Hæstiréttur íslands
Mál nr. 264/2003
Lykilorð
- Banki
- Löggerningur
- Brostnar forsendur
- Ógilding
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2004. |
|
Nr. 264/2003. |
Sparisjóður Ólafsfjarðar (Árni Pálsson hrl.) gegn Jóni Ingvari Þorvaldssyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. Reimar Pétursson hdl.) og gagnsök |
Bankar. Löggerningur. Brostnar forsendur. Ógilding. Sératkvæði.
Deila málsaðila átti rætur að rekja til þess að Þ, bróðir J, hafði sem sparisjóðsstjóri hjá S bundið sparisjóðinn við ábyrgðarskuldbindingar án heimildar. Greiddi J fjórar greiðslur vegna slíkra ábyrgða, samtals 53.992.341 krónu, gegn loforði um að S legði ekki fram kæru á hendur bróður J vegna þeirra. Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands vísaði málinu til opinberrar rannsóknar og var Þ ákærður og dæmdur fyrir brot í starfi sínu sem sparisjóðsstjóri. Náði sakarefnið meðal annars til veitinga þriggja af þeim fjórum ábyrgðum sem J greiddi. Krafði J sparisjóðinn um endurgreiðslu umræddra fjármuna og vísaði til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og sjónarmiða um brostnar forsendur. Var talið að greiðslurnar hefðu verið lán J til Þ til að greiða þessar skuldbindingar og að ekki hefði stofnast löggerningur milli J og S, sem unnt væri að ógilda á grundvelli þessa lagaákvæðis. Ekki var fallist á að sjónarmið um forsendubrest gætu átt við í málinu og var S sýknaður af kröfu J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júlí 2003. Hann krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda og sér dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Málinu var gagnáfrýjað 23. júlí 2003. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega, að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 53.992.341 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 5. gr., en til vara IV. kafla, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. september 2001 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvik og málsástæður aðila eru skýrlega rakin í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram lýtur krafa gagnáfrýjanda að fjórum greiðslum, sem hann innti af hendi vegna ábyrgðarskuldbindinga, sem bróðir hans hafði án heimildar veitt í nafni aðaláfrýjanda í starfi sínu sem sparisjóðsstjóri. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á úrlausn hans um greiðslur 3. september 1997 og 5. mars 1998. Um tildrög greiðslna 20. desember 1999 og 19. janúar 2001 verður að líta svo á, að bróðir gagnáfrýjanda hafi átt frumkvæði að þeim og þær hafi í raun verið lán til bróðurins, eins og fyrri greiðslur, til að mæta hinum óheimilu ábyrgðarskuldbindingum, sem að öðrum kosti hefðu fallið á aðaláfrýjanda. Þótt aðaláfrýjandi hafi veitt gagnáfrýjanda yfirdráttarheimild á tvo bankareikninga í þessu skyni var ekki fyrir hendi löggerningur þeirra í milli, sem unnt væri að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Samkvæmt þessu og þar sem ekki verður fallist á, að sjónarmið um forsendubrest geti hér skipt máli, verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.
Rétt er, að gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Sparisjóður Ólafsfjarðar, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Jóns Ingvars Þorvaldssonar.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur.
Sératkvæði
Hrafns Bragasonar hæstaréttardómara
Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Þar kemur fram að málið varðar fjórar greiðslur gagnáfrýjanda á ábyrgðum aðaláfrýjanda í þágu viðskiptamanna sparisjóðsins, 3. september 1997, 5. mars 1998, 20. desember 1999 og 19. janúar 2001. Bróðir gagnáfrýjanda hafði sem sparisjóðsstjóri skuldbundið aðaláfrýjanda við þessar ábyrgðir án heimildar. Ljóst var því að bróðirinn, sem hafði orðið að láta af störfum, var skaðabótaskyldur gagnvart aðaláfrýjanda. Fékk hann gagnáfrýjanda til að aðstoða sig við greiðslur þessara ábyrgða gegn því að aðaláfrýjandi kærði hann ekki til lögregluyfirvalda vegna þeirra og þeim yrði þannig haldið utan lögreglurannsóknar, sem hafin var. Fyrri greiðslurnar tvær voru greiddar af bróðurnum án sérstakrar fyrirgreiðslu aðaláfrýjanda. Ber að staðfesta héraðsdóm að því er þær varðar með vísun til forsenda hans.
Gagnáfrýjandi greiddi hinar tvær ábyrgðirnar og veitti aðaláfrýjandi honum sérstaka fyrirgreiðslu í formi yfirdráttarheimildar á tvo bankareikninga í því skyni og skuldbatt hann sig þannig persónulega gagnvart aðaláfrýjanda að endurgreiða þessi lán. Stjórnendum aðaláfrýjanda var kunnugt um til hvers þetta lán gagnáfrýjanda var fengið og ljóst að greiðsla hans á ábyrgðunum var án nokkurrar skyldu og gerð í því skyni að þeim yrði haldið utan lögreglurannsóknarinnar. Gera verður ríkar kröfur til fjármálastofnana um vandvirkni og varúð í viðskiptum. Af gögnum málsins kemur fram að stjórnendum aðaláfrýjanda mátti vera vel kunnugt um fjárhagsstöðu fyrrum sparisjóðsstjóra og yrðu ábyrgðirnar ekki greiddar af gagnáfrýjanda væru yfirgnæfandi líkur fyrir því að þeir sætu uppi með tapið. Það stríðir gegn þjóðfélagshagsmunum að áskilja sér rétt til fjár gegn því að tilkynna ekki um ákveðna brotastarfsemi til lögregluyfirvalda. Það getur því ekki flokkast undir góða viðskiptahætti að notfæra sér aðstöðu gagnáfrýjanda, sem á engan hátt var að lögum skyldur til að greiða ábyrgðirnar. Af þessu leiðir og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms varðandi þessar tvær síðari greiðslur að staðfesta ber dóminn um annað en málskostnað. Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. apríl 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 14. mars s.l., hefur Jón Ingvar Þorvaldsson, Túngötu 3, Ólafsfirði, höfðað hér fyrir dómi gegn Sparisjóði Ólafsfjarðar, Aðalgötu 14, Ólafsfirði, með stefnu áritaðri af lögmanni sjóðsins um nægjanlega birtingu þann 30. maí 2002.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 53.992.341,- með dráttarvöxtum skv. 5. gr., en til vara IV. kafla, laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. september 2001 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hans hendi. Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Í máli þessu er deilt um hvort stefnda beri að endurgreiða stefnanda fjármuni sem inntir voru af hendi á starfsstöð sparisjóðsins vegna ábyrgða sem bróðir stefnanda hafði tekist á hendur í starfi sínu sem sparisjóðsstjóri f.h. sjóðsins án heimildar. Kveðst stefnandi hafa greitt umræddar skuldbindingar stefnda og byggir annars vegar á því að forsenda fyrir greiðslunum hafi brostið en hins vegar á 36. gr. samningalaga.
