Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Dómsatkvæði

 

Miðvikudaginn 5. nóvember 2003.

Nr. 424/2003.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Karl Vilbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 1. desember 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi frá 15. ágúst 2003 til 22. sama mánaðar á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 19. ágúst 2003 í máli nr. 314/2003 og frá þeim degi til 26. september 2003 á grundvelli c. liðar 1. mgr. sömu greinar, sbr. dóm Hæstaréttar 26. ágúst 2003 í máli nr. 336/2003. Í síðari dómnum var sú aðstaða fyrir hendi að varnaraðili hafði játað sum þeirra brota sem um ræddi. Var þess sérstaklega getið í dómnum að af hálfu lögreglu hafi ekki verið skírskotað til ákvæða a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til stuðnings kröfunni, en þau brot sem varnaraðili var grunaður um voru enn á rannsóknarstigi. Í röksemdum fyrir kröfu sinni í því máli kom fram hjá lögreglu að miklir hagsmunir væru tengdir því að koma í veg fyrir frekari afbrot varnaraðila svo lögreglu og ákæruvaldi væri unnt að ljúka málum hans. Væri stefnt að því að gefa út ákæru á hendur honum á fyrirhuguðum gæsluvarðhaldstíma vegna þeirra afbrota, sem hann hefði framið, og væru til meðferðar hjá lögreglu. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að skilyrði væru fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili sat í gæsluvarðhaldi allan þann tíma sem dómur Hæstaréttar tók til, en var að því búnu látinn laus og hefur ákæra ekki enn verið gefin út vegna þeirra mála sem þá voru til rannsóknar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er varnaraðili nú grunaður um fjölmörg brot eftir að hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Hins vegar neitar varnaraðili aðild að þessum brotum. Eru þau sögð á rannsóknarstigi, en eigi að síður er í kröfu lögreglu einungis vísað til c. liðar 1. mgr. nefndrar lagagreinar með sömu rökum og áður um að lögregla og ákæruvald þurfi tóm til að ljúka rannsókn í málum hans.

Þegar litið er til þess að fyrri gæsluvarðhaldstími var ekki, án haldbærra skýringa, nýttur eins og lögregla lýsti yfir og ákæra hefur enn ekki verið gefin út, eru ekki efni til að verða við kröfu sóknaraðila um að dæma varnaraðila á ný í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Að þessu virtu og í ljósi þess að ekki er krafist gæsluvarðhalds með vísan til a. liðar 1. mgr. títtnefndrar lagagreinar verður ekki fallist á að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2003.

                Sóknaraðili er lögreglustjórinn í Kópavogi, en varnaraðili, kærði í málinu, X, til lögheimilis að […], með dvalarstað að […].

Sóknaraðili krefst þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi „uns dómur gengur í málum hans, en þó ekki lengur en til 5. desember nk. kl. 16:00.“  Er krafan reist á c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að synjað verði um hana.

I.

Samkvæmt sakavottorði kærða á hann að baki langan og nokkuð samfelldan brotaferil, sem nær aftur til ársins 1993.  Frá þeim tíma hefur hann hlotið ellefu refsi­dóma, þar af fjóra fyrir þjófnaði og önnur auðgunarbrot; síðast 13. febrúar 2003 er hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið þrjú ár, fyrir fjársvik og enn fremur nytja­stuld.  Síðastliðið sumar var lögreglan í Reykjavík með til rannsóknar fjölda mála vegna þjófnaða og fjársvika, sem kærði er talinn bendlaður við með einum eða öðrum hætti.  Mun kærði hafa játað aðild sína að sumum brotanna, en neitað öðrum.  Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 22. ágúst til 26. september á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála og var sú ákvörðun staðfest með dómi Hæstaréttar 26. ágúst í máli réttarins nr. 336/2003.

II.

