Hæstiréttur íslands
Mál nr. 738/2014
Lykilorð
- Lánssamningur
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Gengistrygging
- Kröfugerð
- Lögvarðir hagsmunir
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Miðvikudaginn 13. maí 2015. |
|
Nr. 738/2014.
|
Landsbankinn hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn KSÍ ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Lánssamningur. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gengistrygging. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.
K ehf. höfðaði mál á hendur L hf. til viðurkenningar á því að samningur K ehf. við LÍ hf. frá árinu 2006 um „reikningslánalínu“ fæli í sér skuldbindingu um ólögmæta gengistryggingu, en L hf. hafði á árinu 2008 tekið við réttindum LÍ hf. samkvæmt þeim samningi. Við mat á lögmæti samningsins taldi Hæstiréttur að líta yrði til þess að hann hefði verið gerður um fyrirgreiðslu LÍ hf. við K ehf. með svonefndri lánalínu, sem K ehf. var heimilt að ganga á. Setti samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti þeirra. Hefðu kröfuréttindi LÍ hf. ekki orðið til fyrr en með útborgun láns samkvæmt ósk K ehf., en um fjárhæð þess, þar á meðal gjaldmiðil, og gjalddaga stóð K ehf. ekki að öðrum skjölum en lánsbeiðnum vegna hvers ádráttar. Taldi Hæstiréttur að samningurinn væri því ekki lánssamningur, svo sem K ehf. hefði miðað við í kröfugerð sinni, heldur hefðu lánssamningar falist í beiðnum hans, sem LÍ hf. hefði samþykkt í verki með útborgun lána. Dómkröfur K ehf. beindust ekki að þeim lánssamningum og var K ehf. því ekki talinn hafa fært rök fyrir því að hann hefði lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur yrði felldur á kröfur hans. Þess utan vísaði Hæstiréttur til þess að óumdeilt væri að K ehf. hefði endurgreitt lánin sem hann hefði tekið hjá LÍ hf. innan ramma samningsins og þar með hefðu báðir að fullu efnt einstaka lánssamninga á grundvelli hans. Hefði K ehf. ekki í málatilbúnaði sínum skýrt hvaða lögvörðu hagsmuni hann hefði af að fá nú dóm um viðurkenningu á atriðum í áðurgreindum lögskiptum sínum við LÍ hf. Var málinu því vísað án kröfu frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 4. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. október 2014 og var áfrýjað öðru sinni 19. nóvember sama ár. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur þannig að viðurkennt verði „að lánasamningur númer 0101-36-5756, dagsettur 22. september 2006, upphaflega milli Landsbanka Íslands hf. og stefnda, um 1.000.000.000 króna reikningslánalínu, sem varð eign áfrýjanda í október 2008, hafi ásamt lánsbeiðnum dagsettum 22. september 2006, 4. október 2006, 23. október 2006, 28. nóvember 2006, 28. desember 2006, 29. janúar 2007, 18. júní 2007, 30. júlí 2007, 20. ágúst 2007, 25. júní 2008, 29. desember 2008 og 21. júlí 2009, falið í sér ólögmæta gengistryggingu skuldbindinga stefnda í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.“ Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu stefndi og Landsbanki Íslands hf. samning 22. september 2006 með yfirskriftinni: „Kr. 1.000.000.000,- Viðskiptasamningur um reikningslánalínu“, þar sem fram kom í upphafi meginmáls að bankinn hafi samþykkt að veita stefnda sem lántaka „framkvæmdafjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð kr. 1.000.000.000,- í íslenskum krónum eða þeim erlendu gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með“. Skyldi bankinn hafa til reiðu fyrir stefnda reikningslánalínu með fyrrgreindri fjárhæð, en innan marka hennar væri „lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með.“ Skyldi hver lánshluti sem stefndi tæki teljast „sjálfstætt lán.“ Hámarkstími hvers lánshluta átti að takmarkast af gildistíma samningsins, sem var frá undirritun hans til 1. ágúst 2007, en lánstími yrði þó ekki skemmri en tveir dagar ef um væri að ræða „lán í erlendum myntum.“ Gjalddagi lánshluta virðist hafa átt að vera háður ósk lántaka í lánsbeiðni, en tekið var fram að heimilt væri að „framlengja einstaka lánshluta með sama hætti og gildir um lánsbeiðnir.