Bróðir stefnanda, Þorsteinn Þorvaldsson, hóf störf sem sparisjóðsstjóri stefnda árið 1983. Á árunum 1995-1996 komu upp grunsemdir um að ekki væri allt með felldu í fjármálastjórn stefnda viðvíkjandi lánveitingum og ábyrgðum. Bankaeftirlitið tók málið til athugunar og skilaði um það skýrslu 17. mars 1997 sem kynnt var stjórn stefnda á fundi þann 5. júní 1997. Í skýrslunni kom m.a. fram að þrír aðilar eða fjárhagslega tengdir aðilar voru með heildarskuldbindingar yfir 40 % af eigin fé sjóðsins. Leiddu þessar upplýsingar til þess að Þorsteinn sagði á nefndum stjórnarfundi af sér sem sparisjóðsstjóri stefnda.
Síðar kom í ljós að Þorsteinn hafði skuldbundið stefnda við ábyrgðir án þess að hafa borið það undir stjórn stefnda. Óumdeilt er að í þeim tilvikum hafi verið um að ræða ábyrgðir í þágu viðskiptamanna sparisjóðsins sem Þorsteinn naut ekki persónulegs ávinnings af. Þorsteinn leitaði til stefnanda í þeim fjórum tilvikum sem um ræðir í máli þessu þegar ljóst var orðið að viðkomandi aðilar myndu ekki standa við skuldbindingar sínar og að ábyrgðirnar myndu falla á stefnda.
Fyrsta tilvikið var vegna víxils að fjárhæð kr. 20.000.000,-. Stefndi var úgefandi víxilsins en fyrirtækið Kaldari ehf. samþykkjandi. Gjalddagi víxilsins var 3. september 1997. Víxillinn var ekki meðal skráðra ábyrgða hjá stefnda og vissi stefndi því ekki um tilvist hans er Þorsteinn lét af störfum. Tilkynning um gjalddaga víxilsins var send stefnda en beint til Þorsteins. Er tilkynningin barst stefnda hafði Þorsteinn látið af störfum en systir stefnanda og Þorsteins, starfsmaður stefnda, tók hana til hliðar án vitundar annarra starfsmanna stefnda.
Stefnandi kveðst hafa útvegað sér peningalán í Íslandsbanka hf. og innt kr. 20.000.000,- af hendi á gjalddaga umrædds víxils. Heldur stefnandi því fram að þá hafi hann ekki haft neina vitneskju um að fleiri viðlíka tilvik ættu eftir að koma fram síðar. Stefndi aftur á móti lýsir atvikum að fyrstu greiðslunni svo að í skýrslu stefnanda hjá lögreglu megi finna frásögn hans af því hvernig hann hafi komið að greiðslu víxilsins. Þorsteinn hafi komið til stefnanda og sagt honum að tryggingar sem stefndi hefði fyrir víxlinum hefðu brugðist. Stefnandi hafi því lánað Þorsteini persónulega umrædda fjárhæð sem átt hafi að endurgreiða þegar greiðslur bærust samkvæmt þeim tryggingum sem Þorsteinn hafi talið sig hafa. Þorsteinn hafi staðfest þessa skýringu stefnanda fyrir lögreglu. Forráðamenn stefnda hafi engan þátt átt í því að víxillinn var greiddur.
Annað tilvikið var vegna skuldabréfalána sem Þorsteinn lét stefnda taka hjá Verðbréfasjóðnum hf. í Reykjavík í þágu Vélsmiðjunnar Nonna ehf. Bréf þessi gjaldféllu 4. mars 1998. Vegna þessara lána voru greiddar kr. 20.282.641,- þann 5. mars 1998.
Hvað þetta tilvik varðar segist stefnandi hafa talið að greiðslan frá í september 1997 myndi verða lítils virði til að forða bróður sínum frá refsiábyrgð ef nefnd skuldabréfalán yrðu ekki greidd líka. Hann hafi því 5. mars 1998 greitt nefnda fjárhæð inn til stefnda með fjórum tékkum dags. 4. mars 1998. Greiðslan hafi síðan verið færð samdægurs yfir til Verðbréfasjóðsins hf. Stefndi lýsir atvikum að öðru tilvikinu hins vegar svo að Þorsteinn hafi leitað til Rúnars Sigvaldasonar og fengið hjá honum lán að fjárhæð um kr. 10.000.000,-. Stefnandi hafi því ekki greitt umrædd skuldabréf nema að hluta. Í skýrslu stefnanda hjá lögreglu komi fram að hann hafi lánað Þorsteini það sem upp á vantaði eftir að hann hafði fengið lánið frá Rúnari. Bendir stefndi í þessu sambandi á framlagt veðskuldabréf að fjárhæð kr. 12.000.000,- og kveður skuldabréfið staðfesta að um persónulegt lán hafi verið að ræða líkt og stefnandi og Þorsteinn hafi haldið fram hjá lögreglu. Lán þetta hafi ekki verið fengið fyrir atbeina stefnda og starfsmenn sjóðsins engin afskipti haft af þessu tilviki frekar en hinu fyrsta. Stefnandi hafi engin samskipti átt við stefnda vegna þessarar greiðslu. Þorsteinn bróðir hans hafi hins vegar haft samband við stjórnarmann stefnda og spurt hvort kært yrði vegna ábyrgðarveitingarinnar, sbr. það sem fram komi í lögregluskýrslu núverandi sparisjóðsstjóra stefnda. Þorsteini hafi í kjölfarið verið tjáð að kæra yrði ekki lögð fram ef bréfin yrðu greidd og við það hafi verið staðið.
Þriðja tilvikið varðar skuldabréf sem féll í gjalddaga 18. desember 1999. Bréfið gaf Þorsteinn út í þágu Vélsmiðjunnar Nonna ehf. en í nafni stefnda 18. desember 1996 til Hlutabréfasjóðs Norðurlands. Bréfið var greitt upp 20. desember 1999 með kr. 6.484.333,-.
Stefnandi kveðst hafa greitt síðastnefnda skuld og hafa haft fyrir því sömu forsendur og fyrr. Stefndi kveður aðdraganda greiðslunar hins vegar hafa verið þann að eins og í fyrri tilvikunum hafi stefnandi aldrei haft samband við stefnda. Þorsteinn hafi haft samband og spurt eftir því hvort kært yrði ef bréfið yrði greitt og fengið sama svar og áður. Við það loforð hafi stefndi staðið. Í lögregluskýrslum bræðranna komi fram sömu skýringar og áður á ástæðum þess að stefnandi lagði fram það fé sem greitt var með, þ.e. að um hafi verið að ræða persónulegt lán til Þorsteins.
