Hæstiréttur íslands
Mál nr. 576/2009
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Bifreið
- Húftrygging
- Vörslur
- Gáleysi
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 2010. |
|
Nr. 576/2009. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) gegn Steinþóri Friðrikssyni (Árni Pálsson hrl.) |
Vátryggingasamningur. Bifreiðir. Húftrygging. Vörslur. Gáleysi.
Tjón varð á bifreið S, er bifreiðin var tekin ófrjálsri hendi fyrir utan heimili S og henni ekið út af vegi, með þeim afleiðingum að hún stórskemmdist. S krafði V hf. um bætur vegna kostnaðar af viðgerð á bifreiðinni. V hf. neitaði greiðslu með vísan til ákvæðis í vátryggingarskilmálum tryggingar bifreiðarinnar, þar sem kveðið væri á um að ökutæki skyldi vera læst þegar enginn væri í því og geyma skyldi lykla á öruggum stað. Var einkum um það deilt hvort varsla lyklanna hefði verið með fullnægjandi hætti umrætt sinn, en tjónvaldurinn hélt því fram að bifreiðin hefði verið ólæst og lyklar í kveikjulásnum. S og sambýliskona hans héldu því hins vegar fram að lyklarnir hefðu verið varðveittir á borði inni á ólæstu heimili þeirra, og var framangreint lagt til grundvallar í málinu. Þá var ekki talið unnt að meta S það til gáleysis, í skilningi fyrrgreindra tryggingaskilmála, að hafa ólæstar útidyr á heimil sínu. Var því fallist á bótaskyldu V hf. gagnvart S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. október 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Steinþóri Friðrikssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. júlí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. júní sl., höfðaði Steinþór Friðriksson, kt. [...], hér fyrir dómi gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 3.488.687 krónur auk vaxta samkvæmt 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. janúar til 3. mars 2009, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefnda krefst þess aðallega að verða sýknað af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins barst lögreglu árla morguns hinn 4. október 2008 tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um ökumann í annarlegu ástandi á Nissan Terrano jeppa á Hálsum milli Raufarhafnar og Þórshafnar á leið til Þórshafnar. Fór lögregla á vettvang og sá hvar farþegi var tekinn upp í bifreiðina UL-160, þar sem bifreiðin YM-691 af gerðinni Nissan Terrano fannst svo mannlaus og föst í gljúpum jarðvegi utan vegar við Leirtjarnarháls. Lögregla elti bifreiðina UL-160, stöðvaði hana og handtók farþegann vegna gruns um ölvunarakstur og fíkniefnaakstur, sem síðar var staðfestur. Taldi hann sig hafa tekið bifreiðina á Þórshöfn og verið á leið til Akureyrar, en raunar hafði bifreiðin staðið við bæinn Höfða skammt sunnan Raufarhafnar. Við nánari athugun kom í ljós, að bifreiðin YX-026 af gerðinni Chevrolet Captiva, í eigu stefnanda, hafði horfið á Þórshöfn umrædda nótt og hafði henni verið ekið í átt til Raufarhafnar, þar til hún stöðvaðist utan vegar á Fjallgarðinum vestanverðum. Í skýrslu lögreglu segir jafnframt, að samband hafi verið haft við eiganda þeirrar bifreiðar, stefnanda, sem hafi sagt, að kveikjuláslyklar hennar hafi verið á borði á ólæstu heimili sínu og því hlyti sá sem hana tók í heimildarleysi að hafa farið inn í húsið, tekið lyklana og farið á bifreiðinni án þess að hann yrði þess var. Í lögregluskýrslu kemur jafnframt fram, að sambýliskona stefnanda, Nanna Steina Höskuldsdóttir, hafi staðfest þann framburð. Þá er í skýrslu lögreglu haft eftir tjónvaldi, að hann hefði verulega drukkinn tekið svartan jeppling á Þórshöfn eftir að hafa gengið á milli bifreiða í leit að ólæstri bifreið með lyklana í, en sú bifreið, jepplingurinn, hafi verið ólæst og lyklarnir verið í kveikjulásnum. Hafi hann síðan ekið henni áleiðis til Akureyrar, þótt hann myndi lítið eftir akstrinum. Eftir að hafa ekið bifreiðinni út af veginum, hafi hann fundið aðra ólæsta bifreið með lyklum í kveikjulásnum á bóndabæ, sem hann hefði gengið til, og hefði hann tekið hana og ekið áleiðis til Akureyrar, að hann hafi talið. Þegar hann hefði fest þá bifreið einnig, hefði hann fengið far hjá manni, sem hefði sagt honum að hann væri á rangri leið.
