Hæstiréttur íslands

Mál nr. 106/2015


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 8. október 2015.

Nr. 106/2015.

Landsbankinn hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Sóltúni 24 ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging.

S ehf. höfðaði mál á hendur L hf. og krafðist viðurkenningar á því að lánssamningur hans og forvera L hf. hefði verið um lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Fram kom að þegar textaskýring lánssamnings tæki ekki af skarið um hvers efnis hann væri, eins og ætti við um umræddan samning, hefði í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Að því virtu að lánið hefði að langstærstum hluta verið greitt út í erlendri mynt og eftirstöðvar þess verið tilgreindar í erlendum fjárhæðum í viðauka sem gerður var við lánssamninginn var talið að um væri að ræða lán í erlendum myntum. Var L hf. því sýknað af kröfu S ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta lýtur að lánssamningi 1. mars 2006 milli Landsbanka Íslands hf. og stefnda um fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 57.000.000 krónur í nánar tilgreindum myntum og hlutföllum. Með aðilum er ágreiningslaust að áfrýjandi hafi með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tekið við öllum réttindum og skyldum samkvæmt þessum samningi af Landsbanka Íslands hf., sem síðar fékk nafnið LBI hf. og er undir slitum. Hinn 3. mars 2011 gerðu aðilar nýjan lánssamning að fjárhæð 76.289.636 krónur. Var andvirðinu ráðstafað til að gera upp fyrri lánssamninginn, en fjárhæðin tók mið af þeim erlendu myntum sem tilgreindar voru í honum. Að öðru leyti er málsatvikum nægjanlega lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því að umræddur samningur 1. mars 2006 hafi verið um lán í íslenskum krónum með gengistryggingu, en það fari í bága við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Áfrýjandi telur aftur á móti að um hafi verið að ræða lögmætt lán í erlendum myntum. Hefur stefndi lögvarða hagsmuni af því að fá úr þessu skorið og er heimilt að leita viðurkenningardóms í þeim efnum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II

Við úrlausn um hvort samningur sé um lögmætt lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu hefur Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þess lánssamnings þar sem lýst er þeirri skuldbindingu sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningur er að þessu leyti, eins og á við um þann samning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti.

Í beiðni stefnda 1. mars 2006 um útborgun vegna umrædds lánssamnings var þess farið á leit að andvirði lánsins yrði ráðstafað til KB banka hf. til að gera upp tvö lán stefnda samkvæmt lánssamningum hans 26. október 2004 við þann banka. Svo sem greinir í héraðsdómi var lánið frá Landsbanka Íslands hf. afgreitt með því að millifæra af fjórum gjaldeyrisreikningum bankans inn á gjaldeyrisreikninga KB banka hf., en óverulegar eftirstöðvar lánsins voru lagðar inn í íslenskum krónum á reikning stefnda. Samkvæmt þessu var lánið að langstærstum hluta greitt út í erlendri mynt og skipti því fé í erlendum gjaldmiðlum um hendur þegar Landsbanki Íslands hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum. Þá voru eftirstöðvar lánsins tilgreindar í erlendum fjárhæðum í viðauka við lánssamninginn 19. janúar 2009, um breytingu á lánstíma. Þótt það breyti því ekki hvernig upphaflega var samið bendir það til að viðhorf samningsaðila hafi verið að lánið hefði verið veitt í erlendum myntum. Skiptir þá ekki máli þótt stefndi hafi heimilað í beiðni um útborgun lánsins að reikningur sinn í íslenskum krónum yrði skuldfærður til greiðslu af láninu. Að öllu þessu virtu verður lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en rétt er að málskostnaður í héraði falli niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnda, Sóltúns 24 ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, en málskostnaður í héraði fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. október sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Sóltúni 24 ehf., Sóltúni 24, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., með stefnu áritaðri um birtingu 3. janúar 2014.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að tengingar skuldbindinga hans samkvæmt lánssamningi við Landsbanka Íslands hf., 1. mars 2006, við gengi erlendra gjaldmiðla séu ógildar í lögskiptum aðila.  Þess er krafist að viðurkennt verði að samningur stefnda við stefnanda feli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu.

                Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Málavextir eru þeir, að hinn 1. mars 2006 gerðu Landsbanki Íslands hf. og stefnandi með sér lánssamning að fjárhæð 57.000.000 króna.  Í aðfaraorðum samningsins segir að hann sé „um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði 57.000.000- Krónur fimmtíuogsjömilljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 10%, CHF 60%, JPY 30%“.  Lánið átti að greiða með 60 mánaðarlegum afborgunum.  Skiptust þær þannig að á 59 gjalddögum greiddist 1/180 hluti lánsfjárhæðarinnar en 121/180 á lokagjalddaga 1. mars 2011.  Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta var 1. apríl 2006.  Vextir lánsins voru ákveðnir breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2% vaxtaálags.  Greiðslustaður var Landsbanki Íslands hf. og óskaði lántaki, stefnandi, eftir að íslenskur bankareikningur hjá bankanum yrði skuldfærður fyrir afborgunum og/eða vöxtum.  Stefnandi kveður að endurgreiðsla lánsins hafi miðast við gengi erlendra gjaldmiðla og farið fram á árunum 2006 til 2011.  Lánssamningurinn var nr. 4603 í kerfi Landsbanka Íslands hf.

                Stefnandi kveður að fyrrgreint lán nr. 4603 hafi verið tekið til að gera upp skuld stefnanda við KB banka hf.  Skuldin var vegna tveggja lánssamninga sem stefnandi og Kaupþing Búnaðarbanki hf. gerðu og voru undirritaðir 26. október 2004.  Samningarnir báru númerin 1963 og 1964 í kerfi KB banka hf.  Stefnandi kveður, að lánin hjá Kaupþing Búnaðarbanka hf. hafi verið tekin til kaupa á Sóltúni 24, Reykjavík.  Lánsfjárhæðin samkvæmt þeim samningum hafi verið lögð inn á íslenskan krónureikning stefnanda hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf.  Stefnandi hafi heimilað Kaupþingi Búnaðarbanka hf. að skuldfæra þann sama reikning fyrir greiðslum afborgana og vaxta, samkvæmt samningunum tveimur.  Lánin hafi þannig bæði verið greidd út og endurgreidd með íslenskum krónum, en afborganir af lánunum hafi tekið mið af gengi erlendra gjaldmiðla.

                Landsbanki Íslands hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningi nr. 4603 með því að greiða lánið út hinn 6. mars 2006, samkvæmt útborgunarbeiðni dagsettri 1. mars 2006.  Í útborgunarbeiðninni var upphaflega tilgreindur sem móttökureikningur lánsfjárins, reikningur 0101-26-22550, sem er íslenskur krónureikningur stefnanda.  Því var síðan breytt og óskað eftir því að lánsféð yrði greitt til KB banka hf.

                Stefndi kveður, að til þess að geta greitt upp lánin hafi LBI óskað eftir því við KB banka hf. að fá sent uppgreiðsluverðmæti lánanna ásamt upplýsingum inn á hvaða reikninga ætti að greiða.  KB banki hafi sent uppgreiðsluverðmæti lánanna.  Fjárhæðirnar hafi allar verið tilgreindar í erlendum myntum sem lánin hafi samanstaðið af og krafist að LBI endurgreiddi lánin í hinum erlendu myntum.  Starfsmaður KB banka hafi sent starfsmanni LBI tölvuskeyti, þar sem fram komi á hvaða gjaldeyrisreikning viðkomandi erlend mynt ætti að leggjast.  Viðmiðunardagsetning á fjárhæð lánanna hafi verið 6. mars 2006 og þann dag hafi LBI greitt upp lánin í samræmi við kröfu KB banka.  Millifært hafi verið af fjórum gjaldeyrisreikningum bankans, 338.458 svissneskir frankar, 15.178.303 japönsk jen, 204.424,80 Bandaríkjadalir og 208.617 evrur.  Eftirstöðvar lánsins, 1.015.811 krónur, hafi verið lagðar inn á tékkareikning stefnanda nr. 22550.  LBI hafi sent stefnanda afrit af þessum millifærslum og hafi hann aldrei gert athugasemdir við efni þeirra.

