Hæstiréttur íslands
Mál nr. 583/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 6. nóvember 2009. |
|
Nr. 583/2009. |
Sverrir Bragi Sverrisson (Ástráður Haraldsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
S höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og krafðist miskabóta og viðurkenningar á því að ríkið hafi bakað sér skaðabótaskyldu með því að ganga fram hjá honum við ráðningu þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæslunni. Talið var að S hafi ekki leitast við að sýna fram á að hann hafi orðið eða muni verða fyrir tjóni. Væri því ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort til bótaskyldu hafi stofnast. Málatilbúnaður varðandi viðurkenningarkröfuna fullnægi ekki skilyrðum 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og sé ekki nægilega skýr og fari því í bága við d- og e- liði 1. mgr. 80. gr. laganna. Þá væri ekkert fjallað um miskabótakröfuna í stefnu og ekki yrði ráðið af málatilbúnaði S hverjar röksemdir væru fyrir henni. Væri hún því vanreifuð. Var málinu af þessum sökum vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður verði látinn niður falla.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sverrir Bragi Sverrisson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2009
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 31. ágúst sl., var höfðað 13. janúar 2009 af Sverri Braga Sverrissyni, Geitlandi 6, Reykjavík, gegn dómsmálaráðherra vegna Landhelgisgæslu Íslands og samgönguráðherra vegna Flugmálastjórnar Íslands, báðum f.h. íslenska ríkisins.
Stefnandi krefst þess
-að viðurkennt verði að stefndi hafi með því að ganga fram hjá stefnanda við ráðningu þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæslu 20. nóvember 2007 bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda og
-að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 15. janúar 2009. Krafist er málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Í stefnu var þess einnig krafist að viðurkennt yrði að stefnda bæri að láta stefnanda í té upplýsingar um flugréttindi Andra Jóhannessonar, Brynhildar Ástu Bjartmarz og Marion Andrée Simone Herrera 10. september 2007, þar með talið svonefndar áritanir og skráða flugtíma. Í þinghaldi 31. ágúst sl. voru þessar upplýsingar lagðar fram og var þá fallið frá þessari kröfu af hálfu stefnanda og jafnframt lýst yfir að þar með væru engar kröfur gerðar í málinu á hendur samgönguráðherra.
Af hálfu stefnda er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi en til vara er kafist sýknu. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til þrautavara er krafist að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn falla niður.
Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfunni. Í þessum þætti málsins er þess krafist af hálfu stefnda að málinu verði vísað frá dómi og að stefnda verði ákveðinn málskostnaður að mati dómsins en til vara að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms. Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfu stefnanda verði synjað og að málskostnaður verði úrskurðaður sérstaklega í þessum þætti málsins.
I.
Stefnandi sótti um þyrluflugmannsstarf hjá Landhelgisgæslu Íslands. Af hans hálfu er vísað til þess að tilkynnt hafi verið um ráðningu þriggja þyrluflugmanna 20. nóvember 2007. Stefnandi telur að brotið hafi verið á ýmsan hátt gegn stjórnsýslureglum við þær ráðningar og þar með á rétti hans þannig að skaðabótaskyldu varði.
Stefnandi vísar til þess að með málsókninni neyti hann heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leita að svo stöddu dóms eingöngu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda. Stefnandi vísar til stuðnings kröfu sinni til þess mismunar á launum og hlunnindum þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæslunni og þeirra launa sem hann njóti í starfi sem flugmaður Air Greenland AS.
Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á því að Landhelgisgæsla Íslands, ein af stofnunum stefnda, íslenska ríkisins, hafi með ólögmætum og saknæmum hætti sniðgengið stjórnsýslureglur við ráðningu ofangreindra þyrluflugmanna. Stefnandi telji að hann hafi staðið umræddum aðilum framar í öllum þeim skilgreindu hlutlægu mælikvörðum sem leggja hafi mátt á í tengslum við ráðningu í starfið. Að auki væri starfsreynsla hans slík, einkum í þyrluflugi, að engan samjöfnuð væri að hafa meðal þeirra þriggja sem ráðin voru. Hann hafi búið að reynslu af 1332 klukkustunda fartíma sem þyrluflugmaður þegar ráðningin var afráðin. Ráðningarnar gætu ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum þar sem hlutræn viðmið um starfsreynslu og fartíma á þyrlu hefðu verið hunsuð. Þá hafi verið orðrómur á kreiki um að í það minnsta sumir þeirra sem ráðnir voru hefðu notið ætternis eða kunningsskapar við starfsmenn Landhelgisgæslunnar þegar ákvörðun um ráðningu var tekin.
