Hæstiréttur íslands
Mál nr. 694/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Húsbrot
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 4. júní 2009. |
|
Nr. 694/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari) gegn Jóhanni Sigurðarsyni (Guðmundur Ágústsson hdl. Jón Ögmundsson hdl.) (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Húsbrot. Skaðabætur. Sératkvæði.
J var ákærður fyrir húsbrot og kynferðisbrot, sbr. 231. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn í hús, farið inn um glugga á efri hæð hússins og því næst inn í svefnherbergi á neðri hæð þar sem 5 ára gömul telpa svaf við hlið ömmu sinnar, fært telpuna úr náttbuxum og nærbuxum og sleikt kynfæri hennar. J neitaði sök og bar við minnisleysi vegna áfengisneyslu. Með fingrafari J sem fannst innan á rúðu og hráka á tröppum hússins, sem við DNA-rannsókn reyndist vera úr J, og því að hann gat enga skýringu gefið á því, auk þess sem lýsing ömmunnar átti við hann, var talið að fram væri komin sönnun um að hann hafi brotist inn í húsið og verið staddur í svefnherberginu um nóttina. Þegar framburðir telpunnar og ömmu hennar voru vegnir saman og í því sambandi haft í huga að J kvaðst ekkert muna um atburði næturinnar var það niðurstaða dómsins að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að J væri sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Við ákvörðun refsingar J var litið til sakaferils hans allt til ársins 2000. Hafði hann fjórum sinnum áður verið fundinn sekur um húsbrot, tvisvar sinnum um brot gegn blygðunarsemi, tvisvar sinnum um líkamsárás, þrisvar sinnum um brot gegn frjálsræði og einu sinni um sifskaparbrot. Brot hans nú voru talin alvarleg og beinast að mikilvægum hagsmunum. Var refsing J ákveðin fangelsi í 4 ár. Þá þótti hann með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til telpunnar sem ákveðnar voru 800.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 900.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist var í ákæru.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en vexti af skaðabótakröfu, en um þá fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Jóhanns Sigurðarsonar, og sakarkostnað.
Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2008 til 2. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 559.145 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Svo sem fram kemur í héraðsdómi voru tekin sýni af skapabörmum telpunnar við skoðun á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins strax í kjölfar þess atburðar sem málið greinir. Við rannsókn á sýninu fannst ekki munnvatn úr ákærða. Af þessari ástæðu tel ég að ákæruvaldið hafi ekki fært fram í málinu lögfulla sönnun um að ákærði hafi „sleikt kynfæri telpunnar“ svo sem því er lýst í ákæru. Lýsing telpunnar á því hvernig skeggbroddar mannsins sem misbauð henni snertu kynfæri hennar er einkar trúverðug og getur ekki að mínu mati hjá svo ungu barni stafað af öðru en því að hún lýsi atburði sem hún hefur upplifað. Tel ég sannað í málinu að ákærði hafi gerst sekur um þessa háttsemi. Sá munur á verknaðarlýsingu ákæru og þeirri háttsemi sem þannig telst sönnuð í málinu að mínu mati varðar aukaatriði brots, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og nú 1. mgr. 180. gr. og ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ég tel að háttsemi ákærða að þessu leyti varði við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og ákvæðið hefur verið skýrt í dómaframkvæmd. Með þessari athugasemd er ég sammála meirihluta dómenda um að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um heimfærslu brotsins og sakfellingu ákærða. Þá er ég einnig sammála um að staðfesta beri niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna um sakfellingu ákærða fyrir húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga.
Þegar tekin er ákvörðun um refsingu ákærða ber að líta til þeirra atriða sem upp eru talin í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði hefur endurtekið verið sakfelldur fyrir húsbrot, þar sem hámarksrefsing er fangelsi eitt ár. Hefur hann með broti sínu nú að mínu mati unnið til hámarksrefsingar fyrir húsbrotið sem hann er sakfelldur fyrir í málinu.
