Hæstiréttur íslands

Mál nr. 349/2015

Þórarinn Kristinsson (Kristján Stefánsson hrl.)
gegn
Herði Jónssyni (Baldvin Björn Haraldsson hrl.)  og Hörður Jónsson gegn Kristni G. Þórarinssyni (Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)  og Þórarni Kristinssyni 

Lykilorð

  • Víxill
  • Frávísunarkröfu hafnað

Reifun

H höfðaði mál gegn K, en til vara Þ, til heimtu skuldar samkvæmt tryggingarvíxli. Hafði víxillinn verið samþykkur af K með árituninni „e.u.“ en greiðandi hans var tilgreindur Þ. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Þ og K hefðu skilað sameiginlegri greinargerð í héraði en þar hefði þeim málsgrundvelli aðalkröfu H, að K hefði skort umboð til að samþykkja víxilinn í umboði Þ, ekki verið mótmælt. Væri sú afstaða sérstaklega áréttuð í greinargerð Þ fyrir Hæstarétti. Að því virtu var talið ósannað að K hefði haft umboð Þ til þess að samþykkja víxilinn. Væri hann því sjálfur skuldbundinn sem samþykkjandi hans samkvæmt 8. gr. víxillaga nr. 93/1933. Var K því gert að greiða H nánar tilgreinda fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. maí 2015. Hann krefst krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi gagnvart aðaláfrýjanda upphaflega 29. júlí 2015. Ekki varð að fyrirhugaðri þingfestingu málsins 26. ágúst 2015 og áfrýjaði hann öðru sinni 21. september sama ár. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi gagnvart stefnda Kristni 9. september 2015 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að stefnda, en til vara aðaláfrýjanda, verði gert að greiða sér 80.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2012 til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um greiðsluskyldu á tryggingarvíxli, útgefnum 5. október 2012 og með gjalddaga 10. október sama ár. Af hálfu aðaláfrýjanda og stefnda er á því byggt að vísa beri málinu frá dómi þar sem að skjalið sem um ræðir uppfylli ekki formskilyrði víxillaga nr. 93/1933. Skjalið geti því ekki talist víxill í skilningi laganna og verði mál á grundvelli þess ekki rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Umræddur víxill er tilkominn vegna fasteignaviðskipta Jag ehf. í Danmörku en aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi voru hluthafar í félaginu ásamt fleirum. Í málinu liggur fyrir samkomulag hluthafa félagsins 21. ágúst 2007 um ábyrgð þeirra og útgáfu tryggingarvíxla vegna lántöku félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. í tengslum við viðskiptin. Óumdeilt er að umræddur víxill var samþykktur af stefnda Kristni með árituninni „e.u.“ Af hálfu aðaláfrýjanda og stefnda er á því byggt að skjalið hafi ekki verið útfyllt að öðru leyti þegar það var afhent en gagnáfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að skjalið hafi verið útfyllt um fjárhæð, greiðanda og samþykkjanda. Hafi víxillinn síðar verið útfylltur um útgáfustað, útgáfudag, gjalddaga og útgefanda af gagnáfrýjanda og lögmanni hans.

Í ritun samþykkis á víxileyðublaðið fólst heimild, í samræmi við fyrrgreint samkomulag hluthafa í Jag ehf., til þess að víxilinn yrði fylltur út að öðru leyti. Eins og skjalið liggur fyrir fullnægir það formskilyrðum 1. gr. víxillaga. Hefur það því víxilgildi og er gagnáfrýjanda heimilt að neyta víxilréttar samkvæmt því. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfum aðaláfrýjanda og stefnda um frávísun málsins frá héraðsdómi.

II

 Málið er rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 og koma því ekki til álita aðrar varnir en þær sem getið er í 118. gr. laganna. Af hálfu aðaláfrýjanda og stefnda er ekki á því byggt að undirskrift á víxilinn sé fölsuð eða efni hans falsað, sbr. c. lið 1. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar. Mótbára þess efnis að víxill sé fylltur út á annan veg en um hafi verið samið við upphaflega áritun um samþykki hans er ekki meðal þeirra varna sem getið er í 118. gr. laga nr. 91/1991 og fær því því ekki komist að í málinu.

