Hæstiréttur íslands
Mál nr. 381/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Áfrýjunarfjárhæð
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 12. júní 2012. |
|
Nr. 381/2012.
|
M1 (Helga Vala Helgadóttir hdl.) gegn M2 (Gunnar B. Eydal hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Áfrýjunarfjárhæð. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M1 um að kötturinn A yrði tekinn úr vörslum M2 og fenginn lögmanni M1. Var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti þar sem ekkert lá fyrir um verðgildi kattarins og hafði því ekki verið sýnt fram á að lagaskilyrðum um áfrýjunarfjárhæð væri fullnægt í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 2012, sem barst héraðsdómi 23. sama mánaðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að kötturinn A með örmerki [...] verði tekinn úr vörslum varnaraðila og fenginn í hendur lögmanni sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um greiðslu málskostnaðar í héraði þegar af þeirri ástæðu ekki til álita.
Samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 sæta úrskurðir héraðsdómara samkvæmt 13. kafla laganna kæru til Hæstaréttar. Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður því samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 beitt um kæru sem þessa. Þegar málið var kært til Hæstaréttar var áfrýjunarfjárhæð 705.325 krónur. Ekkert liggur fyrir um verðgildi kattar þess er mál þetta varðar og hefur því ekki verið sýnt fram á að þessu skilyrði sé fullnægt. Brestur samkvæmt því heimild til kæru í málinu og ber að vísa því sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, M1, greiði varnaraðila, M2, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2012.
Með beiðni, móttekinn 9. febrúar 2012, krefst sóknaraðili, M1, [...], [...], dómsúrskurðar um að kötturinn A með örmerki [...] verði tekinn úr vörslum varnaraðila, M2, [...],[...] og fenginn Helgu Völu Helgadóttur hdl. f.h. sóknaraðila. Þá er þess krafist að gerðin fari fram á ábyrgð sóknaraðila en á kostnað varnaraðila, sóknaraðila að skaðlausu.
Varnaraðili, M2, krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um dómsúrskuð um að kötturinn A með örmerki [...] verði tekinn úr vörslum varnaraðila og fenginn sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila um málskostnað verði hafnað og sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málið var tekið til úrskurðar 16. apríl sl.
I
Sóknaraðili kveðst vera lögmætur eigandi kattarins A, sbr. skráningarskírteini en kötturinn hafi verið skráður hans eign þann 7. janúar 2011. Við samvistarslit málsaðila þann 16. nóvember 2011 hafi orðið að samkomulagi að kötturinn yrði fyrst um sinn til heimilis hjá varnaraðila en sóknaraðili kæmi reglulega til að annast um hann. Þegar sóknaraðili hafi svo ætlað að taka köttinn með sér á sitt nýja heimili hafi varnaraðili neitað að afhenda hann. Síðan hafi sóknaraðili ekki fengið að annast köttinn.
Sóknaraðili styður innsetningarkröfuna við 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989, sbr. 73. gr. sömu laga.
II
Varnaraðili byggir á að hann sé eigandi kattarins A. Hann hafi fengið köttinn hjá B þegar hann var kettlingur og hafi hann lofað honum að láta hann aldrei frá sér. Það sé rangt að hann hafi gefið sóknaraðila köttinn í jólagjöf.
Þá byggir varnaraðili á að skráning kattarins hjá DYRAAUDKENNI.IS sé yfirfærsla úr gagnagrunni frá dýralækni, þar sem skráning eigi sér stað hverju sinni sem komið sé með dýrið til skoðunar og sú skráning geti verið mismunandi eftir því hver komi með dýrið. Ekki sé um lögskráningu eignarréttar að ræða. Tilviljun hafi ráðið því að sóknaraðili hafi verið skráður eigandi kattarins en samkvæmt upplýsingum frá Dagfinni dýralækni komi nöfn beggja málsaðila fyrir í tölvuskráðum gagnagrunni. Það að sóknaraðili tók köttinn ekki með sér þegar hann flutti og gerði engan reka að því að sækja hann síðar, styðji fullyrðingu varnaraðila um að hann sé réttur eigandi kattarins.
Þá hafi varnaraðili greitt fyrir fyrstu komu kattarins til dýralæknis þann 07.01.11 þar sem hann var örmerktur, bólusettur og ormahreinsaður og skráður inn. Þá hafi reikningur vegna komu til dýralæknis þann 07.02.11 verið greiddur með greiðslukorti varnaraðila. Sóknaraðili hafi einungis einu sinni, eða þann 02.09.11, greitt fyrir læknisheimsókn kattarins en þá hafi varnaraðili ekki komist með hann vegna vinnu sinnar.
Þegar varnaraðili hafi farið með köttinn til dýralæknis 07.01.12 hafi hann verið skráður sem eigandi hans. Þann sama dag hafi varnaraðili látið tryggja köttinn hjá Tryggingamiðstöðinni. Varnaraðili hafi þannig að mestu greitt lækniskostnað kattarins og kostnað vegna tryggingar hans.
Auk þessa sé vert að hafa í huga rétt kattarins og hvar telja verði að honum muni líða best og að hverjum sé líklegast að hann sé hændur. Heimili kattarins hafi í 2 ár verið að [...],[...], þar sem varnaraðili býr og hyggst búa áfram.
Eins og fram komi í úttekt héraðsdýralæknis 24.02.12 sé allur aðbúnaður kattarins til fyrirmyndar og gefi hann varnaraðila sín bestu meðmæli fyrir umhirðu og aðbúnað hans.
Það sé réttur kattarins að fá að vera áfram hjá eiganda sínum sem búi henni svo góðar aðstæður. Það að rífa köttinn af heimili sínu þar sem honum líði vel og umhirða sé til fyrirmyndar hljóti að flokkast undir slæma meðferð dýra og vera brot á dýraverndarlögum.
Einnig sé vert að hafa í huga að landvistarleyfi sóknaraðila á Íslandi byggist á hjónabandi hans og varnaraðila, sem er frá [...], og sé því óvíst um framtíð og
heimilisfesti sóknaraðila hér á landi.
Engin rök eða forsendur séu til stuðnings beiðninni og skilyrði 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför ekki fyrir hendi.
III
Það er skilyrði fyrir beinni aðfarargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem afla má samkvæmt 1. mgr. 83. gr. aðfararlaga.
Ekki liggur fyrir í máli þessu að kötturinn A sé skráð með þeim hætti sem kveðið er á um í samþykkt um kattahald á [...] nr. 184/2011, sem tók gildi 1. júní 2012 né eldri samþykkt nr. 565/1996, en þar er kveðið á um að alla ketti á [...] beri að skrá.
Sóknaraðili byggir eignarrétt sinn hins vegar á skráningu kattarins hjá DÝRAAUÐKENNI.IS, sem er félag í eigu Dýralækningafélags Íslands, en markmið félagsins er að halda utan um einstaklingsmerkingar gæludýra og gera upplýsingarnar aðgengilegar á netinu.
Þykir ekki sýnt að skráning kattarins hjá DÝRAAUDKENNI.IS veiti fullnægjandi sönnur fyrir því hver sé eigandi kattarins A. Þá þykja önnur gögn málsins heldur ekki veita sönnun fyrir því hver sé eigandi hans. Liggur því ekki fyrir að sóknaraðili hafi sýnt fram á að hann sé eigandi kattarins með nægjanlega skýrum hætti í skilningi 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför
Samkvæmt því verður að hafna kröfu sóknaraðila um afhendingu kattarins A.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu sóknaraðila er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.