Hæstiréttur íslands

Mál nr. 757/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Mánudaginn 8. desember 2014.

Nr. 757/2014.

Þrotabú Dentalíu & Fides ehf.

(Arnbjörg Sigurðardóttir hrl.)

gegn

Dagbjarti G. Halldórssyni

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli þrotabús DF ehf. gegn D var vísað frá dómi þar sem málshöfðunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. var liðinn er málið var höfðað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. nóvember 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Ennfremur krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til álita hér fyrir dómi.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var bú Dentalíu & Fides ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 13. febrúar 2012. Var frestdagur við skiptin 9. sama mánaðar, en kröfulýsingarfrestur rann út 17. apríl sama ár. Varnaraðili sem hafði verið eini stjórnarmaður félagsins og jafnframt framkvæmdastjóri þess gaf skýrslu hjá skiptastjóra 21. febrúar 2012. Á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu 15. maí sama ár kom fram af hálfu eins af kröfuhöfum í búið að hann teldi ástæðu „til að skoða bókhald þrotamanns sérstaklega“. Var upplýst að kröfuhafinn væri reiðubúinn „að greiða kostnað af þeirri vinnu“ og legði til að nafngreindur endurskoðandi yrði fenginn til verksins.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir samskiptum skiptastjóra við endurskoðandann. Að beiðni þess fyrrnefnda lauk sá síðarnefndi könnun á bókhaldi einkahlutafélagsins með skýrslu 23. janúar 2013 og er efni hennar lýst í úrskurðinum. Því til skýringar hversu langan tíma könnunin tók hefur sóknaraðili meðal annars vísað til þess að bókhaldsgögn félagsins hafi verið vistuð „í gamalli tölvu með úreltu stýrikerfi og bókhaldskerfi sem hafði ekki verið notað um árabil“, auk þess sem fullnægjandi gögn hafi ekki borist frá varnaraðila. Þó liggur fyrir að 21. júní 2012 prentaði endurskoðandinn út lista yfir hreyfingar á bankareikningum félagsins árið 2010 og er sá listi meðal gagna málsins.

Sóknaraðili höfðaði 15. júlí 2013 mál á hendur varnaraðila til riftunar á greiðslum að fjárhæð 6.580.834 krónur sem inntar voru af hendi af reikningi félagsins á reikning varnaraðila 11. febrúar 2010. Því máli var vísað frá héraðsdómi 11. september 2013. Mál þetta var síðan höfðað 15. október sama ár þar sem krafist var riftunar á sömu ráðstöfunum og í fyrra málinu.

Varnaraðili krafðist þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi sökum þess að það hefði ekki verið höfðað innan þess frests sem fyrir er mælt í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var fallist á þá kröfu í hinum kærða úrskurði.

II

Í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um að þurfi að höfða dómsmál til að koma fram riftun skuli það gert áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.

Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. sömu laga annast skiptastjóri þrotabús öll störf sem lúta að meðferð búsins, en honum er heimilt á kostnað þess að leita sér aðstoðar eða þjónustu til að leysa af hendi einstök verk á sína ábyrgð. Jafnframt hvílir sú skylda á skiptastjóra eftir 3. mgr. 87. gr. laganna að gera ráðstafanir þegar eftir skipun sína til að tryggja að hann fái í hendur bókhaldsgögn félags sem tekið hefur verið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félags skylt að verða við kvaðningu skiptastjóra um að mæta á fund hans og veita honum upplýsingar og láta honum í té gögn sem hann krefst vegna gjaldþrotaskiptanna. Þá er í 1. mgr. 82. gr. laganna meðal annars kveðið á um að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni þrotabús sem hann krefst.

Eins og að framan greinir krefst sóknaraðili riftunar á greiðslum sem allar áttu sér stað 11. febrúar 2010 af bankareikningi Dentalíu & Fides ehf. á bankareikning varnaraðila. Við úrlausn um það hvenær skiptastjóri sóknaraðila hafi átt þess kost að gera riftunarkröfuna í skilningi 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 verður ekki framhjá því litið að 21. júní 2012 lá fyrir útprentaður listi yfir hreyfingar á bankareikningum félagsins árið 2010, þar á meðal frá sparisjóði þess þar sem umræddar greiðslur komu fram. Þótt listinn bæri ekki með sér að um hafi verið að ræða greiðslur til varnaraðila eða millifærslur á bankareikning hans var skiptastjóra í lófa lagið þá þegar að afla sjálfur eða láta afla á sína ábyrgð upplýsinga frá sparisjóði félagsins á grundvelli 1. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 um hvert þær hafi runnið. Þá verður heldur ekki ráðið af gögnum málsins að skiptastjóri hafi samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna innt varnaraðila eftir því á fyrri hluta árs 2012, til dæmis við skýrslutöku af honum 21. febrúar það ár, hvort félagið hafi innt af hendi greiðslur til hans á árinu 2010 eða síðar.

Með skírskotun til þessa var sá sex mánaða málshöfðunarfrestur, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, löngu liðinn 15. júlí 2013 þegar sóknaraðili höfðaði upphaflega mál á hendur varnaraðila til riftunar á fyrrgreindum ráðstöfunum. Samkvæmt því verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að vísa máli þessu frá héraðsdómi.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

 Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Dentalíu & Fides ehf., greiði varnaraðila, Dagbjarti G. Halldórssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. nóvember 2014.

Mál þetta er höfðað 15. október 2013 af þrotabúi Dentalíu & Fides ehf., kt. [...], Skipagötu 16, Akureyri, á hendur Dagbjarti G. Halldórssyni, kt. [...], Þórunnarstræti 89, Akureyri. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 10. september 2014.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að rift verið greiðslum að fjárhæð 6.580.834 krónur af reikningi Dentalíu & Fides  ehf. númer 1145-26-6665 á reikning stefnda númer 1145-05-441615 hinn 11. febrúar 2010.  Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.580.834 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 11. febrúar 2010 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu. 

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Til þrautavara krefst stefndi lækkunar dómkrafna.  Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað.

Málavextir

Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem upp var kveðinn 13. febrúar 2012, var bú Dentalíu & Fides ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur var 9. febrúar. Kröfulýsingafrestur rann út 17. apríl. Stefndi var stjórnarmaður félagsins og gaf hann skýrslu hjá skiptastjóra hinn 21. febrúar 2012. Skiptafundur um lýstar kröfur var haldinn 15. maí 2012. Í fundargerð hans segir meðal annars að ekki liggi fyrir að búið eigi eignir sem dugi fyrir öðru en skiptakostnaði. Á fundinum kom fram af hálfu kröfuhafans SPB hf. að kröfuhafinn teldi ástæðu til að „skoða bókhald þrotamanns sérstaklega, einkum með tilliti til viðskipta félagsins við önnur félög í eigu sömu aðila“, og eru tvö hlutafélög sérstaklega nefnd. Þá er haft eftir kröfuhafanum að hann sé reiðubúinn að greiða kostnað af þeirri vinnu og leggi til að Guðrún Torfhildur Gísladóttir, lögg. endurskoðandi hjá Grant Thornton endurskoðun hf., verði fengin til verksins.

Í málinu liggja útprentuð tölvupóstsamskipti skiptastjóra og Guðrúnar Torfhildar. Bera þau með sér að endurskoðandinn hafi tekið að sér umrætt verkefni. Eru fyrstu bréf milli þeirra send 5. júní 2012. Þann dag skrifar skiptastjóri meðal annars: „Bókhaldið er unnið í gömlu kerfi, Fjölni, sem fyrirsvarsmaður telur ekki hægt að koma til þín í tölvutæku öðruvísi en þú fáir tölvuna.“ Verður það úr að endurskoðandinn fær tölvuna senda og í bréfi til skiptastjóra 21. júní segist hún vera „byrjuð að fletta í kerfinu“, en kerfið sé „ekki mjög notendavænt“. Með bréfi til skiptastjóra 17. ágúst óskar endurskoðandinn eftir að skiptastjóri heimili aðgang að öllum gögnum sem endurskoðandi félagsins hafi undir höndum og nauðsynleg séu til að rannsaka bókhald félagsins, svo sem ársreikninga, lokafærslur, afstemmingar og fleira sem sé í vinnugögnum endurskoðanda. Skiptastjóri veitir heimildina 20. ágúst. Hinn 3. september skrifar Guðrún Torfhildur skiptastjóra og segir að samkvæmt upplýsingum endurskoðanda félagsins séu „allar afstemmingamöppur og gögn varðandi [þrotamann] geymd hjá [stefnda]“ og óskar eftir að skiptastjóri afli hjá stefnda ýmissa nánar greindra gagna, svo sem afrita ársreikninga með skýringum og sundurliðunum, afrita af lokafærslum, afrita af birgðatalningu, niðurfærslu krafna og mats viðskiptavildar. Skiptastjóri svarar sama dag og kveðst hafa óskað eftir þessum gögnum frá stefnda. Hinn 12. september skrifar skiptastjóri aftur og kveðst hafa fengið ársreikninga og möppur daginn áður og muni senda áfram til endurskoðandans. Hefur skiptastjóri jafnframt eftir stefnda að „allt bókhald ætti að vera í tölvunni sem [endurskoðandi fékk]; lokastöður, afstemmingar og slíkt.“ Sama væri að segja um birgðalista. Endurskoðandi skrifar svo skiptastjóra hinn 19. nóvember og segist vera búin að skoða tölvuna, en hún sé með stýrikerfi sem endurskoðandinn kunni ekki á. Þurfi hún að hafa samband við stefnda til að fá leiðbeiningar hans.

