Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Sameign
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur að hluta
|
|
Föstudaginn 6. febrúar 2009. |
|
Nr. 2/2009. |
Straumsbúið sf. Sigurður B. Markússon Íslenskir aðalverktakar hf. Sína Þorleif Þórðardóttir Leifur Sörensen Gréta Elín Sörensen og Birgir Sörensen (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Alcan á Íslandi hf. Alcan Holdings Switzerland Ltd. (Hákon Árnason hrl.) íslenska ríkinu og (Óskar Thorarensen hrl.) Hafnarfjarðarkaupstað(Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Sameign. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
S o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem máli þeirra gegn AÍ, AHC, Í og H var vísað frá dómi. Aðaldómkröfur S o.fl., sem voru eigendur jarðarinnar Ó í Hafnarfirði, tóku til þess að viðurkennt yrði að AÍ, AHC, Í og H væri skylt að kaupa nánar tiltekið land úr Ó, aðallega 450,5 hektara en til vara 248,6 hektara. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um frávísun þessara dómkrafna með vísan til þess að ekki hefði verið gerð viðhlítandi grein fyrir þeim lagalegum forsendum sem staðið gætu til þess að AÍ, AHC, Í og H yrðu skyldaðir til að kaupa umrætt land. Varakröfur S o.fl. hljóðuðu á um að viðurkennt yrði að AÍ, AHC, Í og H væru skaðabótaskyldir vegna ætlaðrar skerðingar sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefði í för með sér á verðmæti lands innan merkja Ó, aðallega á verðmæti 450,181 hektara lands og til vara 247,2814 hektara. Taldi Hæstiréttur að nægjanlega væri fram komið í málinu að uppfyllt væru skilyrði þess að sóknaraðilum væri unnt að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu AÍ, AHC, Í og H, á grundvelli heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og með vísan í dómaframkvæmd réttarins, án þess að staðreynt hafi verið hvert tjón þeirra kynni að geta talist. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi hvað þessar kröfur varðaði og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar. Þá gerðu S o.fl., samhliða þessum dómkröfum einnig kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna tjóns, sem starfsemi álversins í Straumsvík hefði valdið þeim frá 1. júlí 1998 til dómsuppkvaðningardags vegna skerðingar á nýtingarmöguleikum þeirra af landi Ó. Hæstiréttur vísaði þessari dómkröfu S o.fl. frá héraðsdómi þar sem hún var talin fólgin í öðrum kröfum þeirra um viðurkenningu á skaðabótaskyldu AÍ, AHC, Í og H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila eru þau eigendur jarðarinnar Óttarsstaða í Hafnarfirði og kveða þau land hennar vera í óskiptri sameign þótt hún sé greind í tvær hálflendur, Óttarsstaði I, sem tilheyri sóknaraðilunum Straumsbúinu sf., Sigurði B. Markússyni og Íslenskum aðalverktökum hf., og Óttarsstaði II, sem aðrir sóknaraðilar eigi, allt í nánar tilteknum hlutföllum. Til staðfestingar á þessari tilhögun á eignarhaldi að jörðinni hafa sóknaraðilar lagt fyrir Hæstarétt yfirlýsingu sína frá 14. nóvember 2008. Fyrir liggur í málinu að eftir mælingum varnaraðilans Hafnarfjarðarkaupstaðar er land innan merkja Óttarsstaða talið samtals 1.360 hektarar að stærð. Sóknaraðilar kveða níu spildum hafa verið skipt úr landi jarðarinnar og séu þær í eigu annarra. Þau hafa lagt fram í Hæstarétti svonefnd stofnskjöl fyrir þessum spildum, sem ætluð eru til þinglýsingar, en þau eru dagsett 29. desember 2008 og undirrituð af bæjarstjóra varnaraðilans Hafnarfjarðarkaupstaðar annars vegar og eigendum viðkomandi spildna hins vegar. Samkvæmt þessum nýju gögnum hafa spildurnar verið mældar í tengslum við gerð stofnskjalanna og kveða sóknaraðilar þær hafa reynst vera samtals 6,0186 hektarar að stærð.
Í málinu liggur fyrir að varnaraðilinn Hafnarfjarðarkaupstaður gerði 28. júní 1966 samning um leigu á 370.000 m2 lóð undir álbræðslu við Íslenska álfélagið hf., sem er sama félag og nú heitir Alcan á Íslandi hf. Lóð þessi ásamt hafnarsvæði nær að austanverðri Straumsvík, en vestan víkurinnar mun vera land Straums, sem austurmörk Óttarsstaða liggja að. Áður en lóðarleigusamningur þessi var gerður hafði varnaraðilinn íslenska ríkið gert samning 28. mars 1966 við Swiss Aluminium Limited, sem nú heitir Alcan Holdings Switzerland Ltd., um margháttuð atriði varðandi byggingu álbræðslu við Straumsvík og rekstur hennar, sem Íslenska álfélagið hf., nefnt ISAL í samningnum, hefði á hendi. Í 12. gr. samningsins sagði meðal annars eftirfarandi: „ISAL skal bera fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni, utan við svæði með ummáli reiknuðu frá miðju bræðslukerjasalarins í fyrsta áfanga bræðslunnar ... ISAL tekst á hendur fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni innan slíks svæðis, á eignum eða öðrum hagsmunum manna, sem nú búa þar eða eiga þar eignir, svo og gagnvart þeim, sem síðar kunna að öðlast framsal frá þeim, að svo miklu leyti sem um er að ræða núverandi afnot þess eða afnot í framtíðinni, önnur en búskap eða garðyrkju. Aðrir þeir, sem héðan í frá taka sér bólfestu innan ofannefnds svæðis eða eignast þar eignir, taka með því á sig áhættu á hvers konar tjóni af því er varðar búskap og garðyrkju, er hlýzt af gastegundum eða reyk frá bræðslunni, og ISAL skal ekki bera ábyrgð á því.“ Landið, sem þetta ákvæði tók til, mun vera 1.835 hektarar að stærð og hafa kallast svæði takmarkaðrar ábyrgðar, en það var afmarkað á uppdrætti, sem fylgdi samningnum. Sóknaraðilar kveða 452,4 hektara af landi innan merkja Óttarsstaða falla undir þetta svæði og eru í þeirri mælingu meðtaldar fyrrnefndar níu landspildur í eigu annarra en sóknaraðila að flatarmáli samtals 6,0186 hektarar.
Samkvæmt gögnum málsins var starfsleyfi fyrir álver varnaraðilans Alcan á Íslandi hf. í Straumsvík síðast veitt af umhverfisstofnun 7. nóvember 2005 og gildir það til 1. nóvember 2020. Í starfsleyfinu, sem gefið var út á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, segir meðal annars eftirfarandi: „Þynningarsvæði, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði, fylgi gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 varðandi brennisteinsdíoxíð og svifryk. Svæði takmarkaðrar ábyrgðar gildir varðandi flúoríð, sbr. ákvæði 12. greinar í Aðalsamningi, sem staðfestur var með lögum nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík.“ Ekki verður séð að fyrir liggi í málinu gögn úr nefndu aðalskipulagi varðandi umfang þynningarsvæðis, en samkvæmt framlögðu bréfi varnaraðilans Hafnarfjarðarkaupstaðar til eins af sóknaraðilunum 23. mars 2007 er heildarstærð „núverandi þynningarsvæðis“ 966 hektarar, þar af 253,3 hektarar í landi Óttarsstaða. Samkvæmt sama bréfi fellur þessi hluti landsins jafnframt undir áðurnefnt svæði takmarkaðrar ábyrgðar að frátöldum 3,829 hekturum. Í málatilbúnaði sóknaraðila er þetta lagt til grundvallar, en spildurnar níu, sem seldar hafa verið úr landi innan merkja Óttarsstaða, munu vera á þeim hluta þess, sem er í senn á svæði takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæði. Samkvæmt 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 7/1998, skal ekki vera íbúðarhúsnæði á þynningarsvæði, sem fylgir álverksmiðjum.
Sóknaraðilar kveða eigendur Óttarsstaða hvorki hafa samþykkt né samráð verið haft við þá um gerð samningsins frá 28. mars 1966 um álbræðsluna í Straumsvík eða afmörkun á þynningarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995 til 2015 og efni núgildandi starfsleyfis fyrir álverið frá árinu 2005, en þessum ráðstöfunum hafi fylgt skerðing á eignarréttindum sóknaraðila. Þau höfðuðu mál þetta með stefnu 25. júní 2008 og kröfðust þess að viðurkennt yrði að varnaraðilum væri hverjum um sig skylt að kaupa aðallega 450,5 hektara úr landi Óttarsstaða, en til vara 247,6 hektara. Að þessu frágengnu kröfðust sóknaraðilar þess að viðurkennt yrði að varnaraðilar væru hver fyrir sig skaðabótaskyldir „vegna þeirrar skerðingar á verðmæti ... lands stefnenda í jörðinni Óttarsstaðir, sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefur í för með sér“, en aðallega tók þessi krafa til skerðingar á verðmæti 450,5 hektara lands og til vara 247,6 hektara. Auk þess kröfðust sóknaraðilar þess „í öllum tilfellum“ að viðurkennt yrði að varnaraðilar væru hver fyrir sig skaðabótaskyldir gagnvart þeim „vegna tjóns sem starfsemin í Straumsvík hefur valdið stefnendum frá 1. júlí 1998 til dómsuppkvaðningardags vegna skerðingar á nýtingarmöguleikum stefnenda“, aðallega á 450,5 hekturum úr landi Óttarsstaða en til vara 247,6 hekturum. Stærð landsins, sem um ræðir í þessum dómkröfum, var samkvæmt málatilbúnaði í héraðsdómsstefnu fundin annars vegar með því að svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan merkja Óttarsstaða væri 452,4 hektarar og að auki væru í landi jarðarinnar 3,8 hektarar, sem féllu eingöngu undir þynningarsvæði álversins, en til frádráttar kæmu 5,669 hektarar innan jarðarinnar, sem væri heildarstærð spildna sem tilheyri öðrum en sóknaraðilum. Með þessu fengust út þeir 450,5 hektarar, sem að framan greinir. Hins vegar var í þessum dómkröfum tekið mið af því að þynningarsvæði álversins tæki til 253,3 hektara lands innan merkja Óttarsstaða, en frá því voru dregnir fyrrnefndir 5,669 hektarar og fengust þá út 247,6 hektarar. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti leiða mælingar, sem gerðar voru af varnaraðilanum Hafnarfjarðarkaupstað í tengslum við undirbúning stofnskjala fyrir spildunum níu, sem seldar hafa verið úr landi Óttarsstaða, eins og áður segir í ljós að samanlögð stærð þeirra sé 6,0186 hektarar. Komi til þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar muni landsstærð í fyrrgreindum dómkröfum verða leiðrétt þessu til samræmis og verða annars vegar 450,181 hektarar og hins vegar 247,2814 hektarar, en með hinum kærða úrskurði var málinu sem fyrr greinir vísað í heild frá héraðsdómi.
II
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að atriði, sem varða aðild Alcan á Íslandi hf. og Alcan Holdings Switzerland Ltd. að málinu og þessir varnaraðilar hafa teflt fram til stuðnings kröfu um að því verði vísað frá dómi, séu slík að varðað gætu sýknu þeirra af kröfum sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt hljóðan dómkrafna sóknaraðila er þeim beint sjálfstætt og í heild að hverjum varnaraðila fyrir sig, jafnt kröfum um viðurkenningu á skyldu þeirra til kaupa á tilteknu landi innan marka Óttarsstaða og kröfum um viðurkenningu á skaðabótaskyldu við sóknaraðila. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ráðið að þeir leggja í þessum efnum til grundvallar að hver varnaraðili fyrir sig beri þessar skyldur óháð hinum, en af því leiðir að efndir eins þeirra á ætluðum réttindum sóknaraðila fælu í sér efndir við þau fyrir varnaraðilana alla. Þessi framsetning á dómkröfum sóknaraðila getur því ekki varðað frávísun málsins fremur en fyrrnefnd atriði, sem snúa að aðild Alcan á Íslandi hf. og Alcan Holdings Switzerland Ltd. að því.
Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um að vafi sé um merki jarðarinnar Óttarsstaða gagnvart jörðum eða öðrum fasteignum, sem liggja að ytri mörkum hennar. Þá er ekkert fram komið um að landi Óttarsstaða hafi í einhverju eða öllu verið skipt á þann hátt að afmarkaðir hlutar þess teljist í eigu eins eða fleiri eigenda jarðarinnar en ekki þeirra allra. Þótt málum hafi verið hagað þannig að eigendurnir hafi greint heild jarðarinnar í tvo helminga, sem hvorum er síðan skipt í tilteknum hlutföllum milli annars tveggja hópa úr röðum eigendanna, felur sú aðferð til að reikna eignarhlutföll ekki í sér að lögð hafi verið af sameign allra eigendanna að jörðinni í heild. Svo sem fyrr greinir hefur verið lögð fram í Hæstarétti yfirlýsing sóknaraðila frá 14. nóvember 2008, þar sem fram kemur að Óttarsstaðir séu í óskiptri sameign þeirra í nánar tilgreindum hlutföllum. Þessi yfirlýsing, sem felur í sér áréttingu á staðhæfingum í héraðsdómsstefnu um réttarsamband sóknaraðila, getur ekki talist of seint fram komin, enda er á valdi þeirra en ekki varnaraðila að ákveða hvernig þau haga málum að þessu leyti milli sín innbyrðis. Í héraðsdómsstefnu kom með viðeigandi skýringum fram að við útreikning á flatarmáli lands innan merkja Óttarsstaða, sem dómkröfur sóknaraðila sneru að, hafi verið undanskildir samtals 5,669 hektarar vegna spildna, sem hafi verið seldar undan jörðinni, en þær voru afmarkaðar með tilgreiningu hnita á merkjum. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefur varnaraðilinn Hafnarfjarðarkaupstaður sem áður segir gert stofnskjöl vegna þessara spildna og er hvert þeirra undirritað af fyrirsvarsmanni hans og viðkomandi landeiganda, einum eða fleiri. Í hverju skjali er tilgreint flatarmál viðkomandi spildu og vísað til mæliblaðs um legu hennar, en lagður hefur verið fram uppdráttur frá þessum varnaraðila, þar sem fram kemur hnitasetning á merkjum hverrar spildu. Þótt viðurkenning varnaraðilans, sem í þessu felst, á merkjum og stærð þessara spildna bindi ekki þá, sem eiga með honum aðilasamlag í málinu, eru ekki efni til að ætla á þessu stigi að þeir hafi ástæðu til að draga réttmæti þessara upplýsinga í efa. Fyrir Hæstarétti hafa sóknaraðilar gefið málflutningsyfirlýsingu um að þeir muni laga málatilbúnað sinn að þessum nýju gögnum, bæði að því er varðar merki umræddra níu landspildna og flatarmál þeirra, sem samanlagt sé 6,0186 hektarar, en með því yrði dregið úr dómkröfum á hendur varnaraðilum. Þótt sóknaraðilar hafi ekki réttlætt að málið hafi verið höfðað án viðhlítandi gagna að þessu leyti verður ekki séð að óvissa um þetta atriði hafi spillt fyrir að taka mætti til efnisvarna gegn dómkröfum þeirra. Að þessu öllu virtu er ekki nægileg ástæða til að vísa málinu frá héraðsdómi af þeim sökum, sem hér um ræðir.
Aðaldómkröfur sóknaraðila í héraðsdómsstefnu tóku sem fyrr segir til þess að viðurkennt yrði að varnaraðilum væri skylt að kaupa nánar tiltekið land úr Óttarsstöðum, aðallega 450,5 hektara en til vara 247,6 hektara. Í málatilbúnaði sóknaraðila er ekki gerð viðhlítandi grein fyrir þeim lagalegu forsendum, sem staðið gætu til þess að varnaraðilar yrðu skyldaðir til að kaupa þetta land og verða þannig einn eða fleiri eigendur þess, eftir atvikum gegn vilja sínum, í stað þess að gjalda bætur vegna ætlaðrar skerðingar á réttindum sóknaraðila yfir því. Vegna þessarar vanreifunar verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að þessum dómkröfum sóknaraðila sé vísað frá héraðsdómi.
Áðurgreindar varadómkröfur sóknaraðila eru um að viðurkennt verði að varnaraðilar séu skaðabótaskyldir við þau vegna „þeirrar skerðingar ... sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefur í för með sér“ á verðmæti nánar tiltekins flatarmáls lands innan merkja Óttarsstaða. Samkvæmt fyrrnefndri málflutningsyfirlýsingu sóknaraðila taka þessar kröfur nú aðallega til ætlaðrar skerðingar á verðmæti 450,181 hektara lands og til vara 247,2814 hektara. Eins og málið liggur fyrir í Hæstarétti verður að telja ljóst af framlögðum hnitasettum uppdráttum hvernig landskikarnir, sem hér um ræðir, eru afmarkaðir, en útreikningur flatarmáls þeirra á sér meðal annars stoð í áðurnefndu bréfi varnaraðilans Hafnarfjarðarkaupstaðar 23. mars 2007 og þeim stofnskjölum, sem hann stóð að í árslok 2008 vegna landspildna, sem skildar höfðu verið undan Óttarsstöðum. Í þessum dómkröfum sóknaraðila skortir á að orðað sé á viðhlítandi hátt í hverju sú skerðing sé fólgin, sem þau telja varnaraðila hafa valdið á verðmæti umrædds lands, og hvernig hún geti stafað af starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík. Til þess verður á hinn bóginn að líta að í málatilbúnaði sóknaraðila er varið verulegu rými til að skýra út hvernig hið tilgreinda flatarmál lands innan merkja Óttarsstaða tengist annars vegar svokölluðu svæði takmarkaðrar ábyrgðar, sem kveðið var á um í samningnum frá 28. mars 1966 um álbræðsluna í Straumsvík, og hins vegar þynningarsvæði vegna mengunar frá henni, sem mun vera afmarkað í aðalskipulagi Hafnarfjarðar og vísað er til í starfsleyfi frá 7. nóvember 2005. Þótt reifun málsástæðna í héraðsdómsstefnu sé óskipuleg og í mörgum atriðum óskýr getur ekki orkað tvímælis að álykta megi af þeim að framangreindar dómkröfur snúi að ætlaðri skerðingu á verðmæti tiltekinna landssvæða innan merkja Óttarsstaða vegna þessara tveggja atriða, sem tengjast starfrækslu álvers varnaraðilans Alcan á Íslandi hf. í Straumsvík. Á grundvelli heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 leita sóknaraðilar með þessum kröfum dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila án þess að staðreynt hafi verið hvert tjón þeirra kunni að geta talist. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar er mál um kröfu sem þessa tækt til efnisdóms ef afmarkað er nægilega hver þau atvik séu, sem geti leitt af sér kröfu um skaðabætur þeim til handa sem málið höfðar, og í hverju tjón hans geti verið fólgið, sbr. meðal annars dóm réttarins 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 4506. Líta verður svo á að þessum skilyrðum sé fullnægt hér, en með dómi í málinu verður á hinn bóginn að taka afstöðu til þess hvort efnislegar forsendur séu til að taka til greina aðra hvora af þeim kröfum sóknaraðila, sem hér um ræðir. Samkvæmt þessu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi að því er þessar kröfur varðar.
Samhliða öllum framangreindum dómkröfum hafa sóknaraðilar loks krafist þess að viðurkennt verði með dómi að varnaraðilar beri gagnvart þeim skaðabótaskyldu vegna tjóns, sem starfsemi álversins í Straumsvík hafi valdið þeim „frá 1. júlí 1998 til dómsuppkvaðningardags vegna skerðingar á nýtingarmöguleikum“ þeirra af því landi Óttarsstaða, sem kröfur þeirra varða að öðru leyti. Af orðalagi þessarar dómkröfu virðist mega ráða að sóknaraðilar hafi litið svo á að kröfur þeirra um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila, sem fjallað er um hér að framan, taki aðeins til ætlaðs tjóns frá þeim tíma, sem dómur gengi í málinu, en þessi krafa á hinn bóginn til skaðabóta vegna tjóns á liðnum tíma að því leyti, sem fyrningartími bótakröfu sé ekki liðinn. Fyrir þessari aðgreiningu er þó enginn fótur í orðalagi þeirra krafna um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, sem áður er getið, og væri hún að auki óþörf, enda er í máli þessu ekki til umfjöllunar hvert umfang ætlaðs tjóns sóknaraðila geti verið eða til hvaða tímabila það yrði rakið. Með því að dómkrafa þessi er þannig í reynd fólgin í öðrum kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila ber að vísa henni frá héraðsdómi.
Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að því leyti, sem í dómsorði greinir, en rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði dóms í því. Að virtu því að sóknaraðilar fá hér að hluta hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar um frávísun málsins með gögnum, sem þau öfluðu ekki í héraði, eru ekki efni til að dæma þeim kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um frávísun málsins að því er varðar dómkröfur sóknaraðila, Straumsbúsins sf., Sigurðar B. Markússonar, Íslenskra aðalverktaka hf., Sínu Þorleifar Þórðardóttur, Leifs Sörensen, Grétu Elínar Sörensen og Birgis Sörensen, um að viðurkennt verði að varnaraðilum, Alcan á Íslandi hf., Alcan Holdings Switzerland Ltd., íslenska ríkinu og Hafnarfjarðarkaupstað, sé skylt að kaupa aðallega 450,5 hektara og til vara 247,6 hektara lands innan merkja jarðarinnar Óttarsstaða í Hafnarfirði, svo og um að viðurkennt verði að varnaraðilar séu skaðabótaskyldir gagnvart sóknaraðilum vegna tjóns, sem starfræksla álvers í Straumsvík hafi valdið þeim frá 1. júlí 1998 til uppkvaðningar dóms í málinu vegna skerðingar á kostum til nýtingar sama lands.
Að öðru leyti en að framan greinir er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2008.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 17. nóvember 2008 var höfðað 25. júní 2008. Stefnendur eru Straumsbúið sf., Straumi, Hafnarfirði, Sigurður B. Markússon, Óðinsgötu 32b, Reykjavík, Íslenskir aðalverktakar hf., Höfðabakka 9, Reykjavík, Sína Þorleif Þórðardóttir, Hjallahlíð 31, Mosfellsbæ, Leifur Sörensen, Smyrlahrauni 20, Hafnarfirði, Gréta Elín Sörensen, Bragagötu 30, Reykjavík og Birgir Sörensen, Kirkjuteigi 18, Reykjavík. Stefndu eru Alcan á Íslandi hf., Straumsvík, Hafnarfirði, Alcan Holdings Switzerland Ltd., Max Högger-Strasse 6, Zürich, Sviss, íslenska ríkið, en iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra og umhverfisráðherra er stefnt fyrir hönd þess, og Hafnarfjarðarkaupstaður, Strandgötu 6, Hafnarfirði.
Stefnendur gera þær dómkröfur aðallega að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé hverjum um sig skylt að kaupa 450,5 hektara svæði úr landi stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum, en svæði þetta er afmarkað með eftirfarandi hnitum:
X= Y=
349190,569 397357,851 (punktur 19 á korti, dómskjal 27)
349383,098 396140,046 (punktur 3 á korti)
351214,421 393104,581 (punktur 2 á korti)
351716,230 393407,327 (punktur 1 á korti)
351167,160 394537,040 (punktur 11 á korti)
350792,370 395517,360 (punktur 10 á korti)
350638,670 396253,270 (punktur 9 á korti)
350845,250 396762,400 (punktur 8 á korti)
350894,980 396911,650 (punktur 7 á korti)
350961,840 397339,530 (punktur 6 á korti) (alls: 452,4 ha.)
Við landsvæðið innan ofangreindra hnita bætist 3,8 hektara svæði við vesturmörk ofangreinds svæðis, sem fellur innan svokallaðs þynningarsvæðis en utan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og afmarkast af punktunum:
X= Y=
349383,098 396140,046 (punktur 3 á korti)
349453,000 395726,293 (punktur 5 á korti)
og skurðarpunkti svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis.
Frá landinu innan ofangreindra hnita dragast eftirfarandi landspildur samtals 56.690 m2 eða 5,669 hektarar að stærð, sem ekki eru í eigu stefnenda:
Spilda 1, stærð 2720 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350635,40 397182,36
350598,77 397178,63
350573,64 397127,35
350578,47 397114,59
350625,43 397127,35
Spilda 2, stærð 6375 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350485,15 397412,30
350467,67 397293,06
350463,00 397269,63
350457,03 397257,98
350468,32 397238,02
350477,67 397226,99
350485,15 397234,96
350494,61 397238,80
350496,39 397246,07
350518,85 397254,20
350501,56 397272,83
350518,48 397388,97
Spilda 3, stærð 1467 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350457,03 397257,98
350416,72 397270,62
350424,99 397299,77
350467,67 397293,06
350463,00 397269,63
Spilda 4, stærð 10850 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350603,07 397373,30
350599,25 397339,46
350588,91 397267,86
350570,50 397265,79
350518,85 397254,20
350501,56 397272,83
350518,48 397388,97
Spilda 7, stærð 5550 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350734,21 397358,61
350728,35 397293,20
350727,40 397275,57
350732,67 397276,76
350748,89 397278,67
350776,63 397276,36
350784,76 397276,86
350795,69 397286,18
350808,90 397303,94
350819,16 397324,59
Spilda 8, stærð 1385 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350769,61 397243,44
350737,03 397239,49
350732,67 397276,76
350748,89 397278,67
350776,63 397276,36
Spilda 9, stærð 6023 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350599,25 397339,46
350653,76 397344,95
350652,37 397343,32
350663,97 397260,34
350657,66 397258,39
350639,03 397247,20
350628,25 397243,79
350602,70 397247,09
350599,78 397248,38
350588,91 397267,86
350599,25 397339,46
Spilda 10, stærð 22320 m2, afmarkast af línum dregnum milli eftirfarandi hnita:
X= Y=
350477,13 397356,80
350462,58 397356,38
350453,85 397388,97
350398,69 397383,91
350374,35 397393,70
350328,69 397422,45
350319,05 397420,88
350318,36 397406,77
350280,93 397396,68
350266,78 397384,62
350257,83 397355,77
350219,53 397353,24
350239,34 397315,35
350294,65 397312,32
350322,01 397300,76
350332,65 397293,78
350416,69 397270,64
350425,01 397299,78
350467,67 397293,08
Stefnendur gera þær dómkröfur til vara að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé hverjum um sig skylt að kaupa 247,6 hektara svæði úr landi stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum, en svæði þetta er afmarkað með eftirfarandi hnitum:
X= Y=
349190,569 397357,851 (punktur 19 á korti, dskj.27)
349453,000 3957263293 (punktur 5 á korti)
350766,851 395639,545 (punktur 4 á korti)
350638,670 396253,270 (punktur 9 á korti)
350845,250 396762,400(punktur 8 á korti)
350894,980 396911,650 (punktur 7 á korti)
350961,840 397339,530 (punktur 6 á korti)
(alls: 253,3 ha.)