“ Kveðið var á um að undirrituð lánsbeiðni þyrfti að berast frá stefnda um einstaka lánshluta í íslenskum krónum fyrir tiltekinn tíma þess dags, sem hann óskaði eftir að fá lánsféð greitt, en með tveggja bankadaga fyrirvara væri um að ræða „erlendan lánshluta“ og yrði hann greiddur inn á reikning lántakans „miðað við kaupgengi hverrar myntar“. Ákvæði voru um að frá útborgunardegi til gjalddaga skyldi greiða svonefnda REIBOR vexti með 0,7% álagi af lánshluta í íslenskum krónum, en LIBOR vexti með sama álagi af lánshluta í erlendum gjaldmiðlum. Varðandi endurgreiðslu var tekið fram að væri lánshluti í erlendum gjaldmiðli skyldi lántaki standa skil á henni „í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga“, en honum væri heimilt á gjalddaga að greiða „í lántökumyntum.“
Með framangreindum samningi fylgdi lánsbeiðni sem stefnda var ætlað að fylla hverju sinni út og undirrita. Í beiðninni, sem beina átti til Landsbanka Íslands hf., var vísað til „viðskiptasamnings“ þeirra frá 22. september 2006 og því lýst að stefndi óskaði eftir afgreiðslu lánshluta eins og þar væri nánar tiltekið. Voru eyður á þessu skjali til að fylla út lántökudag, „mynt og upphæð“, gjalddaga, vaxtakjör, númer reiknings til að leggja lánsfé inn á og númer reiknings til að skuldfæra endurgreiðslu af. Eftir gögnum málsins óskaði stefndi á tímabilinu frá 22. september 2006 til 30. júlí 2007 í samtals átta skipti eftir því að fá greiddan til sín lánshluta og fyllti í því skyni hverju sinni út fyrrgreint eyðublað. Í öllum tilvikum var fjárhæð væntanlegs láns tilgreind í íslenskum krónum og tekið síðan fram ýmist „50% JPY 50% CHF“ eða það sama ritað í gagnstæðri röð, en skammstöfunin JPY hefur væntanlega merkt japönsk jen og CHF svissneska franka. Í öllum tilvikum var lántökudagur og gjalddagi færður á eyðublaðið, svo og að vaxtakjör yrðu „Libor + 0,7“, en reikningur til að leggja lán inn á var að einu tilviki undanskildu tilgreindur og mun hann hafa tilheyrt stefnda og verið í íslenskum krónum. Eyða vegna reiknings til að skuldfæra endurgreiðslu af var á hinn bóginn í engu tilviki útfyllt. Á þessum grunni fékk stefndi samtals að láni 635.000.000 krónur.
Gögn málsins um endurgreiðslu stefnda á skuldum, sem hann stofnaði til samkvæmt framangreindu, eru ekki í öllum atriðum skýr, en óumdeilt er að hann hafi staðið skil á þeim og virðist það hafa verið gert á tímabilinu frá 16. febrúar 2007 til 22. desember 2009. Kveðst stefndi hafa í þessu skyni greitt samtals 1.016.697.669 krónur. Á tímabili þessara endurgreiðslna neytti Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., leysa stjórn félagsins frá störfum og setja yfir það skilanefnd, en með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins síðar í sama mánuði var ýmsum réttindum og skyldum þess banka ráðstafað til áfrýjanda. Óumdeilt er að meðal þeirra réttinda hafi verið kröfur á hendur stefnda, sem þá voru enn ógreiddar.
II
Stefndi höfðaði mál þetta 24. september 2013 og krafðist þess í héraðsdómsstefnu að viðurkennt yrði að „tengingar skuldbindinga hans samkvæmt lánssamningi við Landsbanka Íslands hf. 22. september 2006 við gengi erlendra gjaldmiðla séu ógildar í lögskiptum málsaðila.“ Þá krafðist hann þess einnig að viðurkennt yrði að samningur þessi „feli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.“ Við munnlegan flutning málsins í héraði 13. mars 2014, sem endurtekinn var 28. maí sama ár, var fært til bókar að stefndi gerði „þær dómkröfur að lánssamningur aðila, dagsettur 22. september 2006, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu.“ Með hinum áfrýjaða dómi var þessi krafa stefnda tekin til greina á þann hátt að viðurkennt var að samningurinn 22. september 2006 fæli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001. Í greinargerð fyrir Hæstarétti krafðist stefndi staðfestingar héraðsdóms, en við munnlegan flutning málsins breytti hann kröfugerð sinni í það horf sem greinir í upphafi dóms þessa.
Samkvæmt framansögðu sneru dómkröfur stefnda fyrir héraðsdómi, bæði upphaflegar kröfur hans og sú endanlega, eingöngu að samningi hans við Landsbanka Íslands hf. frá 22. september 2006, sem stefndi nefndi lánssamning í kröfugerðinni. Málatilbúnaður stefnda í héraðsdómsstefnu laut nær eingöngu að ákvæðum þess samnings, en að einstökum lánum, sem veitt voru í skjóli hans, var á hinn bóginn aðeins vikið tvívegis í stefnunni. Annars vegar á þann hátt að greint var frá því að stefndi hafi dregið „átta sinnum á lánið“ á tímabilinu 25. september 2006 til 30. júlí 2007 samtals 635.000.000 krónur, sem hafi verið greiddar inn á reikning hans hjá Landsbanka Íslands hf. í íslenskum krónum. Hins vegar með því að ítrekað var að „allir lánshlutar“ hafi verið greiddir út í þeim gjaldmiðli, en kaupnótur, sem bankinn hafi gefið út og hafi átt að sýna „einhver meint gjaldeyrisviðskipti“, gætu vart skipt máli þar sem hann hafi aldrei lánað stefnda gjaldeyri. Í endanlegri dómkröfu stefnda fyrir Hæstarétti er þannig ekki aðeins í fyrsta sinn vikið í kröfugerð hans að einstökum lánsbeiðnum, sem hann gerði á grundvelli samningsins frá 22. september 2006, heldur eru þær taldar þar upp í fyrsta sinn í málatilbúnaði hans og að auki á þann hátt að greint er þar einnig frá fjórum beiðnum, sem voru um framlengingu á eldra láni. Með því móti, sem áður greinir, hefur stefndi breytt dómkröfu sinni fyrir Hæstarétti svo að andstætt sé 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og tekur hún jafnframt orðið til atriða, sem engar málsástæður voru færðar fyrir í héraðsdómsstefnu. Að þessu virtu getur stefndi ekki komið að fyrir Hæstarétti þessari breytingu og verður þannig við það að miða að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms, svo sem fram kom í greinargerð hans hér fyrir dómi.
III
Þegar metið er hvort samningur stefnda við Landsbanka Íslands hf. 22. september 2006 hafi verið um lán á fjárhæð í íslenskum krónum, sem bundin hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, þarf að líta til þess að samningurinn var gerður um fyrirgreiðslu bankans við stefnda með svonefndri lánalínu, sem stefnda yrði heimilt að ganga á. Hvorki var í samningnum að finna yfirlýsingu stefnda um að hann stæði í skuld við bankann né myndaði hann kröfuréttindi bankans á hendur stefnda, heldur setti samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti milli þeirra með ákvæðum um beiðni um lán, útborgun þess, vexti af því og endurgreiðslu. Kröfuréttindi bankans urðu ekki til fyrr en með útborgun láns samkvæmt ósk stefnda, en um fjárhæð þess, þar á meðal gjaldmiðil, og gjalddaga stóð stefndi ekki að öðrum skjölum en fyrrnefndum lánsbeiðnum. Samningurinn frá 22. september 2006 var því ekki lánssamningur, svo sem stefndi hefur miðað við í kröfugerð sinni, heldur fólust lánssamningar í beiðnum hans, sem bankinn samþykkti í verki með útborgun lána. Dómkröfur stefnda beinast samkvæmt áðurgreindu ekki að þeim lánssamningum. Hann hefur ekki fært rök fyrir því að hann hafi að þessu virtu lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur verði felldur á kröfur hans.
Auk þess, sem áður segir, verður ekki horft fram hjá því að óumdeilt er að stefndi endurgreiddi á árunum 2007 til 2009 lánin, sem hann tók hjá Landsbanka Íslands hf. innan ramma samnings þeirra frá 22. september 2006. Með þeim endurgreiðslum lauk af hendi þeirra beggja fullum efndum einstakra lánssamninga, sem sá samningur sneri að, og leið réttarsamband þeirra á þeim grunni því undir lok. Í skriflegum málatilbúnaði stefnda hefur hvergi verið skýrt hvaða lögvarða hagsmuni hann hafi af því að fá nú dóm um viðurkenningu á atriðum í þessum lögskiptum sínum við Landsbanka Íslands hf. Þá verður einnig að gæta að því að þau skipti stefnda voru við þann banka en ekki áfrýjanda nema að því leyti sem sá síðastnefndi tók við endurgreiðslu lána eftir framsal kröfuréttinda gagnvart stefnda í október 2008. Hefur stefndi heldur ekki skýrt á hvaða grunni hann hafi hagsmuni af dómi á hendur áfrýjanda.
Af þeim sökum sem að framan greinir verður að vísa máli þessu án kröfu frá héraðsdómi. Rétt er að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, KSÍ ehf., greiði áfrýjanda, Landsbankanum hf., samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 28. maí sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af KSÍ ehf., Laugardalsvelli, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 24. september 2013.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði að samningur stefnda við stefnanda, dagsettur 22. september 2006, feli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnda.
II
Málavextir eru þeir, að hinn 22. september 2006 gengu Landsbanki Íslands hf., og stefnandi frá svokölluðum viðskiptasamningi um reiknislánalínu að fjárhæð 1.000.000.000 króna. Samkvæmt samningnum skyldi Landsbanki Íslands hf. hafa til reiðu fyrir stefnanda lán í íslenskum krónum svo og öllum algengum gjaldmiðlum, sem bankinn ætti viðskipti með. Í 17. gr. samningsins sagði undir lið 17.1 að hann gilti frá undirritun til 1. ágúst 2007. Í lið 17.2 sagði svo að ef annar hvor samningsaðila hefði ekki sagt samningnum upp með skriflegum hætti með þriggja mánaða fyrirvara framlengdist hann um sex mánuði.
Stefnandi dró átta sinnum á lánið frá 25. september 2006 til og með 30. júlí 2007 samtals að höfuðstól 635.000.000 krónur. Samkvæmt lánsbeiðnum var mynt og upphæð tilgreind 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen og fjárhæðin í íslenskum krónum. Landsbanki Íslands hf. greiddi lánsféð allt út í íslenskum krónum inn á reikning stefnanda hjá bankanum nr. 101-26-501202, en samkvæmt framlögðum kaupnótum fóru fram gjaldeyrisviðskipti við útgreiðslu lánsins, þar sem tilgreindar voru þær erlendu myntir sem stefnandi seldi fyrir íslenskar krónur. Öll lánin voru ítrekað framlengd með undirritun stefnanda á lánsbeiðnir, en í þeim var lánsfjárhæðin einungis tilgreind í erlendum myntum. Númer lánsins hjá Landsbanka Íslands hf. var 5756. Hélst það við flutning lánsins til stefnda. Stefnandi kveður lánsféð hafa verið notað til framkvæmda við Laugardalsvöll.
Endurgreiðsla lánsins miðaðist við gengi erlendra gjaldmiðla. Endurgreiðslan fór fram á árunum 2007 og lauk henni 22. desember 2009. Stefnandi hafði þá samtals greitt 1.016.697.669 krónur. Af þeirri fjárhæð voru 533.070.004 krónur greiddar stefnda á árinu 2009.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf, dagsett 27. júlí 2011 og svo aftur 13. ágúst 2012, þar sem þess var kafist að lánin samkvæmt lánssamningunum yrðu endurreiknuð og stefnanda endurgreitt það sem honum hefði verið gert að greiða umfram skyldu.
Með bréfi stefnda, dagsettu 26. júlí 2012, tilkynnti stefndi stefnanda að lánið yrði ekki endurreiknað.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að óheimilt hafi verið að binda skuldbindingar stefnanda samkvæmt lánssamningnum við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé einungis heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé þegar grundvöllur verðtryggingarinnar sé vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reikni eða að miðað sé við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi.
