Hæstiréttur íslands
Mál nr. 15/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Ábyrgð
- Gjalddagi
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2015. |
|
Nr. 15/2015.
|
Stefán Kjærnested (Lúðvík Örn Steinarsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Lánssamningur. Ábyrgð. Gjalddagi. Fyrning.
Árið 2007 gerði L hf. lánssamning við H ehf. og gekkst S í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu hluta lánsfjárhæðarinnar. Afborganir og vextir voru greiddir af láninu til og með gjalddaga 10. september 2008, en upp frá því voru engar greiðslur inntar af hendi. Með bréfi 2. mars 2009 beindi L hf. til H ehf. kröfu um greiðslu á nánar tilgreindum fjárhæðum sem hefðu átt að greiðast á tímabilinu frá 10. október 2008 til 10. febrúar 2009. Samhliða þessu fékk S bréf frá L hf. þar sem honum var tilkynnt að skuldin væri í vanskilum. Þá beindi L hf. innheimtubréfi 30. mars 2009 til S þar sem hann var krafinn um greiðslu sömu skuldar að viðbættum fjárhæðum sem hefði fallið í gjalddaga 10. þess mánaðar, en þar var jafnframt greint frá því að „ógjaldfallnar eftirstöðvar“ skuldarinnar næmu tiltekinni fjárhæð. Í öðru innheimtubréfi, sem L hf. sendi S 21. júlí sama ár, kom á hinn bóginn fram sundurliðun á skuld samkvæmt lánssamningnum, þar sem tilgreindar voru fjárhæðir, sem höfðu annars vegar fallið í gjalddaga mánaðarlega frá 10. október 2008 til 14. apríl 2009 og hins vegar verið gjaldfelldar 30. apríl 2009. Þá höfðaði L hf. 28. október 2009 mál á hendur H ehf. og S þar sem meðal annars var tiltekið í stefnu að lánið hafði verið gjaldfellt 30. apríl það ár. Málið var fellt niður að beiðni L hf. í nóvember 2011. Mál þetta var höfðað fyrir héraðsdóm með stefnu 23. apríl 2013. Greindi aðila einkum á um það hvort sjálfskuldarábyrgð S hafði þá verið fallin niður fyrir fyrningu. Með hliðsjón af því sem fram kom í áðurnefndu innheimtubréfi 21. júlí 2009 og stefnu 28. október sama ár var talið að leggja yrði til grundvallar við úrlausn málsins að L hf. hefði ekki fyrr en 30. apríl 2009 neytt heimildar samkvæmt ákvæði lánssamningsins frá 2007 til að gjaldfella þann hluta skuldar samkvæmt honum, sem ekki hafði þá verið kominn í gjalddaga. Hvað sem liði kröfu um afborganir og vexti af skuldinni, sem hefðu verið á gjalddaga fyrir 23. apríl 2009 eftir skilmálum lánssamningsins, gæti sá hluti skuldarinnar, sem hafði verið gjaldfelldur 30. þess mánaðar, ekki verið fallinn niður gagnvart S fyrir fyrningu samkvæmt 4. tölulið 3. gr., sbr. 2. málslið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, enda næmi sá hluti skuldarinnar hærri fjárhæð en þeirri ábyrgð sem S hafði tekist á hendur. Þá var ekki fallist á með S að víkja bæri sjálfskuldarábyrgð hans til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Loks var ekki talið að síðastgreindum lögum nr. 32/2009 yrði beitt um ábyrgð S í máli þessu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindu var S gert að greiða L hf. umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta á rætur að rekja til þess að Landsbanki Íslands hf. gerði samning 30. ágúst 2007 við Húsaleigu ehf. og áfrýjanda um að veita félaginu „fjölmyntalán að jafnvirði samtals kr. 80.000.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: JPY 30% CHF 70%“, meðal annars með þeim skilmála að áfrýjandi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu á 50.000.000 krónum af lánsfjárhæðinni auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar, sem hann tókst á hendur með undirritun samningsins. Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Húsaleigu ehf., sem var að fullu í eigu Framkvæmdaráðs ehf., en áfrýjandi gegndi sömu stöðum hjá því félagi og var þar eini hluthafinn. Lánið, sem samningurinn tók til, var greitt út 3. september 2007 með innborgun á 79.190.000 krónum á reikning Húsaleigu ehf. við bankann. Átti lánið að bera svonefnda LIBOR vexti með 2,1% álagi, en endurgreiðslum að verða hagað þannig að mánaðarlegar afborganir af höfuðstól og vaxtagreiðslur yrðu 60 talsins, í fyrsta sinn 10. október 2007. Fyrstu 59 skiptin átti hverju sinni að endurgreiða 1/240 hluta af höfuðstól skuldarinnar, en 181/240 hluta á lokagjalddaga 10. september 2012. Í samningnum voru ákvæði um afleiðingar vanefnda, þar á meðal um að lánveitandanum væri „heimilt að fella lán skv. samningi þessum í gjalddaga einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar ... ef vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta hafa varað í 14 daga eða lengur.“
Fyrir liggur að afborganir og vextir voru greiddir af framangreindu láni fyrstu tólf skiptin eða til og með gjalddaga 10. september 2008, en upp frá því munu engar greiðslur hafa verið inntar af hendi. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., leysa stjórn félagsins frá störfum og setja yfir það skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. sama mánaðar var nánar tilgreindum eignum félagsins ráðstafað til nýs banka, sem nú ber heiti stefnda, og er óumdeilt að réttindi samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi hafi verið meðal þeirra.
Stefndi beindi bréfi 2. mars 2009 til Húsaleigu ehf. með yfirskriftinni „lokaaðvörun“, þar sem krafist var greiðslu á nánar tilgreindum fjárhæðum í krónum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Samkvæmt bréfinu námu þessar fjárhæðir afborgunum, vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði, sem hafi átt að greiðast eftir hljóðan áðurnefnds lánssamningsins á fimm mánaðarlegum gjalddögum á tímabilinu frá 10. október 2008 til 10. febrúar 2009. Samhliða þessu sendi stefndi bréf til áfrýjanda, þar sem honum var tilkynnt að sama skuld, sem hann stæði í sjálfskuldarábyrgð fyrir, væri í vanskilum. Þá beindi stefndi innheimtubréfi 30. mars 2009 til áfrýjanda, þar sem hann var krafinn um greiðslu sömu skuldar að viðbættum fjárhæðum, sem hafi fallið í gjalddaga 10. mars 2009, en þar var jafnframt greint frá því að „ógjaldfallnar eftirstöðvar“ skuldarinnar næmu tiltekinni fjárhæð. Í öðru innheimtubréfi, sem stefndi sendi áfrýjanda 21. júlí 2009, kom á hinn bóginn fram sundurliðun á skuld samkvæmt lánssamningnum, þar sem tilgreindar voru fjárhæðir, sem hafi annars vegar fallið í gjalddaga mánaðarlega frá 10. október 2008 til 14. apríl 2009 og hins vegar verið gjaldfelldar 30. apríl 2009. Ekki liggur fyrir í málinu hvort áfrýjandi hafi brugðist við þessum bréfum, en stefndi höfðaði mál á hendur honum og Húsaleigu ehf. með stefnu 28. október 2009, þar sem krafist var að félagið yrði dæmt til að greiða stefnda 172.195.310 krónur, þar af 50.000.000 krónur óskipt með áfrýjanda, auk nánar tilgreindra dráttarvaxta og málskostnaðar. Krafan um dráttarvexti tók mið af því að tilteknar fjárhæðir af höfuðstól skuldarinnar hafi fallið í gjalddaga mánaðarlega á tímabilinu frá 10. október 2008 til 14. apríl 2009, en eftirstöðvar höfuðstólsins 30. apríl 2009. Var jafnframt tiltekið í stefnunni að lánið „var gjaldfellt þann 30.04.2009“. Málið, sem hér um ræðir, virðist hafa verið þingfest 15. desember 2009, en í þinghaldi 16. nóvember 2011 óskaði stefndi eftir að það yrði fellt niður, sem mun hafa verið gert í framhaldi af því.
