trú hjá sparisjóðsstjóra með frásögn af væntanlegum slysabótum að hann væri sannarlega borgunarmaður fyrir þeim skuldbindingum sem hann leitaði eftir að takast á hendur. Sparisjóðsstjóri leitaði eftir staðfestingu á þessu og fór þess á leit við Anton að hann staðfesti þessa frásögn með því að þau stefnandi ábyrgðust víxilinn. Það hafi Anton gert. Því var nú útlit fyrir að Baldvin gæti komist í ágætt húsnæði fyrir minnsta mögulegan tilkostnað, en svo hafi farið að víxillinn hafi ekki verið greiddur. Því var það svo að frumkvæði stefnanda að hinni vangoldnu víxilskuld skyldi breytt í skuldabréf það sem nú er deilt um í málinu. Enn hafi það verið af hjálpsemi sem sparisjóðsstjóri féllst á það að breyta víxilláninu í skuldabréf með sama skuldara og sömu ábyrgðarmönnum.
Því er mótmælt að stefnandi hafi verið þannig á sig komin að hún hafi ekki verið fær um að taka á sig skuldbindingar. Ekkert sé fram komið um andlega annmarka hennar og læknisvottorð þeirra Nick Cariglia og Þórarins Tyrfingssonar hafa þar ekkert að segja. Sé vandséð hvað vottorð þessi eigi að sanna. Enginn eiginlegur samningur sé gerður við stefnanda heldur sé samningurinn í raun milli stefnda og Baldvins. Ekki sé því mögulegt að beita 31. gr. laga nr. 7, 1936 um gerninginn. Ekkert endurgjald hafi komið frá stefnanda eins og ákvæðið áskilji heldur átti það að koma frá Baldvini. Ekkert sé óheiðarlegt við framkomu sparisjóðsstjórans, þvert á móti hafi hann sýnt vilja til að koma til móts við illa settan og húsnæðislausan mann, sem a.m.k. í orði kveðnu naut stuðnings vina sinna og skyldmenna. Mikilvægt sé að hafa í huga að 33. gr. samningalaga nr. 7, 136 eigi við atvik sem fyrir hendi voru við samningsgerð, en ekki ágiskanir eða ímyndanir stefnanda. Staðreyndin sé sú að Baldvin hafi fullyrt við sparisjóðsstjóra að hann ætti von á slysabótum og lofaði að greiða með þeim fyrir kaupin á Hafnarstræti 79.
Með ábyrgð sinni voru Anton og stefnandi á þeim tíma í raun að staðfesta að bótakrafa þessi væri til og þau myndu leggja sitt af mörkum til að Baldvin gæti eignast þessa íbúð. Því er mótmælt sem rangri fullyrðingu að sparisjóðsstjóri hafi aldrei talað við stefnanda. Um það vísast til stefnu þar sem fram komi að samningaviðræður hafi farið fram milli aðila þar sem sparisjóðsstjóri féllst á að breyta víxilskuldinni í skuldabréf. Fullyrðingu um skyldu sparisjóðsstjóra til að gera stefnanda grein fyrir stöðu ábyrgðarmanns er mótmælt sem órökstuddri.
Þá er á það bent að vart hefur stefnandi, sem aðalskuldari á tveimur persónulánum sem voru í vanskilum við stefnda og getið er um í stefnu, verið í nokkrum vafa um hver staða ábyrgðarmannsins var. Hún hafði sjálf verið aðili að slíkum lögskiptum sem hér er um deilt og ætli lögmaður stefnanda henni ekki mikla dómgreind ef hún þekki ekki stöðu ábyrgðarmanns. Enn fremur megi hér benda á bréf lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 2. febrúar 1997, sbr. dskj. nr. 17, þar sem segir í 7. lið að stefnandi hafi áður tapað kr. 270.000- vegna ábyrgðar fyrir annan aðila á árinu 1994. Stefnanda hafi því ekki verið ókunnugt um hvað fólst í ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanns og alveg örugglega ekki við undirritun skuldabréfsins í maí 1995, sem nú er krafist ógildingar á. Verði því algjörlega að hafna því að stefnandi hafi orðið fyrir misneytingu vegna léttúðar sinnar, einfeldni eða fákunnáttu.
Þá sé fráleitt að ætla að leggja ábyrgð á sparisjóðsstjórann fyrir það að hafa ekki tryggt að slysabætur gengju til sparisjóðsins. Til slíks hafði sparisjóðsstjóri ekki umboð og Jóni Steinari Gunnlaugssyni, hrl., því ómögulegt að standa skil á bótakröfu Baldvins með því að láta hana í hendur óviðkomandi aðila. Sé með ólíkindum að lögmaðurinn ætli sparisjóðs-stjóranum slíkt hlutverk og er spurt hvernig hann hefði átt að tryggja slíkt. Slíkt frumkvæði hlaut að verða að koma frá vini stefnanda, Baldvini sjálfum, sem bæturnar átti.
Í stefnu segi að stefnandi hafi tekið á sig ábyrgðarskuldbindinguna í því trausti að stefndi hefði kannað að Baldvin aðalskuldari væri gjaldfær og margnefndar slysabætur rynnu til greiðslu lánsins. Stefndi gaf stefnanda aldrei tilefni til að trúa slíku. Hefði slík trygging legið fyrir sé vandséð hvers vegna stefndi hefði átt að krefjast ábyrgðarmanna.
Í stefnu sé því haldið fram að Anton Antonsson hafi farið þess á leit við stefnda að hann tryggði að slysabæturnar rynnu til stefnda. Sé því langlíklegast að Anton hafi sjálfur vakið þá trú hjá stefnanda, sambýliskonu sinni, að stefndi hafi búið þannig um hnútana að bæturnar rynnu til greiðslu lánsins. Því fari fjarri að sparisjóðsstjóri stefnda hafi nokkru sinni gefið slíkt loforð. Það fái því ekki stoð í neinni réttarreglu að óljós yfirlýsing Antons eða annarra veiti stefnanda einhvern rétt til tiltekinna athafna af hálfu stefnda.
Ekki verði séð hvaða skyldur samkomulag milli tilgreindra fjármálafyrirtækja, Neytendasamtakanna og stjórnvalda, sem vísað er til í stefnu og gert var 27. janúar 1998, hafi lagt á stefnda þann 4. júní 1993 þegar víxillinn var gefinn út né heldur í maí 1995 þegar skuldabréfið var gefið út.
Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 25. apríl 1997 sbr. dskj. nr. 16, segi á þá leið að þegar lánið var veitt á sínum tíma stofnaði Baldvin Arngrímsson tékkareikning hjá Sparisjóði Höfðhverfinga og var andvirði lánsins kr. 1.030.000- lagt inn á þann reikning. Í stefnunni segir lögmaðurinn um þetta að sparisjóðsstjóri stefnda hafi stofnað tékkareikning á Baldvin Arngrímsson án hans beiðnar. Varðandi þetta er vísað til dskj. nr. 49, sem er skrifleg beiðni Baldvins um stofnun þessa tékkareiknings.
Að öllu þessu virtu telur stefndi að ekkert sé fram komið sem stutt geti það sem ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri fyrir sig löggerninginn. Þvert á móti hafi framkoma stefnda og sparisjóðsstjórans öll einkennst af mikilli hjálpsemi og samúð með stefnanda og vinum hennar, Baldvini og Antoni. Rétt sé að hafa í huga að allt frumkvæði að þessum málum sé frá þeim komið, þ.e. Baldvini, Antoni og stefnanda, en Anton og stefnandi hafi átt frumkvæðið að því að Baldvin fór yfirleitt að skoða kaup á Hafnarstræti 79.
Á því er byggt að sparisjóðsstjóra stefnda hafi verið kunnugt um bága fjárhagsstöðu aðila. Samt hafi hann fallist á að lána Baldvini rúmlega kr. 100.000- með ábyrgð Antons og stefnanda, sbr. það sem að framan er rakið. Þetta beri vott um að sparisjóðsstjóri hafi af velvild við þremenningana, sem til hans leituðu, fallist á að veita illa stöddu fólki liðsinni. Verði það ekki talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi hafi borið fyrir sig skuldabréf sem runnið sé af þessum viðskiptum.
Til lagaraka vísar stefndi til laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, gr. nr. 31, 33 og 36. Málskostnaðarkrafan er studd við 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991.
Við aðalmeðferð málsins leiðrétti lögmaður stefnanda það sem fram kemur í stefnu að upphaflega lánið hafi runnið til stefnda að hluta til að leysa innheimtuvandræði vegna Gunnlaugs H. Halldórssonar. Sparisjóðsstjóri stefnda lýsti því einnig yfir að stefndi félli algjörlega frá öllum frekari fjárkröfum á hendur stefnanda, skv. margnefndu skuldabréfi.
Verða nú raktir framburðir vitna og aðila og önnur gögn málsins eftir því sem dómari telur þurfa til skýringar á málsefninu.
Þórsteinn Arnar Jóhannesson, kt. 180741-2249, Bárðartjörn, Grýtubakkahreppi, sparisjóðsstjóri stefnda, bar um tilurð skuldabréfsins að það hafi verið framhald af víxilláni Baldvins Arngrímssonar, sem breytt hafi verið í skuldabréf að beiðni stefnanda og sambýlismanns hennar Antons Antonssonar, en þau hafi verið viðskiptamenn Sparisjóðsins og öll þeirra viðskipti þar. Hafi vinur Antons Baldvin Arngrímsson verið staddur á Grenivík og verið að kaupa íbúðarhúsnæði á Akureyri. Hafi Anton komið í Sparisjóðinn og beðið um fyrirgreiðslu fyrir hann og síðan þau bæði, Anton og stefnandi. Hafi Baldvin komið til sín með Antoni, hafi Anton sagt að þetta hafi allt verið mistök með gjaldþrot Baldvins og það yrði afturkallað, eða dregið til baka, en þetta hafi verið einhver fjölskylduvandræði, en hægt hafi verið að nálgast upplýsingar um gjaldþrot Baldvins.
Sú fjárhæð sem Baldvin hafi vantað til að húsakaupin gengju fyrir sig hafi verið kr. 1.030.000- og hafi það verið sú upphæð sem hafi verið lögð fyrir mætta og hafi verið andvirði þeirra vanskilaskulda sem þurfti að gera upp. Hann sagði að stefndi, Sparisjóðurinn, hafi ekki fengið eina einustu krónu af þessu láni Baldvins. Víxillinn hafi lent í vanskilum, en þá hafi stefnandi og Anton verið flutt til Akureyrar. Þau hafi ætlað að kaupa í félagslega kerfinu, en þau hafi misst íbúð sína á Grenivík.
Til þess að komast inn í félagslega húsnæðiskerfið hafi þau þurft að losna við víxilskuldina og að þeirra beiðni hafi víxilláninu verið breytt í skuldabréfalán. Upphaflega hafi víxillinn verið til þriggja mánaða og síðan framlengdur í þrjá mánuði, að því er hann minnti. Stefndi hafi ekki hagnast á þessu láni á nokkurn hátt, mætta var kunnugt um fjárhagsstöðu stefnanda og taldi meira gert úr fjárhagsvandræðum hennar í stefnu en hann vissi til. Hafi hann gert greiðslumat á stefnanda skömmu áður og hafi hún staðist það greiðslumat.
Hann kvaðst ekki hafa gert kröfu um að stefnandi yrði ábyrgðarmaður á víxlinum 1993. Ekki hafi hann bent stefnanda á að afla sér baktryggingar fyrir ábyrgð sinni vegna fjárhagsstöðu Baldvins og Antons, hann hafi talið fullan skilning hjá öllum aðiljum hvað þau væru að gera. Hann kvaðst hafa vitað um að Anton var gjaldþrota. Baldvin hafi ætlað að færa öll viðskipti sín til Sparisjóðsins og hafi stofnað þar sjálfur reikning.
Húseign sú sem Baldvin var að festa kaup á hafi verið eign Gunnlaugs H. Halldórssonar og hafi Anton og stefnandi haft með hann að gera og verið ábyrgðarmenn á skuldabréfum sem Gunnlaugur var skuldari að og hafi stefnandi og Anton sett það á oddinn að greiða þær skuldir til þess að komast inn í félagslega húsnæðiskerfið.
Stefndi hafi átt veð í Hafnarstræti 79 og hafi ekkert komið upp í þá veðkröfu er sú eign endaði síðan á nauðungaruppboði, en sú krafa komi máli þessu ekki við. Hann hafi alls ekki blekkt Anton og stefnanda til að leysa óleysanlegt innheimtuvandamál stefnda. Og eins og áður getur hafi Baldvin ekki greitt krónu til Sparisjóðsins af því víxilláni sem hann fékk.
Ástæðan fyrir því að ekki var tekið veð fyrir láninu til Baldvins í íbúðinni hafi verið sú að eignin hafi verið yfirveðsett. Þegar víxilskuldin var í gjalddaga fallin og komin í innheimtu hafi þau Anton og stefnandi komið til hans þó nokkuð oft, Anton þó oftar, og hafi viljað breyta skuldinni í skuldabréf. Hafi skuldabréfið á dskj. nr. 28 verið útbúið af stefnda. Baldvin hafi þá verið fluttur til Reykjavíkur og erfitt að ná í hann og þegar í hann náðist þá hafi hann oftar en ekki verið ölvaður. Ekki kvaðst hann vita að neitt væri að geðheilsu stefnanda, hún hafi verið með fullu ráði og rænu og dómgreind hennar í góðu lagi, svo og hafi fjármálavit hennar verið í lagi, að því er honum virtist, en Anton hafi verið meira í skýjunum, en stefnandi jarðbundnari þann tíma sem þau bjuggu á Grenivík.
Hann lýsti því yfir að krafan á hendur stefnanda samkvæmt skuldabréfinu væri niður fallin og engar frekari kröfur gerðar á hendur stefnanda út af þessu skuldbréfi.
Slysabætur Baldvins hafi komið inn í umræðuna 1993 og hafi Baldvin lofað að þær kæmu inn til greiðslu. Hafi Anton fullyrt að Baldvin myndi standa við þetta. Þegar bæturnar komu til útborgunar hafi allt verið reynt til að fá þær greiddar, en það hafi ekki tekist, en Baldvin hafi aldrei gefið stefnda umboð til að fá bætur þessar greiddar og aldrei hafi náðst samband við Baldvin. Ekki vissi mætti hve há bótafjárhæðin var, en það hafi verið umtalsverðir peningar. Hann hafi vitað að málaferli hafi verið í gangi út af þessari bótakröfu Baldvins.
Vitnið Baldvin Arngrímsson, múrari, kt. 191249-4379, Kaldaseli 10, Reykjavík, bar svo um víxillánið 1993, að hann hafi verið að kaupa íbúð og hafi átt von á að fá slysabætur, sem síðan hafi dregist að hann fengi. Hafi honum verið bent á að fá lán í Sparisjóðnum á Grenivík, þar sem hann hafi verið staddur. Hafi íbúðin öll verið í vanskilum og hafi vantað rúmlega kr. 1.000.000- til að koma lánum í skil og hafi hann getað fengið íbúðina keypta upp á þau kjör. Hafi hann beðið sparisjóðsstjórann að taka veð í íbúðinni fyrir þessari fjárhæð, en hann bent á að ef stefnandi vildi skrifa upp á þá gæti hann fengið víxillán, en hafi hafnað að fá veð í íbúðinni. Þegar víxillánið kom til útborgunar hafi sparisjóðsstjórinn opnað tékkareikning. Hann sagði það hljóti að vera að sparisjóðsstjórinn hefði haft frumkvæði að því að stofna þennan reikning.
Aðspurður um gjaldþrot sitt þá kvaðst hann hafa orðið var við áhrif þess í bílaviðskiptum. Ekki minntist hann þess að gjaldþrot sitt hafi verið rætt í Sparisjóðnum. Fjárhæð víxilsins hafi verið reiknuð út í Sparisjóðnum, en vitnið var búið að reikna út að þetta var rúmlega kr. 1.000.000- sem vantaði. Fjárhæðin hafi farið í að greiða vanskil hér og þar, en vitnið mundi ekki nánar um þetta. Ekki hafi verið rætt um greiðslumat á vitninu. Vitnið sagði að hann og Anton Antonsson hafi farið til sparisjóðsstjórans út af víxilláninu, en stefnandi hafi ekki farið til hans, eftir því sem hann mundi. Vitnið kvaðst hafa átt von á slysabótum en það hafi dregist, en hann hafi átt von á að fá þær innan þriggja mánaða, það dregist eins og áður greinir og lánið farið í vanskil. Ekki hafi verið rætt um að hann gæfi Sparisjóðnum umboð vegna slysabótanna og hann hafi ekki boðið það fram.
Slysabæturnar hafi síðan verið greiddar haustið 1995 og verið að fjárhæð kr. 3.000.000- og eitthvað, þær hafi farið til greiðslu skulda, þar sem hann hafi verið búinn að vera tekjulaus lengi. Ekki mundi hann verð íbúðarinnar að Hafnarstræti 79, en mundi að brunabótamat hennar hafi verið um 11,5 milljónir króna. Upplýst var í dóminum að verðið hafi verið kr. 6.200.000- og áhvílandi hafi verið kr. 5.500.000-. Vitnið kvaðst ekki hafa hugsað út í þetta dæmi, hann hafi ekki verið í óreglu á þessum tíma og hafi ætlað að greiða víxilinn með slysabótunum.
Ekki var hann viss hvort hann var klár á því sem hann var að gera, er þetta skeði hafi hann verið í heimsókn hjá Antoni á Grenivík og sambýliskonu hans. Hafi hann verið u.þ.b. 2 vikur á heimili þeirra. Hafi heilsufar stefnanda verið slæmt, henni hafi ekki liðið vel hvorki andlega né líkamlega.
Aðspurður hvort stefnandi hafi verið með sjálfri sér, þá kvaðst hann ekki vita það, hún hafi ekki verið í óreglu. Aðspurður um dómgreind hennar kvaðst hann ekki vera fær um að meta það, þar sem dómgreind hans hafi ekki verið í lagi. Hann taldi dómgreind Antons Antonssonar hafi verið í lagi, að hans mati. Aðspurður hver hafi ráðið ferðinni í fjölskyldunni, þá kvaðst hann ekki vita það, en Anton hafi hjálpað stefnanda mikið. Ekki mundi hann hvort hafi þurft að beita stefnanda fortölum til að gangast í ábyrgð, en það hljóti að hafa verið hann, þ.e.a.s. vitnið, sem talaði við stefnanda. Ekki vissi hann betur en að Anton Antonsson hafi verið í lagi og engin óregla hafi verið þarna. Hann kvaðst hafa búið einhverja mánuði á Akureyri og flutt síðan til Reykjavíkur, fjármálin hafi verið í kalda koli og slysabæturnar hafi ekki dugað fyrir skuldum.
Hann kannaðist við nafnritun sína undir skuldabréfið í maí 1995, en mundi ekki hvenær eða hvar hann undirritaði bréfið, en kannaðist við annan vottinn, sem er bróðir vitnisins, en hann þekkti undirskrift sína undir skuldbréfið.
Hann kvaðst hafa fengið höfuðhögg í bílslysi sem hann varð fyrir 16. febrúar 1992, minnið væri gloppótt og eins og vanti í það kafla.
Vitnið Anton Ófeigur Antonsson, kt. 211244-7049, Gilsá I, Eyjafjarðarsveit, kom fyrir dóm. Hann upplýsti að hann og stefnandi hafi hafið sambúð 28.09.1989.