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi höfðaði gagnáfrýjandi mál á hendur aðaláfrýjanda 10. september 2013 á grundvelli umrædds víxils. Aðaláfrýjandi tók til varna í því máli og mun þá hafa byggt á því að stefndi hafi ekki haft umboð til þess að samþykkja víxilinn fyrir sína hönd. Vegna þessa felldi gagnáfrýjandi málið niður og höfðaði þess í stað mál þetta þar sem hann beinir aðallega kröfu sinni að stefnda á grundvelli 8. gr. víxillaga en til vara, verði stefndi sýknaður, að aðaláfrýjanda. Aðaláfrýjandi og stefndi skiluðu sameiginlegri greinargerð í héraði en þar er þeim málsgrundvelli aðalkröfu gagnáfrýjanda, að stefnda hafi skort umboð til þess að samþykkja víxilinn í umboði aðaláfrýjanda, ekki mótmælt. Er sú afstaða sérstaklega áréttuð í greinargerð aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti. Að þessu virtu telst ósannað að stefndi hafi haft umboð aðaláfrýjanda til þess að samþykkja þann víxil sem um ræðir. Er stefndi því sjálfur skuldbundinn sem samþykkjandi víxilsins samkvæmt 8. gr. víxillaga.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er ekki fallist á að víxilréttur hafi glatast fyrir fyrningu eða tómlæti.

Að öllu framangreindu virtu verður stefndi dæmdur til þess að greiða gagnáfrýjanda 80.000.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Að öðru leyti fellur málskostnaður milli aðila niður.

Dómsorð:

Stefndi, Kristinn G. Þórarinsson, greiði gagnáfrýjanda, Herði Jónssyni, 80.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2012 til greiðsludags.

Stefndi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2015.

Mál þetta var höfðað 27. desember 2013 og dómtekið 30. janúar 2015. Stefnandi er Hörður Jónsson, til heimilis að Gnitaheiði 3 í Kópavogi, aðalstefndi er Kristinn G. Þórarinsson, Bakkastöðum 17 í Reykjavík, og varastefndi er Þórarinn Kristinsson, Depluhólum 7 í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda víxilskuld að fjárhæð 80.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. nóvember 2012 til greiðsludags. Verði aðalstefndi sýknaður er kröfunni til vara beint að varastefnda. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, til vara krefjast stefndu hvor um sig lækkunar á dómkröfum stefnanda og að krafan beri ekki vexti fyrr en frá og með dómsuppsögudegi, en ella frá þingfestingardegi.

Þá krefst varastefndi þess að öllum kröfum stefnanda verði skuldajafnað við niðurstöðu dóms í máli H-44-11 sem kveðinn var upp 22. október 2013 í Sø- og handelsretten í Kaupmannahöfn. Loks krefjast stefndu málskostnaðar.

I.

Málavextir

Árið 2007 hlaut félagið Jag ehf. lánafyrirgreiðslu að fjárhæð 72.600.000 danskar krónur í formi yfirdráttarheimildar hjá Landsbanka Íslands hf. Var fyrirgreiðslan notuð til fasteignakaupa í Kaupmannahöfn.

Hinn 21. ágúst sama ár gerðu hluthafar í Jag ehf. með sér samkomulag. Þar er vísað til lánafyrirgreiðslunnar hjá Landsbanka Íslands og sagt að allir hluthafar hafi skrifa undir ábyrgð sameiginlega (in solidum) „til þess að lánið gangi eftir.“ Þá segir að undirritaðir séu „allir sammála því að komi til þess að bankinn þurfi að ganga á einstaka hluthafa vegna ábyrgðarinnar þá munu aðrir hluthafar tryggja greiðslu á sínum hlut til þeirra sem bankinn krefur um greiðslu“. Undir samkomulagið rituðu sex aðilar: stefnandi, Arnar Sölvason, Árni Jóhannesson, Gunnar Jóhann Birgisson, Jón G. Sandholt og loks skrifaði aðalstefndi undir samkomulagið fyrir hönd varastefnda.

Í samkomulaginu segir enn fremur að aðilar skuli skrifa undir tryggingarvíxla sem geymdir verði í vörslu Gunnar Jóhanns Birgissonar lögmanns.

Greiðslufall varð hjá Jag ehf. og 30. júlí 2012 greiddi stefnandi Landsbankanum 120.000.000 íslenskra króna vegna áðurnefndrar sjálfskuldarábyrgðar. Samkvæmt samkomulaginu lofaði Landsbankinn að gera ekki frekari kröfur á hendur stefnanda eða öðrum sjálfskuldarábyrgðaraðilum vegna ábyrgðarkröfunnar.

Með bréfi, sem barst á heimili varastefnda 10. október 2012, tilkynnti stefnandi honum að víxill að fjárhæð 40.000.000 kr. væri til sýningar og greiðslu hjá Landsbankanum hf. frá og með 10. október 2012 til og með 12. október 2012. Var skorað á varastefnda að greiða umrædda skuld. Aðalstefnda var einnig send samhljóða tilkynning og barst hún á heimili hans 9. október 2012. Hvorki aðalstefndi né varastefndi greiddi kröfuna.

Hinn 10. september 2013 höfðaði stefnandi mál á hendur varastefnda í þessu máli vegna víxilskuldarinnar. Stefndi í því máli hélt uppi vörnum og byggði m.a. á því að Kristinn, aðalstefndi í þessu máli, hefði ekki haft umboð til að samþykkja víxilinn fyrir sína hönd. Stefnandi felldi þá málið niður og höfðaði það mál sem nú er til úrlausnar.

Sá víxill sem um er deilt í málinu er hefðbundið víxileyðublað frá Landsbankanum sem hefur verið fyllt út að öllu leyti en auk þess er ritað á það „Tryggingarvíxill v Jag ehf.“. Var kröfu stefndu um frávísun því hafnað á þeim grunni að þar sem skjalið fullnægði öllum formskilyrðum 1. gr. víxillaga nr. 93/1933 hefði það víxilgildi sbr. 2. gr. laganna.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á varastefnda á því að varastefndi sé greiðandi víxilsins og hafi aðalstefndi ritað nafn sitt sem samþykkjandi eftir umboði.

Þá byggir stefnandi kröfu sína á aðalstefnda á því að hafi hann ekki haft umboð til að samþykkja víxilinn fyrir hönd varastefnda sé hann sjálfur skuldbundinn til að greiða víxilskuldina, sbr. 8. gr. víxillaga nr. 93/1933.

Stefnandi segir að um tryggingarvíxilinn og greiðsluskyldu á honum sé byggt á víxillögum nr. 93/1933 og sé málið rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Séu stefnanda ekki heimilar aðrar varnir en þær sem rúmist innan framangreinds kafla.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndu byggja á því að víxileyðublaðið hafi verið afhent með nafni aðalstefnda og með áritun eftir umboði. Allar aðrar áritanir, svo sem nafn greiðanda, dagsetningar og fjárhæðir, séu frá öðrum komnar án vitundar og samþykkis stefndu.

Aðalstefndi, Kristinn, byggir á því að hann hafi mætt á fundi Jag ehf. í ágúst 2008 vegna varastefnda, Þórarins. Aðstandendum félagsins hafi öllum verið kunnugt um að aðalstefndi væri ekki hluthafi í Jag ehf. og öllum hafi verið ljóst að aðalstefndi hafi ekki ætlað að skuldbinda sjálfan sig þegar hann áritaði samþykki á skjalið með nafni sínu og árituninni „E.u.“. Það sé því ekki heiðarlegt að beina kröfum að aðalstefnda.

Stefndu byggja á því að um eyðuvíxil sé að ræða, sbr. 10. gr. víxillaga. Séu þeim því heimilar varnir sem snúa að grandsemi víxilhafa um að víxillinn hafi verið fylltur út á annan veg en um hafði verið samið.

Þá halda stefndu því fram að aðferðir stefnanda við að halda fram rétti samkvæmt eyðuvíxli séu ólögmætar og telja þeir að varnir sem lúta að því komist að á grundvelli 2. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndu vísa til þess að handhöfn og meðferð stefnanda á víxileyðublaði hafi verið honum óheimil enda ekki í samræmi við samkomulag aðila. Samkvæmt samningi stefnanda við Landsbankann hafi stefnandi greitt 120.000.000 kr. vegna ábyrgðar fyrir Jag ehf. Stefnandi geti ekki krafið stefndu um hærri hlut en sem nemi 1/6 af þeirri ábyrgð sem hann hafi svarað.

Þá krefjast stefndu sýknu á grundvelli fyrningar ábyrgðaryfirlýsinga og tómlætis stefnanda við að hafa kröfurnar uppi.

Loks byggir varastefndi kröfu sína um skuldajöfnuð á því að hann og nokkrir aðrir aðilar hafi með dómi Sø- og handelsretten í Kaupmannahöfn verið dæmdir til að greiða óskipt 50.652.000 danskar krónur með dráttarvöxtum. Skuld þessi nemi um það bil tveimur milljörðum íslenskra króna og beri stefnandi ábyrgð samkvæmt samkomulagi á 1/6 þeirrar fjárhæðar gagnvart öðrum samkomulagsaðilum. Varastefndi hafi því uppi kröfur um skuldajöfnuð á grundvelli 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála gegn öllum kröfum stefnanda.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu er til úrlausnar hvort aðalstefnda eða varastefnda beri skylda til að greiða hinn umdeilda víxil og hins vegar hvort víxillinn hafi verið fylltur út á annan veg en um var samið, sbr. 10. gr. víxillaga nr. 93/1933. Hafi svo verið kemur til skoðunar hvort sú mótbára komist að í málinu, sem rekið er eftir ákvæðum XVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Krafa stefnanda á hendur aðalstefnda byggir á þeirri málsástæðu að hafi hann ritað samþykki hins umdeilda víxils án þess að hafa til þess umboð beri hann ábyrgð á víxlinum samkvæmt 8. gr. víxillaga nr. 93/1993.

Framburður stefndu fyrir dómi var samhljóða um að aðalstefndi hefði ekki haft umboð varastefnda til að samþykkja víxilinn. Í sameiginlegri greinargerð stefndu er þeirri málsástæðu þó ekki teflt fram. Þvert á móti segir að aðalstefndi hafi ritað samþykki á skjalið með nafni sínu og árituninni „e.u.“, það er „eftir umboði“.

Óumdeilt er að víxillinn var samþykktur í beinum tengslum við hluthafasamkomulag Jag ehf., þar sem aðalstefndi mætti vegna varastefnda og ritaði undir samkomulagið fyrir hönd hans eftir umboði. Þegar til þessa er litið svo og að stefndu byggðu ekki á þeirri málsástæðu í greinargerð sinni að aðalstefnda hafi skort umboð til að samþykkja víxilinn, telur dómurinn sannað að aðalstefndi hafi samþykkt víxilinn í umboði varastefnda. Þar sem stefnandi byggir greiðsluskyldu aðalstefnda ekki á öðrum málsástæðum en umboðsskorti hans ber samkvæmt framansögðu að sýkna aðalstefnda í málinu.

Kemur þá til skoðunar skylda varastefnda til að greiða hinn umdeilda víxil.

Í máli lögmanns stefnanda fyrir dómi kom fram að þegar víxillinn var samþykktur hefði hann verið fylltur út fyrir utan það að útgáfudag, útgáfustað, útgefanda og gjalddaga vantaði. Var að skilja á málflutningi hans að fjárhæð víxilsins, 80 milljónir króna, hefði verið færð inn á víxilinn áður en hann var samþykktur. Framburður aðalstefnda fyrir dómi var hins vegar þá leið að fjárhæðin hefði ekki verið færð inn þegar hann ritaði nafn sitt á hann. Þessi framburður fær að nokkru stoð í framburði Gunnars Jóhanns Birgissonar, lögmanns og vörslumanns víxilsins, sem bar að hann minntist þess ekki að víxillinn hefði verið fylltur út að öðru leyti en með nafni samþykkjanda þegar hann afhenti hann lögmanni stefnanda. Varastefndi bar hins vegar fyrir dóminum að hann hefði aldrei séð víxilinn fyrr en innheimtuaðgerðir hófust. Þá bar vitnið Atli Björn Þorbjörnsson að hann hefði fyllt út útgáfustað, útgáfudag og greiðsludag. Þegar litið er til framburðar fyrrnefndra aðila og til þess að endanleg fjárhæð ábyrgðar hvers og eins var óljós þegar samkomulag það, sem víxillinum var ætlað að tryggja, var gert, telur dómurinn sannað að víxilfjárhæðin hafi verið færð inn á víxilinn eftir að hann hafði verið samþykktur. Var því um að ræða svonefndan eyðuvíxil í skilningi 10. gr. víxillaga nr. 93/1933.

Þrátt fyrir að varnir, sem komast að í víxilmálum séu takmarkaðar segir í 2. mgr. 118. gr. laganna að í víxilmáli megi stefndi þó meðal annars koma að vörnum sem varða form og efni víxils ef um er að ræða skilyrði til að koma fram víxilrétti eftir víxillögum. Með vísan til þessa ákvæðis kemst að sú vörn stefndu, að víxillinn, sem var eyðuvíxill, hafi verið fylltur út á annan veg en um var samið, sbr. 10. gr. víxillaga nr. 93/1933.

Hinn umdeildi víxill var til tryggingar láni Landsbanka Íslands hf. til Jag ehf. Í samkomulagi hluthafa Jag ehf. frá 21. ágúst 2007, sem stefnandi lagði fram, og óumdeilt er að hinn umdeildi víxill tengist, segir að undirritaðir séu allir sammála um að komi til þess að bankinn þurfi að ganga á einstaka hluthafa vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirrar, sem þeir tóku á sig, þá muni aðrir undirritaðir sex aðilar tryggja greiðslu „á sínum hlut“ til þeirra sem bankinn krefur um greiðslu. Samkvæmt framlögðum gögnum þurfti stefnandi að leggja út 120.000.000 króna vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar. Eftir orðalagi samkomulagsins gat hann því aðeins krafið varastefnda Þórarin um greiðslu 1/6 þeirrar fjárhæðar, eða 20.000.000 króna. Dómurinn telur að í ljósi þess að stefnandi var einn aðila samkomulagsins hafi hann verið grandsamur um þetta atriði. Tilvísanir í málflutningi lögmanns stefnanda til þess að varastefndi hafi átt stærri eignarhlut en aðrir hluthafar, og þannig borið hlutfallslega meiri ábyrgð, styðjast hvorki við framlögð gögn né framburði vitna og koma því ekki til frekari skoðunar.

Stefndu krefjast sýknu á grundvelli fyrningar. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. fyrnast allar kröfur samkvæmt víxlinum á þremur árum frá gjalddaga. Stefnandi krafðist greiðslu víxilsins 10. október 2012 og málið var höfðað 27. desember 2013. Krafa stefnanda var því ekki fyrnd við málshöfðun og ber að hafna þessari málsástæðu.

Þá krefjast stefndu sýknu á grundvelli tómlætis stefnanda. Í júlí 2012 greiddi stefnandi samkvæmt framlögðum gögnum 120.000.000 króna og krafði stefnandi stefndu um greiðslu víxilsins í október 2012. Þá höfðaði stefnandi mál gegn varastefnda í september 2013 en það mál felldi stefnandi niður. Málið var höfðað í núverandi búningi í desember 2013. Ekki er því hægt að fallast á að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar.

Stefndu hafa sérstaklega mótmælt upphafsdegi dráttarvaxta. Af málsatvikum má ráða að gjalddagi víxilsins var ekki fyrir fram ákveðinn í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um upphafsdag dráttarvaxtanna fer því eftir 3. mgr. 5. gr. sömu laga, en þar segir að ef ekki hefur verið samið um gjalddaga kröfu skuli heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi krafði skuldara með réttu um greiðslu. Stefnandi krafði varastefnda um greiðslu með bréfi sem varastefndi tók við 10. október 2012 eins og staðfesting Íslandspósts ber með sér. Með hliðsjón af 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga verða dráttarvextir reiknaðir að liðnum einum mánuði frá þessum degi og verður varastefndi því dæmdur til greiðslu dráttarvaxta frá og með 10. nóvember 2012, eins og krafa stefnanda hljóðar á um.

Varastefndi gerir kröfu um að fá að skuldajafna kröfu sinni á stefnanda sem byggist á niðurstöðu dóms í máli H-44-11, sem kveðinn var upp 22. október 2013 í Sø- og handelsretten í Kaupmannahöfn. Endurrit þess dóms liggur fyrir í málinu í íslenskri þýðingu. Stefnandi í málinu er Landsbanki Luxembourg S.A. en stefndu eru fjórir aðilar: Árni Sölvason, Árni Jóhannesson, Gunnar Jóhann Birgisson auk varastefnda. Útivist varð í málinu og voru stefndu því dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega (in solidum) 50.000.000 danskra króna ásamt dráttarvöxtum. Að mati dómsins eru ekki lagaskilyrði til að hafa uppi þessa kröfu til skuldajöfnunar í málinu. Ber því að hafna henni

Fjárhæðin sem stefnandi mátti samkvæmt framansögðu rita á víxilinn, 20.000.000 króna, rúmast innan dómkröfu stefnanda og verður varastefndi því dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Hjaltested héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Aðalstefndi, Kristinn G. Þórarinsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Harðar Jónssonar.

Varastefndi, Þórarinn Kristinsson, greiði stefnanda 20.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. nóvember 2012 til greiðsludags.

Málskostnaður á milli aðila fellur niður.