Samkvæmt gögnum málsins fór stefnandi fram á það við stefnda, að tjón bifreiðarinnar YX-026 yrði bætt af stefnda úr húftryggingu bifreiðarinnar, svonefndri al-kaskótryggingu. Var því hafnað af stefnda með fyrirliggjandi bréfi í málinu, dagsettu 8. október 2008, þar sem stefnda hélt því fram með vísan til fyrirliggjandi gagna í málinu, að tjónið væri ekki bótaskylt samkvæmt grein 6.3 í skilmálum húftryggingarinnar, en þar segi að ökutæki skuli vera læst þegar enginn sé í því og geyma skuli lykla á öruggum stað. Var ákvörðun stefnda skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem kvað upp úrskurð sinn hinn 25. nóvember 2008, þar sem talið var, að varsla kveikjuláslykla bifreiðarinnar hafi ekki verið með fullnægjandi hætti og því væri ekki um bótaskyldu vátryggingafélagsins að ræða í þessu tilviki með vísan til nefndrar greinar í vátryggingarskilmálum aðila. Lét stefnandi þá gera við bifreiðina á eigin kostnað, en krafðist þess með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2009, að viðgerðarkostnaður samkvæmt framlögðum reikningi, sem nemur stefnufjárhæðinni, yrði bættur úr kaskótryggingu bifreiðar sinnar. Var því hafnað með bréfi stefnda til lögmanns stefnanda hinn 11. febrúar 2009 með vísan til nefnds úrskurðar. Liggja öll greind gögn fyrir dóminum.
Ágreiningur málsins lýtur því aðallega að því, hvort varsla kveikjuláslykla bifreiðarinnar YX-026 hafi verið með fullnægjandi hætti umrætt sinn, þegar tjónvaldur tók umrædda bifreið í heimildarleysi, og þá hvort um bótaskyldu vátryggingafélagsins geti verið að ræða.
II.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Kvað hann sambýliskonu sína, Nönnu Steinu Höskuldsdóttur, hafa notað bifreiðina síðast daginn áður en henni var stolið og hefði enginn notað hana eftir það. Kvaðst hann hafa farið niður á neðri hæð húss síns með syni sínum upp úr kl. 8 morguninn eftir. Skömmu síðar hafi tengdamóðir hans hringt og tilkynnt honum, að bifreið sinni hefði verið stolið þá um nóttina og hún væri á leið að vitja hennar, þar sem henni hefði verið ekið út af þjóðveginum. Þá hafi hún hringt aftur og spurt, hvort bifreið hans hefði verið stolið, sem hann hafi ekki talið, en svo litið út og séð, að hún var horfin. Aðspurður kvað hann bifreiðina hafa verið læsta og lyklana geymda á borði á heimili sínu, þar sem þeir væru alltaf geymdir, en á lyklakippunni væru jafnframt lyklar að fyrirtækjum sínum og sambýliskonu sinnar. Því væru lyklarnir alltaf geymdir inni, en hvorki í bifreiðinni, né annars staðar, þar sem fólk næði til þeirra, enda væru mikil verðmæti í þeim fyrirtækjum, sem þau rækju. Auk þessa mundi bifreiðin ýla, ef lyklarnir væru ekki teknir úr kveikjulásnum. Það væri því ekki hægt að gleyma þeim í henni. Taldi hann því útilokað, að þeir hefðu verið geymdir úti í bifreiðinni. Hann kvað hann rétt vera, að útidyr heimilis síns hefðu verið ólæstar og taldi konu sína ekki hafa læst þeim, þegar hún hefði komið heim. Sagði hann, að í því litla samfélagi, sem þau byggju í, læstu þau ekki alltaf útidyrum hússins og jafnvel þótt farið væri úr húsi. Aðspurður um það, hvort hann hefði athugað það sjálfur hvort bifreiðinni hefði verið læst eða lyklunum komið fyrir í skál á borði á heimili hans eftir síðustu notkun hennar, kvaðst hann ekki hafa kannað það sérstaklega. Hann hefði alltaf getað gengið að lyklunum vísum á þeim stað, enda væri venja hjá þeim að leggja lyklana í skál á borðinu.