Við ráðningu flugmannanna hafi verið gengið á svig við þá grundvallarreglu stjórnsýsluréttar að ráða beri hæfasta umsækjandann í það starf sem er ráðstafað hverju sinni. Samkvæmt hlutlægu mati hafi stefnandi verið hæfastur til starfans en af hálfu stefnda virtist á því byggt að hæfni umsækjenda hafi verið metin fyrst og fremst á grundvelli „samstarfshæfileika“. Engin gögn hafi verið látin í té af hálfu stefnda sem sýndu hvernig „samstarfshæfileikar“ voru metnir. Ekki verði heldur séð að auglýsing um störfin hafi borið með sér að áhersla yrði lögð á slíka hæfileika við ráðningu í þau.
Við alla stjórnsýslu þurfi að gæta þess að starfsmenn sem að ákvarðanatöku komi séu ekki vanhæfir til afskipta af viðkomandi málefni. Þess þurfi að gæta í umfjöllun um ráðningar að þær séu afráðnar í samræmi við fyrir fram þekktar forsendur og að málefnisleg sjónarmið séu lögð til grundvallar. Sé kallað eftir rökstuðningi og gögnum vegna ákvörðunar beri stjórnvaldi að verða við því þannig að fram komi að málefnalega hafi verið staðið að ákvarðanatöku. Landhelgisgæsla Íslands hafi brugðist í öllum þessum atriðum.
Landhelgisgæslan hafi neitað að afhenda gögn. Þessi synjun sé ólögmæt enda á því byggt af hálfu stefnda að framúrskarandi umsækjendur hafi verið ráðnir og að þeir hafi verið hæfastir. Ómögulegt sé á að glöggva sig á réttmæti þessara staðhæfinga þegar ekkert hafi verið lagt fram þeim til stuðnings. Stefnandi eigi samkvæmt 15. gr. laga nr. 37/1993 rétt til aðgangs að þeim gögnum sem lögð voru til grundvallar við ákvörðun um ráðningu þyrluflugmannanna. Önnur lagaákvæði takmarki ekki þann rétt og ekki reyni heldur á lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga enda engin krafa gerð um slíkar upplýsingar annarra umsækjenda sem leynt eigi að fara og málefninu óviðkomandi. Þrátt fyrir þetta hafi Landhelgisgæslan ekki orðið við þessum kröfum stefnanda og því verði að telja óstaðfestar og ósannaðar fullyrðingar stefnda um að þeir sem ráðnir voru hafi komið best út úr prófunum og viðtölum og skarað fram úr. Verði því ekki annað lagt til grundvallar en að staðið hafi verið að ráðningunum með ólögmætum og saknæmum hætti sem leiði til bótaskyldu stefnda.
Vegna þeirrar skyldu Landhelgisgæslunnar að velja aðeins hæfustu umsækjendur til að gegna starfi þyrluflugmanns þurfi að fara fram heildstæður samanburður á umsóknum þar sem lögð sé megináhersla á atriði sem geti varpað ljósi á væntanlega frammistöðu í starfi áður en afstaða er tekin til þess hverjum verði veitt starfið. Þótt ekki hafi verið lögfestar almennar reglur, sem kveði á um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við ráðningu í opinber störf, og stefndi hafi af þeim sökum nokkurt svigrúm til að ákveða það, þá séu þessu svigrúmi reistar afdráttarlausar skorður. Val á sjónarmiðum verði að vera málefnalegt og gæta verði að jafnræði umsækjenda. Beri einkum að líta til menntunar, sérstaklega þeirrar sem nýtist í starfi, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeirra persónulegu eiginleika sem máli geti skipt við rækslu starfans.