Fjórða tilvikið og það síðasta sem um ræðir í málinu kom þannig til að 17. janúar 2000 sendi Magnús Brandsson sparisjóðsstjóri stefnda Þorsteini Þorvaldssyni bréf. Tilefni bréfasendingarinnar var að stefndi hafði þá fengið vitneskju um skuldabréf sama efnis og um ræðir í tilviki þrjú en með gjalddaga 18. desember 2001. Tók Magnús fram í bréfinu að málið yrði kært til ríkissaksóknara ef skuldin yrði ekki greidd fyrir kl. 17:00 þennan sama dag. Skuldin var greidd að fullu þann 19. janúar 2001 með kr. 7.225.367,-.
Stefnandi kveðst hafa greitt skuld skv. síðastnefndu skuldabréfi og haft fyrir því sömu forsendur og áður. Stefndi lýsir atvikum að þessu tilviki hins vegar svo að sjóðurinn hafi í tengslum við sölu á stofnfé í sparisjóðnum fengið vitneskju um skuldabréf í eigu Hlutabréfasjóðs Norðurlands. Í kjölfarið hafi Þorsteini verið skrifað framangreint bréf. Stefndi kveður stefnanda ekki hafa rætt við starfsmenn stefnda vegna þessa tilviks. Þá hafi Þorsteinn ekki verið ákærður vegna þessarar lánveitingar.
Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands vísaði máli er varðaði starfshætti Þorsteins Þorvaldssonar sem sparisjóðsstjóra stefnda til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglu-stjórans með bréfi dags. 10. júlí 1997. Skýrsla var fyrst tekin af Þorsteini vegna málsins hjá lögreglu 4. mars 1998. Þá voru skýrslur teknar af stefnanda og Þorsteini hjá lögreglu í byrjun mars 2001 og ákæra gefin út á hendur Þorsteini 21. s.m. Meðal ákæruefna voru sakargiftir fyrir að hafa bundið sparisjóðinn við ábyrgðir í fyrstu þremur framangreindu tilvikunum. Dómur var kveðinn upp í málinu þann 18. febrúar 2002 í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Var Þorsteinn þar m.a. sakfelldur vegna ábyrgðargjafar í umræddum þremur tilvikum.
Í ljósi útgáfu ákæru á hendur Þorsteini taldi stefnandi að stefnda bæri að endurgreiða honum þær fjárhæðir sem greiddar voru vegna hinna fjögurra framangreindu tilvika, sbr. bréf lögmanns stefnanda til stefnda dags. 22. ágúst 2001. Með bréfi dags. 12. september 2001 hafnaði stefndi þessum kröfum stefnanda. Höfðaði stefnandi því mál þetta.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að það hafi verið forsenda fyrir greiðslum hans á umræddum kröfum að Þorsteinn bróðir hans yrði ekki látinn sæta refsiábyrgð fyrir að hafa bundið stefnda við ábyrgð á greiðslum þeirra. Stefnandi hafi enga aðra ástæðu haft til að greiða. Stefnda hafi verið forsenda þessi kunn allan tímann. Þar sem forsenda stefnanda hafi brostið beri stefnda að endurgreiða fjárhæðir þær sem stefnandi hafi innt af hendi. Líta verði á allar greiðslurnar í samhengi enda forsendan ein og hin sama að því er þær allar varðar.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að hann hafi þegar greiðslurnar voru inntar af hendi talið sig hafa ástæðu til að ætla að yfirstandandi rannsókn á stjórntökum bróður síns við sparisjóðinn myndi ekki leiða til ákæru og refsiábyrgðar hans nema sparisjóðurinn yrði fyrir beinu fjárhagslegu tjóni. Hann hafi svo sem vitað að mál sparisjóðsins höfðu verið til athugunar hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands á árunum 1996 og 1997 og að athugasemdir eftirlitsins hefðu valdið því að bróðir hans hafði látið af störfum við sparisjóðinn. Hann hafi talið þær athuganir fyrst og fremst lúta að brotum gegn útlánareglum þannig að of mikið fé hefði verið lánað einstökum viðskiptamönnum sparisjóðsins. Hann hafi hins vegar verið viss um að bróðir hans hefði ekki tekið neina fjármuni stefnda til persónulegra nota. Þess vegna væri ekki líklegt að hann yrði látinn sæta meiri ábyrgð en fælist í starfsmissi vegna umræddra misfella í starfi. Þetta hafi verið kringumstæðurnar þegar stefnandi hafi innt fyrstu greiðsluna af hendi í september 1997. Að þessu leyti hafi ekkert breyst fram yfir þann tíma er fjórða greiðslan var innt af hendi. Rannsókn málsins hafi lengi vel miðað afar hægt og hafi stefnandi og Þorsteinn um tíma talið málið úr sögunni.
Í mars 2001 hafi stefnanda hins vegar orðið ljóst að yfir stæði lögreglurannsókn á hendur Þorsteini vegna starfa hans hjá stefnda. Er ákæra var síðan gefin út á hendur Þorsteini hafi sú forsenda brostið sem hann hafi haft fyrir að inna fyrrgreindar greiðslur af hendi til stefnda.
Fyrirsvarsmenn stefnda telur stefnandi hafa vitað eða mátt vita um forsendu hans fyrir öllum greiðslunum fjórum. Til stuðnings þessari fullyrðingu sinni vísar stefnandi til bréfs núverandi sparisjóðsstjóra stefnda dags. 3. janúar 2001 og ummæla þar tengdum fyrstu greiðslunum þremur. Sparisjóðsstjórinn hafi staðfest ummæli sín varðandi greiðslur tvö og þrjú við yfirheyrslu hjá lögreglu í mars 1998 og desember 1999 og einnig fyrir dómi í sakamálinu á hendur Þorsteini.
Stefnandi segir að það áfall sem hann og fjölskyldan öll hafi orðið fyrir þegar frést hafi um ávirðingar Þorsteins í starfi sparisjóðsstjóra hafi verið sérstaklega mikið þar sem fjölskyldan hafði lengi tengst sparisjóðnum og rekstri hans. Þannig hafi faðir þeirra bræðra verið sparisjóðsstjóri næst á undan Þorsteini og ömmubróðir þeirra þar á undan, allt frá stofnun sparisjóðsins árið 1914. Aldrei hafi borið nokkurn skugga á störf þessara manna. Stefnanda hafi því þótt hann hafa heiður fjölskyldunnar að verja auk þess sem hann hafi verið tengdur bróður sínum sterkum böndum og viljað forða honum frá þeim persónulegu þrengingum og niðurlægingu sem óhjákvæmilega fylgi opinberri saksókn.
Auk forsendubrests kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11, 1986. Samkvæmt 1. mgr. sé heimilt að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hið sama eigi við um aðra löggerninga. Í 2. mgr. sé tekið fram að við mat skv. 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika er síðar koma til.
