Hæstiréttur íslands

Mál nr. 144/2016

Ólafur Thorarensen (Jóhannes Sigurðsson hrl.)
gegn
Midi.is ehf. (Einar Þór Sverrisson hrl.)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Ársreikningur
  • Bókhald
  • Einkahlutafélag
  • Tómlæti

Reifun

Ó, sem starfað hafði sem framkvæmdastjóri M ehf. á árunum 2008 til 2014, höfðaði mál gegn félaginu og krafðist greiðslu vegna kaupauka sem hann taldi sig hafa átt rétt á fyrir rekstrarárin 2012 og 2013 og viðurkenningar á rétti hans til kaupauka vegna hluta ársins 2014. Árið 2012 hafði M ehf. gert ráðningarsamning við Ó þar sem fram kom að hann ætti rétt á kaupaukagreiðslum eins og lýst væri í viðauka við samninginn. Sá viðauki var hins vegar aldrei gerður skriflega. Talið var að Ó hefði sem framkvæmdastjóri M ehf. ásamt stjórn félagsins borið ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir félagið, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Hefði hann því, ásamt stjórninni, samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga borið ábyrgð á því að ársreikningar gæfu glögga mynd af afkomu félagsins og efnahag þess. Ef hann hefði talið sig eiga kröfu á félagið vegna kaupauka hefði honum verið skylt að sjá til þess að slíkrar kröfu væri getið í bókhaldi og ársreikningi vegna rekstraráranna 2012 og 2013. Þessa hefði hann ekki gætt heldur hefði hann fyrst haft uppi kröfuna eftir að hann lét af störfum. Hefði krafan því komið svo seint fram að hann hafði þá þegar glatað ætluðum rétti sínum til að hafa hana uppi fyrir tómlætis sakir. Var M ehf. því sýknað af kröfu Ó.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2016.  Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.684.680 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.310.000 krónum frá 31. maí 2013 til 31. maí 2014 og af 4.684.680 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að „samningur stefnda við áfrýjanda um árangurstengdar greiðslur (bónus), sem geti numið allt að þreföldum mánaðarlaunum“ verði afkoma stefnda áður en tekið er tillit til vaxta, skatta, fyrninga og afskrifta ,,sem hlutfall af heildartekjum 7,4% samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi, gildi einnig um þann hluta rekstrarársins 2014 sem áfrýjandi starfaði fyrir stefnda, þ.e. frá 1. janúar 2014 til 31. ágúst 2014.“ Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi var ráðinn til starfa hjá stefnda á árinu 2005 og var framkvæmdastjóri félagsins frá maí 2008. Í tölvubréfi Gísla Vals Guðjónssonar, 27. október 2010, sem þá var í stjórn móðurfélags stefnda, kom fram að stefndi hefði samþykkt að greiða áfrýjanda ,,árangurstengda greiðslu fyrir rekstararárangur ársins 2010.“ Greiðslan væri þó háð því að tilgreind markmið næðust í rekstri félagsins fyrir þetta ár. Í framhaldinu var tafla þar sem lýst var í þremur dálkum þrenns konar markmiðum um heildartekjur á árinu og um rekstrarárangur. Kom fram að ef markmið í fyrsta dálki næðust skyldi áfrýjandi fá eingreiðslu sem næmi einum mánaðarlaunum sem kaupauka, ef markmið í öðrum dálki næðust skyldi hann fá sem næmi tvennum mánaðarlaunum og þrennum ef markmið í þriðja dálki næðust. Í lok tölvubréfsins sagði: ,,Stjórn félagsins mun síðan endurskoða viðmið þessa árangurstengda kerfis þegar áætlanir félagsins fyrir 2011 liggja fyrir og í kjölfarið útbúa samskonar fyrir rekstrarárið 2011.“ Ágreiningslaust er að áfrýjandi fékk einnig kaupauka vegna rekstrarársins 2011 en ekki er upplýst hvaða rekstrartekjur og rekstrarárangur voru lagðar til grundvallar við útreikning kaupaukans.