Áður en síðastgreind atvik gerðust tilkynnti stefndi Húsaleigu ehf. með bréfi 12. október 2011 að skuld samkvæmt lánssamningnum frá 30. ágúst 2007 hafi verið endurreiknuð vegna ólögmætra ákvæða hans um bindingu fjárhæðar hennar við gengi erlendra gjaldmiðla, en með þessu hafi eftirstöðvar skuldarinnar lækkað úr 243.830.158 krónum í 113.367.739 krónur. Stefndi höfðaði loks mál þetta á hendur áfrýjanda 23. apríl 2013 til greiðslu á 50.000.000 krónum ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 17. október 2012 til greiðsludags og málskostnaði. Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisir stefndi þessa kröfu á sjálfskuldarábyrgð áfrýjanda á 50.000.000 krónum af höfuðstól skuldarinnar samkvæmt lánssamningnum, en tekið var þar fram að aðalskuldaranum, Húsaleigu ehf., væri „ekki stefnt að þessu sinni“ sökum „hugsanlegrar óvissu um nákvæma stöðu lánsins“ vegna dóma Hæstaréttar í nánar tilteknum málum um uppgjör gengistryggðra skuldbindinga.
II
Í samræmi við það, sem fram kom í áðurnefndu innheimtubréfi 21. júlí 2009 og stefnu 28. október sama ár, verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stefndi hafi ekki fyrr en 30. apríl 2009 neytt heimildar samkvæmt ákvæði lánssamningsins frá 30. ágúst 2007 til að gjaldfella þann hluta skuldar samkvæmt honum, sem ekki var þá kominn í gjalddaga eftir skilmálum um greiðslu afborgana og vaxta af henni. Mál þetta var sem fyrr segir höfðað 23. apríl 2013. Hvað sem líður kröfu um afborganir og vexti af skuldinni, sem voru á gjalddaga fyrir 23. apríl 2009 eftir skilmálum lánssamningsins, getur sá hluti skuldarinnar, sem var gjaldfelldur 30. þess mánaðar, ekki verið fallinn niður gagnvart áfrýjanda fyrir fyrningu samkvæmt 4. tölulið 3. gr., sbr. 2. málslið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér eiga við eftir 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þótt stefndi hafi eins og áður greinir lýst því í héraðsdómsstefnu að hann teldi óvissu uppi um nákvæma fjárhæð kröfu sinnar á hendur aðalskuldaranum samkvæmt lánssamningnum, er engum vafa háð eins og málið liggur fyrir að sá hluti skuldarinnar, sem var gjaldfelldur 30. apríl 2009, nemi hærri fjárhæð en þeirri ábyrgð áfrýjanda, sem hann tókst á hendur og stefndi leggur til grundvallar dómkröfu sinni gegn honum. Að þessu gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður niðurstaða hans staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Stefán Kjærnested, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2014.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. október sl., er höfðað af Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, á hendur Stefáni Kjærnested, Sólvallagötu 63, Reykjavík, með stefnu birtri 23. apríl 2013.
Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 50.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2012 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
II.
Mál þetta er til komið vegna sjálfskuldarábyrgðar er stefndi tókst á hendur gagnvart Landsbanka Íslands hf. vegna láns bankans til Húsaleigu ehf. að jafnvirði 80.000.000 króna. Var lán þetta svokallað fjölmyntalán til fimm ára og sagði í lánssamningi, sem undirritaður var 30. ágúst 2007, að lánið væri veitt í eftirgreindum myntum og hlutföllum: CHF 70% og JPY 30%. Skyldi lánið greiðast með 60 mánaðarlegum afborgunum með lokagjalddaga 10. september 2012. Fram kemur í gr. 11.2 í samningnum að til frekari tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra skuldbindinga samkvæmt samningnum takist stefndi á hendur sjálfskuldarábyrgð á fjárhæð samkvæmt samningnum sem nemi 50.000.000 króna. Taki ábyrgðin til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar sem af vanskilum kunni að leiða. Gildi ábyrgðin jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum samkvæmt samningnum.
Með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 9. október 2008 að ráðstafa öllu eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankans hf., stefnanda í máli þessu.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar hinn 9. júní 2011, í málinu nr. 155/2011, ákvað stefnandi að endurútreikna eftirstöðvar umrædds láns til Húsaleigu ehf. á þeim forsendum að lánssamningurinn væri líkur samningi sem Hæstiréttur hefði komist að niðurstöðu um í fyrrgreindu máli að væri skuldbinding í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, sem stríddi gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001. Var lánið endurútreiknað miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001, sbr. og lög nr. 151/2010. Miðaðist endurútreikningurinn við 11. október 2011, en skilmálar lánsins, aðrir en um vexti og gengistryggingu, héldust óbreyttir.
III.
Stefnandi byggir á því að skv. gr. 10.2 í umræddum lánssamningi Landsbanka Íslands hf. og Húsaleigu ehf. hafi stefndi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á fjárhæð samkvæmt samningnum sem nemi 50.000.000 króna. Taki ábyrgðin til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar sem af vanskilum kunni að leiða. Gildi ábyrgðin jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum samkvæmt samningnum.
Bent sé á að lokagjalddagi lánsins hafi verið 10. september 2012 og hafi lánið því allt verið fallið í gjalddaga. Vegna hugsanlegrar óvissu um nákvæma stöðu lánsins vegna réttaróvissu í kjölfar dóms er gengið hafi í Hæstarétti 15. febrúar 2012, í máli nr. 600/2011, sé aðalskuldara, Húsaleigu ehf., ekki stefnt í þetta sinn, en félagið sé í eigu Framkvæmdaráðs ehf., sem sé aftur að öllu leyti í eigu stefnda. Lántaki hafi fengið greiddar til sín 79.190.000 krónur, að teknu tilliti til lántökugjalds og kostnaðar við skjalagerð. Þá nemi heildarendurgreiðslur vegna lánsins 9.198.353 krónum, en síðasta innborgun hafi borist 11. september 2008. Samkvæmt því sé augljóst að eftirstöðvar lánsins séu mun hærri en sem nemi hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðar stefnda í málinu. Síðasta innheimtuviðvörun hafi verið send stefnda 17. september 2012 og sé krafist dráttarvaxta úr hendi stefnda einum mánuði frá dagsetningu hennar, með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Byggt sé á meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og efndaskyldu loforða, þ. á m. ábyrgðaskuldbindinga.
IV.
Stefndi byggir á því að krafa stefnanda sé niður fallin vegna fyrningar, að öllu leyti eða hluta, enda reiknist fyrningarfrestur krafna sem stofnist vegna vanefnda frá þeim degi þegar samningur sé vanefndur, en ekki hafi verið greitt af kröfu stefnanda síðan í september 2008 og almennur frestur kröfuréttinda sé fjögur ár. Því sé mótmælt að stefnanda sé heimilt að miða gjalddaga kröfunnar við síðustu innheimtuviðvörun sem send hafi verið stefnda, enda standi engin lagaheimild til þess að seinka þannig upphafstíma fyrningarfrests. Sé í því sambandi bent á að í málinu liggi fyrir lokaviðvörun stefnanda, dags. 2. mars. 2009. Verði stefnanda talið þetta heimilt yrði með því farið á skjön við lög um fyrningu kröfuréttinda. Hér sé og til þess að líta að stefnandi hafi fengið dóm yfir aðalskuldara láns í sambærilegu máli, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1014/2011, þar sem gjaldfelling lánasamningsins hafi miðast við fyrstu vanskil. Telji stefndi ótvírætt að hið sama eigi við í máli þessu enda verði að gera ríkar kröfur til aðila eins og stefnanda, í aðstöðu sem þessari, sérstaklega gagnvart einstaklingum sem bankinn hafi látið undirgangast sjálfskuldarábyrgðir. Trauðla geti gengið að aðila eins og stefnda sé í sjálfsvald sett hvenær upphafsdagur fyrningar sé, þvert á fyrirmæli laga um fyrningu, en um lánasamninginn í máli þessu gildi lög nr. 14/1905, sbr. gildistökuákvæði laga nr. 150/2007.
Á því sé einnig byggt að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri umræddan lánasamning fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Einnig sé hvað þetta varði vísað til ákvæðis til bráðabirgða í VII. kafla laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, þar sem fram komi að heimilt sé að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 og að teknu tilliti til þeirra atvika er leitt hafi til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. nr. 125/2008. Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að fjárhagsvandræði Húsaleigu ehf. megi rekja beint til þeirra atvika sem leitt hafi til setningar laga nr. 125/2008. Fyrir þann tíma hafi Húsaleiga ehf. staðið í skilum með skuldbindingar sínar en í kjölfar þess hruns sem orðið hafi á fjármálamarkaði í október 2008 hafi rekstur fyrirtækisins jafnframt hrunið. Um leið hafi stefndi þar með að mestu orðið tekjulaus.
Stefndi sé eignalaus, fyrir utan þann hlut sem hann eigi í Húsaleigu ehf., og sé svigrúm hans til að standa við skuldbindingar sínar við stefnanda samkvæmt sjálfskuldarábyrgðinni því ekkert. Þar sem ljóst sé að það yrði sýnu þungbærara fyrir stefnda að verða dæmdur til að greiða stefnanda umrædda fjárhæð en fyrir stefnanda að stefndi yrði sýknaður af kröfu stefnanda vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar beri að víkja samningi aðila vegna ábyrgðarinnar til hliðar, enda verði að telja það ósanngjarnt og/eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.
Jafnframt sé vísað til markmiðs og ákvæða samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Telji stefndi að jafnvel þótt samkomulagið taki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til notkunar ábyrgða á skuldum einstaklinga beri að byggja á meginreglum þess, annað hvort með beinum hætti eða þannig að það samkomulag sé haft til hliðsjónar þegar metið sé hvort víkja beri ábyrgð til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Markmið samkomulagsins, sbr. 1. gr. þess, sé í öllu falli það að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga almennt og að lánveitingar skuli miðaðar við greiðslugetu greiðenda. Verði að telja ljóst að öll skilyrði tilvitnaðrar 36. gr. og ábyrgðar ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 32/2008 séu uppfyllt þannig að víkja megi sjálfskuldarábyrgð stefnda til hliðar og sýkna hann af dómkröfum í máli þessu.
Vegna varakröfu um verulega lækkun á dómkröfu stefnanda sé vísað til þess að a.m.k. hluti dómkröfunnar, þar á meðal hluti dráttarvaxta, sé niður fallinn vegna fyrningar. Einnig sé á því byggt vegna þessarar varakröfu að umræddum samningi aðilanna beri að víkja til hliðar að hluta þannig að sanngjörn niðurstaða fáist í málið, með hliðsjón af sömu sjónarmiðum og stefndi vísi til vegna sýknukröfu sinnar.
V.