Stefnandi telur engan vafa á því leika að greiðslur stefnanda til stefnda falli undir löggerninga í skilningi 36. gr. samningalaga. Ef litið sé til atvika að greiðslunum og augljósum tilgangi þeirra virðist það vera bersýnilega ósanngjarnt að telja stefnanda bundinn við þær en hann hafi aldrei notið neins af þeim fjármunum sem ábyrgðunum hafi verið ætlað að tryggja. Þá hafi hann innt greiðslurnar af hendi án nokkurrar lagalegrar skyldu. Eini tilgangur hans hafi verið að koma bróður sínum undan opinberri lögsókn og hafi hann haft ástæðu til að ætla að sá tilgangur gengi eftir.
Stefnandi bendir á að verði fallist á að hann eigi ekki að vera bundinn við greiðslurnar verði réttarstaða stefnda hvorki betri né verri en hún var áður en stefnandi greiddi. Sjóðurinn hafi aldrei átt lögvarða kröfu um betri réttarstöðu. Afar ósanngjarnt sé við þessar aðstæður að telja stefnanda bundinn við greiðslurnar þegar eini tilgangur hans með þeim gekk ekki eftir. Vitneskja stefnda um forsendur stefnanda fyrir greiðslunum skipti engu, allt að einu myndi vera afar ósanngjarnt að telja hann bundinn við þær þegar í ljós er komið að forsendurnar gengu ekki eftir.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar. Þá er auk framangreinds vísað til ólögfestra reglna um endurheimtu ofgreidds fjár.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi lánað bróður sínum Þorsteini fé til að greiða skuldir og ábyrgðir sem hann hafði stofnað til í heimildarleysi er hann gegndi starfi sparisjóðsstjóra stefnda.
Stefndi segir það vekja nokkra furðu að stefnandi skuli ekki gera kröfur vegna allra þeirra skuldabréfa sem hann lánaði bróður sínum fé til að greiða. Þorsteinn hafi greitt tvö skuldabréf til viðbótar og fengið lán hjá stefnanda til að greiða þau. Stefnandi hafi lánað stefnda féð þó svo að hann hefði þá vitneskju um að lögreglan hefði upplýsingar um fyrstu þrjú tilvikin. Þetta sýni mögulega best að forsenda að baki lánum stefnanda hafi ekki verið sú ein að koma í veg fyrir ákæru á hendur Þorsteini.
Sýknukröfu sína í málinu byggir stefndi á því að í engu tilviki hafi honum verið kunnugt um að stefnandi hefði lánað bróður sínum féð á grundvelli einhverrar sérstakrar forsendu enda hafi slík forsenda ekkert gildi gagnvart stefnda. Stefnanda hafi hlotið að vera ljóst allan tímann að mál bróður hans var til rannsóknar hjá lögreglu, honum hafi a.m.k. mátt vera það ljóst. Strax 4. mars 1998 hafi Þorsteinn játað stórfelld brot í starfi. Hefði stefnandi spurt bróður sinn út í málsatvik hefði honum ekki getað dulist að ekki skipti sköpum varðandi það hvort ákærða yrði gefin út, hvort umrædd viðskiptabréf yrðu greidd. Það myndi hins vegar skipta verulegu máli við ákvörðun refsingar. Þorsteinn hafi einungis talað um það við starfsmenn stefnda hvort stefndi myndi kæra vegna umræddra tilvika. Aldrei hafi verið talað um málið í heild enda slíkt fráleitt því ekki hafi verið á valdi stefnda að hafa nokkur áhrif þar um.
Svo virðist sem stefnandi hafi vonast til að ekki yrði „kært í málinu“ (sic) ef hann lánaði bróður sínum fé til að greiða skuldabréfin og víxilinn. Þessi forsenda hafi stefnda að sjálfsögðu ekki verið kunn enda hafi stefnandi aldrei talað við starfsmenn sjóðsins áður en lánin voru veitt. Stefnandi hafi staðið í umfangsmiklum rekstri í áratugi svo það sé með ólíkindum ef hann hafi lánað allt þetta fé án þess að kynna sér rækilega þá stöðu sem mál bróður hans var í. Stefnanda hafi að vísu verið vorkun þar sem framburður Þorsteins hjá lögreglu verði ekki skilinn á annan veg en þann að hann hafi sagt honum að forsendur refsimáls á hendur Þorsteini væru ekki fyrir hendi ef þær kröfur sem mál þetta tæki til yrðu greiddar. Af þessu megi ráða að hafi forsendur stefnanda brostið þá hafi það verið vegna þess að Þorsteinn sagði honum ekki rétt frá heldur leyndi því að hann hefði veitt ábyrgðir í heimildarleysi sem leiddu til a.m.k. tugmilljóna tjóns fyrir stefnda auk þeirra ábyrgða sem stefnandi hafi lánað honum til að greiða.
Stefndi bendir á að sjóðurinn hafi samþykkt að kæra ekki ef greitt yrði í tilvikum tvö og þrjú. Við það hafi sjóðurinn staðið og því sé ekki hægt að tala um forsendubrest í þeim tilvikum. Áréttar stefndi að sjóðurinn hafi engin áhrif getað haft á það hvort sú opinbera rannsókn, sem stefnandi hafi vitað að ekki var lokið, leiddi til ákæru eða ekki. Langt sé því seilst með því að byggja á því að forsenda hefði verið af hálfu stefnanda að Þorsteinn yrði ekki ákærður og að stefnda hafi verið um þessa forsendu kunnugt því fyrir liggi að stefnandi hafi engin samskipti haft við stefnda áður en hann lánaði Þorsteini féð.
Stefndi telur að 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936 eigi ekki við í málinu þar sem engir samningar hafi komist á milli aðila málsins. Eina samningssambandið hafi verið milli stefnanda og bróður hans. Þá verði heldur ekki séð að nokkurt slíkt samband hafi stofnast á milli aðila málsins sem jafna megi til löggernings. Stefnandi hafi ekki rætt við starfsmenn stefnda, hvorki áður né eftir að hann lánaði Þorsteini fé. Það að taka við greiðslum frá Þorsteini og koma þeim til eigenda þeirra viðskiptabréfa sem um er að ræða geti ekki falið í sér löggerning þess efnis að honum verði vikið til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7, 1936. Samband milli aðila verði að koma til, einhverjar yfirlýsingar verði að gefa beint og milliliðalaust svo löggerningur verði til milli aðila. Að þessu athuguðu sé ljóst að 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7, 1936 eigi ekki við í málinu.
Fallist dómurinn ekki á það með stefnda að síðastnefnd lagagrein eigi ekki við í málinu verði við mat á þeim atriðum er fram komi í 2. mgr. greinarinnar að líta til þess að stefnandi lánaði bróður sínum það fé sem um er að ræða og fékk fyrir því tryggingar a.m.k. að hluta. Tilgangurinn með greiðslunum hafi verið að draga úr því tjóni sem stefndi hefði hugsanlega orðið fyrir, sbr. fyrirliggjandi lögregluskýrslur. Þar sem ekki hafi verið á forræði stefnda hvort Þorsteinn yrði ákærður eða ekki getur forsenda um það ekki skipt máli við mat á skilyrðum 2. mgr. 36. gr. samningalaga því stefndi hafi að þessu leiti enga aðstöðu umfram stefnanda. Stefndi bendir á að hann gæti orðið fyrir verulegum réttarspjöllum yrði honum gert að endurgreiða stefnanda eins og hann geri kröfu um. Fyrir liggi að með því að takast á hendur þær skuldbindingar sem Þorsteinn gerði í nafni stefnda hafi hann farið út fyrir umboð sitt og með því framið refsiverðan verknað. Stefndi hefði hugsanlega getað varist þessum kröfum gagnvart þeim aðilum sem Þorsteinn greiddi en nú eigi hann ekki kost á að endurkrefja þá um það sem greitt hafi verið. Stefndi eigi ekki kröfu á annan en Þorstein en alls óvíst sé hvort hann geti greitt þessar kröfur.
Stefndi telur ljóst að hugmyndir stefnanda um margnefnda forsendu hans fyrir greiðslunum hafi kviknað eftir að lögregluskýrslur voru teknar af þeim bræðrum. Erfitt sé því að sjá hvernig stefnda hafi getað verið kunnugt um forsenduna. Þá bendir stefndi á að við ákvörðun refsingar Þorsteins fyrir brot hans í starfi sparisjóðsstjóra hafi verið tekið tillit til þess að hann hafði greitt verulegar fjárhæðir til stefnda vegna þess tjóns sem hann olli.
Yfirlýstan tilgang með lögfestingu 36. gr. samningalaga kveður stefndi hafa verið að vernda þá sem stæðu höllum fæti í viðskiptum þar sem annar aðili samnings hefði yfirburða stöðu og þekkingu. Í máli þessu séu aðstæður ekki með þeim hætti. Samkvæmt stefnanda hafi tilgangur hans verið að koma í veg fyrir að brot bróður hans hlytu eðlilega meðferð í dómskerfinu. Fyrir liggi að stefnandi hafði mikla reynslu í viðskiptum. Þá hafi hann vitað eða mátt vita að alls óvíst væri hvort Þorsteinn bróðir hans yrði ákærður. Hann hafi hins vegar tekið áhættuna og geti því ekki krafið stefnda um endurgreiðslu á því fé sem hann lánaði bróður sínum.
Til stuðnings varakröfu sinni um lækkun vísar stefndi sérstaklega til þess að starfsmenn sjóðsins hafi enga hugmynd haft um tilvist áðurnefnds víxils fyrr en nokkru eftir að hann var greiddur. Ekki geti því komið til álita að dæma stefnda til að greiða stefnanda þá fjárhæð með vísan til reglna um forsendubrest eða á grundvelli 36. gr. laga nr. 7, 1936. Talið hafi verið að reglum um brostnar forsendur verði ekki beitt nema viðsemjanda sé kunnugt um forsenduna. Sú hafi augljóslega ekki verið raunin í þessu tilfelli. Þá verði reglum um brostnar forsendur ekki beitt nema samningssamband hafi verið milli aðila en svo hafi ekki verið í þessu tilfelli.
Stefndi kveður liggja fyrir varðandi greiðslu tvö að stefnandi hafi einungis greitt hluta hennar og að hann tók fyrir henni tryggingu í eignum Þorsteins. Hann hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni. Hann hafi eins og í hinum tilvikunum samið beint við bróður sinn um að veita honum lán án nokkurs atbeina stefnda. Upplýst sé að Rúnar Sigvaldason lánaði Þorsteini tæpan helming þessarar greiðslu og samkvæmt bréfi Þorsteins til stefnda dags. 18. mars 2002 verði ekki betur séð en hann hafi sjálfur endurgreitt þessa fjárhæð.
Varðandi greiðslur þrjú og fjögur segir stefndi liggja fyrir að sjóðurinn hafi engin afskipti haft af þriðju greiðslunni. Hún hafi einfaldlega verið greidd án þess að starfsmenn stefnda hefðu þar af nokkur afskipti. Stefndi verði því varla dæmdur til að endurgreiða þá fjárhæð. Varðandi fjórðu greiðsluna þá sé upplýst að áskorun hafi verið beint til Þorsteins, ekki stefnanda. Stefndi bendir sérstaklega á að ekki hafi verið ákært vegna þessarar greiðslu. Stefnandi geti því ekki borið fyrir sig að forsenda hans fyrir greiðslunni hafi brostið.
Óumdeilt er að í þeim tilvikum sem mál þetta varðar var um að ræða ábyrgðir í þágu viðskiptamanna stefnda sem stefnandi og Þorsteinn bróðir hans nutu ekki persónulegs ávinnings af.
Stefndi var skuldari allra þeirra krafna sem um ræðir í málinu, ekki Þorsteinn Þorvaldsson og þaðan af síður stefnandi. Vegna þess hvernig staðið var að stofnun skuldbindinganna af hálfu Þorsteins má hins vegar telja ljóst að Þorsteinn beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnda vegna þess tjóns sem rekja má til ábyrgðarveitinganna.
Fyrir liggur að Þorsteinn Þorvaldsson gekkst f.h. stefnda en án hans heimildar í ábyrgð fyrir greiðslu víxils að fjárhæð kr. 20.000.000,- sem tekinn var í þágu Kaldara ehf. Víxillinn var greiddur á gjalddaga þann 3. september 1997. Fór greiðsla víxilsins þannig fram að stefnandi afhenti gjaldkera hjá stefnda tékka að fjárhæð kr. 20.000.000,- og var tilkynning um gjalddaga víxilsins stimpluð um greiðslu umræddan dag. Óumdeilt er að stefndi hafði enga vitneskju um tilvist víxilsins fyrr en nokkru eftir að hann var greiddur.