Á vormánuðum ársins 2012 var hafinn undirbúningur að sölu hlutafjár í stefnda og ákvað Gísli Valur, sem þá var orðinn formaður stjórnar félagsins, að rétt væri að gera skriflegan ráðningarsamning við áfrýjanda. Í 5. grein samningsins var fjallað um endurgjald fyrir vinnu áfrýjanda og greiðslu ,,hlunninda“. Í grein 5.1 sagði meðal annars: ,,Fyrir vinnu og þjónustu sem veitt er í samræmi við og samkvæmt ákvæðum samnings þessa á starfsmaðurinn rétt á föstum mánaðarlaunum sem samanstanda af neðangreindri greiðslu að fjárhæð ISK 770.000 ... Greiðsla fastra mánaðarlauna, kaupauka og hlunninda samkvæmt þessari ... grein skal teljast fullnaðargreiðsla fyrir alla vinnu og þjónustu sem starfsmaðurinn innir af hendi fyrir félagið ... Laun starfsmannsins verða endurskoðuð af stjórn félagsins með reglulegu millibili eins og kveðið er á um í 18. gr. samnings þessa. Við endurskoðun launa mun stjórnin taka mið af frammistöðu starfsmannsins á undanfarandi mánuðum.“ Í grein 5.2 sagði: ,,Starfsmaðurinn á rétt á kaupaukagreiðslum eins og lýst er í viðauka 1 við samning þennan.“ Ágreiningslaust er að viðauki sá sem vísað var til var aldrei gerður skriflega.

Með kaupsamningi, sem mun hafa verið gerður 16. nóvember 2012, keyptu 365 miðlar hf. allt hlutafé í stefnda og samþykkti Samkeppniseftirlitið kaupin með skilyrðum 8. maí 2013. Fóru kaupin fram að undangenginni áreiðanleikakönnun og er ekki ágreiningur í málinu um að við þá könnun hafi fulltrúar kaupanda haft aðgang að ráðningarsamningi stefnda við áfrýjanda.

Áfrýjandi fékk ekki kaupaukagreiðslur vegna rekstraráranna 2012, 2013 og þess hluta ársins 2014 sem hann var í starfi hjá stefnda. Hann sagði upp störfum með ódagsettu bréfi og miðaði uppsögn við 1. apríl 2014 en gegndi áfram starfi sínu til 31. ágúst sama ár. Með bréfi 25. september 2014 til stefnda krafðist áfrýjandi greiðslu kaupauka vegna rekstraráranna 2012 og 2013. Vísaði hann um útreikning greiðslnanna til rekstrarafkomu samkvæmt ársreikningi fyrir rekstrarárið 2012 og þess að þótt ekki lægi fyrir ársreikningur fyrir árið 2013 væri sýnt að rekstrarárangur væri slíkur að hann ætti rétt á kaupauka vegna þess árs sem næmi þreföldum mánaðarlaunum. Í lok bréfsins var tekið fram að eftir kaup 365 miðla hf. á hlutafé í stefnda hefði áfrýjandi átt í viðræðum við stjórnarmenn félagsins um kaupaaukagreiðslur fyrir árið 2012 og 2013 ,,en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu.“

II

Kröfu sína um kaupauka reisir áfrýjandi á því að í gildi hafi verið samningur milli sín og stefnda um að hluti launakjara sinna væri kaupauki eins og áður greinir, sem reiknaður skyldi út miðað við rekstrarárangur félagsins. Krafa hans um viðurkenningu á rétti til kaupauka vegna þess hluta ársins 2014 sem hann var í starfi hjá stefnda sé reist á sama grundvelli. Hafi fulltrúum kaupanda félagsins og þeim sem tóku sæti í stjórn þess eftir kaupin verið kunnugt um rétt hans til kaupauka og hvernig sá kaupauki skyldi reiknaður.

Eins og að framan greinir var skriflegur ráðningarsamningur áfrýjanda hluti þeirra gagna, sem fulltrúar kaupanda, 365 miðla hf., áttu aðgang að áður en kaup á hlutafé í stefnda voru afráðin. Fulltrúum kaupanda sem settust í stjórn stefnda var því kunnugt um starfskjör hans, meðal annars launakjör eins og þau voru tilgreind í 5. grein ráðningarsamningsins. Samkvæmt þessu er sannað að stjórnendum félagsins var kunnugt um að meðal starfskjara hans var réttur til kaupauka. Í málinu er einnig sannað að fljótlega eftir kaupin hafi áfrýjandi rætt við nýja stjórnendur félagsins um að gerður yrði við sig viðauki við ráðningarsamninginn þar sem samið yrði um árangurstengdar greiðslur. Fékk hann þau svör að slíkar viðræður ættu að bíða betri tíma. Þá liggur einnig fyrir að á stjórnarfundi í stefnda 14. janúar 2014 var rædd ósk áfrýjanda um að fram færu viðræður við hann um launamál og bókað að hann myndi senda tillögur um þetta til stjórnar. Þær munu ekki hafa verið sendar.

Þótt sannað sé samkvæmt framansögðu að samið hafi verið um að hluti starfskjara áfrýjanda hafi átt að vera réttur til kaupaukagreiðslna og nýjum stjórnendum félagsins hafi verið það kunnugt er ósannað að samið hafi verið við hann um hvernig þær greiðslur skyldu ákvarðaðar. Áfrýjandi reisir kröfu sína í málinu á því að miða eigi við þá aðferð sem notuð var við ákvörðun kaupauka til hans fyrir rekstrarárin 2010 og 2011 og telur að ef það yrði gert myndi fjárhæð kaupaukans vegna rekstraráranna 2012 og 2013 vera hin sama og töluleg krafa hans. Hann miðar kröfu sína við tilgreindan árangur í rekstri þessi ár og hefur stefndi lýst því yfir að ekki séu gerðar athugasemdir við þann útreikning ef talið verður sannað að gerður hafi verið við hann samningur þessa efnis og tómlæti hans standi kröfunni ekki í vegi.

Áfrýjandi bar sem framkvæmdastjóri stefnda ásamt stjórn félagsins ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir félagið vegna hvers reikningsárs, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Hann bar því, ásamt stjórninni, samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga ábyrgð á því að ársreikningar gæfu glögga mynd af afkomu félagsins og efnahag þess, sbr. einnig 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Ef hann taldi sig eiga kröfu á félagið vegna kaupauka var honum skylt að sjá til þess að slíkrar kröfu væri getið í bókhaldi og ársreikningi vegna rekstraráranna 2012 og 2013. Þessa gætti hann ekki. Hann hafði fyrst uppi kröfu um greiðslu kaupauka sem hann reisti á útreikningi er hann taldi samrýmast því sem gert hafði verið vegna rekstraráranna 2010 og 2011, eftir að hann lét af störfum. Verður, hvað sem öðru líður, staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þessi krafa hans hafi komið svo seint fram að hann hafi þá þegar glatað ætluðum rétti sínum til að hafa hana uppi fyrir tómlætis sakir.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ólafur Thorarensen, greiði stefnda, Midi.is ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2016.

                Mál þetta höfðaði Ólafur Thorarensen, Krókavaði 11, Reykjavík, með stefnu birtri 22. mars 2015 á hendur Midi.is ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík.  Málið var dóm­tekið að lokinni aðalmeðferð 2. desember sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum vangoldin laun að fjárhæð 4.684.680 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af 2.310.000 krónum frá 31. maí 2013 til 31. maí 2014, en af 4. 684.680 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Hann krefst þess að dráttarvextir verði lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti sbr. 12. gr. vaxtalaga.  

                Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að samningur stefnda við stefnanda um að árangurstengdar greiðslur (bónus), sem geti numið allt að þreföldum mánaðarlaunum verði EBITDA sem hlutfall af heildartekjum 7,4% samkvæmt endur­skoðuðum ársreikningi, gildi einnig um þann hluta rekstrarársins 2014 sem stefnandi starfaði fyrir stefnda, þ.e. frá 1. janúar til 31. ágúst. 

                Loks krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til virðis­aukaskatts. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara að þær verði lækkaðar.  Hann krefst málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefnandi starfaði hjá stefnda frá árinu 2005 og var framkvæmdastjóri frá því í maí 2008 uns hann lét af störfum í lok ágúst 2014. 

                Eigendur stefnda unnu að því að selja félagið frá því á árinu 2012.  Lauk þeim tilraunum með því að 365 miðlar ehf. keyptu félagið í maí 2013.  Stefnandi sagði í aðilaskýrslu sinni að eftir þetta hefði félagið orðið eins og deild innan 365 miðla.  Fór svo að hann sagði upp störfum 31. mars 2014. 

                Í gr. 5.2 í ráðningarsamningi var ákvæði sem hljóðar svo í íslenskri þýðingu:  „Starfsmaðurinn á rétt á kaupaukagreiðslum eins og lýst er í viðauka 1 við samning þennan.“  Ekki var gengið frá þessum viðauka. 

                Stefnandi kvaðst hafa samið um að hann fengi kaupauka áfram eins og hann hefði fengið 2010 og 2011.  Það hefði ekki verið gengið frá samningnum skriflega.  Eftir að 365 miðlar eignuðust stefnda kvaðst hann hafa ámálgað þetta við Svan Valgeirsson, sem sat í stjórn, en hann hefði hummað þetta fram af sér.  Hann kvaðst ekki hafa getað hafist handa um málshöfðun fyrr en eftir að hann var hættur störfum hjá félaginu. 

                Gísli Valur Guðjónsson, sem var stjórnarformaður stefnda áður en 365 miðlar keyptu félagið, bar að um kaupauka stefnanda hefði gilt samkomulag sem hann hefði gert við hann vegna ársins 2011.  Samist hefði svo um munnlega á milli þeirra að þetta samkomulag gilti áfram.  Sagði hann að ef félagið hefði ekki verið selt hefðu þeir greitt stefnanda kaupauka í samræmi við þetta samkomulag. 

                Þórður Már Jóhannesson gaf skýrslu fyrir dómi, en hann varð stjórnarformaður stefnda eftir kaup 365 miðla á félaginu.  Hann sagði að  rætt hefði verið um launakjör stefnanda, m.a. um árangurstengingu í tengslum við nýjan ráðningarsamning.  Ekki hefði verið gengið frá nýjum samningi.  Þórður sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um kaupaukagreiðslur til stefnanda frá fyrri tíð.  Hann hefði ekki séð ráðningar­samning stefnanda og kaupaukagreiðslur hefðu ekki sést í bókum félagsins. 

                Þá gaf Svanur Valgeirsson skýrslu fyrir dómi, en hann sat í stjórn stefnda eftir kaup 365 miðla á félaginu.  Hann kvaðst ekki hafa komið að kaupum á félaginu eða skoðað gögn um félagið.  Hann sagði að aldrei hefði neitt komið fram um óuppgerðar kaupaukagreiðslur.  Það hefði verið rætt um laun stefnanda á fundum, m.a. hefði örugglega verið talað um kaupauka.  Sú umræða hefði öll snúist um framtíðina, ekki uppgjör á eldri kröfum. 

                Gísli Valur Guðjónsson sagði að ráðningarsamningur stefnanda hefði verið á meðal þeirra gagna sem voru skoðuð við áreiðanleikakönnun við undirbúning kaupa 365 miðla á félaginu.  Hann hefði hins vegar ekki upplýst neitt um munnlegt sam­komulag þeirra um kaupaukagreiðslur.  Þá hefði þetta ekki verið skráð í fundargerðar­bækur, enda hefðu engir formlegir fundir verið haldnir. 

                Í ráðningarsamningi stefnanda var ákvæði um að hann skyldi ekki vinna tiltekin störf í sex mánuði eftir að hann hætti störfum hjá stefnda.  Í greinargerð stefnda er fullyrt að stefnandi hafi unnið að því í samstarfi við nafngreindan mann að koma á fót nýjum miðasöluvef í beinni samkeppni við stefnda.  Í aðilaskýrslu sinni kvaðst stefnandi hins vegar hafa virt samkeppnisbann ráðningarsamningsins að fullu. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að í ráðningarsamningi hans, gr. 5.2 hafi verið samið um að hann ætti rétt á kaupauka ef ákveðin markmið um árangur í rekstri félagsins næðust.  Hann vísar til staðfestingar Gísla Vals Guðjónssonar, dags. 11. mars 2015, á því að samið hafi verið um tilteknar kaupaukagreiðslur.  Hafi hann átt að fá sem svaraði einum mánaðarlaunum aukalega ef EBITDA sem hlutfall af heildartekjum næmi 2,5%, tvöföldum mánaðarlaunum ef hlutfallið færi 4,8%, en þreföldum ef hlut­fallið næmi 7,4%. 

                Stefnandi segir ljóst að launakjör hans, þ.m.t. kaupaukagreiðslur, hafi átt að endurspegla þær skyldur sem hann tók á sig. 

                Stefnandi kveðst hafa átt í viðræðum við stjórn félagsins um kaupauka­greiðslur, eftir að 365 miðlar höfðu keypt félagið vorið 2013.  Hann hafi við kaupin ekki verið búinn að fá greiddan kaupauka fyrir árið 2012, enda hafi ársreikningur ekki verið tilbúinn.  Ekki hafi orðið af því að kaupauki yrði greiddur.  Hafi hann sent stefnda erindi skömmu eftir starfslok hans, en því hafi verið synjað. 