Nanna Steina Höskuldsdóttir, sambýliskona stefnanda, gaf skýrslu í málinu. Kvaðst hún hafa sótt son sinn á leikskóla síðdegis á föstudegi og farið heim og lagt bifreiðinni fyrir utan heimili sitt. Síðla kvölds hafi hún svo farið til vinnu á veitingastað, sem þau reki. Þá hafi hún farið á annarri bifreið en þeirri sem stolið var og verið í vinnu þar til um hálffjögur um nóttina. Þegar hún hafi komið heim, hafi hún læst bifreiðinni, farið með lyklana inn og lagt í skál á gangi á heimili sínu. Þá hafi legið þar fyrir lyklar úr hinni bifreiðinni frá því fyrr um daginn. Á lyklakippunum tveimur, sem hefðu að geyma lykla bifreiðanna hvorrar um sig, kvað hún hafa verið lykla að fyrirtækjum, sem hún hefði rekið, en þar hefðu legið nokkur verðmæti. Þá væri bifreiðin dýr, sem stolið var, og sonur hennar hefði átt það til að fara inn í hana. Því hefði hún það fyrir reglu að fara alltaf með lyklana inn og leggja á sama stað á heimili sínu, hvort heldur hún væri á annarri bifreiðinni eða hinni. Að því búnu hafi hún svo farið upp á aðra hæð og lagst til svefns. Móðir hennar hafi svo hringt morguninn eftir og sagt, að bifreið sinni hefði verið stolið. Skömmu síðar hafi móðir hennar hringt aftur og spurt, hvort bifreið þeirra hefði einnig verið stolið. Taldi hún ekki, en þegar hún hafi litið út, hafi hún séð, að bifreiðin var horfin. Í sömu mund hafi móðir hennar komið að bifreiðinni, þar sem hún hafi legið utan vegar við Fjallgarðinn rétt hjá Raufarhöfn. Þá hafi hún kannað með lykla bifreiðarinnar. Taldi hún tilviljun hafa ráðið því, hvorri bifreiðinni hefði verið stolið og að viðkomandi hefði aðeins tekið þá lykla sem hendi voru næst, enda hefði þeirri bifreið, sem stolið var, verið lagt innar en hinni og því hefði viðkomandi þurft að bakka henni út úr bifreiðastæði. Taldi hún óhugsandi að lyklarnir hefðu verið í bifreiðinni. Þegar bílstjórahurð hennar sé opnuð og lyklar enn í kveikjulásnum, þá byrji bifreiðin að „klingja“ og þurfi að fjarlægja lyklana „til að pípið hætti.“ Aðspurð taldi hún geymslustað lyklanna vera öruggan, þótt hún hefði gleymt að læsa útidyrahurð heimilis síns, enda liti hún svo á að heimili sitt væri öruggur geymslustaður og fólk ætti ekki að vera að koma þangað inn.
Jón Stefánsson, lögregluvarðstjóri, gaf skýrslu fyrir dóminum í síma. Hann kvaðst hafa fengið tilkynningu frá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um ökumann í annarlegu ástandi á Hálsum milli Raufarhafnar og Þórshafnar. Hafi hann lagt af stað frá Þórshöfn og tekið Ragnar Skúlason, héraðslögreglumann, með í förina inni í Þistilfirði. Vestan til í Þistilfirði hafi þeir tekið eftir bifreið fyrir framan sig, sem hefði stansað stutta stund við bifreið sem þar var stödd utan vegar. Þá hafi þeir haldið á eftir bifreiðinni og stöðvað hana. Ökumanninn hafi þeir þekkt sem Albert Sigurðsson, en með honum hafi verið farþegi sem reyndist tjónvaldur. Ökumaðurinn hafi sagst hafa tekið farþegann upp í við Nissan Terrano bifreið, sem var utan vegar við Leirtjarnarhálsinn. Farþeginn hafi svo verið handtekinn og færður til Þórshafnar vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur, enda greinilegt, að hann hefði verið undir nokkrum áhrifum. Hefði áfengismælir sýnt 2,0 prómill af vínanda í öndunarsýni. Maðurinn hefði ekki vitað hvert hann hefði verið að fara en talið sig vera á leið til Akureyrar frá Þórshöfn, þar sem hann hefði tekið bifreiðina. Það hafi ekki getað staðist, þar sem bifreiðin hafði verið tekin í leyfisleysi skammt sunnan Raufarhafnar við bæinn Höfða. Vegna ruglanda í framburði hans hefði vaknað grunur um að maðurinn hefði tekið aðra bifreið á Þórshöfn og ekið vestur, en tekið síðari bifreiðina við bæinn Höfða. Í ljós hefði komið, að maðurinn hefði tekið aðra bifreið, jeppling, á Þórshöfn og ekið honum vestur, nokkrum sinnum út af á leiðinni og hafnað svo utan vegar í Fjallgarðinum vestanverðum, þar sem hann hefði ekki komist lengra. Þaðan hefði hann gengið að bænum Höfða, þar sem hann hefði tekið Nissan bifreiðina og ætlað til Akureyrar, en ekið til baka í átt til Þórshafnar. Hafi maðurinn lítið munað eftir atvikum við skýrslutöku morguninn eftir og hafi framburður hans verið mjög þokukenndur og ógreinilegur. Hafi hann ekkert munað hvar hann hefði tekið „þennan svarta jeppling,“ en hann hafi nefnt bæði svartan jeppling og Nissan Terrano bifreið. Að lokinni skýrslutöku á lögreglustöð hafi maðurinn svo verið frjáls ferða sinna. Aðspurt kvað vitnið hvergi koma fram í gögnum málsins að tjónvaldur hefði talað um að hann hefði farið inn á nokkurt heimili og kvað vitnið enga rannsókn hafa farið fram á heimili stefnanda. Þá kvað vitnið aðspurt enga tilkynningu hafa borist um innbrot.
Albert Sigurðsson, vörubílstjóri, gaf símaskýrslu í málinu. Kvaðst hann hafa verið á leið í vinnu snemma morguns og komið að manni, sem gekk erfiðlega að koma sér upp á veginn, en hann hafi komið frá bifreið, sem þar hafi verið. Hafi hann því stöðvað bifreið sína og rætt við manninn, sem hafi gengið illa þar sem maðurinn hefði verið í annarlegu ástandi, æstur og verið kalt. Taldi vitnið, að mikið hefði gengið á og að maðurinn hefði verið „að alla nóttina.“ Hann hafi verið illa klæddur og illa áttaður. Hann hafi þegið far með sér upp í vinnubúðirnar til að hlýja sér. Um bílinn hafi maðurinn sagt, að hann hefði verið á barnum á Þórshöfn, en lent í deilum við vin sinn og farið á annarri bifreið þaðan, en hvorki gefið upp hvernig bifreið það hafi verið, hvernig hann hefði fengið hana, né vitað hver hafi átt hana. Hafi það ekki verið „í frásögur færandi, hvernig hann talaði“ og hann „vissi aldrei hvort hann væri að koma eða fara.“