Menntun og starfsreynsla vegi þyngst en mjög veigamikil rök verði að vera til þess að víkja frá þessum hlutrænu mælikvörðum. Stefnandi búi að yfirburða reynslu sem þyrluflugmaður, þar á meðal þekkingu og reynslu af þyrluflugi við erfiðar aðstæður umfram þá einstaklinga sem ráðnir voru. Þar nægi að nefna starfsferil stefnanda sem þyrluflugmanns við Grænland þar sem veður geti verið enn vályndari en á Íslandi. Áhersla á persónulega eiginleika geti aldrei rutt úr vegi þeirri grunnreglu að ráðningu verði að byggja á hlutlægu mati á starfsreynslu og menntun. Engin gögn hafi verið kynnt eða sýnd sem styðji að sérsjónarmið um samskiptahæfni hafi í raun verið það sem stefndi lagði til grundvallar. Að auki liggi ekkert fyrir um að þessi hæfileiki hafi verið sérstaklega rannsakaður markvisst hjá öllum umsækjendum. Loks liggi engin gögn eða upplýsingar fyrir sem styðji að þeir sem ráðnir voru hafi skarað fram úr öðrum umsækjendum í þessum efnum. Þá skorti algerlega fullnægjandi rökstuðning fyrir því að þetta tiltekna sjónarmið eigi að ráða úrslitum við ráðninguna. Sjónarmiðið snúi að þröngt afmörkuðum þætti í starfi þyrluflugmanna en virtist vega þyngra en hæfni og reynsla af þyrluflugi. Þessa sjónarmiðs hafi í engu verið getið í auglýsingu um starfið. Samskiptahæfni verði ekki mæld á hlutlægan mælikvarða. Stefndi hafi neitað að upplýsa allt er lýtur að mati sínu í þessu efni, í skjóli persónuverndar. Fallist dómstólar á að slík stjórnsýsla fái staðist jafngildi það því að afnema kröfur um málefnalega stjórnsýsluhætti enda gætu stjórnvöld þá hagað málum eftir geðþótta, vísað á mat á persónulegum eiginleikum og neitað að fjalla um málið frekar eða sýna forsendur matsins. Sjónarmið um kynjajafnrétti eigi ekki við í málinu og geti því ekki ráðið úrslitum í máli þessu stefnanda í óhag.
Varðandi frávísunarkröfuna er af hálfu stefnanda vísað til þess að kröfugerð stefnanda uppfylli öll skilyrði réttarfarslaga. Krafan um viðurkenningu á skaðabótaskyldu byggist á sakarreglunni. Bótagrundvöllurinn sé mismunur á launum, eins og frá greini í stefnu, þ.e. mismunur á launum og hlunnindum þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæslunni og launum sem hann njóti í starfi sem flugmaður Air Greenland AS. Auðvelt sé að átta sig á því á hvaða grundvelli málið sé reist. Varðandi miskabótakröfuna vísi stefnandi til þess að hún sé reist á 26. gr. skaðabótalaga. Rétt hefði verið að vísa til þess í stefnu en sá ágalli geti þó ekki varðað frávísun á miskabótakröfunni enda megi lagarök koma fram á hvaða stigi málarekstursins sem er.
II.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að nokkrar reglur hafi verið brotnar við starfsráðningar þyrluflugmannanna þriggja. Við ráðningar flugmanna sé unnið eftir viðurkenndum reglum. Sálfræðilegt próf sé lagt fyrir umsækjendur af óháðum aðila sem leggi mat á þá og spái fyrir um líkur á því hvernig hæfileikar þeirra nýtist til áhafnasamstarfs, töku ákvarðana og fleira. Einnig sé lagt fyrir bóklegt próf þar sem metin er þekking umsækjenda á flugmálum. Við mat á því hverjir væru hæfastir í umrædd störf hafi ákveðin atriði verið lögð til grundvallar sem öll hafi verið í samræmi við það sem fram hafi komið í auglýsingu um þau. Samanburður á hæfni umsækjanda hafi allur verið byggður á lögmætum sjónarmiðum. Gætt hafi verið að reglum um vanhæfi varðandi þá sem komu að ráðningarferlinu.