                Stefnandi segir að vegna rekstrarniðurstöðu stefnda á árunum 2012 og 2013 eigi hann rétt á greiðslu sem svari til þrefaldra mánaðarlauna hvort ár.  Hafi hún numið 2.310.000 krónum vegna ársins 2012 og 2.374.680 krónum fyrir árið 2013.  Gjalddagi hafi verið í þeim mánuði sem endurskoðaður ársreikningur lá fyrir, í maí­mánuði bæði árin.  Krefst hann dráttarvaxta frá 31. maí hvort ár. 

                Stefnandi krefst viðurkenningar á rétti til kaupaukagreiðslu fyrir þann hluta ársins 2014, sem hann starfaði hjá stefnda.  Kveðst hann ekki geta reiknað fjárhæð kröfunnar þar sem endurskoðaður ársreikningur hafi ekki legið fyrir þegar mál þetta var höfðað. 

                Stefnandi mótmælir því að hann hafi brotið gegn þeirri skyldu sinni samkvæmt ráðningarsamningnum að starfa ekki hjá samkeppnisaðila eftir að hann léti af störfum.  Hann hafi verið atvinnulaus í sex mánuði eftir að hann hætti störfum hjá stefnda. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir á því að enginn samningur hafi verið gerður um kaupauka­greiðslur fyrir umrædd ár.  Þótt stefnandi hafi fengið slíkar greiðslur fyrir vinnu sína árin 2010 og 2011, felist ekki í því samningur um áframhaldandi greiðslur.  Bendir stefndi á að gerður hafi verið nýr ráðningarsamningur við stefnanda á árinu 2012, án þess að gengið væri frá ákvæðum um árangurstengingu launa. 

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki rætt neitt við stjórn félagsins um kaupaaukagreiðslur frá því í maí 2013 og fram að því að hann hætti störfum haustið 2014.  Hann hafi ekki nefnt kaupauka þegar endurskoðaðir ársreikningar lágu fyrir.  Krafa um kaupauka hafi ekki komið fram fyrr en eftir að hann lét af störfum. 

                Stefndi bendir á að stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri félagsins og því borið ábyrgð á samningu ársreiknings ásamt stjórn.  Í ársreikningum fyrir árin 2012 og 2013 sé þessara meintu kröfu stefnanda ekki getið.  Þeir hafi verið lagðir fyrir hluthafafund án þess að kröfunnar væri getið.  Telur stefndi þetta sönnun þess að krafan hafi aldrei stofnast, a.m.k. hafi stefnandi fyrirgert kröfunni með tómlæti sínu. 

                Stefndi byggir á því að það sé meginregla í vinnurétti að gera skuli skriflega ráðningarsamninga.  Vísar hann til Evróputilskipunar 91/533/EBE, sem hafi verið innleidd hér með kjarasamningum.  Stefnandi hafi ekki verið almennur starfsmaður, heldur framkvæmdastjóri.  Honum hafi því borið að tryggja að gengið væri frá slíkum samningum skriflega. 

                Stefndi segir yfirlýsingu Gísla Vals Guðjónssonar, fyrrverandi stjórnar­formanns stefnda, að engu hafandi.  Hann hafi ekki verið bær til að skuldbinda félagið þegar hann sendi yfirlýsingu þessa, hann hafi verið meðstjórnandi í þáverandi móður­félagi stefnda.  Þá komi fram í tölvupósti þeim sem vísað sé til, að hann eigi einungis við um árið 2010 og víki stuttlega að árinu 2011.  Þá hafi verið gerður sérstakur skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda 7. maí 2012, án þess að árangurstengdar greiðslur væru útfærðar.  Þá sé ekki getið um þessa kröfu stefnanda í gerðabók stjórnar félagsins.  Loks hafi kröfunnar ekki verið getið við áreiðanleikakönnun sem gerð var á rekstri stefnda áður en 365 miðlar keyptu félagið. 

                Í greinargerð stefnda er fullyrt að rekstur félagsins undir stjórn stefnanda hafi verið með þeim hætti að fráleitt sé að reikna honum árangurstengdar greiðslur.  Reksturinn hafi verið ein rjúkandi rúst.  Þá hafi hann unnið að því í samstarfi við annan aðila að koma upp nýjum miðasöluvef, í beinni samkeppni við stefnda. 

                Varakrafa um lækkun byggir á því að krafa stefnanda geti aðeins átt við árið 2012, en ekki árið 2013, eftir að eigendaskipti höfðu orðið á félaginu.  Því er einnig krafist sýknu af viðurkenningarkröfu vegna hluta ársins 2014. 

                Niðurstaða

                Stefnandi samdi við stefnda um tiltekin launakjör og kaupaukagreiðslur.  Um launin voru ákvæði í ítarlegum ráðningarsamningi og þar var sagt að semja skyldi sérstaklega og skriflega um kaupaukagreiðslur.  Það var gert, en einungis munnlega.  Leggja verður til grundvallar fullyrðingar stefnanda og framburð fyrrverandi stjórnar­formanns um að þeir hafi samið svo um að stefnandi fengi kaupaukagreiðslur eins og hann hafði fengið fyrir árin 2010 og 2011.  Við kaup 365 miðla á öllu hlutafé í stefnda urðu ekki aðilaskipti að ráðningarsamningi stefnanda. 

                Fram kom að ráðningarsamningur stefnanda hafi verið á meðal þeirra gagna sem kaupendum félagsins gafst færi á að skoða áður en gengið var frá kaupunum í maí 2013.  Í samningnum var að finna ákvæði um að samið skyldi sérstaklega um kaup­aukagreiðslur.  Kaupendum virðist ekki hafa verið kynnt það munnlega samkomulag sem stefnandi og stjórnarformaður stefnda höfðu gert sín á milli um kaupauka­greiðslur.  Stefnandi hlaut að gera sér grein fyrir því að gögn um þennan samning þeirra voru ekki skrifleg og því hafði hann sérstaka hagsmuni af því að upplýsa væntanlega kaupendur um efni samkomulagsins.  Þessi upplýsingaskylda hvíldi einnig á honum sem framkvæmdastjóra félagsins. 

                Krafa stefnanda um kaupauka vegna ársins 2012 féll í gjalddaga eftir að árs­reikningur hafði verið samþykktur á aðalfundi 15. maí 2013.  Þá féll krafa um kaup­auka vegna ársins 2013 í gjalddaga eftir aðalfund 2. maí 2014.  Stefnandi hætti störfum hjá stefnda í lok ágúst 2014 og þann 25. september setti hann fram formlega kröfu um kaupaukagreiðslur.  Stefndi hafnaði þeirri kröfu og mál þetta var eins og áður segir höfðað með stefnu birtri 23. mars 2015. 

                Kröfu stefnanda um kaupaukagreiðslur er ekki getið í ársreikningum stefnda, en stefnandi áritaði þá sem framkvæmdastjóri. 

                Stefnandi sagði að hann hefði rætt við Svan Valgeirsson um kaupauka­greiðslur, eftir að 365 miðlar höfðu keypt félagið.  Frekari gögn um kröfugerð af hans hálfu liggja ekki frammi.  Er ósannað að hann hafi haft uppi kröfu um greiðslu kaup­auka fyrr en með bréfi lögmanns hans, dags. 25. september 2014.  Sú skýring stefnanda að hann hefði ekki getað höfðað mál á hendur stefnda og verið áfram í starfi er haldlaus.  Honum bar að hafa uppi þær launakröfur sem hann taldi sig eiga. 

                Samkvæmt framansögðu tryggði stefnandi ekki að nýr eigandi alls hlutafjár í stefnda fengi tæmandi upplýsingar um rétt hans til kaupaukagreiðslna.  Hann hafði ekki uppi formlega kröfu um greiðslu fyrr en löngu eftir gjalddaga og eftir að hann var hættur störfum.  Hann tryggði ekki að fram kæmu upplýsingar um ógreiddar kröfur hans í ársreikningi stefnda.  Að öllu þessu virtu verður að fallast á þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til kaupaukagreiðslna með þessu tómlæti sínu.  Á það bæði við um greiðslur vegna ársins 2012 og vegna áranna 2013 og 2014.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda. 

                Þrátt fyrir þessa niðurstöðu um efni málsins er rétt að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna anna dómara, veikindaforfalla og lokunar dómhússins, en lögmenn og dómari voru sammála um að endurflutningur væri óþarfur. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Midi.is ehf. er sýknaður kröfum stefnanda, Ólafs Thorarensen.

                Málskostnaður fellur niður.