Ragnar Skúlason, héraðslögreglumaður, gaf skýrslu í málinu í síma. Hann sagði að hringt hefði verið í sig rétt fyrir kl. sex um morguninn og hann beðinn að vera tilbúinn í lögregluklæðnaði, því mikið lægi á. Svo hafi Jón komið og þeir hafi brunað vestur Þistilfjörð. Hafi þeir séð bíl á undan sér, sem hafi stoppað uppi á Leirtjarnarhálsi augnablik. Þegar þeir hafi komið þar að, sem bíllinn hafði stoppað, hafi verið þar Terrano jeppi utan vegar, en enginn hafi verið í bifreiðinni. Hafi þeir haldið áfram og stöðvað bifreiðina, sem var á undan þeim. Ökumaður þeirrar bifreiðar, Albert, hafði tekið farþega upp í við Terrano jeppann, en sá hafi virst ölvaður og jafnvel undir áhrifum annarra efna. Hafi hann átt erfitt með mál vegna drykkju eða einhverrar vímu og munað lítið. Hafi hann ekkert vitað hvar hann væri, hvernig í ósköpunum hann hefði komist þangað eða hvert hann hefði verið að fara. Því hafi þeir flutt manninn með sér til Þórshafnar. Þar hafi maðurinn ekkert skilið hvað hann væri að gera hjá lögreglu eða hvað væri að gerast. Eitthvað hafi svo farið að rifjast upp fyrir honum hvað gerst hefði: hann hefði verið labbandi einhvers staðar úti í hrauni, gengið yfir á, verið inni í einhverju fjárhúsi og ætlað að bjarga lífi sínu með því að taka bifreiðina, því hann hefði farið úr fjárhúsinu, þar sem hann hafi verið „að deyja úr kulda.“ Var vitnið viðstatt skýrslutöku af manninum og sagði þá eitthvað hafa rifjast upp fyrir honum, en ekki mikið. Hann hafi munað það, að hann hefði tekið einhvern bíl ófrjálsri hendi. Aðspurður um það hvort maðurinn hefði munað atvik vel í skýrslutökunni, þá kvað vitnið það ekki hafa verið mjög skýrt í fyrstu, en þetta hafi smám saman rifjast upp fyrir manninum. Hann hefði játað að hafa tekið bifreiðina og lýst því að hann hefði gengið um þorpið og tekið í hurðir á mörgum bifreiðum, þar til hann hefði fundið ólæsta bifreið.
III.
Í málinu er deilt um bótaskyldu stefnda á tjóni stefnanda vegna kostnaðar af viðgerð á bifreiðinni YX-026. Óumdeilt er í málinu, að bifreiðin var tekin ófrjálsri hendi þar sem henni var lagt fyrir utan heimili stefnanda aðfaranótt 4. október 2008, henni ekið út af vegi og hún stórskemmd. Hefur stefnda hafnað bótaskyldu á þeim grundvelli, að bifreiðin hafi verið ólæst og kveikjuláslyklar hennar hafi ekki verið geymdir á öruggum stað, sem stríði gegn skilmálum í vátryggingarsamningi aðila. Byggir stefnda hér á framburði tjónvalds í skýrslu hans hjá lögreglu, þar sem hann lýsir því svo, að bifreiðin hafi verið ólæst og lyklarnir í henni. Þá hefur úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafnað því að stefnda sé bótaskylt, þar sem varsla kveikjuláslykla bifreiðarinnar hafi ekki verið með fullnægjandi hætti. Telur stefnda að meta beri framburð tjónvalds trúverðugri en framburð stefnanda og sambýliskonu hans, sem bæði hafi beina hagsmuni af því að tjónið fáist bætt úr húftryggingunni, stefnandi sem kaupleigutaki og bótaábyrgur fyrir tjóninu gagnvart kaupleigusala og sambýliskona hans sem sjálfskuldarábyrgðarmaður fyrir öllum skuldbindingum stefnanda samkvæmt kaupleigusamningnum.