Eftirfarandi lýsing á atvikum að greiðslu víxilsins var bókuð eftir stefnanda er hann gaf skýrslu hjá lögreglu þann 2. mars 2001: „Jón segir að Þorsteinn Þorvaldsson hafi á þessum tíma tjáð sér að þær tryggingar sem áttu að sjá til þess að umræddur víxill yrði greiddur, hafi brugðist og leitaði hann því til Jóns um að lána sér, persónulega, umrædda fjárhæð þar til að þær tryggingar, sem Þorsteinn taldi sig hafa, myndu berast og þá renna til Jóns sem endurgreiðsla. - Hafi Þorsteinn lagt á það mikla áherslu að með þessum hætti mætti afstýra því að Sparisjóður Ólafsfjarðar yrði fyrir skaða vegna þessa víxils, sem kominn var á gjalddaga. - Jón er spurður hvort hann hafi fengið umræddar kr. 20.000.000,- endurgreiddar. - Jón kveðst, með hliðsjón af fyrrgreindum lögbundnum rétti sínum, kjósa að svara ekki þessari spurningu.“
Við skýrslutöku hjá lögreglu fjórum dögum síðar var eftirfarandi lýsing á sömu atvikum bókuð eftir Þorsteini: „ ... kveðst Þorsteinn hafa leitað til Jóns, bróður síns og fengið hjá honum persónulegt lán, til að greiða þessa skuld, sem hann hafi stofnað til í nafni sparisjóðsins, án heimilda. - Þorsteinn segir að þetta hafi hann gert til að afstýra því að sparisjóðurinn yrði fyrir frekara tjóni en orðið var. - Þorsteinn er spurður hvort til hafi staðið að endurgreiða Jóni umræddar kr. 20.000.000,- og ef svo var, hver hafi ætlað að endurgreiða honum og með hvaða hætti. - Þorsteinn segir að hann sé sjálfur ábyrgur fyrir þessari skuld gagnvart Jóni, en þeir hafi ekki gert endanlegt samkomulag um með hvaða hætti eða hvenær endurgreiðsla fari fram.“ Þá var bókað eftir að undir Þorstein voru borin áðurrakin ummæli stefnanda í lögregluskýrslunni: „Þorsteinn er spurður hvaða tryggingar það séu, eða hafi verið, sem Jón vitnar til og þá um leið, hvort Jón hafi fengið eða muni fá þessa fjármuni endurgreidda. - Þorsteinn segir að um hafi verið ræða tryggingarvíxla frá Kaldari ehf. Hann segir að allar greiðslur frá Kaldari ehf. hafi brugðist og þess sé ekki lengur að vænta að það félag muni greiða umrædda skuld. Þorsteinn kveðst því vera persónulega ábyrgur fyrir þessari skuld gagnvart Jóni Ingvari, en ekki aðrir.“
Ekki fer á milli mála að bæði stefnandi og bróðir hans Þorsteinn töldu er skýrslur lögreglu voru teknar í upphafi marsmánaðar 2001 að stefnandi hefði lánað Þorsteini kr. 20.000.000,- til greiðslu á umræddum víxli. Er aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Þorsteini, mál nr. S-126/2001, fór fram þann 13. nóvember 2001 báru bræðurnir báðir hins vegar að stefnandi hafi greitt umræddan víxil. Við það tækifæri var í engu minnst á að um lán stefnanda til Þorsteins hefði verið að ræða.
Lagt hefur verið fram í málinu veðskuldabréf dags. 28. febrúar 1998 að fjárhæð kr. 12.000.000,-. Þorsteinn Þorvaldsson er skuldari skv. skuldabréfinu en stefnandi kröfuhafi. Bréf þetta hvílir á allri fasteigninni Túngötu 17 í Ólafsfirði skv. efni sínu og framlögðum ljósritum úr þinglýsingarbók sýslumannsins í Ólafsfirði. Fyrir dómi kom fram hjá Þorsteini og stefnanda að bréfið hefði verið gefið út í tengslum við greiðslu víxilsins og jafnframt að Þorsteinn persónulega hafi ekki getað veitt bróður sínum frekari tryggingar.
Lýsingar stefnanda og Þorsteins á málsatvikum fyrir lögreglu voru ítarlegar og vísuðu þeir báðir til þess að um lán frá stefnanda til Þorsteins hefði verið að ræða. Þá gaf Þorsteinn út áðurnefnt veðskuldabréf til tryggingar fyrir hluta fjárhæðarinnar. Fram kom hjá bræðrunum að stefnandi hefði átt að fá endurgreitt er tryggingar fyrir víxlinum bærust. Það liggur hins vegar fyrir að þær tryggingar reyndust haldlausar. Sú staðreynd getur ekki leitt til þess að litið verði framhjá hinum skýru lýsingum bræðranna fyrir lögreglu á því hvernig það atvikaðist að stefnandi tók lán hjá Íslandsbanka hf. og lánaði Þorsteini síðan féð til greiðslu á víxlinum enda hefur ekkert komið fram í málinu sem dregur úr gildi þessa framburðar bræðranna. Þvert á móti styður tilvist nefnds skuldabréfs eindregið að um lán stefnanda til Þorsteins hafi verið að ræða. Að öllu framangreindu athuguðu þykir því verða að byggja á því við úrlausn málsins að stefnandi hafi lánað bróður sínum umræddar kr. 20.000.000,- til að greiða víxilinn. Það að stefnandi var sá er fór með greiðsluna í starfsstöð stefnda getur engu breytt um þessa niðurstöðu.
Skuldabréfalán sem Þorsteinn Þorvaldsson lét stefnda taka hjá Verðbréfasjóðnum hf. í Reykjavík í þágu Vélsmiðjunnar Nonna efh. þann 4. mars 1994 voru greidd ásamt vöxtum og áföllnum kostnaði hinn 5. mars 1998, samtals kr. 20.282.641,-.