Litið hafi verið svo á að annars konar verðtrygging en ofangreind sé í andstöðu við lög. Vísar stefnandi um það til dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að í nefndum lögum hafi falist bann við því að „lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla“. Reglur laganna um þetta séu ófrávíkjanlegar og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Í dómunum komi einnig fram með skýrum hætti að „lán í erlendri mynt falli ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001.“ Í þessu felist að skuldbindingar í lánasamningum um greiðslu í erlendri mynt teljist gildar að lögum. Hæstiréttur hafi eftir að þessir dómar gengu, leyst úr því í allmörgum öðrum dómsmálum hvort skuldbindingar í lánasamningum teldust vera í erlendum myntum eða íslenskum krónum og miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Vísar stefnandi til dóms réttarins frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 og frá 17. janúar 2013 í máli nr. 286/2012, en þar segi m.a.: „með því að eina fjárhæðin sem beint eða óbeint var tilgreind í lánssamningnum, var í íslenskum krónum getur engum vafa verið háð að hann tók eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, að binda við gengi erlendra gjaldmiðla“. Í lánssamningi Landsbanka Íslands hf. og stefnanda hafi það verið svo að eina lánsfjárhæðin sem beinlínis sé nefnd hljóði upp á íslenskar krónur. Byggir stefnandi á því að vegna þessa verði að líta svo á að skuldbindingar hans samkvæmt samningnum hafi verið í íslenskum krónum og að ekki hafi verið heimilt að miða þær við gengi erlendra gjaldmiðla.
Við mat á því hvort lán sé gengistryggt eða það sé í erlendri mynt hafi dómstólar m.a. litið til heitis lánssamnings, tilgreiningar lánsfjárhæðar og vaxta auk þess sem litið hafi verið til tilhögunar á útborgun lánsfjárhæðar og greiðslu afborgana og vaxta. Heiti samningsins sem Landsbanki Íslands hf. hafi gert við stefnanda „KR. 1.000.000.000, - Viðskiptasamningur um reikningslánalínu“. Heiti samningsins bendi því til þess að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum.
Lánsfjárhæðin sé tilgreind bæði í heiti samningsins og í 2. kafla samningsins. Í grein 2.1 segi: „Bankinn skal hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð kr. 1.000.000.000, - eittþúsund milljónir 00/100.“ Í grein 2.2 komi svo fram að innan þessara marka sé lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn eigi viðskipti með. Því virðist samningurinn aðallega gera ráð fyrir því að lánið sé í íslenskum krónum en að stefnanda sé heimilt að óska eftir láni í erlendum gjaldmiðlum.
Í 5. kafla lánssamningsins sé fjallað um vexti af láninu. Í grein 5.1 komi fram að lánshlutar sem stefnandi tæki í íslenskum krónum skyldu miðast við Reibor-vexti eins og þeir væru skráðir að morgni þess dags sem lánið sé greitt út að viðbættu 0,70% álagi. Samkvæmt grein 5.2 (síðari greinin sem beri það nafn) í lánssamningnum skyldu vaxtakjör lánshluta í erlendum gjaldmiðlum vera LIBOR-vextir eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil fyrir hvert vaxtatímabil hverju sinni, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 0,70% álagi.
Þegar komi að mati á því hvernig útborgunum yrði hagað, greiðslum af láninu og vöxtum af því, hljóti að skipta mestu máli hvort útborganir af láninu hafi verið í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldeyri. Allir lánshlutar hafi verið greiddir út í íslenskum krónum. Kaupnótur, sem bankinn hafi gefið út og sýni einhver meint gjaldeyrisviðskipti, geti vart haft þýðingu, vegna þess að bankinn hafi aldrei lánað stefnanda gjaldeyri sem félagið hafi getað haft viðskipti með. Stefnandi hafi fyllt út lánsbeiðnir, þar sem óskað hafi verið eftir lánum í öðrum gjaldmiðlum og endurgreitt hluta lánsins í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum. Stefnandi hafi átt gjaldeyrisreikning hjá Landsbanka Íslands hf. en lánið hafi engu að síður alltaf verið greitt út í íslenskum krónum. Að öllu ofangreindu virtu telji stefnandi að lánssamningur nr. 5756, milli Landsbanka Íslands hf. og stefnanda, hafi verið lán í íslenskum krónum sem hafi á ólögmætan hátt verið bundið gengi erlendra gjaldmiðla.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að með undirritun sinni á útborgunarbeiðnir hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að taka lán í erlendum gjaldmiðlum, nánar tiltekið í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Stefndi telur að krafa hans á hendur stefnanda, samkvæmt hinum umdeildu lánssamningum séu skuldbindingar í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Byggir stefndi á því, að viðskiptasamningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, þ.e. útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla þess, beri það með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða.
Stefndi telur útilokað að líta á viðskiptasamning aðila frá 22. september 2006, sem eiginlegan lánssamning. Á forsíðu samningsins sé skýrt tekið fram að um sé að ræða „reikningslánalínu“. Þá vísar stefndi til þess að í grein 3.1 í samningnum segi, að „hver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimildar reikningslánalínunnar telst vera sjálfstætt lán“. Í ljósi þessa sé ljóst að viðskiptasamningur aðila sé ekki sjálfstætt lán heldur sé um að ræða lánalínu, en á grundvelli hennar hafi stefnandi átt þess kost að óska eftir láni. Líkt og fyrr greini hafi stefnandi óskað eftir láni í átta skipti á tímabilinu 22. september 2006 til 30. júlí 2007. Verði að líta á hverja þessara átta útborgana sem sjálfstæða lántöku og löggerning.
Stefnandi hafi fyllt út lánsbeiðnir, þar sem óskað hafi verið eftir láni í erlendri mynt og hafi hver lánshluti verið greiddur út í hinum umbeðnu erlendu myntum. Þá hafi afborganir af lánunum einnig verið inntar af hendi í erlendri mynt. Staðfesti þetta að umrædd átta lán aðila hafi verið veitt stefnanda í erlendri mynt. Stefndi vísar í þessu sambandi einnig til kaupnótna og millifærslukvittana, sem liggi að baki hverri útborgun, og sýni svart á hvítu að raunveruleg viðskipti hafi átt sér stað með gjaldeyri við lánveitinguna. Stefnandi hafi fengið framangreind gögn en aldrei gert athugasemdir við efni þeirra.
Í ljósi framangreinds sé haldlaust fyrir stefnanda að vísa til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 155/2011 og 386/2012, en í þeim báðum hafi verið um að ræða eiginlega lánssamninga þar sem eina tilgreining lánsfjárhæðar hafi verið í íslenskum krónum. Í máli þessu sé hins vegar ekki til að dreifa eiginlegum lánssamningi heldur séu lánsskuldbindingar aðila reistar á útborgunarbeiðnum, þar sem skýrlega sé óskað eftir láni í erlendri mynt.
Enn fremur beri að líta til þess að í framangreindum dómum hafi afborganir af umdeildum lánum ætíð verið inntar af hendi í íslenskum krónum, sem ekki sé reyndin í þessu máli. Í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi ætíð greitt af lánunum í erlendri mynt, en þar sem stefnandi hafi ekki átt gjaldeyrisreikning í japönskum jenum og svissneskum frönkum hafi hann keypt umræddar myntir ýmist með dollurum, evrum eða íslenskum krónum, líkt og framlagðar kaupnótur beri með sér. Að mati stefnda sé fráleitt að ætla að skuldbinding sem greidd sé til baka í erlendum myntum verði metin sem skuldbinding í íslenskum krónum. Stefnandi hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningum aðila í erlendum gjaldmiðlum.
Þá kveður stefndi að tekjustreymi stefnanda sé og hafi verið að miklu leyti í erlendri mynt, m.a. vegna styrkja frá Alþjóðlega knattspyrnusambandinu, FIFA, og Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, sbr. ársreikninga stefnanda frá árinu 2007, en þar sé beinlínis tekið fram að stefnandi hafi fengið styrki frá FIFA og UEFA vegna bygginga nýrra höfuðstöðva við Laugardalsvöll. Hafi stefnandi því tekið umþrætt lán hjá stefnda vitandi það að félagið ætti von á styrkjum í erlendri mynt. Í ljósi erlendu styrkjanna sé ekki óeðlilegt að stefnandi hafi viljað takmarka gengisáhættu sína með því að taka lán til framkvæmdanna einnig í erlendri mynt. Vísar stefndi í þessu tilliti til áritunar stjórnenda stefnanda í ársreikningi félagsins frá 2008, en þar segi orðrétt: „Rekstrarhagnaður sambandsins nam um 278 m.kr. samanborið við tap á árinu á undan að fjárhæð 35 m.kr. Þessi mikla breyting á rekstrarhagnaði skýrist af stórauknum tekjum í erlendri mynt. Tap samstæðu Knattspyrnusambands Íslands á árinu 2008 nam um 163 m.kr. Tap skýrist af miklu gengistapi af erlendu láni vegna framkvæmda á Laugardalsvelli en gengistap vegna þess nam á árinu tæpum 390 m.kr.“ Að mati stefnda sýni tilvitnaður texti vel tilgang og markmið stefnanda með lántöku sinni í erlendri mynt en með henni hafi félagið getað stýrt gengisáhættunni. Lánssamning aðila beri að skýra í þessu ljósi sem og í ljósi þeirra samtímagagna sem sýni skýrt að stefnandi hafi ætíð litið svo á að um væri að ræða lántökur í erlendri mynt.
Stefndi telur að einnig beri að líta til beiðna stefnanda um framlengingu lána en í þeim sé eina tilgreining lánsfjárhæðar í erlendri mynt, þ.e. í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Í þessu samhengi vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 14. nóvember 2013 í málinu nr. 337/2013, en í því hafi verið fallist á að samningsformið hafi verið eins og í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 155/2011, svokölluðu Mótormax-máli. Á hinn bóginn hafi Hæstiréttur talið að líta bæri til fimm viðauka sem gerðir hafi verið við samninginn í því skyni að breyta skilmálum hans um gjalddaga höfuðstóls og vaxta. Í þeim viðaukum hafi í öllum tilvikum verið tilgreindar eftirstöðvar lánsins í evrum. Í engu tilviki hafi eftirstöðvar verið tilgreindar í íslenskum krónum. Hafi Hæstiréttur talið þessar breytingar gefa vísbendingu um það viðhorf samningsaðila að lánið hafi verið veitt í evrum. Stefndi telur að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við í þessu máli enda sé vandséð hvaða tilgangi það þjóni að tilgreina lánsfjárhæðina í erlendri mynt í beiðnum um framlengingu, hafi lánið í reynd verið í íslenskum krónum.
Stefndi byggir á því að framangreind atriði varpi skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbindingar stefnanda samkvæmt hinum umþrættu lánssamningum séu sannarlega í erlendum myntum en ekki í íslenskum krónum. Þá verði heldur ekki annað ráðið af ársreikningum stefnanda fyrir árin 2007 til 2009 en að stefnandi hafi sjálfur litið á hinar umþrættu skuldbindingar sem skuld í erlendum gjaldmiðlum og viðurkenni með því lögmæti lánanna, enda beri stjórnendur hlutafélags ábyrgð á ársreikningi félags og útgáfu hans, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 3/1995, um einkahlutafélög og 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
Teljist skuldbindingar stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningum vera í íslenskum krónum byggir stefndi á því að honum hafi verið heimilt, samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001, að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna þar sem lánssamningarnir hafi sannarlega verið stefnanda til hagsbóta. Vísar stefndi í því samhengi til vaxtakjara stefnanda samkvæmt lánssamningunum, sem hafi verið umtalsvert betri en honum hefði ella boðist og vísar stefndi til þess að LIBOR-vextir hafi verið umtalsvert hagstæðari fyrir stefnanda en REIBOR-vextir á íslenskar krónur á því tímabili sem vaxtagreiðslur hafi verið inntar af hendi.
