Hæstiréttur íslands

Mál nr. 329/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Mánudaginn 18. maí 2015.

Nr. 329/2015.

Toyota á Íslandi ehf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Deloitte ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu T ehf. um dómkvaðningu matsmanns vegna fyrirhugaðs skaðabótamáls á hendur D ehf., en á því var byggt af hálfu félagsins að boðuð endurálagning skatta þess ætti rætur að rekja til ófullnægjandi ráðgjafar D ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ætti T ehf. rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann teldi málstað sínum til framdráttar og að það væri að meginreglu hvorki á valdi D ehf. né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiddi af ákvæðum fyrrgreindra laga. Bæri héraðsdómi þannig að verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanns nema skilyrði 77. og 78. gr. laganna væru ekki fyrir hendi, leitað væri mats um atriði sem dómari teldi bersýnilegt að skipti ekki máli eða að beiðnin beindist að atriði sem ekki heyrði undir matsmann að fjalla um. Að virtri beiðni T ehf. og atvikum málsins yrði ekki talið að fyrrgreind lagaákvæði girtu fyrir að krafa T ehf. um dómkvaðningu matsmanns næði fram að ganga. Var hún því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli 555/2012 var einkahlutafélagið Bergey stofnað 7. desember 2005 og var hlutafé þess 500.000 krónur. Í sama mánuði mun eini eigandi hlutafjárins hafa selt það Smáey ehf., en það félag var í eigu sama manns og eiginkonu hans. Hinn 21. sama mánaðar tók Bergey ehf. lán samkvæmt tveimur lánssamningum hjá Landsbanka Íslands hf., samtals að fjárhæð 3.250.000.000 krónur. Haldinn var hluthafafundur í Bergey ehf. 31. desember 2005 og ákvað eini hluthafinn, Smáey ehf., að hækka hlutafé félagsins um 2.599.500.000 krónur með áskrift nýrra hluta þannig að það yrði alls 2.600.000.000 krónur. Í fundargerð var þess getið að allt nýtt hlutafé hafi þegar verið greitt til félagsins.  

Bergey ehf. keypti í desember 2005 allt hlutafé í P. Samúelssyni hf. fyrir 5.600.000.000 krónur. Kaupverðið mun hafa verið greitt fyrri hluthöfum, annars vegar með 2.350.000.000 krónum af eigin fé Bergeyjar ehf. og hins vegar með öllu andvirði áðurnefndra lána hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 3.250.000.000 krónur. Í sama mánuði var hafinn undirbúningur að sameiningu þessara tveggja félaga, sbr. 122. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Samruna var hagað með þeim hætti að móðurfélagið, Bergey ehf., var skilgreint sem yfirtekna félagið, en hið keypta félag, P. Samúelsson hf., skyldi vera yfirtökufélagið. Hið sameinaða félag fékk jafnframt nafn sóknaraðila og kennitölu P. Samúelssonar hf. Samruninn miðaðist við 1. september 2005, en samruni með þessum hætti hefur gjarnan verið nefndur öfugur samruni eða skuldsett yfirtaka. Með þessu yfirtók sóknaraðili það sem eftir var af eigin fé Bergeyjar ehf. og skuld félagsins við Landsbanka Íslands hf. samkvæmt áðurnefndum lánssamningum.

Með dómi Hæstaréttar í framangreindu máli var staðfest sú niðurstaða í úrskurði ríkisskattstjóra 17. nóvember 2010 að sóknaraðila hafi verið óheimilt að gjaldfæra vexti af lánum þeim, er Bergey ehf. tók til kaupa á hlutafé í P. Samúelssyni hf. og fluttust frá Bergey ehf. til sóknaraðila við samrunann, til frádráttar tekjum í skattframtölum sínum 2006 og 2007 vegna tekjuáranna 2005 og 2006. Var tekjuskattstofn sóknaraðila hækkaður af þeim sökum auk þess sem ákveðið var 25% álag.

Hinn 11. mars 2014 höfðaði sóknaraðili mál fyrir héraðsdómi á hendur varnaraðila til greiðslu skaðabóta. Sundurliðaði hann dómkröfu sína þannig að gerð væri krafa um bætur, annars vegar vegna 25% álags á tekjuskattsstofn ársins 2006 samkvæmt framangreindum úrskurði ríkisskattstjóra 17. nóvember 2010 og hins vegar vegna kostnaðar við kaup á þjónustu endurskoðenda varnaraðila og lögfræðinga í sambandi við ágreining vegna úrskurðarins. Með héraðsdómi 30. janúar 2015 var varnaraðili sýknaður af kröfu sóknaraðila. Taldi dómurinn sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að varnaraðili hefði lagt til að framangreindur samruni yrði með þeim hætti sem raun varð á og að vinna varnaraðila við skattskil sóknaraðila 2007 vegna tekjuársins 2006 hefði ekki verið þess eðlis að varðaði skaðabótaskyldu. Sóknaraðili hefur áfrýjað dóminum.

Með úrskurði 19. ágúst 2014 endurákvarðaði ríkiskattstjóri opinber gjöld á hendur sóknaraðila vegna gjaldársins 2009. Telur sóknaraðili að forsendur fyrir þeirri endurákvörðun sé að finna í þeirri aðferð sem viðhöfð var við framangreindan samruna og reist hafi verið á rangri ráðgjöf varnaraðila. Vegna þessa sendi sóknaraðili varnaraðila bréf 19. september 2014 með kröfu um skaðabætur. Með bréfi 10. október sama ár hafnaði varnaraðili greiðsluskyldu sinni. Með beiðni 9. mars 2015 fór sóknaraðili þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddur yrði sérfróður maður til að meta hverju það hefði „breytt um skattgreiðslur matsbeiðanda vegna gjaldársins 2009 ef: a) enginn samruni hefði átt sér stað og matsbeiðandi og Bergey ehf. samsköttuð þess í stað b) ef samruni Bergeyjar ehf. og matsbeiðanda hefði verið með þeim hætti að Bergey ehf. hefði verið yfirtökufélagið (beinn lóðréttur samruni).“  

II

Þótt þess sé ekki getið í áðurnefndri matsbeiðni sóknaraðila má ljóst vera að tilgangur hans er að beiðast dómkvaðningar matsmanns til að afla sönnunargagna í því skyni að leggja grundvöll að kröfu í dómsmáli á hendur varnaraðila. Er um að ræða aðra kröfu en þá sem fjallað var um í áðurgreindum héraðsdómi og því ekki efni til að líta svo á að ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 standi í vegi fyrir beiðni sóknaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 á sóknaraðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi varnaraðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæðum laganna. Ber héraðsdómi þannig að verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanns samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 nema skilyrði 77. gr. og 78. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. þeirra, eða að beiðnin beinist að atriði, sem ekki heyrir undir matsmann að fjalla um, sbr. 2. mgr. 60. gr. Að virtri beiðni sóknaraðila og málsatvikum verður ekki talið að fyrrgreind lagaákvæði girði fyrir að umbeðin krafa um dómkvaðningu matsmanns nái fram að ganga. Verður hún því tekin til greina.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Umbeðin dómkvaðning matsmanns skal fara fram.

          Varnaraðili, Deloitte ehf., greiði sóknaraðila, Toyota á Íslandi ehf., samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2015.

Með matsbeiðni dags. 9. mars 2015, hefur matsbeiðandi krafist þess að dómkvaddur verði einn hæfur og óvilhallur matsmaður til að skoða og meta skattgreiðslur matsbeiðanda. Fyrirtaka í málinu þann 31. mars 2015 var haldin af Hákoni Þorsteinssyni aðstoðarmanni dómara. Við þá fyrirtöku kom fram að lögmaður matsþola mótmælti því að dómkvaðning matsmanns næði fram að ganga. Undirrituðum dómara var úthlutað málinu þann dag, munnlegur málflutningar fór fram þann 16. apríl sl. og málið tekið til úrskurðar.

Matsbeiðandi er Toyota á Íslandi ehf. kt. [...], Kauptúni 6, Garðabæ.

Matsþoli er Deloitte ehf. kt. [...], Smáratorgi 3, Kópavogi.

Matsbeiðandi krefst dómkvaðningu matsmanns til að meta „hverju það hefði breytt um skattgreiðslur matsbeiðanda vegna gjaldársins 2009 ef:

a)       Enginn samruni hefði átt sér stað og matsbeiðandi og Bergey ehf. samsköttuð þess í stað.

b)       Ef samruni Bergeyjar ehf. og matsbeiðanda hefðu verið með þeim hætti að Bergey ehf. hefðu verið yfirtökufélagið (beinn lóðréttur samruni).“

Matsþoli krefst þess að beiðni um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað.

Báðir málsaðilar krefjast málskostnaðar.

I.

Í matsbeiðni segir að forsaga málsins sé sú að félögin Bergey ehf. og P. Samúelsson hf. hafi á árinu 2005 verið sameinuð og hið sameinaða félag fengið nafn matsbeiðanda. Matsbeiðanda hafi síðan með úrskurði Ríkisskattstjóra þann 17. nóvember 2010 verið gert að endurgreiða skatta á þeim forsendum að óheimilt hafi verið að gjaldfæra vexti í skattframtölum áranna 2006 og 2007, af láni sem Bergey ehf. tók til kaupa á hlutafé P. Samúelssonar hf. og var tekjustofn matsbeiðanda hækkaður til samræmis með 25% álagi. Matsbeiðandi höfðaði mál gegn matsþola til greiðslu fjárhæðar sem nam því álagi sem lagt var á matsbeiðanda. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2015 í máli nr. E-377/2014 var matsþoli sýknaður af kröfu matsbeiðanda og því máli nú verið áfrýjað til Hæstaréttar. Ríkisskattstjóri hafi síðan með úrskurði 19. ágúst 2014 tilkynnt matsbeiðanda um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2009 þar sem fjármagnskostnaður vegna fyrrgreinds láns geti ekki talist frádráttarbær rekstarkostnaður í skattalegu tilliti. Matsbeiðandi hafi notið sérfræðiaðstoðar matsþola vegna samruna Bergeyjar ehf. og P. Samúelssonar hf., en matsþoli hafi verið ráðgjafi matsbeiðanda frá árinu 2007-2013.

II.

Í bókun matsþola kemur fram, að matsbeiðnin uppfylli ekki ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um hagsmuni matsbeiðanda af matsbeiðninni, efni matsbeiðni og tilgangi, forsendum hennar og spurningum sem beint er til matsmanns. Ákvæði 77. gr. laganna sé bundið við þann sem hafi hagsmuna að gæta, þann sem hafi í hyggju að höfða mál um kröfu. Ekki verði ráðið af matsbeiðni að þetta eigi við né á hvaða lagagrundvelli slíkur málatilbúnaður yrði reistur og hafi matsbeiðandi því ekki lögvarða hagsmuni. Málavöxtum sé ranglega lýst, enda aðkoma matsþola að meintri ráðgjöf ekki til staðar. Matsbeiðnin uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 78. gr. laga um meðferð einkamála og ómögulegt sé fyrir matsmann að svara fyrri spurningu matsbeiðanda og því sé með vísan til  3. mgr. 46. gr. laganna um að ræða bersýnilega tilgangslausa sönnunarfærslu sem dómara beri að hafna. Þá uppfylli matsspurningar ekki skilyrði 1. mgr. 61, sbr. 2. mgr. 60. gr. sömu laga.

III.

Í munnlegum málflutningi kom fram að matsbeiðandi hafi notið aðstoðar matsþola við öfugan samruna félaganna Bergeyjar ehf og P. Samúelssonar hf. og notið sérfræðiráðgjafar matsþola á árunum 2007-2013. Álagning sú sem Ríkisskattstjóri hafi tilkynnt matsbeiðanda um með bréfi dags. 19. ágúst 2014, sé vegna gjaldaársins 2009 og megi rekja til sérfræðiaðstoðar matsþola við samrunann. Matsbeiðanda sé nauðsyn á því að fá umbeðið mat en um væri að ræða sambærilegt mál og dómur væri þegar fallinn í, en um annað gjaldaár. Samkvæmt málsforræðisreglunni hafi matsbeiðandi rúmt svigrúm til þess að beiðast mats til þess að sanna tjón sitt. Gefi matið tilefni til þess þá muni matsbeiðandi höfða mál gegn matsþola og í því sambandi þurfi ekki að skýra í matsbeiðni á hvaða lagagrundvelli hugsanleg málaferli yrðu. Þá sé í matsbeiðni skýrt greint frá því hvaða atvik það eru sem matsbeiðandi vill sönnun um, hvernig hann vilji að það verði gert og hvaða réttindi eru í húfi, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um meðferð einkamála. Lögmaður matsbeiðanda hafnaði því sem órökstuddu að framkomnar matsspurningar uppfylltu ekki ákvæði 1. mgr. 61. gr. sbr. 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála og að matið væri bersýnilega tilgangslaust til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Vísað var til dóms Hæstaréttar, í máli nr. 566/2007.

Í máli matsþola kom fram að gerðar væru athugasemdir um aðkomu matsþola að samruna félaganna. Matsþoli hafi ekki veitt matsbeiðanda sérfræðiaðstoð við samrunann og því ekki haft neina þá aðkomu sem leitt gæti til bóta. Engin rök standi til þess að matsþoli eigi aðild að þessu matsmáli. Matsbeiðandi hafi því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta skv. 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála. Á engan hátt sé skýrð aðkoma matsþola að málinu, þ.e. hvaða atvik eða lagarök gætu leitt til þess að matsþoli hafi getað valdið matsbeiðanda tjóni. Þegar hafi fallið dómur í Héraðsdómi Reykjaness í málinu E-377/2014 á milli sömu aðila þar sem tekist hafi verið á um sömu málsatvik og í forsendum þess dóms komi fram að matsþoli hafi ekki veitt matsþola neina sérfræðiaðstoð um samrunann. Þessi dómur hafi sönnunargildi milli málsaðila skv. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála og verði hún lögð til grundvallar í öðrum dómsmálum þar sem úrslausnaratriði í henni geta skipt máli þar til annað sé leitt í ljós. Matsbeiðandi hafi ekki gert neinn reka að því í þessu matsmáli að sanna hið gagnstæða um hver aðkoma matsþola hafi verið að ákvörðun um samruna félaganna árið 2005. Þá kom fram að ósannað væri að matsbeiðandi hafi yfirleitt orðið fyrir tjóni, framsetning matsbeiðni og matsspurningar væru ófullnægjandi og í andstöðu við ákvæði einkamálalaga. Um væri að ræða lagalega túlkun og matsbeiðnin því bersýnilega tilgangslaus til sönnunar. Vísað var meðal annars til dóms Hæstaréttar nr. 55/2015.

IV.

Í málinu er óumdeilt að matsþoli veitti matsbeiðanda endurskoðunarráðgjöf á árunum 2007-2013. Matsbeiðanda hefur nú verið tilkynnt um fyrirætlaða endurálagningu skatta fyrir gjaldaárið 2009 sem mun eiga rót sína að rekja til samruna félaganna Bergeyjar ehf. og P. Samúelssonar hf. á árinu 2005. Af málavöxtum matsbeiðanda má ætla að matsþoli hafi veitt matsbeiðanda sérfræðiráðgjöf við þá sameiningu. Matsþoli hefur mótmælt því að matsbeiðandi hafi veitt matsþola nokkra sérfræðiráðgjöf við ákvörðun um þá sameiningu. Í 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála kemur fram að aðila sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta sé heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns þó hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli. Matsbeiðandi upplýsti við munnlega meðferð málsins að krafa sú sem hér lægi fyrir væri algjörlega sambærileg því sem fram kæmi í héraðsdómsmálinu nr. E-377/2014. Í niðurstöðu nefnds héraðsdóms segir; „Í ljósi þess að það var ekki fyrr en á árinu 2007 sem stefndi tókst á hendur endurskoðunarþjónustu fyrir félagið hefur stefnandi ekki, gegn mótmælum stefnda, sýnt fram á það að það hafi verið stefndi sem lagði til að samruninn yrði með þessum hætti en ekki öðrum.“ Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, hefur dómur fullt sönnunargildi um málsatvik þar til hið gagnstæða er sannað og verða þau málsatvik lögð til grundvallar í öðrum dómsmálum milli sömu málsaðila. Matsbeiðandi hefur ekki lagt fram nein gögn til sönnunar á hinu gagnstæða, um réttarsamband aðilanna á árinu 2005 eða um aðra aðkomu matsþola að samruna félaganna.

Með vísan til ofangreinds er það mat dómsins að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála, um lögvarða hagsmuni, til þess að verða við kröfu matsbeiðenda og er henni því þegar af þeirri málsástæðu hafnað.

Eftir úrslitum málsins verður matsbeiðenda gert að greiða matsþola málskostnað eins og í úrskurðarorði greinir.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

      Beiðni matsbeiðanda, Toyota á Íslandi ehf., um dómkvaðningu matsmanns, er hafnað. 

      Matsbeiðandi, greiði matsþola, Deloitte ehf., 150.000 krónur í málskostnað.