Frá landinu innan hnita þessara dragast sömu 8 landspildur og í aðalkröfu, samtals 56.690 m2 eða 5,669 hektarar að stærð, sem ekki eru í eigu stefnenda.
Stefnendur gera þær dómkröfur til þrautavara, að viðurkennt verði með dómi að stefndu, séu hver um sig skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þeirrar skerðingar á verðmæti 450,5 hektara lands stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum, sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefur í för með sér. Um tilgreiningu á landsvæðinu vísast til aðalkröfu stefnenda.
Stefnendur gera þær dómkröfur til þrautaþrautavara, að viðurkennt verði með dómi að stefndu, séu hver um sig skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þeirrar skerðingar á verðmæti 247,6 hektara lands stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum, sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefur í för með sér. Um tilgreiningu á landsvæðinu vísast til varakröfu stefnenda.
Ennfremur er þess í öllum tilfellum krafist, að viðurkennt verði með dómi, að stefndu séu hver um sig skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna tjóns sem starfsemin í Straumsvík hefur valdið stefnendum frá 1. júlí 1998 til dómsuppkvaðningardags vegna skerðingar á nýtingarmöguleikum stefnenda á fyrrnefndu 450,5 hektara landi, samkvæmt aðalkröfu, en til vara á fyrrnefndu 247,6 hektara landi stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum, samkvæmt varakröfu.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi hvers hinna stefndu um sig að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Dómkröfur allra stefndu eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefjast stefndu þess að stefnendum verði gert að greiða þeim málskostnað.
Að undangengnum munnlegum málflutningi 17. nóvember 2008 var tekin til úrskurðar krafa stefndu um að málinu yrði vísað frá dómi. Stefnendur gera þær kröfur í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið og að stefndu verði gert að greiða stefnendum málskostnað vegna þessa þáttar málsins.
II
Hinn 28. mars 1966 rituðu ríkisstjórn Íslands og Swiss Aluminium Limited (Alusuisse), síðar Alcan Holdings Switzerland Ltd. undir samning (aðalsamning), þar sem dótturfélag Alusuisse, Íslenska álfélagið, þá ISAL, nú Alcan á Íslandi hf., tók að sér byggingu og rekstur álbræðslu í Straumsvík í Hafnarfirði. Samhliða gerð samnings þessa gerðu Landsvirkjun og ISAL og Hafnarfjarðarkaupstaður og ISAL með sér samninga, (rafmagnssamning og hafnar- og lóðarsamning). Með samningunum var samið um ýmis atriði sem við komu rekstri álvers á Íslandi. Í aðalsamningi var samið um flest þau atriði sem helst voru talin skipta máli varðandi byggingu og rekstur álversins, s.s. um byggingartíma, afköst og umfang starfseminnar, öryggi í rekstri, tolla- og gjaldeyrismál, starfslið hennar, innlend viðskipti o.fl. Með samningnum var sérstaklega samið um að ISAL myndi grípa til allra eðlilegra ráðstafana til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri álversins auk þess sem ISAL skuldbatt sig til að byggja, útbúa og reka álverið og halda því við í samræmi við lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skyldi álverið í þessum efnum vera háð eftirliti viðeigandi opinberra stofnana.
Í aðalsamningi, grein 12.01, var ISAL veitt ákveðin undanþága frá ábyrgð á tjóni sem hlytist af gastegundum og reyk frá álverinu innan svæðis svokallaðrar takmarkaðrar ábyrgðar eins og það var nánar skilgreint í ákvæðinu og fylgiskjali C með hafnar- og lóðarsamningi. Í rafmagnssamningi var samið um afhendingu og sölu á rafmagni frá Landsvirkjun til ISAL og með hafnar- og lóðarsamningi var ISAL látin í té lóð undir álverið í Straumsvík í landi Hafnarfjarðarkaupstaðar og hafnaraðstaða í víkinni. Samhliða þessu var ritað undir svonefnda aðstoðarsamninga milli ISAL og Alusuisse þar sem ISAL var tryggð tæknileg, viðskiptaleg og stjórnarleg aðstoð af hálfu Alusuisse við byggingu og rekstur álbræðslunnar. Að lokum var ritað undir samninga um framkvæmdatryggingu milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse þar sem Alusuisse lagði fram sérstaka tryggingu fyrir því að fyrsti áfangi álversins yrði byggður á réttum tíma. Einnig voru stofnskrá og samþykktir ISAL samþykktar á þessum tíma og gerðar að fylgiskjölum með aðalsamningi.
Aðalsamningi var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 76/1966 um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd um álbræðslu í Straumsvík. Framleiðsla hófst í álverinu á árinu 1969 en álverið var formlega vígt á árinu 1970. Frá þeim tíma hafa sex viðaukasamningar verið gerðir við aðalsamninginn, sem allir hafa hlotið lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 19/1970, nr. 42/1976, nr. 104/1984, nr. 111/1985, nr. 155/1995 og nr. 112/2007. Núgildandi starfsleyfi stefnda, Alcan á Íslandi hf., var gefið út af umhverfisráðherra 7. nóvember 2005 og gildir það til 1. nóvember 2020.
Stefnendur kveðast vera eigendur jarðarinnar Óttarsstaða í Hafnarfirði en það land liggur sunnan og vestan við athafnasvæði stefnda Alcan á Íslandi hf. við Straumsvík. Kveða stefnendur jörðina óskipta en um sé að ræða tvær svokallaðar hálflendur og sé önnur Óttarsstaðir I (eystri) og hin Óttarsstaðir II (vestri). Séu eigendur Óttarsstaða I Straumsbúið sf., sem eigi 25% af heildareigninni eða 50% af hálflendunni, Sigurður B. Markússon, sem eigi 8,34% af heildareigninni eða 16,67% af hálflendunni og Íslenskir aðalverktakar hf., sem eigi 16,67% af heildareigninni eða 33,33% af hálflendunni. Þá séu eigendur hinnar hálflendunnar, Óttarsstaða II, Sína Þorleif Þórðardóttir sem eigi 25% af heildareigninni eða 50% af hálflendunni, og Leifur Sörensen, Gréta Sörensen og Birgir Sörensen eigi hvert um sig 8,34% af heildareigninni eða 16,67% af hálflendunni.
Þá kveða stefnendur að elstu heimildir um jörðina Óttarsstaði séu frá 1379. Hafi hún, að minnsta kosti að hluta, komist í eigu Viðeyjarklausturs 9. september 1457. Um miðja 16. öld hafi jörðin komist í konungseign. Óttarsstaðir hafi verið seldir úr konungseign 28. ágúst 1839 og verið í einkaeign síðan. Kveða stefnendur að jörðin Óttarsstaðir II hafi verið óslitið í eigu sömu fjölskyldunnar í tæpa öld og hafi eigendaskipti orðið fyrir arf og skipti. Óttarsstaðir I hafi hins vegar komist í eigu núverandi eigenda árin 1974 og 1999.
Stefnendur kveðast hafa áformað að taka land sitt til eðlilegra afnota og hagnýtingar sem byggingarland eftir því sem íbúðabyggð í Hafnarfirði hafi þróast í átt að Straumsvík og landi Óttarsstaða. Hafi þeim orðið ljóst eftir viðræður við stjórnvöld í Hafnarfirði að þeir fengju ekki að nota landið í þeim tilgangi. Með samningi stefnda íslenska ríkisins við stefnda Alcan á Íslandi hf. og samþykki stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, hafi verið komið í veg fyrir að landið yrði nothæft til íbúðabyggðar. Hafi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði synjað stefnendum um byggingarleyfi á jörðinni.
Lögmaður stefnenda óskaði með bréfi 5. júlí 2005 eftir viðræðum við stefnda Alcan á Íslandi hf. um hugsanleg kaup hans á landi stefnenda. Þá sendi lögmaður stefnenda iðnaðarráðherra bréf 29. nóvember 2005 og benti meðal annars á að eigendur Óttarsstaða hygðust skipuleggja íbúðabyggð á landinu og krafðist þess að stefndi íslenska ríkið léti stöðva rekstur álverksmiðjunnar í Straumsvík eða að minnsta kosti þann þátt starfseminnar sem ylli mengun á landi stefnenda. Var stefndu Alcan á Íslandi hf. og Hafnarfjarðarkaupstað sent afrit bréfsins daginn eftir. Þá ritaði lögmaður stefnenda umhverfisráðherra bréf 13. janúar 2006 og gerði grein fyrir því að svo virtist sem lögð hefði verið kvöð á land Óttarsstaða og að sú kvöð væri hvorki samkvæmt samningi við eigendur jarðarinnar né hefði stefndi íslenska ríkið keypt landið eða tekið það eignarnámi. Sama dag sendi lögmaður stefnenda iðnaðarráðherra bréf og vakti athygli á að svar hefði ekki borist við bréfinu frá 29. nóvember 2005 auk þess sem hann sendi honum afrit af bréfi sínu til umhverfisráðherra.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið ritaði lögmanni stefnenda bréf 13. febrúar 2006 þar sem því var lýst að ekki væri unnt að verða við kröfum stefnenda um að stöðva rekstur álverksmiðjunnar í Straumsvík og hann teldi að hugsanlegum bótakröfum vegna verksmiðjunnar skyldi beina að fyrirtækinu en ekki íslenskum stjórnvöldum. Lögmaður stefnanda ritaði stefnda Alcan á Íslandi hf. bréf hinn 3. mars 2006 þar sem afrit af bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá 13. febrúar 2006 var meðfylgjandi. Var óskað eftir afstöðu stefnda Alcan á Íslandi hf. til hugsanlegra kaupa á landinu. Stefndi Alcan á Íslandi hf. ritaði lögmanni stefnenda bréf 24. mars 2006 þar sem kröfum stefnenda var hafnað að svo stöddu. Eftir ítrekun með bréfi lögmanns stefnenda 14. nóvember 2006 var kröfum stefnenda endanlega hafnað með bréfi stefnda Alcan á Íslandi hf. 14. desember 2006.
Hinn 27. mars 2007 var þingfest mál stefnenda á hendur stefndu í þessu máli að undanskildu móðurfélaginu Alcan Holdings, þar sem þess var meðal annars krafist að óheimilt væri án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu þannig að frá starfseminni stöfuðu gastegundir og reykur sem mengaði loft, vatn og/eða land á jörð stefnenda að Óttarsstöðum. Þá var krafist viðurkenningar á því að sú takmörkun sem fælist í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse á ábyrgð Alcan á tjóni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar í landi Óttarsstaða væri ólögmæt og ógild gangvart stefnendum. Þá var þess samhliða krafist að stefndu væru skyldir til að kaupa af stefnendum eða greiða þeim skaðabætur fyrir andvirði landsins sem takmörkuð væru afnot af. Þá var þess krafist að stefndu væru hver fyrir sig skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þeirrar skerðingar á notum landsins sem rekja mætti til álbræðslunnar á tímabilinu frá 1. apríl 1997 til dómsuppsögudags. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 23. október 2007, var málinu vísað frá dómi og með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 5. desember 2007, var sá úrskurður staðfestur.
Stefnendur byggja kröfur sínar í máli þessu á því að þeir hafi ekki getað nýtt land sitt á eðlilegan hátt vegna starfsemi álbræðslunnar og á þeirri eignaskerðingu beri allir stefndu ábyrgð. Í þessum þætti málsins er hins vegar eingöngu til úrlausnar hvort vísa beri málinu frá dómi að kröfu stefndu.
III
Stefnendur kveða stefndu hvorki hafa óskað eftir né hafa fengið heimild stefnenda til hagnýtingar eða skerðingar á notum jarðarinnar Óttarsstaða. Virðist stefndi íslenska ríkið hafa heimilað stefnda Alcan á Íslandi hf. að haga starfsemi sinni þannig að hún mengi loft, jörð og/eða vatn á framangreindu 452,4 hektara svæði, svokölluðu svæði takmarkaðrar ábyrgðar, innan marka Óttarsstaða, án þess þó að afla heimildar landeigenda og án þess að bera ábyrgð á því tjóni sem menguninni fylgi innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar. Þá hafi stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjaðarbær ennfremur heimilað stefnda Alcan á Íslandi hf. að menga land innan svonefnds þynningarsvæðis, en það sé í heild 969 hektarar og þar af séu 253,3 hektarar innan marka lands Óttarsstaða og sé það svæði allt að undanskildum 3,8 hekturum innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar í Óttarsstaðalandi. Stefndi íslenska ríkið hafi heimilað þessa mengun í samningum við eiganda álbræðslunnar og í starfsleyfi verksmiðjunnar og stefndi Hafnarfjarðarbær hafi heimilað hana með lóðarleigusamningi og skipulagi fyrir svæðið. Hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður hagsmuna að gæta af starfsemi stefnda Alcan á Íslandi hf. Jörðin Óttarsstaðir sé innan lögsagnarumdæmis stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar sem fari með skipulagsvald á svæðinu og hafi hann meðal annars með skipulagsvaldi sínu komið í veg fyrir að stefnendur geti hagnýtt landið með eðlilegum hætti, en óumdeilt sé að eðlileg þróun íbúðabyggðar á þessum slóðum væri vestur með ströndinni meðal annars í umræddu landi Óttarsstaða. Hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður samið við eiganda álbræðslunnar um starfsemina, meðal annars um mengunarsvæðið og þar með tekist á hendur ábyrgð gagnvart honum þess efnis að honum sé heimilt að nota land stefnenda með framangreindum hætti. Þá beri stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður einnig ábyrgð gagnvart stefnendum sem eigandi landsins, þar sem álbræðslan sé rekin með leyfi stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar sem landeiganda.