Eftir að kærði var látinn laus úr haldi hafa komið upp að minnsta kosti þrettán ný lögreglu­mál, sem nú eru til rannsóknar og kærði er grunaður um aðild að.  Málin varða öll innbrot, þjófnaði eða tilraun til þjófnaðar og eftir atvikum hylmingu.  Kærði hefur aldrei verið staðinn að verki við umrædd brot og neitar alfarið að hafa brotið af sér síðan hann losnaði úr gæsluvarðhaldinu.  Hann mun hins vegar í nokkur skipti hafa verið handtekinn með muni í fórum sínum […] sem saknað er í umræddum málum.  Þá hefur hann tvívegis verið far­þegi í bifreiðinni […], sem er í eigu vinkonu hans, þegar lögregla hefur haft afskipti af parinu og fundið í bifreiðinni ýmsa muni, svo sem […] og fleira, sem einnig eru taldir vera þýfi í umræddum málum.  Telur sóknaraðili þannig ljóst að kærði hafi haldið áfram fyrri brotastarfsemi og að yfirgnæfandi líkur hljóti að teljast á því að hann muni halda áfram brotum fái hann að halda frelsi sínu meðan málum hans er ekki lokið.  Því verði að stöðva brotaferilinn að nýju þannig að lögreglu og ákæruvaldi sé gert kleift að ljúka rannsókn fyrirliggjandi mála og gefa út ákæru á hendur honum.

III.

Kærði mótmælir því að lagaskilyrði séu fyrir hendi til að setja hann í gæslu­varð­hald á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra og telur lögreglu ekki hafa sýnt fram á nein tengsl milli hans og þeirra brota, sem upp hafi komið eftir að hann losnaði síðast úr gæluvarðhaldi.  Verði fallist á kröfu sóknar­aðila á svo veikum grunni, sem raun beri vitni, sé því verið að setja hann í dulda afplánun, án fyrirliggjandi refsidóms.  Er því til stuðnings einnig bent á að engin ákæra hafi verið gefin út vegna þeirra mála, sem voru til rannsóknar á meðan á fyrra gæsluvarðhaldi stóð og telur kærði það sýna og sanna að hann hafi ekki framið þau brot, sem hann var þó látinn sæta gæsluvarðhaldi fyrir.

IV.

Í greinargerð með gæsluvarðhaldskröfu sóknaraðila kemur fram að rannsókn þeirra mála, sem voru grundvöllur fyrir gæsluvarðhaldi kærða síðastliðið haust, sé að stærstum hluta lokið og sé fyrst og fremst beðið eftir niðurstöðum skjalarannsókna í Svíþjóð áður en unnt verði að gefa út ákæru á hendur kærða fyrir aðild að þeim brotum.  Rannsókn annarra lögreglumála, sem upp hafi komið eftir að fyrra gæslu­varð­haldi lauk, séu enn á frumrannsóknarstigi.  Þrátt fyrir þetta er í máli þessu ekki gerð krafa um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, heldur eingöngu byggt á c-lið 1. mgr. téðrar lagagreinar.  Þótt kærði hafi neitað aðild að öllum þeim málum, sem nú sæta frumrannsókn, er til þess að líta að tekist hefur að tengja muni, sem taldir eru vera þýfi, við kærða og er því fyrir hendi rökstuddur grunur um að hann sé viðriðinn að minnsta kosti nokkurn fjölda þeirra brota, sem öll voru framin á um eins mánaðar tímabili.  Verði kærði fundinn sekur í væntanlegu refsimáli á hann yfir höfði sér þungan fangelsisdóm, enda óumflýjanlegt að í því máli verði tekinn upp sex mánaða skil­orðs­bundinn refsidómur frá 13. febrúar 2003.  Kærði, sem er […] ára, á við áfengis­vandamál að stríða og segist vera „túramaður“.  Hann hefur verið atvinnu­laus í um það bil eitt ár og hefur að eigin sögn ekki aðra lögmæta framfærslu en ótil­greinda styrki frá félagsmálastofnun.  Að öllu þessu virtu er fallist á með sóknaraðila, að réttmætt sé að ætla að kærði muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið í meðferð lögreglu og ákæruvalds, haldi hann óskertu frelsi sínu.  Þykir því rétt að verða við kröfu um gæsluvarðhald með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. 

Við afmörkun gæsluvarðhalds verður þó ekki stuðst við það tímamark er „dómur gengur í málum“ kærða, enda hefur opinbert mál enn ekki verið höfðað.  Engu að síður verður að ætla lögreglu og ákæruvaldi nokkurn tíma til að ljúka rann­sókn fyrirliggjandi mála og taka ákvörðun um málshöfðun.  Er nauðsynlegt að þeirri vinnu verði hraðað eftir föngum, í ljósi þess alvarlega þvingunarúrræðis, sem hér er beitt.  Með þessari athugasemd þykir gæsluvarðhaldi nú markaður hæfilegur tími til klukkan 16:00 mánudaginn 1. desember 2003. 

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kærði, X, sæti gæsluvarð­haldi, þó ekki lengur en til klukkan 16:00 mánudaginn 1. desember 2003.