Um þetta tilvik var eftirfarandi bókað eftir stefnanda við áðurgreinda skýrslutöku hjá lögreglu: „Jón kveðst, að beiðni Þorsteins Þorvaldssonar, hafa lagt fram það fé sem á vantaði til að greiða upp umrædd skuldabréf, á sömu forsendum og hér að framan er rakið, þ.m.t. að Þorsteinn taldi sig hafa tryggingar sem síðar myndu skila sér og þá ganga til Jóns sem endurgreiðsla. Jón kveðst ekki muna nákvæmlega fjárhæðina sem hann lagði fram, en það léti nærri að það hafi verið u.þ.b. kr. 10.000.000,-. - Jón er spurður hvort hann hafi fengið umrædda fjármuni endurgreidda. - Jón kveðst, með hliðsjón af fyrrgreindum lögbundnum rétti sínum, kjósa að svara ekki þessari spurningu.“
Við skýrslutöku lögreglu af Rúnari Sigvaldasyni þann 2. mars 2001 var eftirfarandi bókað eftir honum um atvik að annari greiðslunni: „Rúnar kveðst ekkert vita um þessi skuldabréf eða hafa séð þau fyrr en nú, enda ekki lántökur í hans þágu. Hann segir að Þorsteinn Þorvaldsson hafi leitað til hans, líklega um það leyti sem þessi bréf hafa verið greidd og beðið um fjárhagslega aðstoð. Hafi Þorsteinn sagst þurfa að standa skil á persónulegum skuldbindingum og leitaði eftir því við Rúnar, hvort hann gæti hjálpað honum tímabundið. - Rúnar kveðst hafa lánað Þorsteini u.þ.b. kr. 10.000.000,- og hafi Þorsteinn lofað endurgreiðslu eftir eitt eða eitt og hálft ár, þó ekki hafi það verið fastákveðið hvenær yrði endurgreitt. Ekki hafi verið um neinar tryggingar að ræða, en Rúnar kveðst hafa treyst Þorsteini til að standa við endurgreiðslu, sem nú sé komið á daginn, því Þorsteinn hafi greitt skuld sína að mestu leyti og samkomulag sé um eftirstöðvar. Rúnar segir að þetta mál sé að fullu afgreitt milli hans og Þorsteins og muni ekki verða af því neinir eftirmálar. Hvernig Þorsteinn hafi aflað fjár til þessa, kveðst Rúnar ekki vita og skipti sér ekki af, en ítrekar að þessi mál séu frágengin milli hans og Þorsteins og ekki verði um nein eftirmál að ræða af sinni hendi.“
Þá var við áðurnefnda skýrslutöku hjá lögreglu eftirfarandi bókað eftir Þorsteini Þorvaldssyni um þetta tilvik: „ ... kveðst Þorsteinn hafa leitað til Jóns og Rúnars frænda síns og fengið hjá þeim persónuleg lán, til að greiða þessa skuld, sem hann hafi stofnað til í nafni sparisjóðsins án heimilda. - Þorsteinn segir að þetta hafi hann gert til að afstýra því að sparisjóðurinn yrði fyrir frekara tjóni en orðið var. - Þorsteinn er spurður hvort til hafi staðið að endurgreiða Rúnari og Jóni þá fjármuni sem þeir hafi lagt fram vegna þessara skuldabréfa - og ef svo var, hver hafi ætlað að endurgreiða þeim og með hvaða hætti. - Þorsteinn segir að Rúnar hafi fengið endurgreitt að fullu, með þeim hætti að fjölskylda Þorsteins, þar á meðal Jón Ingvar, hafi lagt fram fé til að endurgreiða Rúnari. Rúnari hafi legið á að fá umrædda peninga endurgreidda og því hafi þessi leið verið farin. - Þorsteinn segir að hann sé sjálfur ábyrgur fyrir skuld sinni gagnvart fjölskyldunni og Jóni, en ekki hafi ekki (sic) gert endanlegt samkomulag um með hvaða hætti eða hvenær endurgreiðsla fari fram.“ Þá staðfesti Þorsteinn framanrakin ummæli stefnanda og Rúnars Sigvaldasonar varðandi þessa aðra greiðslu. Um hvaða tryggingar Jón vitni til og hvort hann hafi fengið eða muni fá þessa fjármuni endurgreidda er eftirfarandi bókað í skýrslunni: „Þorsteinn segir að um hafi verið að ræða tryggingarvíxil frá Vélsmiðjunni Nonna ehf., sem hann kveðst vera með í sinni vörslu, enda fengið hann persónulega eftir að umrædd skuldabréf voru uppgreidd með þeim hætti sem lýst hefur verið. Þorsteinn kveðst því enn vonast eftir því að fá þessa skuld greidda frá Vélsmiðjunni Nonna ehf., en eftir sem áður vera persónulega ábyrgur fyrir þessari skuld gagnvart Jóni Ingvari, en ekki aðrir.“
Lýsingar Þorsteins Þorvaldssonar og Rúnars Sigvaldasonar á málsatvikum fyrir lögreglu voru skýrar og vísuðu þeir báðir til þess að um lán frá Rúnari til Þorsteins hefði verið að ræða. Þá kom fram hjá Rúnari að hann hefði að mestu fengið lánið endurgreitt og að samkomulag væri um eftirstöðvar. Með vísan til þessa þykir sannað að Rúnar hafi lánað Þorsteini umrædda fjármuni. Síðar til komið framsal á kröfu á hendur Þorsteini vegna þessarar lánveitingar getur engu um það breytt.
Lýsingar stefnanda og Þorsteins á málsatvikum hvað síðastnefnt tilvik varðar voru einnig skýrarar. Báðir báru þeir að um lán frá stefnanda til Þorsteins hefði verið að ræða. Stefnandi og Þorsteinn kváðu stefnanda hafa átt að fá endurgreitt er tryggingar sem Þorsteinn hafi talið sig hafa bærust. Það liggur hins vegar fyrir að þær tryggingar reyndust haldlausar. Sú staðreynd getur hins vegar ekki leitt til þess að litið verði framhjá afdráttarlausum lýsingum bræðranna fyrir lögreglu á því hvernig það atvikaðist að stefnandi lánaði Þorsteini fjármuni til greiðslu á umræddum skuldabréfum til vibótar þeim fjármunum sem komu frá Rúnari enda hefur ekkert komið fram í málinu sem dregur úr gildi framburðar bræðranna hvað þetta tilvik varðar. Að þessu töldu verður við það að miða við úrlausn málsins að stefnandi hafi lánað bróður sínum þá fjármuni sem fóru til greiðslu á skuldabréfunum þremur til viðbótar því sem Þorsteinn fékk lánað hjá Rúnari skv. framangreindu. Líkt og í fyrsta tilvikinu breytir engu um þessa niðurstöðu að það var stefnandi sem afhenti umrædda fjármuni í afgreiðslu stefnda.
Að fengnum niðurstöðum dómsins hér að framan liggur fyrir að stefnda verður ekki gert að endurgreiða stefnanda þær fjárhæðir sem um ræðir greindum tveimur tilvikum þegar af þeirri ástæðu að það var Þorsteinn Þorvaldsson sem greiddi umræddar kröfur en ekki stefnandi.
Skuldabréf sem féll í gjalddaga 18. desember 1999 var greitt upp 20. desember 1999 með kr. 6.484.333,- greiðslu. Bréfið gaf Þorsteinn Þorvaldsson út í þágu Vélsmiðjunnar Nonna ehf. en í nafni stefnda 18. desember 1996 til Hlutabréfasjóðs Norðurlands.
Lýsingar stefnanda og Þorsteins bróður hans á atvikum að þessu þriðja tilviki voru á sömu lund fyrir lögreglu og áður, þ.e. að stefnandi hafi lánað Þorsteini fé til greiðslu á skuldabréfinu. Eins og áður hefur verið vikið að skýrðu þeir hins vegar á annan veg frá atvikum við aðalmeðferð máls nr. S-126/2001, ákæruvaldið gegn Þorsteini Þorvaldssyni. Þá báru bræðurnir báðir að það hafi verið stefnandi sem greiddi stefnda beint, ekki hafi verið um að ræða lán frá honum til Þorsteins. Bræðurnir ítrekuðu þennan framburð fyrir dómi er teknar voru af þeim skýrslur við aðalmeðferð máls þessa.
Fram kom hjá sparisjóðsstjóra stefnda, Magnúsi Brandssyni, fyrir dómi að Þorsteinn hafi í tengslum við greiðslu umrædds skuldabréfs falast eftir lánafyrirgreiðslu fyrir stefnanda. Staðfesti Magnús að hann hafi áður gefið þau svör að „ekki yrði kært“ vegna þessa tilviks, yrði krafan greidd að fullu.
Stefnandi og Magnús Brandsson báru báðir að stefnandi hafi komið á fund Magnúsar skömmu fyrir greiðslu kröfunnar og fengið lánafyrirgreiðslu. Kom fram hjá Magnúsi að tilkynning um gjalddaga skuldabréfsins hafi þá verið komin til stefnda frá eiganda þess. Þá staðfesti Magnús fyrir lögreglu er tekin var af honum skýrsla þann 2. mars 2001 að hann vissi „ ... að Jón Þorvaldsson hafi greitt skuldabréfið ...“.
Síðasta tilvikið sem um ræðir í málinu varðar skuldabréf sem Þorsteinn Þorvaldsson gaf út í þágu Vélsmiðjunnar Nonna efh. en í nafni stefnda 18. desember 1996 til Hlutabréfasjóðs Norðurlands. Bréfið var greitt upp að fullu 19. janúar 2001 með kr. 7.225.367,- greiðslu.
Í lögregluskýrslum af stefnanda og Þorsteini bróður hans er þessa tilviks í engu getið. Þá var það ekki hluti af áðurnefndu sakamáli sem höfðað var gegn Þorsteini. Framburður stefnanda og Þorsteins fyrir dómi, bæði í sakamálinu og í máli þessu, er samhljóða á þann veg að það hafi verið stefnandi sem greiddi umrædda skuldbindingu stefnda.
Fyrir liggur að sparisjóðsstjóri stefnda skrifaði Þorsteini bréf þann 17. janúar 2001. Í því sagði: „Þorsteinn!! Þú hefur frest fram til kl. 17.00 í dag til að greiða þessa skuld í Íslenskum verðbréfum. Ef þú verður ekki búinn að greiða fyrir þann tíma mun ég kæra mál þetta til ríkissaksóknara í fyrramálið. Skuldin er í dag um 7,5 millj.“ Bréfinu fylgdi ljósrit umrædds skuldabréfs.
Samkvæmt framburði Magnúsar Brandssonar fyrir dómi voru atvik að þessu síðasta tilviki að öðru leyti með sambærilegum hætti og því þriðja, þ.e. að Þorsteinn falaðist eftir láni fyrir stefnanda, sparisjóðsstjórinn lýsti því yfir „að ekki yrði kært“ ef greitt yrði og að stefnandi kom að þessu loknu til fundar við sparisjóðsstjórann og gekk frá yfirdráttarheimild á tékkareikning sinn.
Fyrir dómi kvaðst Magnús Brandsson hafa með óformlegum hætti upplýst stjórn stefnda um yfirlýsingar sínar um „að ekki yrði kært“, andmælalaust.
Óvíst var um gildi framangreindra yfirlýsinga sparisjóðsstjórans þegar fyrir lá bréf bankaeftirlits Seðlabanka Íslands dags. 10. júlí 1997 til Ríkislögreglustjórans og umfang máls þess sem af bréfinu leiddi. Þetta mátti stefnda vera ljóst. Allt að einu gaf sparisjóðsstjórinn þessar yfirlýsingar f.h. stefnda.
Að öllu framangreindu athuguðu liggur fyrir að sparisjóðsstjóra stefnda var fullljóst er stefnandi kom á hans fund og gekk frá yfirdráttarheimild á tékkareikning sinn að stefnandi ætlaði að nota lánsféð til að greiða umræddar skuldbindingar sjóðsins. Þá var sparisjóðsstjóranum einnig ljóst að tilgangur stefnanda var að koma í veg fyrir að umræddar skuldbindingar kæmust til vitundar lögreglu, sbr. vilyrði hans um að ekki yrði kært yrðu kröfurnar greiddar.
Samkvæmt viðurkenndum fræðikenningum samningaréttar er lagahugtakið löggerningur réttilega skilgreint sem viljayfirlýsing sem ætlað er að stofna rétt, breyta rétti eða fella rétt niður. Að þessu athuguðu og með vísan alls framangreinds, sérstaklega aðkomu stefnda að fjármögnun greiðslnanna, þykir dóminum sannað að greiðslur þær sem stefnandi innti af hendi á starfsstöð stefnda dagana 20. desember 1998 og 19. janúar 2001 hafi verið persónulegar viljayfirlýsingar hans sem beint hafi verið til stefnda og ætlað að stofna rétt hans til þessara fjárhæða.
Í 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936 segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hið sama eigi við um aðra löggerninga. Í 2. mgr. segir síðan, að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
Fyrir liggur að er stefnandi innti greiðslur þrjú og fjögur af hendi sætti bróðir hans opinberri lögreglurannsókn og átti á hættu að vera sóttur til saka fyrir brot í starfi sem sparisjóðsstjóri stefnda eins og síðar varð raunin á. Þá er og upplýst að fjölskylda stefnanda hafði lengi verið tengd starfsemi stefnda, þannig var faðir þeirra Þorsteins sparisjóðsstjóri á undan Þorsteini og nákominn ættingi þeirra þar á undan.
Framagreindar tvær greiðslur innti stefnandi af hendi án nokkurrar skyldu. Eins og rakið hefur verið var það stefndi sem var skuldari að umræddum skuldabréfum en vegna þess hvernig staðið var að stofnun skuldbindinganna af hálfu Þorsteins Þorvaldssonar má hins vegar telja ljóst að hann beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnda vegna þess tjóns sem rekja má til ábyrgðarveitinganna, sbr. t.d. dóm í málinu nr. S-126/2001. Með greiðslum stefnanda færðist fjárhagsleg byrði þessara skuldbindinga hins vegar af stefnda, fyrrverandi vinnuveitanda Þorsteins, og yfir á bróður Þorsteins, stefnanda.
Þegar öll framangreind atriði eru skoðuð með hliðsjón af orðum 36. gr. samningalaga þykir greiðsla stefnanda án nokkurrar skyldu í ljósi yfirstandandi lögreglurannsóknar á starfsháttum Þorsteins Þorvaldssonar, skyldleika stefnanda og Þorsteins, náinna tengsla fjölskyldu stefnanda við stefnda sem og áðurlýstrar aðkomu sjóðsins að fjármögnun greiðslnanna hafi verið með þeim hætti að ósanngjarnt sé af stefnda að bera umrædda tvo löggerninga fyrir sig. Rétt er því að víkja löggerningunum til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7, 1936.
Í samræmi við allt framangreint dæmist stefndi til að endurgreiða stefnanda tvær þær síðustu greiðslur sem mál þetta varðar, þ.e. kr. 6.484.333,- er innt var af hendi 20. desember 1999 og kr. 7.225.367,- sem innt var af hendi 19. janúar 2001, samtals kr. 13.709.700,- með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. september 2001 til greiðsludags.
Eftir úrslitum málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 700.000,- í málskostnað.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Sparisjóður Ólafsfjarðar, greiði stefnanda, Jóni Ingvari Þorvaldssyni, kr. 13.709.700,- með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. september 2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda kr. 700.000,- í málskostnað.