Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2004


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Lausafjárkaup
  • Galli


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. júní 2004.

Nr. 30/2004.

Berglind Ósk Kjartansdóttir og

Guðrún Margrét Kjartansdóttir

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Ernu Hrund Grétarsdóttur

(Hilmar Magnússon hrl.)

 

Kaupsamningsgerð. Lausafjárkaup. Galli.

E, sem selt hafði B og G firmað Þ, krafði kaupendur um greiðslu eftirstöðva samkvæmt kaupsamningi, en þær kröfðust á móti riftunar samningsins á grundvelli vanefnda E, með því að upplýsingar sem fyrir lágu við kaupin um veltu Þ, hafi verið rangar og tækjabúnaður gallaður. Til vara kröfðust B og G skaðabóta eða afsláttar. Með hliðsjón af því sem fyrir lá í málinu þótti verða að leggja til grundvallar að raunveruleg velta í hinum selda rekstri hafi verið önnur og meiri en framlögð bókhalds- og skattgögn gáfu til kynna. Með framburði starfsmanns fasteignasölunnar sem haft hafði milligöngu um kaupin, var talið sannað að B og G hefði verið kynnt bankayfirlit um veltu Þ síðustu 17 mánuðina fyrir söluna og að þeim hafi sérstaklega verið bent á minni veltu síðustu mánaða. Því var ekki talið að B og G gætu byggt rétt á að hafa fengið rangar upplýsingar um veltu í rekstrinum. Á grundvelli matsgerðar voru B og G ekki taldar hafa sýnt fram á að hin seldu tæki hafi verið verulega gölluð í skilningi laga um lausafjárkaup nr. 50 /2000. Í samræmi við þessa niðurstöðu voru B og G dæmdar til greiðslu eftirstöðva kaupverðsins, að frádregnum einum lið skaðabótakröfu þeirra vegna viðgerðarkostnaðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2004. Endanlegar dómkröfur áfrýjenda eru aðallega að þær verði sýknaðar af kröfu stefndu og að staðfest verði með dómi riftun áfrýjenda 1. nóvember 2002 á kaupsamningi þeirra við stefndu 2. júlí 2002. Jafnframt verði stefndu gert að greiða áfrýjendum 1.097.865 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.057.000 krónum frá 8. nóvember 2002 til 14. janúar 2004, en af 1.097.865 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefjast áfrýjendur þess að stefndu verði gert að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 863.629 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. janúar 2003 til greiðsludags. Að því frágengnu krefjast þær greiðslu 822.764 króna úr hendi stefndu með dráttarvöxtum samkvæmt áðurnefndri lagagrein frá 14. janúar 2003 til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda hefur lagt fyrir Hæstarétt símbréf frá þjónustuveri Íslandsbanka hf. og skýrslu, sem Einar Harðarson gaf fyrir héraðsdómi Reykjavíkur 29. mars 2004.

I.

Með kaupsamningi 2. júlí 2002 seldi stefnda áfrýjendum „rekstur áhöld, tæki og nafn firmans „Þitt mál“, sem rekið hefur verið að Garðatorgi 7 í Garðabæ.“ Kaupverðið var 3.400.000 krónur og var í samningnum tekið fram að það byggðist annars vegar á áætluðu mati vörubirgða, tækja og áhalda að fjárhæð 2.005.485 krónur, en þau voru talin upp á lista er samningnum fylgdi, og hins vegar viðskiptavild firmans, sem metin væri á 1.394.515 krónur. Skyldu 500.000 krónur af kaupverðinu greiddar við afhendingu 3. júlí 2003, en eftirstöðvarnar með sex afborgunum á tímabilinu 4. september 2002 til 4. júlí 2003. Samkvæmt málatilbúnaði aðila mun hið selda hafa verið svonefnt „heilsustúdíó“, sem stefnda hafði keypt af Karínu Guðmundsdóttur og annarri nafngreindri konu tæpu ári áður fyrir 4.000.000 krónur.

Salan fór fram fyrir milligöngu fasteignasölunnar Laufáss. Meðal gagna málsins er söluyfirlit frá fasteignasölunni dagsett 15. apríl 2002. Er þar svofelld lýsing á hinu selda: „Heilsustúdíó með Euro Wave og hitaklefa. Hljóðbylgjur, ljós og leirvafningar. Var áður 5 ár í rekstri, hefur sjálf rekið fyrirtækið síðan í júní 2001. Velta 650 þúsund á mán. síðustu 2 ár. Tækin eru góð og lítið viðhalds er krafist. Er með veltitölur síðustu tvö ár og efnahagsreikn. síðan 2000. Verð 4,7 milljónir...“ Með þessu söluyfirliti fylgdi blað með fyrirsögninni „Verðlagning merkis og viðskiptavildar“. Er uppsettu verði rekstrarins þar skipt í þrennt: Tækjalisti 2.615.485 krónur, þriggja mánaða velta 1.662.180 krónur og viðskiptavild 422.335 krónur, samtals 4.700.000 krónur.

Áfrýjendur greiddu umsamda útborgun kaupverðs. Af 800.000 krónum, sem greiða skyldi 4. september 2002 greiddu þær 350.000 krónur 5. september 2002, 86.000 krónur 11. sama mánaðar og 120.000 krónur 16. sama mánaðar. Með bréfi 1. nóvember 2002 lýstu þær yfir riftun á kaupunum vegna vanefnda stefndu á kaupsamningnum þar sem í ljós hafi komið að ástand áhalda og tækja, er rekstrinum skyldu fylgja, hafi engan veginn samræmst yfirlýsingum áfrýjenda og enn fremur væri einsýnt að uppgefnar veltutölur hafi verið rangar. Með bréfi 8. nóvember 2002 hafnaði stefnda því að hún hafi vanefnt kaupsamninginn og kvaðst myndu halda fast við kaupin. Í máli þessu krefst stefnda greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum 2. júlí 2002 en kröfur áfrýjenda eru reistar á því að stefnda hafi vanefnt samninginn.

II.

Fyrir Hæstarétti reisa áfrýjendur aðalkröfu sína fyrst og fremst á því að hið selda hafi verið haldið galla þar sem þær upplýsingar, sem legið hafi fyrir við kaupin um veltu hins selda rekstrar, hafi verið rangar. Í söluyfirlitinu hafi verið upplýst að mánaðarleg velta hafi verið 650.000 krónur síðustu tvö ár og verðlagning í fylgiskjali söluyfirlits hafi byggt á að þriggja mánaða veltu að fjárhæð 1.662.180 krónur, sem samsvari rúmlega 554.000 króna mánaðarlegri veltu. Engar aðrar upplýsingar hafi legið fyrir við kaupin og engin bókhaldsgögn, ársreikningar eða virðisaukaskattgögn vegna rekstrarins hafi verið kynnt kaupendum. Þessi gögn, sem fram hafi verið lögð undir rekstri málsins, sýni hins vegar að veltan hafi verið mun minni eða tæpar 270.000 krónur að meðaltali á mánuði á þeim 11 mánuðum sem stefnda sá um reksturinn og rekstrarreikningur fyrir árið 2000 sýni að mánaðarleg velta það ár, í höndum forvera hennar, hafi verið tæpar 280.000 krónur. Stefnda hafi sjálf sagt svo frá í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að skýringin á þeim mun, sem sé á uppgefnum veltutölum í söluyfirliti annars vegar og tölum í bókhaldsgögnum hins vegar, sé sú að hún hafi gefið minni tekjur upp til skatts en reksturinn hafi í raun gefið af sér. Hafi hún viðurkennt að þær upplýsingar um veltu, sem á sé byggt í söluyfirliti, stafi frá henni. Það sé ósamrýmanlegt þeirri yfirlýsingu hennar að halda því fram að hún hafi gefið áfrýjendum upplýsingar um veltu rekstrarins samkvæmt bókhaldsgögnum og að þær tölur hafi verið lagðar til grundvallar kaupunum. Áfrýjendur mótmæla því að þeim hafi við kaupin verið kunnugt um að stefnda hafi ekki gefið upp alla veltu rekstrarins í bókhaldi þess og skattskilum. Telja áfrýjendur að gallinn hafi verið verulegur enda skipti velta afar miklu við ákvörðun um kaup á rekstri af þessu tagi og því sé mikilvægt að upplýsingar um hana standist. Eigi þær því rétt til riftunar.

Stefnda heldur því fram að áfrýjendum hafi verið fullkunnugt um á hvaða forsendum um veltu uppsett verð í söluyfirliti byggðist. Hafi hún sagt áfrýjendum að hluti af tekjum af rekstrinum hafi ekki verið gefinn upp í bókhaldi og skattskilum. Áfrýjendur hafi hins vegar ekki verið reiðubúnar til að miða kaupverðið við raunverulega veltu. Hafi síðara tilboð þeirra í reksturinn, sem samþykkt hafi verið og sé grunnur að kaupsamningum, miðast við veltu samkvæmt bókhalds- og virðisaukaskattgögnum, sem þær hafi fengið afhent. Sjáist það við samanburð á kaupsamningi annars vegar og fylgiblaði með söluyfirliti hins vegar að kaupverðið miðist við mánaðarlega veltu að fjárhæð um það bil 325.000 krónur. Kaupverðið sjálft og forsendur þess sé því ótvíræð sönnun þess að við kaupin hafi umrædd gögn legið fyrir. Þá styðji framburður Katrínar Guðmundsdóttur fyrri eiganda rekstursins þetta, en hún hafi fyrir héraðsdómi skýrt svo frá að stefnda hafi óskað eftir ársreikningum fyrir reksturinn til að sýna væntanlegum kaupendum og fengið þá. Það geri einnig framburður Steineyjar Bjargar Halldórsdóttur, sem séð hafi um bókhald fyrir stefndu, en hún hafi að beiðni stefndu sent í símbréfi virðisaukaskatts- og veltutölur úr bókhaldi rekstrarins til viðtakanda, sem hún taldi vera á vegum væntanlegs kaupanda. Hafi hún einnig borið að hún hafi gefið veltutölur fyrstu fjögurra mánaða ársins 2002 upp í síma, en bókhald vegna þeirra mánaða hafi hún verið búin að færa að beiðni stefndu. Þá sýni framburður Einars Harðarsonar, sem síðar verður rakinn, að áfrýjendur hafi verið mikið í sambandi við fasteignasöluna í tengslum við kaupin og hafi verið búnar að kynna sér reksturinn rækilega.

III.

Eins og að framan er getið var af hálfu stefndu lagt fram í Hæstarétti símbréf frá þjónustuveri Íslandsbanka hf. Símbréfið er ekki dagsett en ber með sér að hafa verið sent 5. júní 2002. Er texti bréfsins svohljóðandi: „Reikningseigandi: Þitt mál Mávahlíð 13 105 Reykjavík. Prókúruhafi: Erna Hrund Grétarsdóttir. Heildarvelta 2001 6.596 millj. Velta það sem af er árinu 1.401 millj. Fax sent skv. beiðni frá prókúruhafa.“

Þá hefur verið lögð fram skýrsla, sem Einar Harðarson sölumaður á fasteignasölunni Laufási gaf fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 29. mars 2004, eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk. Hann skýrði svo frá að Óskar Sigurðsson, þáverandi sölumaður, hafi í fyrstu algerlega haft með sölu á þessum rekstri að gera en hann hafi engu að síður fylgst með og vitað hvað var að gerast. Vitnið sagðist muna að áfrýjendur hafi gert tilboð í reksturinn, sem hafi verið hafnað. Hafi hann bent þeim á að þær þyrftu að skoða þetta vel „vera á staðnum, fara og vera við ... reksturinn í viku, hálfan mánuð, sjá sjálfar hvað væri að gerast vegna þess að þetta væri lítið fyrirtæki og þær þyrftu að skoða bókhaldstölur ...“ Vitnið hvað áfrýjendur hafa komið til sín tveimur til fjórum vikum síðar. Hafi þær þá sagst búnar að vera á staðnum og vera tilbúnar til að ganga frá samningi um kaupin en þær hefðu lækkað tilboð sitt og stefnda gengið að því. Hann eða Óskar hafi áður verið búinn að fá framangreint símbréf frá 5. júní 2002 frá Íslandsbanka hf. um veltu í rekstrinum með leyfi stefndu. Hafi hann sýnt áfrýjendum þetta skjal og spurt hvort þær hefðu skoðað það og gert sér grein fyrir þeim mismun, sem væri milli veltu ársins 2001 annars vegar og fyrri hluta ársins 2002 hins vegar. Hafi þær sagst vita allt um þetta og vera búnar „að fara í gegnum þetta með bókara“. Hafi hann skilið áfrýjendur svo að þær hafi verið búnar „að skoða fyrirtækið niður í kjölinn og kanna alla þætti þess rekstrar“. Vitnið kvaðst hafa spurt stefndu um ástæðu þess að veltan minnkaði svo mikið á fyrri hluta ársins 2002. Hafi hann ekki fengið svör við þeirri spurningu. Kvaðst hann einnig hafa spurt áfrýjendur hvort þær vissu þetta og þær svarað því til að þær væru búnar að fá á þessu skýringar. Vitnið var spurt að því hvort þetta væru einu upplýsingarnar, sem fasteignasalan hefði aflað um reksturinn. Hann kvaðst ekki vita hvað gert hefði verið til viðbótar í þeim efnum.

IV.

Eins og að framan er rakið kvaðst stefnda í skýrslu fyrir héraðsdómi ekki hafa fært í bókhaldi allar tekjur, sem reksturinn hafi gefið af sér. Kvað hún raunverulega veltu hafa verið að meðaltali milli 550.000 krónur og 650.000 krónur á mánuði þá 11 til 12 mánuði sem hún annaðist reksturinn. Hafi hún gefið starfsmönnum fasteignasölunnar þessar upplýsingar og séu veltutölur í söluyfirliti því frá henni komnar. Þegar hún hafi keypt reksturinn í júlí 2001 hafi svipað verið upp á teningnum, en seljendur hafi þá gefið henni upplýsingar um raunverulega veltu, sem staðist hafi nokkurn veginn. Katrín Guðmundsdóttir, önnur þeirra sem seldu stefndu reksturinn, gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Kvaðst vitnið hafa gefið stefndu upp að árleg velta rekstrarins hafi í raun verið rúmlega 6.000.000 krónur. Hafi 40 til 45% teknanna ekki verið gefin upp til skatts. Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2000 var seld vara og þjónusta 3.336.633 krónur. Er framburður vitnisins trúverðugur að þessu leyti þegar litið er til aðstöðu hennar. Í framangreindu símbréfi Íslandsbanka hf. kemur fram að heildarvelta á árinu 2001 hafi verið 6.596.000 krónur, en veltan á fyrstu mánuðum ársins 2002 hafi verið 1.401.000 krónur. Þegar allt þetta er virt verður að leggja til grundvallar að raunveruleg velta í hinum selda rekstri hafi verið önnur og meiri en þau bókhalds- og skattgögn, sem lögð hafa verið fram í málinu, gefa til kynna. Þá verður að telja sannað með framburði vitnisins Einars Harðarsonar að áfrýjendum hafi verið kynnt framangreint yfirlit viðskiptabanka firmans þar sem fram koma tölur um veltu þess síðustu 17 mánuðina fyrir söluna og að áfrýjendum hafi sérstaklega verið bent á minni veltu síðustu mánaða. Verður því ekki talið að áfrýjendur geti byggt rétt á því að þær hafi fengið rangar upplýsingar um veltu í rekstrinum. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en upphafsdag dráttarvaxta af þeirri fjárhæð sem stefndu var gert að greiða áfrýjendum á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjendur verða dæmdar til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Berglind Ósk Kjartansdóttir og Guðrún Margrét Kjartansdóttir,  greiði stefndu, Ernu Hrund Grétarsdóttur, 2.289.135 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 436.000 krónum frá 4. september 2002 til 11. sama mánaðar, af 350.000 krónum frá þeim degi til 16. sama mánaðar, af 230.000 krónum frá þeim degi til 4. nóvember 2002, af 2.330.000 krónum frá þeim degi til 14. janúar 2003 en af 2.289.135 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjendur greiði stefndu óskipt 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2003.

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Ernu Grétarsdóttur, kt. 110778-4069, Mávahlíð 13, Reykjavík, á hendur Guðrúnu Margréti Kjartansdóttur, kt. 241073-4169, Garðatorgi 7, Garðabæ, og Berglindi Ósk Kjartansdóttur, kt. 301179-4569, Þórufelli 14, Reykjavík, með stefnu birtri 22. nóvember 2002.

Stefndu höfðuðu gagnsakarmál á hendur stefnanda með stefnu þingfestri 14. janúar 2003.

Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að stefndu verði dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 2.330.000 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 436.000 kr. frá 04.09.2002 til 11.09.2002, en af  350.000 kr. f. þ. d. til 16.09.2002, en af 230.000 kr. f. þ. d. til 04.11.2002, en af 2.330.000 kr. f. þ. d. til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu ásamt lögmæltum virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi.

             Dómkröfur stefndu í aðalsök eru þær að stefndu verði sýknaðar af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda þeim að skaðlausu.

             Í gagnsök gera gagnstefnendur þær dómkröfur

aðallega:

 l.  Að staðfest verði með dómi riftun gagnstefnenda þann 1. nóvember 2002 á kaupsamningi þeirra við gagnstefndu, Ernu Grétarsdóttur, dags. 2. júlí 2002.

2.  Að gagnstefndu verði gert að endurgreiða gagnstefnendum 1.057.000 kr. með dráttarvöxtum af  500.000 kr. frá 3. júlí 2002 til 5. september 2002 en með dráttarvöxtum af  851.000 kr. frá þeim degi til 11. september 2002 en með dráttarvöxtum af  937.000 kr. frá þeim degi til 16. september en með dráttarvöxtum af 1.057.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

3.  Að gagnstefndu verði gert að greiða þeim 40.865 kr. í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum frá 3. janúar 2003 til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að gagnstefndu verði gert að greiða gagnstefnendum skaðabætur að fjárhæð  2.063.629 kr. með dráttarvöxtum frá 3. janúar 2003 til greiðsludags.

Til þrautavara er þess krafist að gagnstefndu verði gert að greiða gagnstefnendum  2.022.764 kr. með dráttarvöxtum frá 3. janúar 2003 til greiðsludags.

Að auki er þess krafist að gagnstefnda verði í öllum tilvikum gert að greiða gagnstefnendum málskostnað þeim að skaðlausu að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

             Í gagnsök gerir gagnstefnda þær dómkröfur að hún verði sýknuð af öllum kröfum gagnstefnenda og krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

             Málsatvik

Þann 2. júlí 2002 gerðu aðilar málsins með sér kaupsamning þar sem gagnstefnendur keyptu af aðalstefnanda rekstur, áhöld, tæki og nafn firmans "Þitt mál", sem er heilsustúdíó sem rekið hafði verið að Garðatorgi 7 í Garðabæ. Umsamið kaupverð var 3.400.000 kr. og skyldi það greiðast með 7 greiðslum frá afhendingu hins selda sem var 3. júlí 2002 til 4. júlí 2003. Á sérstökum lista voru talin upp þau tæki sem fylgja áttu hinu selda, alls að verðmæti 2.005.485 kr. samkvæmt kaupsamningi. Í söluyfirliti Laufáss fasteignasölu kom fram að tækin sem fylgdu væru góð og lítils viðhalds krafist og einnig kom fram í kaupsamningi að öll áhöld og tæki skyldu vera í góðu ásigkomulagi við afhendingu. Viðskiptavild hins selda var samkvæmt kaupsamningi  1.394.515 kr. Aðalstefnandi hafði keypt umræddan rekstur með kaupsamningi dags. 20. júlí .2001 á 4.000.000 kr. og leiddi rétt sinn til sölu rektursins og tækja af honum.

Gagnstefnendur greiddu útborgunargreiðslu, 500.000 kr., en af annarri samningsgreiðslu, sem var að fjárhæð 800.000 kr. á gjalddaga 4. september 2002, greiddu gagnstefnendur 556.000 kr.

Gagnstefnendur halda því fram að eftir kaupin hafi komið í ljós að hið selda væri haldið verulegum göllum og þeir kostir sem áskildir höfðu verið í samningi um ástand tækjanna og um veltutölur hafi ekki staðist. Tækin sem seld voru hafi meira og minna verið í lélegu ástandi en ekki í góðu ásigkomulagi svo sem áskilið var í kaupsamningi frá 2. júlí 2002 og engan veginn í samræmi við þær kröfur sem gagnstefnendur máttu búast við. Þá hafi velta fyrirtækisins verið mun minni en kveðið hafði verið á um.

Með innheimtubréfum til gagnstefnenda dags. 1. nóvember 2002 var af hálfu aðalstefnanda krafist greiðslu á eftirstöðvum útborgunargreiðslu frá 4. september 2002. Var áskilið að gjaldfella eftirstöðvar kaupverðsins, samtals 2.344.000 kr. ef skil yrðu ekki gerð innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins.

Með bréfi lögmanns gagnstefnenda til aðalstefnanda, dags. 1. nóvember 2002, var lýst yfir riftun á kaupsamningnum frá 2. júlí 2002 jafnframt því sem lýst var yfir að útborgunargreiðsla sem greiða átti 4. nóvember 2002 yrði ekki greidd vegna vanefnda aðalstefnanda á kaupsamningnum.

Með bréfi lögmanns aðalstefnanda til lögmanns gagnstefnenda dags. 8. nóvember 2002 var riftun kaupsamningsins mótmælt jafnframt því sem lýst var yfir að öll samningsfjárhæðin væri gjaldfelld í samræmi við áskilnað þar um.

Hinn 13. desember 2002 var Ágúst Karlsson rafmagnsfræðingur dómkvaddur að beiðni gagnstefnenda til að skoða og meta tilgreind tæki sem kaupin tóku til. Matsgerðin er frá því í febrúar 2003 og felur í sér mat á verðmæti tækja og áætlaðan viðgerðarkostnað þeirra.

Mál þetta er í aðalsök höfðað til greiðslu á eftirstöðum kaupverðs samkvæmt kaupsamningi aðila, en í gagnsök til staðfestingar á riftun, til endurgreiðslu kaupsamningsgreiðslna og til greiðslu skaðabóta.

 

             Málsástæður og lagarök stefnanda í aðalsök

             Aðalstefnandi byggir á því í aðalsök að með því að gagnstefnendur hafi ekki innt af hendi greiðslur samkvæmt kaupsamningi aðila  dags. 02.07.2002 um rekstur, áhöld, tæki og nafn firmans "Þitt Mál", hafi orðið vanefndir af þeirra hálfu. Gagnstefnendur hafi fengið hið keypta afhent við kaupsamningsgerð og hafi frá þeim degi rekið heilsustúdíóið, án frekari aðkomu aðalstefnanda.

Gagnstefnendum hafi verið gerð ítarleg grein fyrir rekstri heilsustúdíósins, ástandi tækja og meðferð þeirra og hafi þær unnið við reksturinn fyrir kaupsamningsgerð til að kynna sér hann og til ákvörðunar um kaup á rekstrinum. Áhöld og tæki hafi verið í góðu ásigkomulagi við söluna og hafi aðalstefnandi ábyrgst sérstaklega verulegar bilanir sem kynnu að verða á svokölluðum Euro Wave tækjum í eitt ár, en um viðkvæm og flókin tæki sé að ræða. Gagnstefnendur  hafi skuldbundið sig til að fara vel með tækin meðan kaupverð væri ógreitt.

Meintar vanefndir aðalstefnenda að mati gagnstefnenda voru þær að tæki væru ýmist biluð eða ónýt, án frekari útskýringa auk þess sem veltutölur hafi verið rangar, en gagnstefnendur  telji að aðalstefnandi hafi áskilið veltu upp á 650.000 kr. á mánuði. Hefur aðalstefnandi mótmælt meintum vanefndum af sinni hálfu en gagnstefnendur höfðu um miðjan september 2002 tilkynnt um bilun í einu tæki, sem aðalstefnandi hafi verið reiðubúinn að láta gera við eða endurnýja, en tækið hafi aldrei verið afhent af hálfu gagnstefnenda, hvorki til aðalstefnanda né viðurkennds viðgerðaraðila, er staðreynt gæti fullyrðingar gagnstefnenda.  Aðalstefnanda sé ekki kunnugt um það í hverju meint bilun tækisins sé fólgin eða hversu umfangsmikil hún sé og hvort hún kynni að stafa af óvarlegri meðhöndlun gagnstefnenda. Á þeim tíma hafi gagnstefnendur þegar verið komnir í verulegar vanefndir með kaupsamningsgreiðslur.

Þá mótmælir aðalstefnandi fullyrðingum gagnstefnenda um áskilda veltu, en gagnstefnendur höfðu kynnt sér bókhald ítarlega með aðstoð sérfræðings, auk þess sem gagnstefnendur störfuðu á atvinnustöð fyrir kaup og gátu með því móti auðveldlega gert sér grein fyrir veltunni. Ekkert sé komið fram í málinu sem styðji þessar fullyrðingar gagnstefnenda, enda vart á valdi aðalstefnanda að áskilja slíkt, þegar eignarhald aðalstefnanda á rekstrinum sleppti, en aðalstefnanda sé alls ókunnugt um færni og getu stefndu til að reka heilsustúdíó.

Verði aðalstefnandi vart látinn bera þá áhættu eftir sölu, líkt og gagnstefnendur haldi nú fram. Telur aðalstefnandi að greiðsludráttur gagnstefnenda sé einungis að rekja til erfiðrar fjárhagsstöðu þeirra og freisti þær nú að koma sér undan samningsskyldum sínum með ólögmætum hætti.

Aðalstefnandi byggir fjárkröfu sína á hendur gagnstefnendum á því að um vanefnd á gagnkvæmum kaupsamningi sé að ræða af þeirra hálfu með því að standa ekki skil á nánar tilgreindum kaupsamningsgreiðslum, en á hinn bóginn hafi aðalstefnandi í hvívetna fullnægt skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum.  Gagnstefnendur beri fulla ábyrgð á vanefndum sínum gagnvart aðalstefnanda samkvæmt almennum reglum um vanefndir innan samninga, þ.e. vegna greiðsludráttar af hálfu kaupanda. Greiðsludráttur þeirra sé verulegur og fyrirsjáanlegur, þar sem lýst hafi verið yfir riftun og að ekki yrði staðið við kaupsamninginn. Aðalstefnanda hafi því verið heimilt að gjaldfella allar greiðslur samkvæmt kaupsamningi.

Ástæður þær er gagnstefnendur byggi riftunarkröfu sína á réttlæti engan veginn riftun, enda fráleitt að um verulega vanefnd sé að ræða í skilningi laga, eigi hún við rök að styðjast. Hafi aðalstefnandi boðið fram aðstoð við viðgerð á meintri bilun tækis svo sem hann eigi rétt á samkvæmt 36. gr. kaupalaga.

Varðandi lagarök er vísað ti1 meginreglu kröfu- og kauparéttarins og samningaréttarins um réttar efndir fjárskuldbindinga og að gerða samninga skuli halda og kaupverð greiða á réttum tíma.  Vísað er til laga nr. 50/2000, einkum 36.gr.og 52.gr.

Kröfur um dráttarvexti styður aðalstefnandi við ákvæði laga nr.38/2001.

Krafan um málskostnað styðst við l. mgr. 30. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála. Þá er vísað til laga nr.50/1988 vegna virðisaukaskatts á lögfræðiþjónustu.