Aðdragandinn að víxilláninu 1993 var sá að Baldvin Arngrímsson hafi verið ókunnugur hér fyrir norðan og Páll Halldórsson, fasteignasali, hafi bent á Sparisjóðinn á Grenivík. Kvaðst vitnið hafa farið með Baldvini til sparisjóðsstjóra stefnda og kynnt þá. Þannig sé aðkoma vitnisins að málinu. Hafi Baldvin strax fengið jákvætt svar, stefnandi hafi aldrei farið í Sparisjóðinn, enda veik og illa haldin. Hafi sparisjóðsstjóri vitað að vitnið var gjaldþrota þegar sparisjóðsstjórinn svari því að Baldvin fái lánið, þá sé það með því skilyrði að stefnandi ábyrgist það og þá segi sparisjóðsstjórinn að hann muni opna tékkareikning og leggja lánið inn á hann. Baldvin hafi borið fram erindið um lánið, en sparisjóðsstjórinn ekki viljað veð í Hafnarstræti 79, en hann gæti fengið lánið ef stefnandi gengist í ábyrgð, svo og vitnið sjálft. Hann sagði að sparisjóðsstjórinn hefði þekkt mjög vel til stefnanda. Með þessi svör þá fari Baldvin á fund stefnanda, út af þessu víxilláni og spyrji stefnanda í sinni áheyrn, hvort hún vilji skrifa upp á víxilinn. Forsenda af hálfu stefnanda fyrir ábyrgðinni hafi verið sú að tryggt væri að þetta yrði greitt, þá myndi hún ábyrgjast til skamms tíma.
Hafi stefnandi beðið vitnið að ganga frá því við sparisjóðsstjórann að öruggt væri að þetta yrði greitt. Hann sagði að sparisjóðsstjórinn hefði aldrei talað við stefnanda, aldrei hafi farið fram greiðslumat á vitninu né stefnanda í þessu ferli.
Baldvin hafi sagt stefnanda að hann ætti von á skaðabótum, þó hann vissi ekki hvenær. Þetta hafi verið viðkvæmt mál fyrir stefnanda þar sem að fallið hafði nýlega á hana ábyrgð. Hann sagði að stefnandi og sparisjóðsstjórinn hefðu aldrei hist út af þessu víxilláni. Síðan hafi víxillinn fallið og hann síðan framlengdur og síðan hafi skuldabréfalánið orðið til. Hafi stefnandi verið að kikna undan þessari víxilábyrgð og kvaðst vitnið hafa gengist í því fyrir stefnanda við sparisjóðsstjórann að skuldin hafi farið á skuldabréf til langs tíma. Hafi vitnið samið um þetta við sparisjóðsstjórann fyrir stefnanda.
Húsið á Grenivík hafi verið selt og forsenda að stefnandi gæti keypt íbúð hér í bæ hjá félagsíbúðum hafi verið sú að þetta skuldamál yrði gert upp. Hafi stefnandi keypt íbúð, sem hún síðan hafi þurft að selja, en gert hafi verið fjárnám í íbúðinni af stefnda og þannig sé innborgunin kr. 604.000- inn á þessa kröfu stefnda tilkomin, sem hafi verið allur eignarhluti stefnanda í íbúðinni.
Aðspurður um heilsufar stefnanda, þá sagði hann andlegt ástand hennar afskaplega aumt svo og líkamlegt og vísaði til vottorðs Nick Cariglia á dskj. nr. 4, svo og líkamlegt ástand hennar mjög slæmt. Hún væri á mjög sterkum verkjalyfjum sem slævðu hana mjög mikið. Er þau bjuggu á Grenivík hafi hún reynt að rölta eftir götunni sem þau bjuggu við á hverjum degi, ca. 250 m., en við þá götu stendur Sparisjóðurinn. Vitnið sagði að á þeirra heimili væru allir hlutir ræddir og kvaðst geta fullyrt að stefnandi hefði aldrei hitt sparisjóðsstjórann út af þessu máli, en honum hafi verið fullkunnugt um sjúkdómsástand stefnanda.
Vitnið kvaðst hafa átt mikil viðskipti við stefnda og hafi sparisjóðsstjórinn alltaf gert mjög vel við stefnanda og greitt götu þeirra beggja og honum mjög vel kunnugt um sjúkrasögu stefnanda og oft spurst fyrir um líðan hennar.
Aðspurður sagði hann stefnanda hafa borið það undir sig þegar hún skrifaði upp á víxilinn. Hafi hann svarað henni því að hún skyldi ákveða þetta sjálf, en stefnandi hafi sagt að forsendan fyrir uppáskrift hennar hafi verið bætur þær sem Baldvin ætti í vændum. Þegar skuldabréfið var undirritað hafi stefnandi dvalist á FSA og bréfið verið þá undirritað af aðalskuldaranum Baldvini Arngrímssyni.
Aðspurður um hvað vitninu og sparisjóðsstjóranum hafi farið á milli um tryggingu til stefnda þá kvaðst vitnið bara hafa komið þessum skilaboðum stefnanda til sparisjóðsstjórans og að ganga frá tryggingu við Baldvin eins vel og hann gæti.
Vitnið vissi að Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl., var með mál Baldvins. Kvaðst vitnið hafa hringt tvisvar sinnum í Jón Steinar út af þessu máli. Hafi hann reynt að fá framsal í kröfuna frá Baldvini, en það hafi ekki gengið, eins hefði sparisjóðsstjórinn reynt það, að því að hann best vissi.
Aðspurður hvort stefnandi hafi verið fær um að taka ákvörðun um ábyrgðina, þá svaraði vitnið því til að hann þekkti það að stefnandi yrði sjálf að taka ákvörðun og ábyrgð vegna þess hversu lágt sjálfsmat hennar væri. Hann kvaðst draga það mjög í efa að stefnandi hafi verið fær um að taka þessa ábyrgð.
Aðspurður af dómara um siðferðislega ábyrgð vitnisins, þá kvaðst hann ekki hafa hugsað út í þennan þátt. Hann hafi alltaf verið í þessu umhverfi og þetta hafi alltaf verið svona. Hann hafi látið hana um þetta hennar vegna. Eftirá að hyggja hefði hann betur tekið af skarið. Hann bjóst við að hann hafi talið það frekar fjarlægt að ábyrgðin félli á þau. Þetta hafi verið hennar ákvörðun og hún væri sjálfstæður einstaklingur.
Aðspurður um ástand Baldvins Arngrímssonar þá hafi hann verið nýkominn af Grensásdeild eftir eins árs endurhæfingu og verið líkamlega illa á sig kominn.
Aðspurður um andlegt ástand hans, þá kvaðst hann ekki hafa skynjað annað en hann væri í lagi, en hann hafi verið mjög niðurbrotinn eftir slysið, þannig. Ekki hafi hann skynjað að hann væri með skerta dómgreind.
Aðspurður um breytingu á högum stefnanda frá því að hún skrifaði upp á víxilinn 1993 og undir skuldabréfið 1995, þá upplýsti hann að krabbamein það sem hún þjáðist af hafi verið komið á „fullt sving“ aftur og hún þyldi ekki fleiri uppskurði, þ.e.a.s. krabbameinið hafi tekið sig upp aftur. Hafi það verið mikið andlegt áfall fyrir hana 1995 að krabbameinið hefði tekið sig upp. Hann sagði dómgreind hennar afskaplega svipaða öll þessi ár, hún slævðist ekki meira í áranna rás. Stefnandi væri áttuð á stað og stund og gerði sér grein fyrir hvað ábyrgðin þýddi, að því er hann skildi. Árið 1995 hugsi hann þannig hvernig hægt sé að bjarga málunum, þannig að Baldvin ætti auðveldara með að greiða þetta. Stefnandi hafi verið verr stödd andlega vegna krabbameinsins og kann að hafa verið öðruvísi vímuð en áður, en kvaðst ekki geta dæmt um dómgreind stefnanda.
Hann taldi stefnanda ófæra um að mæta fyrir dóm varðandi andlegu hliðina, ekki treysta sér til að svara spurningum, hún ýti þessi máli frá sér og reyni að hugsa ekki um það og kvaðst vitnið axla þetta. Hún væri nú í krabbameinsmeðferð og dveldist ýmist á FSA eða Kristnesi.
Á dskj. nr. 3 liggur fyrir vottorð Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis SÁÁ, Vogi, dagsett 15. október 1998, þar sem kemur fram að stefnandi hefur leitað sér meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi vegna áfengis- og lyfjaneyslu árin 1989, 1991 og 1992, 8 daga árin 1991 og 1992 og árið 1993 tímabilið 11.11.-19.11.
Í vottorði Nick Cariglia , lyflæknis og meltingarsérfræðings, dagsettu 12. október 1998, sbr. dskj. nr. 4, þar sem rakin er sjúkrasaga stefnanda frá árinu 1971 er hún greindist fyrst með krabbamein og þar til læknirinn kynnist henni fyrst 1989. Hefur stefnandi meira og minna frá 1989 verið undir læknishendi vegna krabbameins og gengist undir skurðaðgerðir og lyfjameðferðir. Segir í vottorðinu að allan þennan tíma frá 1990 hafi stefnandi verið með dálítið af lyfjameðferð, bætiefni og meðferð vegna skurðaðgerða sem hún hefur farið í og líka verkjameðferð með sterkum verkjalyfjum, Morfín fast og 1996 hafi hún versnað af sjúkdómi sínum vegna stíflu í sogæð í hægra ganglim, sem brugðist hafi verið við með aukinni lyfjagjöf, bæði vegna verkjameðferðar og krabbameinslyfjum. Síðan segir í vottorðinu: „1996 þegar sjúklingur skrifaði undir víxil, var hún að nota Morfín, ofnæmislyf, sem bæði geta gert dómgreind sjúklings sljóa, ofan á þetta var á þeim tíma hennar æxli að taka sig upp aftur eins og kemur fram í bréfinu, var gripið til sterkrar krabbameinsmeðferðar.“
Á dskj. nr. 32, sem er skattframtal stefnanda árið 1994, vegna tekna ársins 1993, eru heildareignir stefnanda taldar kr. 5.471.000 og skuldir samtals kr. 5.050.821. Í árslok á stefnandi þá 3 bifreiðar og gerð er grein fyrir a.m.k. 9 kaupum og sölum bifreiða það ár.
Álit dómsins:
Á það má fallast með stefnda að lýsing málavaxta og málsástæðna stefnanda sé frekar ruglingsleg og illa afmörkuð, en þó ekki svo að ekki verði lagður efnisdómur á kröfur stefnanda án frávísunar.
Með vísan til vottorða þeirra Þórarins Tyrfingssonar og Nick Cariglia svo og framburðar vitnisins, Antons Ófeigs, sambýlismanns stefnanda, telur dómurinn ósannað að heilsufari stefnanda hafi verið svo farið að hún hafi verið ófær um að undirgangast skuldbindingar sínar. Stefnandi gekkst í ábyrgð fyrir Baldvin Arngrímsson vegna lántöku hans hjá stefnda. Stóð það stefnanda næst að tryggja sig sem ábyrgðarmann gagnvart Baldvini, sem var aðalskuldarinn. Hvort sem stefnandi hafi haft beint samband við sparisjóðsstjóra stefnda eða ekki, þá er það ljóst að sambýlismaður stefnanda hafði samband við hann. Einnig ber að líta til sambands sambýlismanns stefnanda og Baldvins, sem virðist hafa verið samstíga Baldvini við húsakaupin og sambýlismaður stefnanda skrifar undir kaupsamninginn um húseignina við Baldvin samkvæmt umboði fyrir hönd seljanda hennar, sem var margnefndur Gunnlaugur Halldórsson.
Við skuldbreytingu lánsins 1995 ber að líta til þess að hér er um sömu aðalskuldara og ábyrgðarmenn að ræða og voru að upphaflegu skuldinni og fram er komið að stefndi hefur ekki hagnast á lánveitingu sinni til Baldvins og ekki er hann að bjarga eigin innheimtumálum með henni.
Dómurinn fellst ekki á að í þessu tilviki eigi við ógildingar- og hliðrunarreglur 31., 33. og 36. gr. laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 14, 1995 og lög nr. 11, 1986.
Þá má einnig líta til þess að stefndi hefur fallið frá öllum frekari fjárkröfum á hendur stefnanda út af ábyrgðarskuldbindingu hennar.
Samkvæmt þessu er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður, þ.e.a.s. hvor aðili beri kostnað sinn af málarekstrinum sjálfur.
Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Sparisjóður Höfðhverfinga, er sýknaður af kröfu stefnanda, Sigríðar K. Guðmundsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.