                Hinn 19. janúar 2009 var gerður viðauki við lánssamninginn.  Lánstíma hans var breytt þannig að eftirstöðvar lánsins bar að endurgreiða með 28 afborgunum á eins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 27 gjalddögunum, hverjum um sig, greiddist 1/48 hluti lánsfjárhæðarinnar og á lokagjalddaga, hinn 1. september 2011, greiddist 121/148 hluti.  Eftirstöðvar lánsins við gerð viðaukans voru tilgreindar 24.836.601 japanskt jen, 559.936,28 svissneskir frankar og 59.483,02 evrur.

                Stefndi kveður að stefnandi hafi fengið sendar tilkynningar um alla gjalddaga lánsins.  Í þeim tilkynningum var skuldbinding stefnanda einungis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta sem lánið samanstóð af.  Stefndi kveður að í framhaldi af greiðslu gjalddagans hafi stefnandi fengið senda kvittun fyrir greiðslunni.  Ítrekun var send 30 dögum eftir gjalddaga, ef ekki var greitt af láninu, og var þar lánsfjárhæðin einungis tilgreind í hinum erlendu myntum.

                Í kjölfar dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán, sem gengið höfðu á árinu 2010, setti Alþingi lög nr. 151/2010.  Lögin tóku gildi 22. desember 2010.  Í lögunum var efnislega mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki skyldu endurútreikna ólögmæt gengistryggð lán, með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 og að sá útreikningur skyldi liggja fyrir innan 60 daga frá gildistöku laganna.

                Í febrúar 2011 sótti stefnandi um að fá að nýta sér það greiðsluúrræði stefnda að fá 25% höfuðstólsleiðréttingu á erlendu láni sínu.  Með úrræðinu var höfuðstóll láns nr. 4603 lækkaður um 25%, en það skilyrði var sett að lánið yrði gert upp með nýju íslensku láni.

                Hinn 3. mars 2011 var gengið frá nýjum lánssamningi milli stefnanda og stefnda.  Samkvæmt honum lánaði bankinn stefnanda 76.289.636 krónur verðtryggðar miðað við vísitölu neysluverðs í febrúar 2011, sem var 366,7 stig.  Lánið var notað til uppgjörs á láni nr. 4603, sem var að stærstum hluta á gjalddaga 1. mars 2011.  Síðara lánið fékk númerið 109947.  Lánið var til 25 ára með jöfnum mánaðarlegum afborgunum.

                Í júní 2011 sendi stefndi stefnanda bréf, þar sem fram kom að stefndi væri að meta niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011, og hvort lán nr. 4603 félli undir dómafordæmi.

                Með bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 12. október 2011, tilkynnti stefndi að það væri mat bankans að fyrrgreint lán nr. 109947 væri erlent lán bundið ólögmætri gengistryggingu.  Eftirstöðvar lánsins voru endurútreiknaðar í samræmi við það sem lög nr. 38/2001, kváðu á um.  Eftirstöðvar lánsins eftir endurútreikning voru 27% lægri en þær höfðu verið fyrir endurútreikning.

                Með bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 25. október 2011, lýsti stefndi yfir því að fyrir mistök hefði lán nr. 109947 verið endurútreiknað.  Endurútreikningurinn var því dreginn til baka og eftirstöðvum lánsins breytt aftur í fyrra horf.  Engin afstaða var hins vegar tekin til þess hvort lán nr. 4603 væri í samræmi við lög, en það lán hafi verið ástæða þess að stefnandi þurfti að taka hið nýja lán.

                Með bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 1. ágúst 2012, lýsti bankinn yfir því að það væri mat hans að lán nr. 4603 félli ekki undir efnisatriði dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.  Lögmaður stefnanda sendi af því tilefni bréf til stefnda, dagsett 20. ágúst 2012, þar sem m.a. var farið ítarlega yfir það hvernig lánssamningur nr. 4603 væri sambærilegur þeim samningi sem um hefði verið fjallað í hæstaréttarmálinu nr. 155/2011.

                Með bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dagsettu 28. ágúst 2012, var vísað til þess að Landsbanki Íslands hf. hefði greitt lán nr. 4603 út að meirihluta í EUR, CHF, JPY og USD.  Þá var m.a. vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 3/2012.

                Óumdeilt er að stefndi tók yfir kröfu á hendur stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 4603 með ákvörðun fjármálaeftirlitsins 7. október 2008.

III

                Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið óheimilt að binda skuldbindingu stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 4603 við gengi erlendra gjaldmiðla.  Samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu sé einungis heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé þegar grundvöllur verðtryggingarinnar sé vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni eða að miðað sé við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi.

                Litið hafi verið svo á að annars konar verðtrygging en ofangreind sé í andstöðu við lög.  Vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að í nefndum lögum hafi falist bann við því að „lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla“.  Reglur laganna um þetta séu ófrávíkjanlegar og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki væri stoð fyrir í lögum.  Í dómnum komi einnig fram með skýrum hætti, að „lán í erlendri mynt falli ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001“.  Í þessu felist að skuldbindingar um greiðslu í erlendri mynt teldust gildar að lögum.

                Hæstiréttur hafi, eftir að þessir dómar gengu, leyst úr því í allmörgum öðrum dómsmálum hvort skuldbindingar í lánasamningum teldust vera í erlendum myntum eða íslenskum krónum og miðaðar við gengi erlendra gjaldmiðla, t.d. í dómum réttarins frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 og 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012.  Í forsendum síðastnefnda dómsins segi m.a.: „Með því að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint var tilgreind í lánssamningnum, var í íslenskum krónum getur engum vafa verið háð að hann tók eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 að binda við gengi erlendra gjaldmiðla.“  Í lánssamningi Landsbanka Íslands hf. og Sóltúns 24 hf., nr. 4603, hafi það verið svo að eina lánsfjárhæðin sem beinlínis hafi verið nefnd hljóði um íslenskar krónur.  Byggir stefnandi á því að vegna þessa verði að líta svo á að skuldbindingar hans samkvæmt samningnum hafi verið í íslenskum krónum og að ekki hafi verið heimilt að miða þær við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Við mat á því hvort lán sé gengistryggt eða það sé í erlendri mynt hafi dómstólar m.a. litið til heitis lánssamnings, tilgreiningar lánsfjárhæðar og vaxta, auk þess sem litið hafi verið til tilhögunar útborgunar lánsfjárhæðarinnar og greiðslu afborgana og vaxta.  Svo sem áður greini sé heiti lánssamnings nr. 4603, sem stefndi hafi gert við stefnanda „ISK 57.000.000,- Lánssamningur“.  Heiti samningsins bendi því til þess að lánið sé veitt í íslenskum krónum.  Lánsfjárhæðin sé tilgreind bæði í heiti samningsins og í aðfaraorðum hans.  Í aðfaraorðum segi m.a. að lánssamningurinn sé um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði 57.000.000 króna.  Í kafla 2.2 í lánssamningi nr. 4603 segi: „Lántaki óskar eftir því að reikningur hans nr. 0101-26-22550 hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgunum og/eða vöxtum.“  Svo sem fram hafi komið sé þetta íslenskur krónureikningur stefnanda.

                Í 3. kafla samningsins sé fjallað um vexti af láninu.  Í kafla 3.1 segi að vextirnir skuli vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,0% vaxtaálags.

                Stefnandi telur það vera sér óviðkomandi á hvaða hátt Landsbanki Íslands hf. og KB banki hf. hafi gert upp skuld stefnanda samkvæmt lánssamningum nr. 1963 og 1964.  Upphaflega hafi staðið til að lán nr. 4603 yrði greitt inn á íslenskan krónureikning stefnanda, en svo hafi verið ákveðið að Landsbanki Íslands hf. greiddi lánsféð beint til KB banka hf.  Svo sem áður hafi komið fram hafi markmið stefnanda með gerð lánssamnings nr. 4603 verið að gera upp lánssamninga nr. 1963 og 1964 hjá KB banka hf. með nýju láni frá Landsbanka Íslands hf.  Hafa verði í huga að stefnandi hafi greitt allar afborganir lána nr. 1963 og 1964 í íslenskum krónum og hugðist upphaflega greiða lánið upp með því að fá lán nr. 4603 lagt inn á íslenskan krónureikning sinn hjá Landsbanka Íslands hf. og greiða síðan upp lán nr. 1963 og 1964, en ákveðið svo til hagræðingar að Landsbanki Íslands hf. greiddi lánið beint til KB banka hf.  Stefnandi hafi aldrei fengið í hendur gjaldeyri, eða hafi hann látið gjaldeyri af hendi vegna neinna ofangreindra lána.  Hafi lánin frá upphafi verið gerð upp í íslenskum krónum en afborganir þeirra verið miðaðar við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Að öllu ofangreindu virtu, með hliðsjón af dómaframkvæmd og gildandi rétti, telur stefnandi ljóst að lánssamningur nr. 4036, á milli Landsbanka Íslands hf. og Sóltúns 24 ehf., hafi verið lán í íslenskum krónum sem hafi á ólögmætan hátt verið bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefndi hafi ekki verið eigandi að lánum nr. 1963 og 1964 heldur KB banki og hafi stefndi því ekki upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að útgreiðslu lánanna eða endurgreiðslu þeirra.  Stefndi sé því ekki réttur aðili til að svara fyrir um þessa samninga og lögmæti þeirra.  Beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, þar sem málatilbúnaður stefnanda byggi á framangreindri málsástæðu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Stefndi byggir á því að fyrrgreind lán hafi verið lán í erlendum myntum líkt og skýrlega komi fram í samningunum.  

                Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að með undirritun á lánssamninginn hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Krafa stefnda á hendur stefnanda sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga.  Lánssamningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, þ.e. útgreiðsla lánsins í erlendum myntum, beri það með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða.  Beri stefnanda að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar.

                Verði ekki fallist á framangreint byggi stefndi á því, að ekki skipti máli við mat á lánssamningi nr. 4603 hvort lánssamningar nr. 1963 og 1964 standist kröfur sem gerðar hafi verið af dómstólum til að lán teljist hafa verið veitt í erlendri mynt.  Fyrir liggi að á þeim tíma sem uppgjörið hafi farið fram hafi báðir aðilar litið svo á að um erlenda lánssamninga væri að ræða og ljóst sé af gögnum málsins að uppgjör lána nr. 1963 og 1964 hafi farið fram í erlendum myntum.

                Stefndi byggir á því, að niðurstaða um það hvort lán af þeim toga sem hér sé um deilt sé í íslenskum krónum eða erlendri mynt ráðist af ákveðnu heildarmati.  Slíkt heildarmat leiði án vafa til þess að skuldbinding samkvæmt láni nr. 4603 teljist vera í erlendum gjaldmiðlum.  Texti lánssamningsins beri með sér að um sé að ræða skuldbindingu í erlendum myntum.

                Fyrir liggi að LBI hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum með því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur og byggir stefndi á því að við mat á eðli skuldbindingarinnar verði að líta til þeirrar staðreyndar.

                Hæstiréttur Íslands hafi staðfest það í dómum sínum, að um erlent lán sé að ræða þegar lántaki fái andvirði lánssamnings greitt út í erlendum myntum.  Skiptir ekki máli hvort LBI hafi greitt hinar erlendu myntir inn á gjaldeyrisreikning í eigu stefnanda eða inn á gjaldeyrisreikning KB banka. 

                Í útborgunarbeiðni stefnanda vegna láns nr. 4603 komi skýrt fram að hann vilji að LBI ráðstafi andvirði lánsins beint til KB banka til uppgreiðslu lána nr. 1963 og 1964.  Ætlun aðila hafi þannig augljóslega verið að eitt erlent lán yrði notað til þess að greiða upp önnur erlend lán.  Þar sem lán KB banka nr. 1963 og 1964 hafi verið í fjórum myntum, evrum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og Bandaríkjadölum, en lán LBI nr. 4603 í þremur myntum, evrum, svissneskum frönkum og japönskum jenum, hafi LBI orðið að selja erlenda mynt og kaupa Bandaríkjadali til þess að geta greitt upp lánin í hinum erlendu  myntum eins og KB banki hafi krafist.

                LBI hafi fengið send uppgreiðsluverðmæti lánanna frá KB banka, sem farið hafi fram á að lánin yrðu endurgreidd í þeim myntum sem þau hafi samanstaðið af.  Í samræmi við það hafi LBI millifært af gjaldeyrisreikningi sínum í svissneskum frönkum, reikningur nr. 0106-38-600900, 338.458 svissneska franka inn á gjaldeyrisreikning KB banka nr.0301-38-608599.  LBI hafi millifært af gjaldeyrisreikningi sínum í bandarískum dollurum, nr. 0106-38-100900, 204.424,80 Bandaríkjadali inn á gjaldeyrisreikning KB banka nr. 0301-38-181718.  Af gjaldeyrisreikningi sínum í japönskum jenum nr. 0106-38-670-900, millifærði LBI 15.178.303 japönsk jen inn á gjaldeyrisreikning KB banka nr. 0301-38-678718 og af gjaldeyrisreikningi sínum í evrum nr. 0106-38-710900 millifærði LBI 208.617,05 evrur inn á gjaldeyrisreikning KB banka nr. 0301-38-718718.  Það sem eftir hafi staðið af lánsfjárhæðinni, 1.015.811 krónur, hafi verið lagt inn á tékkareikning stefnanda nr. 22550.  LBI hafi sent stefnanda afrit af kvittununum fyrir millifærslunum og hafi stefnandi aldrei gert athugasemdir við þær.

                LBI hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningi nr. 4603 í erlendum gjaldmiðlum með því að framkvæma beiðni stefnanda um að greiða upp erlend lán nr. 1963 og 1964 hjá KB banka.

                Samkvæmt grein 2.2 í lánssamningnum hafi stefnandi óskað eftir því að íslenskur tékkareikningur hans yrði skuldfærður fyrir greiðslum af láninu.  Þetta ákvæði verði að skoða með hliðsjón af inngangi samningsins þar sem segi að „Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga“.  Í þessu ákvæði felist að íslenska fjárhæðin sem tekin hafi verið út af reikningnum hafi verið notuð til þess að kaupa hinar erlendu myntir sem þurft hafi til þess að greiða afborganir lánsins.

                Í febrúar 2011 hafi stefnandi nýtt sér það greiðsluúrræði stefnda að óska eftir 25% höfuðstólslækkun á láninu.  Útbúinn hafi verið nýr lánssamningur í íslenskum krónum og hafi andvirði hans verið notað til að greiða upp lánssamning nr. 4603.  Það sé því ljóst að samningur aðila hafi gert ráð fyrir því að stefnandi greiddi lánið til baka í erlendum myntum.

                Stefndi byggir á því að texti lánssamningsins sýni að hann hafi verið í erlendum myntum.  Upphafsorð lánssamningsins kveði á um að um sé að ræða fjölmyntalán í þeim myntum og hlutföllum sem þar greini, þ.e. 10% í evrum, 30% í japönskum jenum og 60% í  svissneskum frönkum.  Svo sem fram komi í samningnum skyldi fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Tekið sé fram að skuldin yrði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta sem tekin hafi verið að láni samkvæmt lánssamningnum.  Engin þörf hefði verið að ákveða slíkan rétt hefði lánið að öllu leyti verið í íslenskum krónum.

                Samkvæmt vaxtaákvæði samningsins sé ljóst að stefnandi hafi fengið erlendar myntir að láni sem borið hafi LIBOR-vexti auk 2% vaxtaálags, sbr. gr. 3.1.  Hefði lánið að öllu leyti verið í íslenskum krónum hefði LBI eðli máls samkvæmt kveðið á um í samningnum að öll lánsfjárhæðin bæri Reibor-vexti enda hafi vextir af lánum í íslenskum krónum aldrei verið skráðir á millibankamarkaði í London, þ.e. LIBOR-vextir.  Í grein 3.4 í samningnum komi fram að við vaxtaútreikning skuli taka mið af þeim vaxtareglum um dagafjölda sem í gildi hafi verið á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma.  Þá sé í grein 5.1 í samningnum settur fyrirvari af hálfu LBI um að ætti hann ekki kost á fjármögnun á lánskjörum sem gerðu honum kleift að endurlána lánsfjárhæðina í sama gjaldmiðli eða á sama vaxtareikningsgrundvelli og gengið hafi verið út frá við samningsgerðina skyldi hann tilkynna stefnanda það með 10 daga fyrirvara og bjóða honum önnur lánskjör.

                Í 4. gr. lánssamningsins sé síðan að finna myntbreytingarheimild en með henni hafi stefnanda verið veitt heimild til að óska eftir að myntsamsetningu lánsins yrði breytt. Heimildin hafi hins vegar einskorðast við erlendar myntir, sem staðið hafi til boða hjá LBI og síðar stefnda og skýr fyrirvari sé í ákvæðinu um aðgengi LBI að hinum erlendu myntum.

                Í grein 7.1 sé kveðið á um að standi stefnandi ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.  LBI hafi haft um það val hvort krafist væri dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.  Augljóst sé að slíkt vanefndarákvæði þyrfti ekki ef lánið væri að öllu leyti í íslenskum krónum.

                Í gr. 11.2 í samningnum komi fram að ef samningnum yrði sagt upp væri stefnda heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur miðað við sölugengi stefnda á þeim myntum sem hver lánshluti samanstæði af.

                Þá sé fyrirvari í 14. gr. samningsins um að ef stefnda yrði ómögulegt að afla lánsfjár erlendis til fjármögnunar lánssamningsins á sambærilegum kjörum og gengið væri út frá við gerð hans gæti stefndi gjaldfellt eftirstöðvar samningsins.

                Stefndi byggir á því að tilgreining á lánsfjárhæðinni í síðari skjölum vegna lánsins bendi til þess að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.  LBI hafi millifært erlendar myntir af gjaldeyrisreikningum sínum inn á gjaldeyrisreikninga KB banka við uppgreiðslu lánanna, eins og áður sé lýst.

                Tilkynningar um gjalddaga beri með sér að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.  Þannig hafi höfuðstóll lánsins, fyrir og eftir greiðslu, ásamt fjárhæð afborgunar og vaxta, ávallt verið tilgreindur í erlendum myntum.  Kvittanir fyrir greiðslum afborgana og vaxta beri einnig með sér að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.  Þær sýni þannig höfuðstól fyrir og eftir greiðslu og hversu há fjárhæð í erlendum myntum hafi verið greidd í afborgun annars vegar og vexti hins vegar.

                Þá beri ítrekanir vegna vangreiddra gjalddaga með sér að um hafi verið að ræða erlent lán í erlendum myntum, en bæði höfuðstóll lánsins fyrir og eftir greiðslu, sem og fjárhæð afborgunar og vaxta, hafi þar verið tilgreind í erlendum myntum.

                Tilkynningar um vanskil beri og með sér að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum, en þar hafi allar fjárhæðir verið tilgreindar í erlendum myntum.

                Í viðauka, eða skilmálabreytingu, við lánssamninginn séu eftirstöðvar lánsins eingöngu tilgreindar í hinum erlendu myntum og hvergi minnst á íslenskar krónur.

                Tilgreining á jafnvirði heildarskuldarinnar í íslenskum krónum í lánssamningnum hafi ekki þau áhrif að lánið teljist vera ólögmætt gengistryggt lán enda skuldbindingin í öllum öðrum skjölum, sem séu hluti lánssamningsins, tilgreind með hinum erlendu myntum.

                Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.

V

Í máli þessu er krafist viðurkenningar á því að lánssamningur sem stefnandi og Landsbanki Íslands hf. gerðu með sér 1. mars 2006, sé um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Byggir stefnandi á því að lán samkvæmt lánssamningnum sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla en slík gengistrygging sé ólögmæt, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og þar af leiðandi ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.

Fram kemur í gögnum málsins og málatilbúnaði aðila, að stefndi hugðist endurreikna umdeilt lán í samræmi við það að um gengistryggt íslenskt lán væri að ræða, en síðar var horfið frá því.

                Ákvæðum umdeilds samnings er lýst hér að framan.  Á forsíðu samningsins stóð: „ISK 57.000.000 Lánssamningur“.  Í upphafi hans sagði að samningurinn væri gerður „um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 57.000.000...í neðanskráðum myntum og hlutföllum“.  Síðan voru tilgreindir gjaldmiðlarnir þrír og hlutföll þeirra og kveðið á um að fjárhæð hvers þeirra yrði ekki ákveðin fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins, en skuldin yrði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Eina tilgreining lánsins í samningnum var samkvæmt þessu í íslenskum krónum.  Hvergi var getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins.  Fjárhæð lánsins var þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum.  Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, m.a. í máli nr. 155/2011, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, meðal annars eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. 

Sama dag og umdeildur lánssamningur var gerður undirritaði stefnandi beiðni um útborgun lánsins, þar sem fram kemur að hann óskaði eftir að lánið yrði greitt til KB banka.  Óumdeilt er að útborgunarfjárhæð lánsins var ráðstafað til greiðslu á eldri lánum stefnanda hjá KB banka og eru þeir lánssamningar efnislega sambærilegir umdeildum lánssamningi.  Samkvæmt þeim lánssamningum skyldi fjárhæð lánanna lögð inn á íslenskan reikning stefnanda og sami reikningur skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og vaxta.  Báðir samningsaðilar skyldu því efna meginskyldur sínar samkvæmt samningunum með greiðslum í íslenskum krónum.  Verður því að líta svo á að stefnandi hafi með útborgunarbeiðni sinni óskað eftir útborgun lánsins, samkvæmt umdeildum lánssamningi, í íslenskum krónum.  Þá liggur fyrir að stefndi greiddi hluta lánsins inn á reikning stefnanda í íslenskum krónum.  Með því að einu fjárhæðir sem beint eða óbeint voru tilgreindar í lánsamningi voru í íslenskum krónum og að erlendir gjaldmiðlar skiptu í raun aldrei um hendur, verður að líta svo á að umdeilt lán hafi verið í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt stefndi hafi greitt KB banka ýmis konar erlenda gjaldmiðla við uppgreiðslu lána stefnanda hjá KB banka eða tilgreining lánsfjárhæðar í síðari skjölum.

Samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og dómafordæmi Hæstaréttar Íslands er lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil.  Slík verðtrygging er ólögmæt og ógild.  Þar af leiðandi er fallist á dómkröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila, dagsettur 1. mars 2006, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt lögum nr. 38/2001.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að samningur stefnanda, Sóltúns 24 ehf., og stefnda, Landsbanka Íslands hf., dagsettur 1. mars 2006, feli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og að tenging skuldbindinga hans samkvæmt lánssamningnum við gengi erlendra gjaldmiðla eru ógild í lögskiptum aðila. 

Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Sóltúni 24 ehf., 500.000 krónur í málskostnað.