Stefndi byggir enn fremur á því, að hann hafi ekki haft neinar forsendur til að ætla, þegar lánin hafi verið veitt stefnanda, að lánveitingarnar kynnu að reynast stefnanda óhagstæðari heldur en aðrar þær leiðir sem val hafi staðið um, enda hafi tekjustreymi stefnanda mest verið í erlendri mynt. Vegna tekjustreymis stefnanda í erlendum gjaldmiðlum hafi engan veginn falist sama áhætta í því að taka erlent lán eins og fyrir þá sem njóti einungis tekna í íslenskum krónum. Byggir stefndi á því að ljóst hafi verið að stefnandi yrði ekki fyrir tjóni af gengisfalli krónunnar, m.a. vegna þess að stefnandi hafi átt erlendan gjaldeyri tiltækan á gjalddögum afborgana, sbr. ársreikning stefnanda árið 2008. Hafi því ekki verið fyrirsjáanleg gengisáhætta tengd lánunum hjá stefnanda þegar þau hafi verið veitt.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, almennra reglna samninga- og kröfuréttar, um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Mál þetta varðar ágreining um hvort lánssamningur sem stefnandi gerði við Landsbanka Íslands hf., hinn 22. september 2006, varði lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.
Um er að ræða svokallaðan viðskiptasamning um reikningslánalínu. Ákvæðum samningsins, sem mestu ráða við úrlausn ágreinings aðila, er lýst hér að framan. Eins og að framan er lýst er samningurinn á forsíðu sagður vera viðskiptasamningur um reikningslánalínu að fjárhæð 1.000.000.000 krónur og í upphafsorðum hans segir að bankinn lofi að veita lántaka framkvæmdafjármögnun í formi reikningslánalínu að fjáræð 1.000.000.000, eittþúsund milljónir 00/100, í íslenskum krónum eða þeim erlendu myntum sem bankinn á viðskipti með. Í samningnum er hins vegar hvergi sagt til um hvort lánið komi til með að verða í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu. Fjárhæð lánsins er þannig í grunninn ákveðin og tilgreind í íslenskum krónum. Hins vegar er gert ráð fyrir því að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teljist vera sjálfstætt lán og gert ráð fyrir sérstakri lánsbeiðni um einstaka lánshluta. Þrátt fyrir það verður að líta svo á að með undirritun aðila á hinn svokallaða viðskiptasamning hafi komist á lánssamningur milli þeirra með þeim skilmálum sem þar greinir.
Óumdeilt er að stefnandi dró átta sinnum á lánið samkvæmt framlögðum lánsbeiðnum, þar sem mynt og upphæð lánsins var tilgreind 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen og fjárhæðin í íslenskum krónum.
Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, m.a. eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Fyrir liggur að lánsfjárhæðirnar voru greiddar út í íslenskum krónum inn á íslenskan reikning stefnanda, og að láninu var ætlað að fjármagna byggingaframkvæmdir á Íslandi. Samkvæmt ákvæðum viðskiptasamningsins skuldbatt stefnandi sig til þess að endurgreiða lánin í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af. Stefnandi greiddi af láninu í erlendum gjaldmiðlum, enda átti hann gjaldeyrisreikning hjá Landsbankanum, en hann naut erlendra styrkja við þær framkvæmdir sem láninu var ætlað að fjármagna. Með því að einu fjárhæðir sem beint eða óbeint voru tilgreindar í lánsamningi og lánsbeiðnum, voru í íslenskum krónum og stefnandi fékk í samræmi við það greiddar íslenskar krónur, verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 386/2012. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt stefnandi hafi greitt af láninu í ýmsum erlendum myntum sem og síðari tilgreining lánsfjárhæðarinnar á beiðnum um framlengingu lánanna og enn síður þótt tilgreining lánsins sé svo í ársreikningum stefnanda.
Samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og dómafordæmi Hæstaréttar Íslands er lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil. Slík verðtrygging er ólögmæt og ógild. Stefndi hefur ekki sýnt fram á með gögnum eða á annan hátt að undantekningarákvæði í lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 um að óheimilt sé að semja um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum, en stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 603/2010. Þá getur forsenda stefnda fyrir lánveitingunni ekki breytt þeirri niðurstöðu. Þar af leiðandi er fallist á dómkröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila, dagsettur 22. september 2006, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt lögum nr. 38/2001.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkennt er að samningur stefnda við stefnanda, dagsettur 22. september 2006, feli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefndi Landsbankinn hf., greiði stefnanda, KSÍ ehf., 600.000 krónur í málskostnað.