Í grein 6.3 í skilmálum húftryggingar bifreiðarinnar, sem hefur að geyma varúðarreglu, segir, að ökutæki, sem tryggt sé með tryggingunni, skuli vera læst, þegar enginn er í því og að geyma skuli lykla á öruggum stað. Þá segir í 7. gr., að skylt sé að fara eftir varúðarreglum skilmálanna, og sé þeim ekki fylgt, þá geti ábyrgð félagsins fallið niður í heild eða að hluta, sbr. 26. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Í því ákvæði, sem fjallar um brot á varúðarreglum, segir, að vátryggingafélag geti gert fyrirvara um, að það skuli laust úr ábyrgð í heild eða hluta, ef varúðarreglum er ekki fylgt. Slíkan fyrirvara geti félagið þó ekki borið fyrir sig, ef ekki sé við vátryggðan að sakast eða sök hans sé óveruleg eða það, að vátryggingaratburður hafi orðið, verði ekki rakið til brota hans. Þá segir ennfremur, að þótt vátryggingafélag geti samkvæmt nefndu ákvæði borið fyrir sig að varúðarreglum hafi ekki verið fylgt, megi samt leggja á það ábyrgð að hluta með hliðsjón af því hvers konar varúðarreglu hafi ekki verið sinnt, sök vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð hafi borið að og atvikum að öðru leyti. Samkvæmt þessu og með vísan til athugasemda við nefnt ákvæði í frumvarpi til laganna hvílir sönnunarbyrði fyrir því að vátryggður hafi brotið varúðarreglu vátryggingarsamnings og að orsakasamband sé milli þess brots og vátryggingaratburðar á vátryggingafélagi vátryggðs. Óumdeilt er þó í málinu, að orsakasamband sé milli þess, að bifreiðin var tekin ófrjálsri hendi og vátryggingaratburðarins.
Stefnda byggir í málinu á framburði tjónvalds eins og haft er eftir honum í lögregluskýrslu 4. október 2008, en stefnandi hefur haldið því fram frá öndverðu að bifreiðin hafi verið læst og lyklarnir á borði inni á heimili sínu, og er svo haft eftir honum í frumskýrslu lögreglu, þegar haft var samband við hann vegna atburðarins. Þá staðfesti sambýliskona hans m.a. þá staðhæfingu stefnanda í samtali við lögreglu samkvæmt skýrslunni. Hafa þau bæði frá öndverðu sagt svo frá að bifreiðin hafi verið læst og lyklarnir geymdir á nánar greindum stað. Af vætti vitna, sem komið hafa fyrir dóminn, verður ráðið, að framburður tjónvalds hafi verið þokukenndur og misvísandi, þegar skýrsla var tekin af honum. Það er hins vegar skýrlega eftir honum haft það atriði, að hann hafi gengið um á Þórshöfn og tekið í hurðir bifreiða í leit að ólæstri bifreið með lykla í kveikjulásnum. Af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi komið þannig að síðari bifreiðinni sem hann tók ófrjálsri hendi um nóttina. Tjónvaldurinn kom ekki fyrir dóminn til að greina frá atvikum, þrátt fyrir kvaðningu og gerðu aðilar ekki kröfu um að frekar yrði aðhafst til að fá hann fyrir dóminn. Þrátt fyrir eindreginn framburð tjónvalds fyrir lögreglu um það atriði að hann hefði fundið ólæsta bifreið á Þórshöfn með kveikjuláslykli í verður að líta til þess að öll gögn benda til þess að hann hafi verið mjög ölvaður er hann tók bifreiðina og jafnvel undir áhrifum annarra vímugjafa. Verður ekki gegn eindreginni staðhæfingu stefnanda og sambýliskonu hans, sem samkvæmt frumskýrslu lögreglu var höfð uppi þegar fyrst var haft samband við þau vegna málsins, talið sannað með framburði tjónvalds að bifreiðin YX-026 hafi staðið ólæst fyrir utan heimili stefnanda og kveikjuláslykillinn verið í henni. Verður því ekki annað lagt til grundvallar, en að bifreiðin hafi staðið læst fyrir utan heimili stefnanda og kveikjuláslyklarnir verið varðveittir á borði inni á heimilinu ólæstu. Samkvæmt þessu verður krafa stefnanda um bætur úr hendi stefnda tekin til greina.
Varakröfu sinni til stuðnings vísar stefnda til þess, að það að hafa hús sitt ólæst og geyma bíllykla á símaborði á gangi fullnægi ekki áskilnaði í gr. 6.3 í skilmálum húftryggingarinnar um að geyma þá á öruggum stað, enda sé þannig boðið heim hættu á að óreglumenn og þjófar fari inn í húsið, taki lyklana og steli bifreiðinni. Því sé um sök að ræða hjá stefnanda, sem taka beri tillit til við ákvörðun bóta.
Stefnandi hefur viðurkennt, að hús sitt hafi verið ólæst umrædda nótt, en taldi það hafa verið vegna þess, að sambýliskona sín hefði gleymt að læsa útidyrahurð, þegar hún hafi komið seint heim úr vinnu.
Heimili njóta friðhelgi víðs vegar í löggjöf, m.a. í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Liggur refsing við því að fara inn á heimili fólks í óleyfi. Enda þótt fallast megi á, að undir vissum kringumstæðum megi meta það manni til gáleysis að hafa útidyr heimilis síns ólæstar, svo þangað geti gengið inn fólk í misjöfnum tilgangi, verður ekki talið, eins og hér stendur á, að meta eigi það manni til gáleysis í skilningi gr. 6.3 í skilmálum húftryggingarinnar, sem um ræðir í máli þessu, að hafa ólæstar útidyr á heimili sínu, þegar þar dvelja heimilismenn eða annað fullburða fólk, sem ekki er þar óvelkomið. Verður heimili stefnda undir þessum kringumstæðum talið vera öruggur staður í þessum skilningi. Því verður þessari málsástæðu stefnda fyrir lækkun stefnukröfu málsins hafnað.
Stefnda fer fram á, að stefnukrafa verði lækkuð í samræmi við skilmála húftryggingarinnar, þar sem eigin áhætta vátryggðs er sögð vera 58.300 krónur. Hefur verið fallist á það af hálfu stefnanda og verður sú krafa lögð til grundvallar.
Þá heldur stefnda því fram, að það hafi ekki svarað kostnaði að láta gera við bifreiðina, en viðgerðarkostnaður hennar nemi hærri fjárhæð en staðgreiðsluverðmæti hennar á tjónsdegi og stefnda sé óskylt að greiða hærri bætur en nemur þeirri fjárhæð, sbr. gr. 14.1 og gr. 16.2 í húftryggingarskilmálunum. Í gr. 14.1 segir, að vátryggingarverðmæti ökutækis sé sú upphæð, sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri og gæðum, kosti á almennum markaði á tjónsdegi, miðað við staðgreiðsluviðskipti. Þá segir í gr. 16.2 að verði algjört tjón á ökutæki, ráði vátryggingafélagið því, hvort það greiði vátryggingarverðmæti gegn afsali fyrir ökutækinu eða mismun á vátryggingarverðmæti og verðmæti ökutækis eftir vátryggingaratburð.
Þótt fallist sé á það sjónarmið stefnda að lækkun á stefnufjárhæðinni komi til álita með vísan til ofangreindra atriða hafa engin gögn verið lögð fram í dóminum eða leitað nokkurs mats um það, hvert staðgreiðsluverðmæti bifreiðarinnar var á tjónsdegi. Verður því ekki önnur fjárhæð lögð til grundvallar en sú, sem stefnandi hefur krafist og er studd af framlögðum reikningi um kostnað vegna viðgerðar á bifreiðinni, en tillit verður tekið til eigin áhættu stefnanda eins og áður greinir.
Verður stefnda því dæmt til að greiða stefnanda 3.430.387 krónur. Kröfu stefnanda um almenna vexti, sem styðst við ákvæði 1. mgr. 50. gr. laga nr. 30/2004, er ekki sérstaklega mótmælt og verður tekin til greina. Dráttarvextir verða dæmdir frá þeim tíma sem krafist er, en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi krafðist greiðslu með bréfi 3. febrúar 2009.
Þá verður stefnda dæmt til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilegur 550.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, greiði stefnanda, Steinþóri Friðrikssyni, 3.430.387 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. janúar 2009 til 3. mars sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.