 

 

Málsástæður og lagarök stefndu í aðalsök

Sýknukröfu sína í aðalsök reisa gagnstefnendur á því að aðalstefnandi hafi vanefnt kaupsamning milli aðila frá 2. júlí 2002 í verulegum þáttum. Vegna vanefnda aðalstefnanda hafi gagnstefnendur haldið eftir hluta þeirrar greiðslu sem þær áttu að inna af hendi samkvæmt kaupsamningnum eða alls  2.330.000 kr., en þá höfðu gagnstefnendur greitt alls 1.057.000 kr. Af hálfu gagnstefnenda er á því byggt að vegna vanefnda aðalstefnanda sé þeim óskylt að inna af hendi frekari greiðslur til aðalstefnanda. Gallarnir felist í því að annars vegar hafi hin seldu tæki verið í engu samræmi við það sem áskilið hafi verið af hálfu aðalstefnanda í kaupsamningi og það sem gagnstefnendur máttu búast við og hins vegar hafi velta hins selda fyrirtækis verið mun minni en áskilið hafi verið af hálfu aðalstefnanda. Með því að vanefna kaupsamning aðila í veigamiklum þáttum hafi aðalstefnandi fyrirgert  rétti sínum til að fá eftirstöðvar kaupsamningsins greiddar úr hendi gagnstefnendum.

Öll áhöld og tæki hins selda hafi átt að vera í góðu ásigkomulagi við afhendingu og hafi aðalstefnandi ábyrgst samkvæmt kaupsamningnum allar verulegar bilanir sem kynnu að verða á Euro Wave tækjum, sem voru hluti hins selda, í eitt ár frá afhendingardegi. Hin seldu tæki hafi  flest verið illa farin og sum þeirra ónýt en ekki í góðu ásigkomulagi svo sem haldið sé fram í stefnu og áskilið hafi verið í kaupsamningi. Rétt sé að hafa í huga að þau tæki sem seld hafi verið séu auðvitað nauðsynleg gagnstefnendum í sínum atvinnurekstri, án þeirra liggi starfsemin niðri. Þurfi því ekki að fjölyrða um að það sé forsenda fyrir kaupunum að hið selda sé í góðu ásigkomulagi og í samræmi við kaupsamning og það sem gagnstefnendur máttu almennt búast við. Þrátt fyrir gallana á tækjunum hafi aðalstefnandi látið undir höfuð leggjast að gera við tækin svo sem hún var skuldbundin til samkvæmt kaupsamningi. Sé þeirri fullyrðingu mótmælt sem fram komi í stefnu að aðalstefnandi hafi boðið fram viðgerð á meintri bilun tækis. Gagnstefnendur hafi  skoðað tækin fyrir kaupin og hafi þá ekkert athugavert komið í ljós. Gagnstefnendur hafi þannig komið á starfstöð aðalstefnanda fyrir kaupin í eina viku, í klukkustund í senn, og lært á tækin en hafi á hinn bóginn ekki verið gefinn kostur á að fylgjast með tækjunum í hefðbundinni notkun. Hins vegar hafi gagnstefnendur  fengið staðfestingu á því að tækin hafi oft og einatt bilað fyrir kaupin á meðan reksturinn hafi verið í höndum aðalstefnanda.

Af hálfu aðalstefnanda hafi komið fram við kaupsamningsgerð að velta firmans "Þitt mál" hefði verið  650.000 kr. á mánuði síðustu ár fyrir kaupin. Á þeim ellefu mánuðum sem gagnstefnendur ráku "Þitt mál" hafi veltan samkvæmt virðis­aukaskattskýrslum hins vegar einungis verið 269.632 kr. á mánuði.  Aðalstefnandi hafi ekki sýnt fram á að veltan fyrir þann tíma hafi verið meiri. Feli þessar staðreyndir í sér verulegar vanefndir á þeim kostum sem áskildir voru við kaupsamningsgerð. Þessar upplýsingar hafi verið forsenda gagnstefnenda fyrir kaupunum og mátti aðalstefnanda vera það fullljóst.

Dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda er mótmælt sem órökstuddri.

Til stuðnings kröfum sínum vísa gagnstefnendur  til almennra reglna kröfuréttarins um vanefndir samninga og vanefndaúrræði.

Um málskostnaðarkröfu er vísað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök gagnstefnenda í gagnsök

Í gagnsök reisa gagnstefnendur kröfu sína um riftun á því að hið selda hafi verið verulega gallað í skilningi kaupalaga nr. 50/2000. Bæði hafi hluti af þeim tækjum sem seld voru ekki verið í samræmi við það sem áskilið var í samningi aðila og veltu- og rekstartölur verið ranglega tilgreindar af hálfu aðalstefnanda.

Þau tæki sem keypt voru samkvæmt kaupsamningi milli aðila og séu ýmist biluð eða ónýt séu EuroWave-tækin tvö, hljóðbylgjutæki, hitaklefi, leirpottur og þurrkari. Ástand tækjanna feli í sér vanefnd á samningi milli aðilanna, sbr. 30. gr. kaupalaga nr. 50/2000 og veiti gagnstefnendum rétt til að rifta samningnum á grundvelli 39. gr. kaupalaga. Um galla tækjana er vísað til matsgerðar dómkvadds matsmanns.

Af hálfu aðalstefnanda hafi verið áskilið að velta hins selda væri 650.000 kr. á mánuði. Gagnstefnendur telja einsýnt að þessi fullyrðing aðalstefnanda standist ekki. Sé af þeirra hálfu talið að velta fyrirtækisins hafi verið miklu minni en gefið hafi verið til kynna af hálfu aðalstefnanda við samningaumleitanir aðila og kaupsamningsgerð. Í söluyfirliti komi beinlínis fram að velta síðustu ára væri 650.000 kr. á mánuði. Söluyfirlit þetta hafi verið útbúið af fasteignasölunni Laufási og hafi tveir fasteignasalar staðið að gerð yfirlitsins. Hafi þessar fullyrðingar verið settar fram vegna tilmæla aðalstefnanda. Í virðisaukaskattskýrslum aðalstefnanda komi á hinn bóginn fram að skattskyld velta firmans hafi á tímabilinu frá janúar til júní 2002 verið alls 1.974.892 kr. eða 329.149 kr. á mánuði. Frá júlímánuði 2001 þegar aðalstefnandi keypti reksturinn og til ársloka það ár hafi veltan verið 991.058 kr. á mánuði eða  165.176 kr. á mánuði sé júlímánuður reiknaður með en 198.212 kr. á mánuði sé miðað við ágúst til desember það ár. Ljóst sé samkvæmt þessum gögnum að velta fyrirtækisins sé mun minni en áskilið hafi verið við kaupin af hálfu aðalstefnanda. Á þeim ellefu mánuðum sem aðalstefnandi hafi rekið "Þitt mál" hafi veltan samkvæmt framansögðu verið 269.632 kr. á mánuði. Feli þessar upplýsingar aðalstefnanda í sér galla á hinu selda fyrirtæki sem veiti gagnstefnendum rétt til riftunar á samningnum.

Gagnstefnendur krefjist þess á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin um galla á hinu selda að aðalstefnanda  verði gert að greiða gagnstefnendum til baka þá fjárhæð sem þegar hafði verið innt af hendi af hálfu gagnstefnenda. Alls sé um að ræða greiðslu á 1.057.000 kr.  Við kaupsamning hafi verið greiddar 500.000 kr. og 557.000 kr. sem inntar voru af hendi með þremur greiðslum 5. september, 11. september og 16. september 2002. Gagnstefnendur krefjast loks dráttarvaxta af greiddum fjárhæðum frá því tímamarki sem greiðslurnar voru inntar af hendi.

Kröfu sína um skaðabætur reisa gagnstefnendur á því að þær hafi orðið fyrir tjóni vegna vanefnda aðalstefnanda á samningsskyldum sínum sem að framan séu raktar. Veiti það þeim rétt til að krefjast skaðabóta úr hendi aðalstefnanda samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og kaupalaga nr. 50/2000, sbr. 40. gr. laganna, sbr. einnig 30. gr sömu laga. Skaðabótakrafa gagnstefnenda sé vegna þess kostnaðar sem gagnstefnendur hafi þurft að inna af hendi vegna viðgerðar á hinum gölluðu tækjum. Krafan sé alls að fjárhæð  40.865 kr.

Dráttarvaxta sé krafist af fjárhæðinni frá því að mál var höfðað með heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Verði ekki fallist á að vanefndir aðalstefnanda séu svo verulegar að heimilt hafi verið að rifta kaupsamningnum frá 2. júlí 2002, krefjast gagnstefnendur til vara skaðabóta úr hendi aðalstefnanda en til þrautavara afsláttar af hinu selda. Varakröfu og þrautavarakröfu sína reisa gagnstefnendur á sömu sjónarmiðum og eru reifuð hér að framan um gallana á hinu selda og röngum upplýsingum um rekstrartölur hins selda.

 

Varakrafa gagnstefnenda um skaðabætur sundurliðast með eftirfarandi hætti:

l.  Tjón vegna rangra upplýsinga um veltu kr. 822.764,­

2. Tjón vegna gallaðra tækja                                       kr. 1.200.000,­

3. Tjón vegna viðgerða á tækjum                  kr.      40.865,­

Samtals kr. 2.063.629,­

 

Rökstuðningur vegna einstakra kröfuliða skaðabótakröfu gagnstefnenda:

Um 1. tl.

Tjón vegna rangra upplýsinga um veltu byggja gagnstefnendur á því að með þeim röngu upplýsingum sem aðalstefnandi hafi gefið þeim hafi þær orðið fyrir tjóni. Samkvæmt upplýsingum við kaupsamningsgerð hafi velta fyrirtækisins átt að vera 650.000 kr. en hafi reynst vera 269.632 kr. á mánuði sem sé aðeins 41 % af því sem gagnstefnendur máttu búast við samkvæmt loforði aðalstefnanda.  Viðskiptavild firmans hafi verið metin á  1.394.515 kr. og sé skaðabótakrafan sem nemi 59% af þeirri fjárhæð eða 822.764 kr.

 

 

Um 2. tl.

Gagnstefnendur byggja kröfu sína um greiðslu á 1.200.000 kr. á því að hin seldu tæki hafi verið haldin verulegum göllum við kaupin. Fjárhæð kröfunnar sé matskennd þar sem matsgerð hins dómkvadda matsmanns liggi ekki fyrir. Gagnstefnendur áskilja sér rétt til að auka við kröfuna og reifa hana frekar á síðari stigum, leiði matsgerð matsmannsins til þess að tjón þeirra sé hærra en þessi fjárhæð.

Um 3. tl.

Krafa um viðgerðarkostnað sé vegna útlagðs kostnaðar við að fá viðgerðarmann til að gera við hin gölluðu tæki. Alls sé þessi kostnaður að fjárhæð  40.865 kr.

Dráttarvaxta sé krafist af fjárhæðinni frá því að mál var höfðað með heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Töluleg kröfugerð gagnstefnenda um afslátt sé hin sama og varðandi varakröfu um skaðabætur að undanskilinni kröfu um viðgerðarkostnað eða alls að fjárhæð 2.022.764 kr.

Varðandi lagarök er byggt á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og heimild til að beita vanefndaúrræðum við vanefndir samninga. Vísað er til ákvæða kaupalaga nr. 50/2000 vegna sjónarmiða um galla og vegna heimildar til beitingar vanefndaúrræða.

Um dráttarvaxtakröfu vísast til laga nr. 3 8/2001 um vexti og verðtryggingu og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í gagnsök

Aðalstefnandi byggir á því í gagnsök að áður en samningar hafi tekist með aðilum máls þessa, höfðu gagnstefnendur kynnt sér ítarlega rekstur hins selda, bæði bókhald og reksturinn sjálfan, þ.e. gagnstefnendur höfðu starfað við hlið aðalstefnanda áður en af samningi varð til að kynna sér vel hið selda, þ.m.t. bankayfirlit og meðferð tækja í því skyni að ákveða hvort þeim hugnaðist að ganga til samninga við aðalstefnanda um kaup á heilsustúdíóinu.

Eftir reynslutíma hafi gagnstefnendur ákveðið að kaupa af aðalstefnanda heilsustudíóið Þitt mál ásamt áhöldum og lager, sbr. kaupsamning aðila um það efni. Höfðu gagnstefnendur þá m.a. fengið í hendur ársreikning 2000 og uppgefnar veltutölur síðustu tveggja ára, þ.m.t. virðisaukaskýrslur, en þeim til aðstoðar var aðili sem var viðskipta- og  bókhaldsfróður. Þess beri að geta að aðalstefnandi  hafði aðeins rekið stúdíóið í eitt ár þegar salan fór fram og hafi það rækilega verið upplýst, m.a. á söluyfirliti.

Hið selda var boðið til sölu á  4.700.000 kr. og hafi verðið verið fundið þannig út að tæki voru að mati aðalstefnanda að verðmæti 2.615.485 kr., velta þriggja mánaða, 1.662.180 kr. og viðskiptavild 422.335 kr. sem nánar sé sundurgreint á verðlagningablaði. Mat aðalstefnanda á veltu pr. mánuð hafi samkvæmt þessu verið um 550.000 kr. en það mat byggðist ekki eingöngu á uppgefinni veltu.

Mat gagnstefnenda um hið selda hafi verið annað og hafi endanlegt kaupverð verið  1.300.000 kr. lægra en uppsett verð. Skýrist það einkum af því að tæki hafi verið metin samkvæmt lista á rétt rúmar 600.000 kr. lægra en sölumat aðalstefnanda eða  2.005.485 kr. og verðmæti hins selda vegna veltu hafi verið metið sem samsvaraði uppgefinni veltu þriggja mánaða, rétt tæp ein milljón, og því rétt tæplega  700.000 kr. lækkun vegna þess liðar. Hafi aðalstefnandi þannig selt reksturinn og tæki með 600.000 kr. tapi, sem hann (hún) hafði einu ári áður keypt á 4.000.000 kr.

Er gagnstefnendur höfðu rekið fyrirtækið í nokkra mánuði tilkynntu þeir aðalstefnanda eftir miðjan september 2002 að annað Euro-wave tækið væri bilað, án þess að nánar væri gerð grein fyrir því í hverju sú bilun væri fólgin. Hafi aðalstefnandi boðist til að láta gera við tækið og útvega annað reyndist það ónýtt. Hafi  gagnstefnendur í engu sinnt því og létu gera við tækið án samráðs eða vitneskju aðalstefnanda í lok september að því er virðist samkvæmt framlögðum viðgerðarreikningum.

Af viðgerðarnótu sem liggi fyrir í málinu virðist sem bilunin hafi verið fólgin í sambandsleysi, en svo sem fram hafi komið hafi þurft að gæta vel að snúrum í tækinu og skipta þeim út reglulega vegna álags á þær. Þetta hafi gangstefnendur vitað en með tækjunum hafi fylgt handbók þar sem fram hafi komið leiðbeiningar um eftirlit og viðhald tækjanna. Sé bókin í höndum gangstefnenda.

Þá komi fram í gagnstefnu að gagnstefnendur töldu sig vita fyrir fram að tæki sem skyldi koma í stað hins bilaða/ónýta væri í sama ásigkomulagi, en slíkt var þeim gjörsamlega ómögulegt þar sem gagnstefnendur hafi aldrei fengið tækið í hendur og því sé einungis um hugarburð þeirra að ræða.

Töldu gagnstefnendur sig jafnframt hafa heimild til að halda eftir hluta greiðslu er átti að inna af hendi 4. september 2002 vegna þessa. Sé sú skýring sé mjög ótrúverðug þegar litið sé til þess að gagnstefnendur hafi verið að greiða inná þann gjalddaga allt til 16. september auk þess sem rúmlega tvær milljónir hafi  þá verið ógreiddar af kaupverði og því áhætta kaupanda hverfandi.

Telur aðalstefnandi að greiðsludráttur gagnstefnenda hafi verið af allt öðrum orsökum, þ.e. skorti á fjármunum til að geta staðið við samninginn, vegna kunnáttuleysis gagnstefnenda við að reka heilsustúdíó, sem vart sé á ábyrgð aðalstefnanda.

Þegar reksturinn hafi svo verið kominn í þrot hafi gagnstefnendur gripið til þess óyndisúrræðis að rifta samningi með ólögmætum hætti og leggja reksturinn niður.

Aðalstefnandi  telur að hið selda hafi ekki verið gallað í skilningi kaupalaga, og síður að um verulegan galla hafi verið að ræða, hvort sem litið sé til ástands tækja eða þeirra upplýsinga sem komi fram á söluyfirliti sbr. framangreint, þannig að skilyrði riftunar séu fyrir hendi. Telur aðalstefnandi að ekki sé uppfyllt skilyrði 39. gr. kaupalaga um verulegar vanefndir. Tilkynnt hafi verið bilun í einu Euro-wave tæki, sem væri minniháttar vanefnd takist gagnstefnendum að sanna að aðalstefnandi  hafi ekki sinnt kröfu um úrbætur sbr. 36. gr. sömu laga. En aðalstefnandi  heldur því fram að gagnstefnendur hafi þrátt fyrir boð hans um úrbætur gert við tækið án frekari samráðs og því fyrirgert rétti sínum til riftunar, hafi hann verið til staðar.

Fullyrðingum gagnstefnenda um það að flest tækin séu biluð eða ónýt er harðlega mótmælt af aðalstefnanda, en reynist svo vera sé þar eingöngu um að kenna óvarlegri meðhöndlun gagnstefnenda á þeim, en í kaupsamningi sé sérstaklega kveðið á um að fara skuli vel með tækin, enda um viðkvæm og flókin rafmagnstæki að ræða. Matsmál  til að færa sönnur á ástand tækjanna geti ekki ráðið úrslitum í málinu, þar sem gagnstefnendur hafi hætt rekstri og flutt öll tækin í geymslur hingað og þangað út í bæ, auk þess sem hitaklefi hafi verið tekinn í sundur og því erfitt að ímynda sér hvernig mat á ástandi hans við sölu eigi að fara fram til að sanna það að hann hafi þá verið ónýtur.

Þannig liggi fyrir að viðkvæm rafmagnstæki hafa verið flutt og geymd við aðstæður sem aðalstefnanda sé ókunnugt um, en ætla megi að slík meðferð tækjanna kunni að orsaka bilanir í þeim. Sé það að sjálfsögðu á ábyrgð gagnstefnenda að hafa ekki tryggt sér sönnur á ástandi tækja við þær aðstæður er voru er salan á þeim fór fram.

Rök gagnstefnenda um verulegar vanefndir aðalstefnanda vegna upplýsinga um veltutölur eigi ekki við, sbr. það sem áður sé rakið um samskipti aðila og þeirra gagna sem lágu fyrir, áður en til samninga var gengið, enda kaupverðið við það miðað. Gagnstefnendum hafi verið fullkunnugt um uppgefnar veltutölur og rekstur hins selda almennt, enda kaupverð lækkað verulega m.a. vegna þess. Geti gagnstefnendur ekki nú byggt riftunarkröfu sína á þessu atriði, þar sem engu hafi verið leynt af hálfu aðalstefnanda.

Þá telur aðalstefnandi að vegna ákvæða 66. gr. kaupalaga hafi gagnstefnendur misst rétt sinn til riftunar, hafi hann einhvern tímann verið til staðar.

Ljóst sé að gangstefnendur geti ekki skilað nema litlum hluta hins keypta aftur þar sem þeir hafi lagt niður rekstur heilsustúdíósins. Verði þar með viðskiptavild ekki skilað auk þess sem gagnstefnendur geti ekki tryggt rekstur hins selda á sama stað á Garðatorgi, þar sem það hafi verið rekið síðustu 6-7 árin.

Þá sé óvíst um ástand tækja sem hafa verið flutt í geymslur út í bæ ásamt því að hitaklefi hafi verið tekinn í sundur.

Þá bendir aðalstefnandi á það að hvort sem riftunarkrafa nái fram að ganga eða ekki verði ekki hjá því komist að sýkna vegna kröfu gagnstefnenda um endurgreiðslu nánar tilgreindra fjármuna ásamt dráttarvöxtum sbr. 2. t1. aðalkröfu.

Krafan verði ekki skilin öðru vísi en svo að þar sé um uppgjörskröfu að ræða vegna riftunar nái hún fram að ganga, þar sem gagnstefnendur krefja um endurgreiðslu kaupverðs án þess að bjóða á móti  skil hinna keyptu hluta sem sé í höndum þeirra eða uppgjör á afrakstri/leigu þeirra, sbr. 65. gr. kaupalaga og almennar reglur kröfuréttar. Hafa gagnstefnendur þannig kosið að blanda saman riftunarkröfu sinni og uppgjörskröfu, líkt og réttaráhrif riftunar hefðu engin skuldbindandi áhrif fyrir gagnstefnendur sbr. 64. gr. kaupalaga, heldur aðeins fyrir aðalstefnanda. Við svo búið verði ekki hjá því komist að sýkna aðalstefnanda.

Af öllu framansögðu sé ljóst að það skortir með öllu þann grundvöll er gagnstefnendur byggja riftun sína á.

Varðandi vara- og þrautavarakröfu gagnstefnenda, sé með sömu röksemdum og með aðalkröfu hafnað því að gagnstefnendur eigi kröfu vegna rangra upplýsinga um veltu og eins vegna ætlaðra galla á tækjum.

Kröfu um viðgerðarkostnað sé hafnað á grundvelli 36. gr. kaupalaga vegna varakröfu.

Þá er dráttarvaxtakröfum mótmælt sem órökstuddum, en ljóst sé að ekki sé um neinn drátt á greiðslum að ræða af hálfu aðalstefnanda vegna hins selda, enda sé hið selda í höndum kaupenda frá kaupsamningsdegi og hafi gagnstefnendur nýtt það og haft af því arð þar til þeir ákváðu sjálfir að hætta rekstri.

Varðandi lagarök vísar aðalstefnandi til meginreglna samninga- og kauparéttarins og kröfuréttarins um skilyrði til riftunar, afsláttar og skaðabóta og ákvæða einkamálalaga.

Aðalstefnandi byggir kröfu sína um málskostnað á ákvæðum laga nr.91/1991.

Aðalstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur í skilningi laga og beri því nauðsyn að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnstefnenda, þar sem lögfræðiþjónusta sé virðisaukaskattskyld.

 

 

Niðurstaða

Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í aðalsök á því að gagnstefnendur hafi vanefnt kaupsaming aðila frá 2. júlí 2002 um sölu firmans “Þitt mál” með því að standa ekki í skilum með umsamdar greiðslur.  Gerð er krafa um greiðslu á gjaldföllnum eftirstöðvum kaupverðs að fjárhæð 2.330.000 kr.  Gagnstefnendur byggja sýknukröfu sína í aðalsök á því að aðalstefnandi hafi vanefnt kaupsamninginn í veigamiklum atriðum, annars vegar með því að hin seldu tæki hafi ekki verið í áskildu ástandi og hins vegar með því velta fyrirtækisins hafi verið mun minni en áskilið hafi verið af hálfu aðalstefnanda.

Í kaupsamningi aðila er tekið fram að öll áhöld og tæki skuli vera í góðu ásigkomulagi við afhendingu og að seljandi beri ábyrgð á verulegum bilunum sem verða kunni á Euro Wave tækjum í eitt ár frá afhendingardegi, 3. júlí 2002, að telja.  Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að gagnstefnendur tilkynntu um bilun á tæki í september 2002. Þá liggur fyrir í málinu reikningur gagnstefnenda að fjárhæð 40.865 kr. vegna viðgerðar á  Euro Wave tæki og bilunar í hitaklefa.

Að því er varðar ástand hinna seldu tækja er gerð grein fyrir athugunum og prófunum þeirra í framlagðri matsgerð Ágústs Karlssonar.  Þar kemur m.a. fram að  Euro Wave tæki og hljóðbylgjutæki hafi verið margpófuð.  Í matsgerð segir svo: “Varðandi Euro Wave tækin kom betur í ljós að nokkrir tenglar fyrir útigangandi og sameiginlegar rásir (snúrur) voru lausir, oftast illa skrúfaðir saman (kló/tengill). Þetta getur orsakað ótímabæran útslátt tækjanna. Eftir að tenglar höfðu verið skrúfaðir saman á tryggilegan hátt bar ekki lengur á ótímabærri útleysingu tækisins… Við prófanir á hljóðbylgjutækinu HUSÖ var ekki hægt að finna afgerandi bilanir.”  Um önnur tæki sem matið tók til þ.e. hitaklefa, leirpotts og þurrkara er ekki getið um neina galla, en fram kemur í matsgerð að aðstæður hafi verið slæmar til að meta þessa hluti þar sem þeim hafði verið pakkað í umbúðir og komið fyrir í geymslu.  Að þessu virtu þykja gagnstefnendur ekki hafa sýnt fram á að hin seldu tæki hafi verið verulega gölluð í skilningi laga um lausafjárkaup nr. 50 /2000.

 Fyrir dómi hefur aðalstefnandi, Erna Grétarsdóttir, greint frá því að gagn­stefnendur hafi fengið allar upplýsingar um bókhald fyrirtækisins og veltutölur. Bókhaldari fyrirtækisins, Steiney Halldórsdóttir, greindi frá því að upplýsingar úr bókhaldi hefðu verið sendar þriðja aðila að beiðni aðalstefnanda vegna sölu fyrirtækisins.  Allar umbeðnar upplýsingar úr bókhaldi hafi verið veittar. Þá hefur fyrri eigandi firmans, Katrín Guðmundsdóttir, staðfest fyrir dómi að aðalstefnandi hafi fengið ársreikning fyrirtækisins til afnota vegna sölu fyrirtækisins vorið 2002. Verður því að ætla að gagnstefnendum hafi verið fullkomlega ljóst hvernig rekstur og afkoma fyrirtækisins var samkvæmt bókhaldsgögnum, sem byggja verður á að því er veltutölur varðar, enda ekki við önnur áreiðanleg gögn að styðjast í því efni.  Þá liggur fyrir að sala firmans til gagnstefnenda var grundvölluð á tilboði sem gagnstefnendur höfðu sett fram og aðalstefnandi samþykkt.  Verður því ekki talið að gagnstefnendur geti byggt á því að velta fyrirtækisins hafi átt að vera meiri en ársreikningar sýna.

             Samkvæmt framansögðu hefur ekki verið sýnt fram á að aðalstefnandi hafi vanefnt kaupsamninginn með þeim hætti af sinni hálfu að réttlætt geti riftun kaupa eða greiðsludrátt af hálfu gagnstefnenda. Verður því ekki fallist á sýknukröfu gagnstefnenda í aðalsök.

Með því að gagnstefnendur stóðu ekki í skilum með greiðslur samkvæmt kaupsamningi aðila og lýstu því jafnframt yfir að hann yrði ekki efndur af þeirra hálfu var um slíka vanefnd að ræða að aðalstefnanda var heimilt að gjaldfella allar greiðslur samkvæmt kaupsamningi.  Ber því að taka til greina dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök, eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu í aðalsök ber að sýkna aðalstefnanda af öllum kröfum gagnstefnenda í gagnsök að öðru leyti en því að fallist verður á skaðabótakröfu gagnstefnenda samkvæmt 3. tölulið aðalkröfu í gagnstefnu um að aðalstefnanda verði gert að greiða 40.865 kr. vegna viðgerðar á biluðum tækjum ásamt dráttarvöxtum frá 3. janúar 2003 til greiðsludags.

Samkvæmt framangreindri niðurstöðu málsins verða gagnstefnendur dæmdir til að greiða aðalstefnanda málskostnað, í aðalsök og gagnsök, sem telst hæfilega ákveðinn 450.000 kr.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

             Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

Gagnstefnendur, Guðrún Margrét Kjartansdóttir og Berglind Ósk Kjartans­dóttir, greiði aðalstefnanda, Ernu Grétarsdóttur, 2.330.000 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 436.000 kr. frá 04.09.2002 til 11.09.2002, en af 350.000 kr. frá þeim degi til 16.09.2002, en af 230.000 kr. frá þeim degi til 04.11.2002, en af 2.330.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefnandi, Erna Grétarsdóttir, greiði gagnstefnendum, Guðrúnu Margréti Kjartansdóttur og Berglindi Ósk Kjartansdóttur, 40.865 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 3. janúar 2003 til greiðsludags.

             Gagnstefnendur, Guðrún Margrét Kjartansdóttir og Berglind Ósk Kjartans­dóttir, greiði aðalstefnanda, Ernu Grétarsdóttur, 450.000 kr. í málskostnað í aðalsök og gagnsök.