Hæstiréttur íslands
Mál nr. 594/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
Fimmtudaginn 10. nóvember 2011. |
|
|
Nr. 594/2011. |
Sýslumaðurinn á Selfossi (Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi) gegn X (Torfi Ragnar Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði bönnuð för frá Íslandi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100 gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. nóvember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 2. desember 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. nóvember 2011.
Dóminum hefur borist krafa lögreglustjórans á Selfossi þess efnis að [X], með lögheimili í Litháen, verði bönnuð för frá Íslandi til föstudagsins 2. desember nk. með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð með kröfunni kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands frá 28. október 2011 hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til dagsins í dag kl. 16:00 með vísan til a- og b- liða 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá var kærða jafnframt gert að sæta einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga á gæsluvarðhaldstímanum.
Lögreglustjórinn telur nauðsynlegt að kærði sæti farbanni þar sem hætta sér talin á að hann gæti reynt að yfirgefa Ísland gangi hann laus í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Kærði hafi verið handtekinn um kl. 00:40 aðfaranótt föstudagsins 28. október sl. ásamt tveimur öðrum mönnum í orlofshúsi nr.[...]. í [...] grunaður um fíkniefnamisferli. Við húsleit hafi fundist 374,34 g af kókaíni, 369,06 g af hvítu duftkenndu efni af óþekktum toga, 219 stk. af hylkjum með óþekktu innihaldi, brúsar sem innihéldu naglalakkseyði, olíuhreinsi og startvökva. Við skýrslutökur hjá lögreglu hafi kærði ekki kannast ekki við að eiga aðild að málinu. Einn ætlaðra samverkamanna kærða hafi kannast við að eiga efnin en eftir eigi að fullrannsaka þátt kærða í málinu.
Lögreglustjóri telur að enn eigi eftir að rannsaka ýmis atriði sem varði málið þar á meðal ferðir kærða til og frá landsins, hvernig efnin voru flutt til Íslands, hvernig hafi átt að standa að því að koma efnunum í verð á Íslandi, tengsl kærða við aðra ætlaða samverkamenn o.fl. Þá sé beðið niðurstöðu efnagreiningar óþekktra efna sem fundist hafi í orlofshúsinu, þ.e. af duftinu, lyfjahylkjunum og vökvunum. Jafnframt eigi eftir að taka frekari skýrslur af kærða.
Verið sé að rannsaka ætluð brot kærða gegn 2., sbr. 4. gr. a og 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brotið geti varðað óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu ef sök sannist.
Kærði sé ferðamaður á Íslandi en upplýsingar lögreglu bendi til að hann hafi á síðustu mánuðum ferðast oft til og frá Íslandi en kærði hafi ekki fasta vinnu hér á landi. Með vísan til þess telur lögregla að nauðsynlegt sé að kærði sæti farbanni meðan á meðferð máls þessa standi þar sem veruleg hætta sé talin á að kærði reyni að yfirgefa Ísland gangi hann laus í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Kærði mótmælir kröfunni en verði á hana fallist krefst hann þess að henni verði markaður skemmri tími.
Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af rannsóknargögnum, þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði sé a.m.k. hlutdeildarmaður í fíkniefnabroti. Verulegt magn fíkniefna og annarra efna sem grunur leikur á að séu fíkniefni fannst í orlofshúsi þar sem kærði dvaldi ásamt tveimur öðrum mönnum. Kærði er litháiskur ríkisborgari og má fallast á það með lögreglustjóra að brottför kærða af landinu gæti torveldað frekari rannsókn málsins og því ber nauðsyn til að tryggja nærveru hans meðan máli hans er ólokið. Með vísan til framanritaðs og ofangreindra lagaákvæða verður krafa lögreglustjóra tekin til greina og er kærða bönnuð för frá Íslandi til föstudagsins 2. desember n.k. kl. 16:00.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð.
Kærða, [X], er bönnuð för frá Íslandi, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. desember 2011 kl. 16:00.