Í málinu er skýrsla, unnin af Grant Thornton endurskoðun en Guðrún Torfhildur Gísladóttir lögg. endurskoðandi skráður ábyrgðarmaður, og nefnist skýrslan „Dentalía og Fides ehf. Könnun á meðferð fjármuna fyrir gjaldþrot.“ Skýrslan er dagsett 23. janúar 2013. Meðal niðurstaðna hennar er að í „ársbyrjun 2010 skuldar D&F [stefnda] kr. 3.500.000 og er skuldin færð á lykil 21010 sem heitir Víxilskuld. Í janúar og febrúar fær D&F að láni kr. 3.000.000 frá [stefnda] til viðbótar við fyrra lán. Þann 11. febrúar endurgreiðir D&F [stefnda] alla fjárhæðina með 15% dagvöxtum. Jafnframt greiðir D&F honum uppgjör vegna húsaleigu, rafmagns og hita fyrir árið 2009 að upphæð kr. 384.142 og fyrir húsaleigu undir geymsluhúsnæði fyrir árið 2010 kr. 300.000. Húsaleigan vegna 2010 er greidd 21. janúar 2011.“

Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda hinn 15. júlí 2013 og var það mál þingfest og dómtekið hinn 5. september 2013. Málinu var vísað frá dómi án kröfu hinn 11. september 2013 vegna galla á málatilbúnaði, að því er varðaði fyrirkall. Voru dómkröfur í því máli hinar sömu og í þessu máli, en eins og áður sagði er þetta mál höfðað 15. október 2013.

Málsástæður stefnda í þessum þætti málsins

Stefndi segir að frávísunarkrafan sé byggð á því að málshöfðunarfrestur sé liðinn og málið hafi verið höfðað of seint.  Í málinu sé krafizt endurgreiðslu á greiðslum sem þó séu afar einfaldar og augljósar í bókhaldi þrotabúsins og á bankareikningum þess. Fyrir liggi í málinu bókhaldsskjal er sýni hreyfingu á reikningi þrotamanns,  útprentað hinn 21. júní 2012.  Þá blasi við að einföld yfirferð yfir bankareikning stefnanda hefði þegar í stað gert þessar greiðslur ljósar, enda hafi engin tilraun verið gerð til að fela þær, allt hafi verið upp á borðum og gögn legið fyrir.  Stefndi segir að ekki hafi þurft sérstaka aðstoð löggilts endurskoðanda til að sjá þessar færslur eða kanna þær sértaklega. Afar einfalt hefði verið að fá um þær gögn hjá sparisjóðnum þar sem stefnandi hafi verið með viðskipti sín og reikning númer 1145-26-6665. Bankareikningar í eigu stefnanda hafi verið fáir og hægur leikur að kanna hvort efni væri til að rifta þeim greiðslum er mál þetta snúist um.  Þá blasi greiðslurnar við í reikningsyfirliti þar sem þær eigi sér allar stað sama daginn og skeri sig nokkuð úr á yfirlitinu. Rétt hefði verið að kanna strax í upphafi skiptameðferðar hverju þessar greiðslur hafi sætt. Stefndi segir að á skiptafundi hinn 15. maí 2012 hafi verið ákveðið að láta kanna sérstaklega viðskipti stefnanda við tengda aðila.  Stefndi segir að frumyfirferð þess hefði átt að snúa að bankareikningum og könnun á því hvert fjármunum, peningagreiðslum, hefði verið ráðstafað. Gagnaöflun um það sé einföld enda liggi fyrir framangreint skjal um hreyfingar af bankareikningi þrotamanns.  Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 skuli höfða riftunarmál innan sex mánaða frá því að skiptastjóri hafi átt þess kost að gera riftunarkröfu og byrji málshöfðunarfrestur í fyrsta lagi að líða við lok kröfulýsingafrests sem hér sé 17. apríl 2012.  Frávik frá því tímamarki sé undantekning og þurfi að fullnægja ströngum skilyrðum til að víkja frá því.  Mál þetta sé einfalt og millifærslur augljósar. Þrotabúið sé ekki stórt að umfangi og viðskiptin að baki þeim kröfum sem mál þetta byggi á ekki flókin. Mál hafi verið höfðað í fyrsta skipti 15. júlí 2013. Sex mánaða tímamark um upphaf málshöfðunarfrests hefði í því tilviki þurft að miðast við 15. janúar 2013 þannig að skiptastjóri hefði fyrst þá átt þess kost að hafa uppi riftunarkröfu. Stefndi kveðst mótmæla málatilbúnaði í stefnu um upphaf málshöfðunarfrests. Þar sem málsatvik séu einföld og vel afmörkuð sé ljóst að ganga hafi mátt úr skugga um millifærslurnar þegar í upphafi skiptameðferðar. Næsta tímamark sem kæmi til skoðunar sé kröfuhafafundur sem haldinn hafi verið 15. maí 2012 þar sem sérstaklega hafi verið fjallað um að kanna bæði viðskipti félagsins við tengda aðila og að kröfuhafar ábyrgðust kostnað vegna þess og hafi tilgreint endurskoðanda til verksins. Hefði sex mánaða málshöfðunarfrestur átt að byrja að líða á þeim degi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í dómasafni 1995 blaðsíðu 2522, þar sem miðað hafi verið við fyrsta skiptafund.  Þriðja tímamarkið sem til greina kæmi væri 21. júní 2012 en þá beri gögn með sér að skiptastjóri hafi haft undir höndum nægar upplýsingar um bankareikninga félagsins og færslur þar. Það liggi því fyrir að í síðasta lagi hinn 21. júní 2012 hafi skiptastjóri getað haft uppi riftunarkröfu í málinu og beri því að telja sex mánaða málshöfðunarfrest í síðasta lagi frá þeim degi. Þá verði ráðið af gögnum málsins að raunveruleg vinna við athugun bókhalds hafi fyrst hafizt eftir miðjan ágúst 2012 eða um fjórum mánuðum eftir lok kröfulýsingafrests og um þremur mánuðum eftir að ákvörðun hafi verið tekin á skiptafundi um að rannsaka bókhald félagsins. Frá því að sú vinna hafi hafizt hafi um fimm mánuðir liðið þar til skýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf. um meðferð á fjármunum Dentalíu & Fides ehf. fyrir gjaldþrot hafi legið fyrir. Eftir það líði svo enn nærri sex mánuðir þar til mál þetta hafi verið höfðað. Útskýringar á þessu langa ferli séu vanreifaðar og liggi óréttmætar málsástæður að baki sjónarmiðum um að málshöfðunarfrestinn eigi fyrst að telja frá 23. janúar 2013. Hið rétta sé að engin efni séu til annars en að telja málshöfðunarfrestinn í síðasta lagi frá 21. júní 2012 þar sem skiptastjóri hafi þá búið yfir nægjanlegum gögnum til að eiga þess kost að gera riftunarkröfuna. Stefndi hafi haft brýna hagsmuni af því að vita svo fljótt sem verða mætti að riftunarkrafa yrði höfð uppi gegn honum. Krafa um málskostnað sé studd við 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1998. 

Málsástæður stefnanda í þessum þætti málsins

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað. Höfða beri mál innan sex mánaða frá því skiptastjóri hafi átt þess kost að höfða málið. Við mat á því hafi verið horft til þess að þrotabú hafi fjárhagslegt bolmagn til að hefja málaferli og að bókhaldsleg gögn hafi legið nægilega vel fyrir svo taka hafi mátt ákvörðun um málshöfðun. Það hafi fyrst verið á skiptafundi 15. maí 2012 sem fyrir hafi legið að kröfuhafi hafi ábyrgzt greiðslu kostnaðar af athugun á bókhaldi þrotamanns. Þá sýni gögn málsins að vinna hafi þegar farið af stað við þá athugun, en hún hafi reynzt tafsöm og fyrirferðarmikil. Skiptastjóri hafi haft undir höndum möppur með greiðsluviðurkenningum en ekki fullfært bókhald. Hreyfingar einar og sér segi ekki frá því hvers vegna þær hafi verið framkvæmdar og nægi ekki til riftunar, til þess þurfi að skoða bókhaldið. Skýrsla endurskoðanda um meðferð fjármuna þrotamanns hafi verið tilbúin 23. janúar 2013 og fyrst þá hafi skiptastjóri átt þess kost að setja fram riftunarkröfuna. Málshöfðunarfrestur hafi byrjað að líða þann dag. Stefnda hafi verið birt stefna hinn 15. júlí 2013 og það mál verið þingfest 5. september það ár. Vegna villu í fyrirkalli hafi málinu verið vísað frá með úrskurði 11. september 2013 en þá hafi nýr málshöfðunarfrestur byrjað að líða. Sé málið höfðað innan lögmælts frests.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. segir að ef höfða þurfi dómsmál til að koma fram riftun, skuli það gert áður en sex mánuðir séu liðnir frá því skiptastjóri hafi átt þess kost að gera riftunarkröfuna, en þó skuli þessi frestur ekki byrja að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Er þessi regla sett vegna brýnna hagsmuna þess, sem notið hefur ráðstöfunar sem kann að reynast riftanleg, að fá að vita sem fyrst hvort freistað verði að ná fram riftun. Þá ber skiptastjóra, samkvæmt 3. mgr. 87. gr. sömu laga, að gera þegar eftir skipun sína ráðstafanir til þess að hann fái bókhaldsgögn þrotamanns í hendur. Ber skiptastjóri sönnunarbyrðina af því að honum hafi ekki verið unnt að hefja mál til riftunar við lok kröfulýsingarfrests, en við það mat verður meðal annars að horfa til ríkra heimilda þeirra til upplýsingaöflunar, svo sem með skýrslutöku.

Stefnandi höfðaði annað mál á hendur stefnda með sömu kröfum og nú, hinn 15. júlí 2013, en því máli var vísað frá með úrskurði 11. september 2013. Líta verður svo á að við þá frávísun hafi hafizt nýr sex mánaða frestur til málshöfðunar, verði á annað borð talið að slíkur frestur hafi ekki verið runninn út er fyrra mál var höfðað hinn 15. júlí 2013.

Svo fallast megi á að málshöfðunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 hafi ekki verið runninn út við málshöfðun 15. júlí 2013, verður að sýna fram á að hinn 15. janúar sama ár hafi skiptastjóra enn ekki verið unnt að gera riftunarkröfu sína.

Ekki þykir ástæða til að draga í efa að við upphaf skipta hafi stefnandi ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að hefja málaferli til riftunar. Á fyrsta skiptafundi lýsti einn kröfuhafa því yfir að hann ábyrgðist greiðslu kostnaðar af þeim, en sá fundur var haldinn 15. maí 2012. Var þá þeirri hindrun rutt úr vegi málshöfðunar.

Stefnandi byggir á því að skiptastjóri hafi fyrst að gerðri skýrslu endurskoðanda um meðferð fjármuna þrotamanns fyrir gjaldþrot, 23. janúar 2013, átt þess kost að höfða riftunarmál, en í stefnu segir að endurskoðandinn hafi þurft að hafa nokkuð fyrir gagnaöflun og skoðunin verið umfangsmikil. 

Skiptastjóra ber, strax eftir skipun sína, að taka yfir öll gögn og eignir þrotabús og taka öll bókhaldsgögn í sínar vörzlur. Hann hefur ríkar heimildir til upplýsingaöflunar og getur samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991 kvatt nánar tilgreinda menn á sinn fund til skýrslugjafar. Þegar horft er til þeirra greiðslna sem mál þetta snýst um og ríkra heimilda skiptastjóra til upplýsingaöflunar en einnig dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2006 sem kveðinn var upp 30. marz 2006, þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að það hafi ekki verið fyrr en að lokinni gerð skýrslu endurskoðanda hinn 23. janúar 2013 sem honum hafi verið unnt að hefjast handa um málshöfðun til riftunar greiðslunum.

Ekkert annað en bið eftir umræddri skýrslu endurskoðanda er því til stuðnings að málshöfðunarfrestur hafi ekki verið byrjaður að líða hinn 15. janúar 2013. Í ljósi þessa verður að telja að málshöfðunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið byrjaður að líða fyrir þann dag og hafi því verið úti er mál var höfðað hinn 15. júlí 2013. Þar sem málshöfðunarfrestur var þá úti, gat hann ekki framlengzt við frávísun þess máls. Í ljósi alls framanritaðs verður ekki komizt hjá því að vísa máli þessu frá dómi, en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda fór með málið Arnbjörg Sigurðardóttir hrl. en af hálfu stefnda Ólafur Rúnar Ólafsson hrl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður.