Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Vitni
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 31

 

Miðvikudaginn 31. maí 2006.

Nr. 280/2006.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Félagi íslenskra flugumferðarstjóra

(enginn)

 

Kærumál. Félagsdómur. Vitni. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Málinu var vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti þar sem kæruheimild var ekki fyrir hendi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 12. maí 2006, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að fjórum nafngreindum vitnum, sem hann hyggst leiða í málinu, væri rétt og skylt að svara þremur nánar tilgreindum spurningum fyrir dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. og 3. töluliðar 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með áorðnum breytingum. Hann krefst þess aðallega að framangreind krafa hans verði tekin til greina, en til vara að lagt verði fyrir Félagsdóm að taka hana til efnislegrar úrlausnar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði leit Félagsdómur svo á að þrjár spurningar, sem sóknaraðili vildi leggja fyrir vitni, væru svo óákveðnar að ófært væri að taka afstöðu til þess hvort þau yrðu krafin um svör við þeim, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jafnframt væru þær svo óákveðnar að ekki yrði metið hvort heimilt væri að leggja þær fyrir vitnin, sem öll munu hafa komið að gerð þess kjarasamnings sem aðilarnir deila um í málinu, vegna fyrirmæla 4. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 5. gr. laga nr. 75/1996. Þótt Félagsdómur hafi kosið að orða niðurstöðu sína um þetta á þann veg að kröfu sóknaraðila í þessum efnum væri vísað frá dómi verður heimild fyrir kæru úrskurðar dómsins ekki reist á 1. tölulið 67. gr. laga nr. 80/1938, sem tekur aðeins til dóms um frávísun máls eða úrskurðar, þar sem kröfu um frávísun þess er hafnað. Í 3. tölulið sömu lagagreinar er heimilað að kæra til Hæstaréttar úrskurð Félagsdóms um skyldu til að bera vitni, eiðvinning eða réttarfarssektir. Mál þetta varðar það eitt hvort spurningarnar, sem greinir í hinum kærða úrskurði, verði lagðar fyrir vitnin, en ekki hefur enn á það reynt hvort þau færist undan því að koma fyrir dóm eða svara þar tilteknum spurningunum. Brestur þannig jafnframt heimild í síðastnefndu lagaákvæði til kæru úrskurðarins. Samkvæmt því verður málinu vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

Úrskurður Félagsdóms 12. maí 2006.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 8. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi vegna kröfu stefnda um það að vitnunum Sonju Maríu Hreiðarsdóttur, Ásgeiri Pálssyni, Ingunni Ólafsdóttur og Ásgeiri Kristinssyni sé rétt og skylt að svara tilgreindum spurningum við aðalmeðferð málsins.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Félag íslenskra flugumferðarstjóra, [kt.], Borgartúni 28, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið, [kt.], Arnarhvoli, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið kjarasamning aðila með einhliða breytingum á vaktakerfi í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík sem komu til framkvæmda þann 16. mars 2006. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

Á dómþingi í málinu 8. maí sl. lagði lögmaður stefnda fram bókun þar sem þess var krafist að vitnunum Sonju Maríu Hreiðarsdóttur, Ásgeiri Pálssyni, Ingunni Ólafsdóttur, Ásgeiri Kristinssyni og eftir atvikum fleirum sem að kjaraviðræðum milli aðila komu, sé rétt og skylt að svara eftirfarandi spurningum, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur:

1) Um öll þau atriði er fram hafi komið í kjarasamningsviðræðum til skýringar á

ákvæðum gildandi kjarasamnings sem á reynir í málinu, jafnt þeirra sem

skírskotað er til í stefnu og annarra, þótt fram hafi farið á sáttafundum.

2) Hvort rétt er, eins og haldið er fram í stefnu á bls. 2, að í kjarasamningsviðræðum

sumarið 2005 er leiddu til undirritunar samkomulags 8. september, hafi málsaðilar

orðið ásáttir um einhverja þá niðurstöðu að ekki yrði hróflað við því vaktakerfi

flugumferðarstjóra sem þá var við lýði.

3) Hvort og þá hvernig forsvarsmönnum stefnanda hafi verið gerð grein fyrir túlkun

samninganefndar ríkisins á orðunum „tvo samfellda frídaga í viku“ í grein 2.5.4 í

miðlunartillögu sáttasemjara sem lögð var fram 11. febrúar 2002.

Í rökstuðningi stefnda fyrir þessari kröfu segir að ofangreind vitni hafi ýmist verið í samninganefnd ríkisins eða þátttakendur á sáttafundum við gerð kjarasamninga með nefndinni.  Sonja hafi verið starfsmaður fjármálaráðuneytis, Ásgeir Pálsson sé framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs Flugmálastjórnar, Ingunn sé starfsmannastjóri stofnunarinnar og Ásgeir Kristinsson sé starfsmaður Vegagerðarinnar. Telur stefndi að vitnin geti borið um málsatvik, sbr. 51. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 55. - 58. gr. og 69. gr. laga nr. 80/1938.

Stefndi telur að ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938 beri að túlka á þann hátt að það geti ekki takmarkað úrræði aðila kjarasamnings til að geta beitt viðteknum aðferðum við skýringu og túlkun kjarasamninga þegar á reyni í dómsmáli milli þeirra. Stefndi telur að ákvæðið gildi eðli málsins samkvæmt ekki milli aðila kjarasamnings eða í dómsmáli (einkamáli) milli þeirra. Þá hljóti það fyrst og fremst að gilda meðan á sáttafundum standi þannig að fulltrúar samningsaðila geti tjáð sig óhindrað án þess að af fréttist á þeim tíma og þá til annarra en samningsaðila eða þeirra sem sitja sáttafundi á þeirra vegum. Þá beri að túlka ákvæðið þröngt þannig að það eigi ekki við um atriði sem um semjist í kjarasamningum.

Þá telur stefndi, ef ekki verði á þetta fallist, að fullyrðingar í stefnu og skjölum, lögðum fram af stefnanda séu þess eðlis að óhjákvæmilegt sé að líta svo á að stefnandi hafi veitt samþykki það sem nefnt ákvæði 3. mgr. 25. gr. laganna geri ráð fyrir.

Stefndi byggir einnig á því að þrátt fyrir framangreint sé stefnda í öllum tilvikum heimilt að veita andsvör við fullyrðingum í stefnu sem byggðar séu á kjaraviðræðum, eftir atvikum þeim sem fram hafa farið á sáttafundum, og leiða vitni til að svara hvort rétt sé farið með.

Þar sem ágreiningur um ofangreint varði fyrst og fremst ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938 almennt telur stefndi ekki nauðsynlegt að afmarka spurningar nánar en gert sé að ofan. Þá muni ofangreind vitni einnig bera um atriði sem nefnt ákvæði stæði ekki í vegi.

Auk framanritaðs vísar stefndi til þess að hagsmunir af því að upplýsa málsatvik séu ráðandi. Þá er vísað til meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði. Einnig geti komið til álita að beita ákvæði 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 ef svo bæri undir.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að tilgreindar spurningar verði lagðar fyrir vitnin.

Stefnandi telur óheimilt að lagðar verði fyrir vitnin spurningar um það hvað hafi komið fram við kjarasamningsviðræðurnar. Það sé til þess fallið að spilla fyrir meðferð málsins og stefnandi fellst ekki á að það verði gert. Þá sé það bannað samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938 að skýra frá eða leiða vitni um umræður sem fram hafa farið á sáttafundum.

Niðurstaða

Krafa stefnda lýtur að því að tilgreindum vitnum og eftir atvikum fleirum sem að kjaraviðræðum milli aðila komu, sé rétt og skylt að svara spurningum, sem upp eru taldar í töluliðum 1 – 3, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938.

Í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um það með hvaða hætti staðið verði að vitnaskýrslu fyrir dómi og lagt í vald dómara hverjar spurningar verði lagðar fyrir vitni.  Stefndi hefur ekki sett fram ákveðnar og ótvíræðar spurningar sem leggja á fyrir tilgreind vitni. Spurningar stefnda, eins og þær eru settar fram, fela nánast í sér almennan áskilnað um rétt stefnda til að setja fram spurningar án sérstakra takmarkana.  Þannig tekur fyrsta spurningin til allra þeirra atriða sem fram hafa komið í kjarasamningsviðræðunum og einnig til þeirra umræðna sem fram hafa farið á sáttafundum. Telur stefndi að ekki sé þörf á að afmarka spurningar nánar en gert sé, þar sem ágreiningur þessi varði fyrst og fremst ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938 almennt.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991 verða dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Stefndi hefur ekki sett fram spurningar með þeim hætti að hægt sé að taka afstöðu til þess hvort þær séu þess eðlis að þær verði lagðar fyrir vitni samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 eða séu óheimilar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938.

Ber því að vísa kröfu stefnda sjálfkrafa frá dómi.

Málskostnaður dæmist ekki í þessum þætti málsins.

Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kváðu upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu stefnda, íslenska ríkisins, um að vitnunum Sonju Maríu Hreiðarsdóttur, Ásgeiri Pálssyni, Ingunni Ólafsdóttur, Ásgeiri Kristinssyni og eftir atvikum fleirum sem að kjaraviðræðum milli aðila komu, sé rétt og skylt að svara tilgreindum spurningum, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/1938, er vísað frá dómi.

Málskostnaður dæmist ekki.