Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2002
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Börn
- Gáleysi
- Gjafsókn
- Aðfinnslur
- Sératkvæði
|
|
Miðvikudaginn 19. júní 2002. |
|
Nr. 72/2002. |
Íslenska ríkið(Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Gunnari Jónssyni (Örn Höskuldsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Börn. Gáleysi. Gjafsókn. Aðfinnslur. Sératkvæði.
Sannað þótti að augnskaði sem G varð fyrir hefði orðið við það að svokallaðri krónusprengju hafi verið kastað fyrir framan hann. Ekki var vitað hver kastað hafði sprengjunni. Deilt var um það skilyrði bótaábyrgðar ríkisins samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, að um brot á almennum hegningarlögum hafi verið að ræða. Talið var, að gera yrði ráð fyrir að allir, sem handleika heimatilbúnar sprengjur eins og þessa, mættu vita um hættueiginleika þeirra. Líkamstjón G var talið hafa leitt af refsiverðri háttsemi, sem hvað sem öðru liði félli undir 219. gr. laga nr. 19/1940. Bótaskilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995, sbr. 9. gr., var samkvæmt því fullnægt og var íslenska ríkið dæmt til greiðslu bóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2002. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda en til vara lækkunar þeirra, og að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt fyrir báðum dómstigum.
I.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir slasaðist stefndi á auga 8. maí 1997 er hann var á ferð með félaga sínum á reiðhjóli nærri Grafarvogskirkju. Hann var þá ellefu ára gamall. Kveður hann sprengju hafa verið varpað á götuna fyrir framan þá félaga og hún sprungið með miklum hvelli og hann hlotið augnskaðann við að hlutur úr sprengjunni hafi skotist í auga hans. Reisir hann kröfu sína á því að tjónvaldurinn hafi ekki fundist þrátt fyrir leit lögreglu og beri ríkissjóður ábyrgð á greiðslu bótanna. Héraðsdómur féllst á þessi sjónarmið stefnda andstætt niðurstöðu bótanefndar samkvæmt 13. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, sem tekur ákvörðun um greiðslu slíkra bóta. Stefndi lagði fyrst erindi sitt fyrir nefndina 11. júní 1998, en hún hafnaði því með þeim rökum að ekki yrði slegið föstu á grundvelli fyrirliggjandi gagna að fullnægt væri skilyrðum 1. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu bóta. Stefndi óskaði 23. mars 1999 eftir því að nefndin endurskoðaði afstöðu sína, en hún hafnaði því 19. september 2000 með þeim rökum „að ekki hafi verið leitt í ljós að um hafi verið að ræða slíkan ásetning eða gáleysi af hálfu einhvers ótiltekins aðila að unnt sé að slá því föstu að framið hafi verið refsivert brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940.“
Áfrýjandi telur að atvikið sé enn óupplýst og að héraðsdómur byggi á getgátum. Héraðsdómari hafi á grundvelli framburðar augnlæknis talið líklegt að sprengja hafi sprungið í næsta nágrenni við stefnda og málmhlutur hrokkið í auga hans. Af þessu dragi dómarinn síðan þær ályktanir að um brot á almennum hegningarlögum hafi verið að ræða og þar með sé bótaskylda fyrir hendi samkvæmt lögum nr. 69/1995. Áfrýjandi telur þessa niðurstöðu óviðunandi þar sem forsenda bótaskyldu ríkisins sé að almenn hegningarlög hafi verið brotin og að ekki nægi að líkur séu til þess að svo hafi verið. Þegar litið sé til athugasemda með lagafrumvarpinu sé tekið fram að meginákvæði frumvarpsins séu að ríkið greiði bætur vegna líkamstjóns og miska, sem leiði af broti á almennum hegningarlögum, en ekki sérlögum. Í athugasemdum með 9. gr. sé kveðið á um að þegar ekki sé vitað hver tjónvaldur sé eða hann finnist ekki verði bótanefnd að meta sjálfstætt hvort tjón sé afleiðing af verknaði sem sé refsiverður samkvæmt almennum hegningarlögum. Tekið sé fram að það sé skilyrði bóta að um ásetningsverknað hafi verið að ræða eða refsivert gáleysi, þannig að unnt yrði að refsa tjónvaldi ef hann væri sakhæfur. Bótanefnd hafi metið það sem henni sé í lögunum falið að meta. Þegar litið sé til þessara lögskýringargagna verði að telja að ströng sönnun gildi í þessu tiltekna mati sem í refsimálum, og ágiskanir í slíkum málum nái ekki fram að ganga. Hér verði því að beita þröngri lögskýringu sem í refsimálum almennt.
Áfrýjandi vefengir ekki tölulega kröfu stefnda um bætur fyrir varanlega örorku, varanlegan miska og þjáningar. Varakröfu sína styður hann hins vegar við 7. gr. laga nr. 69/1995, sem hafi að geyma ákvæði um hámark bóta úr ríkissjóði til þolenda afbrota.
II.
Ágreiningur málsaðila snýst um það skilyrði bótaábyrgðar ríkisins samkvæmt lögum nr. 69/1995 að um brot á almennum hegningarlögum sé að ræða, sbr. 1. gr. laganna, en öðrum skilyrðum er fullnægt, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna.
Stefndi kveður að algengt hafi verið á þessum tíma að strákar í hverfinu límdu hvellhettur utan um krónupeninga og byggju þannig til sprengjur sem kastað væri í götuna eða á vegg og þannig sprengdar. Hafi eitt vitni, sem lögreglan ræddi við, munað eftir sprengjukasti þennan dag. Sé því nægilega fram komið að hann hafi slasast við það að sprengju var kastað að honum og að slíkt varði við 218. gr. eða 219. gr. almennra hegningarlaga, enda megi gera ráð fyrir því að þeim, sem það gerði, hefði verið refsað fyrir brot gegn almennum hegningarlögum hefði hann fundist.
Sigríður Alda Sigurkarlsdóttir, sem bjó á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Hverafold 27, bar fyrir héraðsdómi að hún hafi gengið út á svalir eftir að hún heyrði hvellinn og séð stefnda liggja á gangstéttinni beint fyrir neðan. Hún hafi og séð strák, sem stóð við hornið á blokkinni, hlaupa yfir götuna og niður meðfram kirkjunni og hverfa fyrir hornið. Hún kvaðst ekki geta borið kennsl á hann, þetta hafi gerst svo snöggt. Hann hafi hlaupið „eins og raketta niður eftir“ og horfið, hann hafi augsýnilega verið að leggja á flótta.
Gústaf Jökull Finnbogason, félagi stefnda, bar fyrir héraðsdómi að þeir hafi verið að hjóla og síðan heyrt einhvern hvell og hann tekið eftir því að stefndi lá í götunni. Hann hafi litið í kringum sig og séð einhvern fyrir neðan kirkjuna vera að hreyfa sig, „skokka eða hlaupa eða eitthvað.“ Hann bar og að „rosalega margir“ hafi verið með svona krónusprengjur og krakkar verið að leika sér að búa þetta til, og komið með þetta í skólann en þó ekki sprengt inni á skólalóðinni. Skemmtilegt hefði þótt að láta einhverjum bregða með þessu. Sprengjurnar hafi sprungið við högg þannig að nóg hafi verið að kasta þeim í eitthvað og krónan „bara skýst eitthvert“. Hann hafi fundið leifar af límbandi, þar sem stefndi féll, sem bent hafi til að svona sprengja hafi sprungið og lent í auga stefnda.
Guðmundur Viggósson augnlæknir, sem stundaði stefnda, kom fyrir héraðsdóm og bar að brunamerki hafi ekki sést á stefnda, áverkinn hafi virst eins og eftir högg af hraðgengum hlut eins og af teygjubyssuskoti. Honum hafi skilist af stefnda að einhverjir strákar hafi verið að leika þennan leik að búa til svona sprengjur, varpa í stéttir og fá þá hvelli. Læknirinn bar að líklega hafi sprengjan sprungið á götunni og peningurinn kastast upp, enda séu aðskotahlutir inni í svona sprengjum „alveg rosalega öflugir“, og séu rörasprengjur dæmi um það.
III.
Af því sem fram er komið í málinu um tjónsatburðinn er fallist á það með héraðsdómi að meiðsl stefnda hafi orðið við það að svokallaðri krónusprengju hafi verið kastað fyrir framan þá félaga, þar sem þeir hjóluðu, og hún sprungið við að lenda í götunni en peningurinn skotist af afli í auga stefnda. Það er því ljóst að um skaðabótaskylt atvik hefur verið að ræða, en undir það er tekið með héraðsdómi að engin stoð verði fundin fyrir þeirri ályktun að meiðsl stefnda hafi orsakast af óhappatilviki eða saklausum leik barna. Líta beri á atvikið hlutlægt og án hliðsjónar af hugsanlegum refsileysisástæðum þess, sem sekur kynni að reynast.
Stefndi var ekki að taka þátt í leik eða ærslum og átti sér einskis ills von, þegar heimatilbúinni sprengju var varpað að honum. Gera verður ráð fyrir því að allir, sem handleika slíka hluti, unglingar jafnt sem fullorðnir, megi vita um hættueiginleika þeirra. Verður því að fallast á það með héraðsdómi að líkamstjón stefnda hafi leitt af refsiverðri háttsemi, sem hvað sem öðru líður félli undir 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Bótaskilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995, sbr. 9. gr., er því fullnægt og ber að fella umrædda ákvörðun bótanefndar úr gildi. Málinu hefur ekki verið gagnáfrýjað og kemur þá ekki til endurskoðunar úrlausn héraðsdóms um vexti og miskabætur. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest, þó þannig að samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta fari ekki fram úr 2.500.000 krónum, sem er hámark bóta úr ríkissjóði til þolenda afbrota vegna líkamstjóns, sbr. b. lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995.
Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og segir í dómsorði.
Það er aðfinnsluvert, hversu mjög afgreiðsla erindis stefnda dróst fyrir bótanefnd, einkum þegar leitað var endurskoðunar á afstöðu hennar, auk þess sem rökstuðningi nefndarinnar var verulega áfátt.
D ó m s o r ð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta fari ekki fram úr 2.500.000 krónum.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Gunnars Jónssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar
Ég er sammála meirihluta dómenda um kafla I. og II.
Af því sem fram er komið í málinu um tjónsatburðinn er fallist á með héraðsdómi að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því meiðsl stefnda hafi orðið við það að svokallaðri krónusprengju hafi verið kastað nálægt þeim félögum þar sem þeir hjóluðu og hún sprungið við að lenda í götunni en peningurinn skotist af afli í auga stefnda. Af framburði konu þeirrar sem sá til stefnda og félaga hans og pilts sem hljóp af vettvangi verður að telja að tjónvaldurinn hafi verið á þeirra reki. Líta ber á atvikið hlutlægt og án hliðsjónar af hugsanlegum refsileysisástæðum þess sem sekur kynni að reynast.
Þegar virt er hvort verknaður þessi hafi verið brot á almennum hegningarlögum verður að meta allar aðstæður. Í ljós er leitt að algengt var að börn í hverfinu stunduðu þann vafasama leik að búa til þessar einföldu, léttu sprengjur og kasta þeim á hart yfirborð til að láta öðrum bregða við hvellinn. Virðist sem alvarlegt slys hafi ekki af þessu athæfi hlotist fyrr en sá atburður gerðist sem mál þetta fjallar um.
Samkvæmt athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 69/1995 er tilgangur þeirra að styrkja stöðu þolenda afbrota og er meginákvæði frumvarpsins að ríkið greiði bætur vegna líkamstjóns og miska sem leiði af broti á almennum hegningarlögum. Orð í athugasemdum með 9. gr. frumvarpsins, sem rakin eru hér að framan, benda til þess að beita beri þröngri lögskýringu og gera strangar kröfur til sönnunar í þessum tilvikum eins um opinbert mál væri að ræða.
Með þetta í huga verður skoða tilvik það sem mál þetta fjallar um og meta hvort það að kasta krónusprengjunni verði metið brot á 2. mgr. 218. gr. eða 219. gr. almennra hegningarlaga eins og stefndi heldur fram. Af þeim upplýsingum sem fram eru komnar í málinu um sprengjur þessar, gerð þeirra og notkun, má ljóst vera að óvissa hafi ríkt meðal barnanna um skaðann sem þær gætu valdið. Verður því ekki talið að um ásetningsverk geti hafa verið að ræða sem félli undir 218. gr. almennra hegningarlaga.
Til þess að um gáleysisverk væri að ræða hefði tjónvaldur átt að sjá tjónið fyrir sem líklega afleiðingu verknaðar síns. Hér verður enn að horfa til óvissunnar um skaðann, þar sem hending réði hvort tjón hlytist af. Það að peningurinn eða hluti hans þeyttist og ylli skaðanum í auga stefnda verður að telja svo ólíklega afleiðingu þess að krónusprengjunni var varpað að ekki verði talið að verknaðurinn falli undir 219. gr. almennra hegningarlaga.
Vegna þessa er fallist á þá niðurstöðu bótanefndar 19. september 2000 að ekki hafi verið leitt í ljós að um hafi verið að ræða slíkan ásetning eða gáleysi af hálfu ótiltekins tjónvalds að unnt sé að slá því föstu að framið hafi verið refsivert brot á almennum hegningarlögum. Ber því að taka sýknukröfu áfrýjanda til greina.
Ég er sammála meirihluta dómenda um gjafsóknarkostnað og aðfinnslur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2001.
Mál þetta var höfðað 26. mars 2001 af Guðfinnu Jónsdóttur, Fannarfold 143, Reykjavík vegna ófjárráða sonar síns Gunnars Jónssonar, kt. 221185-2349, gegn íslenska ríkinu. Það var dómtekið 8. þ.m. en endurupptekið og dómtekið að nýju 14. þ.m.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 frá 19. október 1998, sem ítrekuð var 19. september 2000, verði felld úr gildi og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 3.390.390 krónur með 2% ársvöxtum frá slysdegi 8. maí 1997 til 11. júní 1998 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en gjafsóknarleyfi var veitt 23. janúar 2001.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara verulegrar lækkunar á þeim. Þess er krafist að málskostnaður verði felldur niður.
I
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík kom Guðfinna Jónsdóttir, Fannarfold 143 á lögreglustöðina í Grafarvogi föstudagsmorguninn 9. maí 1997 og skýrði svo frá að um hádegisbil daginn áður hefði sonur sinn, Gunnar Jónsson, sem þá var á tólfta ári, verið á reiðhjóli ásamt jafnaldra vini sínum, Gústaf Jökli Finnbogasyni. Einhver unglingspiltur hafi komið er þeir voru staddir móts við Hverafold 27 og kastað fyrir framan þá hlut sem hafi sprungið með miklum hvelli með þeim afleiðingum að Gunnar hafi slasast á hægra auga og lægi á barnadeild Landspítala. Gunnar hafi ekki séð piltinn, sem kastaði hlutnum, en Gústaf Jökull hafi séð hann óljóst og lægi því ekki fyrir nein greinargóð lýsing á honum. Sigríður Alda Sigurkarlsdóttir, Hverafold 27, muni hafa aðstoðað Gunnar á vettvangi.
Frammi liggur skýrsla lögreglunnar í Reykjavík sem aðstoðarvarðstjóri í Breiðholtsstöð tók 22. maí 1997 af Gústaf Jökli Finnbogasyni vegna framangreinds. Gústaf Jökull skýrði svo frá að hann og Gunnar Jónsson hafi verið að hjóla austur Hverafold, nánar til tekið fyrir neðan blokkina rétt hjá kirkjunni. Hann hafi hjólað fyrir framan Gunnar og um fimm metrar verið á milli þeirra. Er þeir hafi verið nýbúnir að hjóla af Hverafold inn í Fjörgyn hafi hann heyrt hvell og er hann hafi litið við hafi hann séð Gunnar liggja í götunni, sjáanlega með áverka á auga. Rétt eftir hvellinn, eða u.þ.b. þrjátíu sekúndum síðar, hafi hann séð hreyfingu á einhverjum við kirkjuna skammt frá en ekki séð hver þar var á ferð. Kvaðst hann ekki geta sagt til um hvort þar hafi verið á ferð unglingur eða drengur og því síður um klæðaburð.
Samkvæmt skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, aðalvarðstjóra Breiðholtsstöðvar lögreglunnar í Reykjavík, dags. 5. júní 1997, hafði hann eftir föngum reynt að upplýsa framangreint sprengjumál. Honum hefði verið sagt að piltur á fjórtánda ári, Ó.K.B., hefði sagst hafa kastað sprengjunni í Gunnar umræddan dag. Ó.K.B. og móðir hans hafi verið kölluð til viðtals á lögreglustöðina þar sem pilturinn hafi viðurkennt að hafa verið með sprengjur sem væru útbúnar með því að taka knallettur, ætlaðar í leikfangabyssur, og líma þær saman. Með því að kveikja í þessu kæmi svolítil sprenging. Hann hafi neitað að hafa komið nálægt því að sprengja svona sprengju 8. maí s.á. enda hafi hann verið í sumarbústað þann dag með foreldrum sínum sem móðir hans hafi staðfest. Í skýrslunni kveðst aðalvarðstjórinn hafa heyrt að Ó.K.B. sé mjög oft kennt um ýmis óhappaatvik sem eigi sjaldnast við rök að styðjast. Þá hafi hann haft samband við Áslaugu Grétarsdóttur, Fannarfold 163, sem hefði látið þess getið að hafa séð pilta koma frá Fannarfold 157 og hafi þeir verið að kasta hlutum sem hafi síðan sprungið með miklum hvelli þ. 8. maí 1997. Hún hafi ekki getað sagt til um hver eða hverjir hafi verið þar á ferð en séð til drengja vera með svona sprengjur.
Í skýrslu framangreinds aðalvarðstjóra 16. júní 1997 segir að hann hafi rætt við marga aðila varðandi þetta mál. Í ljós hafi komið að nokkrir krakkar hafi gert sér að leik að líma saman leikfangabyssuhvellhettur og kveikja síðan í þeim sem hafi gefið nokkurn hvell. Ekki hafi fundist neinn eða neinir sem hent hafi áðurnefndri sprengju sem slasaði Gunnar. Hugsanlegt sé að einhver hafi hent þessu upp í lofið án þess að hafa séð eða tekið eftir hvað gerðist og því verði erfitt að upplýsa þetta mál og ekkert á að byggja til að halda rannsókn þess áfram.
Með bréfi lögmanns stefnanda 11. júní 1998 til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 var þess óskað að nefndin tæki afstöðu til bótaskyldu ríkissjóðs á grundvelli lögregluskýrslna sem þá lágu fyrir.
Svarbréf bótanefndar er dagsett 19. október 1998. Þar segir að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að því verði ekki slegið föstu á grundvelli þeirra gagna, sem nefndin hefði undir höndum, að fullnægt væri skilyrðum 1. gr. laga nr. 69/1995 fyrir greiðslu á bótum til Gunnars Jónssonar.
Með bréfi lögmanns stefnanda til lögreglunnar í Reykjavík 27. október 1998 var óskað eftir því að málið yrði tekið til frekari rannsóknar með það að markmiði að óyggjandi upplýsingar fengjust um orsök
Í svarbréfi fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík 5. febrúar 1999, en henni fylgdi upplýsingaskýrsla rannsóknarlögreglumanns vegna málsins dagsett 8. desember 1998, segir að lögreglan í Reykjavík hafi tvisvar reynt að komast að raun um hver og hvað hafi valdið augnskaða Gunnars umrætt sinn. Þannig hafi verið rætt við unglinga í hverfinu, bæði í maí (undanskilið mun vera árið 1997-innskot dómara) og desember á árinu 1998, um það hvort einhver vissi hvort sprengjum hafi verið kastað í Gunnar, en ekki hafi tekist að upplýsa málið. Fram hafi komið að tíðkast hafi meðal unglinganna að vera með knallettur sem væru sprengdar með því að líma þær á krónupeninga og kasta þeim frá sér. Enginn hafi greint frá því að vita um slys það sem Gunnar hafi orðið fyrir.
Það sem hér var sagt samrýmist efni upplýsingaskýrslunnar. Þar kemur fram að slysið hafi orðið á uppstigningardegi. Meðal þess, sem þar er vitnað til, eru viðræður við piltana F.H. og Þ.Ó., sem báðir eru fæddir 1984. F.H. kannaðist við að verið gæti að hann hafi verið með sprengjur um svipað leyti og umrætt slys átti sér stað og þá með Þ. Ó. og hafi þar verið um að ræða afgang frá liðnu gamlárskvöldi. Hann kvaðst ekki muna hvar hann var 8. maí 1997 og vera saklaus af því að hafa skaðað stefnanda en hann hafi heyrt um slysið. Á þessum tíma hafi verið algengt að krakkar límdu hvellhettur á krónupeninga sem síðan hafi verið sprengdar með því að kasta þeim í götuna. Þ.Ó. kvaðst kannast við atvikið af afspurn. Um það leyti hafi hann, eins og algengt hafi verið meðal strákanna í hverfinu, verið að leika sér með knallettur sem hafi verið límdar á krónupeninga og sprengdar með því að kasta þeim í götuna. Hann kvaðst vera saklaus af því að hafa skaðað stefnanda og ekki vita hver hafi gert það. Hann hafi verið heima daginn sem stefnandi slasaðist og muna að þá hafi verið frídagur.
Lögmaður stefnanda skoraði á bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 að endurskoða afstöðu sína til erindis síns með bréfi 23. mars 1999. Í svarbréfi nefndarinnar 19. september 2000 segir að bréf lögreglustjórans í Reykjavík frá 5. febrúar 1999 til lögmannsins og upplýsingaskýrsla lögreglunnar frá 8. desember 1998 varpi ekki frekara ljósi en hin fyrri gögn á aðdraganda þess að umbjóðandi hans slasaðist á auga og að ekki hafi verið leitt í ljós að um hafi verið að ræða slíkan ásetning eða gáleysi af hálfu einhvers ótiltekins aðila að unnt sé að slá því föstu að framið hafi verið refsivert brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Nefndin sjái sér því ekki fært að endurskoða afstöðu sína sem látin hafi verið í té með bréfi hennar frá 19. október 1998.
II
Í áverkavottorði Guðmundar Viggóssonar augnlæknis, dags. 2. október 2000, segir að hann hafi fyrst séð Gunnar Jónsson 8. maí 1997 kl. um 11.30 er hann hafi verið sendur frá slysadeild Borgarspítalans yfir á augndeild Landspítalans vegna áverka á hægra auga. Lítilli heimagerðri sprengju hafi skömmu áður verið kastað eða skotið með teygjubyssu í hægra auga hans. Skotið muni hafa verið gert úr einhverskonar hvellhettum, sem teknar hafi verið úr “party bombum”, vöfðum límbandi og muni krónupeningur hafa verið hafður með í sprengjunni til áhersluauka. Við komu á deildina hafi drengurinn verið með mikið mar í efra augnloki hægra megin ásamt blæðingu í forhólfi augans sem hafi orsakað mikla sjóndepru. Þegar í stað hafi verið hafin hefðbundin augnmarsmeðferð sem hafi falist í rúmlegu með lyfjagjöf til að koma í veg fyrir endurblæðingu. Blóðið hafi horfið á u.þ.b. einni viku og þá hafi komið í ljós að augasteinn hafi laskast á þann veg að tærleiki hans minnkaði smám saman. Við heimferð 15. maí 1997 hafi sjón verið 6/60 og farið versnandi. Þann 28. nóvember s.á. hafi hinn skýjaði augasteinn verið fjarlægður í svæfingu og settur inn gerviaugasteinn. Aðgerðin hafi gengið áfallalaust og drengurinn legið inni á Barnadeild Hringsins Landspítalanum vegna hennar frá 27. nóvember til 1. desember 1997. Í vottorðinu segir að drengurinn hafi eftir þetta þurft að mæta í fjölmargar skoðanir. Síðast hafi læknirinn séð hann 6. október 2000. Sjónskerpa á hægra auga hafi þá mælst 6/9 án glerja en með gleri hafi hann séð tæplega 6/6 með auganu. Þá kemur fram að eins og alvanalegt sé eftir slíkar aðgerðir hafi tekið að gæta þéttingar í afturhýði augasteins nokkrum mánuðum síðar og hafi augnlæknir því framkvæmt aðgerð með laser-geislum 18. mars 1998. “Álit: Ljóst er að Gunnar hefur orðið fyrir miklum augnáverka við þetta slys. Þótt sjón mælist nú furðu góð hefur hann þó misst alla nærstillingu (accommodation) af auganu og getur því ekki séð skýrt nálægt sér öðruvísi en með sérstökum lesgleraugum. Þá er ekki komin nein langtíma reynsla af innri linsum hjá börnum og því möguleiki á margskonar síðkomnum fylgikvillum. Þá er útlit augans síðra en ella. Fullyrða má að Gunnar hafi orðið fyrir varanlegum óafturkræfum skaða á hægra auga við þetta slys þótt að mörgu leyti hafi betur úr ræst en á horfðist í byrjun.”
Atli Þór Ólason dr. med., sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, framkvæmdi mat samkvæmt skaðabótalögum á líkamstjóni Gunnars Jónssonar af völdum umrædds augnslyss og er matsgjörð hans dagsett 11. desember 2000. Í niðurstöðukafla hennar, segir:
- Að varanlegur skaði Gunnars af slysinu 8. maí 997 sé algjör sköddun á hægri augnsteini og þörf á að setja í staðinn gerviaugnstein, ójafn hringur í hægra ljósopi og minnkuð sjónskerpa á hægra auga án sjónglerja, en hægt að ná fullri sjón með glerjum. Tekið sé tillit til “ljósfæli” og aukins tárarennslis. Þá sé tekið tillit til þeirrar óvissu sem fylgi því að setja gerviaugnstein í auga barns. Varanlegur miski sé metinn 18%.
- Við mat á varanlegri örorku sé litið til þess að Gunnar hafi ekki ákveðið endanlega hvað hann hyggist gera þegar hann verði fullorðinn en hann hafi mestan áhuga fyrir því að starfa við tölvur. Hann hafi óþægindi í augum og enni við að sitja lengi við tölvu svo að óvíst sé hvort það starf henti honum. Gera megi ráð fyrir augnþreytu og óþægindum við margvísleg störf sem kunni að draga úr lengd vinnutíma hans og þrengja að starfsmöguleikum hans í framtíðinni. Þess vegna sé varanleg örorka metin 5%.
- Að við mat á þjáningabótum sé tekið tillit til þess að Gunnar hafi verið nær alblindur á hægra auga allt árið 1997 og langt fram á árið 1998 og þurft á síðustu aðgerð að halda í mars 1998. Hann teljist hafa verið rúmliggjandi þann tíma er hann hafi verið inniliggjandi á spítala í maí og nóvember 1997 og síðan batnandi í tólf mánuði frá 1. desember 1997.
III
Krafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
|
Þjáningabætur með rúmlegu 1.590 kr. x 10 dagar Þjáningabætur án rúmlegu 850 kr. x 365 dagar Varanlegur miski 4.880.000 kr. x 18% Varanleg örorka 878.400 kr. x 135% Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga |
15.900 kr.
310.250 kr. 878.400 kr. 1.185.840 kr 1.000.000 kr. |
|
Alls |
3.390.390 kr. |
Stefnandi kveður í ljós leitt að um hafi verið að ræða slíkan ásetning eða gáleysi af hálfu einhvers ótiltekins aðila að verknaðurinn varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Líkamstjón stefnanda sé stórfellt og aðferðin sem beitt var sérstaklega hættuleg og er vísað til skilyrða fyrir greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995.
Það er einnig málsástæða stefnanda að það að ekki hafi þegar verið hafist handa um rannsókn málsins og hversu rannsóknin hafi verið léleg hafi leitt til þess að hinn seki hafi ekki fundist. Fari svo að talið verði að ekki sé um að ræða tilvik, sem uppfylli skilyrði laga nr. 69/1995, sé íslenska ríkið eigi að síður skaðabótaskylt gagnvart stefnanda vegna athafnaleysis lögreglu. Stefnandi telur verulegar líkur á að hinn seki hefði fundist hefði skýrsla verið tekin strax af Sigríði Öldu Sigurkarlsdóttur sem hafi séð atburðinn og hefði þá getað lýst hinum seka og klæðnaði hans.
Kröfuliður samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er studdur með því að meingerð gegn persónu stefnanda hafi verið fólgin í hinni alvarlegu árás á hann.
Dráttarvaxta er krafist frá þeim degi er þess var óskað að bótanefndin tjáði sig um bótaskyldu, þ.e. 11. júní 1998, og eigi stefnandi rétt á dráttarvöxtum fyrir þann tíma sem hann hafi verið dreginn á svari.
Sýknukrafa stefnda er reist á því að ekki hafi verið í ljós leitt að aðdragandi þess að stefnandi slasaðist á auga hafi verið vegna ásetnings eða gáleysis af hálfu einhvers ótilgreinds aðila þannig að unnt sé að slá því föstu að framið hafi verið refsivert brot samkvæmt almennum hegningarlögum. Miklu fremur sé hér um að ræða óhappatilvik, sem hafi ekki verið beint gegn neinum sérstökum, og fremur hluti af leik barna og unglinga í hverfinu, þótt hættulegur kunni að vera, en að beitt hafi verið sérstaklega hættulegri aðferð eða tækjum til að valda öðrum heilsutjóni. Raunar liggi heldur ekki fyrir að tjónvaldur, hafi hann verið ósakhæfur, hafi í umræddu tilviki verið skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.
Varakrafa stefnda er reist á mótmælum gegn kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga með vísun til þess að kröfur um þjáningabætur og varanlegan miska samkvæmt 3. og 4. gr. laganna nemi um 1,2 milljónum króna og verði því ekki um frekari miskabætur að ræða. Kröfunni er einnig mótmælt sem allt of hárri miðað við dómvenju.
Í greinargerð stefnda er ekki að finna rökstudd andmæli gegn þeirri málsástæðu stefnanda að bótaskylda stefnda verði reist á athafnaleysi lögreglunnar.
IV
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi og vitnin Gústaf Jökull Finnbogason og Sigríður Alda Sigurkarlsdóttir. Við endurupptöku málsins bar Guðmundur Viggósson augnlæknir vætti.
Stefnandi lýsti atvikinu svo að hann hefði heyrt hvell og misst meðvitund um leið en rankað við sér í bíl á leið upp á spítala. Hann kvaðst engan hafa séð þar nærri sem hann og Gústaf Jökull Finnbogason voru að hjóla er slysið varð. Frí hafi verið í skólanum og þeir ætlað upp að Elliðavatni til veiða.
Gústaf Jökull Finnbogason kvað umrætt atvik hafa orðið þegar hann og stefnandi hjóluðu á götunni Fjörgyn við Grafarvogskirkju og minnti að hann hefði verið á undan. Hann hafi heyrt hvell og séð stefnanda liggja í götunni. Sagt hafi verið að krónusprengja hefði verið sprengd og hann hafi séð leifar af slíkri á götunni. Á þessum tíma hafi “rosamargir” verið með þær, þær hafi verið í tísku, og mikið sprengt í námunda við skólann. Sprengjurnar séu þannig gerðar að hvellhettum eða knallettum sé vafið um krónupening og límbandi síðan vafið utan um og springi þær við högg. Hann kvaðst ekki hafa séð hver henti en litið í kringum sig og séð einhvern hlaupa eða skokka á göngustíg meðfram kirkjunni. Hann kvað konu í blokk þar hjá hafa komið út á svalir og hafi hún hringt í móður stefnanda.
Sigríður Alda Sigurkarlsdóttir kvaðst hafa farið út svalir íbúðar sinnar á þriðju hæð fjöleignarhússins Logafold 51 og hafi hún séð strák liggja á gangstéttinni. Hún hafi kallað á strák sem var með honum, fengið upp gefið símanúmer og hringt heim til hans. Hún kvaðst hafa séð ungling hlaupa yfir götuna eins og hann væri á flótta og hafi hann horfið snöggt fyrir horn hjá kirkjunni. Hún kvaðst áður hafa farið nokkrum sinnum út á svalirnar og verið búin að taka eftir þessum pilti álengdar og taldi hún mjög líklegt að hann væri sá sem hefði kastað sprengjunni.
Guðmundur Viggósson staðfesti framangreint áverkavottorð. Hann kvað það, sem þar greinir um sprengju, hafa verið eftir frásögn stefnanda og móður hans og kvaðst hann þekkja til slíkra sprengja. Sjálfur hafi hann bætt við því, sem segir um skot með teygjubyssu, enda hafi verið um að ræða töluverðan áverka sem gæti hafa orðið við högg eins og frá teygjubyssu eða við það að einhverju hafi verið kastað í stefnanda. Hann kvað heilahristingseinkenni geta stafað af höggi á auga. Honum var greint frá því sem fram er komið um sprengihvell. Hann kvað engin brunamerki hafa verið á drengnum og gæti peningur hafa skotist upp í augað frá sprengju sem hafi sprungið á götunni.
V
Samkvæmt 13. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota tekur bótanefnd ákvörðun um greiðslu bótanna. Samkvæmt 1. gr. greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna og samkvæmt 9. gr. skal greiða tjónþola bætur þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann sé ósakhæfur eða finnist ekki.
Engum skynsamlegum vafa er undirorpið að meiðsl stefnanda hafi orðið fyrir sprengingu af völdum sprengju þeirrar gerðar sem lýst hefur verið hér að framan, krónusprengju, en það sem fram er komið, einkum um afleiðingar hennar, bendir til þess að hún hafi ekki verið óveruleg. Með vísun til vottorðs og vættis Guðmundar Viggóssonar augnlæknis verður að telja líklegt að nánari tildrög hafi verið þau að sprengja hafi sprungið á götunni og peningur eða annar málmhluti hennar skotist af afli í auga stefnanda.
Meiðsl stefnanda og afleiðingar þeirra voru slík að fellur undir lýsingu 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Engin stoð verður fundin fyrir þeirri ályktun að meiðsl stefnanda hafi orsakast af óhappatilviki eða saklausum leik barna. Líta ber á atvikið hlutlægt og án hliðsjónar af hugsanlegum refsileysisástæðum þess sem sekur kynni að reynast. Gerð sprengjunnar og gálaus meðferð ein og sér fæli í sér refsivert athæfi, sbr. m.a. lög nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni og skotelda, 3. og 4. mgr. 1. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 30. gr. og 34. gr. Til grundvallar verður því lagt að líkamstjón stefnanda hafi leitt af refsiverðri háttsemi; annað hvort af ásetningi, sem þá varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga vegna hættulegrar aðferðar við árásina, eða líkamstjónið hafi hlotist af gáleysi sem varðar refsingu samkvæmt 219. gr. hegningarlaganna þannig að fullnægt sé bótaskilyrði 1. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 69/1995.
Samkvæmt þessu er fallist á kröfu stefnanda um að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 frá 19. október 1998, sem ítrekuð var 19. september 2000, verði felld úr gildi. Fallist er á andmæli stefnda gegn kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga enda hlýtur hún ekki stoð af ákvæðinu eins og það var fyrir breytingu sem gerð var með 13. gr. laga nr. 37/1999. Að öðru leyti verður bótakrafa stefnanda tekin til greina þannig að dæma ber stefnda til að greiða honum 2.390.390 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans 280.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði og eru því ekki efni til að kveða að öðru leyti á um greiðslu stefnda á málskostnaði sem á hann fellur samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 frá 19. október 1998, sem ítrekuð var 19. september 2000, er felld úr gildi.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Guðfinnu Jónsdóttur vegna ófjárráða sonar síns Gunnars Jónssonar, 2.390.390 krónur með 2% ársvöxtum frá 8. maí 1997 til 26. mars 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí s.á. og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans 280.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.