Hæstiréttur íslands
Mál nr. 325/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 25. ágúst 2000. |
|
Nr. 325/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunuð um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nausðynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 3. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Þegar litið er til gagna málsins verður fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem varnaraðili er grunaður um, er þess eðlis að ætla má að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að, [...] nú gæslufangi, verði á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðuð til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 3. október nk. kl. 16:00 vegna gruns um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
[...]
Kærða hefur hjá lögreglu og fyrir dómi kannast við að hafa lent í átökum við Hallgrím Elísson að Leifsgötu 10 sunnudaginn 23. júlí sl. en þau átök hafi ekki leitt til dauða hans. Í málinu liggja frammi skýrslur vitna af átökum kærðu og Hallgríms sem hafa borið að kærða hafi lent í átökum við Hallgrím Elísson og hert bindi að hálsi hans en samkvæmt niðurstöðum bráðabirgðarkrufningar er dánarorsökin talin vera kyrking.
Fyrir liggur, samkvæmt kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og rannsóknargögnum, að rannsókn málsins er vel á veg komin. Ætlað brot kærðu er mjög alvarlegt og telst varða við 211. gr. almennra hegningarlaga ef sannað yrði. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu þykir vera kominn fram sterkur grunur um að kærða hafi framið umræddan verknað. Samkvæmt framansögðu telst fullnægt því skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að nauðsynlegt sé, með tilliti til almannahagsmuna, að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi. Er því krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og greinir í úrskurðarorði.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt þar til dómur gengur í máli hennar, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 3. október nk. kl. 16:00.