Mótmælt er að forstjóri Landhelgisgæslunnar hafi vanrækt rannsóknarskyldur sínar eða verið vanhæfur varðandi einn umsækjandann eða að tveir starfsmenn sem komu að málsmeðferðinni hafi verið vanhæfir. Því er einnig mótmælt að nokkur ómálefnaleg sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar við ráðstöfun starfanna. Ekki sé ómálefnalegt að meta hæfni til starfa á grundvelli samstarfshæfileika og staðhæfingar stefnanda um að sú áhersla komi ekki fram í auglýsingunni standist ekki. Landhelgisgæslan hafi vegið og metið umsækjendur út frá þeim verkefnum sem þeir kæmu til með að sinna samkvæmt lögum um landhelgisgæsluna, þar á meðal lögreglu- og björgunarstörfum. Gott áhafnarsamstarf sé talið afskaplega mikilvægt við slíkar aðstæður. Samsetning áhafnar skipti einnig máli en það sé alveg gild og málefnaleg ástæða að velja yngri eða reynsluminni flugmann með eldri flugstjóra. Í auglýsingu hafi starfsreynsla ekki verið gerð að skilyrði. Sérstaka þjálfun þurfi í umrædd störf en leitar- og björgunarflug sé frábrugðið öðru flugi. Ekki sé sjálfgefið að reynsla af öðrum þyrlutegundum en þeim sem notaðar eru hjá Landhelgisgæslunni myndi nýtast við umrödd störf. Tveir umsækjendur hafi skarað fram úr öðrum varðandi margvíslega persónulega þætti í prófi sálfræðings og í viðtölum og annar þeirra hafi jafnframt verið með hæstu einkunn á bóklega prófinu. Sá sem var næsthæstur á bóklega prófinu hafi einnig skarað fram úr í viðtali og í ákveðnum þáttum í sálfræðiprófi sem áhersla var lögð á og hafi þar að auki verið með næstflesta flugtíma og starfsreynslu af þyrluflugi. Landhelgisgæslan hafi að öllu leyti staðið faglega að mati á samskiptahæfileikum og mati á andlegu atgervi. Markmiðið hafi verið að ráða hæfustu umsækjendurna og það hafi verið gert.
Skilyrði skaðabótaskyldu séu á engan hátt uppfyllt. Engum saknæmum eða ólögmætum atvikum sé til að dreifa er stofnað gætu til skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi heldur ekki á nokkurn hátt gert líklegt að hann hafi verið hæfastur, hvað þá að hann hefði verið ráðinn, hefði ætluðum annmörkum ekki verið til að dreifa. Stefnandi hafi heldur ekki á nokkurn hátt gert líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni en hefði einhverju slíku verið til að dreifa hefði honum verið í lófa lagið að setja fram skaðabótakröfu.
Kröfu stefnanda um miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur sé eindregið vísað á bug. Miskabótakrafa stefnanda sé algerlega vanreifuð og sé krafist sýknu af henni verði henni ekki vísað frá dómi. Mat á umsækjendum hafi verið málefnalegt og lögmætt og hafi stefnandi ekki orðið fyrir neinum miska fremur en aðrir umsækjendur um störf hjá ríkinu sem ekki verði fyrir valinu. Til vara sé krafist stórkostlegrar lækkunar kröfunnar.
Frávísunarkrafa stefnda er reist á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður og óljós að varði frávísun máls þessa frá dómi. Kröfugerð stefnanda lúti að viðurkenningu skaðabótaskyldu vegna starfsráðningar og miskabótum. Þessar kröfur séu óljósar og vanreifaðar í stefnu þannig að varði frávísun þeirra, sbr. ákvæði d- og e-liða 80. gr. laga um meðferð einkamála. Engin umfjöllun sé um þær eða grundvöll þeirra í skýringum á málsástæðum og lagarökum í stefnu og ekki einu sinni leitast við að vísa þar til viðeigandi skaðabótareglna. Ekki sé vísað í neinar reglur um bótaábyrgð og ekki vikið að lagagrundvelli miskabótakröfunnar en miskabætur verði ekki dæmdar nema skýr fyrirmæli séu um slíkt í lögum.
Málatilbúnaðar stefnanda sé þannig að grundvöllur málsins geti ekki verið annar en skaðabótakrafa. Inntak reglunnar um skaðabótaábyrgð sé að bæta tjón. Krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála leysi stefnanda ekki undan þeirri skyldu að gera grein fyrir því að skilyrði skaðabótaskyldu sé uppfyllt og að honum beri að sýna fram á tjón. Engri slíkri umfjöllun sé fyrir að fara í stefnu eða ætlað tjón reifað. Þótt stefnandi vísi til launamismunar hafi ekki verið leiddar líkur að því að hann hefði orðið fyrir tjóni eða sýnt fram á að tjón hafi hlotist af bótaskyldri háttsemi. Engu tjóni sé í reynd til að dreifa en stefnandi sé á hærri launum hjá núverandi vinnuveitanda en hann hefði haft hjá Landhelgisgæslunni. Auk þess hafi þeim þremur sem ráðnir voru og voru með stystan starfsaldur hjá stofnuninni verið sagt upp störfum í kjölfar bankahrunsins vegna hagræðingar í rekstri. Hefði stefnandi verið ráðinn hefðu sömu örlög beðið hans. Með kröfunni um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, án þess að gerð hafi verið grein fyrir tjóninu, sé í raun krafist lögfræðilegs álits en það sé ekki heimilt samkvæmt 1. mgr. 25. gr. framangreindra laga. Þá nægi ekki að vísa til 26. gr. skaðabótalaga varðandi miskabótakröfuna við munnlegan málflutning. Í lagagreininni sé vísað til mismunandi hagsmuna. Stefnandi hafi ekki gert grein fyrir því til hverra hagsmuna hann vísi varðandi miskabótakröfuna. Varðandi dráttarvaxtakröfuna sé ekki krafist ákveðins vaxtafótar og ekki vísað til lagaákvæða.
III.
Krafist er í málinu viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda en skilyrði þess að skaðabótaskylda verði talin fyrir hendi er að sýnt hafi verið fram á að tjón hafi orðið. Í málatilbúnaði stefnanda kemur ekki fram á hvern hátt stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna hinnar meintu saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda, sem stefnandi lýsir, að öðru leyti en því að vísað er til mismunar á þeim launum og hlunnindum þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæslunni og launum sem stefnandi njóti í starfi sem flugmaður Air Greenland AS.
Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna kom fram af hálfu stefnanda að ekki lægi fyrir grundvöllur fjártjóns stefnanda en í málinu væri aðeins krafist viðurkenningar á bótaskyldu. Af hálfu stefnda er haldið fram að engu tjóni sé til að dreifa en stefnandi sé á hærri launum hjá núverandi vinnuveitanda en hann hefði haft hjá Landhelgisgæslunni.
Stefnandi hefur ekki leitast við að sýna fram á að hann hafi orðið eða verði fyrir tjóni af ástæðum sem hann lýsir, enda nægir ekki að vísa til launamismunar, sem ekki liggur fyrir hver er eða hvort hefur þýðingu í þessu sambandi. Verður af þessum sökum ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort til bótaskyldu hafi stofnast af hálfu stefnda gagnvart stefnanda eins og stefnandi krefst að viðurkennt verði. Málatilbúnaður stefnanda hvað viðurkenningarkröfuna varðar fullnægir þar með ekki skilyrðum 1. og 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála og hann er ekki nægilega skýr og fer því í bága við d- og e-liði 80. gr. sömu laga.
Í stefnu er ekkert fjallað um miskabótakröfuna og ekki verður heldur ráðið af málatilbúnaði stefnanda hverjar röksemdir stefnandi telur vera fyrir henni. Með vísan til þess verður að telja kröfuna vanreifaða sem fer í bága við e-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála.
Samkvæmt framangreindu ber að vísa málinu frá dómi.
Stefnanda verður gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Úrskurðinn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Sverrir Bragi Sverrisson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað.