Hæstiréttur íslands
Mál nr. 60/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Greta Baldursdóttir og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2017, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í máli þessu er varnaraðili ákærður fyrir „hatursorðræðu og útbreiðslu haturs, með því að hafa 20. apríl 2015, í samræðum við hlustendur sem hringdu inn í beina útsendingu í útvarpsþáttinn „A“, sem var í umsjá ákærða á B, látið eftirfarandi ummæli falla og um leið útvarpað“ þeim ummælum hlustenda sem í ákæru greinir. Hafi ummælin falið í sér háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra. Er brotið talið varða við 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er, sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa þessi fyrirmæli verið skýrð svo að lýsing á háttsemi, sem ákærða er gefin að sök í ákæru, verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að með réttu verði ákærða talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verði talin refsiverð. Samkvæmt þessu verður ákæran að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókninni svo dómur verði lagður á málið í samræmi við ákæru, enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru.
Í 233. gr. a. almennra hegningarlaga segir að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna, meðal annars með ummælum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar eða breiðir slíkt út, skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum.
Broti því, sem varnaraðila er gefið að sök, er í upphafi ákæru lýst svo að um sé að ræða hatursorðræðu og útbreiðslu haturs, en í því felst að sóknaraðili lítur svo á að þau heiti hins ætlaða brots verði skilin þannig að þau falli undir áðurnefnt ákvæði almennra hegningarlaga. Varðar þetta ekki frávísun málsins.
Ákæran er þannig úr garði gerð að samtöl varnaraðila við fjóra hlustendur B, sem hringdu þangað í beinni útsendingu, eru tekin upp í heild sinni. Eru varnaraðila í senn gefin að sök tiltekin ummæli sín og að hafa með því að útvarpa ummælum viðmælenda sinna breitt út hatur í garð ákveðins þjóðfélagshóps. Verknaðarlýsing ákærunnar er því skýr og verður ekki talið að ákærða sé á grundvelli hennar torvelt að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum. Heyrir því undir efnishlið málsins að skera úr um hvort ætlað brot hans varði við 233. gr. a. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu fullnægir ákæran skilyrðum c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2017
Árið 2017, mánudaginn 30. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í málinu nr. S-839/2016: Ákæruvaldið gegn X en málið var tekið til úrskurðar 20. þ.m.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 8. nóvember 2016, á hendur X
,,fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs, með því að hafa miðvikudaginn 20. apríl 2015, í samræðum við hlustendur sem hringdu inn í beina útsendingu í útvarpsþáttinn „A“, sem var í umsjá ákærða á B, látið eftir farandi ummæli falla og um leið útvarpað eftirfarandi ummælum hlustanda;
1. samtal
[Hlustandi]: Þetta er núna bara eins og barnaklám eða eitthvað mundi maður segja.
[Ákærði]: Já hvernig er þetta, er ekki barnaklám bannað, eða hvernig er það?
[Hlustandi]: Jú ég hélt það.
[Ákærði]: Já, já hélt það.
[Hlustandi]: Hélt að börnin væru bara núna að læra bara.
[Ákærði]: Þetta er náttúrlega.
[Hlustandi]: Til dæmis þegar foreldrar þeirra eru einstæðir foreldrar og ýmislegt.
[Ákærði]: C
[Hlustandi]: Og þau geta ekkert spáð í venjuleg lífi.
[Ákærði]: C er þetta ekki bara galið, eigum við ekki bara að segja það hreint út.
[Hlustandi]: Þetta er ógeðslegt sko
[Ákærði]: Já.
2. samtal
[Hlustandi]: Ég er að hringja út af þessu blessaða máli eða bölvaða máli, í sambandi við samkynhneigða.
[Ákærði]: Já
[Hlustandi]: Að það skuli ley.. að það eigi að ley, að það hérna að kenna þetta í skólum.
[Ákærði]: Já, grunnskólum.
[Hlustandi]: Já.
[Ákærði]: Já.
[Hlustandi]: Ætla þeir að sýna hvernig þeir eðla sig ég ætla nú bara að vera dónaleg.
[Ákærði]: Ég veit það ekki ég hef bara ekki hugmynd um það.
[Hlustandi]: Ég mundi bara spyrja þessa nítján ára stelpu hvort hún ætlar að gera það.
[Ákærði]: Hmm ég hugsa að sumir hugsi þannig að það sé bara allt í lagi, hjá þessu fólki.
[Hlustandi]: Mér finnst að hún ætti bara að sýna hvernig hún og sín hennar lesbía myndu eðla sig fyrir framan börnin.
[Ákærði]: Hm
[Hlustandi]: Held ég að hljóti að vera.
[Ákærði]: En það er auðvitað verið að særa blygðunarkennd svona ungra barna ég skilabara ekki af hverju nokkrum.
[Hlustandi]: Auðvitað.
[Ákærði]: Dettur þér í hug þetta er bara refsivert athæfi í raun og veru.
[Hlustandi]: Þetta ef þessi nítján ára stúlka er búin að koma þessu upp að þá á bara að tala við hana af lögreglu.
[…]
[Hlustandi]: Ég veit um það en ég bara segi, eða skilaboð til þessarar stelpu eru þau.
[Ákærði]: Hmm.
[Hlustandi]: Ætlar hún að sýna hvernig lessur eðla sig?
[Ákærði]: Hmm
[Hlustandi]: Þó ég sé dónaleg, ég veit það en þetta er það sem hún ætlar að kenna þeim og þá verður hún að sýna þeim það.
[Ákærði]: Já.
[Hlustandi]: Og mundi nokkur leyfa henni að fara að þukla á börnunum. Ég segi bara það, ég er ekki lesbía, ég á átta börn og hef aldrei verið lesbía.
[Ákærði]: Það er þannig að það er ekki endilega fólk sem er samkynhneigt eða konur sem eru lesbíur sem eru að mæla með þessu þetta er bara gagnkynhneigt fólk sem er að vilja að börnin fái þessa svo kölluðu fræðslu það er það sem er að gerast í málinu.
3. samtal
"[Hlustandi]: Mér finnst bara orðið hræðilegt hvað það getur verið að reyna að koma inn ekki að það eigi ekki að trúa á guð og jesú.
[Ákærði]: Af hverju eru menn svona áhugasamir um svona hluti, ég skil það ekki, kynf, hinsegin fræðslu svo kallaða í [...] og svona ýmisslegt, ég átta mig ekki á því að , að , að það kemur ekki fram nein, nein skýr greinargerð og rökstuðningur, eða að minnsta kosti ekki skýr rökstuðningur, fyrir svona hugmyndum, er það?
[Hlustandi]: Mér finnst nefnilega að, ég hélt að það ætti ekki að kenna krökkum eða fólki svona.
[Ákærði]: Nei, ég meina 6 ára gömul börn, ég meina.
[Hlustandi]: Já.
[Ákærði]: Þetta er bara óhuggulegt.
[Hlustandi]: Það verður bara að vera sýnikennsla.
[Ákærði]: Já þetta er óhuggulegt að hugsa til þess.
[Hlustandi]: Ha.
[Ákærði]: Hvað, það á ekki að vera kenna þetta í grunnskóla.
[Hlustandi]: Ég á nefnilega
[Ákærði]: 6 ára, 8 ára eða 10 ára, það breytir engu.
[Hlustandi]: Ég á tvö ömmu börn í skóla í [...]
[Ákærði]: Jájá.
[Hlustandi]: Mér líst ekki á þetta.
[Ákærði]: Já þau verða kannski bara að hætta í skólanum.
[Hlustandi]: Ég veit það ekki, ég hef náttúrulega ekki talað við mömmu þeirra út af þessu.
[Ákærði]: Þú átt að gera það.
[Hlustandi]: Já.
4. samtal
"[Hlustandi]: Ég er algjörlega á móti þessu, þetta er algjör, þetta er bara orðið, er bara orðin della sko.
[Ákærði]: Já.
[Hlustandi]: Og ég held að þeir séu að skemma rosalega mikið fyrir hinsegin dögum líka í leiðinni.
[Ákærði]: Eeh já ja ég held.
[Hlustandi]: Og ég held að fólk verði mjög reitt.
[Ákærði]: Já ég hugsa að það sé rétt hjá þér.
[Hlustandi]: Já, það verður mjög reitt og ég er allavegana einn af þeim.
[Ákærði]: Já ég meina nú er bara góð sátt um þessi mál og allt í lagi en af hverju að, þetta gæti verið, orðið til þess að efna til óvinfagnaðar ég meina fólk verður já pirrað á þessu og finnst rangt að þurfa að senda börnin sín í skóla og það er skólaskylda.
[Hlustandi]: Já.
[Ákærði]: Og síðan allt í einu kemur þessi fræðsla og bara, þetta eru, þetta eru..
[Hlustandi]: Það er..
[Ákærði]: Lítil börn, ég meina hvar, hvar er þetta fólk statt eiginlega?
[Hlustandi]: Það er bara ekkert bara það X.
[Ákærði]: Hvað segja barnaverndaryfirvöld?
[Hlustandi]: Jájá.
[Ákærði]: Ha.
[Hlustandi]: Já þau sjálfsagt steinþegja.
[Ákærði]: Já þau eru sjálfsagt ætli þau séu ekki hlynnt þessu það væri, það væri eftir öðru ha.
sem fólu í sér háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra.
Telst þetta varða við 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Ákærði hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá dómi. Í greinargerð verjanda ákærða er svofelldur kafli um frávísunarkröfuna:
„Í c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið svo á að í ákæru skuli meðal annars greina svo glöggt sem verða megi: „hver sú háttsemi er sem ákært er út af“. Hér er ákært fyrir „hatursorðræðu og útbreiðslu haturs“ með því að hafa látið „eftirfarandi“ ummæli falla. Hér er í fyrsta lagi notað sérgreint hugtak „hatursorðræða“, sem ekki kemur fram í því ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem háttsemin er talin varða við og ekki er skýrt í ákærunni hvaða merkingu hafi. Hlýtur þetta að teljast annmarki á ákærunni. Hitt skiptir þó meira máli að engin leið er fyrir ákærða að átta sig á því með lestri ákærunnar, hver þau „eftirfarandi“ ummæli nákvæmlega eru sem eiga að teljast hafa verið refsiverð. Dómurinn hlýtur einnig að eiga í erfiðleikum með að skilja þetta við úrlausn málsins. Það er að mati ákærða skilyrði fyrir fyrir efnislegri meðferð ákærunnar fyrir dómi að þetta sé ljóst.
Þá er einnig óljóst af ákærunni hvort ákærða er einungis gefið að sök að hafa látið sín eigin ummæli falla (sem engan veginn er þó ljóst hver eigi að vera) eða hvort hann sé einnig sakaður um að hafa útvarpað ummælum hlustandanna sem hringt höfðu inn og viðhaft ummæli sem tekin eru upp í ákæruna. Er óljóst af ákærunni hvort ummæli hlustendanna séu einnig gerð að ákærufengum gegn ákærða. Þannig á ákærði erfitt með að átta sig á því hvert það sakarefni er sem hann þarf að verjast við meðferð málsins.“
Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna rökstuddi verjandinn það álit sitt að þeir annmarkar væru á ákærunni að ákærði gæti ekki af lestri hennar áttað sig nákvæmlega á því hvert sakarefnið á hendur honum væri. Eigi þetta að leiða til frávísunar málsins.
Sækjandinn andmælti frávísunarkröfunni og krefst þess að málið fái efnismeðferð í samræmi við ákæruna. Taldi hann ákæruna skýra og ljóst væri af lestri hennar hvert ákæruefnið væri.
Ákærða eru gefin að sök ummæli í fjórum samtölum sem útvarpað var í B og ákæruvaldið telur að falið hafi „í sér háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra“. Í 152. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eru fyrirmæli um það hvernig ákæru skuli gera úr garði. Segir m.a. um það í c-lið 1. mgr. að þar skuli greina svo glöggt sem verða megi „hver sú háttsemi er sem ákært er út af“. Mörg þeirra ummæla sem tilfærð eru í ákærunni hljóta að teljast vera mjög almenns eðlis. Verður að telja að ákæran sé að þessu leyti óglögg og að erfitt geti verið fyrir ákærða af þeim sökum að átta sig á því hver af ummælunum eru talin saknæm og verjast þannig sakargiftunum í henni. Það er álit dómsins að tilgreina hefði þurft nákvæmar þau ummæli sem talin eru varða við fyrrgreint refsiákvæði til þess að uppfylltar væru kröfur c-liðar 1. mgr. 152. gr. laganna um skýrleika ákæru.
Í c-lið 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga segir enn fremur að greina skuli í ákæru heiti brots að lögum. Orðin „hatursorðræða“ og „útbreiðsla haturs“ er ekki að finna í 233. gr. a almennra hegningarlaga sem ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn. Í þessari lagagrein segir að hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan sambærilegan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar skuli sæta refsingu eins og lýst er í lagagreininni. Að tilgreina ranglega heiti brots í ákærunni hlýtur að teljast verulegur galli á henni.
Ofangreindir annmarkar á ákærunni þykja vera slíkir að ekki verði komist hjá því að vísa henni frá dómi.
Ríkissjóður greiði 716.100 króna málsvarnarlaun Jón Steinars Gunnlaugssonar hrl. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málsvarnarlauna.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Þóknun skipaðs verjanda ákærða, Jón Steinars Gunnlaugssonar hrl., 716.100 krónur greiðast úr ríkissjóði.