Stefnendur kveða jörðina Óttarsstaði II hafa verið óslitið í eigu sömu fjölskyldunnar í tæpa öld og hafi eigendaskipti orðið fyrir arf og skipti. Óttarsstaðir I hafi hins vegar komist í eigu núverandi eigenda árið 1974 og 1999. Álbræðslan í Straumsvík hafi hafið starfsemi sína í smáum stíl árið 1969. Hafi stefndu ekki aðra og betri réttarstöðu gagnvart eigendum Óttarsstaða I en eigendum Óttarsstaða II vegna þess að hinir fyrrnefndu hafi eignast hlutdeild í jörðinni eftir að álbræðslan hóf starfsemi sína. Þeir hafi eignast hlutdeild sína í jörðinni með öllum gögnum, gæðum og réttindum og engin réttindi verið undanskilin. Í yfirfærslugerningum sé ekki að finna neinar takmarkanir á þeim réttindum sem tilheyrt hafi afsalsgjöfum. Því hafi núverandi eigendur eignast allan þann rétt sem forverar þeirra hafi átt yfir landinu.
Stefnendur hafi ætlað sér að taka land sitt til eðlilegra afnota og hagnýtingar sem byggingarland eftir því sem íbúðabyggð í Hafnarfirði þróaðist í átt að Straumsvík og landi Óttarsstaða. Hafi þeim orðið ljóst af viðræðum við stjórnvöld í Hafnarfirði að þeir fengju ekki að nota landið í þeim tilgangi. Hafi einn stefnenda sótt nokkrum sinnum um byggingarleyfi á jörðinni en byggingar- og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi synjað um slíkt leyfi.
Hafi stefndi Alcan á Íslandi hf. fengið heimild stefndu íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar til að haga starfsemi sinni við álbræðslu þannig, að loft, jörð og/eða vatn, á 452,4 hektara svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan merkja jarðarinnar og síðar 456,2 hektara svæði takmarkaðrar ábyrgðar að viðbættu 3,8 hektara þynningarsvæði utan fyrrnefnda svæðisins úr landi jarðarinnar, hafi verið mengað með eitruðum lofttegundum frá álbræðslunni. Þessi mengun hafi útiloki að hægt sé að nota landið í fyrrgreindum tilgangi.
Með lögum nr. 76/1966 hafi samningur milli ríkistjórnarinnar og Swiss Aluminum Ltd. verið staðfestur og samkvæmt 12. gr. þess samnings sé fjallað um mengun og mengunaráhrif og segi þar meðal annars að ISAL, nú Alcan á Íslandi, skuli bera fulla ábyrgð á tjóni sem hljótist af gastegundum og reyk frá bræðslunni á eignum eða öðrum hagsmunum manna sem þar búi eða eigi eignir svo og gangvart þeim sem síðar kunni að öðlast framsal frá þeim, að svo miklu leyti sem um sé að ræða núverandi afnot þess eða afnot í framtíðinni önnur en búskap og garðyrkju. Að mati stefnenda sé ljóst að samkvæmt 1. gr. laga nr. 76/1966 hafi aðeins aðalsamningurinn öðlast lagagildi en ekki fylgiskjölin með honum.
Um skilgreiningu á hugtakinu mengun vísist til 5. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og gr. 3.9 í reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði. Í lagaákvæðinu sé mengun skilgreind þannig, að með henni sé átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun taki einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Auk svæðis takmarkaðrar ábyrgðar hafi umhverfisstjórnvöld ákvarðað svonefnt þynningasvæði álbræðslunnar vegna loftmengunar. Í starfsleyfi ISAL útgefnu af umhverfisráðuneytinu 7. nóvember 1995, sem miði við framleiðslu á allt að 200.000 tonnum af áli, sé um þynningarsvæði verksmiðjunnar vísað til 30. gr. mengunarreglugerðar nr. 48/1994 og sé þynningarsvæðið samkvæmt leyfinu sett til bráðabirgða í samræmi við niðurstöður dreifingarspár fyrir heildarflúoríð og vísað til fylgiskjals með leyfinu. Í starfsleyfi útgefnu af Umhverfisstofnun 7. nóvember 2005 fyrir framleiðslu á allt að 460.000 tonnum af áli, sé þynningarsvæði varðandi brennisteinsdíoxíð og svifryk, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði, sagt fylgja gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015. Útlínur þynningarsvæðis muni vera ákvarðaðar með það fyrir augum að loftmengun fari ekki yfir umhverfismörk utan þess. Þynningarsvæðið sé samtals 969 hektarar að stærð, en þar af séu 253,3 hektarar innan marka jarðarinnar Óttarsstaða. Tekið sé fram í starfsleyfinu, að svæði takmarkaðrar ábyrgðar gildi um flúoríð. Þynningarsvæðið sé að mestu innan marka takmarkaðrar ábyrgðar, en þó ekki að öllu leyti. Á þynningarsvæðinu sé fortakslaust bann við íbúðabyggð, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti.
Við stefnendur hafi ekkert samráð verið haft né leitað leyfis þeirra við gerð samninga um takmörkun ábyrgðar eða afmörkun þynningarsvæðis með þeim eignarskerðingum, sem þeim ráðstöfunum hafi fylgt fyrir stefnendur. Með samningi stefnda íslenska ríkisins við stefndu Alcan á Íslandi hf. og móðurfélag þess og með samþykki stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi verið komið í veg fyrir að landið verði nothæft til íbúðabyggðar. Slík afnotatakmörkun verði ekki ráðin af skipulagsgögnum Hafnarfjarðar fyrir tímabilið 1968-1983. Það sama eigi við um aðalskipulag Hafnarfjarðar 1980-2000. Það sé fyrst í aðalskipulagi 1995-2015, sem sjá megi uppdrátt með afmörkun bráðabirgðamarka þynningarsvæðis. Þess sé rétt að geta, að ekki hafi á upphafsárum álbræðslu í Straumsvík verið tilefni til þess að hefjast handa um skipulag og þróun íbúðabyggðar á landi jarðarinnar á fyrrgreindu svæði takmarkaðrar ábyrgðar, heldur hafi fyrst á síðari árum gefist tilefni til að huga að þróun landsins sem íbúðasvæðis eftir því sem byggð í Hafnarfirði hafi færst í vestur.
Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi synjað stefnendum um byggingarleyfi á jörðinni en stefnendur hafi nú lagt fyrir skipulagsyfirvöld skipulagshugmyndir um allt að tuttugu þúsund manna byggð í landi Óttarsstaða og óskað eftir afstöðu bæjarins en ekki fengið svar. Af þessu verði annaðhvort ráðið að skipulagsyfirvöld vinni enn að málinu eða að svarleysið merki í raun synjun, en stjórnvöld bæjarins treysti sér ekki til að rökstyðja synjunina. Fáist jákvæð afstaða til tillögunnar muni stefnendur leggja fram fullunnar deiliskipulagstillögur um svæðið, nema bæjaryfirvöld synji um leyfi til notkunar landsins samkvæmt tillögunum eins og þau hafi gert að undanförnu.
Í úrskurði Skipulagsstofnunar ríkisins 26. júlí 2002 um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar álvers í Straumsvík sé meðal annars vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar þar sem segi, að innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar verði ekki heimiluð íbúðabyggð. Athygli veki að í úrskurðinum komi fram að í matsskýrslu vegna stækkunarinnar segi, að utan þynningarsvæðisins verði ekki um takmörkun á landnotkun að ræða miðað við þá landnotkun sem fyrirhuguð sé samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Í þessu virðist felast að landnotkun utan þynningarsvæðis takmarkist, en þegar hafi verið tekið tillit til þess í skipulagi.
Frá því að fyrrnefndur aðalsamningur var gerður árið 1966 hafi verið gerðir sex viðaukasamningar við samninginn og hafi stefnendur á síðari árum orðið þess áskynja að stefndi íslenska ríkið hafi, heimildarlaust og andstætt lögum, í samningum við eigendur álbræðslunnar í Straumsvík, lagt kvöð á land Óttarsstaða í þágu álbræðslunnar án fyrirvara um eignarrétt stefnenda og forvera þeirra. Með þessu hafi ríkið brotið gegn einu af meginhlutverkum sínum, sem sé að vernda borgarana fyrir mannréttindabrotum. Skylda þessi verði meðal annars leidd af VII. kafla stjórnarskrárinnar um mannréttindi, þar á meðal af því ákvæði 72. gr. sem mæli fyrir um friðhelgi eignarréttar.
Meðal fylgiskjala aðalsamnings sé svokallaður hafnar- og lóðarsamningur milli stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar og Íslenska álfélagsins hf. Samkvæmt honum hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður undirgengist víðtækar skuldbindingar gagnvart eiganda álbræðslunnar, þar á meðal um að ISAL skuli hafa full og ótakmörkuð afnot af bræðslulóðinni á gildistíma samningsins í þeim tilgangi einum að byggja þar og reka bræðsluna. Í samningnum sé samið um ýmis konar gjöld til stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna álbræðslunnar en hvergi sé vikið að gjöldum til eigenda Óttarsstaða. Með samningi þessum hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður tekist á hendur skuldbindingar, meðal annars vegna svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og beri því ábyrgð gagnvart stefnendum sem landeigendum á sama hátt og aðrir stefndu.
Um þynningarsvæðið segi í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 að ekki sé gert ráð fyrir búsetu innan marka þess og að eigandi álbræðslunnar beri ekki ábyrgð á tjóni innan merkja svæðis takmarkaðrar ábyrgðar. Í 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti segi meðal annars að íbúðasvæði skuli ekki vera á þynningarsvæði. Að mati stefnenda megi færa að því rök að ábyrgð eiganda álbræðslunnar á tjóni vegna mengunar frá bræðslunni teljist til hlutlægrar fébótaábyrgðar, en gildissviðið sé takmarkað gagnvart samningsaðilanum, stefnda íslenska ríkinu, samkvæmt 12. gr. aðalsamningsins.
Þegar samningar stefndu um álbræðslu við Straumsvík hafi verið gerðir árið 1966 og þegar hún hafi verið byggð og tekin í notkun hafi verið í gildi skipulagslög nr. 18/1964, sem kváðu meðal annars á um skipulagsskyldu. Þeirra ákvæða hafi ekki verið gætt við skipulag í Straumsvík og ekkert skipulag fyrir Hafnarfjörð hafi verið gert á þeim tíma. Aðalskipulag hafi fyrst verið samþykkt fyrir Hafnarfjörð á árinu 1982. Þar hafi verið lýst hugmyndum um iðnaðaruppbyggingu á Straumsvíkursvæðinu og lagt til að skipulagningu svæðisins yrði frestað. Árið 1997 hafi verið staðfest nýtt aðalskipulag fyrir Hafnarfjörð 1995-2015. Þar sé tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir búsetu eða landbúnaði neins konar innan þynningarsvæðis. Augljóst sé að sú ákvörðun byggist á hættulegri loftmengun frá álverksmiðjunni á þynningarsvæðinu, sem geri það ónothæft undir íbúðabyggð.
Að mati stefnenda sé auðsætt að á landi Óttarsstaða innan greindra svæða, svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis, hefði risið eitt heppilegasta íbúðarsvæði í þéttbýlinu á suðvesturhluta landsins og án álbræðslunnar hefði íbúðabyggðin þróast áfram í vestur með ströndinni frá Hvaleyrarholti, sem nú sé fyrir löngu fullbyggt, og um land Óttarsstaða. Sú mengun sem liggi yfir landi Óttarsstaða frá álverinu komi því í veg fyrir slíka hagfellda þróun byggðar þar. Það sé ekki hlutverk stefnenda að bera kostnaðinn af því að stefndu hafi komið í veg fyrir þessa notkun landsins.
Sé niðurstaðan því sú að skipulagsmálum á svæðinu hafi verið háttað þannig, að hagsmunir álbræðslunnar hafi haft forgang. Verksmiðjunni sé heimilt að haga rekstrinum þannig, að mengun frá rekstrinum berist yfir á lönd nágranna, þar á meðal land stefnenda og hafi þannig skert notagildi þess og þar með verðmæti þess. Stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður hafi skuldbundið sig gagnvart eigendum álbræðslunnar til að haga skipulagi á svæðinu þannig, að hagsmunir stefnenda séu fyrir borð bornir. Með þessu samkomulagi sé verksmiðjunni tryggt að hún þurfi ekki á eigin kostnað að afla heimilda á grannlandinu eða fjárfesta í mengunarbúnaði, sem takmarki mengunaráhrif við verksmiðjulóðina.
Enda þótt aðgerðir stefndu, íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, hafi þannig sparað verksmiðjunni verulegan kostnað, hafi þessir aðilar ekki tekið þennan kostnað á sig, heldur velt honum yfir á stefnendur.
Sé á því byggt að stefnda Hafnarfjarðarkaupstað sé óheimilt að haga skipulagi einungis með hagsmuni álbræðslunnar í huga og ennfremur sé óheimilt að fresta skipulagi nema um stundarsakir, sbr. til dæmis 20. gr. skipulagslaga nr. 73/1997. Skilyrði þess að fresta skipulagi séu ekki uppfyllt. Ótímabundin frestun á skipulagi í svo langan tíma jafngildi í raun eignarnámi og sé andstæð eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Með því hafi sveitarfélagið gerst bótaskylt gagnvart stefnendum, en sú bótaskylda eigi einnig við um aðra stefndu, sem hafi samið um það sín á milli á hvern hátt skuli haga skipulagi á svæðinu.
Stefndi íslenska ríkið hafi gert umræddan aðalsamning við móðurfélag ISAL, nú Alcan á Íslandi hf., árið 1966 og heimilað að áhrifasvæði mengunar frá álbræðslunni næði langt út fyrir mörk lóðar verksmiðjunnar og yfir á landareignir annarra óviðkomandi aðila. Hafi þetta verið liður í samningum aðilanna og hafi stefndi íslenska ríkið litið svo á að það hafi verið hagsmunir þess að láta álbræðslunni í té þau réttindi að mega haga starfsemi sinni þannig að hún hefði í för með sér óheimila, hættulega og löglausa mengun og þar með komið í veg fyrir eðlileg not landsins undir íbúðabyggð. Stefndi íslenska ríkið hafi því fengið greitt fyrir þessa hagsmuni með einum eða öðrum hætti. Séu stefnendur ekki í aðstöðu til að gera grein fyrir hverja hagsmuni stefndi íslenska ríkið hafi fengið sem samningsaðili fyrir þessa kvöð á landi stefnenda. Stefndi íslenska ríkið hafi ekki aflað heimildar hjá stefnendum eða forverum þeirra sem eigendum landsins og hafi skuldbinding ríkisins gagnvart eiganda álbræðslunnar því með öllu verið óskuldbindandi fyrir stefnendur. Kvöðinni á landið hafi ekki verið þinglýst eða tilkynnt stefnendum. Þar sem stefndi íslenska ríkið hafi þannig í raun svipt stefnendur þeim mikilvægu eignarráðum á landinu að geta ákveðið not þess í samræmi við lög sé því skylt annaðhvort að leysa til sín landið eða greiða stefnendum skaðabætur fyrir tjón þeirra. Jafnframt hafi stefndi íslenska ríkið heimilað öðrum afnot landsins og sé því skylt að þola dóm þess efnis sem greini í dómkröfum málsins. Með þessum samningum og aðgerðum hafi stefndi íslenska ríkið jafnframt átt hlutdeild að skipulagsaðgerðum, sem séu bótaskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 19/1964, nú skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Dugi stefnda íslenska ríkinu ekki að bera fyrir sig að stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður hafi tekið hinar formlegu skipulagsákvarðanir.
Með því að heimila stefnda Alcan á Íslandi hf. þau not lands jarðarinnar Óttarsstaða, sem að framan sé lýst hafi stefndi íslenska ríkið heimildarlaust og andstætt lögum ráðstafað landareign stefnenda. Þessar aðgerðir eða ráðstafanir stefnda íslenska ríkisins séu ólögmætar og gerðar á laun og af ásetningi. Skipti ekki máli hvort stefndi Alcan á Íslandi hf. hafi verið í góðri trú eða ekki enda séu stefnendur þinglýstir eigendur og forverar þeirra hafi verið það einnig. Hafi stefndi íslenska ríkið með því að semja heimildarlaust við eiganda álbræðslunnar um að hann mætti haga starfsemi sinni þannig, að til stórfellds tjóns væri fyrir eigendur nágrannalandsins, gerst sekur um ólögmæta háttsemi.
Stefndi íslenska ríkið hafi veitt stefnda Alcan á Íslandi hf. starfsleyfi og í starfsleyfum, bæði eldri og yngri, hafi stefndi íslenska ríkið farið út fyrir heimildir sínar með því að heimila eigendum álbræðslunnar að haga starfsemi hennar þannig að landið yrði óhæft til þeirra nota sem stefnendur fyrirhuga að hafa af því. Einnig hafi stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður ábyrgst að tekið skyldi tillit til starfsemi álbræðslunnar utan bræðslulóðarinnar við gerð skipulags, sbr. grein 2.02 í hafnar- og lóðarsamningi 28. mars 1966.
Ekki sé um almennar takmarkanir á eignarráðum stefnenda að ræða, sem aðrir sem eins eða líkt sé ástatt um, verði einnig að hlíta. Þvert á móti sé um sértækar takmarkanir á eignarráðum stefnenda að ræða. Eignarréttindi stefnenda séu skert til hagsbóta fyrir stefnda Alcan á Íslandi hf. Samskonar skerðingar séu ekki felldar á aðra landeigendur en eigendur landa við bræðslulóðina. Hefðu stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður átt að tryggja nægilegt land umhverfis álbræðsluna í Straumsvík áður en þeir heimiluðu starfsemi hennar. Þar sem stefndu hafi vikist undan þeirri skyldu sinni verði ekki hjá því komist að dómur gangi um skyldur þeirra til að leysa til sín landið eða greiða skaðabætur vegna tjónsins.
Með vísan til þess sem að framan er rakið hafi engin réttindi flust til stefnda Alcan á Íslandi hf. Sé því um að ræða vanheimild og verði stefndi Alcan á Íslandi hf. að tryggja réttindi yfir svæðinu með samningum við stefnendur. Sé núverandi notkun andstæð lögum og felist í henni heimildarlaus ágangur á lögvernduð eignarréttindi stefnenda og hafi stefndi Alcan á Íslandi hf. því valdið stefnendum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Það sé ekki hlutverk stefnenda að greiða niður kostnað af rekstri álbræðslunnar með því að leggja henni endurgjaldslaust til land. Með þessu hafi stefndi Alcan á Íslandi hf. því einnig auðgast með óréttmætum hætti á kostnað stefnenda og séu kröfur stefnenda því jafnframt byggðar á hinni ólögfestu reglu íslensks réttar um óréttmæta auðgun.
Það sé forn réttarregla og ný, að landeigandi skuli fara með eignarrétt sinn að landi þannig, að ekki sé til skaða fyrir land nágranna. Eignarráðum fasteignaeigenda séu verulegar skorður settar um not fasteigna sinna af tilliti til fasteigna í grenndinni. Mörk milli leyfilegra og óleyfilegra athafna ráðist samkvæmt reglum nábýlisréttar af því hve mikil óþægindi þær hafi í för með sér fyrir nágranna. Í því tilviki, sem hér sé til umfjöllunar, sé ljóst að þær athafnir að menga loft, jörð og/eða vatn á landi stefnenda gangi verulega lengra en stefnendum sem eigendum lands Óttarsstaða sé skylt að þola að lögum, enda leiði athafnirnar til þess að landið verði ónothæft til eðlilegra nota.
Af framangreindu leiði að stefnda Alcan á Íslandi hf. sé óheimilt að haga starfsemi álbræðslunnar þannig að hún valdi mengun sem geri landið ónothæft til eðlilegra afnota. Verði því ekki hjá því komist að viðurkennt verði að stefnda Alcan á Íslandi hf. sé skylt að kaupa af stefnendum landið innan fyrrgreindra marka eða að viðurkennt verði að félagið sé skaðabótaskylt gagnvart stefnendum vegna skerðingar á notagildi og verðmæti lands stefnenda. Um ábyrgð stefnda Alcan á Íslandi hf. vísi stefnendur einnig til þeirrar mikilvægu meginreglu umhverfisréttar sem nefnd hafi verið greiðslureglan og feli í sér að sá sem mengi beri þann kostnað sem hljótist af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum mengunar. Vísist um þetta meðal annars til 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins.
Móðurfélag stefnda Alcan á Íslandi hf., stefndi Alcan Holdings Switzerland Ltd., sé eigandi alls hlutafjár í félaginu og ráði því lögum og lofum í félaginu og breyti engu að stefndi íslenska ríkið tilnefni tvo stjórnarmenn félagsins af sjö. Allar meiriháttar ákvarðanir séu því í raun teknar af móðurfélaginu. Móðurfélagið hafi gert aðalsamninginn við stefnda íslenska ríkið og fengið því framgengt, að ákvæðið um að heimila mengun yfir á grannlönd hafi verið tekið upp í 12. gr. samningsins. Enda þótt ákvæðið heimili stefnda Alcan á Íslandi hf. (áður ISAL) að spara sér kostnað við landakaup eða fjárfestingu í fullkomnari mengunarbúnaði til að unnt væri að halda mengun innan bræðslulóðar, þá hafi þetta verið gert til hagsbóta fyrir móðurfélagið. Það hafi dregið úr stofnkostnaði álbræðslunnar og því hafi upphafsstofnkostnaður orðið minni en ella og sama eigi við um rekstrarkostnað eftir að starfsemin hófst. Þar sem sú afstaða eigenda bræðslunnar, að þeim sé heimilt að skerða afnot og verðmæti grannlanda með tilgreindu fyrirkomulagi rekstrar, verði rakin til ákvæða í aðalsamningi, sem móðurfélagið eigi aðild að, beri það félag ábyrgð gagnvart stefnendum á tjóni þeirra og sé því einnig skylt að innleysa landið innan tilgreindra marka eða greiða bætur. Hafi móðurfélagið verið í vondri trú varðandi heimildir stefndu, íslenska ríkinu og Hafnarfjarðarkaupstað, til að leyfa mengun á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Hafi félaginu eins og öðrum stefndu verið kunnugt að landið væri í einkaeign samkvæmt opinberum þinglýstum skrám og það gæti ekki öðlast meiri og betri rétt yfir landi stefnenda en heimildarmenn þess, stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi átt. Beri móðurfélagið því ábyrgð gagnvart stefnendum á tjóni því sem rekstur álverksmiðjunnar, andstætt reglum nábýlisréttar, hafi valdið þeim.
Eins og rakið hafi verið hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður gert hafnar- og lóðarsamning við eiganda álversins meðal annars um hagsmuni bæjarfélagsins af rekstri þess. Bæjarfélagið hafi og samþykkt að eigendum álversins væri heimilt að haga starfsemi sinni þannig, að hún mengi land, loft og/eða vatn á umræddu svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan marka jarðarinnar Óttarsstaða. Þá hafi bæjarfélagið og hagað skipulagi landsvæðisins við Straumsvík þannig að hagsmunir álverksmiðjunnar hafi verið í fyrirrúmi, en hagsmunir stefnenda verið sniðgengnir og skertir. Gerð slíks skipulags brjóti í bága við jafnræðisreglu og vernd eignarréttar.
Í hafnar- og lóðarsamningi milli stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar og Íslenska álfélagsins 28. júní 1966 komi meðal annars fram að stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður takist sameiginlega á hendur þá skuldbindingu að haga málum þannig að bræðslan geti starfað á þann hátt að mengun frá starfsemi hennar berist yfir á nágrannalönd, þar á meðal land stefnenda. Þessa skuldbindingu hafi greindir stefndu ekki getað staðið við gagnvart stefnda Alcan á Íslandi hf. þar sem þá skorti heimildir á landinu. Ef stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður hefði ekki samþykkt byggingu og rekstur álverksmiðjunnar í Straumsvík væri land Óttarsstaða nú að öllum líkindum fullbyggt íbúðasvæði eða íbúðasvæði í byggingu stefnendum í hag. Á fyrrnefndum gerðum sínum beri kaupstaðurinn ábyrgð gagnvart stefnendum og beri honum því að kaupa af þeim landið eftir atvikum ásamt öðrum stefndu. Dugi stefnda Hafnarfjarðarkaupstað ekki að bera fyrir sig að skipulagsástæður ráði för við skipulagsákvarðanir um afnot umrædds lands á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Þá beri stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður innlausnarskyldu eða bótaábyrgð gagnvart stefnendum á skipulagsákvörðunum þeim sem hafi valdið því að verðmæti landsins varð að engu eða skertist verulega, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 29. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964. Regla þessi endurspegli grunnreglu sem standi í nánum tengslum við 72. gr. stjórnarskrárinnar og á þeirri reglu sé byggt gagnvart öðrum stefndu.
Þar sem sveitarfélagið hafi leyft rekstur álbræðslunnar með þeim hætti sem lýst sé, geti það aðeins staðið við leyfisveitingar sínar að það afli sér heimildar á umræddu landi með kaupum þess eða greiðslu bóta. Hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður fjárhagslega hagsmuni af því að heimila að starfsemi álbræðslunnar sé hagað með þeim hætti, að mengun frá henni berist út fyrir lóðarmörk bræðslunnar og yfir á lönd annarra. Bendi gögn í málinu til þess að stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður hafi haft tekjur af því að heimila stefnda Alcan á Íslandi hf. að menga land stefnenda og beri honum að skila stefnendum þeim leigutekjum. Þá hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður ekki aðeins komið fram gagnvart stefnda Alcan á Íslandi hf. sem handhafi stjórnvalds, heldur einnig sem eigandi lands þess eða lóðar, sem álbræðslan standi á. Þegar lóðarleigusamningur milli stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar og stefnda Alcan á Íslandi hf. hafi verið gerður hafi stefnda Hafnarfjarðarkaupstað mátt vera það ljóst að fyrirhuguð starfsemi á lóðinni myndi valda spjöllum á nágrannalandi, þar á meðal á landi stefnenda. Á þessum gerningi og afleiðingum hans beri stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður ábyrgð gagnvart stefnendum samkvæmt almennum skaðabótareglum. Sem landeigandi beri stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður sömuleiðis ábyrgð á grundvelli óskráðra reglna nábýlisréttar. Hann geti aðeins leyst sig undan þeirri ábyrgð með því að leysa til sín umrætt landsvæði eða greiða stefnendum skaðabætur.
Samkvæmt fyrrgreindum aðalsamningi hafi stefndi íslenska ríkið tekið ábyrgð á að stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður efndi lóðarsamninginn gagnvart álbræðslunni. Þannig sé stefndi íslenska ríkið meðábyrgur stefnda Hafnarfjarðarkaupstað að því er varði skuldbindingar samkvæmt lóðarsamningnum og beri á honum fulla ábyrgð gagnvart stefnendum. Ein af forsendum aðalsamningsins hafi verið að gerður yrði lóðarsamningur sem heimilaði afnot af eða skerðingu á grannlöndum með þeim hætti sem lýst hafi verið. Í samningsgerð þessari hafi falist réttarbrot gagnvart stefnendum, sem allir stefndu beri ábyrgð á. Eina leiðin til að starfsemi álbræðslunnar geti talist samræmast lögum sé að álbræðslan og meðstefndu afli heimilda hjá stefnendum til að haga starfsemi sinni með framangreindum hætti. Hafi stefnendur lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningu á þessum rétti sínum gagnvart stefndu hverjum fyrir sig.
Sem lagaákvæði sé 12. gr. aðalsamningsins alls ekki nægjanlega skýr til þess að teljast heimild til takmörkunar á eignarréttindum stefnenda. Séu dómkröfur stefnenda um kaupskyldu og bótaskyldu stefndu meðal annars á því reistar að samningurinn bindi ekki stefnendur og forvera þeirra. Ennfremur byggi stefnendur á því að tjón þeirra falli efnislega utan ramma ábyrgðartakmörkunarinnar í 12. gr. aðalsamningsins. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins beri stefndi Alcan á Íslandi hf. fulla ábyrgð á tjóni að svo miklu leyti sem um sé að ræða land innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar eða afnot í framtíðinni, önnur en búskap og garðyrkju. Sömuleiðis komi fram í ákvæðinu að þeir sem eftir gerð samningsins taki sér bólfestu innan svæðisins taki með því á sig áhættu af hvers konar tjóni að því er varði búskap og garðyrkju. Tjón stefnenda tengist hvorki búskap né garðyrkju, heldur heimild til þess að hagnýta land sitt í þágu íbúðabyggðar. Þannig nái ábyrgðartakmörkunin ekki yfir tjón stefnenda og geti stefndu því ekki borið ákvæðið fyrir sig auk þess sem í ljósi meginreglna eignarréttar og skaðabótaréttar beri að skýra slíkar ábyrgðartakmarkanir þröngt.
Stefndi Alcan á Íslandi hf. virðist telja, að verði honum bannað að haga starfsemi sinni þannig að henni fylgi mengun, myndi það hafa í för með sér að óhjákvæmilegt yrði að loka álbræðslunni og það myndi leiða til taps fjárfestingar og framtíðarhagnaðar. Vera kunni að hagsmunir stefnda Alcan á Íslandi hf. af því að reka álbræðsluna í óbreyttri mynd séu meiri en hagsmunir stefnenda af því að halda óskertum eignarrétti sínum að landinu og eðlilegri hagnýtingu landsins sem byggingarlands undir íbúðarhús. Til að gæta slíkra hagsmuna þurfi stefndi Alcan á Íslandi hf. að afla sér eignarheimildar á viðkomandi landi, með kaupum á landinu, samningum um afnot þess eða með greiðslu skaðabóta.
Enda þótt stefndi Alcan á Íslandi hf. og þar með móðurfélagið, hafi lagt greint land undir starfsemi sína án þess að hafa til þess heimildir að lögum, verði ekki fram hjá því litið, að stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður hafi hvor um sig og sameiginlega stuðlað að og átt hlutdeild í að stefndi, Alcan á Íslandi hf., hagaði starfsemi sinni með tilgreindum hætti. Því beri þeir einnig ábyrgð gagnvart stefnendum og séu kaup- eða bótaskyldir hvor um sig á sama hátt og Alcan á Íslandi og móðurfélagið. Verði komist að þeirri niðurstöðu, að einungis tveir hinna stefndu, eða jafnvel einn þeirra, séu kaup- eða bótaskyldir gagnvart stefnendum falli það undir kröfugerð þeirra í málinu.
Enda þótt þess sé ekki krafist að dómstóllinn taki afstöðu til verðmætis greinds landsvæðis, þyki rétt vegna hugsanlegs hagsmunamats í málinu að leggja fram gögn um líklegt verðmæti lands á svæðinu. Svo vilji til að stefndi Alcan á Íslandi hf. hafi keypt af stefnda Hafnarfjarðarkaupstað samkvæmt kaupsamningi og afsali 30. desember 2003 51,95 hektara á samtals 290.323.000 krónur eða 5.588.508 krónur hvern hektara. Samkvæmt afsali 3. nóvember 2004 hafi stefndi Alcan á Íslandi hf. keypt 10.350,7 fermetra lands á þessu svæði fyrir 34.000.000 króna eða 32.848.020 krónur hvern hektara. Þá hafi stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður keypt hinn 2. júlí 2003 40.603 fermetra lands, upphaflega úr landareignum Þorbjarnarstaða, Straums og Litla- Lambhaga, á 30.573.000 krónur eða 7.530.000 krónur hvern hektara. Frá árinu 2003 hafi landverð undir byggingar, einkum íbúðabyggingar, hækkað verulega. Gefi þetta til kynna verðmæti hvers hektara lands á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Framangreindar fjárhæðir frá 2003 og 2004 þurfi þó að framreikna með hliðsjón af þróun landverðs. Eftirsókn eftir landi á þessum slóðum sé mikil og sjáist best á því að verktakafyrirtæki hafi keypt hálfa jörðina Lónakot vestan Óttarsstaða og jörðina Hvassahraun þar fyrir vestan í því skyni að skipuleggja og byggja þar íbúðabyggð.
Stefnendur haldi því ekki fram að þeir hafi verið sviptir formlegum eignarheimildum sínum að jörðinni Óttarsstöðum. Þeir hafi hins vegar verið sviptir þeim meginþætti eignarréttarins að jörðinni að ráða því á hvern hátt land jarðarinnar við standlengjuna innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis sé hagnýtt. Sé það láglendið við ströndina sem sé kjarni lands jarðarinnar og þar séu hentugustu aðstæðurnar fyrir byggingarland undir íbúðarhús og jafnframt sé sá hluti landsins hinn verðmætasti. Hann hafi verið lagður undir mengun frá álverinu án heimildar stefnenda.
Stefnendum sé ekki skylt í viðurkenningarmáli sem þessu að sýna fram á hvert tjón þeirra sé heldur nægi að færa líkur að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Stefnendur hafi sýnt fram á og sannað að umráðaréttur þeirra yfir landinu, sem kvaðirnar hafi verið lagðar á í þágu álversins, hafi verið afnuminn eða verulega skertur. Þeim sé óheimilt að nota landið á hagkvæmasta og verðmætasta háttinn. Þannig hafi stefnendur nægilega sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni.
Hafi skipulagsákvarðanir á svæðinu tekið mið af starfsemi álversins og áhrifum þess utan bræðslulóðar enda geti stefndu íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður ekki annað en hagað skipulagi þannig að stefnendur fái ekki notið eignarréttar síns yfir landinu með þeim heimildum sem honum fylgja. Á því beri þeir ábyrgð gagnvart stefnendum. Þær takmarkanir á eignarrétti manna er stafi frá opinberum aðilum þurfi að uppfylla ákveðnar kröfur í ljósi eignarréttarákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sé meðal annars um að ræða kröfur um nauðsyn, meðalhóf og jafnræði. Þá þurfi slíkar takmarkanir að vera almennar í eðli sínu. Með því að kröfur þessar geti ekki talist uppfylltar geti stefndu ekki borið þær fyrir sig.
Í máli þessu sé einungis gerð krafa um að viðurkenning bótaskyldu nái 10 ár aftur í tímann þar sem bótakröfur utan samninga fyrnist á 10 árum. Sé krafa þessi höfð uppi samhliða aðal-, vara-, þrautavara- og þrautaþrautavarakröfum enda sé hér um að ræða kröfu vegna þess tjóns sem stefnendur hafi nú þegar orðið fyrir, með því að þeim hafi verið ómöguleg eðlileg nýting eignarlands síns. Aðrar kröfur stefnenda miðist hins vegar við núverandi ástand og bæti ekki tjón aftur í tímann. Krafa þessi sé því sett fram í samræmi við meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur. Allar málsástæður stefnenda eigi einnig við um kröfu þessa.
Ráðstafanir stefndu, íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, í þágu stefndu, Alcan á Íslandi hf. og móðurfélagsins, sem leitt hafi til afnáms eða stórfelldrar skerðingar á nýtingarrétti stefnenda á umræddu landsvæði, jafngildi eignarnámi án greiðslu eignarnámsbóta. Það inngrip sem felist í losun álversins á hættulegum mengunarefnum á land stefnenda eigi sér ekki stoð í lögum. Skilyrði lögmætisreglunnar séu ekki uppfyllt. Ákvæði 12. gr. aðalsamnings heimili ekki slíkt inngrip í réttindi stefnenda, enda verði takmarkanir á mannréttindum að eiga sér skýra og afdráttarlausa lagastoð. Stefnendur hafi ekki notið andmælaréttar. Ekki hafi verið sýnt fram á að inngripið stefni að lögmætu markmiði. Ekki sé gætt jafnvægis milli almannahagsmuna og hagsmuna stefnenda. Meðalhófs sé ekki gætt og ekki sýnt fram á að ekki megi ná þeim markmiðum sem að sé stefnt með öðrum hætti en gert sé.
Landstærðir séu reiknaðar eftir upplýsingum lesnum af uppdráttum frá skipulagsyfirvöldum í Hafnarfirði. Sé gerður fyrirvari um landstærðir þessar og áskilinn réttur til að draga úr þeim eða auka við þær komi í ljós að stærðirnar séu ekki rétt tilgreindar í stefnu. Frá heildarlandstærð svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis hafi verið dregnar landstærðir 8 spildna innan svæðanna, sem ráðstafað hafi verið til annarra en stefnenda og stefnendur hafi ekki umráð yfir. Stærð og lega spildna þessara komi fram í kröfugerð og vísist um þær til landakorts á dómskjali nr. 28. Á landakorti þessu séu dregnir upp alls 10 reitir, en tveir þeirra, nr. 5 og 6, teljist hluti af landi Óttarsstaða. Reitum nr. 1-3, 5 og 7-9 hafi verið afsalað út úr landinu með afsali 30. apríl 1974 og reit nr. 10 hafi verið afsalað 25. júlí 1973. Þá hafi reitur nr. 4 verið leigður samkvæmt erfðafestusamningi sem hafi verið sagt upp en gögn sýni að ekkja erfðafestuhafans sitji í óskiptu búi eftir mann sinn og sé reiturinn meðal eigna búsins og því þyki rétt að draga þann reit frá kröfugerð. Reitur 6 sé í eigu stefnenda, Leifs, Birgis og Grétu.
Með vísan til framanritaðs sé ljóst að stefnendur eigi lögvarða hagsmuni í máli þessu. hafi dómstólar ekki aðeins vald til að dæma um sakarefnið skv. 24. gr. laga um meðferð einkamála, heldur sé þeim það og lögskylt samkvæmt sömu lögum og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Dómkröfur stefnenda séu skýrar og afdráttarlausar og lúti að vernd mannréttinda stefnenda.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísa stefnendur sérstaklega til 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði, aðildar-, varnar- og málskostnaðarákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo og ákvæða sömu laga um viðurkenningarmál, lögvarða hagsmuni og dómhæfi krafna, laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, 257. gr. almennra hegningarlaga, hinnar ólögfestu almennu skaðabótareglu og meginreglna skaðabótaréttar að öðru leyti, meðal annars um hlutlæga bótaábyrgð og ólögfestra meginreglna eignarréttar. Um varnarþing vísa þeir til 3. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga.
IV
Málsástæður og lagarök stefndu Alcan á Íslandi hf. og Alcan Holdings Switzerland Ltd. Stefndu byggja á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda uppfylli ekki kröfur laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Þá séu kröfur stefnenda óljósar og þannig úr garði gerðar að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um þær auk þess sem ekki sé gætt að því að stefna öllum þeim sem hafi hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Því verði ekki komist hjá því að vísa máli þessu frá dómi í heild sinni.
Í kröfugerð í stefnu undir aðalkröfu og varakröfu sé þess krafist að viðurkennt verði að stefndu sé hverjum um sig skylt að kaupa 450,5 hektara svæði, eða til vara 253,3 hektara svæði, úr landi þeirra í jörðinni Óttarsstöðum. Ljóst sé að krafa þessi gangi ekki upp því ef fallist yrði á kröfugerðina óbreytta lægi fyrir dómsorð sem gerði hverjum stefnda um sig skyldan til að kaupa samtals 450,5 eða til vara 253,3 hektara svæði úr jörðinni, þ.e. gerði þeim skylt að kaupa samtals 1.802 hektara eða til vara 1.013,2 hektara svæði úr jörðinni, eða mun stærra svæði en falli undir svæði takmarkaðrar ábyrgðar eða þynningarsvæði sem kröfur stefnenda byggi á. Óljóst sé af hverju kröfur séu settar fram með þessum hætti en þó sé ljóst að kröfugerð stefnenda gangi ekki upp og samræmist ekki þeim kröfum sem lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 geri, einkum d. liður 1. mgr. 80. gr. laganna.
Þá geri stefnendur kröfu um að viðurkennd verði bótaskylda stefndu í málinu, sbr. þrauta- og þrautaþrautavarakröfur og kröfu um viðurkenningu bótaskyldu vegna tjóns sem orðið hafi vegna liðinnar tíðar. Stefnendur haf hins vegar ekki með neinum hætti gert líklegt að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Að meginstefnu byggi málatilbúnaður þeirra á því að tjón þeirra liggi í því að þeir geti ekki nýtt landið undir íbúðabyggð. Fyrir liggi hins vegar að þeir geti nýtt landið, eða að minnsta kosti hluta þess, undir atvinnustarfsemi og hugsanlega hafnarstarfsemi. Málatilbúnaður stefnenda ætti því með réttu að beinast að því að mismunur sé á milli verðmætis lands undir atvinnustarfsemi og lands undir íbúðabyggð. Ekkert hafi verið sýnt fram á að svo sé heldur aðeins fullyrt að land undir íbúðabyggð sé verðmætara en land undir atvinnustarfsemi án nokkurs rökstuðnings. Slíkar fullyrðingar séu ekki nægar til þess að líkur teljist fyrir því að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni, enda liggi ekkert fyrir um að þær séu sannar. Í raun virðist málatilbúnaður stefnenda byggður á þeirra eigin hugmyndum um nýtingu landsins sem séu ekki í neinum tengslum við skipulag meðstefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar sem fari með skipulagsvald á svæðinu í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Sé því ljóst að kröfur um viðurkenningu á bótaskyldu séu verulega vanreifaðar, þrátt fyrir óhóflega lengd stefnu og málatilbúnaðar stefnenda, sem sé ekki í samræmi við ákvæði laga um meðferð einkamála, einkum e lið 1. mgr. 80. gr. laganna.
Þá komi fram í stefnu að Óttarsstaðajörðin skiptist í Óttarsstaði I og II. Eigendur Óttarsstaða I séu Sigurður B. Markússon (16,67%), Straumsbúið sf. (50%) og Íslenskir aðalverktakar hf. (33,33%). Eigendur Óttarsstaða II séu hins vegar Sína Þorleif Þórðardóttir (50%) og Leifur, Gréta og Birgir Sörensen (16,67% hver um sig). Verði því ekki betur séð en að eigendur Óttarsstaða I eigi þá jörð í óskiptri sameign en eigendur Óttarsstaða II eigi þá jörð í óskiptri sameign, en að eigendur Óttarsstaða I fari ekki með neinar eignarheimildir eða aðrar heimildir á landi Óttarsstaða II og öfugt. Ekki verði hins vegar ráðið af gögnum málsins hvernig jarðirnar tvær liggi með tilliti til hinnar, þ.e. hvernig Óttarsstaðir I liggja með tilliti til Óttarsstaða II og svæðis takmarkaðrar ábyrgðar eða þynningarsvæðis, t.d. hvor þeirra, eða hvort báðar, liggi innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar eða þynningarsvæðis. Þessu sé heldur ekki lýst í stefnu. Þannig sé óljóst hvort allir stefnenda geti haldið því fram að hafa þurft að þola takmarkanir á notum lands síns af völdum stefndu eða einungis sumir. Málatilbúnaður sóknaraðila sé því verulega vanreifaður að þessu leyti.
Þá byggi stefnendur nánast allar kröfur sínar á hnitum sem nánar séu tilgreind í dómkröfum og á dómskjölum nr. 27 og 28. Telji stefndu að ekki sé hægt að leggja þessi hnit eða dómskjöl 27 og 28 til grundvallar úrlausn þessa máls enda sé ekki útsýrt hvernig hnit þessi séu fundin út eða hvaða skjöl eða heimildir liggja þeim til grundvallar. Ekki liggi fyrir að hnit þessi eða landstærðir séu óumdeildar eða samþykktar af eigendum nærliggjandi jarða við eða innan Óttarsstaðalandsins. Ómögulegt sé að kveða upp dóm án þess að þetta liggi óyggjandi fyrir enda meðal annars gerð krafa um að stefndu kaupi tiltekið landsvæði. Sé ekki hægt að fallast á slíka kröfu nema óyggjandi sé hver sé stærð og lega þess landsvæðis. Ekki liggi fyrir neinir eignaskiptasamningar sem staðfesti eignarhald eða landstærðir. Svo virðist meira að segja að eignarhald á hinum úrskiptu spildum sé óvissu háð, þar sem ekkert sé upplýst um eignarhald á spildu sem nefnd sé spilda 5 í stefnu og á dómskjali 28. Raunar séu spildur 5 og 6 ekki tilgreindar á dómskjali 28. Sé málatilbúnaður stefnenda því verulega vanreifaður af þessu leyti.
Framangreind óvissa um landstærðir, legu og eignarhald úrskiptra spildna úr Óttarsstaðalandinu og nágrannajarða leiði til þess að ekki sé hægt að leggja dóm á þetta mál án aðildar eigenda þessara jarða, þar sem dómur myndi varða verulega hagsmuni þeirra, enda megi halda því fram að dómur sem féllist á kröfur stefnenda í máli þessu væri að staðfesta að þær landstærðir og hnit sem byggt sé á í málinu af hálfu stefnenda gagnvart öðrum eigendum lands innan og við Óttarsstaði. Því beri að vísa þessu máli frá dómi, sbr. 18. gr. laga um meðferð einkamála.
Þá sé óljóst af stefnu hvernig aðild móðurfélagsins, Alcan Holdings, sé tilkomin, og í raun engin ástæða til að stefna móðurfélaginu í máli þessu. Sé aðild móðurfélagsins því sérstaklega vanreifuð og beri að vísa öllum kröfum á hendur móðurfélaginu frá dómi, burt séð frá kröfum á hendur öðrum stefndu í málinu.
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins.
Stefndi telur kröfugerð mjög óskýra í málinu og telur kröfugerð og málatilbúnað stefnenda fara í bága við þær kröfur sem gerðar séu í 13. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 80. gr. þeirra laga. Sé málið vanreifað um mikilvæg atriði og stefnan óljós og óskýr um mikilvæg atriði. Telji stefndi að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur eins og þær séu settar fram í stefnu. Þá sé lengd stefnu óhóflega löng og sé í henni skriflegur málflutningur. Þá sé lýsing málsástæðna og annarra atvika ekki gagnorð sem sé andstætt e lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.
Í aðal- og varakröfu stefnenda um kaupskyldu sé kröfugerð orðuð með þeim hætti að hverjum fjórum stefndu verði gert skylt að kaupa allt landssvæði sem þar sé tilgreint. Um sé að ræða mun meira landsvæði en stefnendur telji sig eiga og feli kröfugerð í sér kröfu um að svæðið verði keypt fjórfalt. Þetta geti ekki staðist og geti kröfugerð í stefnu ekki endurspeglað dómsorð yrði hún tekin til greina. Þá standist kröfugerðin ekki skýrleikakröfur 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndi hafi uppi sömu athugasemdir varðandi kröfur um viðurkenningu skaðbótaskyldu. Þannig sé krafist í stefnu að hver stefndu sé skaðabótaskyldur vegna meintrar skerðingar alls landsvæðisins sem þar sé tilgreint þ.e. fjórfalt.
Á því sé byggt af hálfu stefnda að ekki sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að hafa uppi slíkar viðurkenningarkröfur í málinu, en með öllu sé ósannað að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni eða þá hvert hið meinta tjón sé. Ekki hafi verið sýnt fram á lagagrundvöll kaupskyldu með nokkrum hætti. Stefnendur virðist geta nýtt landið eða að minnsta kosti hluta þess undir atvinnustarfsemi og hugsanlega undir hafnarstarfsemi. Sé ósannað að land sé verðminna fyrir slíka notkun en íbúðabyggð. Sé ósannað að nokkuð það sem snúi að stefnda valdi stefnendum tjóni.
Ekki hafi verið reynt að hnekkja lögunum, samningum eða starfsleyfum. Málatilbúnaður stefnenda sé að talsverðu leyti byggður á forsendum þeirra sjálfra um nýtingu lands og spám um íbúðabyggð sem ekki sé í neinum tengslum við skipulag meðstefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar. Að mati stefnda séu forsendur stefnenda óraunhæfar og bendi hann á að meiri hluti lands Óttarstaða sem falli undir þynningarsvæði sé óskipulagt og í bið.
Í stefnu sé fjallað um skiptingu Óttarsstaðajarðar í I og II. Ekki verði af gögnum málsins séð hvernig jarðirnar tvær liggi með tilliti til hvor annarrar og svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis. Því sé óljóst og vanreifað hvort allir stefnendur geti haldið því fram að hafa þurft að þola takmarkanir á notkun lands síns af völdum stefnda eða einungis sumir.
Mörk þynningarsvæðis samkvæmt starfsleyfinu séu til bráðabirgða. Ýmsir möguleikar á skipulagi virðist vera til skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum í Hafnarfirði en svæðið sé óskipulagt að mestu með heimild í 20. gr. laga nr. 73/1997. Kröfugerð stefnenda sé því í andstöðu við 1. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Ekkert virðist á þessu stigi liggja fyrir um það hvernig framtíðarnýtingu Óttarsstaðalands verði háttað. Þá telji stefndi kröfugerð stefnanda feli í sér lögspurningar sem andstæðar séu 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.
Dómkröfur í stefnu séu ekki þær sömu nú og þær voru í fyrra máli. Stefndur hafi nú valið þann kost að tengja allar dómkröfur sínar fyrir utan málskostnaðarkröfuna við hnit sem nánar séu tilgreind í dómkröfum. Stefndi telur að dómur verði ekki lagður á neina kröfu stefnenda. Sé ekki í stefnu útskýrt hvernig umrædd hnit séu fundin út og sé þeim mótmælt sem óstaðfestum og ósönnuðum. Sé ekki sýnt fram á hvernig stærðir jarða/landa séu fundnar út og landamerki séu óstaðfest. Veruleg óvissa sé um landsstærðir, eignarhald ofl. Enginn eignaskiptasamningur liggi fyrir sem segi til um afmörkun jarða stefnenda gagnvart jörðum sem liggi að hinu 450,5 hektara svæði sem aðalkrafa taki til, þ.e. utan frá og ekki heldur vegna þeirra 10 reita sem lýst sé í stefnu og algerlega ósannað að hnitsetning þessara svæða sé rétt. Slíkir eignaskiptasamningar þar sem landeigendur komi sér saman um stærðir og í þessu tilviki hnit, sé forsenda þess að hægt sé að leggja dóm á málið. Ekki liggi heldur fyrir fullnægjandi upplýsingar um eigendur og afsöl allra þeirra sem eigi umrædda 10 reiti. Þá séu forsendur hnitsetninga algerlega óljósar og vanreifaðar. Dómskjölum 27 og 28 sé mótmælt meðal annars sem óstaðfestum og efni þeirra ósönnuð. Ósannað sé að hnit séu rétt fyrir land Óttarsstaða, fyrir svæði takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis innan jarðar stefnenda. Að mati stefnda séu þau skjöl og tilurð þeirra ekki nægilega traustur grundvöllur til að dómur verði lagður á sakarefnið eins og það liggi fyrir. Sé hvorugt dómskjalið staðfest eða áritað. Skjölin séu einhliða samin af stefnendum án fullnægjandi upplýsinga um það hvernig þær tölur sem þar birtist séu fundnar út. Ekki liggi fyrir neitt samþykki eigenda aðliggjandi jarða og umræddra 10 reita að þeir samþykki hnit þau sem fram komi í dómkröfum. Þá séu eigendur aðliggjandi jarða og allra 10 reita ekki aðilar að málinu sem hefði verið nauðsynlegt þar sem dómur bindi hagsmuni þeirra. Það sé ekki hlutverk dómstóla að framkvæma eignaskipti eða gera eignaskiptasamninga. Málið sé því stórlega vanreifað að mati stefnda.
Þá telji stefndi ósannað að land stefnenda sem lýst sé í stefnu sé í óskiptri sameign þeirra. Því sé mótmælt að stefnendur hafi bætt úr ágöllum á kröfugerð og sönnunarfærslu sem Hæstiréttur hafi talið að ætti að leiða til frávísunar málsins. Eigi framangreind atriði að leiða til þess að málinu verði vísað frá dómi í heild sinni.
Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Stefndi kveðst byggja frávísunarkröfu sína á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda uppfylli ekki kröfur laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.
Sé þess krafist í stefnu að viðurkennt verði að stefndu sé hverjum um sig skylt að kaupa 450,5 hektara svæði úr landi stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum, eða til vara 274,6 hektara svæði. Kröfugerðin gangi ekki upp. Ef einn af meðstefndu myndi kaupa hlut þennan í Óttarsstöðum, gætu aðrir stefndu ekki uppfyllt skyldu sína ef dæmt yrði í samræmi við þessa kröfugerð. Þannig yrði stefnda, sem og öðrum meðstefndu en þeim sem keypti hlutann, ómögulegt að hlíta dómi.
Stefndi fari með skipulagsvaldið á þessu landi sem öðru landi innan staðarmarka kaupstaðarins, en ekki stefnendur. Vísist þar um til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum, til dæmis 2. mgr. 3. gr. laganna, þar sem segi að sveitarstjórnir annist gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana.
