Hæstiréttur íslands
Mál nr. 722/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 28. desember 2010. |
|
|
Nr. 722/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. desember 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. desember 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. janúar 2011 klukkan 15 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. desember 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 10 daga eða til þriðjudagsins 4. janúar 2011 kl. 15:00. Jafnframt er þess krafist að X verði samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær hinn 24. desember klukkan 11:41 hafi lögreglu borist tilkynning um það að skotið hefði verið tveim skotum úr byssu við hús númer [...] við [...] í Reykjavík. Tilkynnandi hafi sagt að fjórir menn sem væru utan við húsið hefðu brotið rúðu í hurð og síðan skotið af tveim skotum í hurðina eða í gegnum rúðuna inn í húsið.
Er lögregla hafi komið á vettvang hafi fjórir menn hlaupið frá húsinu. Þeim hafi verið veitt eftirför og hafi Y og Z verið handteknir við bifreiðina [...] við [...]veg númer [...] í Reykjavík. Skömmu síðar hafi Þ verið handtekinn við [...] [...]. Þá hafi X verið handtekinn nokkru síðar við [...] [...] í Hafnarfirði, en hann hafði nokkru áður veitt lögreglumanni alvarlega áverka á andliti þegar lögreglumaðurinn hafi ætlað að handtaka hann í [...] í Reykjavík í eftirför eftir að til kærða hafði sést á vettvangi í [...].
Atlaga mannanna að íbúum í íbúð á [...] hæð hússins við [...] [...] í Reykjavík þeim A konu hans og tveim börnum [...] og [...] ára eigi sér nokkurn aðdraganda samkvæmt framburði þeirra og vitna í nágrenninu. Íbúi í [...] [...], hafi fengið heimsókn tveggja manna eftir klukkan 01:00 aðfararnótt 24. des., þeir hafi bankað upp og kallað á A. Þegar hún opnaði hafi þeir ruðst inn og farið um íbúðina til þess að leita að A. Þegar þeir hafi verið á útleið hafi þeir skellt hurð á hendi hennar og beri hún áverka á hægri hendi. Vitnið kvaðst hafa verið svo skelkuð að hún hafi ekki þorað að hringja á lögreglu.
Íbúi í [...] [...], hafi skömmu fyrir tilkynningu til lögreglu, séð fjóra menn standa fyrir utan útidyrahurðina á [...] [...], þeir hafi brotið rúðu í hurðinni og síðan skotið tveim skotum á hurðina. Í þann mund hafi lögreglubíll komið og gerendur þá tekið til fótanna.
Íbúi í [...] [...], kvaðst hafa heyrt tvo skothvelli og brothljóð og síðan séð fjóra menn hlaupa af vettvangi.
Kærandi og árásarþoli A hafi sagt að um nokkurt skeið hafi hann þurft að þola hótanir og líkamsárásir frá Æ, og félögum hans. A segi að Æ hafi margsinnis reynt að rukka sig vegna fíkniefnaviðskipta sem A segi að hann hafi átt við nafngreindan mann, en Æ vilji fá háar greiðslur vegna þess að í kjölfar fíkniefnakaupa A hafi lögregla handtekið hann og þann sem hann keypti fíkniefnin af og m.a. gert upptækt hjá þeim aðila fíkniefni og peninga. Æ vilji gera A ábyrgan fyrir því tjóni fíkniefnasalans. A segi atgang þessara manna hafa verið mjög ógnandi og hættulegan. Hann kvaðst hafa fengið heimsókn Æ hinn 21. þ.m. Þegar hann hafi farið til dyra hafi Æ barið sig fyrir framan börn hans. Fyrir þessa atlögu í gær hafi þessir menn komið að heimilinu að [...] að kvöldi Þorláksmessu og verið með mikinn fyrirgang. Í gær aðfangadag jóla hafi menn sem hann telji vafalaust vera á vegum Æ og þeir sömu og hafi komið á Þorláksmessu komið og bankað á dyr. Hann hafi þá verið búinn að koma konu sinni og börnum út um bakdyr og til nágranna sinna. Þegar þeir hafi bankað hafi hann stuggað þeim frá með því að stinga járnröri út um bréfalúgu. Hann hafi þá gengið frá og út um bakdyr og til nágranna sinna. Skömmu síðar hafi mennirnir greinilega skotið í útihurðina og inn um hana, inn í forstofuna þar sem séu merki þess að haglabyssuskot hafi lent.
Útihurð íbúðarinnar [...] [...], við [...] sé með skemmdum þannig að rúða sé brotinn og greinileg merki ákomu haglaskots eða skota. Byssunni virðist hafa verið beint að hurðarhúni og læsingu. Dreifing skota sé inni í forstofu á skáp og greinilegt hagl í vegg í forstofu á móti útihurð.
Rannsókn þessa máls sé á frumstigi. Það sem fyrir liggi í málinu nú bendi til ófyrirleitinnar og lífshættulegrar atlögu að íbúum að [...] [...], Reykjavík og öðru fólki í húsinu sem sé fjórbýlishús. Þegar lögregla hafi komið á vettvang vegna tilkynningar um ofbeldisverk hafi atlaga mannanna með haglabyssu ennþá staðið yfir. Þá hafi þeir verið búnir að skjóta á útihurð tveim haglabyssuskotum og inn í forstofu. Þessi hættulega atlaga hafi verið stöðvuð með afskiptum lögreglu en þá hafi árásarmennirnir tekið til fótanna og skilið byssuna eftir á vettvangi. Við handtöku hafi einn hinna handteknu slasað lögreglumann með því að slá hann í andlit.
Kærðu hafi ekki gengist við verknaði þessum og kannist sumir þeirra ekki við að hafa verið á vettvangi. Játning liggi fyrir frá einum hinna handteknu sem segist hafa hleypt af byssu eftir að íbúi hafi slegið sig með hafnarboltakylfu.
Rannsókn árásar á íbúa við [...] [...] í Reykjavík, laust eftir klukkan 11:45 í gær, sem sé talinn stórfelld og lífshættuleg og að hafa verið til þess fallin að leiða af sér alvarlegt líkamstjón og eða dauða sé á frumstigi. Brot þeirra sem þarna kunni að hafa átt í hlut eru talinn geta varðað fangelsi allt að 16 árum samkvæmt 2. mgr. 218. gr., eða 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þessa og þess sem að framan er rakið er ítrekuð krafa að kærði X sem sé undir rökstuddum grun um aðild að þessu máli verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi svo sem að framan er krafist eða til þriðjudagsins 4. janúar 2011 klukkan 15:00.
Kærði var handtekinn í kjölfar skotárásar við hús númer [...] við [...] í Reykjavík. Kærði hefur játað aðild sína að meintu broti sem telst geta varðað við 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðar fangelsi í allt að 16 ár. Rannsókn málsins er á frumstigi. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af alvarleika hins meinta brots teljast uppfyllt skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Fallist er á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X skal sæta gæsluvarðhaldi í 10 daga eða allt til þriðjudagsins 4. janúar 2011 kl. 15:00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.