Niðurstaða
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að krafa stefnanda á hendur honum sé fyrnd að öllu leyti eða að hluta. Um fyrningu á umræddri kröfu fer eftir ákvæðum þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en til kröfunnar stofnaðist með undirritun stefnda sem sjálfskuldarábyrgðaraðila undir fyrrgreindan lánssamning stefnanda og Húsaleigu ehf. hinn 30. ágúst 2007. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laganna er fyrningarfrestur á kröfu stefnanda á hendur stefnda fjögur ár og skv. 2. málslið 2. mgr. 5. gr. telst sá frestur frá þeim degi er krafan á hendur stefnda sem ábyrgðarmanni varð gjaldkræf í raun og veru, jafnvel þótt ábyrgðarkrafan hefði getað fallið fyrr í gjalddaga fyrir uppsögn á aðalkröfunni. Samkvæmt gr. 12.1 í umræddum lánasamningi var stefnanda heimilt að gjaldfella lánið samkvæmt samningnum einhliða, fyrirvaralaust og án viðvörunar þegar vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta höfðu varað í 14 daga eða lengur. Verður að líta svo á að stefnandi hafi þurft að sýna í verki að hann vildi beita þeim rétti sem í framangreindu ákvæði fólst. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi ekki gert neinn reka að gjaldfellingu lánsins, eða í það minnsta að tilkynna stefnda að hún hefði átt sér stað, fyrr en með innheimtubréfi, dags. 21. júlí 2009. Þannig verður hvorki ráðið af svokallaðri lokaviðvörun, dags. 2. mars 2009, sem einungis virðist hafa verið beint að aðalskuldara lánsins, né innheimtubréfi, dags. 30. mars 2009, að lánið hafi á þeim tíma verið gjaldfellt. Hins vegar kemur bæði fram í innheimtubréfi stefnanda til stefnda, dags. 21. júlí sama ár, og þeirri stefnu sem stefnandi gaf út á hendur aðalskuldara lánsins og stefnda hinn 28. október 2009, í máli sem fellt var niður að kröfu stefnanda, að lánið hefði verið gjaldfellt hinn 30. apríl það ár. Þar sem ekkert er fram komið í málinu um annað verður því hér við það að miða að fyrningarfrestur kröfu stefnanda gagnvart stefnda hafi byrjað að líða þann dag, eða 30. apríl 2009. Þar sem mál þetta var höfðað innan loka fyrningarfrests kröfunnar, eða hinn 23. apríl 2013, verður að hafna framangreindri málsástæðu stefnda um að krafa stefnanda á hendur honum sé fyrnd.
Þá vísar stefndi til þess að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri umræddan lánasamning fyrir sig, sbr. 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og ákvæði til bráðabirgða í VII. kafla laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Telur hann að víkja beri ábyrgð stefnda til hliðar af þessum sökum og verði þá einnig við mat á því að horfa til markmiðs og ákvæða „samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“. Samkomulagi þessu er þó ekki lýst nánar og liggur það ekki fyrir í málinu. Þegar af þeirri ástæðu, og einnig því sem fram kemur í greinargerð stefnda að samkomulagið taki samkvæmt orðanna hljóðan ekki til ábyrgðar stefnda þar sem það nái einungis til ábyrgða á skuldum einstaklinga, verður ekki til þess horft við úrlausn málsins.
Í 2. mgr. 2. laganna nr. 32/2009 kemur fram að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gangist persónulega í ábyrgð eða veðsetji tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Er tekið fram í áliti viðskiptanefndar Alþingis um frumvarpið til laganna að með eigin atvinnurekstri sé átt við atvinnurekstur þar sem viðkomandi þiggi meginhluta launa sinna. Þar sem fram kemur í greinargerð stefnda að hann hafi verið eigandi Húsaleigu ehf. og orðið að mestu tekjulaus er rekstur þess félags hrundi verður þegar af þeirri ástæðu að hafna því að lögum nr. 32/2009 verði beitt um ábyrgð stefnda í máli þessu.
Fram kemur í 36. gr. laga nr. 7/1936 að við mat á því hvort víkja beri samningi til hliðar í heild eða að hluta, á þeim grundvelli að ósanngjarnt verði talið eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, skuli horfa til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Er það mat dómsins að stefndi hafi ekki sýnt fram á neinar þær ástæður sem leitt geta til þess að samningi aðila verði breytt eða honum vikið til hliðar með vísan til framangreindra sjónarmiða.
Með vísan til framangreinds, og þar sem sjónarmið um brostnar forsendur geta heldur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að víkja beri ábyrgð stefnda til hliðar að hluta eða öllu leyti, verður öllum málsástæðum stefnda þar að lútandi hafnað. Samkvæmt því verður krafa stefnanda í málinu tekin til greina.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Stefán Kjærnested, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 50.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2012 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.