Hæstiréttur íslands

Mál nr. 201/2014


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Sakhæfi
  • Öryggisgæsla
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn 18. júní 2014.

Nr. 201/2014.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður)

Manndráp. Tilraun. Sakhæfi. Öryggisgæsla. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir tvær tilraunir til manndráps. Annars vegar með því að hafa reynt að svipta A, sem þá var á níunda ári, lífi með því að skera hana nokkrum sinnum með hnífi í hálsinn og veita henni aðra áverka á hálsi svo og á höndum er hún reyndi að verja sig. Hins vegar með því að hafa brotist inn á heimili D vopnaður hnífi, í því skyni að ráða henni bana. Héraðsdómur taldi fyrrgreinda brotið sannað og sakfelldi X fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að því er varðaði síðargreinda brotið taldi héraðsdómur á hinn bóginn að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa þær sönnur fyrir sekt X að hún væri hafin yfir skynsamlegan vafa og var hann því sýknaður af þeim sakargiftum. Taldi héraðsdómur varhugavert að slá því föstu að X hefði verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum umrætt sinn og ætti 15. gr. almennra hegningarlaga því ekki við um hann. Þar sem 16. gr. laganna hefði á hinn bóginn átt við um X var honum ekki gerð refsing vegna brotsins, en honum gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Þá var honum gert að greiða A 2.000.000 krónur í miskabætur, en bótakröfu D var vísað frá héraðsdómi. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu X vegna fyrrgreinda brotsins og taldi jafnframt sannað að X hefði haft ásetning til þess að bana D er hann braust inn á heimili hennar og hefði sú tilviljun ein að stúlkan var ekki heima ráðið því að ekki reyndi á hvort X tækist ætlunarverk sitt. Var hann því jafnframt sakfelldur fyrir síðargreinda brotið. Taldi Hæstiréttur að X hefði verið sakhæfur er bæði brotin voru framin, en að 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við um hann í báðum tilvikum. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun sem og um fjárhæð miskabóta til handa A.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru 13. ágúst 2013 og að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 17. júlí sama ár. Þá er þess aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, en til vara að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um að hann sæti öryggisgæslu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu samkvæmt ákæru 17. júlí 2013 og staðfestingar á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu samkvæmt ákæru 13. ágúst sama ár. Til vara krefst hann þess að sér verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu að hann verði látinn sæta vægustu refsingu sem lög leyfa og frá henni „dreginn sá tími sem honum var gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun.“ Loks krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.

Í málinu eru ákærða gefnar að sök tvær tilraunir til manndráps. Annars vegar samkvæmt ákæru 17. júlí 2013 með því að hafa 27. apríl það ár í fjöru neðan við [...] í Hafnarfirði reynt að svipta A, sem þá var á níunda ári, lífi með því að skera hana nokkrum sinnum með hnífi í hálsinn og veita henni aðra áverka á hálsi svo og á höndum er hún reyndi að verja sig. Er áverkum á henni lýst nánar í héraðsdómi. Hins vegar samkvæmt ákæru 13. ágúst 2013 með því að hafa 26. mars það ár brotist inn á heimili D og fjölskyldu hennar að [...] vopnaður hnífi í því skyni að ráða henni bana.

Ákærði var sakfelldur í héraðsdómi fyrir brot það sem fyrrgreinda ákæran tekur til. Með vísan til forsendna hans verður sú niðurstaða staðfest. Ákærði var á hinn bóginn sýknaður af sakargiftum samkvæmt síðarnefndu ákærunni. Taldi héraðsdómur að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa þær sönnur fyrir sekt ákærða að hún væri hafin yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði kom fyrir dóm 14. ágúst 2013 og var þá bókað eftir honum, að hann játaði að hafa brotist inn á heimili D svo sem greinir í ákæru 13. ágúst 2013 en neitaði að það hefði verið gert í því skyni að ráða henni bana. Hann kom einnig fyrir dóm við aðalmeðferð málsins en neitaði þá að tjá sig og svara spurningum. Ekki voru þá bornar undir hann skýrslur sem hann hafði áður gefið hjá lögreglu og lagðar höfðu verið fram í málinu á grundvelli 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Móðir ákærða skoraðist jafnframt undan því að gefa skýrslu fyrir dómi, sbr. b. lið 1. mgr. 117. gr. sömu laga.

Sannað er, meðal annars með játningu ákærða fyrir dómi og í skýrslu hjá lögreglu, að hann braust inn á heimili D vopnaður hnífi. Hann neitaði því á hinn bóginn fyrir dómi, sem fyrr greinir, að það hafi verið gert í því skyni að ráða henni bana. Hann hefur þó engar haldbærar skýringar gefið á þessari háttsemi sinni. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 23. júlí 2013 og voru þá viðstaddir meðal annarra verjandi hans og faðir. Efni skýrslunnar er að nokkru rakið í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram taldi ákærði sig og D vera mikla óvini vegna ýmissa atvika sem gerðust er þau gengu saman í skóla. Við skýrslutökuna var ákærði spurður hvort hann hafi verið búinn að hugsa eitthvað hvernig hann hafi ætlað að drepa hana og svaraði: ,,Sjálfsagt bara í bringuna.“ Hann var síðar spurður með hvaða áhaldi hann hefði ætlað að drepa telpuna og svaraði hann því svo til, að það hefði hann ætlað að gera með eldhúshnífi, sem hann hefði haft með sér. Í skýrslunni lýsti ákærði því einnig að hann efaðist um að hann hefði ráðið við að stinga telpuna og sló úr og í með það hvort hann hefði getað framkvæmt verkið.

Ákærði gaf einnig skýrslu hjá lögreglu 29. apríl 2013 um atvik, sem fyrri ákæran lýtur að. Verjandi hans og móðir voru viðstödd skýrslutökuna. Þar tjáði hann sig einnig um atvikin 26. mars þetta ár á þann veg að hann hefði um mánuði áður en atvikin í fjörunni við [...] gerðust, brotist inn í hús hjá telpu sem hann var reiður út í og honum fannst leiðinleg og þess vegna hefði hann ætlað að taka hana af lífi.

Í málinu liggja frammi sex bréf móður ákærða og greinargerð, sem hún ritaði til félagsmálayfirvalda í [...], Barnaverndarstofu og fleiri í því skyni að fá úrlausn mála fyrir hann. Bréfin afhenti hún lögreglu í þágu rannsóknar málsins. Í bréfunum lýsti hún miklum vanda ákærða og versnandi stöðu. Hún lýsti reiði hans og tali um að drepa fólk og hún óttaðist að það gengi eftir. Fyrsta bréfið var ritað árslok 2012, annað í lok janúar 2013 og hið þriðja í byrjun febrúar sama ár. Fjórða bréfið var ritað 27. mars það ár, daginn eftir atburðinn við [...]. Þar lýsti hún miklum áhyggjum af ákærða og óskaði þess að hann fengi innlögn á barna- og unglingageðdeild þá þegar og í framhaldi af því vistun úti á landi á vegum Barnaverndarstofu. Hún lýsti aðstæðum og líðan ákærða og hvernig hann liti sjálfur á stöðu sína. Hún tók fram að í samtali hennar og ákærða á lögreglustöð eftir handtöku hans kvöldið áður hafi ákærði lýst því yfir að hann þyrfti að klára verkið, ,,þ.e. að drepa stúlkuna og manninn sem yfirbugaði hann“ og hafi þeim manni verið bætt á svokallaðan dauðalista, sem ákærði hafi tekið saman. Hún kvaðst óttast mjög um líf þessa fólks og annarra, sem hún nefndi. Í fimmta bréfinu 11. apríl 2013 hafði hún eftir ákærða að hann myndi halda áfram og drepa þá, sem væru á svonefndum dauðalista hans. Hann hafi sagt að það hafi verið mistök að telpan sem hann ætlaði að drepa 26. mars hafi ekki verið heima þegar hann braust inn til hennar. Þetta var endurtekið í greinargerðinni sem mun hafa fylgt bréfunum við afhendingu til lögreglu.

Af framangreindu er sannað að ákærði hafði ásetning til þess að ráða D bana. För hans með hníf að vopni til heimilis hennar, þar sem hann braut sér leið inn í húsnæðið, felur í sér að hann sýndi ótvírætt í verki þann ásetning að ráða henni bana. Réð sú tilviljun ein að stúlkan var ekki heima því að ekki reyndi á hvort ákærða tækist ætlunarverk sitt. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru 13. ágúst 2013 og réttilega er þar heimfærð til refsiákvæða.

Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um einkaréttarkröfu A. Þá er fallist á með héraðsdómi að ákærði hafi verið sakhæfur 27. apríl 2013 er hann réðst að henni. Hann var það einnig er hann braut af sér 26. mars sama ár. Af gögnum málsins og með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að ákvæði 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi í báðum tilvikum við um ákærða og að honum verði því ekki gerð refsing fyrir brot þau, sem hann er sakfelldur fyrir. Verður staðfest niðurstaða dómsins um að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu eins þar greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði með þeim fjárhæðum, sem þar greinir, að frátalinni þóknun réttargæslumanns brotaþolans D.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um að ákærði, X, skuli sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og um einkaréttarkröfu A.

Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði með þeim fjárhæðum sem í héraðsdómi greinir þó þannig að staðfest er niðurstaða dómsins um greiðslu þóknunar réttargæslumanns D úr ríkissjóði.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.026.377 krónur, þar með talda þóknun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur og þóknun Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, réttargæslumanns A, 188.250 krónur.

 Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. janúar 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. janúar 2014, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 17. júlí 2013 á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa laugardaginn 27. apríl 2013, í fjöru neðan við [...] í Hafnarfirði, reynt að svipta telpuna A, fædda [...] 2004, lífi með því að skera hana nokkrum sinum með hnífi í hálsinn og veita henni aðra áverka á hálsi með hnífnum, svo telpan hlaut þar alvarlega skurðáverka nálægt stórum hálsæðum, þar með talið nokkra skurði í miðlínu, djúpan skurð framanvert á hálsi sem náði niður í gegnum fitulög alldjúpt inn í hálsinn, tvo djúpa samhliða skurði hægra megin á hálsi sem náðu vel í gegnum húðina og niður í gegnum fitulög, en einnig aðra áverka, þar með talið nokkrar grynnri rispur bæði upp undir kjálkabarði hægra megin, hægra megin á hálsi bæði ofan og neðan við dýpri skurðinn og einnig framanvert á hálsinum og stungusár vinstra megin við miðlínu á hálsi, auk þess sem telpan hlaut margar grunnar skrámur á báðum höndum, bæði á handarbaki og í lófum, þegar hún reyndi að verjast ákærða og skarst af hnífnum. 

Þetta er talið varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu gerir Þórdís Bjarnadóttir hrl., fyrir hönd B, kt. [...], og C, kt. [...], vegna ófjárráða dóttur þeirra, A, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 2.000.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. apríl 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Hinn 14. ágúst 2013 var sakamál nr. 713/2013, sem var höfðað á hendur ákærða með ákæru útgefinni 13. ágúst 2013, sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar er ákærða gefin að sök tilraun til manndráps, með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 26. mars 2013, brotist inn á heimili D og fjölskyldu hennar að [...], vopnaður hnífi, í því skyni að ráða D bana, en D var að heiman greint sinn.

Þetta er talið varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu gerir Þórdís Bjarnadóttir hrl., fyrir hönd E, kt. [...], vegna ófjárráða dóttur hennar, D, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.000.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 26. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Af hálfu ákærða er gerð sú aðalkrafa að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði felld niður. Til þrautavara er þess krafist að hann verði látinn sæta vægustu refsingu sem lög leyfa og að frá refsingunni verði dreginn sá tími sem honum var gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Enn fremur krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda.

Ákæra 17. júlí 2013. Tilraun til manndráps laugardaginn 27. apríl 2013.

I.

Laugardaginn 27. apríl 2013, kl. 16:37, fékk lögregla tilkynningu um að stúlkum hefði verið ógnað með hnífi í fjörunni við [...] í Hafnarfirði. Gerandinn væri strákur í kringum 15 ára aldur og hann væri á staðnum. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að þegar lögreglumenn komu á vettvang hafi þeir séð tvær ungar stúlkur ásamt tveimur konum. Önnur stúlkan hefði haldið um hálsinn og hin verið grátandi. Skammt frá hafi maður verið með ungan mann og ungi maðurinn sýnilega verið í uppnámi. Lögreglumaðurinn sem fór að stúlkunum hafi séð að háls annarrar stúlkunnar var illa skorinn. Hann hafi kallað á sjúkrabifreið og lagt grisju að hálsi stúlkunnar og haldið við. Umrædd stúlka hafi verið A og með henni á vettvangi hafi verið móðir hennar, C. Hin stúlkan, F, hafi verið í miklu uppnámi og grátið. A hafi svo verið flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús og ungi maðurinn, ákærði í máli þessu, verið handtekinn. Við handtökuna hafi honum verið gerð grein fyrir réttarstöðu sinni sem handtekinn maður. Þá segir í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi greint frá því að hann hefði skorið stúlkuna á háls þar sem hann hefði verið í hefndarhug.

Jafnframt kemur fram í frumskýrslu að lögregla hafi rætt við vitni á vettvangi. Vitnið G hafi lýst því að hafa verið á gangi ásamt manni sínum, H, á göngustígnum meðfram sjónum. Þau hefðu séð börn að leik í briminu hinum megin við grjóthleðslu og hugsað með sér að það væri ekki sniðugt að þau væru að leika sér þarna. Vitnið hefði svipast eftir því hvort einhver fullorðinn væri með þeim og séð stærri aðila hjá þeim. Vitnið hefði svo séð stúlku koma yfir grjótgarðinn og hlaupa í áttina frá þeim, í átt að [...]. Vitnið hefði fengið á tilfinninguna að stúlkan væri hrædd, hún hefði litið til baka en hlaupið áfram í átt að [...].. Þegar vitnið hafi komið að staðnum þar sem krakkarnir voru við sjóinn hafi það heyrt skræki frá þeim og kallað til þeirra og spurt hvað væri í gangi. Vitnið hefði farið upp á grjóthleðsluna og heyrt aðra stúlkuna segja hann skera hana á háls. Vitnið hefði þá séð ákærða hlaupa í átt að [...] og H hefði hlaupið á eftir honum. H hefði svo náð honum þegar hann kom yfir grjótgarðinn. Vitnið hefði svo hringt í foreldra A sem hefðu komið skömmu síðar, rétt á undan lögreglu. Þá kemur fram í frumskýrslu að þriðja stúlkan, sem hljóp í burtu, var I, en hún hljóp heim til A til að kalla eftir hjálp.

Meðal gagna málsins er lögregluskýrsla um „hugrenningar X“. Í skýrslunni segir að í samtölum lögreglumanna við ákærða á lögreglustöð og í lögreglubifreið, þegar hann var fluttur á BUGL í kjölfar handtöku hans, hafi hann sagt að hann hefði fengið hugmyndina að verknaði sínum úr kvikmyndinni Halloween sem fjallaði um ungan dreng sem myrti fjölskyldu sína. Einnig hefði ákærði sagt að honum fyndist lífið tilgangslaust og „afhverju ekki að hata allt og alla“. Reiðin hefði yfirtekið hann og hann hefði verið „reiður út í líf sitt“. Á meðan á árásinni stóð hafi hann hugsað: „Vó, hvað ertu að hugsa X, þetta ert ekki þú, þetta er rangt.“ Þá hefði hann hætt og hlaupið í burtu. Einnig hefði ákærði sagt að hann hafi langað til að drepa einhvern eða einhverja. Ákærði hefði jafnframt endurtekið nokkrum sinnum að honum þætti þetta leitt og hann sæi eftir þessu.

Í skýrslu rannsakanda, dags. 27. apríl 2013, er m.a. greint frá því að ákærði hafi verið útskrifaður 26. apríl af BUGL þrátt fyrir mótmæli starfsmanna barnaverndar í [...] þar sem þeim hafi þótt full ástæða til að ætla að ákærði gæti verið hættulegur sjálfum sér og umhverfi sínu. Jafnframt kemur fram í skýrslu rannsakanda að ákærði hafi 26. mars 2013 ráðist inn í [...]skóla og valdið talsverðu eignatjóni og sama dag hafi hann brotist inn að [...] þar sem hann hafi ætlað að drepa skólasystur sína og hafi hann haft hníf með sér. Enginn hafi verið heima en ákærði hafi ráðist á mann í næsta húsi sem hafi reynt að yfirbuga hann. Ákærði hafi í framhaldinu verið vistaður í fangageymslu yfir nóttina en svo verið fluttur á Stuðla. Þaðan hafi ákærði útskrifast 10. apríl og farið heim til sín. Daginn eftir hafi lögregla verið kölluð að heimili ákærða að ósk starfsmanna barnaverndarnefndar [...] vegna hegðunarvandamála hans og hann verið fluttur á BUGL, en hann hafi svo verið útskrifaður eins og áður segir 26. apríl 2013. Jafnframt kemur fram í skýrslu rannsakanda að haft hafi verið samband við barnaverndarnefnd og í framhaldi af því ætti að vista ákærða á BUGL til 29. apríl 2013, en þá myndi læknir meta ástand hans og jafnvel yrði kannað hvort rétt væri að svipta ákærða sjálfræði.

Þá kemur fram í téðri skýrslu rannsakanda að lögregla hafi rætt við A á slysadeild og hún greint frá því að hafa verið að leika sér í fjörunni með vinkonum sínum, F og I. Hún hafi séð strák koma gangandi og hafi hann verið með hvíta húfu sem hafi verið dregin niður á andlit þannig að bara hafi sést í augu hans. Þegar strákurinn hefði komið að henni hafi hann gripið í hár hennar og kastað henni á steinana í fjörunni þar sem hún hafi dottið og legið. Hún hefði þá séð strákinn standa yfir sér og hann verið með brauðhníf í hægri hendi. Hafi strákurinn reynt að skera hana á háls með hnífnum og hún reynt að verja sig með höndunum, en þá hafi hún skorist á báðum höndum. Strákurinn hefði ekki sagt neitt við hana. Nánar um atvik hafi hún sagt að strákurinn hefði fyrst snúið að henni en síðan fært sig aftur fyrir hana þar sem hann hafi haldið í hár hennar og skorið hana ítrekað hægra megin á hálsinum. Hann hafi haldið á hnífnum í hægri hendi. Allt í einu hefði hann hætt og hlaupið í burtu. 

Áverkum A er lýst í fyrirliggjandi læknisvottorði J, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítalans, dags. 16. maí 2013. Þar segir að hún hafi verið með talsverða áverka á hálsi. Hún hafi verið með nokkra skurði í miðlínu. Framanvert á hálsinum hafi verið djúpur skurður sem hafi náð í gegnum fitulög alldjúpt inn í hálsinn. Hægra megin á hálsi hefðu einnig verið tveir djúpir samhliða skurðir sem hafi náð vel í gegnum húðina og niður í gegnum fitulög. Skurðurinn framanvert á hálsinum hafi verið staðsettur beint yfir barkanum og skurðirnir utanvert yfir stórum hálsæðum, bæði slagæðum og bláæðum. A hafi einnig verið með allnokkrar grynnri rispur, bæði upp undir kjálkabarði hægra megin, hægra megin á hálsi, bæði ofan og neðan við dýpri skurðinn og einnig framanvert á hálsinum. Auk þess hafi verið sár vinstra megin við miðlínu á hálsi sem hafi litið út eins og stungusár frekar en skurður. Þá hafi A verið með allmargar grunnar skrámur á báðum höndum, bæði á handarbaki og í lófum. Þetta hafi allt verið grunn yfirborðssár sem bendi til þess að hún hafi reynt að verjast árásinni. Tekin hafi verið sneiðmynd af hálsi til að athuga með áverka á innri líffæri en ekki hafi verið merki um slíkt og ekki hafi verið um að ræða blæðingu, áverka á æðar eða barka. Sár á hálsi hafi verið deyfð og saumuð saman. Saumuð hafi verið nokkur spor djúpt til að draga sárin saman og síðan hafi 34 spor verið saumuð í yfirborðið. Saumar hafi svo verið fjarlægðir 3. maí 2013 og skurðir litið vel út og virst gróa vel. Fenginn hafi verið tími fyrir hana og foreldra hennar í áfallahjálp. Að lokum segir í vottorðinu að um væri að ræða alvarlega skurðáverka á hálsi. Dýpstu skurðirnir hafi verið yfir hálsæðum og barka og ef þeir hefðu verið aðeins dýpri væru allar líkur á því að um lífshættulega áverka hefði verið að ræða, æðar eða barki skorist í sundur. Sár A ættu að gróa að mestu á 10-14 dögum en það tæki sex mánuði til eitt ár fyrir ör að öðlast sitt endanlega útlit og gera mætti ráð fyrir því að hún verði með sjáanleg ör á hálsinum bæði framanvert og utanvert.

Tveimur dögum eftir umrætt atvik, 29. apríl, mætti móðir ákærða á lögreglustöð til að óska eftir því að ákærða yrði skipaður verjandi. Í lögregluskýrslu, dags. sama dag, segir að henni hafi ekki verið kynnt vitnaskylda eða réttur til að skorast undan henni, heldur hafi hún átt „almennt samtal“ við lögreglumann þar sem hún hafi rakið sögu sonar síns. Ákærði hafi verið greindur með einhverfu á yngri árum og greind hans væri mjög takmörkuð. Jafnframt hefði hann verið greindur með önnur tilvik sem gerðu það að verkum að hann væri mjög veikur einstaklingur og hann væri með mjög rangar hugmyndir. Hann væri kominn með langan lista yfir þá aðila sem hann þyrfti að drepa. Öðruvísi finnist honum hann ekki fá lækningu. Einnig hafi komið fram að hún hafi fyrir allnokkru gert sér grein fyrir því að eitthvað væri í vændum og hún hefði látið félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvöld vita af því og sagt að hún gæti ekki tryggt að ákærði ylli ekki einhverjum gríðarlegu líkamstjóni eða jafnvel yrði einhverjum að bana, enda væri hann stærri og sterkari en hún. Þannig hafi hún látið vita af því að ákærði væri hættulegur vegna ranghugmynda sem hann væri með. Þá kemur fram í lögregluskýrslunni að hún afhenti lögreglu greinargerðir sem hún sendi félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvöldum, þar sem hún lýsir áhyggjum sínum af ákærða. Umræddar greinargerðir liggja fyrir í málinu og eru þar dagsettar 31. desember 2012, 26. janúar, 4. febrúar, 27. mars, 11. apríl og 25. apríl 2013 og ein er ódagsett. 

Móðir ákærða mætti aftur til lögreglu degi síðar, 30. apríl, og samþykkti formlega, eftir að henni var kynnt réttarstaða sín, að gögn sem hún afhenti deginum áður yrðu notuð við rannsókn málsins. Þá vildi hún koma því á framfæri að ákærði hefði verið í sms-samskiptum við aðila um að útvega honum vopn og í spjalli ákærða við föður sinn hafi komið fram að ákærði hefði beðið K, 17 ára dreng sem hafi verið vistaður á Stuðlum á sama tíma og ákærði, að drepa tiltekinn dreng sem hefði lagt ákærða í einelti. Hafi ákærði ætlað eða verið búinn að greiða 15.000 krónur fyrir verkið og að þetta hafi átt að eiga sér stað 3. maí.

Fram kemur í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 2. júlí 2013, að útprentun hafi verið fengin af símasamskiptum ákærða við umræddan K. Sms-samskipti þeirra hafi gengið út á það að K hafi ætlað að redda ákærða vopnum. Þá hafi K ætlað að taka að sér fyrir ákærða að drepa drenginn sem hefði lagt ákærða í einelti. Rætt hafi verið við móður K sem hafi sagt að hann væri með ódæmigerða einhverfu og greindarvísitala hans væri um 70. Hann ætti sögu um hnífamál og það væri auðvelt að plata hann í alls konar hluti. Hann væri í fóstri úti á landi en gert hafi verið ráð fyrir því að hann yrði í bænum 3. maí.

Einnig liggur fyrir upplýsingaskýrsla lögreglu frá 21. maí 2013 um komu móður eins æskuvinar ákærða á lögreglustöð. Hún hafi greint frá því að sonur hennar væri á einhverfurófi og hann hefði tekið þátt í því með ákærða að búa til lista yfir þá sem þeir ætluðu að taka úr umferð. Sonur hennar hefði planað það með ákærða að koma úr umferð áðurnefndum dreng sem hefði lagt ákærða í einelti og fengið þriðja aðila í verkið fyrir sig, framangreindan K. Þeir hefðu ætlað að greiða K fyrir verkið og að dagsetningin 3. maí hafi verið ákveðin til verksins.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 29. apríl 2013, að viðstöddum verjanda og móður sinni. Beðinn um að lýsa atvikum tveimur dögum áður, 27. apríl, kvaðst hann hugsa aðeins öðruvísi en annað fólk af því að hann væri með einhverfu. Af einhverri ástæðu hafi heili hans sagt að hann ætti að drepa fólk sem ætti það skilið. Hann hafi ekki alveg vitað hvað hann hafi verið að hugsa með því en mynd sem heitir Halloween hefði haft áhrif á hann og hann héldi að það væri út af myndinni sem hann hefði gert þetta. Þetta væri mynd um brjálæðing og morðingja og það hafi haft áhrif á hann og hann hefði „aldrei náttúrulega vitað að löggurnar mættu taka svona harkalega á manni.“ Ákærði sagði að þegar hann hefði framið sitt fyrsta brot [26. mars 2013] hefðu löggurnar ráðist harkalega á hann og snúið upp á hendur hans og hann verið skíthræddur. Hann hefði í fyrstu haldið að þeir væru glæpamenn að þykjast vera löggur, að því að hann hefði ekki trúað að löggur myndu taka svona á manni. Hann hefði því verið reiður út í þær og bara fengið „algjöra blóðhefnd á móti löggum“. Hann hefði bara verið með áráttu. Það hefði fest í honum árátta og hann ætlað að kála öllum löggum sem hann myndi sjá, af því að hann væri svo óendanlega reiður við lögguna, hvað hún gerði við mann. Svo hafi hann verið ósáttur við hvað lífið gæti verið grimmt, þannig að hann hafi látið það bitna á öðru fólki, af því að hann sæi lífið slæmt og þunglyndislegt. Ákærði sagði svo: „Þegar ég lét mig vera náð þá fattaði ég allt í einu að lífið er ekkert.“ Hann kvaðst ekki vita af hverju en það hefði bara allt í einu kviknað einhver skynsemi í honum og þá hefði hann fattað að lífið hefði einhvern tilgang og gæti alveg verið ágætt á sumum sviðum. Ekki samt „svona criminal svið“ og þá hefði hann fattað að hann væri bara tilbúinn að fara heim hvenær sem er og sanna sig og að hann vildi að fólk treysti honum aftur og að hann vildi vera góð manneskja því að hann vissi að hann væri með gott hjarta. Ákærði var spurður hvenær hann hefði ákveðið að drepa manneskju og kvaðst hann hafa gert það þegar hann hafi verið nýfarinn af Stuðlum. Hann hefði hins vegar ætlað að hefna sín á löggunni en ekki einhverjum saklausum litlum krökkum. Hann hefði bara verið svo reiður að hann hefði misst sig. Hann kvaðst hafa verið búinn að fela hníf í nokkra daga. Um tveimur vikum áður hafi hann falið hníf undir rúmi sínu og síðan hefði hann falið hann í hrauni, einum eða tveimur dögum áður. Þetta hafi verið IKEA-hnífur sem hann tók heima hjá sér. Síðan hefði hann tekið húfu með sér, klætt sig og farið út. Honum hafi verið illa við það hvernig lífið hafi verið orðið og hann hafi bara ætlað að láta það bitna á einhverjum, af því að hann hafi átt bágt. Hann kvaðst hafa skorið gat á húfuna og gert úr henni grímu, sett hana á sig og hnífinn í vasann. Hann hafi bara ákveðið að „taka líf af einhverjum“. Jafnframt sagði hann að honum liði rosalega illa og sæi eftir því sem hann gerði, af því að hann hefði fattað að hann vildi ekki vera gaurinn sem lendir í fangelsi. Hann vildi vera „gaurinn sem er successfull í lífinu og lifir vel og lengi“. Nánar um atvik sagði ákærði að hann hefði farið út og litið í kringum sig til að leita bara að einhverju fórnarlambi og séð þrjár stelpur og bara hugsað með sér að hann ætlaði að „hefna sín eða eitthvað“ en hann hafi reyndar aldrei ætlað að láta það bitna á litlum krökkum heldur á löggunni, að hefna sín á þeim, en núna vildi hann ekki láta þetta bitna á neinum né hefna sín á neinum af því að það væri tilgangslaust. Hann kvaðst hafa fengið „svolítið svona í hjartað“. Hjartað hefði farið „svona hratt áfram“ af því að hann hefði verið nervös þegar hann hafi verið að fara að gera þetta. Þannig að hann hefði snúið við og svo aftur snúið við í áttina að þeim og svo snúið aftur við og hugsað „ég get ekki gert þetta“ en svo hefði hann bara hugsað „já ég ætla að gera þetta“ og hlaupið að þeim. Hann hefði farið varlega og þegar þær sneru sér við hafi hann bara allt í einu verið með hníf. Jafnframt sagði ákærði að þetta hljóti að hafa verið mikið sjokk fyrir litlu stelpurnar. Ákærði sagði að hann hefði ráðist á stelpu sem hann hafi einu sinni passað í unglingavinnu og vinkonur hennar hafi verið dauðskelkaðar úr hræðslu. Hann hefði staðið fyrir aftan hana, haldið henni með vinstri hendi við ennið, sveigt höfuð hennar aftur og skorið hana með hægri hendi. Ákærði sagði að honum liði illa að tala um þetta. Inntur eftir því hvort hann hefði skorið oft sagði hann: „Eitthvað þangað til ég var byrjaður að sjá hérna held ég raddböndin eða eitthvað eða hvað sem þetta er.“ Það hefði sést inn í hálsinn á henni og hann hefði verið dauðhræddur. Spurður hvað hann hafi verið að hugsa akkúrat á þessari stundu kvaðst hann hafa hugsað að lífið væri tilgangslaust og að það væri bara ömurlegt og hann langaði ekki til að lifa í þessu grimma lífi. Þannig að hann hafi bara ætlað að láta það bitna á einhverjum af því að hann hafi sjálfur átt bágt. Spurður um ástæðu þess að hann ákvað að hætta að skera stúlkuna sagði ákærði að hann „hélt að hún væri að deyja“. Þá hafi hann orðið hræddur. Hún hafi tekið „svona um og var alveg eins og hún væri að fara að deyja og ég bara orðinn svo hræddur að ég gat ekki lengur hérna verið að kvelja líkamann hennar svona.“ Þannig að hann hefði bara hlaupið í burtu, kastað hnífnum í sjóinn, hrifsað húfuna með sér og hlaupið í burtu. Hann hefði séð eftir þessu um leið og ekkert vitað hvað hann hafi verið að hugsa eftir að hann gerði þetta. Þá sagði ákærði að maður hefði elt hann. Honum hefði liðið svo illa að hann hefði stoppað og leyft manninum að ná sér. Maðurinn hefði hringt á lögregluna og ákærði hefði sagt lögreglunni að hann sæi eftir þessu og „síðan tók ég bara í hendina á löggunni af því að fyrir það að ég ætlaði að bæta mig“. Hann kvaðst ekki hata lögguna lengur og að hann fattaði að ástæðan fyrir því sem löggan hefði gert honum hefði verið hegðun hans. Jafnframt sagði ákærði: „Þannig að það er svolítið ég sem að, það er svolítið líka mér að kenna.“ Þá kvaðst hann ekki lengur hata lífið og hann sæi núna að það væri hægt að lifa vel. Kannski kynni hann ekkert sérstaklega vel við lögguna en hann viti að hún vinni við að bjarga fólki og stoppa þá sem væru að reyna að beita fólk ofbeldi. Þannig að „á þeim parti kann ég alveg vel við lögguna“ en hann elskaði ekkert lögguna. Löggan gæti bæði verið fantar og gott fólk. Einnig sagði ákærði að honum þætti nú erfitt að enginn treysti honum lengur en honum hafi verið treyst er hann fór af Stuðlum 26. apríl. Spurður hvernig væri hægt að byggja upp traust svaraði ákærði að það væri með því að haga sér vel og segja sannleikann. Beðinn um að lýsa kvikmyndinni Halloween og því hvaða áhrif hún hafi haft á hann kvaðst ákærði ekki vita það. Hann hefði bara verið svo sorgmæddur og þunglyndur að hann fékk bara þá hugmynd að drepa einhverja persónu af því að hann hafi sjálfur verið svo sár. Hann hafi bara ákveðið að gera það sama og í myndinni, að „drepa persónu til þess að láta það bitna á persónum út af því að hata lífið og bara svona ég var reiður og missti mig“. Spurður hvort hann hefði orðið svona reiður áður svaraði hann neitaði. Þetta hefði verið nýtt og hann héldi að þetta myndi aldrei aftur gerast. Ákærði hefði verið svo reiður þegar löggan tók hann. Inntur eftir því af hverju löggan hefði tekið hann sagði ákærði: „Af því að ég braust inn í hús hjá stelpu þar sem ég reyndi að gera henni mein.“ Hann hefði verið reiður út í hana af því að hún hafi verið leiðinleg. Ákærði bætti svo við: „Bara en hún átti alls ekki skilið að deyja.“ Yfirheyrandi sagði þá: „Hvað, hvaða mein ætlaðir þú að gera henni.“ Ákærði sagði: „Ég ætlaði að taka lífið af henni,“ en hann væri hættur með þessar hugsanir núna. Þetta væru hugsanir sem hefðu bara allt í einu komið upp og þær væru dauðar núna. Þá var ákærði spurður hvort hann hefði, eftir að hann sá framangreinda kvikmynd, hætt við það að ætla að drepa einhverja manneskju og sagði hann: „Nei ég var bara alveg fastur hérna.“ Hann hafi bara endalaust verið að hugsa um hefnd en þetta gæti aldrei gerst aftur. Hann vildi ekki enda í fangelsi og vera slæm persóna. Hann vildi bara eiga heima hjá mömmu sinni, eiga gott líf og vera aftur treyst. Ákærði kvaðst vilja gera samning við yfirheyranda um að hann yrði hjá lögreglu fram á fimmtudag og hegðaði sér vel og svo væri kannski gerð tilraun með að hann yrði heima hjá sér í þrjá daga og svo kannski eina nótt hjá lögreglu og svo koll af kolli þar til lögreglan treysti honum. Móðir ákærða benti honum þá á að í vikunni á undan hafi verið um prufu að ræða, þegar hann hafi fengið að vera heima á mánudeginum og miðvikudeginum. Ákærði sagði þá að hann hefði staðist það en þá hafi hann reyndar verið að ljúga að hann ætlaði ekki að gera neinum neitt mein. Þá hafi hann verið reiður og með „hefndarkennd“. Móðir hans spurði þá hvort hann hafi verið alveg ákveðinn  að hann ætlaði að gera þetta og svaraði ákærði: „Já ég var alveg bara: Djöfull ætla ég að hefna mín.“ Móðir hans spurði hann í framhaldinu hvort hann hafi verið að hugsa þetta kvöldið áður, á föstudagskvöldinu, og svaraði hann játandi. Spurður hvort hann hafi alveg verið búinn að ákveða að gera þetta sagði hann: „Nei bara einhvern tímann.“ Ákærði áréttaði að hann vildi fara heim, hann væri góð manneskja og ef hann fengi að fara heim næstu helgi fengi hann kannski traust aftur og „allir verða happy“.   

II.

Fyrir liggja ýmis gögn frá sérfræðingum um geðræn vandamál ákærða.

Við rannsókn málsins var L geðlæknir fenginn til að gera geðrannsókn á ákærða og fékk hann m.a. M sálfræðing til að leggja sálfræðipróf fyrir ákærða. Í mati L, dags. 23. júní 2013, segir að ákærði hafi mörg geðræn vandamál. Hann sé innsæislítill, skilji hluti illa og sé með væga greindarskerðingu. Ákærði sé með meðfædda einhverfu sem hafi ekki greinst fyrr en á barnaskólastigi. Við álag og mótlæti virðist hann geta orðið mjög reiður og æstur og þá komi upp hefndarhugur og ofbeldishneigð. Ákærði hafi engin merki geðrofs, rugls eða ranghugmynda en líta megi svo á að samanvegið séu öll hans andlegu vandamál með ígildi alvarlegs geðsjúkdóms. Í niðurlagi matsgerðarinnar segir geðlæknirinn svo að ákærði sé á mörkum sakhæfis samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hafi samt engin merki geðrofs eða sturlunar frá upphafi skoðunartíma. Heimildir og gögn séu þessu samhljóða. Ekki komi fram merki um alvarlega persónuleika­röskun, heilaskaða eða greindarskort sem séu af þeirri gráðu að þau firri hann algerlega ábyrgð gerða sinna. Geðræn einkenni sem lýst sé í matinu leiði hins vegar til ósakhæfis samkvæmt 16. gr. almennra hegningarlaga. Vegi þungt samanlögð hömlun ákærða, sem sé bæði greindarskerðing, einhverfueinkenni og merki um framheila­skaða svo og ungur aldur. Nær útilokað sé í dag að refsing komi að gangi. Fremur yrði hún ákærða skaðleg og kæmi í veg fyrir áframhaldandi þroska. Einnig segir í matinu að ákærða sé ekki treystandi og hann sé hugsanlega við ýmsar aðstæður hættulegur öðrum. Þá segir í matinu að ástand þetta hefði líklegast aldrei þróast ef ákærði hefði áfram fengið viðhlítandi aðstoð í skóla og nærumhverfi. Nýti og fái ákærði aðstoð væru horfur samt óljósar og verði ekki að fullu metnar fyrr en að nokkrum árum liðnum. Fram að því þurfi hann örugga vernd og sífellda og stöðuga gæslu (öryggisgæslu) samfélagsins.

Með bréfi 7. ágúst 2013 óskaði ríkissaksóknari gagna um andlegt ástand ákærða við innlögn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) hinn 27. mars 2013. Í skýrslu N, barna- og unglingageðlæknis, kemur fram að ákærði hafi langa sögu um mjög alvarlega hegðunarerfiðleika, allt frá árinu 2004. Vegna þeirra hafi hann verið settur í sérdeild í [...]skóla þegar hann var sjö ára að aldri. Fjórum árum síðar hafi ástandið verið þannig að hann hafi ekki fengið að fara í skólann nema í fylgd stuðningsfulltrúa. Um svipað leyti hafi komið upp fyrsta alvarlega atvikið, þegar hann hafi veitt lítilli stúlku höfuðáverka þannig að hún hafi fengið mar á heila. Ákærði hafi endurtekið fengið alvarleg reiðiköst. Þegar ákærði var tíu ára hafi hann fengið greininguna ódæmigerð einhverfa, kvíðaröskun (áráttu og þráhyggju) og ofvirknihegðunarröskun (ADHD samfara hegðunarröskun). Þá kemur fram í skýrslu læknisins að ákærði hafi þrisvar verið lagður inn á BUGL. Fyrsta innlögnin hafi verið 24. janúar til 11. febrúar 2013, vegna versnandi hegðunarvanda ákærða. Hann hafi verið hættur að mæta í skóla og sýnt ógnandi hegðun gagnvart móður og jafnöldrum. Önnur innlögnin hafi verið frá 27. til 29. mars 2013. Þetta hafi verið bráðainnlögn í kjölfar þess að ákærði braust inn til bekkjarsystur sinnar, sbr. atvik í ákæru 13. ágúst 2013. Á föstudeginum 29. mars hafi vakthafandi læknir haldið fund með foreldrum ákærða og svo með ákærða. Ákærði hafi viljað fara af deildinni og hótað að brjóta rúðu og beita ofbeldi ef hann fengi ekki að fara. Hann hafi sagt að hann vildi frekar fara á Stuðla en vera á BUGL. Ákærði hefði sýnt ofbeldisfulla hegðun á fundinum, slegið í glugga, hrint húsgögnum, slegið til móður sinnar og hótað að myrða og nauðga starfsmanni og sagt að hann myndi bæta honum á lista yfir þá sem hann ætlaði að drepa. Það hafi verið reynt að róa ákærða en það hafi ekki gengið og hegðun hans og hótanir magnast og hann hafi bætt lögreglunni á lista þeirra sem hann ætlaði að beita ofbeldi. Lögregla hafi verið kölluð til aðstoðar og þegar hún kom 40 mínútum síðar hafi ákærði verið farinn að róast og fallist á að lögregla færi með hann á Stuðla. Einnig kemur fram í skýrslunni að ákærði hafi aftur verið lagður inn á  BUGL 11. apríl. Þá er í skýrslunni vísað í bréf sérfræðilæknis til Barnaverndar [...] 3. apríl 2013 þar sem læknirinn „mælir eindregið með því að drengurinn verði vistaður utan heimilis. X er drengur sem við ákveðnar aðstæður getur verið óútreiknanlegur og jafnvel ef ekkert er að gert hættulegur, eins og síðustu viðbrögð hans sína. Umönnunarþörf hans er mjög mikil og eins og aðstæður eru núna er ekki hægt að sinna þeim inn á heimili móður“. Að lokum segir í skýrslunni að frávik hjá ákærða í félagslegu samspili, tjáningu og óvenjulegri áráttukenndri hegðun samrýmist ódæmigerðri einhverfu. Vitsmunaþroski sýni mynstur málhömlunar og heildartala sé við þroskahömlunarmörk (tornæmi). Veruleg frávik væru í samhæfingu hreyfinga. Meginvandinn yrði að teljast hegðunarröskunargreiningin sem hann hefur haft frá árinu 2008 og hafi tekið á sig myndina ófélagsmótuð hegðunarröskun.

Undir rekstri máls þessa voru að beiðni ákæruvaldsins dómkvaddir tveir matsmenn, O sálfræðingur og P geðlæknir, til að svara tilteknum spurningum og gera geðrannsókn á ákærða. Fyrir liggur matsgerð þeirra, dags. 14. október 2013.

Matsmenn voru í fyrsta lagi beðnir að svara því hvort ástand ákærða umrædd kvöld, 26. mars og 27. apríl, hafi verið af þeim toga að hann hafi verið geðveikur, andlega vanþroska, haldinn hrörnun, rænuskerðingu eða hann verið í öðru samsvarandi ástandi, að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann vann verkin, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Niðurstaða matsmanna við þessari spurningu er að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, bæði kvöldin. Í matsgerðinni segir að mat þeirra sé byggt á því að ákærði sé haldinn alvarlegum einhverfueinkennum sem komi fram á sviði greindar, þroska og tilfinninga og hafi áhrif á öll svið lífs hans og geri hann ófæran um að skilja tengsl á milli hegðunar sinnar og viðbragða annarra. Hann finni ekki til samkenndar og geti ekki sett sig í spor annarra nema að mjög takmörkuðu leyti. Ástand ákærða hafi versnað mjög frá haustinu 2012 og hann hætt að mæta í skóla um miðjan janúar 2013. Þráhyggja hans hafi farið mjög vaxandi og þráhyggjuhugmyndir orðið sífellt ógnvænlegri. Hann hafi farið að tala meira um ofbeldi, sem hafi mest beinst að móður hans. Í lok mars 2013 hafi ákærði verið sem oftar mjög reiður út í skólann og brotist þar inn og í framhaldinu á heimili skólasystur sinnar sem honum hafi fundist sér stafa ógn af. Móðir ákærða hafi lýst því varðandi árásina í apríl 2013 að ákærði hafi verið að herma eftir hrollvekjumynd og myndin vakið hjá honum þráhyggjuhugmyndir um að ráðast sjálfur á stúlku. Einhverfan, þráhyggjan, þroskahömlunin og á köflum stjórnlaus reiði geri það að verkum að ákærði fái mjög þrönga sýn á verknað sinn og hann hafi engar forsendur til að meta afleiðingar þess sem hugsanlega gat gerst.

Í öðru lagi áttu matsmenn að meta hvort ástand ákærða umrædd kvöld hafi verið af þeim toga að hann hafi verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en ástand hans hafi ekki verið á eins háu stigi og getið sé í 15. gr. almennra hegningarlaga, og hvort honum skuli þá refsað fyrir brotin ef refsing sé talin geta borið árangur, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Í matsgerðinni er um svar við þessari spurningu vísað til þess sem segir í svari við fyrstu spurningu.

Í þriðja lagi var óskað eftir því að lagt yrði mat á geðrænt heilbrigði ákærða eftir 27. apríl 2013 og hvort refsing geti borið árangur samkvæmt 16. gr. almennra hegningarlaga, eins og hagir hans eru í dag. Matsmenn benda í niðurstöðu sinni á að ákærði hafi frá lokum apríl 2013 og til október s.á. verið í sérstakri gæslu að Stuðlum í Reykjavík og raunveruleg meðferð hafi ekki farið fram. Ákærði hafi verið í vernduðu umhverfi, í mikilli gæslu og ytra áreiti hafi verið mjög lítið. Almennt ástand ákærða sé því betra en í mars og apríl 2013. Grunnvandamál ákærða séu óbreytt, þ.e. einhverfan og þroskahömlunin. Telja matsmenn að það sé borin von að refsing geti borið árangur í máli ákærða. 

Í fjórða lagi bar matsmönnum að leggja mat á það, ef talið yrði að 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við um ákærða, hvort nauðsynlegt þyki vegna réttaröryggis, að gerðar verði ráðstafanir til að varna því að háski verði af ákærða, með því að hann sæti öruggri gæslu, eða hvort beita skuli vægari ráðstöfunum eða vistun á hæli, sbr. 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga. Um þetta segir í matsgerð að grunnvandi ákærða sé djúpstæður og langvarandi og ákærði þurfi að vera við aðstæður þar sem hægt sé að koma við eftirliti, góðum stuðningi og meðferðarvinnu fagfólks sem miði að því að efla færni hans í að fást við dagleg vandamál og takast á við tilfinningar. Slíkt aðhald og eftirlit þurfi að eiga sér stað um óákveðinn tíma. Að frumkvæði Barnaverndarstofu hafi ákærði verið fluttur í öryggisíbúð á [...] en þar sé gæsla allan sólarhringinn. Er það skoðun matsmanna að ekki eigi að gera grundvallarbreytingar á eftirliti og aðhaldi ákærða nema að undangengnu mati dómkvaddra matsmanna.

Í fimmta lagi voru matsmenn beðnir um að leggja mat á greind og persónuleikaþætti ákærða, þar með talið hugarfar og hvatir til brota hans. Um þetta segir í matsgerðinni að niðurstöður sálfræðimats, sem byggist á hlutlægum mælingum, viðtölum við ákærða og móður hans og rannsóknum á fyrri prófunum, gefi til kynna að ákærði sé haldinn mjög alvarlegum vanda á sviði greindar, þroska og tilfinninga sem samrýmist best ódæmigerðri einhverfu. Einkenni hans hafi áhrif á öll svið lífs hans. Hann sé ófær um að skilja tengsl á milli hegðunar sinnar og viðbragða annarra. Hann finni ekki til samkenndar og geti ekki sett sig í spor annarra nema að mjög takmörkuðu leyti. Félagsskilningur hans sé mjög takmarkaður, hann geti ekki lesið í svipbrigði fólks eða látbragð og átti sig ekki á samfélagslegum normum. Hann taki allt sem sagt er mjög bókstaflega. Persónuleiki hans sé flóknari, því að hann sýni að hann geti blekkt aðra og hagrætt máli sínu sér í hag ef hann kjósi að gera það. Hann eigi erfitt með skipulagningu og að hugsa næstu skref og geti það hindrað hann í að ná að klára fyrirætlanir sínar. Hann hafi sýnt sjálfsstjórn þegar hann þurfi að gera það til að ná markmiðum sínum. Hann sýni ofbeldi mikinn áhuga og festist auðveldlega í þráhyggju um ofbeldi og hafi sýnt staðfestu við það að ætla að framkvæma þráhyggju sína. Áráttueinkenni og kækir séu almennt til staðar hjá honum en sveiflist og séu meiri þegar hann er undir álagi. Hann sé viðkvæmur tilfinningalega og taki höfnun illa og ef einhver særir hann muni hann það lengi og nái ekki að vinna úr því tilfinningalega á eigin spýtur. Verði hann reiður missi hann stjórn á sér og verði óútreiknanlegur og fær um að beita ofbeldi. Styrkleikar hans séu þeir að hafa fengið svo gott uppeldi sem hann hefur fengið og hann hafi átt góð tímabil þar sem hann hafi eflst í færni og liðið vel. Þá hafi umhverfi hans verið mikið stýrt og passað vel upp á að hafa góðar fyrirmyndir í kringum hann. Atferlismótandi aðgerðir og sálfræðiviðtöl hafi gagnast honum. Einvera geri honum ekki gott en honum líði ekki vel í margmenni eða í umhverfi þar sem hann sé ekki viss um hvað taki næst við.

Að lokum segir í matsgerðinni að eins og fram komi í bréfum móður hafi  ástand ákærða farið stöðugt versnandi eftir að aðstoð og meðferð sem hann hafði notið um tíma hætti skyndilega haustið 2012. Reiði hans, þröngsýni og aðrir þættir hafi orðið til þess að hann hugðist hefna sín á aðilum sem hann taldi ábyrga, en í raun hafi það verið tilviljun háð hverjir urðu fyrir árásum hans.

III.

Í þinghaldi 11. september 2013 var af hálfu ákærða lögð fram skrifleg greinargerð í málinu, á grundvelli 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Af hálfu ákærða er bent á það að í fyrirliggjandi mati L geðlæknis, dags. 23. júní 2013, sé spurningunni um það hvort ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum ekki svarað afdráttarlaust. Niðurstaða geðlæknisins sé sú að ákærði sé „á mörkum sakhæfis“ en sú niðurstaða kalli á nánari útskýringu læknisins. Ef það væri niðurstaðan að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu beri að sýkna hann á grundvelli 15. gr. almennra hegningarlaga.

Jafnframt sé það niðurstaða L að útilokað sé að fangelsisvist eða refsing komi að gagni og læknirinn telji ákærða enn fremur ósakhæfan vegna þeirra geðrænu einkenna sem greind eru í 16. gr. almennra hegningarlaga. Fallist dómur á niðurstöðu geðlæknisins geti aldrei komið til þess að ákærða verði refsað fyrir þau brot sem mál þetta fjallar um, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga.

Þá segir í greinargerðinni að málatilbúnaður ákæruvaldsins virðist byggjast talsvert á framburði ákærða sjálfs undir rannsókn málsins, en ákærði hafi borið á einhverju stigi, varðandi bæði tilvikin, að hann hefði ætlað að ráða einhverjum bana. Framburð ákærða verði að meta með hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggi fyrir um andlega hagi hans, en ákærði sé greindarskertur og með einkenni einhverfu. Megi vera ljóst að ákærði sé verulega hamlaður í allri tjáningu og að honum hætti til að einfalda hlutina. Hann hafi auk þess tilhneigingu til að meta aðstæður á öfgakenndan hátt og geri þannig ýmist of lítið eða of mikið úr hlutunum. Þetta þýði að vafasamt sé að leggja bókstaflegan skilning í orð ákærða og misræmi í framburði hans verði ekki metið með sama hætti og hjá heilbrigðu fólki.

Fyrir dómi hafi ákærði neitað því að hafa ætlað að ráða A bana, en að öðru leyti hafi hann játað lýsingu á háttsemi í ákærunni 17. júlí 2013. Í skýrslu hjá lögreglu 29. apríl 2013 komi fram hjá ákærða að hann hafi haldið að stúlkan hafi verið að deyja þegar hann hætti atlögu sinni og að hann hefði hætt vegna hræðslu við það sem hann var að gera. Miðað við gögn málsins virðist ljóst að ákærði hafi hætt árásinni í miðjum klíðum og honum hefði verið í lófa lagið að ganga lengra, ef það hefði verið einbeittur ásetningur hans allan tímann að ráða stúlkunni bana. Í geðheilbrigðisrannsókn L sé vísað til viðtals ákærða við lækna á BUGL þann 29. apríl 2013, þar sem virðist hafa komið fram að ákærði hefði hætt árásinni þegar hann áttaði sig á því að hann kannaðist við stúlkuna af leikjanámskeiði sem hann hafði komið að. Samkvæmt sama gagni hafi ákærði lýst því að hann hefði upphaflega ætlað sér að taka líf stúlkunnar. Gögn málsins segi að ákærði hafi upphaflega haft ásetning til að drepa, en jafn ljóst sé að sá ásetningur hafi ekki haldist til loka verksins og að ákærði hafi horfið frá ætlun sinni af eigin sjálfsdáðum. Ekki sé að sjá af gögnunum að ákærði hafi verið tálmaður eða að einhver utanaðkomandi hindrun hafi stöðvað hann heldur hafi hann sjálfur tekið ákvörðun um að hætta, sem þýði það að tilraun til manndráps geti ekki talist liggja fyrir, sbr. reglur um afturhvarf frá tilraun í 21. gr. almennra hegningarlaga. Þá skipti máli í þessu samhengi að aldrei virðist hafa verið tvísýnt um líf stúlkunnar þó að árásin hafi beinst að hættulegum stað, sbr. t.d. læknisvottorð J, dags. 16. maí 2013.

Verði það niðurstaðan í máli þessu að ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um ákærða reyni á heimildarákvæði 62. gr. sömu laga, þar sem gert sé ráð fyrir því að dómari geti í dómi ákveðið, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ákveðnar öryggisráðstafanir. Ráðstafanir skulu vera ákvarðaðar eins vægar og hægt er.

Ef til refsiákvörðunar kemur þurfi að huga að ýmsum atriðum eins og ungum aldri ákærða. Þá þurfi að líta til þess að ákærði hafi játað sök í aðalatriðum og skýrt frá atburðum af hreinskilni. Líta þurfi til veikinda hans og aðstæðna allra, en gera verði ráð fyrir að veikindin séu aðalástæða hegðunar hans. Máli skipti lög nr. 19/2013, þar sem samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er veitt lagagildi. Í samningnum komi fram í b-lið 37. gr. að aðildarríki skuli gæta þess að ekkert barn sé ólöglega eða gerræðislega svipt frjálsræði sínu. Handtaka, varðhald og fangelsun barns skuli eiga sér stað samkvæmt lögum og skuli slíku aðeins beitt sem síðasta úrræði og í skemmsta tíma sem við getur átt.

Af hálfu ákærða er miskabótakröfu í ákæru 17. júlí 2013 mótmælt  sem alltof hárri, en ákærði viðurkenni bótaskyldu. Bótaskyldu vegna ákæru 13. ágúst 2013 sé hafnað, enda líti ákærði svo á að brot hafi ekki komist á það stig að nokkurt miskatjón geti legið fyrir af hans völdum. Stúlkan hafi ekki verið heima þegar ákærði braust inn á heimili hennar og eigi því ekkert tjón að hafa orðið. Þá sé fjárhæð bótakröfunnar mótmælt sem of hárri.

IV.

Við aðalmeðferð málsins nýtti ákærði rétt sinn til að gefa ekki skýrslu um sakarefnið, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður nú rakinn framburður vitna fyrir dómi.

Brotaþoli A skýrði frá því að hún hefði verið að leika sér í fjörunni ásamt vinkonum sínum, F og I, þegar ákærði hefði komið með hníf. Hann hefði verið með húfu fyrir andlitinu en klippt hafi verið úr húfunni fyrir augun. Ákærði hefði komið aftan að brotaþola og tekið í hana. I hefði hlaupið í burtu til að láta foreldra brotaþola vita en F hefði verið þarna og öskrað. Brotaþoli kvaðst alltaf hafa reynt að hlaupa í burtu frá ákærða en ákærði hefði alltaf tekið hana. Svo hefði fólk verið á gangi í fjörunni og þá hefði ákærði hætt og kastað hnífnum og húfunni í sjóinn. Nánar um atvik sagði brotaþoli að ákærði hefði tekið í upphandlegg hennar og hrint henni og hann hefði kastað steinum í höfuð hennar þegar hún hafi ætlað að standa upp. Hann hefði haldið henni með annarri hendi og verið með hníf í hinni hendi og skorið hana á háls. Brotaþoli kvaðst hafa orðið ofsalega hrædd. Ákærði hefði svo séð fólk koma og kastað hnífnum í burtu. Einnig hefði hann kastað húfunni frá sér en brotaþoli kvaðst ekki hafa séð framan í ákærða. Jafnframt greindi brotaþoli frá því að hún hefði reynt að verja sig með höndunum en ákærði hefði þá reynt að skera hana meira í hálsinn. Hún hefði staðið upp og reynt að hlaupa í burtu en hann hefði tekið í hana og haldið áfram að skera hana. Hún kvaðst hafa óttast um líf sitt og óttast að ákærði myndi gera eitthvað við vinkonur hennar. Þá sagði brotaþoli að ákærði hefði verið æstur. Um líðan sína eftir árásina sagði brotaþoli að hún væri hrædd við að labba í og úr skóla. Þá væri hún hrædd við að vera ein heima og að hún vaknaði oft upp um nætur. Stundum svæfi hún uppi í hjá foreldrum sínum. Einnig kom fram hjá brotaþola að hún hafi smáör á hálsi og að hún reyni að fela það.

Vitnið F sagðist hafa séð ákærða og vitað að hann væri vondur en hann hefði verið með hníf og grímu fyrir andlitinu. Ákærði hefði tekið brotaþola og hent henni niður og hent steinum í hana. I hefði hlaupið heim til brotaþola eftir hjálp. Ákærði hefði svo séð fólk koma og þá hætt. 

Vitnið I kvaðst hafa verið að leika sér í fjörunni, ásamt brotaþola og F, þegar það hefði séð mann með grímu og hníf. Maðurinn hefði reynt að drepa brotaþola. F hefði reynt að hjálpa brotaþola með því að segja ákærða að hætta en hann hefði ekki hlustað á hana. Vitnið kvaðst hafa hlaupið heim til brotaþola til að láta foreldra hennar vita hvað væri að gerast. Foreldrar brotaþola hefðu verið heima og þau farið á vettvang.

Vitnið H kvaðst hafa séð í fjarlægð börn að leik í fjörunni og heyrt hróp og köll. Þegar vitnið hefði komið nær, verið samsíða þeim, hafi konu vitnisins, G, fundist eitthvað einkennilegt vera í gangi og kallað til þeirra og spurt hvort eitthvað væri að. Ákærða, sem hafi verið innan um börnin, hefði brugðið við þetta og hlaupið frá stúlkunum. Ákærði hefði hlaupið í fjöruborðið og kastað einhverju út í sjóinn og tekið á rás upp á gangstétt og í burtu. Stúlkan hefði komið til vitnisins og konu hans og þau séð að hún var skorin á hálsinum. Vitnið kvaðst hafa hlaupið á eftir ákærða og náð honum við endann á götunni. Ákærði hafi misst skóna á leiðinni. Ákærða hafi verið brugðið og ekkert streist á móti. Vitnið kvaðst hafa beðið ákærða um að setjast við grjótgarðinn. Ákærði hefði beðið vitnið um að sleppa sér og hringja ekki á lögregluna, en vitnið hefði hringt í 112. Á meðan vitnið beið eftir lögreglu hefði ákærði greint frá því að hann hefði horft á ofbeldismynd, þar sem raðmorðingi hafði skorið fólk á háls, og hann hafi viljað gera eins. Einnig sagði vitnið að ákærði hefði haft miklar áhyggjur af því að afi hans myndi frétta af þessu og honum hefði þótt þetta leitt. Ákærði hefði greinilega verið í miklu andlegu ójafnvægi. Hann hefði verið áttaður á stað og stund og séð mikið eftir þessu. Þá sagði vitnið að ákærði hefði verið mjög hvekktur út í lögregluna og fleira. Spurt hvort ákærði hafi sagt að hann hafi ætlað að drepa stúlkuna sagði vitnið að hann hafi sagt að hann ætlaði að skera á háls. Innt eftir því hvort ákærði hætti atlögunni að stúlkunni vegna þess að vitnið og kona hans komu þarna að svaraði vitnið að það væri tvímælalaust.

Vitnið G skýrði frá því að hafa verið á göngu og veitt börnum í fjörunni eftirtekt. Vitninu hafi virst sem þau væru að leika sér og ærsl verið í gangi. Þegar vitnið hefði komið nær og gengið framhjá þeim hefði því fundist eins og það væri ekki allt í lagi þarna. Vitnið kvaðst hafa séð eina stúlku hlaupa brott. Vitnið hefði gengið til baka og séð dreng taka af sér húfuna og hlaupa í burtu. Ein stúlka hafi greinilega verið meidd og önnur stúlka stumrað yfir henni. Vitnið hefði komið að þeim og séð að hún var með stungusár á hálsi. Vitnið kvaðst hafa haldið buffi við háls hennar. Það hefði blætt en ekki mikið. Maður vitnisins, H, hefði hlaupið á eftir drengnum og náð honum. Vitnið hefði beðið hjá stúlkunni á meðan. H hefði hringt á lögregluna og vitnið beðið eftir aðstoð. Vitnið kvaðst hafa verið í talsverðu uppnámi en reynt að vera rólegt. Stúlkurnar hefðu verið mjög skelkaðar. Einnig greindi vitnið frá því að það hefði hringt í foreldra stúlkunnar sem hafði verið skorin og þau komið á vettvang. Einnig hefði lögreglan komið. Spurt hvað hafi orðið þess valdandi að ákærði hljóp á brott sagði vitnið að það hefði verið vegna þess að vitnið kom þarna að og kallaði til hans. Ákærði hefði hlaupið af stað um leið og vitnið kallaði til hans. Fyrst hefði hann farið niður í fjöru og hent hnífnum og svo hlaupið á brott.

Vitnið Q lögreglumaður kvaðst hafa fengið tilkynningu um að ungum stúlkum hefði verið ógnað með hnífi og vitnið hefði farið á vettvang ásamt starfsfélaga sínum, R. Vitnið hefði farið til ákærða og manns sem var hjá honum en félagi þess hefði farið til brotaþola og stúlkna sem þar voru. Vitnið hefði rætt við ákærða og ákærði sagt að hann hefði skorið unga stúlku á háls. Vitnið hefði svo heyrt í talstöðinni þegar félagi þess kallaði á sjúkrabifreið fyrir stúlku með skurð á hálsi. Vitnið hefði í kjölfarið handtekið ákærða og kynnt honum réttar­stöðu sakbornings. Eftir handtökuna hefði ákærði greint vitninu frá því að hann hefði séð hrollvekjumynd og hann hefði ætlað að meiða einhvern. Hann hefði verið reiður út í allt og alla. Vitnið var spurt hvernig ákærði hefði komið því fyrir sjónir og sagði vitnið að hann hefði ekki virkað alveg í takt við umheiminn. Hann hefði ekki virkað eðlilegur og haft aðra lífssýn en venjulegt fólk. Þá sagði vitnið að ákærði hefði verið rólegur þegar vitnið ræddi við hann og hann hefði verið áttaður á stað og stund. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvort ákærði hefði sagt að hann hafi ætlað að drepa einhvern. Vitninu var þá kynnt lögregluskýrsla þar sem segir að ákærði hefði sagt að hann langaði til að drepa einhvern eða einhverja og sagði vitnið að skýrslan væri byggð á því sem vitninu og ákærða hefði farið á milli á leiðinni á BUGL og það hefði verið tekið upp í hljóði og mynd.

Vitnið R lögreglumaður greindi frá aðkomu sinni að málinu þegar það kom á vettvang í fjörunni. Fram kom að vitnið hringdi á sjúkra­bifreið og sinnti brotaþola meðan beðið var eftir sjúkrabifreiðinni. Um ástand ákærða sagði vitnið að hann hefði verið í uppnámi og grátið. Þá kvaðst vitnið hafa heyrt hann segja eitthvað á þessa leið: „Heldur þú að þau fyrirgefi mér.“

Vitnið J, sérfræðingur á slysa- og bráðadeild á Landspítalanum, staðfesti fyrirliggjandi vottorð, dags. 16. maí 2013, um áverka brotaþola. Vitnið sagði að brotaþoli hafi fengið alldjúpan skurð á miðlínu, sem hafi náð eiginlega alveg inn að barka. Þá hafi brotaþoli verið með tvo samhliða skurði, utanvert hægra megin á hálsi, þar sem hafi verið smáhaft á milli, sem hefðu líka náð vel í gegnum húðina. Einnig hefði brotaþoli verið með rispur. Nánar tiltekið hafi brotaþoli verið með átta eða níu rispur og skurði. Áverki vinstra megin á hálsi hafi virst vera eftir stungu. Sumir áverkarnir hefðu verið grunnir en alla vega þrír hafi verið dýpri. Skurðurinn í miðlínu hafi verið ansi djúpur. Vitnið sagði að áverkarnir hefðu ekki verið lífshættulegir þar sem skurðirnir hefðu ekki náð nógu djúpt en vitnið tók jafnframt fram að stórar æðar væru nálægt skurðunum utanvert, þ.e. hálsslagæðin og bláæðin stóra. Einnig kom fram hjá vitninu að brotaþoli hefði verið með varnar­áverka á höndum en það hefðu verið grunnar rispur.

Vitnið C, móðir brotaþola, sagði um líðan brotaþola að henni hefði liðið ágætlega eftir umrætt atvik. Brotaþoli hefði strax sýnt mikinn hetjuskap og verið töffari í sér. Það hefði komið öllum á óvart hversu sterk hún hafi verið. Brotaþoli væri hins vegar mjög hrædd við að vera ein. Í fyrstu hafi hún verið tilbúin til að labba ein heim úr skóla en smátt og smátt hafi óöryggið byggst upp aftur. Hún hefði fengið bakslag og undanfarið vilji hún alls ekki labba ein heim eða með öðrum krökkum. Vitnið greindi frá því að það hefðu verið einhverjir unglingar á stoppistöð sem hefðu hrópað að henni og vinkonum hennar og þá hefði hún orðið skelfingu lostin. Eftir það þurfi að fylgja henni allt og hún vilji alltaf hafa einhvern fullorðinn með sér. Einnig sagði vitnið að brotaþoli vakni oft upp á nóttunni. Um örið á hálsi brotaþola sagði vitnið að hún væri með ótrúlega lítil ör. Saumar hefðu verið teknir fljótt og sár gróið mjög vel. Þá kom fram hjá vitninu að brotaþoli hefði hitt sálfræðing í tvö eða þrjú skipti eftir árás ákærða og svo byrjað aftur í sálfræðimeðferð við kvíða og áfallastreituröskun eftir að hún fékk bakslag.

Vitnið B, faðir brotaþola, greindi einnig frá því að brotaþoli gæti ekki verið ein heima. Hún vakni upp á nóttunni og komi upp í til foreldra sinna. Þá gæti hún ekki verið ein á ferli. Það sjáist ör á hálsi hennar en þau sjáist lítið. Þá kom einnig fram hjá vitninu að fyrir nokkrum vikum hefði brotaþoli fengið bakslag í kjölfar þess að unglingar stríddu henni.

Vitnið S sálfræðingur staðfesti vottorð sem fyrir liggur í málinu, dags. 8. ágúst 2013, um andlega líðan brotaþola. Vitnið sagði að brotaþoli uppfylli greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun. Brotaþoli endurupplifi minningar og hugsanir um atburðinn og forðist t.d. að ganga ein í og úr skóla. Brotaþoli hefði um daginn gengið framhjá stoppistöð þar sem unglingar voru með læti. Hún hafi orðið ofsalega hrædd og ekki þorað að labba framhjá stoppistöðinni og sé orðin varkár í kringum unglinga. Þá hafi hún svefnerfiðleika og vakni á hverri nóttu og fari upp í til foreldra sinna. Gert sé ráð fyrir því að hún haldi áfram í meðferð hjá vitninu. Beðið um að skýra frá batahorfum brotaþola sagði vitnið að það væri erfitt að segja til um þær. Í sumum tilfellum glími fólk við áfallastreituröskun í mörg ár og það gæti fengið bakslag. Brotaþoli sé ung og erfitt að segja til um getu hennar og hvernig framtíð hennar verður.  

Vitnið T kom fyrir dóm og staðfesti bréf, dags. 18. júlí 2013, sem vitnið sendi lögreglu ásamt afriti af nótu úr sjúkraskrá brotaþola, dags. 30. apríl 2013. Í síðargreinda skjalinu kemur fram að brotaþoli hefði ekki sýnt merki áfallastreitu­röskunar en foreldrum hefði verið bent á að fylgjast vel með brotaþola og að hafa samband ef vart yrði áfallastreitueinkenna. Í bréfinu 18. júlí 2013 segir að hafa verði í huga að vitnið ræddi við brotaþola þremur dögum eftir slysið og að algengara sé að einkenni áfallastreitu komi í ljós seinna.

Vitnið M sálfræðingur staðfesti skýrslu sem hann gerði, dags. 20. júní 2013, um persónuleikamat og greindarprófun á ákærða. Vitnið greindi frá því að ákærði væri mjög sérstakur og hefði sérstakan „kontakt“. Hann hefði verið greindur með ódæmigerða einhverfu og maður sæi það fljótlega í viðræðum við hann að hann væri sérstakur, hann hafi litla athygli og einbeitingu og velji sérstök umræðuefni. Spurt hvort ákærði hefði sýnt eftirsjá af verknaði sínum gagnvart brotaþola sagði vitnið að það væri erfitt að átta sig á því. Ákærði hefði rætt um afleiðingar fyrir stúlkuna en vitnið kvaðst telja að skilningur hans á því væri mjög takmarkaður. Vitnið sagði að ákærði væri með mikla áráttu og þráhyggju fyrir alls konar hlutum, sem tengist ódæmigerðri einhverfu. Það flakki hins vegar mikið og það sé algengt hjá fólki sem er með áráttu og þráhyggju. Vitninu fannst ákærði mjög hamlaður af þessu. Þá væri ákærði með mjög slaka athygli og einbeitingu og hann væri með ADHD-greiningu ásamt hegðunar­röskun. Vitnið kvaðst hafa lagt fyrir ákærða greindarpróf. Það hefði verið gert áður í tvígang. Ákærði hefði skorað á stigi vægrar greindarskerðingar og það væri töluverður misþroski á greindarprófinu. Ákærði mælist á stigi vægrar þroska­skerðingar, sem hafi áhrif á allan hans skilning, bæði á félagslegum samskiptum og orsök og afleiðingu. Einnig væri ákærði hamlaður af hegðunar­erfiðleikum og ADHD, fyrir utan greindarskerðinguna. Vitnið sagði að erfitt væri að meta dreng eins og ákærða á persónuleikaprófi vegna þess að það geti vel verið að hann skilji ekki hluta af því sem farið sé yfir með honum. Á prófinu hafi komið fram skortur á innsæi og tengslum á orsök og afleiðingu og að lesa í tengsl við annað fólk. Hann forðist annað fólk, eigi fáa vini og líði illa innan um annað fólk. Þá hefði ákærði skrýtnar og óvenjulegar hugsanir. Hann hafi á prófunum merkt við alls konar viðhorf og hegðun sem flestir merki ekki við játandi, ekki einu sinni mjög veikt fólk. Enn fremur sagði vitnið að allur skilningur ákærða væri verulega hamlaður, á öllum sviðum lífsins. Vitnið var innt eftir því hvort ákærði hafi tilhneigingu til að einfalda hlutina. Vitnið sagði öll samskipti og aðstæður, allt sem virtist almennt einfalt, vera mjög flókið fyrir einstakling eins og ákærða. Allar hans aðgerðir, eins og viðbrögð hans við álagi eða það hvernig hann útskýrir hluti, væru alltaf mjög einfaldar eða eins og hjá krakka, enda væri greindaraldur hans miklu neðar en raunverulegur aldur hans. Svör hans væru öfgakennd og óvenjuleg og hugmyndir hans um framtíðina væru mjög barnalegar og með einföldum hætti. Þá sagði vitnið að það væri vel þekkt, eins og með börn, að einstaklingur eins og ákærði skipti fljótt um hluti. Ákærði væri einnig með þráhyggju og það sem fólk hafi þráhyggju fyrir geti breyst og flakkað á milli. Það sé vel þekkt að fólk hafi þráhyggju fyrir einhverju í dag, í nokkrar vikur, mánuði eða jafnvel ár, en svo breytist það og það fái þráhyggju fyrir einhverju allt öðru. Það hafi gerst hjá ákærða og það rokki mjög hratt hjá honum. Í þeim þremur viðtölum sem vitnið hafi átt við ákærða hafi ákærði fengið þráhyggju fyrir þremur hlutum. Ákærði væri þannig mjög óstöðugur. Vitnið var beðið um að staðsetja ákærða við tiltekið aldursbil, þroskalega séð, og taldi vitnið að ákærði væri eins og 8-9 ára barn. Væri þá miðað við greindaraldur ákærða. Einkenni ódæmigerðrar einhverfu væri seinkun á þroska og allt þetta hjálpist að. Jafnvel væri hægt að líta á ákærða sem yngri en 8-9 ára barn. Jafnframt sagði vitnið að börn á þeim aldri kunni að haga sér og kunni umgengnisreglur en ákærði sé meira hamlaður þar. Vitnið sagði einnig að ákærði þyrfti verulega umönnun það sem eftir væri og mikið eftirlit. Ákærði væri mjög hvatvís og ef hann fengi þráhyggjuhugsanir gagnvart hlutum sem valda öðrum hættu gæti hann framkvæmt þá. Hann væri óútreiknanlegur.

Vitnið L geðlæknir kvaðst hafa hitt ákærða fimm sinnum vegna geðrannsóknar á honum. Ákærði hafi verið mjög reiður og ósáttur og haft ótrúlega lítinn skilning á eðli verknaðar síns. Vitnið greindi frá því að ákærði hefði áður verið handtekinn, hinn 26. mars 2013, vegna atvika sem lýst er í ákæru 13. ágúst 2013, og það hefði setið í honum og honum fundist hann beittur harðræði og hann lýst hatri í garð lögreglu. Ákærði hefði viðurkennt að atvik sem gerðust 27. apríl 2013 hefðu átt sér aðdraganda, að hann hefði í raun hugsað þetta og svo framkvæmt. Vitnið kvaðst hafa útilokað að ákærði væri að þróa með sér geðklofa eða geðrofssjúkdóm. Þá sagði vitnið að það sem væri sláandi við ákærða væri að hann hefði hlýtt móður sinni og verið góður drengur. Í mörg ár hefði hann haft þroskaþjálfa sem hafi sinnt honum í skólanum og þar hefði gengið vel. Þroskaþjálfinn hafi svo farið í leyfi og ákærði orðið út undan í skólanum. Ákærði hefði brugðist við með miklu ósætti og verið reiður inni í sér. Skólinn hefði brugðist við með því að færa hann á deild fyrir börn sem eru að lenda á skjön félagslega og verið farin að reykja og drekka. Það hefði gert ástandið verra en ella og þetta hafi leitt til innlagnar á barna- og unglingageðdeildina. Ákærði hafi orðið ósáttari og ósáttari og reiðari og reiðari. Vitnið kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að hér væri um að ræða einstakling sem væri hættulegur samfélaginu og að hann þyrfti örugga gæslu til frambúðar. Hvernig ákærði muni þróast og þroskast fari mjög mikið eftir aðbúnaði hans og tækifærum til að bæta sig. Ákærði sé með ódæmigerða einhverfu, hann sé misþroska og með tornæmi, með greindarvísitölu í kringum 60 en kannski lægri. Hann hefði verið áberandi hærri á einföldu minnisprófi og það sé merkilegt en kunni að skýrast af því að hann geti lært með góðri kennslu. Síðan væri hann með þetta mikla skap en það tengist í raun og veru einhverfurófs­einkennum sem hann hafi. Við réttan aðbúnað geti hann lært og hagað sér eins og maður. Vitnið taldi að það væri á mörkunum að ákvæði 15. gr. almennra hegningarlaga ætti við um ákærða. Hins vegar taldi vitnið að það væri afgerandi að ákvæði 16. gr. sömu laga ætti við um ákærða, með hliðsjón af summu vandamála hans. Einnig sagði vitnið að því finnist að ákærði geti bætti sig en það taki nokkur ár og hann þurfi ótímabundna öryggisgæslu. Vitnið taldi að ákærði hafi verið algjörlega klár á því hvað hann var að gera á verknaðar­stundu. Hann hafi verið búinn að skipuleggja verknaðinn og vitað muninn á réttu og röngu. Hann hafi hins vegar skertan tilfinningalegan þroska að því leyti að hann finni ekki til með brotaþola, en þetta tengist einhverfu hans. Jafnframt sagði vitnið að það væri mikilvægt að muna að öllu jöfnu væri ákærði í nokkuð góðu geðhorfi en svo komi stundir þar sem hann missi sig og þá geti hann orðið hættulegur. Í umræddu tilviki hafi hann verið að hefna sín á þjóðfélaginu. Málið hefði átt sér aðdraganda og það hafi verið kalt að útskrifa ákærða af BUGL á sínum tíma, miðað við það sem var vitað og móðir ákærða var búin að segja. Vitnið sagði jafnframt að móðir ákærða hefði verið dugleg og gert allt sem hún gat en ákærði hafi verið í mjög miklu uppnámi á þessu tímabili og það hafi ekki náðst að lægja það. Það hefði orðið hvatinn að þessu voðaverki. Einnig sagði vitnið að það hefði verið hending ein að um var að ræða þennan tiltekna brotaþola. Þá sagði vitnið að það hefði skilið ákærða þannig að hann hefði viljað deyða einhvern. Beðið um að setja ákærða á ákveðið þroskabil sagði vitnið að á sumum sviðum virtist hann á aldrinum 4-5 ára en á sumum sviðum væri hann mun hærri eða eins og táningur, en hann sé misþroska. Tilfinningaþroski hans sé t.d. langt á eftir. Vitnið kvaðst hafa orðið undrandi á niðurstöðum greindarprófs sem M sálfræðingur lagði fyrir ákærða, þar sem ákærði hefði skorað verr á því en vitnið átti von á. Það sýni hvað ákærði geti verið vandmetinn í skólakerfinu. Það haldi allir sem horfa á ákærða að hann sé í lagi en hann eigi við miklu meiri erfiðleika að stríða en fólk áttar sig á. Þegar ákærði missti þroskaþjálfa sinn hefði ákærði ekki ráðið við aðstæður, orðið út undan og orðið fyrir einelti og brugðist illa við og orðið ósáttur. Þetta ósætti hefði gjörbreytt þessum ljúfa dreng. Þá sagði vitnið að foreldrar ákærða hefðu lýst honum ágætlega, að hann vanti hæfnina til úrvinnslu. Ákærði vinni ekki rétt úr mörgum áreitum og hann þurfi mikla kennslu við margt, sérstaklega nýja hluti, en hann geti bætt sig. Það þurfi að halda honum í andlegu jafnvægi og í réttu umhverfi því að ef hann misskilur umhverfi sitt þá bregðist hann illa við. Fái hann þetta þá gæti honum farnast vel. Beðið um að útskýra hvað ódæmigerð einhverfa er sagði vitnið að um væri að ræða einstaklinga sem hafi að hluta einkenni einhverfu en uppfylli ekki öll skilmerki. Sagt sé að þessi börn séu á einhverfurófi, misalvarlegu eftir einkennum. Um væri að ræða mörg mismunandi einkenni. Tilfinningalegur þroski og félagsþroski væri mjög slakur og oft fylgi misþroski og greindar­skortur. Þráhyggjueinkenni væru mjög þekkt og börn gætu fengið mikil reiðiköst. Vitnið sagði að ákærði hafi vitað muninn á réttu og röngu en það mætti spyrja sig hvort hann hafi vitað hvað hann var að gera þegar hann missti sjálfstjórn umrætt sinn. Í þessu liggi vandinn við mat á ákærða. Aðdragandinn og undir­búningurinn hafi hins vegar bent til þess að hann hafi verið meðvitaður um það sem hann var að gera og kannski hafi hann ekki gengið lengra en raun var á þar sem hann hefur haft einhverja sjálfstjórn.

Vitnið P geðlæknir, sem var dómkvaddur sem matsmaður ásamt O sálfræðingi til að gera geðrannsókn á ákærða, sagðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Sú niðurstaða væri rökstudd með vísan til einhverfu­sjúkdóms ákærða og truflunar á þroska og tilfinningum hans og þess að hann ætti erfitt með að gera sér grein fyrir því hvað væri rétt og rangt. Hann væri haldinn töluverðri þráhyggju og greindarþroski hans væri skertur og hann hafi ekki verið fær um að leggja venjulegt mat á gjörðir sínar. Vitnið var spurt hvort hætta stafaði af ákærða og sagði vitnið að það væri mat sitt að hann þyrfti á öruggri gæslu að halda. Þá sagði vitnið aðspurt að ákærða hætti til að einfalda hlutina. Hann hafi ekki mikla greind og setji hluti upp í kerfi sem passi honum. Hann hafi einhverfueinkenni og frávik í þroska. Þá hafi hann haft þráhyggju sem hafi verið saklaus, eins og að telja eitthvað, en svo hafi ákærði fyllst reiði og heift og það hafi að einhverju leyti orðið til þess að hann lét til skarar skríða. Vitnið sagði að ákærði hafi verið búinn að vera mjög reiður mjög lengi og verið utanveltu í skólakerfinu og upplifað sig utanveltu. Um tíma hafi hann þó fengið bærilegan stuðning frá iðjuþjálfa sem hafi svo farið í leyfi og enginn komið í hans stað og í framhaldi af því hafi ákærða klárlega versnað, en þá hafði hann engan stuðning nema frá móður sinni. Reiðihugmyndir ákærða hafi þannig verið að byggjast upp alveg frá haustinu 2012 og hann haft í hótunum við móður sína í nokkur skipti og svo hafi hann orðið reiður út í bekkjarsystur sína og brotist inn til hennar, en hún hafi ekki verið heima. Þegar vitnið var spurt hvort ákærði hafi haft skilning á því sem hann gerði sagði vitnið að hann hafi haft takmarkaðan skilning á því. Hann hefði ekki þann skilning sem venjulegur einstaklingur hafi. Spurt hvort skilningur ákærða væri eins og hjá barni sagði vitnið að börn átti sig oftast á því hvort þau geri rétt eða rangt. Hjá ákærða vanti einhvern skilning en hann sé ekki skilningslaus. Greindar­vísitala ákærða væri í kringum 60 eða innan við það. Venjuleg greind sé 100 og 95% af fólki væri með greindarvísitölu á bilinu 70 og 130, en ákærði væri í neðsta eina prósentinu og á mörkum tornæmis. Þroskafrávik hans lýsi sér m.a. í því að nám liggi mjög illa fyrir honum og það að skilja afleiðingar gjörða sinna. Vitnið var spurt hvort refsing geti borið árangur í tilfelli ákærða og sagði vitnið að ákærði geri sér ekki fyllilega grein fyrir afleiðingum gjörða sína. Ef bara væri um þroskafrávik að ræða hjá ákærða væri það kannski nægilegt til að álykta að refsing bæri árangur en hjá ákærða væri ekki aðeins um þroskafrávik að ræða. Vitnið taldi að refsing myndi örugglega ekki gera neitt gagn og hún gæti verið skaðleg.    

Vitnið O sálfræðingur sagði að við geðrannsókn á ákærða hafi það lagt áherslu á að meta þroskastöðu hans. Niðurstöður vitnisins hefðu verið í samræmi við niðurstöðu greindarmats, að ákærði væri langt á eftir í þroska. Hann hafi skort þroska á félagslega sviðinu og skilning á umhverfinu, að lesa úr félagslegum vísbendingum og átta sig á afleiðingum gjörða sinna. Hann skorti innsæi og geti ekki sett sig í spor annarra. Hann hafi sagt að honum þætti leitt að hafa skaðað stúlkuna en hann hafi samt ekki virst skilja af hverju þetta hafi skipt svona miklu máli. Honum hafi bara fundist nóg að segja að hann ætli aldrei að gera þetta aftur. Jafnframt sagði vitnið að hann taki öllu sem fólk segir mjög bókstaflega. Vitnið taldi að ákærði hafi á verknaðar­stundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, vegna einhverfu­einkenna sinna og þráhyggju. Vitninu var bent á að ákærði virðist hafa undirbúið verknaðinn og sagði vitnið að hann hafi greinilega verið búinn að hugsa um þetta, velt þessu fyrir sér og talað um það við móður sína að hann vildi framkvæma það sem hann sá í bíómynd. Ákærði hefði verið reiður út í samfélagið og viljað fremja svona glæp. Spurt hvort ákærði hafi vitað að hann var að gera rangt þegar hann skar stúlkuna á háls sagði vitnið að hann hafi sagt að hann hefði farið að hugsa um það að hún gæti dáið og þá myndi hann lenda í fangelsi. Hann hafi því haft einhvern skilning á því að hann hafi verið að gera rangt. Hann kunni ýmsar reglur um hvað megi gera og ekki gera en þegar hann hafi ekki stjórn á sér þá komist það ekki að. Beðið um að lýsa því hvað ódæmigerð einhverfa er sagði vitnið að einhverfa væri þroskaskerðing sem komi fram og sé á ákveðnu rófi. Einkenni geti verið allt frá því að vera væg, þannig að einstaklingur geti t.d. lært tungumál og framkvæmt hluti í daglegu lífi, og til þess að geta ekki talað og sinnt sjálfur daglegum þörfum. Þessir einstaklingar séu mjög viðkvæmir fyrir öðrum sálrænum einkennum. ADHD væri t.d. mjög algengt og þráhyggja og kækir og ákærði hafi sögu um það. Það geti verið tilviljun hvað það verður sem fólk fær þráhyggju fyrir og það geti verið breytilegt hvað það stendur lengi yfir. Stundum hverfi það alveg af sjálfu sér og stundum sé hægt að vinna með það. Ákærði hafi haft þráhyggju og kæki sem hann hafi fengið meðferð við og hægt hafi verið að draga úr, eins og að hann hafi ekki getað hætt að telja. Ákærði hafi því sýnt að þótt hann hafi verið með þessi einkenni hafi verið hægt að vinna með þau, með því að hafa stuðning og jafnvægi í kringum hann. Vitnið var spurt hvort hægt væri að meta þroska ákærða og miða við tiltekinn aldur og sagði vitnið að það væri hægt. Við mat á aðlögunarfærni ákærða hafi hann fengið á bilinu 52-65 stig, en heildartalan hafi verið 59 stig. Það sé þremur staðalfrávikum undir meðaltali, eða eins og þroski 9-10 ára gamals barns. Þetta væri langt undir meðallagi. Þá sagði vitnið að ákærði þurfi mikla stýringu og utanumhald. Þegar það sé til staðar þá geti ákærði alveg lifað ágætu lífi, en það þurfi alltaf að passa hann mjög vel. Hann geti allt í einu fengið ofbeldisfulla þráhyggju, sérstaklega ef hann kemst í tæri við ofbeldisfullt efni. Móðir ákærða hafi verið mjög meðvituð um þetta og passað hann vel. Hann þurfi góðar fyrirmyndir og gott umhverfi. Vitnið var spurt hvort ákærði hafi verið fær um að greina frá því eftir á hvað hann hafði í raun í hyggju þegar hann var í fjörunni og sagði vitnið að það væri erfitt að svara því. Ef hann gæti betur séð fyrir afleiðingar gjörða sinna þá hefði hann væntanlega ekki farið af stað í þetta. Greindarstaða hans geri honum það erfitt fyrir. Hann hafi eflaust haft í hyggju að fremja þetta ódæði og tilgangurinn hafi verið mjög einfeldningslegur, að hefna sín á samfélaginu, á löggunni. Jafnframt sagði vitnið að það væri erfitt að segja hvort hann hafi ætlað að drepa stúlkuna eða meiða hana.

Vitnið N, barna- og unglingageðlæknir, var beðið um að greina frá ástandi ákærða við innlögnina á BUGL 27. mars 2013. Vitnið sagði að innlögnin hefði staðið stutt yfir. Þegar ákærði var lagður inn hafi hann ekki verið í sturlunarástandi. Ákærði hefði sýnt ofbeldisfulla hegðun á deildinni, án þess að nokkuð hafi ögrað honum eða áreitt að öðru leyti en því að hann var á lokaðri deild. Jafnframt sagði vitnið að á deildinni starfi fólk sem er vant að mæta ögrandi einstaklingum sem hafa „stuttan kveik“ og kunni ýmis ráð, en þau hafi ekki dugað gagnvart ákærða og hann orðið ofbeldisfullur. Ákærði hafi farið af BUGL og á Stuðla 29. mars 2013. Enn fremur sagði vitnið að fagaðilar hefðu í vikunum og mánuðunum á undan haft verulegar áhyggjur af þróun mála hjá ákærða. Sérfræðilæknir hafi t.d. tekið fram að ákærði gæti orðið hættulegur öðrum. Vitnið sagði einnig að ákærði hefði nú fengið úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda og það hefði frétt í sumar af jákvæðri þróun hjá ákærða. 

Móðir ákærða, U, kom fyrir dóm, en hún skoraðist undan því að gefa vitnaskýrslu, á grundvelli b-liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008.

Einnig kom fyrir dóm vitnið V rannsóknarlögreglumaður, sem m.a. tók skýrslu af ákærða við rannsókn málsins. Vitnið W rannsóknar­lögreglumaður kom jafnframt fyrir dóm, en vitnið rannsakaði síma ákærða og var viðstatt skýrslutöku af honum. Vitnið Y lögreglumaður var spurt um „dauðalista“ ákærða, hníf sem lögregla haldlagði og bréf sem móðir ákærða afhenti lögreglu. Þá lýsti vitnið Z rannsóknarlögreglumaður hnífi sem lögregla lagði hald á. Ekki er ástæða til að rekja framburð vitnanna hér.

V.

Ákærði hefur játað fyrir dómi þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, en hann neitar að um hafi verið að ræða tilraun til manndráps. Af hálfu ákærða er á því byggt að um afturhvarf frá tilraun hafi verið að ræða, þ.e. að hann hafi upphaflega haft ásetning til manndráps en hafi svo af sjálfsdáðum látið af þeim ásetningi sínum. Nánar tiltekið hafi hann hætt vegna hræðslu við það sem hann var að gera og vegna þess að hann hafi kannast við brotaþola af leikjanámskeiði.

Brotaþoli lýsti því fyrir dómi hvernig hún hafi ítrekað reynt að hlaupa í burtu frá ákærða en hann hefði gripið í hana og skorið hana á háls. Ákærði hefði svo hætt þegar fólk kom þarna að gangandi. Vitnið F, vinkona brotaþola, lýsti því einnig hvernig ákærði hefði komið í veg fyrir að brotaþoli kæmist undan og að hann hefði hætt verknaði sínum þegar hann sá fólk koma. Vitnið H, sem var á gangi með konu sinni, G, greindi frá því að þeim hefði fundist eitthvað óeðlilegt í gangi í fjörunni og ákærða hefði brugðið þegar þau kölluðu og spurðu hvort eitthvað væri að. Vitnið kvaðst vera fullvisst um að ákærði hafi hætt atlögu sinni vegna þess að vitnið og kona þess komu þarna að. Vitnisburður G var á sama veg, en vitnið sagði að ákærði hefði hlaupið á brott vegna þess að vitnið kom þarna að og kallaði til hans. Þegar litið er til framburðar brotaþola og vitna er að mati dómsins ljóst að ákærði hætti ekki atlögu sinni af sjálfsdáðum heldur vegna utanaðkomandi truflunar. Auk þess lýsti ákærði því sjálfur við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði hætt vegna þess að hann hafi haldið að brotaþoli væri að deyja. Orð ákærða verða ekki skilin öðruvísi en þannig að hann hafi haldið að honum hafi tekist ætlunarverk sitt. Atlaga ákærða var ofsafengin, hann beitti hættulegu vopni að hálsi brotaþola, þannig að hún hlaut marga skurði og suma djúpa, og verður að telja tilviljun að ekki fór verr.

Með vísan til framangreinds er sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft ásetning til manndráps. Ástæðan fyrir verknaði hans virðist hafa verið sú að hann var afar reiður út í samfélagið, skólann sem honum fannst hafa brugðist sér, einelti sem hann varð fyrir, hann var reiður út í lögregluna og hann hafði þráhyggju­hugmyndir eftir ofbeldismynd sem hann sá. Var það tilviljun háð að það var umræddur brotaþoli sem varð fórnarlamb ákærða. Verknaður ákærða varðar við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæra 13. ágúst 2013. Tilraun til manndráps þriðjudaginn 26. mars 2013.

I.

Hinn 26. mars 2013 fékk lögreglan tilkynningu um yfirstandandi innbrot í íbúð að [...]. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að lögreglu­bifreið hafi verið stödd skammt frá, við [...]skóla, vegna tilkynningar um innbrot þar. Lögreglumenn hefðu hraðað sér að [...] og þar hafi húsráðandi að [...], Þ, verið í átökum við ungan mann, ákærða í máli þessu. Ákærði hafi verið mjög æstur og hafi þurft að setja hann í handjárn, en hann hafi hvæst ókvæðisorðum að þeim. Hann hafi veitt mótspyrnu eftir mætti en verið færður í lögreglubifreið. Þ hefði skýrt frá því að hann hefði heyrt skömmu áður brothljóð frá íbúð nr. [...] og farið út úr íbúð sinni og að íbúðinni. Hann hafi þá séð ákærða vera að brjóta rúðu í eldhúsglugganum og hafi hann notað til þess gangstéttar­hellur sem hafi legið við húsið. Þ hafi ekki getað stoppað ákærða og hann hafi séð á eftir ákærða stinga sér inn um gluggann, en ákærði  hafi að mestu verið búinn að brjóta rúðuna úr. Þ hefði þá farið yfir í íbúð sína til að hringa í 112. Á meðan hafi hann heyrt skarkala úr hinni íbúðinni, en íbúarnir hafi ekki verið heima. Ákærði hefði svo ruðst inn í íbúðina til Þ og umsvifalaust ráðist á hann í anddyrinu. Ákærði hefði slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið og hann hefði náð að leggja ákærða í gólfið og legið á honum þar til lögregla kom á staðinn. Jafnframt segir í frumskýrslu að ákærði hafi verið mjög æstur og ekki verið hægt að ræða við hann og hann hafi veitt mótspyrnu eftir mætti. Það hafi þurft að setja hann í handjárn og hann fluttur á lögreglustöð. Þá kemur fram í frumskýrslu að ákærði hafi viðurkennt fyrir lögreglu­mönnum að hann hefði skömmu áður brotist inn í [...]skóla.

Þegar ákærði var fluttur á lögreglustöð var í gangi svokallaður eyewitness-búnaður og liggur fyrir endurrit af samtali ákærða og lögreglumanna í bifreiðinni. Þar kemur fram að lögreglumennirnir spurðu ákærða hvar hnífurinn væri og ákærði sagði að hann væri líklega bara í húsinu. Þá var ákærði spurður hvað stelpan héti sem byggi þar. Ákærði svaraði að hún héti D og spurði: „Hvað ætlið þið að gera?“ Þá sagði einn lögreglumaðurinn að ákærði hafi ætlað að ráðast á einhverja D með hníf, sem eigi heima þarna í húsinu, og það væri hnífur inni í íbúðinni. Einn lögreglu­mannanna sagði svo: „Af hverju ætlaðir þú að drepa hana?“ Ákærði svaraði: „Af því að hún hótaði mér fyrir að kæra sig fyrir kynferðislega áreitni.“ Spurður hvort hann hafi verið með kynferðislega áreitni sagði ákærði: „Nei ég var bara að ógna henni kynferðislega.“ Ákærða var í framhaldi bent á að allt væri tekið upp í hljóði og mynd í lögreglubifreiðinni. Lögreglumaður sagði í framhaldinu: „Þannig að þú sagðir við okkur að þú ætlaðir að fara þarna til að drepa hana D því hún hótaði að kæra þig fyrir kynferðislega áreitni.“ Ákærði svaraði: „Já og svo ætlaði ég að drepa allar vinkonur hennar og drepa fyrrverandi vin minn og síðan ætlaði ég að drepa einn óþolandi krakka. Ég er að reyna að drepa margt fólk og ef þið hefðuð ekki verið þarna þá hefði sjálfsagt ég, ef ég hefði náð því þá hefði ég örugglega drepið þennan fullorðna mann. Ef ég hefði getað það.“ Um ástæðu þess að hann hafi ætlað að drepa alla þessa aðila sagði ákærði að hann væri leiður á þessu lífi. Ekki er ástæða til að rekja frekar samtalið.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 23. júlí 2013, að viðstöddum verjanda og föður ákærða. Beðinn um að lýsa því sem hefði gerst sagði ákærði að það hefði ekki verið nein góð ástæða fyrir því. Hann hefði bara fengið einhverja skrýtna hugsun sem hann hefði ekki ráðið við og hann hefði bara ekki vitað hvað kom yfir hann. Jafnframt kvaðst hann hafa verið reiður „út í lögin og lögguna og eitthvað svona, já“. Spurður hvernig hann þekkti D sagði ákærði að hún hefði verið með honum í bekk og þau væru miklir óvinir. Um ástæðu þess sagði ákærði að um skólaleiðindi hefði verið að ræða. Ákærði hefði átt erfitt í skólanum og eiginlega allir í skólanum verið vondir og leiðinlegir við hann, af því að hann var eitthvað öðruvísi. D hefði verið vond við hann. Yfirheyrandi spurði þá ákærða hvað hann hafi ætlað að gera og svaraði ákærði: „Ég held að ég hefði samt ekki getað hér ganga, ganga alla leiðina.“ Inntur eftir því hvað hann meinti með þessu sagði ákærði að hann héldi að hann hefði ekki getað klárað það sem hann ætlaði sér að gera, þennan dag. Aftur spurður hvað hann ætlaði að gera kvaðst ákærði hafa séð kött inni og ætlað að stela honum. Hann hafi ætlað að taka köttinn frá henni og ala hann sjálfur upp. Spurður hvort hann hafi ætlað að gera brotaþola mein sagði ákærði: „Ég hugsaði um það í fyrstu en síðan fór ég, þegar ég var að fara gera þetta þá byrjaði ég að þora þessu minna. Þorði ég ekki að gera þetta því að ég fann líka að þetta var eitthvað rangt að gera þetta og of langt gengið.“ Hann hefði eiginlega bara misst stjórn á sér og ráðist á einhvern mann. Hann hefði ekki notað hníf gegn honum, bara hnefana. Ákærði kvaðst hafa tekið hníf úr eldhúsinu hjá föður sínum fyrr um kvöldið. Ákærði sagði jafnframt að hann hefði ekki vitað að hann hefði verið með hann ennþá í vasanum og hann hefði misst hnífinn úr vasanum í átökunum. Ákærði sagði einnig að honum liði illa út af því sem gerðist og hann sæi núna að þetta var rangt. Yfirheyrandi sagði þá: „Þannig að það er rétt skilið hjá mér að þú ætlaðir að fara heim til d til að drepa hana vegna þess að hún var leiðinleg við þig í skólanum?“ Ákærði svaraði: „Já kannski en ... ég segi margt þegar ég er reiður. Ég veit ekki hvort að ég ætlaði alveg að gera það en ég ætlaði örugglega að meiða hana eða ráðast á hana.“ Ákærði bætti svo við að hann héldi að hann hefði ekki þorað að „nota svona villimannaaðferð bara að draga rýting og stinga hana til dauða. Ég hefði örugglega ekki ráðið við það“. Einnig sagði ákærði: „En ef að ég hefði verið ákveðinn í að hérna taka líf, sem að ég er held ég 100% á að hefði hvort sem er aldrei gert. Eða hérna nei, ég hefði aldrei geta það. Ég er ekki skrímsli.“ Spurður hvort hann hefði hringt dyrabjöllunni og einhver svarað kvaðst ákærði ekki vita það, hann hefði bara ætlað að ráðast á þau en hann „ætlaði nánast bara að nota líkamsárás með hnefunum mínum og sparki“. Hnífurinn hefði „bara verið stælar“ og hann hafi ekki ætlað að nota hann.

Vitnið Þ gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins og brotaþoli D. Einnig gaf skýrslu móðir hennar, E, en ekki er ástæða til að rekja hér vitnisburð þeirra hjá lögreglu.

II.

Í greinargerð ákærða, sem lögð var fram í þinghaldi 11. september 2013, segir um umrædda ákæru að ákærði hafi neitað í skýrslu hjá lögreglu 23. júlí 2013 að hann hafi brotist inn á heimili D í því skyni að vinna henni mein. Komið hafi fram hjá honum að hann teldi að hann hefði ekki getað klárað það sem hann ætlaði sér að gera. Ummæli ákærða í kjölfar handtöku, þar sem virðist sem ákærði hafi lýst því yfir við lögreglumenn að hann hafi ætlað sér að ráða stúlkunni bana, verði að skoða með það í huga að ákærði sé andlega veikur og hann hafi upplifað handtökuna sem mjög ofsafengna og ofbeldisfulla. Því sé engin sérstök ástæða til að taka mark á orðum hans á þessum tíma. Þá sanni hnífurinn ekki að ætlun ákærða hafi verið að drepa stúlkuna, enda hafi hann alveg eins getað nýst til að ógna eða meiða. Það sem mestu skipti sé að atvikið hafi aldrei komist á það stig að reynt hafi á ætlaðan ásetning ákærða til að drepa, enda hafi stúlkan ekki verið heima. Sú staðreynd að aldrei hafi reynt á ætlun ákærða og sá vafi sem hljóti að leika um hugræna afstöðu hans miðað við hvernig hann hefur tjáð sig hljóti að leiða til þess að ásetningur um manndráp teljist ekki sannaður.

III.

Eins og áður segir nýtti ákærði við aðalmeðferð málsins rétt sinn til að gefa ekki skýrslu um sakarefnið, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður nú rakinn framburður vitna fyrir dómi.

Vitnið Þ, íbúi að [...], skýrði frá því að hann hefði heyrt brothljóð í næstu íbúð, á heimili brotaþola, D. Vitnið kvaðst hafa farið í dyragættina og séð ákærða brjóta eldhúsrúðu með gangstéttarhellu. Vitnið hefði spurt hvað væri í gangi og ákærði litið til vitnisins en hann hefði haldið áfram að brjóta rúðuna. Vitnið kvaðst hafa farið inn til sín og hringt á lögreglu og verið með hana í símanum um nokkra stund. Vitnið sagði að það hefði haldið að ákærði hefði hlaupið í burtu og það hefði farið út að beiðni lögreglu og litið í áttina að næstu íbúð. Vitnið hefði heyrt skarkala og áttað sig á því að ákærði hefði farið inn í íbúðina og sagt lögreglunni það. Ákærði hefði svo komið út úr íbúðinni með kött. Vitnið hefði þá farið inn til sín, staðið þar í gættinni og fylgst með ákærða. Lögreglan hafi ennþá verið í símanum. Ákærði hefði svo stoppað fyrir framan íbúð vitnisins, sett köttinn niður og hlaupið inn til vitnisins og ráðist á það með spörkum, höggi og klóri. Vitnið hefði náð að snúa hann niður og haldið honum þar til lögregla kom nokkrum mínútum síðar. Þá greindi vitnið frá því að ákærði hefði verið rólegur þegar hann setti köttinn niður fyrir framan íbúð vitnisins en svo hefði hann skyndilega ráðist á vitnið og verið í tryllingsástandi. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða með hníf. Þá kom fram að gangstéttar­hellur hefðu legið fyrir utan íbúð brotaþola. Jafnframt kom fram að ákærði hefði verið með klút fyrir andlitinu.

Vitnið Æ varðstjóri kvaðst hafa verið að sinna útkalli vegna innbrots í [...]skóla, ásamt Ö lögreglumanni, þegar tilkynning barst um innbrot í íbúð skammt frá, að [...]. Um ástand ákærða sagði vitnið að hann hefði verið mjög æstur og hann hefði verið alveg óviðræðuhæfur. Það hefði ekkert verið hægt að tjónka við ákærða. Skömmu síðar hefði komið önnur lögreglubifreið og það hafi verið ákveðið að flytja ákærða strax á lögreglustöð. Fram kom að gangstéttarhellur hefðu legið fyrir framan gluggann sem var brotinn og að þær hefðu líklega verið þar áður. Vitnið kvaðst ekki hafa komið að flutningi ákærða á lögreglustöð.

Vitnið Ö lögreglumaður skýrði frá því að þegar það kom á vettvang að [...] hafi íbúi þar haldið ákærða sem hafi verið mjög æstur. Þegar ákærði hafi verið tekinn tökum og handjárnaður hafi hann róast aðeins niður. Tveir lögreglumenn hefðu svo komið og flutt ákærða á brott. Vitnið kvaðst hafa fylgt þeim að lögreglubifreiðinni sem lögreglumennirnir tveir komu á og þá hafi ákærði æst aftur. Spurt hvort ákærði hafi verið í sturlunarástandi kvaðst vitnið ekki geta gert sér grein fyrir því hvort hann hafi verið í þannig ástandi en hann hafi verið mjög æstur. Vitnið var innt eftir því hvort ákærða hefði verið kynnt réttarstaða sakbornings þegar hann var handtekinn og settur inn í lögreglubifreiðina og svaraði vitnið: „Það getur vel verið ég bara man ekki eftir því.“ Spurt hvort það væri almennt gert sagði vitnið að það væri almennt gert en það færi eftir því hvort menn væru í slæmu ástandi og þá væri það kannski látið vera, ef menn geri sér ef til vill ekki grein fyrir því hvað verið sé að segja við þá. Vitnið var þessu næst spurt hvort það teldi að svo hefði verið með ákærða og svaraði vitnið að það gæti vel hafa verið.

Vitnið Á lögreglumaður kvaðst hafa komið að málinu þegar búið var að handtaka ákærða. Vitnið hefði flutt ákærða á lögreglustöð. Um ástand ákærða sagði vitnið að hann hefði verið æstur og talað um það að hann hafi ætlað að ganga frá stúlku sem bjó að [...]. Ákærði hafi verið kominn í handjárn þegar vitnið kom á vettvang og vitnið hefði farið mjög fljótlega með hann út í lögreglubifreið. Þar hefði ákærði talað um að hann hafi ætlað að drepa umrædda stúlku. Kveikt hafi verið á eyewitness-búnaði í lögreglubifreiðinni. Þegar komið hafi verið á lögreglustöð hafi rannsakandi verið kallaður til og ákærði farið á Stuðla. Vitnið minnti að hnífur hefði fundist á ákærða þegar leitað var á honum á lögreglustöð. Þá var vitnið spurt hvort búið hafi verið að kynna ákærða réttarstöðu sakbornings þegar hann tjáði sig í lögreglubifreiðinni og sagði vitnið að það minnti að það hefði kynnt honum réttarstöðuna áður en hann fór inn í lögreglubifreiðina en það hefði ekki verið tekið upp í hljóði og mynd. Einnig var vitnið spurt hvort ákærði hefði verið jafn æstur í lögreglubifreiðinni og þegar vitnið kom á vettvang að [...]. Vitnið sagði að ákærði hefði aðeins verið búinn að róa sig niður í bifreiðinni en „púlsinn ennþá verið eitthvað uppi hjá honum“. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvort ákærði hefði tjáð sig um atvik á lögreglustöðinni. Jafnframt var vitnið spurt hvort það hefði haft skoðun á aldri ákærða þegar vitnið kom fyrst að málinu. Vitnið kvaðst ekki hafa gert það fyrr en hettan hafi verið tekin af ákærða, rétt áður en hann fór inn í lögreglubifreiðina, og vitninu hefði verið brugðið þar sem um ungan mann var að ræða. Spurt hvort vitnið hefði áttað sig á því að það væri ekki allt í lagi með ákærða andlega sagði vitnið að það hefði áttað sig á því að ákærði væri ekki eins og flestir aðrir. Á lögreglustöðinni hefði móðir ákærða svo greint vitninu frá því að ákærði væri einhverfur. Nánar spurt um það hvort ákærða hefði verið kynnt réttarstaða sakbornings áður en hann fór inn í lögreglubifreiðina, þ.e. hvort vitnið minnti það eða hvort það væri fullvisst um það, sagði vitnið að það væri fullvisst um að hafa gert það vegna þess að vinnuregla hjá sér væri sú að þegar það tæki við manni í járnum þá kynnti vitnið honum alltaf aftur réttarstöðuna. Spurt hvort það væri ekki háð ástandi viðkomandi sagði vitnið að það næði sambandi við viðkomandi og kynnti honum réttarstöðuna. Réttarstaða sak­bornings væri svo kynnt honum skriflega við komu á lögreglustöð.

Vitnið Ð rannsóknarlögreglumaður staðfesti skýrslu sem hann ritaði um samtal sem hann átti við ákærða í fangageymslu eftir að hann hafði verið handtekinn. Vitnið sagði að það hefði kynnt sér málin tvö áður en það ræddi við ákærða, þ.e. innbrotið í [...]skóla og atvikið að [...]. Málið hafi horft þannig við vitninu að ákærði hefði brotist inn í [...]skóla og lýst því yfir á eftir að hann hafi gert það til að fá útrás fyrir bræði sína í garð skólans og hann hefði lýst því yfir að hann hefði stungið þar ræstingafólk ef það hefði verið á staðnum. Ákærði hefði svo farið þaðan að [...]. Ákærði hefði lýst því yfir við vitnið að hann hefði farið að [...] til þess að ráða bana stúlku sem hann hafi orðið sundurorða við. Vitnið sagði að þegar hann hafi sagt þetta hafi lögreglan verið búin að kynna honum réttarstöðu sakbornings. Vitnið kvaðst hafa vitað þegar það ræddi við ákærða að hann væri á mörkum tornæmis og hann væri einhverfur. Það hafi verið mikil reiði og heift í ákærða gagnvart skólakerfinu, en hann hafi orðið fyrir einelti og honum hafi fundist sem hann hafi ekki fengið þau úrræði sem hann hafi þurft á að halda. Spurt af verjanda hvort reiði ákærða hefði beinst að handtökunni sjálfri sagði vitnið að það hefði ekki komið fram í viðræðum vitnisins við ákærða. Fram kom hjá vitninu að lögreglumenn hefðu kynnt vitninu að búið hafi verið að kynna ákærða réttarstöðu sakbornings áður en það ræddi við ákærða. Þegar vitnið var innt nánar eftir því hvað ákærði hefði sagt um hvaða áform hann hafi haft þegar hann fór að [...] sagði vitnið að hann hefði ekki haft nákvæm orð um það og að vitnið myndi ekki hvað hann hefði sagt. Hann hefði hins vegar sagt við lögreglumenn að hann hafi ætlað að drepa stúlkuna og að lögreglumennirnir hefðu greint vitninu frá því. 