Þær fullyrðingar stefnenda, að óumdeilt sé að eðlileg þróun íbúðabyggðar á þessum slóðum væri vestur með ströndinni ef ekki væri bannað að byggja þar vegna hagsmuna álbræðslunnar, séu rangar að mati stefnda. Sé umrætt landsvæði vel fallið fyrir ýmiss konar atvinnurekstur. Mjög aðdjúpt sé við landið og góðir möguleikar á því að stækka höfnina í Straumsvík. Nægjanlegt vatnsmagn sé, sem fullvíst sé að fáist með borunum ásamt möguleikum á gufuorku af Krýsuvíkur- og Trölladyngjusvæðinu. Lega landsins sé að öðru leyti góð til atvinnurekstrar vegna nálægðarinnar við aðrar hafnir, við flugvöllinn á Miðnesheiði og við Reykjavík.
Sé möguleiki á því að þessi hluti Óttarsstaða verði skipulagður sem hafnarsvæði. Ógerlegt sé að stækka aðalhöfnina meira og einu þróunarmöguleikar í hafnarstarfsemi í Hafnarfirði felist í því að stækka höfnina í Straumsvík og yrði umrætt land Óttarsstaða, sem um er fjallað í stefnu, þá að hluta eða að öllu leyti hafnarsvæði. Þá sé ekki útilokað að þessi hluti Óttarsstaðalands verði deiliskipulagður undir íbúðabyggð. Mörk þynningarsvæðisins samkvæmt starfsleyfi álverksmiðjunnar séu til bráðabirgða og hugsast geti að mörkin muni síðar ekki ná inn á Óttarsstaðaland, heldur einungis að mörkum landsins. Vísist til þess að við síðustu stækkunaráform Alcan hafi félagið talið þá minnkun þynningarsvæðisins mögulega þrátt fyrir mjög mikla stækkun verksmiðjunnar. Séu þessir möguleikar á skipulagi allir til skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum og sé þetta svæði því óskipulagt nú að mestu af þessum sökum með heimild í 20. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Kröfugerð stefnenda sé samkvæmt þessu í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þar sem þau réttindi sem stefnt sé út af séu ekki enn orðin til og verði hugsanlega aldrei til og beri þegar af þessari ástæðu að vísa málinu frá dómi.
Þá sé kröfugerð stefnenda vanreifuð og of óskýr og óljós til þess að á hana verði lagður dómur. Nægi í því sambandi að nefna það grundvallaratriði að stefnendur byggi alla kröfugerð sína á því að land skipulagt undir íbúðarhúsnæði sé verðmeira en land skipulagt undir atvinnuhúsnæði, án þess að sýna fram á það með sönnunargögnum eða með öðrum hætti að svo sé. Þá sé ekki minnst á þann möguleika að skipuleggja megi þetta svæði sem hafnarsvæði og hvers virði landið yrði þá.
Að mati stefnda uppfylli kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda ekki kröfur um skýran og glöggan málatilbúnað og samrýmist því ekki ákvæðum 80. gr. laga um meðferð einkamála.
Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 612/2007, sem staðfest hafi úrskurð héraðsdóms um frávísun þessa máls áður en stefnt hafi verið að nýju, hafi niðurstaðan orðið sú að málið væri vanreifað hvað aðildina varðaði. Hafi stefnendur ekki bætt úr þeim ágalla og sé málið því enn svo vanreifað að ekki verði komist hjá því að vísa því frá dómi.
Kveður stefndi að fyrir liggi að Óttarsstaðir skiptist í tvær jarðir, Óttarsstaði II eða Óttarsstaði vestri, og Óttarsstaði I eða Óttarsstaði eystri. Jörðin Óttarsstaðir vestri sé samkvæmt gögnum málsins í óskiptri sameign fjögurra af sjö stefnendum en Óttarsstaðir eystri sé í óskiptri sameign hinna þriggja. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar segi að af gögnum málsins verði ekki ráðið hvort það landsvæði sem kröfugerð sóknaraðila taki til sé í óskiptri sameign jarðanna tveggja, og sé ekki svo hvernig afstöðu hvorrar jarðar um sig til þessa svæðis sé þá háttað. Telji stefnendur jarðirnar allar vera í óskiptri sameign og telji sig færa sönnur fyrir því með söguskoðun sem lýst sé í stefnu. Þessi söguskoðun færi líkur fyrir því að mati stefnda að útland jarðanna hafi verið í óskiptri sameign og að um sameiginleg landamerki sé að ræða gagnvart aðliggjandi jörðum. Engar líkur séu færðar fyrir því að heimaland jarðanna hafi verið í óskiptri sameign. Stefnendur hafi því ekki bætt úr þessum ágalla um aðildina sem leiddur hafi verið í ljós í framangreindum dómi Hæstaréttar og leitt hafi til frávísunar málsins. Óljóst sé því áfram um afstöðu jarðanna til þessa svæðis sem stefnt sé út af.
Í aðalkröfu sé þess krafist að stefndu hverjum um sig verði gert skylt að kaupa 450,5 hektara svæði úr landi Óttarsstaða, sem afmarkað sé með hnitum. Ekki komi fram í málinu að stefnendur séu sammála því að þessi hnit séu rétt mæld eða tekin á réttum stöðum eða hver afstaða þeirra sé sem eiga aðliggjandi jarðir. Ekki komi heldur fram að eigendur þeirra 10 spildna sem tilgreindar séu í stefnu og dragast eigi frá landinu, enda ekki í eigu stefnenda, séu sammála hnitunum. Ef dómur yrði felldur á málið á þessum grunni væri í raun um að ræða að framkvæmd væri landskiptagerð án þess að afstaða eigenda lægi fyrir og þeirra annarra sem hagsmuna hafi að gæta. Verði landskipti að fara fram í samræmi við landskiptalög nr. 46/1941. Þessum hnitum sé því öllum mótmælt sem ósönnuðum. Þegar af þeirri ástæðu, að óljóst sé hver stærð landsins sé sem stefndu eigi að vera gert skylt að kaupa samkvæmt dómkröfum stefnenda, beri að vísa máli þessu frá dómi.
Kveður stefndi að sömu sjónarmið og nú hafi verið rakin eigi við um varakröfur stefnenda. Þá sé skaðabótakrafa þeirra vegna skerðingar á notkun umrædds lands frá 1. júlí 1998 til endanlegs dómsuppsögudags einnig vanreifuð, en stefnendur hafi ekki sýnt fram á að nein not landsins hafi verið skert eða að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Þessari kröfu beri því einnig að vísa frá dómi. Að öðru leyti en nú hafi verið rakið vísi stefndi til málsástæðna meðstefndu varðandi frávísunarkröfu sína.
Stefndi rökstyður málskostnaðarkröfu sína með vísan til 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
V
Stefndu Alcan á Íslandi hf. og Alcan Holdings Switzerland Ltd. telja aðild þess síðarnefnda óljósa og vanreifaða og beri því að vísa kröfum á hendur honum frá dómi. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiða varnir byggðar á aðildarskorti til sýknu verði fallist á þær og verður málinu því ekki vísað frá dómi af þeim sökum.
Kröfur stefnenda í máli þessu eru viðurkenningarkröfur og samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er unnt að leita viðurkenningardóms um tilvist réttinda eða réttarsambands ef sá sem kröfu gerir telst hafa lögvarða hagsmuni af slíkri kröfu. Gildir þetta án tillits til þess hvort aðilanum væri þess í stað unnt að leita dóms um kröfu sem fullnægja mætti með aðför.
Það er grundvallarregla íslensks réttar að sá sem krefst réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim. Í d lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi, dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum og svo framvegis.
Stefnendur krefjast aðallega viðurkenningar á því að stefndu sé hverjum um sig skylt að kaupa 450,5 hektara svæði úr landi stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum en til vara 247.6 hektara svæði. Samkvæmt orðanna hljóðan má skilja kröfugerð þessa á þann veg að hverjum stefnda verði gert að kaupa 450,5 hektara (247,6 hektara samkvæmt varakröfu) eða samtals fjórfalt tilgreint landsvæði. Af málatilbúnaði stefnenda hins vegar má ráða að þeir séu að krefjast þess að tilgreint land þeirra verði keypt og að stefndu beri sameiginlega ábyrgð á þeim kaupum. Er kröfugerð stefnenda að þessu leyti óskýr þótt ekki þyki efni til að vísa henni frá dómi af þessum sökum.
Stefnendur byggja á því að þeir eigi það landsvæði, sem hér um ræðir, í óskiptri sameign. Þrátt fyrir þessa staðhæfingu virðast stefnendur sjálfir gera ráð fyrir að þrír þeirra séu eigendur að Óttarsstöðum I í ákveðnum hlutföllum og fjórir eigendur að Óttarsstöðum II, (vestri) í ákveðnum hlutföllum. Liggja frammi í málinu þinglýsingarvottorð sem sýna fram á eignarhald stefnenda á hvorri jörðinni fyrir sig og er það í samræmi við framangreinda skiptingu milli jarðarhlutanna tveggja. Verður því ekki séð að heildareignin sé í óskiptri sameign stefnenda. Þá verður ekki af gögnum málsins ráðið hvernig afstöðu hvorrar jarðar um sig til umrædds svæðis er háttað, en skiptasamningur um eignina liggur ekki fyrir í máli þessu.
Stefnendur rökstyðja stærð og legu landsvæðisins sem kröfur þeirra byggjast á með hnitum á kortum sem þeir vísa til í dómkröfum sínum. Kort þessi bera ekki með sér hvernig umrædd hnit eru fundin út eða hvaða heimildir liggja þeim til grundvallar. Þá liggja ekki fyrir í málinu fullnægjandi upplýsingar um hverjir séu eigendur þeirra jarða sem liggja að landsvæði stefnenda eða þeirra spildna innan Óttarsstaðalandsins sem tilheyra ekki stefnendum. Þar sem ekki er til að dreifa skiptasamningi eða öðrum gögnum um hvernig landsvæði það sem hér er til umfjöllunar skiptist milli eigenda þess má ætla að að minnsta kosti hluti þess sé í óskiptri sameign fleiri aðila en stefnenda. Þeim aðilum hefur ekki verið gefinn kostur á að láta mál þetta til sín taka, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ætla má að aðal- og varakröfur stefnenda varði hagsmuni þeirra eins og þær eru fram settar. Þá er allsendis órökstutt í málinu á hvaða lagagrundvelli stefnendur byggja kröfur sínar um kaupskyldu stefndu. Að þessu leyti er kröfugerð stefnenda óljós og ónákvæm og ekki í samræmi við fyrrgreint ákvæði d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa stefnenda varða viðurkenningu á því að stefndu séu hver og einn skaðabótaskyldir vegna skerðingar á fyrrgreindum hekturum lands stefnenda í jörðinni Óttarsstöðum. Þá er þess enn fremur krafist að í öllum tilvikum verði stefndu dæmdir skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna tjóns sem starfsemin í Straumsvík hafi valdið þeim frá 1. júlí 1998 til dómsuppsögudags..
Á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála er heimilt að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð. Áskilnaður í ákvæðinu um að kröfur lúti að viðurkenningu á tilteknum réttindum felur í sér að kröfugerðin verður að vera svo ákveðin og ljós að hún geti orðið niðurstaða í dómsmáli þar sem sakarefninu er ráðið til lykta. Óhjákvæmilegt skilyrði slíkrar málssóknar er að stefnandi sýni fram á að hann hafi beðið tjón og hvert tjónið sé, þ.e. í hverju það sé fólgið þótt ákvörðun bótafjárhæðar sé látin bíða, og á hvern hátt tjónið hafi orsakast af þeim atvikum sem talin eru hafa valdið bótaábyrgð.
Af málatilbúnaði stefnenda er ljóst að þeir byggja skaðabótakröfur sínar á því að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að þeir geti ekki nýtt landið undir íbúðabyggð. Er þetta fullyrt án þess að haldbær gögn séu lögð fram í málinu um að það út af fyrir sig leiði til tjóns að landið verði ekki nýtt undir íbúðabyggð. Gögn um að hluti lands á þessu svæði hafi gengið kaupum og sölum sýna á engan hátt fram á að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni heldur má þvert á móti af þeim ráða að svo hafi ekki verið. Að þessu virtu hafa ekki verið lögð fram gögn eða leidd skýr rök að því að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni sem stefndu beri ábyrgð á. Verður því ekki dæmt um skaðabótaábyrgð af þeim sökum. Að þessu leyti er kröfugerð stefnenda óljós og ónákvæm og ekki í samræmi við fyrrgreint ákvæði d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnenda að óhjákvæmilegt er að verða við kröfum stefndu um að vísa málinu frá dómi í heild sinni. Eftir þeim úrslitum verður stefnendum gert að greiða sameiginlega hverjum stefndu fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnenda flutti málið Ragnar Aðalsteinsson hrl. Af hálfu stefndu Alcan á Íslandi hf. og Alcan Holdings Switzerland Ltd. flutti málið Sigurður S. Júlíusson hdl. Af hálfu stefnda íslenska ríkisins flutti málið Óskar Thorarensen hrl. og af hálfu stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar flutti málið Jón Höskuldsson hrl.
Úrskurðinn kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Straumsbúið sf., Sigurður B. Markússon, Íslenskir aðalverktakar hf., Sína Þorleif Þórðardóttir, Leifur Sörensen, Gréta Elín Sörensen og Birgir Sörensen greiði sameiginlega stefndu, Alcan á Íslandi hf., Alcan Holdings Switzerland Ltd., íslenska ríkinu og Hafnarfjarðarkaupstað, hverjum fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað.