Hæstiréttur íslands

Mál nr. 454/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Innstæða
  • Dráttarvextir


                                     

Fimmtudaginn 12. september 2013.

Nr. 454/2013.

Kaupþing hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Bank Pekao S.A. Centrala

(Jón Ögmundsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Innstæða. Dráttarvextir.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu B, sem lýst var slit K hf. á grundvelli láns þeirra í millum, var skipað í réttindaröð við slitin sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ágreiningur aðila sneri að því hvort lán B til K hf. teldist innlán í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, og þar með hvort krafa B nyti forgangs við slit, eða hvort féð væri undanskilið tryggingavernd laganna og yrði þar með skipað í réttindaröð sem almennri kröfu við slitin. Fyrir Hæstarétti var einvörðungu deilt um hvort krafa B á hendur K hf. væri í formi verðbréfs og þar með undanskilin tryggingarvernd laga nr. 98/1998, sbr. síðari málslið 3. mgr. 9. gr. laganna. Því var hafnað að svo væri, en dómur Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 var ekki talinn eiga við eins og atvikum málsins væri háttað. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2013, þar sem krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 47.561.832 pólsk slot var viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að krafa varnaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila að fjárhæð 1.775.673.955 krónur. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að krafa hans í bú sóknaraðila að fjárhæð 47.529.964 pólsk slot verði viðurkennd sem forgangskrafa í samræmi við 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt gerir varnaraðili kröfu um kærumálskostnað.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði sendi Kaupþing banki hf. á árinu 2008 tilboð út á millibankamarkað í þeim tilgangi að afla sér fjármagns til skemmri tíma. Voru tilboðin send miðlurum sem komu þeim á framfæri við fjármálafyrirtæki. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti þar sem varnaraðili samþykkti á skuldbindandi hátt, fyrir milligöngu miðlara, að veita sóknaraðila lán að fjárhæð 25.000.000 pólsk slot 10. mars 2008 til 10. mars 2009 með 6,58% vöxtum, 10.000.000 pólsk slot 25. mars 2008 til 25. mars 2009 með 6,65% vöxtum og 10.000.000 pólsk slot 12. ágúst 2008 til 12. nóvember sama ár með 6,55% vöxtum. Sama dag og viðskiptin fóru fram staðfestu aðilar þau með svonefndu SWIFT-skeyti, en ekki var gengið frá formlegum samningi milli þeirra um lánin.

Aðila greinir á um það hvort umrædd lán varnaraðila til sóknaraðila teljist hafa verið innlán í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og sú málsgrein hljóðaði upphaflega fyrir setningu laga nr. 79/2012, og þar með hvort fyrrgreind krafa varnaraðila njóti forgangs við slit sóknaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Nánar tiltekið lýtur þessi ágreiningur aðila hér fyrir dómi að því einu hvort viðskipti þeirra teljist hafa verið í formi verðbréfa þannig að lánin yrðu ekki talin innlán, sbr. síðari málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.

Hugtakið verðbréf er skilgreint í 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Felst skilgreiningin í meginatriðum í því að verðbréf sé gerningur í bréflegu eða rafrænu formi um kröfu sem þarf að vera framseljanleg og unnt að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði. Í dómi Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 var talið að samningar, sem krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila í því máli áttu rætur að rekja til, féllu undir áðurnefnda skilgreiningu og teldust því vera verðbréf í skilningi 2. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og hann hljóðaði upphaflega. Enginn sambærilegur gerningur lá til grundvallar lánum þeim, sem um er deilt í þessu máli, heldur var stofnað til þeirra á annan og óformlegri hátt eins og að framan er rakið. Verður því ekki fallist á með sóknaraðila að viðskipti aðila hafi verið í formi verðbréfa. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt varnaraðili sé lánastofnun eins og sóknaraðili heldur fram í kæru, sbr. dóm Hæstaréttar 19. júní 2013 í máli nr. 383/2013. Samkvæmt því teljast hin umdeildu lán vera innlán í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis og af þeim sökum nýtur krafa varnaraðila forgangs við slit sóknaraðila á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Í héraði krafðist varnaraðili dráttarvaxta af gjaldföllnum höfuðstól lánanna ásamt samningsvöxtum frá gjalddaga hvers láns á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sóknaraðili krafðist þess í greinargerð sinni í héraði að kröfu varnaraðila um dráttarvexti yrði hafnað. Í greinargerðinni komst hann síðan svo að orði: „Komi til þess að dráttarvextir verði að einhverju leyti samþykktir er á því byggt ... að eigi sé unnt að miða við íslenska dráttarvexti þar sem um er að ræða viðskipti við pólskan banka í pólskri mynt þar sem millifært var frá einum pólskum banka ... inn á reikning ... sem einnig var í Póllandi (Nordea Bank Polska S.A.) Miðlarinn sem sá um að koma viðskiptunum á var ennfremur staðsettur í Póllandi og endurgreiðsla kröfunnar átti að eiga sér stað í Póllandi (National Bank of Poland).“ Verður að skýra þennan málatilbúnað sóknaraðila svo að með þessu hafi hann teflt fram þeirri málsástæðu til vara að yrði krafa varnaraðila um dráttarvexti tekin til greina skyldu þeir taka mið af pólskum, en ekki íslenskum lögum. Þegar af þeirri ástæðu var héraðsdómi rétt að leggja þessa málsástæðu sóknaraðila til grundvallar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Krafa sóknaraðila um að kröfu varnaraðila á hendur sér, sem er gerð í pólskum slotum, verði breytt í  íslenskar krónur var ekki höfð uppi í héraði. Hún kemur því ekki til álita hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með skírskotun til alls þess sem að framan greinir, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

 Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði varnaraðila, Bank Pekao S.A. Centrala, 400.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2013.

Þetta mál, sem barst dóminum, 24. júní 2010, með bréfi slitastjórnar Kaup­þings banka hf., var þingfest 24. september það ár og tekið til úrskurðar 10. maí 2013.

Sóknaraðili, Bank Pekao SA-Centrala, Ul Grzybowska 53/57, Varsjá, Póllandi, krefst þess að fjár­krafa hans í bú Kaupþings hf., 49.557.409,50 pólsk slot, verði viður­kennd sem for­gangs­krafa í samræmi við ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjald­þrota­skipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði sem forgangskrafa í bú Kaup­þings hf. í samræmi við ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki krafa hans að fjár­hæð 47.475.096 pólsk slot með 11,5% dráttarvöxtum af 10.165.096 pólskum slotum frá 12. nóvember 2008 til 15. desember 2008, en með 13% dráttarvöxtum af þeirri fjár­hæð frá 15. desember 2008 til 10. mars 2009, með 13% dráttarvöxtum af 36.810.096 pólskum slotum frá 10. mars 2009 til 25. mars 2009 og með 13% dráttar­vöxtum af 47.475.096 pólskum slotum frá 25. mars 2009 til 22. apríl 2009, en þó aldrei hærri fjárhæð en 48.557.409,50 pólsk slot verði ekki fallist á aðalkröfu hans um 49.557.409,50 pólsk slot.

Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili, slitabú Kaupþings hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað en afstaða slitastjórnar staðfest þannig að höfuðstóll kröfu sóknaraðila og samningsvextir verði viðurkennd sem almenn krafa sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Hann krefst jafnframt máls­kostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

Sóknaraðili er pólskur banki sem heitir fullu nafni Bank Polska Kasa Opieki Spółka Akcyjna og hefur höfuðstöðvar í Varsjá. Varnaraðili er slitabú íslenska bank­ans Kaupþings hf. sem hafði höfuðstöðvar í Reykjavík. Á árinu 2008 sendi Kaupþing banki hf. til­boð út á milli­banka­mark­að­inn í þeim tilgangi að afla sér fjár­magns til skemmri tíma. Í til­boð­unum kom fram ákveð­inn vaxtafótur á ákveðnu gengi til tiltek­ins tíma. Þau voru send miðlurum sem komu þeim á fram­færi við önnur fjár­mála­fyrir­tæki sem gátu gengið að tilboðinu á þeim kjörum sem kynnt voru sýndist þeim það fýsi­legur fjár­fest­ing­ar­kostur. Eigin­legir láns­samn­ingar voru ekki gerðir heldur var hverjum samn­ingi um sig lokið með samskiptum á milli miðl­ara í Pól­landi (ICAP POLAND) og áhuga­sams gagn­aðila. Samskipti þeirra fóru fram í svo­nefndu Reuters-kerfi. Þau voru síðan staðfest með skeytum í SWIFT-sam­skipta­kerfinu (e. Society for World­wide Inter­bank Financial Tele­communi­cation) á milli bankans og þeirra sem gengu að til­boð­unum, í þessu tilviki sóknaraðila. Í SWIFT-skeytum á milli aðila voru end­an­lega stað­festar fjárhæðir, vaxtafótur, upp­hafs­dagur (lán­veit­ing­ar­dagur) og loka­dagur (gjald­dagi). 

Málsaðilar eru sammála um að þessir þrír samningar komust á milli þeirra og voru peningar milli­færðir til varnaraðila í sam­ræmi við þá:

1)         Sóknaraðili lánaði Kaupþingi 25.000.000 pólskra slota til eins árs á 6,58% vöxtum, upphafsdagur 10. mars 2008 – loka­dagur 10. mars 2009.

2)         Sóknaraðili lánaði Kaupþingi 10.000.000 pólskra slota til eins árs á 6,65% vöxtum, upphafsdagur 25. mars 2008 – loka­dagur 25. mars 2009.

3)         Sóknaraðili lánaði Kaupþingi 10.000.000 pólskra slota til þriggja mánaða á 6,55% vöxtum, upphafsdagur 12. ágúst 2008 – lokadagur 12. nóvember 2008.

Til skýringar á efni þeirra samskipta sem liggja lánveitingunni til grundvallar má taka SWIFT-skeyti sem staðfestir sam­skipti málsaðila við miðlara að morgni dags 20. mars 2008. Á efri helmingi útprents­ins stendur:

PLN 1 YR  WE LEND 25,000,000.00 PLN at 6,58

Dealing with KAUP

Dealing via HBPPDP ICAP POLAND

give:       25,000,000.00 PLN MON 10MAR2008

NORDEA GDYNIA

rcve:       26,645,000.00 PLN TUE 10MAR2009

NBP DSP

 Á neðri helmingi útprentsins stendur síðan:

U GIVE 25 MIO PLN AT SE 6.58 TO KAUPTHING REIKIAVIK

VAL 10.03.08// 10.03.09

PLN TO NORDEA GDYNIA

DZIEKUJE BARDZO (mun þýða kærar þakkir á pólsku)

TO CONFIRM 25 MIO AGREED AT 6,58 I GIVE PLN

VAL 10MAR2008 and 10MAR2009

MY PLN to NBP DSP PLS

Texti SWIFT-skeyta hinna lánanna er sambærilegur þessum. Fleiri gögn hafa síðar verið prentuð út til staðfestingar þessum viðskiptum og þar er greint frá því ítarlegar en í SWIFT-skeytunum að sóknaraðila hafi borið að greiða lánin inn á reikn­ing Kaupþings hjá Nordea banka í Póllandi og að Kaupþingi hafi borið að endur­greiða lánin inn á reikn­ing sóknaraðila hjá pólska seðlabankanum.

Að sögn varnaraðila voru þessi lán færð í bókhaldi bankans sem lán (e. bor­row­ings) og nefnd ein­föld peningamarkaðslán (e. „simple money market loan“). Í efna­hags­reikningi bank­ans voru lánin færð undir liðinn skuldir við lána­stofn­anir og Seðla­banka (e. Liabilities, Due to credit institutions and central banks). Þau voru ekki skráð í innstæðugrunn bankans og ekki var greitt vegna þeirra til Trygg­ingar­sjóðs inn­stæðu­eigenda, sbr. 6. gr. laga nr. 98/1999. Jafnframt mynduðu þau hvorki bindi­skyldu né skyldu til skýrslu­gjafar hjá Seðlabanka Íslands, sbr. reglur nr. 373/2008.

 Sóknaraðili millifærði fjármunina, eins og áður greinir, á reikn­ing varn­ar­aðila í pólskum slotum í Pól­landi. Yfirleitt fóru síðan fram gjald­miðla­skipti og var pólskum slotum skipt yfir í aðrar myntir svo sem Bandaríkjadali eða evrur. Fjár­mun­ir­nir fluttust þá á viðeigandi gjald­eyris­reikninga bankans og voru nýttir í fjár­mögnun hans eftir þörfum hverju sinni. Peningarnir voru hins vegar ekki tengdir sérgreindum reikningi sókn­ar­aðila.

Það er alkunna að í september og október 2008 urðu miklar hræringar á fjár­mála­mörk­uðum erlendis sem höfðu veruleg áhrif á starfsemi íslenskra fjár­mála­fyrir­tækja. Helgina 4. og 5. október 2008 varð ljóst að þrír stærstu bankar landsins Lands­bank­inn, Kaupþing og Glitnir gætu ekki tekist á við þennan vanda og væru ófærir um að standa við þær skuldbindingar sem á þeim hvíldu. Af þessum sökum meðal annars setti Alþingi, að kvöldi mánudagsins 6. októ­ber 2008, lög nr. 125/2008, um heimild til fjár­veit­ingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svonefnd neyð­ar­lög. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki, var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjár­mála­fyrir­tækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauð­syn­legar aðgerðir, meðal annars heim­ild til að víkja stjórn frá.     Fimmtudaginn 9. október 2008 sagði stjórn Kaupþings banka hf. af sér með vísan til laga nr. 125/2008. Í kjölfarið skipaði Fjármálaeftirlitið bank­anum skila­nefnd, sem tók þegar við öllum heimildum stjórnarinnar og starf­aði sam­kvæmt ákvæðum laga um nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. og lög nr. 44/2009.

Nýr banki, Nýi Kaupþing banki hf., var stofnaður og fjár­hags­legur grunnur hans var einkum lagður með því að taka yfir eignir þess gamla eins og kemur fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 22. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaup­þings banka til Nýja Kaupþings banka hf. Skuld Kaupþings banka hf. við sókn­ar­aðila flutt­ist ekki yfir til nýja bankans.

Að beiðni skilanefndarinnar skipaði Hér­aðs­dómur Reykjavíkur bankanum slita­stjórn, 25. maí 2009, í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009. Hún birti innköllun í Lög­birt­inga­blað­inu í fyrsta sinn 30. júní 2009. Þá hófst sex mánaða kröfu­lýs­ing­ar­frestur sem lauk 30. des­em­ber 2009.  

Sóknaraðili, sem hafði ekki fengið lán sín endur­greidd, lýsti forgangskröfu í bú varn­ar­aðila fyrir lok kröfulýsingarfrests samtals að fjár­hæð 48.557.409,50 pólsk slot eða 1.855.232.945 krónur.

Sóknaraðili sundurliðaði kröfufjárhæð sína í höfuðstól, alls 45.000.000 pólskra slota, sem lagður var inn í þrennu lagi hjá varnaraðila árið 2008, samningsbundna vexti til gjalddaga innlánanna 12. nóvember 2008, 10. mars 2009 og 25. mars 2009, alls 1.475.095 pólsk slot, dráttarvexti af gjaldföllnum höfuðstól og samningsvöxtum frá gjald­daga hvers innláns til 22. apríl 2009, sem er viðmiðunardagur vegna slita­með­ferð­ar­innar og kemur í stað úrskurðardags, alls samtals 2.071.047 pólsk slot og kostnað vegna innheimtu kröfunnar 11.267,50 pólsk slot.

Varnaraðili hafnaði því með bréfi, 21. apríl 2010, að krafan nyti for­gangs á grund­velli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki. Hann féllst hins vegar á að sóknar­aðili ætti rétt­mæta kröfu til höfuðstóls og samingsvaxta til 22. apríl 2009 og viður­kenndi hana sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laganna, alls að fjárhæð 1.775.673.955 kr. Varn­ar­aðili hafnaði kröfu sókn­ar­aðila um dráttarvexti og taldi kröfu sóknaraðila um kostnað eftir 22. apríl 2009 til eftirstæðra krafna, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991, en að öðru leyti tók slita­stjórnin ekki frekari afstöðu til kröfunnar í sam­ræmi við 119. gr. sömu laga.

Á kröfuhafafundi 18. maí 2010 mótmælti sókn­ar­aðili skriflega þessari afstöðu slita­stjórn­ar­innar. Þar andmælti hann því að hún hafnaði kröfu hans um dráttarvexti og kostnað og útreikn­ingi þess­ara krafna, svo og fjárhæð þeirrar kröfu sem slita­stjórnin hafði samþykkt og útreikningi hennar.

 Ágreiningur um forgangsrétt krafna sóknaraðila var til meðferðar á kröfu­hafa­fundi, 3. júní 2010. Þar sem ekki tókst að jafna ágreininginn á þeim fundi var honum með bréfi slitastjórnar, 18. júní 2010, vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur í sam­ræmi við ákvæði 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991, um gjald­þrota­skipti o.fl.

                Fjöldamargir kröfuhafar í slitabú Kaupþings tóku undir afstöðu slita­stjórnar, mót­mæltu kröfum sóknaraðila og kröfðust aðildar að málinu. Vegna afstöðu sinnar voru þeir einnig skilgreindir sem varnaraðilar og skiluðu greinargerðum til varnar. Á dóm­þingi 28. október 2011 féllu þessir kröfuhafar allir frá aðild sinni að málinu í ljósi niður­stöðu Hæstaréttar í máli nr. 142/2011.

 Eins og áður greinir var þetta mál þingfest 26. september 2008. Sóknaraðili lagði greinargerð sína fram á dómþingi 10. desember 2010 en varnaraðili lagði sína greinargerð fram á dóm­þingi 25. febrúar 2011. Frá þessum tíma hafa gengið margir dómar sem hafa leyst úr ýmsum þeim ágrein­ingi sem var milli málsaðila.

Í þessu máli reynir á ákvæði laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og trygg­inga­kerfi fyrir fjárfesta einkum 9. gr. Með þeim voru tilskipun 97/9/EB og 94/19/EB leiddar í íslensk lög. Hinni síðarnefndu var ætlað að tryggja innstæðueigendur upp að vissu marki gegn greiðslu­erfið­leikum við­skipta­banka og sparisjóða. Með lögum nr. 79/2012 var lögum nr. 98/1999 breytt. Meðal annars var 6. mgr. 9. gr. breytt þannig að undan­skildar trygg­ingu voru inn­stæður í eigu fjármálafyrirtækja. Þar sem lögskipti sókn­ar­aðila og Kaupþings banka hf. fóru fram á árinu 2008 verður lögunum beitt eins og þau voru þá.

Í máli sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. mars 2009 krafðist spænski bankinn Aresbank þess að Nýi Landsbanki Íslands hf., sem stofnaður var á grunni Landsbanka Íslands, greiddi honum skuld sem til hafði stofnast með svonefndu pen­inga­markaðsláni. Aresbank byggði á því að skuld Landsbanka Íslands hf. við hann hefði með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 9. október 2008, flust til Nýja Lands­banka Íslands hf. og því ætti Aresbank endurgreiðslukröfu á hendur nýja bankanum. Hér­aðs­dómur hafnaði kröfu Aresbank með þeim rökum að peningamarkaðslán teld­ust ekki inn­stæða samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um inn­stæðu­tryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Aresbank skaut niðurstöðu héraðs­dóms til Hæstaréttar sem leit­aði álits EFTA-dómstólsins á því hvort pen­inga­markaðs­lán teldust innstæða í skiln­ingi tilskipunar 94/19/EB um inn­láns­trygginga­kerfi.

Að mati EFTA-dómstólsins fellur peningamarkaðslán undir hug­takið inn­eign í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB. Dómstóllinn benti hins vegar á að sam­kvæmt 2. gr. tilskipunarinnar væru innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning sjálfkrafa undanþegnar endurgreiðslu úr inn­lána­trygg­inga­kerfum. Þannig gæti tiltekin greiðsla talist innstæða í rýmri merkingu innstæðuhugtaks til­skip­un­ar­innar án þess þó að vera innstæða í þrengri merkingu hugtaksins.

Að fengnu áliti EFTA-dóm­stóls­ins var það mat Hæstaréttar, í máli nr. 169/2011, með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, að greina þyrfti á milli annars vegar inn­stæðna í rýmri merkingu sem væru innstæður sam­kvæmt 1. máls­lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og nytu ekki trygg­inga­verndar og hins vegar inn­stæðna í þrengri merk­ingu sem féllu einnig undir þetta ákvæði en und­an­þágu­ákvæði laganna tækju ekki til þeirra þannig að þær nytu tryggingaverndar.

Í dómi 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 féllst Hæstiréttur á að samningar sem Deutsche Bank hefði gert við Kaupþing banka hf. væru innstæða í rýmri merkingu 1. máls­liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og sú grein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012 en féllst jafnframt á að lánssamningarnir væru verðbréf í skilningi 2. máls­liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og að kröfur á grundvelli þeirra væru samkvæmt því undanskildar trygg­ingarvernd samkvæmt 1. mgr. sömu greinar.

Á dómþingi 26. apríl 2013 lögðu aðilar þessa máls, Bank Pekao SA-Centrala og slitabú Kaup­þings hf., sameiginlega fram bókun þar sem þeir staðfesta að ekki sé lengur ágrein­ingur með þeim um það að krafa sóknaraðila upp­fylli skilyrði þess að teljast inn­stæða í rýmri merkingu 1. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og sú laga­grein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, sbr. umfjöllun í dómum Hæsta­réttar nr. 169/2011 og nr. 722/2012. Ágreiningur aðila varðandi rétthæð kröfunnar sé því afmarkaður við það eitt hvort krafa sóknaraðila sé undanskilin tryggingavernd sam­kvæmt ákvæðum sömu laga og geti af þeim sökum ekki notið forgangsstöðu við slita­með­ferð varnaraðila. Þá stað­festu málsaðilar að ekki væri ágreiningur með þeim um að sóknaraðili sé lána­stofnun samkvæmt pólskum lögum og í skilningi tilskipunar 94/19/EB.

Það sem þá stendur eftir af ágreiningnum er hvort krafa sóknaraðila sé af ein­hverjum ástæðum undanþegin tryggingavernd laganna.

Málsástæður sóknaraðila

 Sóknaraðili áréttar að af upphaflegum ágreiningi málsaðila standi einvörðungu eftir ólík afstaða þeirra til þess hvort innstæða sóknaraðila njóti tryggingaverndar sam­kvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Við mat á því komi einungis tvö ákvæði til skoðunar, annars vegar 2. máls­liður. 3. mgr. og hins vegar 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um inn­stæðu­tryggingar og trygg­inga­kerfi fyrir fjár­festa.

Ekki sé lengur deilt um það að krafa sóknaraðila falli undir hugtakið innstæða eins og því sé lýst í 1. málslið 3. mgr. ákvæðisins. Sú trygging sem innstæður njóti taki hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem séu gefnar út af við­skipta­banka eða sparisjóði í formi verðbréfa. Málsaðilar deili ekki um að krafa sókn­ar­aðila sé hvorki skuldabréf né víxill en sóknaraðili mótmæli þeirri málsástæðu varn­ar­aðila að sá löggerningur sem liggi henni til grundvallar sé verðbréf. Peninga­mark­aðs­lán eigi ekkert skylt við verðbréf eins og það hugtak sé skilgreint í lögum og dómum Hæsta­réttar í málum nr. 276/2011 og 722/2011.

Hugtakið verðbréf sé skilgreint í a-lið, 2. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verð­bréfa­viðskipti og sé lítið breytt frá ákvæðum eldri laga. Í megin­atriðum sé skil­grein­ingin sú að verðbréf sé gerningur í bréflegu eða rafrænu formi um kröfu sem þurfi að vera framseljanleg og unnt sé að eiga viðskipti með á fjár­magns­mark­aði. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 108/2007 segi að skil­yrði um fram­seljan­leika verð­bréfa felist í því að þau réttindi sem felast í eignar­haldi á verð­bréf­unum geti færst yfir á annan aðila.

Að mati sóknaraðila geti ekkert þeirra skjala sem lögð hafi verið fram til að stað­festa viðskipti málsaðila talist verð­bréf. Vegna þessara viðskipta liggi ekki fyrir neinir samingar enda hafi þeir ekki verið gerðir. Fram lögð skjöl séu ein­ungis kvittanir eða staðfestingar á því sem um samdist en geti hins vegar aldrei talist verð­bréf.

Þessi skjöl séu fullkomlega sam­bæri­leg þeim skjölum sem lágu fyrir í áður­nefndum dómum Hæstaréttar. Rétturinn hafi hafnað því að skjöl sem einungis stað­festu kjör sem giltu um innlánsviðskipti aðila gætu verið verðbréf. Í SWIFT-skeytinu felist ekki eignarréttindi og það sé ekki framseljanlegt enda komi ekkert fram um það í skeyt­inu. Þvert á móti séu þetta einvörðungu kvittanir fyrir því sem um samdist milli aðila.

Þessu til viðbótar megi nefna að Fjármálaeftirlitið hafi ekki, í öllum þeim fjölda bréfa sem það sendi frá sér vegna peningamarkaðslána, haldið því fram að slík lán væru verð­bréf. Það hafi jafnframt verið afstaða slitastjórnar LBI hf. að pen­inga­mark­aðs­lán væru forgangskrafa og þar með hafi sú slitastjórn hafnað því að þau væru verð­bréf.

Þar sem krafa sóknaraðila sé óumdeilanlega innstæða og geti ekki talist verð­bréf sé hún ekki undanþegin tryggingavernd 3. gr. 9. gr. laga nr. 98/1999.

Í öðru lagi geti það komið í veg fyrir að innstæða njóti tryggingaverndar að hún sé í eigu aðildar­fyrir­tækis tryggingarsjóðsins samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Aðildar­fyrir­tæki sjóðsins séu tæmandi talin í 3. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði skuli viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýti sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verð­bréfa­viðskipti og hafi staðfestu hér á landi, eiga aðild að sjóðnum. Þar sem sókn­ar­aðili sé erlendur banki og hafi ekki staðfestu hérlendis geti hann ekki verið aðild­ar­fyrir­tæki trygg­ingarsjóðsins hér á landi. Innstæður frá honum séu því ekki undan­skildar trygg­inga­vernd.

Sóknaraðili hafnar því að 2. gr. tilskipunar 94/19/EB, sem undan­skilur inn­lán lána­stofnana frá tryggingavernd, eigi við. Hér gildi íslensk lög og tilskipanir frá Evrópu­sambandinu hafi ekki gildi hér nema þær hafi verið leiddar í lög á réttan hátt. Lög­gjafinn hafi ákveðið að innleiða tilskipunina með því efni sem lög nr. 98/1999 sýni og þar séu innlán lánastofnana ekki undanþegin tryggingavernd. Ekki sé með neinu móti hægt að láta orðalag tilskipunarinnar ganga framar skýrum orðum íslenskra laga.

 Þar sem málsaðilar deili ekki um að krafa sóknaraðila sé innstæða samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og þau voru fyrir setningu laga nr. 79/2012, þar sem krafan byggi ekki á verðbréfi og sóknaraðili sé ekki aðildar­fyrir­tæki íslenska tryggingarsjóðsins liggi fyrir fullkomin sönnun þess að krafa sóknaraðila njóti trygg­inga­verndar og eigi að njóta forgangs við slitameðferð varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til þess að með málsaðilum sé hvorki ágreiningur um höfuð­stól né fjárhæð samningsvaxta enda hafi varnaraðili samþykkt hvort tveggja sem almenna kröfu. Sóknaraðili hafi hins vegar í kröfulýsingu og greinar­gerð tilgreint kröfu sína 1.000.000 pólskra slota lægri en rétt sé. Þetta stafi af innsláttarvillu í kröfu­lýs­ingunni þar sem samnings­vextir af láni að höfuðstól 25.000.000 pólskra slota voru til­greindir sem 645.000 í stað 1.645.000 pólsk slot. Þar sem vitað hafi verið frá upp­hafi samningsins hverjir vextirnir af láninu ættu að vera og innsláttarvillan sé því aug­ljós sé einungis sann­gjarnt að sú krafa hans, sem sett var fram í bókun á dómþingi 26. apríl 2013, að fá að koma að hærri fjárkröfu sem nemi þessari 1.000.000 slota verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst dráttarvaxta af gjaldföllnum höfuðstól að viðlögðum samn­ings­vöxtum frá gjalddaga hvers samnings til 22. apríl 2009. Hann krefst jafn­framt áfallins innheimtukostnaðar. Sóknaraðili krefst þess aðallega að skuld varnaraðila við hann beri íslenska drátt­ar­vexti. Fyrir því færir hann þau rök að fram lagðar kvittanir eða stað­festingar séu ígildi samninga aðila. Þar sem ekki sé tekið fram í þeim samn­ingum hvaða lög eigi að gilda um vanefndir, komi til þeirra, ráðist það af 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Samkvæmt því ákvæði skuli beita lögum þess lands sem samn­ingur hefur sterkust tengsl við. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. séu sterk­ust tengsl talin við það land þar sem sá aðili sem ber aðalskylduna hefur aðal­stöðvar. Í slíku tvíhliða samn­ings­sam­bandi sé augljóst að aðalskyldan sé að endur­greiða lánið með vöxtum á réttum tíma. Varnaraðili hafi ávallt haft sínar aðalstöðvar á Íslandi. Því sé einboðið að um van­efndir varnaraðila gildi íslensk lög og þar með íslenskir dráttar­vextir.

Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans beri pólska dráttarvexti. Gegn því að sú krafa sé of seint fram komin vísar hann til þess að varnaraðili hafi þegar í grein­ar­gerð sinni hafnað því að beita eigi íslenskum lögum við útreikning dráttarvaxta og hafi látið að því liggja að láns­samn­ing­ur­inn hefði sterkari tengsl við Pólland. Þessi ágrein­ingur sé því ekki nýr af nálinni. Auk þess rúmist varakrafa sóknaraðila innan aðal­kröfu hans og leiði beinlínis af henni verði ekki fallist á að krafan beri íslenska drátt­ar­vexti. Eðli málsins samkvæmt verði að reikna ein­hverja dráttarvexti á kröfuna og hafi varnaraðili fært rök fyrir því að það séu pólsk lög.

Sóknaraðili tekur fram að þegar pólskir dráttarvextir hafi verið reiknaðir á höfuð­stól að viðbættum samningsvöxtum hafi komið í ljós að krafan yrði 4.000 pólskum slotum hærri en lýst aðalkrafa. Fallist dómurinn ekki á að leiðrétta eigi aðal­kröfuna þannig að hún nemi réttri fjár­hæð, 49.557.409,50 pólskum slotum, krefjist sókn­ar­aðili þess að varakrafa hans sé viðurkennd að því leyti sem rúmast innan fjár­hæðar lýstrar aðalkröfu. Fram lagt minnis­blað pólsks lög­manns um van­efndaúrræði sam­kvæmt pólskum lögum, falli krafa í galddaga án greiðslu, og fram lögð þýðing pólskra laga veiti fullnægjandi sönnun þess hvaða reglur gildi að pólskum rétti um útreikn­ing dráttarvaxta. Samkvæmt 481. gr. pólsku einka­mála­lag­anna gildi að sé ekki samið sérstaklega um van­efnda­úrræði við vanefndir fjár­skuld­bindinga megi reikna drátt­ar­vexti samkvæmt reglu­gerð pólska ráð­herra­ráðs­ins eins og hún sé á hverjum tíma. Á tímabilinu fram að 15. desember 2008 beri að miða við 11,5% dráttarvexti en sam­kvæmt reglugerð sem gildi frá þeim tíma beri að reikna 13% dráttarvexti.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili, Kaupþing banki hf., hafnar því að krafa sóknaraðila njóti for­gangs­réttar í samræmi við 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá hafnar hann kröfu sóknar­aðila um dráttarvexti á höfuðstól að við lögðum samningsvöxtum frá gjalddaga hverrar inn­greiðslu.

Varnaraðili byggir á því að þrátt fyrir að krafa sóknaraðila sé innstæða í rýmri merk­ingu þess orðs sé hún ekki innstæða í þrengir merkingu þess. Það byggir hann fyrst á því að krafan falli undir hugtakið verðbréf og sé þar með undanskilin trygg­inga­vernd skv. 3. mgr. 9. gr. laganna. Hugtakið verðbréf sé ekki þröngt og afmarkað hug­tak heldur þvert á móti regn­hlíf yfir marg­vís­leg kröfuréttindi. Í lögum sé ekki tæm­andi talið hvaða fjár­mála­gern­ingar falli undir hugtakið. Fræðimenn hafi skilgreint það sem hvers ­konar fram­selj­an­leg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar. Það sé því mjög vítt.

Þess sé hvergi krafist að fjármálagerningur sé í tilteknu skjal­legu formi til þess að teljast verðbréf. Samkvæmt lögum nr. 33/2003 hafi þess einvörðungu verið krafist að krafan væri framseljanleg og að hún hefði almennt fjárgildi. Í greinargerð með frum­varpi til eldri laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003,  sé hugtakinu verðbréf lýst þannig: Fyrsta atriði skil­grein­ing­ar­innar er að um sé að ræða „hvers konar fram­selj­an­leg kröfuréttindi“. Hún er því ekki bundin við ákveðið form skuldbindingar, heldur nægir að skuld­bind­ing sé hæf til framsals og gildir einu hvort slík framsöl þurfi að fara fram skriflega eða með öðrum hætti.

Þegar lög 108/2007 um verðbréfaviðskipti tóku gildi hafi hug­tak­inu verðbréf ekki verið breytt að öðru leyti en því að greiðsluskjöl hafi verið tekin undan því. Ekki þurfi að tíunda að lánasamningar séu ekki greiðslukjöl. Hugtakið hafi ekki verið þrengt frá því sem gilti í lögum nr. 33/2003. Í lögum 108/2007 séu ekki önnur skilyrði en að gern­ing­ur­inn sé fram­seljan­legur og hægt sé að eiga við­skipti með verðbréfið á fjár­magns­mark­aði.

Í lögum séu ekki gerðar strangar kröfur til þess að bréf teljist framseljanleg. Í greinar­gerð með frumvarpi til laga nr. 108/2007 sé „fram­selj­an­leiki“ skýrður þannig að eignarhald geti færst yfir á annan aðila. Það þurfi því að vera ómögulegt að færa kröfu milli aðila til þess að hún teljist ekki fram­seljan­leg í skilningi laganna og þar með ekki verðbréf. Í grein­ar­gerðinni sé tekið dæmi um kröfuréttindi sem ekki geti færst milli aðila. Það eigi við um afleiðuviðskipti sem sé þannig háttað að sá sem kaupi val­réttar­samn­ing geti aðeins losnað úr stöðunni með því að gera gagnstæðan samn­ing við mið­lægan mót­aðila. Slíkur samningur teljist ekki verðbréf. Þetta dæmi sýni að skil­yrðið um fram­seljan­leika sé mjög vítt. Það þurfi hreint og beint að vera einhver fyrirstaða til þess að krafan teljist ófram­seljan­leg enda sé það megin­regla og horn­steinn kröfu­réttar að kröfur séu fram­seljan­legar. Takmörkun á þessum rétti kröfu­hafa verði að eiga sér stoð í samningi aðila, lögum eða hags­munum skuld­ara. Í þessu til­viki sé ekkert í samn­ingi aðila sem komi í veg fyrir fram­salið. Lög standi ekki heldur í vegi fyrir framsali lánsins á milli­banka­mark­aði. Þar fyrir utan hafi það ekki  skipt varn­ar­aðila neinu máli hver ætti kröfu á hendur honum og hverjum honum bar að greiða á gjalddaga samningsins. Hags­munir varnar­aðila hafi því ekki komið í veg fyrir að krafan væri framseld.

Það sé meginregla að kröfuhafaskipti geti farið fram án samþykkis skuldara og á hvaða hátt sem leitt geti til aðilaskipta að eignarréttindum. Það sé jafnframt megin­regla að kröfuhafa sé frjálst að ráðstafa kröfu sinni með samningi til ann­arra aðila. Um gagn­kvæma samninga gildi enn fremur að þeir séu að jafnaði fram­selj­an­legir. Réttur­inn til framsals sé því mjög ríkur og verði ekki skertur nema með samningi, lögum eða vegna hagsmuna skuldara.

Nægjanlegt sé að krafa sé til og framseljanleg en ekki sé skilyrði að hún sé á til­teknu formi til þess að hún sé framseljanleg. Sá sem haldi því fram að lán á milli­banka­mark­aði sem þessi lán hafi sannanlega verið, stöðluð hefðbundin skamm­tíma­lán, séu ekki fram­selj­an­leg beri sönnunarbyrðina fyrir því, ekki hvað síst þegar framsalið sé ekki takmarkað af samningi, lögum né hagsmunum varnaraðila.

Hitt skilyrði þess að gerningur sé verðbréf sé að unnt sé að eiga viðskipti með hann á fjármagnsmarkaði. Í frumvarpi að lögum nr. 108/2007 segi: „Með viðskiptum á fjár­magns­mark­aði er átt við viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði, á markaðstorgi fjár­mála­gern­inga (MTF) eða viðskipti fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis með leyfi til verð­bréfa­viðskipta.“ Einungis síðastgreinda atriðið hafi þýðingu fyrir þetta mál. Þessi skil­grein­ing sýni að hugtakið „viðskipti á fjármagnsmarkaði“ sé ekki túlkað þröngt og taki til fjölbreyttra tegunda viðskipta svo framarlega sem slíkt fyrir­tæki hafi milli­göngu um þau.

Hefði sóknaraðili á árinu 2008 viljað losa sig úr réttarsambandinu við varnar­aðila, hefði ekkert getað komið í veg fyrir að hann hefði sam­band við fjár­fest­ing­ar­banka eða annað fjármálafyrirtæki og óskaði eftir því að þeir hefðu milligöngu um sölu á þessum kröfum. Kröfur gangi kaupum og sölum á markaði á hverjum degi. Það leiði af eðli staðlaðra viðskipta á millibankamarkaði að fjár­mála­fyrir­tæki hefði aðkomu að slíkum viðskiptum. Mikilvægt sé að skilyrðið um við­skipti á fjár­magns­mark­aði sé fræði­legt. Þess sé ekki krafist að markaður sé fyrir slíkar kröfur. Eingöngu sé talað um að viðskiptin séu möguleg. Í fræðum sé staðfest að það sé ekki hugtaks­skil­yrði að viðskipti með gerninginn hafi í raun farið fram á fjár­magns­mark­aði.

Bæði skilyrði hugtaksins verðbréf séu þannig einungis fræðileg. Ekkert hafi verið fært fram gegn því að krafa sóknaraðila á hendur varnar­aðila sé framseljanleg á fjár­magns­mark­aði. Megin­reglan sé alltént sú að framsal sé heimilt sé það ekki tak­markað af lögum, sam­ingum eða hagsmunum skuldara.

Lög nr. 108/2007 hafi verið sett til þess að innleiða svonefnda MiFID-til­skipun. Enda þótt í henni sé fjallað um hugtakið fjármagnsmarkað (e. capital market) sé það hug­tak ekki skilgreint í tilskipuninni sjálfri en í útskýringum með henni sé tekið fram að hugtakið sé vítt og nái yfir öll svið þar sem kaup og sala á verðbréfum fari fram. Þetta hugtak, hvort heldur í tilskipuninni eða íslenskum lögum, eigi ekki að tákna þröngan afmarkaðan vettvang með viðskipti með þessa gerninga.

Að mati varnaraðila hafi dómar í málum um heildsöluinnlán sveitarfélaga ekki gildi hér. Gerólík lögmál gildi um stöðluð lán milli banka á millibankamarkaði sem hluta af fjárstýringu viðkomandi fyrir­tækja en um lán frá sveit­ar­félögum, fyrir­tækjum eða einstaklingum til banka. Þar fyrir utan sé réttarstaðan allt önnur nú en þegar heild­sölu­málin voru flutt og dæmd. Þá hafi áherslan verið á að greina á milli láns og inn­láns. Að fengnu áliti EFTA-dóm­stólsins og eftir dóm Hæstaréttar í málum nr. 169/2011 og 722/2012 sé þessi skil­grein­ing óþörf. Innstæðuhugtakið hafi verið víkkað mjög mikið og sé það komið langt út fyrir það sem Hæstiréttur sjálfur lagði til grund­vallar í dómum sínum um heild­sölu­inn­lánin.

Þegar inntak laganna sé víkkað svo verulega sé eðlilegt að undan­þágu­ákvæðin séu að sama skapi endurmetin. Ekki sé víst að Hæstiréttur leggi sama mat á undan­þágu­ákvæðin nú og hann gerði þegar heildsöluinnlánin voru til meðferðar. Líkur séu til þess að hann meti þau á rýmri hátt nú þegar öll innlán frá bönkum hafi verið felld undir inn­láns­formið sem var ekki ætlun löggjafans í upphafi.

Að mati varnaraðila hefur dómur í máli nr. 722/2012 mun meira vægi en í honum hafi lánasamningar milli fjármálafyrirtækja á millibankamarkaði verið skil­greindir sem verð­bréf. Þrátt fyrir að þeir hafi verið lengri og flóknari breyti það því ekki að kröfuréttindin séu þau sömu ‒ lán frá einni fjár­mála­stofnun til ann­arrar sem bar að endurgreiða með tilteknum vöxtum. Enginn munur sé á eðli lán­veit­ing­ar­innar.

 Þar sem sóknaraðili haldi því fram að lán hans til Kaupþings banka hf. grund­vall­ist ekki á verð­bréfum hvíli sönnunarbyrðin fyrir því á honum. Það sé hans að sýna fram á að þessi lánveiting sé svo gerólík því láni sem deilt var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 722/2012 að til grundvallar henni sé ekki verðbréf. Ekki nægi að lánið sé flókn­ara, lengra eða hafi afleiðu­tengd vaxtaákvæði. Lög um verð­bréfa­við­skipti geri ekki neinn grein­ar­mun á því hvort viðskiptin séu flókin eða einföld. Þau krefjist þess ein­vörð­ungu að kröfuréttindin séu framseljanleg og að hægt sé að eiga viðskipti með þau á fjár­magnsmarkaði. Bæði þessi skilyrði séu fræðileg.

Í öðru lagi telur varnaraðili að skýra beri 6. mgr. 9. gr. 98/1999 með til­liti til 2. gr. tilskipunar 94/19/EB. Lögin hafi verið sett til þess að innleiða þessa tilskipun. Jafn­framt sé óumdeilt að innlán lána­stofn­ana séu undanþegin tryggingavernd sam­kvæmt 2. gr. hennar svo og að sú takmörkun á tryggingarverndinni sé ekki valkvæð heldur sé skylt sam­kvæmt til­skip­un­inni að undanskilja innlán frá aðila eins og sóknaraðila trygg­ingar­vernd.

Eigi að tryggja að lög 98/1999 samræmist efni tilskipunarinnar sem þau voru sett til þess að innleiða verði að túlka 6. mgr. 9. gr. með tilliti til þessarar undanþágu til­skipunarinnar frá tryggingaverndinni. Í 6. mgr. sé tekið fram að innstæður aðildar­fyrir­tækja séu undanþegnar trygg­ingavernd. Í þessu tiltekna ákvæði sé ekki fjallað um það hvað falli undir hug­takið aðildarfyrirtæki. Að mati varnaraðila er það innan heim­ildar íslenskra dómstóla að beita sam­ræmis­skýr­ingu þannig að undir hugtakið aðildar­fyrir­tæki í 6. mgr. 9. gr. falli allar lánastofnanir á Evrópska efna­hags­svæðinu sem eiga aðild að inn­láns­trygg­inga­kerfum á svæðinu en ekki eingöngu íslensk fyrir­tæki sem eiga aðild að íslenska trygg­ingar­sjóðnum. Væri ákvæðið skýrt á þennan hátt féllu lögin að 2. gr. til­skip­un­ar­innar með því að útiloka innlánafyrirtæki eins og sóknar­aðila.

Í frumvarpi til laga nr. 98/1999 segi um 9. gr. að hún sé byggð á 1.-3. mgr. 78. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996. Inntak greinarinnar sé þó víð­tæk­ara en í eldri lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Í þeim segi í 3. mgr. 78. gr. að undanskildar tryggingar skv. 1. mgr. séu innstæður í eigu annarra við­skipta­banka, spari­sjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning og inn­stæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti, svo og inn­stæður dóttur- eða móðurfélags þessara stofnana. Í þessu ákvæði sé ekki minnst á að ákvæðið taki einvörðungu til íslenskra aðila. Í því sé ekki gerður greinarmunur á íslenskum eða erlendum viðskiptabönkum, spari­sjóðum eða öðrum lánastofnunum. Allir viðskiptabankar, allir sparisjóðir og allar aðrar lánastofnanir séu undanþegnar trygg­ingu eins og gert sé ráð fyrir í tilskipuninni. Þegar ákvæðinu hafi verið breytt með lögum nr. 98/1999 hafi markmiðið ekki verið að þrengja und­an­þáguna heldur víkka hana. Það sé í sam­ræmi við áætlun löggjafans og ummæli í grein­ar­gerð­inni að ákvæðið sé látið ná yfir öll aðild­ar­fyrirtæki á Evrópska efna­hags­svæð­inu.

æri að öllu leyti fallist á skýringar sóknaraðila á lögum nr. 98/1999 rýmkaði umfang og inntak þeirra óhóflega. Þá virkuðu þau eins og trygg­inga­kerfi í við­skiptum fjár­mála­fyrirtækja á millibankamarkaði en það gangi þvert gegn til­gangi lag­anna og til­gangi svonefndra neyðarlaga nr. 125/2008. Tilgangur þeirra síðarnefndu hafi aldrei verið að bjarga millibankaviðskiptum fjármálafyrirtækja. Þessi réttaráhrif lag­anna séu einnig í and­stöðu við til­gang til­skip­un­ar 94/19/EB sem sé að tryggja hag spari­fjár­eig­enda en ekki lánafyrirtækja enda séu þau þar sér­stak­lega undan­skilin. Ekki sé nauð­syn­legt búa til tryggingakerfi fyrir lánastofnanir sem hafi það að atvinnu sinni að lána pen­inga. Peningarnir séu ekki hluti af sparifé þeirra heldur af fjár­stýr­ingu þeirra. Ennfremur myndi þetta leiða til ákveðins ójafnræðis milli kröfu­haf­anna. Yrði fallist á kröfu sóknaraðila væri fyrirtækjum mismunað eftir þjóðerni. Íslenskar inn­láns­stofn­anir yrðu úti­lok­aðar frá því að eiga for­gangs­kröfu sem byggði á sama grunni og krafa sóknar­aðila en erlendir aðilar sem ættu slíkar kröfur nytu forgangs. Megin­reglan við gjaldþrotameðferð og slit fjármála­fyrir­tækja sé jafnræði kröfuhafa og for­gangs­réttur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé frávik frá því sem beri að skýra þröngt.

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili geti komið að hærri fjárkröfu. Hann sé bundinn við þá fjárhæð sem hann tilgreindi í kröfulýsingu sinni og hafi ekki neina heimild til að auka við kröfurnar síðar. Samkvæmt 117. gr. laga nr. 21/1991 verði kröfu­hafar að lýsa kröfum nákvæmlega, bæði höfuðstól og vöxtum. Við þá fjár­hæð verði ekki aukið síðar nema með stoð í 118. gr. laganna en engin undaþága þess ákvæðis eigi við hér. Misritun geti ekki réttlætt hækkun. Um það gildi skýr laga­ákvæði sem sanngirnisrök fái ekki breytt.

Vegna kröfu sóknaraðila um dráttarvexti vísar sóknaraðili til þess að hún ráðist af 4. gr. laga nr. 43/2000 þar sem ekkert hafi verið samið um vanefndaúrræði í samn­ingum aðila. Málsaðilar séu hins vegar ósammála um það við hvaða land samn­ing­ur­inn hafi sterkust tengsl. Í þessu samningssambandi sé sóknar­aðili lán­veit­andi og varn­ar­aðili viðskiptamaður hans. Það hljóti að vera aðal­skylda að veita lánið. Aukaskyldan sé að endurgreiða það. Sóknaraðili hafi banka­starf­semi sína og höfuð­stöðvar í Pól­landi. Samningurinn hafi sterkust tengsl við Pólland. Þar fyrir utan hafi við­skipt­unum verið komið á með milli­göngu pólsks miðlara, greiðsla sóknar­aðila var innt af hendi í pólskum slotum, greidd inn á reikning varnaraðila hjá banka í Pól­landi og varnar­aðila hafi borið að endur­greiða pólsk slot inn á reikning sóknaraðila hjá seðla­banka Pól­lands. Tengsl samn­ings­ins við Ísland séu því lítil. Þess vegna gildi pólsk lög um van­efndir en ekki íslensk.

Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila um íslenska dráttarvexti sé van­reifuð í greinargerð hans. Þar minnist hann hvergi á það á hvaða grundvelli hann byggi kröfu sína um dráttarvexti, vísi hvorki til laga nr. 38/2001 í heild né tiltekinnar laga­greinar.

Varnaraðili telur þá málsástæðu sóknaraðila að krafa hans beri pólska dráttar­vexti allt of seint fram komna en hún hafi komið fram löngu eftir að ágreiningur máls­aðila var sendur héraðsdómi og löngu eftir að aðilar skiluðu greinargerðum sínum. Fjár­hæð varakröfunnar hafi þar fyrir utan fyrst verið lögð fram í upphafi aðal­með­ferðar.

Sá sem ætli að bera fyrir sig sönnunarreglu verði að geta um hana í greinar­gerð sinni annars geti varnaraðili ekki reifað sönnunaratriði málsins. Varnaraðili verði ekki sviptur þeim rétti að koma málsástæðum sínum á framfæri í greinargerð.

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi að fullu sýnt fram á efni og tilvist þeirrar pólsku réttarreglu sem eigi að veita honum rétt til dráttarvaxta. Þrátt fyrir að varn­ar­aðili mótmæli því ekki að lögfræðiálitið sé unnið af þeim sem undirritaði það mót­mælir hann efni þess. Lög­fræði­álit sem þetta hafi ekki neina þýðingu eitt og sér til sönn­unar á erlendri réttarreglu.

Vegna kröfu sóknaraðila um kostnað vísar varnaraðili til þess að það sé marg­dæmt að kröfuhafar eigi sjálfir að bera kostnað sinn af lögfræðiráðgjöf. Sóknar­aðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni að lýst fjárhæð sé kostnaður af innheimtu kröf­unnar. Í kröfu­lýsingu vísi hann til reikninga, sem séu allir dagsettir eftir úrskurð­ar­dag. Þar sé reifað örstutt að þeir séu vegna bréfaskipta við Fjármálaeftirlitið en slíkan kostnað eigi sóknaraðili ekki að bera auk þess sem reikningarnir hafi ekki verið lagðir fram. Þann kostnað verði því að flokka sem eftirstæða kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991

Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili til laga nr. 125/2008 um heimild til fjár­veitinga úr ríkisjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, laga nr. 98/1999 um inn­stæðu­trygg­ingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrirtæki auk laga nr. 129/2008, 44/2009 og 61/2009 um breytingar á lögum um fjár­málafyrirtæki, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og reglugerðar nr. 120/2000, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Kröfu sína um máls­kostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl.

Niðurstaða

Málsaðilar deila aðallega um það hvort krafa sóknaraðila í slitabú vararaðila skuli njóta forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., sbr. 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, eða stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga.

Eins og fram er komið lögðu málsaðilar fram sameiginlega bókun á dómþingi, 26. apríl 2013, þar sem þeir staðfesta að þeir deili ekki lengur um það að krafa sóknar­aðila teljist innstæða í rýmri merkingu 1. máls­liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og sú lagagrein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, sbr. umfjöllun í dómum Hæsta­réttar nr. 169/2011 og nr. 722/2012. Ágreiningur aðila um rétthæð kröfunnar sé því afmarkaður við það eitt hvort krafa sóknaraðila sé undanskilin tryggingavernd sam­kvæmt ákvæðum sömu laga og geti af þeim sökum ekki notið forgangsstöðu við slita­meðferð varnaraðila. Þá staðfesta málsaðilar að ekki sé ágreiningur með þeim um að sóknaraðili sé lána­stofnun samkvæmt pólskum lögum og í skilningi tilskipunar 94/19/EB.

Áður er frá því greint að EFTA-dómstóllinn veitti, að beiðni Hæstaréttar, ráð­gef­andi álit á skilgreiningu hugtaksins innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB. Í áliti sínu gerði dómstóllinn greinarmun á þrengri skilgreiningu inn­stæðu­hug­taksins (functional definition) sem taki til tryggðra innstæðna samkvæmt til­skip­un­inni og rýmri skilgreiningu þess (technical definition) sem taki einnig til innstæðna sem ekki njóti tryggingaverndar. Hæstiréttur byggir í dómi sínum í máli nr. 169/2011 á því að rétt sé við beitingu laga nr. 98/1999 að beita sambærilegri tvískiptri skil­grein­ingu hugtaksins.

Fyrsta spurningin sem málsaðilar leggja nú fyrir dóminn er hvort greiðslur sókn­ar­aðila til Kaupþings banka hf. 10. mars 2008, 25. mars 2008 og 12. ágúst 2008 séu inn­stæður samkvæmt þrengri skilgreiningu hugtaksins.               Aðeins tvennt getur staðið því í vegi. Annars vegar að til grundvallar kröfu sóknaraðila í bú varn­ar­aðila liggi verð­bréf samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1991 og hins vegar að sókn­ar­aðili verði skilgreindur sem aðildarfyrirtæki í skiln­ingi 6. mgr. 9. gr. lag­anna.

Um tilvist innlána sóknaraðila og skyldu varnaraðila til endurgreiðslu hafa verið lögð fram ýmis skjöl. Þeirra á meðal eru svonefnd SWIFT-skeyti sem lýst er í máls­atvikum. Eins og fram er komið byggir varnaraðili á því að þessi skeyti séu verð­bréf í skilningi 2. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og það ákvæði hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012 og af þeim sökum njóti inn­stæða sóknaraðila ekki trygg­ing­a­verndar.

Í 2. gr. laga nr. 13/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, sem í gildi voru við setn­ingu laga nr. 98/1999, kem­ur fram að verðbréf séu hvers konar framseljanleg kröfu­rétt­indi til peninga­greiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eign­ar­rétt­indum að öðru en fasteign eða ein­stökum lausafjármunum. Í gildandi lögum nr. 108/2007 um verð­bréfa­viðskipti er hug­takið verðbréf skilgreint í 2. tölulið 1. mgr. 2. gr. þannig að það séu þau fram­seljan­legu verðbréf sem hægt sé að eiga viðskipti með á fjár­magns­mark­aði.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga nr. 108/2007 er með viðskiptum á fjár­magns­mark­aði átt við viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði, á markaðstorgi fjár­mála­gern­inga (MTF) eða viðskipti fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis með leyfi til verð­bréfa­við­skipta. Ekki þykir þörf á að rekja nánari skilgreiningu þessara hugtaka.

Fram lögð SWIFT-skeyti sýna að sóknaraðili greiddi varnaraðila 25.000.000 pólskra slota 10. mars 2008, 10.000.000 pólskra slota 25. mars 2008 og 10.000.000 pólskra slota 12. ágúst 2008. Samkvæmt skeytunum bar varnaraðila að endur­greiða sóknaraðila 26.456.000 pólsk slot 10. mars 2009, 10.665.000 pólsk slot 25. mars 2009 og 10.165,095,89 pólsk slot 12. nóvember 2008.

Þrátt fyrir þá meginreglu að allar kröfur séu framseljanlegar hefur varnaraðili að mati dómsins ekki leitt líkur að því að þessi SWIFT-skeyti séu fram­seljan­leg á þeim fjármagnsmarkaði sem lög nr. 108/2007 um verð­bréfa­við­skipti vísa til og séu þar með verð­bréf í skiln­ingi a-liðar, 1. töluliðar 1. mgr. 2. gr. þeirra laga. Því verður ekki talið að umrædd innlán eða milli­færslur geti talist verð­bréf í skiln­ingi 2. máls­liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og ákvæðið var fyrir setningu laga nr. 79/2012. Krafa sókn­ar­aðila er því ekki und­an­þegin trygg­inga­vernd af þeim sökum að hún grund­vallist á verðbréfi.

Samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eru innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja undanskilin tryggingavernd. Varnaraðili byggir næst á því að túlka beri orðið aðildarfyrirtæki í 6. mgr. 9. gr. með hliðsjón af 2. gr. til­skip­unar 94/19/EB þannig að það taki til allra lánastofnana á Evrópska efna­hags­svæð­inu sem eigi aðild að inn­láns­trygg­inga­kerfum á því svæði.

Þetta mál er milli tveggja lögaðila. Enda þótt annar þeirra sé erlendur ber að leysa úr ágreiningi þeirra eftir íslenskum lögum. Í 3. gr. laga nr. 98/1999 eru talin upp þau fjár­mála­fyrirtæki sem er skylt að eiga aðild að tryggingarsjóðnum en það eru við­skipta­bankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verð­bréfa­þjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti og hafa staðfestu hér á landi svo og útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Í 3. gr. er jafnframt tekið fram að eftir­leiðis í lögunum verði þessi fyrir­tæki nefnd aðildar­fyrir­tæki. Að mati dómsins leikur því ekki neinn vafi á því hver er merking hugtaksins aðild­ar­fyrirtæki í 6. mgr. 9. gr. og því sé ekki nein þörf á að túlka hugtakið.

Um það er ekki deilt að lög nr. 98/1999 útiloka lánastofnanir í skilningi 2. gr. til­skip­unar 94/19/EB ekki frá tryggingavernd íslenska tryggingarsjóðsins eins og til­skip­unin gerir og er þar af leiðandi gert í þeim löndum þar sem hún hefur verið rétti­lega innleidd. Það er jafnframt alkunna að í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efna­hags­svæðið segir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til sam­ræmis við EES-samn­ing­inn og þær reglur sem á honum byggjast. Engu að síður á með slíkri lög­skýr­ingu einungis að veita orðum í íslenskum lögum, að því marki sem unnt er, merk­ingu sem rúmast innan þeirra og kemst næst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efna­hags­svæð­inu. Við slíka lög­skýr­ingu er ekki ætlast til þess að litið sé fram hjá orðum íslenskra laga, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 79/2010. Að mati dóms­ins er með slíkri lög­skýr­ingu ekki unnt að teygja merkingu hug­taks­ins aðildar­fyrir­tæki í 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 þannig að hug­takið nái, eins og varnaraðili leggur til, yfir allar lána­stofn­anir á Evrópska efna­hags­svæðinu sem eru aðilar að trygg­ingar­sjóði hver í sínu landi. Þrátt fyrir eðli sóknaraðila sem lána­stofn­unar er því hafnað að hann sé aðildarfyrirtæki í skiln­ingi 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Krafa sóknaraðila fellur ekki heldur utan trygg­inga­verndar af þeim sökum.

Með bókun sem sóknaraðili lagði fram á dómþingi 26. apríl 2013 óskaði hann eftir því að fá að koma að leiðréttri kröfugerð þar sem innsláttarvilla hafi verið í kröfu­lýs­ingu hans. Þar hafi krafan verið skráð 48.557.409,50 pólsk slot en rétt fjárhæð kröf­unnar sé 49.557.409.50 pólsk slot. Varnaraðili mótmælti því að unnt væri að hækka kröf­una á þessu stigi málsins.

Samkvæmt 117. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, skal lýsing kröfu í slitabú fjármálafyrirtækis vera skrifleg og svo skýr sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum. Fallist er á það með varnaraðila að ekki sé unnt að koma að aukinni kröfu þrátt fyrir að þau gögn sem lögð voru með kröfu­lýs­ing­unni sýni að vextir sem voru til­greindir í kröfulýsingu sem 645.000 pólsk slot hafi í raun verið 1.645.000 pólsk slot.

Að þessu frágengnu deila málsaðilar um það hvort krafa sóknaraðila skuli bera íslenska eða pólska dráttarvexti. Í kröfulýsingu krefst sóknaraðili dráttarvaxta sam­kvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í skriflegum andmælum sínum til slitastjórnarinnar studdi sókn­ar­aðili kröfu um dráttarvexti enn við lög nr. 38/2001. Til þeirra er þó ekki vísað sér­staklega í greinargerð sóknaraðila til dómsins. Varnar­aðili mótmælti því í greinar­gerð sinni til dómsins að krafa sóknaraðila bæri dráttar­vexti en yrði fallist á það var því sérstaklega mótmælt að krafan bæri íslenska dráttar­vexti. Vegna þessara mótmæla lagði sóknaraðili fram á dómþingi 31. janúar 2012 bókun þar sem ítrekað var að krafa sókn­ar­aðila bæri íslenska dráttarvexti samkvæmt 5. og 6. gr. laga nr. 38/2001 í sam­ræmi við lög nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samn­inga­réttar, einkum 4. gr. þeirra.

Í þinghaldi 26. apríl sl. lagði sóknaraðili fram bókun þar sem hann setti fram þá kröfu til vara að fjárkrafa hans bæri pólska dráttarvexti. Lögmaður varnaraðila bók­aði mót­mæli við breyttri kröfugerð þar sem lög um gjaldþrotaskipti heimiluðu ekki hækkun á fjárhæð eftir lok kröfulýsingarfrests. Í málflutningi var varakröfu sóknar­aðila um dráttarvexti samkvæmt pólskum lögum mótmælt sem of seint fram kominni.

Fallast má á það með varnaraðila að sú málsástæða sóknaraðila að krafa hans bæri pólska dráttarvexti, yrði þeim íslensku hafnað, hefði að óskekju mátt koma fyrr fram. Í greinargerð sinni til dómsins hafnar varnaraðili því eins og áður segir að sókn­ar­aðili eigi kröfu til dráttarvaxta en verði fallist á rétt hans til þeirra eigi þeir hvað sem öðru líði ekki að vera íslenskir þar sem varnaraðili hafi átt viðskipti við pólskan banka í pólskri mynt, fjárhæðin hafi verið millifærð frá einum pólskum banka, sóknar­aðila, inn á reikning varnaraðila sem einnig hafi verið í pólskum banka (Nordea Bank Polska S.A.). Jafnframt hafi miðlarinn sem kom við­skipt­unum á verið staðsettur í Pól­landi og end­ur­greiða hafi átt kröfuna til pólska seðla­bank­ans (National Bank of Poland). Þar sem viðskiptin hafi að öllu leyti farið fram innan Pól­lands sé erfitt að sjá rök fyrir því að íslensk vaxtalög gildi um millifærsluna.

Þegar varnaraðili hefur í greinargerð sinni fært svo sterk rök fyrir því að krafa sóknaraðila beri pólska dráttarvexti getur hann varla borið því við að varakrafa sókn­ar­aðila með þeirri málsástæðu sé of seint fram komin.

Málsaðilar eru sammála um það að þeir hafi ekki samið um afleiðingar van­efnda en þá greinir á um hvort eigi að beita vanefndaúrræðum og jafnframt hvort þau eigi að fara að íslenskum eða pólskum lögum. Þegar þarf að taka afstöðu til þess lögum hvaða lands skuli beitt um einka­rétt­ar­legar samningsskuldbindingar eins og þá sem hér er deilt um gilda lög nr. 43/2000. Undantekning frá þeim sem tekur til skuld­bind­ingar sem byggist á víxlum, tékkum og skuldabréfum og öðrum við­skipta­bréfum verður ekki talin eiga við hér. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skal, hafi ekki verið um annað samið, velja lög þess lands sem samningurinn hefur sterkust tengsl við. Í 2. mgr. er sú leiðbeining veitt að að jafnaði skuli telja samning hafa sterkust tengsl við það land þar sem sá aðili, sem ber aðalskyldu samningsins, hefur aðalstöðvar sínar.

Lög nr. 43/2000 grundvallast á svonefndum Rómarsamningi um lagaskil á sviði samningaréttar (The Rome Convention) sem var undirritaður 19. júní 1980 og virðist hugtakið aðalskylda í lögunum vera það sama og á ensku heitir characteristic per­form­ance í Rómarsamningnum (d. karakter­ist­iske ydelse, f. prestation caractérist­ique, þ. char­akter­ist­ische Leistung). Í fræðiskrifum um það hugtak hefur verið litið svo á að greiðsla peninga sé ekki aðal­skylda þegar gagn­aðila ber að afhenda eitthvað annað en pen­inga. Í til­viki eins og þessu þar sem á báðum málsaðilum hvíldi skylda til að afhenda hinum pen­inga verða ólar ekki eltar við að meta hvor skyldan setji meira mark á samninginn, enda á leið­bein­ing 2. mgr. 4. gr. einungis við sé unnt að afmarka aðal­skyldu samn­ings, sbr. 5. mgr. 4. gr. Jafn­framt á leiðbeining 2. mgr. ekki við verði af aðstæðum öllum ráðið að samn­ing­ur­inn í heild hafi ríkari tengsl við annað land en það sem leiða myndi af leið­bein­ing­unni í 2. mgr.

Fallist er á það með varnaraðila að tengsl lánasamninganna við Pólland séu sterk­ari en tengsl þeirra við Ísland og því verði pólskum lögum beitt um van­efnda­úrræði sókn­ar­aðila svo sem um það hvort hann á rétt á dráttarvöxtum og hversu háir þeir skuli vera.

Sóknaraðili hefur lagt fram minnisblað frá lögmanni á lögmannsstofunni Dentons í Varsjá. Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi að fullu sýnt fram á efni og tilvist þeirrar pólsku réttarreglu sem á að veita honum rétt til dráttarvaxta sam­kvæmt pólskum lögum. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi ekki mótmælt því að lög­fræði­álit sé unnið af þeim sem undirritaði það mótmælir hann efni þess.

Þetta minnisblað lá að sönnu ekki fyrir fyrr en tveimur vikum fyrir aðal­með­ferð málsins og þá einungis á ensku. Íslensk þýðing þess og þýðing pólskra laga var ekki lögð fram fyrr en við aðalmeðferð málins. Hefði varnaraðili viljað mótmæla sönn­un­ar­gildi þessa minnisblaðs, sem sóknaraðili byggir rétt sinn til pólskra dráttar­vaxta og hundraðs­hluta þeirra á, hefði honum verið í lófa lagið að óska þess að aðal­með­ferð málsins yrði frestað svo honum gæfist kostur á, til dæmis með öðru lög­fræði­áliti, að hnekkja efni þess. Það gerði hann ekki. Að mati dómsins hefur það ekki heldur þýðingu þótt útreikningur dráttarvaxta samkvæmt pólskum lögum hafi ekki legið fyrir fyrr en við aðalmeðferð þar sem sóknaraðili hefði aldrei getað farið út fyrir fjár­hæðir hvers kröfuliðar í kröfulýsingu sinni. Varnaraðili varð því ekki fyrir neinum rétt­ar­spjöllum þótt útreikningurinn hafi ekki verið lagður fram fyrr.

Minnisblaðið og fram lögð þýðing pólskra laga þykir skýra nægjan­lega efni og til­vist pólskra réttarreglna um dráttarvexti af milli­banka­lánum í þeim tilvikum þegar máls­aðilar hafa ekki samið um vexti, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því gilda almennar reglur pólskra einkamálalaga hafi samningsaðilar að inn­láns­samn­ingi ekki skil­greint dráttarvexti af gjaldföllnum fjárhagslegum kröfum. Samkvæmt 481. gr. lag­anna er lánveitanda heimilt að krefjast vaxta af skuldara sem vanrækir að efna samn­ings­bundna fjárhagslega skuldbindingu á tilsettum tíma fyrir það tímabil sem greiðslu­drátt­ur­inn varir jafnvel þótt drátturinn hafi orðið vegna aðstæðna sem skuldari hafði ekki stjórn á. Hafi vextir vegna greiðsludráttar ekki verið tilgreindir í láns­samn­ingnum skulu greiddir lögbundnir vextir eins og þeir eru ákveðnir í reglugerð ráð­herra­ráðsins. Sam­kvæmt þeirri reglugerð frá 4. desember 2008 hafa lögbundnir árs­vextir numið 13% frá 15. desember 2008. Fram til þess tíma námu lögbundir ársvextir 11,5% sam­kvæmt reglugerð ráðherraráðsins frá 13. október 2005.

Útreikningur sóknaraðila á dráttarvöxtum samkvæmt pólskum lögum tekur mið af höfuðstól lánanna að viðlögðum þeim samningsvöxtum sem hann lýsti en ekki þeim vöxtum sem um var samið og hann krefst nú að fá að koma að. Útreikn­ingur hans verður því lagður til grundvallar niðurstöðu um fjárkröfu.

Sóknaraðili krefst þess að útlagður kostnaður sem hann hafi haft af þjónustu íslenskra lögmanna áður en Kaupþing banki hf. var tekinn til slita verði viðurkenndur sem for­gangs­krafa. Fyrir þeim kostnaði hefur hann þó ekki fært neinar sönnur. Auk þess sýnir yfirlit yfir fram lögð skjöl með kröfulýsingu hans að reikningar íslenskra lög­manna sókn­ar­aðila eru allir dagsettir eftir 22. apríl 2009 sem er úrskurðardagur við slit Kaup­þings. Sóknaraðili verður því ekki talinn hafa sýnt fram á að hann eigi for­gangs­kröfu í slita­búið vegna útlagðs kostnaðar og því verður þeirri kröfu hans hafnað.

Höfuðstóll kröfu sóknaraðila að viðlögðum lýstum samningsvöxtum nemur 46.475.095 pólskum slotum (25.645.000 + 10.665.000 + 10.165.095). Pólskir dráttar­vextir af kröfu hans nema samtals 1.086.737 slotum. Því er fallist á að sókn­ar­aðili eigi fjár­kröfu í bú varnaraðila sem samtals nemur 47.561.832 pólskum slotum.

Þar sem því hefur verið hafnað að krafa sóknaraðila grundvallist á verðbréfum í skilningi 2. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 svo og að hún sé í eigu aðildar­fyrir­tækis í skilningi 6. mgr. 9. gr. sömu laga er fallist á að hún sé innstæða sem njóti trygg­ingaverndar lag­anna. Sam­kvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 með áorðnum breytingum nýtur krafa sóknaraðila því forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varn­ar­aðila.

Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 1.750.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til kostnaðar vegna þýðingar skjala og skyldu sóknaraðila til að greiða virðis­auka­skatt af mál­flutn­ings­þóknun.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Krafa sóknaraðila, Bank Pekao SA-Centrala, Varsjá, Póllandi, í slitabú Kaup­þings hf., 47.561.832 pólsk slot, er viður­kennd sem for­gangs­krafa í samræmi við ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjald­þrota­skipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Varnaraðili, slitabú Kaupþings hf., greiði sóknaraðila 1.750.000 kr. í máls­kostnað.