Brotaþoli D greindi frá því að hún hefði verið í bekk með ákærða. Spurð hvort hún hefði sagt eða gert eitthvað á hlut ákærða sem honum hafi getað sárnað kvaðst hún ekki vera viss, en honum hafi kannski sárnað við það að hún bað hann um að hætta að ráðast á vin hennar og að hætta að spyrja vinkonu hennar óþægilegra spurninga. Brotaþoli kannaðist ekki við að hafa sagt við ákærða að hún hafi ætlað að tilkynna lögreglu um eitthvað sem ákærði hefði gert. Innt eftir því hvernig brotaþola hefði liðið þegar hún frétti að ákærði hefði brotist inn til hennar greindi brotaþoli frá því að hún hefði verið með kvíðaröskun fyrir atvikið og að kvíðinn hefði versnað eftir atvikið. Hún væri nú komin á lyf. Þá kvaðst brotaþoli vera hrædd eftir atvikið. Fyrst á eftir hafi hún verið með svefntruflanir en það hefði lagast. Þá sagði brotaþoli að hún ætti erfitt með að fara í sund vegna þess að þá þurfi hún að ganga framhjá heimili ákærða.  

Vitnið E, móðir brotaþola, kvaðst ekki þekkja til ákærða. Vitnið sagði að brotaþola hefði liðið illa eftir umrætt atvik og væri ólík sjálfri sér. Hún væri hjá sálfræðingi og tæki þunglyndislyf. Líðan hennar væri að skána en hún væri ennþá óörugg. Þá sagði vitnið að þetta hefði komið niður á tómstundastarfi brotaþola, hún væri lokaðri en hún var, vildi ekki fara út og væri mjög óörugg. Fyrstu vikuna eftir umrætt atvik hefði brotaþoli sofið í svefnherbergi vitnisins. Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði skipt um skóla og það hefði haft jákvæð áhrif á hana, en hún væri ennþá óörugg. Einnig greindi vitnið frá því að þetta hefði verið mikið áfall fyrir sig og það hefði fengið áfallahjálp.

Vitnið É sálfræðingur staðfesti vottorð sem lagt hefur verið fram í málinu, dags. 19. júlí 2013, um líðan brotaþola eftir umrætt atvik. Vitnið greindi frá því að brotaþoli glímdi við áfallastreituröskun. Brotaþoli væri skynsöm og dugleg að vinna í sínum málum en hún upplifi enn einkenni sem hamli hennar daglega lífi. Hún upplifi ótta, varnarleysi, martraðir og hafi ýkt viðbrögð við áreiti. Henni bregði auðveldlega og hún verði auðveldlega hrædd. Hún hafi hugsanir sem hún eigi erfitt með að losna við ef einhver minnir hana á atvikið. Fram kom að brotaþoli taki geðdeyfðarlyf svo henni líði betur. Innt eftir því hverjar batahorfur brotaþola væru sagði vitnið að það væri erfitt að segja til um þær. Áfallastreita geti lagast en svo komið upp aftur og því væri erfitt að segja til um batahorfur. Þá kom fram hjá vitninu að brotaþoli ætti sögu um andlega vanlíðan og að hún hefði leitað til vitnisins í nóvember 2009, en það hefði verið vegna uppeldisaðstæðna.  

IV.

Í ákæru 13. ágúst 2013 er ákærða gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa brotist inn á heimili brotaþola, D, vopnaður hnífi, í því skyni að ráða henni bana, en brotaþoli var ekki heima. Ákærði játar innbrotið en neitar því að hann hafi brotist inn á heimili hennar í því skyni að ráða henni bana.

Um sakfellingu ákærða byggir ákæruvaldið á framburði ákærða við skýrslu­töku hjá lögreglu 29. apríl 2013, þegar hann var yfirheyrður vegna atviks sem greinir í ákæru 17. júlí 2013. Í skýrslutökunni skýrði ákærði frá því að hann hefði brotist inn hjá brotaþola til að „gera henni mein“, vegna þess að hún hefði verið leiðinleg við hann og hann hefði verið reiður út í hana. Spurður nánar um þetta sagði ákærði að hann hafi ætlað að „taka lífið af henni“. Þegar tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 23. júlí 2013 dró hann hins vegar úr þessu og sagði að hann hefði ekki getað klárað það sem hann hafi ætlað sér að gera þennan dag. Hann hefði vitað að þetta væri rangt og of langt gengið. Jafnframt sagði ákærði að hann segði margt þegar hann væri reiður. Þannig hefur ákærði ekki játað skýlaust að um hafi verið að ræða tilraun til manndráps.

Einnig byggir ákæruvaldið á því sem fram kom í samtali ákærða og lögreglumanna þegar hann var fluttur í lögreglubifreið á lögreglustöð. Í vitnisburði Æ varðstjóra kom fram að þegar ákærði var handtekinn á vettvangi að [...] hafi hann verið mjög æstur og alveg óviðræðuhæfur. Þetta kemur einnig fram í frumskýrslu lögreglu. Vitnið Ö lögreglumaður bar einnig um það fyrir dómi að ákærði hefði verið mjög æstur en hann hefði róast aðeins niður eftir að hann var handjárnaður. Einnig kom fram hjá vitninu að það hefði fylgt ákærða að lögreglubifreið, sem hann var svo fluttur í á lögreglustöð, og þá hefði ákærði æst aftur. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að ákærða hefði verið kynnt réttarstaða sakbornings. Jafnframt sagði vitnið að það væri stundum látið ógert þegar menn væru í slæmu ástandi. Vitnið Á lögreglumaður, sem flutti ákærða á lögreglustöð, sagði í fyrstu fyrir dómi að hann myndi ekki eftir því að ákærða hefði verið kynnt réttarstaða sakbornings áður en hann fór inn í lögreglubifreiðina. Vitnið breytti svo framburði sínum og fullyrti að það hefði kynnt ákærða réttarstöðu sakbornings. Við mat á sönnunargildi vitnisburðar Á verður að líta annars vegar til þess að hann samrýmist ekki frumskýrslu og því sem fram kom hjá vitnunum Æ og Ö og hins vegar til þess að ríkissaksóknari hafði til meðferðar mál vegna óviðeigandi ummæla sem vitnið Á viðhafði við ákærða í fangageymslu. Fékk vitnið alvarlegt tiltal hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirra. Samkvæmt öllu framansögðu leikur verulegur vafi á því að ákærða hafi verið kynnt réttarstaða sakbornings við handtöku eða þegar hann var fluttur á lögreglustöð. Þá ber að hafa í huga að ákærði var aðeins 15 ára að aldri, hann er andlega vanheill og hann var í miklu uppnámi, og hann hafði hvorki forráðamann né verjanda viðstaddan. Verður því ekki byggt á því sem ákærði sagði í lögreglu­bifreiðinni. Það sama á við um það sem á að hafa komið fram í viðræðum vitnisins Ð rannsóknarlögreglumanns, enda kvaðst vitnið ekki hafa kynnt honum réttarstöðu sakbornings, forráðamaður eða verjandi var ekki viðstaddur og vitnið mundi í raun ekki hvað ákærði sagði um áform sín gagnvart brotaþola og virtist vitnið byggja á frásögn þeirra sem fluttu ákærða í lögreglubifreiðinni.

Ákæruvaldið reisir sakfellingu ákærða einnig á „dauðalista“ sem ákærði gerði. Sá listi dugar ekki til sakfellingar enda er langur vegur á milli þess að gera slíkan lista og að geta í raun framið manndráp þegar komið er að verknaðarstundu. Tilkynning eða hótun um að svipta einhvern lífi telst ekki tilraun til manndráps og verður mönnum ekki refsað fyrir illar hugsanir einar saman, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1948, bls. 1. Brotaþoli var eins og áður segir ekki heima og reyndi þannig ekki á hvað ákærða gekk í raun til og hvort hann hafi verið fær um að vinna það brot sem honum er gefið að sök. Þótt ákærði hafi rúmum mánuði síðar gerst sekur um tilraun til manndráps, sbr. atvik í ákæru 13. ágúst 2013, er ekki unnt að reisa sakfellingu hér á því, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 316/2013.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag og verður að skýra skynsamlegan vafa ákærða í hag, sbr. 109. gr. sömu laga. Þegar litið er til alls framangreinds er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að axla þessa byrði og að sök verði því ekki felld á ákærða. Verður hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvalds í ákæru 13. ágúst 2013.

Sakhæfi ákærða.

Eins og fram kemur í gögnum málsins og framburði geðlækna og sálfræðinga fyrir dómi á ákærði við djúpstæðan og langvarandi geðrænan vanda að etja. Er álitamál hvort hann er sakhæfur, en það er afdráttarlaust skilyrði refsiábyrgðar. Í 15. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um að eigi skuli refsa þeim mönnum, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum. Þá segir í 16. gr. almennra hegningarlaga að hafi maður sá, sem verkið vann, verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðilegs misþroska eða annarrar truflunar, en þetta ástand hans er ekki á eins háu stigi og 15. gr. getur, skuli aðeins refsa honum fyrir brotið ef ætla má eftir atvikum og eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað, að refsing geti borið árangur.

Vitnið L geðlæknir taldi á mörkunum að skilyrði 15. gr. almennra hegningarlaga ættu við um ákærða en ákvæði 16. gr. sömu laga ætti hins vegar við um hann. Vitnið taldi að ákærði hafi verið algjörlega klár á því sem hann var að gera á verknaðarstundu, hann hafi verið búinn að skipuleggja verknaðinn og vitað muninn á réttu og röngu. Ákærði lýsti því við skýrslutöku hjá lögreglu 29. apríl 2013 að hann hafi verið búinn að hugsa þetta um tíma, hann hafi verið búinn að fela hníf sem hann ætlaði að nota til verksins og hann útbjó grímu fyrir andlit sitt. Þá kvaðst ákærði hafa hikað þegar hann sá stúlkurnar að leik í fjörunni og verið tvístígandi með það hvort hann ætti að framkvæma verkið, en svo hafi hann tekið ákvörðun um að láta verða af því og læðst að þeim. Þegar ákærði réðst svo á brotaþola var atlaga hans ofsafengin. Samkvæmt framansögðu vissi ákærði að það sem hann var að fara að gera var rangt og hann lýsti iðrun yfir því sem hann gerði. Þá kom fram fyrir dómi hjá vitninu O sálfræðingi, sem var dómkvödd sem matsmaður, að ákærði hefði haft einhvern skilning á því að hann hafi verið að gera rangt. Að öllu þessu virtu er að mati dómsins varhugavert að slá því föstu að ákærði hafi verið „alls ófær“ um að stjórna gerðum sínum umrætt sinn, eins og áskilið er í 15. gr. almennra hegningarlaga. Dómurinn telur hins vegar vafalaust að ákvæði 16. gr. sömu laga eigi við um ákærða. Ákærði hefur verið greindur með ódæmigerða einhverfu og samkvæmt prófum sem M sálfræðingur lagði fyrir hann er hann með greindarvísitölu á bilinu 57. Fyrir utan greindarskerðinguna glímir ákærði við fleiri erfiðleika, eins og t.d. þráhyggju, athyglisbrest, ofvirkni o.fl. Lýsti vitnið M því fyrir dómi að þroskalega séð væri ákærði eins og átta eða níu ára gamalt barn, jafnvel yngra. Það sama kom fram í vitnisburði O og P geðlæknis. Eru vitnin L, O og P sammála um að refsing geti ekki borið árangur og að hún gæti verið skaðleg. Þá eru vitnin á einu máli um að ákærði sé hættulegur og að hann þurfi örugga gæslu. Tekur dómurinn undir þetta.

Með vísan til alls framangreinds og 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ákærða eigi gerð refsing fyrir brot sitt samkvæmt ákæru 17. júlí 2013. Hins vegar þykir nauðsynlegt vegna réttaröryggis að gera ráðstafanir til að varna því að háski verði af honum og skal hann því sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á viðeigandi stofnun. Áfrýjun dóms skal ekki fresta framkvæmd öryggisgæslu, sbr. 5. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Bótakröfur og sakarkostnaður.

Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa brotaþola, A, að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Við aðalmeðferð málsins var af hálfu ákærða gerð krafa um að bótakröfu yrði vísað frá dómi þar sem ákærði sé ófjárráða vegna æsku og kröfunni sé ekki beint að forráðamanni hans. Í bótakröfunni sjálfri, dags. 12. júlí 2013, sem send var ríkissaksóknara, er tekið fram að ákærði sé ólögráða og að birta þurfi kröfuna fyrir forráðamanni hans við meðferð málsins. Móðir ákærða mætti í þinghaldi 22. október 2013 og var bótakrafan þá borin undir hana og fengin afstaða hennar til kröfunnar. Að þessu virtu er því hafnað að bótakröfu skuli vísa frá dómi. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og ber hann skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi. Á brotaþoli rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna árásarinnar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Við ákvörðun bóta er til þess að líta að ákærði réðst að brotaþola þar sem hún var úti að leika sér og ætlaði að ráða henni bana. Var atlagan ofsafengin og hættuleg. Brotaþoli er með ör á hálsi eftir verknað ákærða og hefur árásin valdið henni andlegri vanlíðan sem hefur haft áhrif á daglegt líf hennar. Er óvíst hvort hún muni nokkurn tímann jafna sig að fullu. Verður ákærði dæmdur til að greiða henni umkrafðar miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna. Dráttarvextir skulu reiknast frá 22. nóvember 2013, þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir móður ákærða, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.        

Samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að vísa bótakröfu D frá dómi.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er útlagður kostnaður 38.000 krónur vegna læknisvottorðs Landspítala, 132.000 krónur vegna vottorðs M sálfræðings og 507.000 krónur vegna mats L geðlæknis. Á viðbótaryfirliti kemur fram 96.000 króna kostnaður vegna vottorðs N geðlæknis og samtals 1.272.000 krónur vegna matsgerðar O sálfræðings og P geðlæknis. Ber ákærða að greiða þennan kostnað, alls 2.045.000 krónur. Þóknun verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar hrl., þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu verjanda, 1.418.150 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Ferðakostnaður verjanda nemur 38.440 krónum. Í ljósi þess að ákærði hefur verið sýknaður af ákæru 13. ágúst 2013 verður honum gert að greiða í sakarkostnað helming þóknunar verjanda og ferðakostnaðar, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Þá fellur kostnaður vegna þóknunar Þórdísar Bjarnadóttur hrl., sem réttargæslumanns D, á ríkissjóð, en þóknun er ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 188.250 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærða ber hins vegar að greiða í sakarkostnað þóknun lögmannsins, sem réttargæslumanns brotaþola, A. Er þóknun hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 225.900 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveða upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, Kristinn Halldórsson héraðsdómari og Kristinn Tómasson geð- og embættislæknir.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, skal sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og frestar áfrýjun dómsins ekki framkvæmd hennar.

Bótakröfu D er vísað frá dómi.

Ákærði greiði A 2.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. apríl 2013 til 22. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði í sakarkostnað 2.045.000 krónur vegna vottorða og matsgerða. Ákærði greiði í sakarkostnað helming af 1.418.150 króna þóknun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, og ferðakostnaði hans að fjárhæð 38.440 krónur, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Þá greiðist úr ríkissjóði 188.250 króna þóknun Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, sem réttargæslumanns D, en ákærða ber að greiða í sakarkostnað þóknun lögmannsins sem réttargæslumanns brotaþola A, að fjárhæð 225.900 krónur.