Að því er kynferðisbrot ákærða snertir verður að hafa í huga samræmi í refsiákvörðun við önnur mál á því sviði. Þá ber einnig að líta til þess að refsingar voru þyngdar fyrir slík brot með lögum nr. 61/2007 um breyting á almennum hegningarlögum, en með 11. gr. þeirra var gerð breyting á 202 gr. laganna, refsirammi hækkaður og sett inn ákvæði um lágmarksrefsingu. Tóku þessar breytingar gildi þegar við birtingu laganna 4. apríl 2007 og eiga því við um brot ákærða. Úr dómaframkvæmd fyrir gildistökuna má til samanburðar til dæmis nefna dóm Hæstaréttar sem birtur er á bls. 3260 í dómasafni réttarins 2001, þar sem sakborningur var dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir endurtekin kynferðisbrot gegn stúlku er hún var fimm til sjö ára gömul. Brotin, sem heimfærð voru undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, voru mun alvarlegri en brot ákærða. Í dómi Hæstaréttar á bls. 1001 í dómasafni 2004 var sakborningur sakfelldur fyrir endurtekin kynferðisbrot gegn stúlkubarni um tveggja ára skeið, sem ýmist voru talin varða við 1. eða 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Sá sakborningur var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Með dómi Hæstaréttar 23. apríl 2008 í máli nr. 658/2007 var maður sakfelldur fyrir fjölmörg alvarleg kynferðisbrot gegn sex barnungum stúlkum á löngu tímabili. Brotin voru framin áður en fyrrgreindar breytingar voru gerðar á almennum hegningarlögum. Sakborningur var dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Þá skal nefndur dómur Hæstaréttar 22. janúar 2009 í máli nr. 527/2008 en þar var maður sakfelldur og dæmdur í sex ára fangelsi fyrir endurtekin kynmök við barnunga fósturdóttur sína og vörðuðu brotin við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Þessi brot voru framin eftir að nefndar lagabreytingar tóku gildi. Loks má líta til hæstaréttardóms 28. maí 2009 í máli nr. 58/2009. Þar var sakborningur dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir margendurtekin alvarleg kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni sem fólust í að hafa haft „samfarir nokkuð reglulega“ við hana þegar hún var 11 til 14 ára gömul. Vörðuðu þau brot við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og voru mörg framin eftir að fyrrgreindar breytingar á almennum hegningarlögum tóku gildi.
Með hliðsjón af þeirri dómaframkvæmd sem að framan greinir og að teknu tilliti til breytingarinnar á almennum hegningarlögum með lögum nr. 61/2007 tel ég að hæfileg refsing ákærða fyrir þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir sé fangelsi í þrjú ár. Þá tel ég að taka ætti kröfu telpunnar um miskabætur til greina að fullu með 900.000 krónum og vöxtum eins og í atkvæði meirihlutans greinir. Ég er sammála meirihluta dómara um að leggja sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað á ákærða, en tel að þóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti ætti að meðtöldum virðisaukaskatti að nema 498.000 krónum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 16. október 2008 á hendur Jóhanni Sigurðarsyni, kt. [...], Eyrarholti 18, Hafnarfirði, fyrir húsbrot og kynferðisbrot, með því að hafa, að morgni laugardagsins 6. september 2008, ruðst í heimildarleysi inn í húsið að Y, Reykjavík, með því að fara inn um glugga á efri hæð hússins, og því næst farið inn í svefnherbergi á neðri hæð hússins þar sem telpan A, þá fimm ára gömul, svaf við hlið ömmu sinnar, fært hana úr náttbuxum og nærbuxum og sleikt kynfæri telpunnar.
Þetta er talið varða við 231. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2008 til 2. nóvember 2008 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst þess aðallega að verða sýknaður af ákæru og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að verða sýknaður af kynferðisbroti í ákæru. Verði hann fundinn sekur krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og komi gæsluvarðhaldsvist hans þá til frádráttar refsingu. Verði bótakrafa þá einnig stórlega lækkuð. Loks er krafist hæfilegrar þóknunar fyrir verjendastörf í samræmi við tímaskýrslu.
Málavextir.
Upphaf þessa máls má rekja til þess að árla morguns, laugardaginn 6. september 2008, barst lögreglu tilkynning um innbrot á Y í Reykjavík. Í tilkynningunni kom fram að maður hefði leitað á 5 ára stúlku, A, sem var í húsinu. Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar hafi verið haldið á vettvang auk þess sem lögreglumenn hafi farið í nærliggjandi götur til að svipast um eftir manninum sem braust inn í húsið. Manninum var lýst sem svo að hann væri í svörtum ermalausum bol og gallabuxum. Hann var sagður breiðleitur, stutthærður og á aldrinum 30 til 40 ára.
Í lögregluskýrslum er þess getið að lögregla hafi rætt við ömmu stúlkunnar, B. Hún hafi tjáð lögreglu að hún hefði verið sofandi á neðri hæð hússins en vaknað við umgang inni í svefnherberginu þar sem hún svaf með barnið sér við hlið. Hefði hún þá séð mann með höfuðið milli fóta barnsins og hefði hann verið að sleikja stúlkuna. Barnið hefði sofið í nærbuxum og náttfötum og hefði maðurinn tekið stúlkuna úr nærbuxunum og náttbuxunum. Hún kvaðst hafa rekið manninn út um útidyrnar og hefði verið af honum mikill áfengisþefur. Sagði hún barnið hafa vaknað á sama tíma og hún. Þegar hún hefði hitt telpuna, eftir að maðurinn var farinn út, hefði telpan spurt hvort það hefði verið í lagi að maðurinn væri að sleikja sig niðri. Einnig kemur fram að lögreglumenn hafi gengið um garðinn í leit að hugsanlegum ummerkjum. Hafi þeir fundið það sem virtist vera hráki í tröppum uppi á palli þar sem gengið sé inn í húsið. Komið hafi í ljós að búið var að losa stormjárn á glugga og hafi gluggaskreyting verið dottin. Þá hafi mátt greina skófar í gluggakistunni.
Við rannsókn tæknideildar lögreglu fundust fingraför á innanverðri rúðu í glugga á efri hæð hússins, sunnan megin. Við leit í fingrafarasafni lögreglunnar kom í ljós að vettvangsfarið var eftir löngutöng hægri handar ákærða. Ákærði var í kjölfarið handtekinn mánudaginn 8. september og úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Miðvikudaginn 10. september lagði C, fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots gegn dóttur hennar, A.
B kærði húsbrot til lögreglu hinn 17. september og greindi þá frá því að A hefði spurt hana, eftir að maðurinn var farinn, hvort hann hefði mátt „sleikja á henni píkuna“. Stúlkan hefði verið buxnalaus og virst furðu lostin. Kvaðst hún svo hafa fundið nærbuxurnar og náttbuxurnar í rúminu. Gat B þess að í fyrstu hefði hún talið manninn vera fyllibyttu og hefði henni ekki dottið í hug að málið væri svo alvarlegt.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa farið milli klukkan átta og níu um kvöldið á Grand Rokk með Brynjólfi Sigurðssyni, bróður sínum. Hefði hann drukkið ótæpilega af sterku víni og fengið „black out“ eftir það. Kvaðst hann ekkert muna eftir sér fyrr en hann hefði vaknað á heimili sínu daginn eftir. Sagðist hann hafa klæðst gallabuxum, peysu, bol og svörtum skóm. Kvaðst ákærði vera alkóhólisti, hafa gengist undir margar áfengismeðferðir og vera á þunglyndislyfjum.
Telpan var rannsökuð á Barnaspítala Hringsins 6. september. Voru þá meðal annars tekin sýni frá kynfærum til DNA-rannsóknar. Ekki reyndust neinir áverkar á ytri kynfærum eða endaþarmi.
Samkvæmt greinargerð tæknideildar lögreglunnar vegna DNA-rannsóknar voru framangreind sýni rannsökuð hjá Rettsmedisinsk Institutt í Osló ásamt sýni sem fundist hafði á tröppum hússins að Y. Einnig voru send samanburðarsýni frá þolanda og ákærða í málinu. Reyndust niðurstöður rannsóknarinnar þær að sýni af ætluðu munnvatni við Y hafi gefið jákvæða svörun sem munnvatn. DNA-snið þess hafi verið ákvarðað og reynst vera eins og DNA-snið ákærða. Sýni af ætluðu munnvatni á skapabörmum stúlkunnar hafi hins vegar gefið veika og óljósa svörun. Því hafi ekki verið staðfest að munnvatn hafi verið til staðar. Þegar DNA-sniðið hafi verið ákvarðað hafi það reynst vera eins og DNA-snið stúlkunnar.
Fyrir liggur skýrsla tæknideildar lögreglunnar vegna réttarlæknisfræðilegrar skoðunar á ákærða og ljósmyndir af ákærða í fatnaði sem hann var í við handtöku.
Skýrslur fyrir dómi.
Tekin var skýrsla af A fyrir dómi skv. 1. mgr. a-liðar 74. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála. Sagðist hún hafa gist eina nótt hjá ömmu sinni. Hefði hún sofið hjá henni í rúmi og hefði amma hennar legið við hurðina en hún sjálf við gluggann. Sagðist hún hafa verið sofandi en svo fundið ,,beitt hár að snerta píkuna mína og þá var það bara skeggið hans“. Sagðist hún halda að maðurinn hefði tekið hana úr buxunum. Hefði maðurinn ekkert sagt við hana en hún hefði sagt við manninn: ,,Hættu, hættu, hættu að sleikja píkuna mína.“ Sagði hún manninn ekki hafa hætt því hann hefði kannski ekki heyrt hvað hún var að segja. Lýsti hún manninum og sagði hann hafa verið með svart hár og skegg, sem hefði ekki verið langt heldur verið eins og skeggpunktar. Hefði hann verið í bol, sem eitthvað stóð á. Beðin um að lýsa líðan sinni sagðist hún hafa verið ,,svolítið svona hrædd, en ég reyndi að vera sterkari“. Þá sagði hún manninn hafa þurft að beygja sig svo hann ,,næði í píkuna“ en hann hefði ekki gert neitt annað. Þá lýsti hún því að amma hennar hefði svo rekið manninn út. Telpan sagðist hafa verið í náttskyrtu og náttbuxum. Hún hefði hins vegar farið úr náttskyrtunni vegna þess hve heitt væri á nóttunni.
Ákærði lýsti ferðum sínum daginn og kvöldið áður en umrætt atvik varð. Kvaðst hann hafa verið við drykkju á heimili bróður síns, Brynjólfs Sigurðssonar, frá því um klukkan fjögur daginn áður. Hefði hann verið drukkinn þegar hann hélt þaðan að skemmtistaðnum Grand Rokk. Hann hefði þar drukkið sterkt áfengi og hefði áfengismagnið verið ,,ansi mikið“. Kvaðst hann ekki átta sig á því hversu lengi hann hefði verið á skemmtistaðnum né hvenær hann fór þaðan en hann myndi næst eftir sér um hádegisbil daginn eftir, heima hjá sér. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa vaknað heima hjá bróður sínum eins og bróðir hans bar um hjá lögreglu. Ákærði kvaðst því hafa farið í ,,blackout“ frá því að hann var á Grand Rokk og þar til hann kom heim. Kvað hann það vera algengt þegar hann neytti áfengis. Kvaðst hann hafa verið edrú í um ár en hefði byrjað að neyta áfengis aftur helgina á undan. Sagðist hann vera alkóhólisti og hafa farið í um 10 áfengismeðferðir af þeim sökum.
Spurður um klæðnað sinn umrædda nótt kvaðst ákærði hafa verið í gallabuxum, einlitum bol, peysu og jakka. Bolurinn hefði verið ermalaus og svartur að lit. Lögreglan væri með fatnaðinn í sinni vörslu en hann hefði verið í sama bol við handtöku og umrætt kvöld. Jakkinn hefði verið svartur leðurjakki. Bornar voru undir ákærða ljósmyndir í gögnum málsins þar sem sjá má á honum rispur á fingri, vinstri handlegg og á baki. Kvaðst hann telja að rispurnar hafi hann fengið við vinnu, er hann var að hjálpa vini sínum sem var að flytja. Hann hefði verið að aðstoða hann við að minnka fataskápa. Taldi hann einnig að rispur á baki væru tilkomnar við vinnu, án þess að hann gæti gert grein fyrir því nánar. Kannaðist hann ekki við að hafa fengið þær við að fara inn um glugga á Y.
Aðspurður um dóma sem hann hefur hlotið fyrir húsbrot kvaðst ákærði hafa verið undir áhrifum í öll skiptin og myndi hann ekki eftir neinu þessara tilvika. Kvaðst ákærði drekka ofan í þunglyndislyf og sagði það ekki vera ,,góða blöndu“. Hefði hann neytt þunglyndislyfja í um níu ár. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa kynferðislega hneigð til barna.
Vitnið B kvaðst hafa vaknað við hreyfingu í A og um leið og hún sneri sér að telpunni hefði hún séð að maður var kominn inn í svefnherbergi hennar. Sagðist hún aðeins hafa séð skugga mannsins því dimmt hefði verið. Hefði hann staðið við fótagafl rúmsins, þeim megin sem telpan svaf. Fyrst hefði hún talið að sonur hennar væri kominn, en þótt samt undarlegt að hann kæmi um miðja nótt. Hún hefði því spurt hvað hann væri eiginlega að gera þarna. Þegar hún hefði engin svör fengið hefði hún áttað sig á því að maðurinn væri einhver óviðkomandi. Kvaðst hún hafa rekið hann upp og hlaupið á eftir honum upp stigann. Maðurinn hefði borið því við að honum hefði verið boðið í partý sem ætti að vera á Freyjugötu. Hún hefði hótað manninum því að hringja í lögregluna og hefði hann þá farið út á pallinn við dyrnar. Þar hefði hann verið með bjór og einnig tekið þar jakka, sem hann virtist hafa skilið þar eftir áður en hann fór inn. Hefði vitnið heyrt manninn segja að hann væri að fara í partý og hefði farið húsavillt. Kvaðst hún hafa leyft honum að fara og skellt aftur hurðinni. Hefði hún svo farið niður aftur og á klósettið. Þá hefði telpan komið til hennar og spurt hvort það væri rétt að það mætti „sleikja píkuna“ á henni. Telpan hefði verið hnuggin þegar hún hefði tekið utan um hana og sagt henni að það mætti ekki. Telpan hefði hins vegar ekki grátið. Hefði telpan sagst hafa vaknað við að verið var að sleikja hana og hefði hún tengt það við manninn sem kom inn í húsið. Telpan hefði sýnt henni að hún væri buxnalaus en hún hefði sofnað í nærbuxum og náttbuxum. Kvaðst hún þá hafa gert sér grein fyrir því að nauðsynlegt væri að hringja í lögreglu og að þetta væri eitthvað alvarlegra en að maðurinn hefði einvörðungu villst á húsi.
Aðspurð sagðist vitnið hafa vaknað nokkrum sinnum um nóttina þar sem telpan bylti sér mikið á nóttunni. Hefði hún þá ýtt telpunni aðeins til hliðar til þess að fá meira pláss í rúminu og breitt sængina ofan á hana. Hefði telpan þá verið í náttbuxunum. Aðspurð kvaðst hún svo hafa séð nærbuxurnar og náttbuxurnar liggjandi ranghverfar í rúminu. Nánar spurð um manninn kvaðst hún ekki hafa séð hann almennilega vegna myrkurs. Kvaðst hún þó hafa séð að hann var í svörtum ermalausum bol, en jakkinn hans hefði legið úti á pallinum. Bolurinn hefði verið einlitur. Kvaðst hún halda að maðurinn hefði verið í gallabuxum. Mikil áfengislykt hefði verið af honum, en hann þó ekki virst reikull í spori, enda hefði hann hlaupið upp stigann. Hefði ekki verið vandkvæðum bundið að skilja hann. Kvaðst hún hafa talið að um utanbæjarmann væri að ræða því hann hefði látið sem hann þekkti ekki til.
Vitnið sagði telpuna passa sig á því að ræða málið eingöngu þegar þær væru einar. Virtist sem hún skammaðist sín og væri ,,eitthvað í henni sem var ekki áður“. Kvaðst hún geta séð það á telpunni að hún treysti ekki öllum eins og áður. Þannig hefði það tekið hana nokkurn tíma að vilja gista hjá henni aftur. Kvaðst hún hafa sett rimla fyrir gluggann, sem maðurinn kom inn um, og hefði telpunni fundist hún öruggari eftir það. Einnig hefði það veitt henni heilmikið öryggi að vita til þess að maðurinn væri í fangelsi. Um eigin líðan eftir atvikið sagðist vitnið upplifa þetta sem hrikalega árás á sitt einkalíf og tilfinningar. Hún hefði fundið fyrir miklu varnarleysi með því að komið hefði verið fram með þessum hætti gagnvart barninu, að vera ekki örugg með barn heima hjá sér. Það hefði og verið henni mikið áfall að komast að því að ákærði hefði áður numið barn af heimili. Tilhugsunin um að maðurinn hefði getað tekið barnið væri erfið.
Tekin var símaskýrsla af C, móður A. Sagðist hún hafa hitt dóttur sína og móður á spítalanum. Sagðist hún hafa tekið þá ákvörðun að ræða málið ekki við A fyrr en hún væri komin heim og búin að jafna sig. Kvaðst hún þá hafa sagt henni að atvikið væri ekki henni að kenna og hefði vitninu virst sem A hefði létt við það. Hefði telpan þá sagt sér að hún hefði vaknað við að maðurinn hefði verið að sleikja sig og að hún hefði reynt að ýta honum burt og setja sængina yfir sig aftur. Maðurinn hefði samt haldið áfram en þá hefði amma telpunnar vaknað. Kvaðst vitnið hafa beðið í nokkra daga með að ræða málið nákvæmlega við telpuna af tilliti til hagsmuna hennar. Telpan hefði svo sagt henni að maðurinn hefði „sleikt á henni píkuna“. Hefði hún spurt dóttur sína að því hvort maðurinn hefði farið inn, annað hvort með tungu eða fingrum, en hún hefði neitað því. Aðspurð kannaðist hún við að barnið hefði nefnt að maðurinn hefði rispað hana með skeggi sínu.
Vitnið sagði dóttur sína ekki hafa verið í jafnvægi eftir atvikið og nefndi að innbrotið hefði einnig haft áhrif. Hefði þannig tekið tíma að sannfæra telpuna um að það væri í lagi að gista hjá ömmu sinni. Hefði þurft að útskýra fyrir henni að hún ætti líkama sinn sjálf. Sagðist vitnið sér hafa fundist fullsnemmt að þurfa að ræða slík mál við svo ungt barn. Hefði barnið þurft að læra óþarflega snemma um samskipti kynjanna og hún hefði spurt að því hvenær karlmenn mættu sleikja konur. Kvað hún stúlkuna hins vegar ekki vera mjög upptekna af þessu atviki en erfitt væri að gera sér grein fyrir því hvað svo ung börn hugsuðu.
Lögreglumaðurinn Þórður Geir Þorsteinsson lýsti vinnu sinni á vettvangi og greindi frá því að hann hefði rætt við ömmu barnsins og föður stúlkunnar sem hefði þá verið nýkominn. Kvaðst vitnið hafa kannað vettvang ásamt rannsóknarlögreglumanni úr tæknideild. Þá hefði hann farið með barnið á Barnaspítala Hringsins í kjölfarið. Þá hefði hann tekið skýrslu af ömmu barnsins og flett með henni í gegnum myndir lögreglu. Gat hann þess að hann hefði skráð eftir B frásögn hennar á vettvangi og hefði hún sagt frá því sem stúlkan hefði sagt henni. Hefði B einnig gefið nokkuð greinargóða lýsingu á manninum. Hefði lýsingin verið sú að maðurinn væri milli 30 og 40 ára, breiðleitur, stuttklippur, um 1,80 m á hæð, klæddur í gallabuxur og ermalausan, svartan bol.
Lýsti lögreglumaðurinn því að stormjárn hefði verið brotið á vettvangi. Tæknideildarmaður hefði ,,pústað” gluggann með það að markmiði að reyna að finna fingraför. Kvað hann „pústið“ kalla fram fingraför. Staðfesti lögreglumaðurinn vettvangsskýrslu sína sem rétta.
Sævar Þorbjörn Jóhannesson, fingrafarasérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gerði grein fyrir fingrafararannsókn málsins. Aðspurður hvort unnt væri að fullyrða að vettvangsfarið væri eftir löngutöng hægri handa ákærða sagði hann svo vera. Fundist hefðu 12 einkenni í farinu sem væru samsvarandi við fingur hans. Í flestum Evrópulöndum væri gerð krafa um 12 einkenni en í þessu tilviki hefðu einkennin reyndar verið fleiri en 12. Því væri enginn vafi í hans huga að farið á vettvangi væri fingrafar ákærða. Sagði hann vísindin að baki fingrafarafræðum mjög nákvæm og því væri unnt að fullyrða að um sama fingrafar væri að ræða.
Að síðustu kom fyrir dóminn Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Gerði Björgvin grein fyrir DNA-rannsókn í málinu. Kom fram hjá honum að hráki á tröppum hússins hefði verið úr ákærða samkvæmt niðurstöðum úr DNA-rannsókn. Sýni sem aflað var með læknisskoðun á skapabörmum stúlkunnar hefði gefið veika og óljósa svörun við prófinu og því hefði ekki verið unnt að staðfesta að um munnvatn væri að ræða. Spurður hvort góðar líkur væru til þess að finna DNA á stúlkunni hefði maðurinn sleikti hana sagði hann það fara eftir aðstæðum og erfitt að segja til um það. Ekkert DNA frá ákærða hefði fundist í umræddu sýni.
Sagðist Björgvin aðspurður ekki þekkja til neinna rannsókna um það hvort meiri líkur eða minni væru fyrir því að DNA hefði átt að finnast ef stúlkan hefði verið sleikt. Breyturnar væru margar og því ekki unnt að segja til um það hvort sýni hefði átt að finnast eða ekki. Hann gæti aðeins sagt að ekki hefði fundist DNA úr ákærða á þessu tiltekna sýni. Aðspurður hvort sú staðreynd að barnið hefði aftur klætt sig í buxurnar og ekki farið í skoðun fyrr en að nokkrum klukkustundum liðnum hefði mögulega áhrif á niðurstöður prófsins sagði hann ekki hægt að útiloka það. Buxur barnsins hefðu ekki verið skoðaðar.
Niðurstaða.
Ákærða er í ákæru gefið að sök húsbrot og kynferðisbrot með því að hafa í umrætt sinn ruðst inn í húsið að Y, með því að fara inn um glugga á efri hæð hússins, og því næst fara inn í svefnherbergi á neðri hæð hússins þar sem telpan A, þá fimm ára gömul, svaf við hlið ömmu sinnar, fært hana úr náttbuxum og nærbuxum og sleikt kynfæri telpunnar.
Ákærði hefur neitað sök. Hann ber við minnisleysi og kveðst ekkert muna eftir sér vegna áfengisneyslu frá því hann fór á skemmtistaðinn Grand Rokk kvöldið fyrir umrætt atvik og þar til hann vaknaði heima hjá sér um hádegisbil daginn eftir. B hefur lýst því að hún hafi vaknað og séð mann standa við fótagafl rúmsins. Hafi hún rekið manninn út og hafi hann farið í jakka sem þar hafi legið. Þar sem dimmt hafi verið inni í húsinu hafi hún ekki séð manninn almennilega en hann hafi verið í svörtum, einlitum, ermalausum bol og hún hélt að hann hefði verið í gallabuxum. A skýrði einnig frá því að maðurinn sem hún hefði séð inni í herberginu hefði verið í bol. Samkvæmt fyrirliggjandi myndum af þeim fatnaði sem ákærði var í, þegar hann var handtekinn tveimur dögum síðar, var hann í gallabuxum, peysu og jakka. Staðfesti ákærði að hann hefði umrædda nótt verið í svörtum ermalausum bol, þeim sama sem hann hefði verið í við handtöku, og sýndur var í réttinum. Þá hefur lögreglumaðurinn Þórður Geir Þorsteinsson staðfest að B hafi gefið þá lýsingu á vettvangi að maðurinn væri milli 30 og 40 ára gamall, breiðleitur, stuttklipptur, um 1,80 m á hæð og klæddur í gallabuxur og ermalausan, svartan bol. Ákærði, sem er fertugur, mun vera 1,79 m að hæð og er fremur breiðleitur og stuttklipptur.
Einnig lýsti lögreglumaðurinn því að búið var að brjóta stormjárn í glugga við hliðina á útidyrahurðinni. Við nánari rannsókn þar fannst fingrafar innan á rúðunni, fyrir neðan lausa fagið, sem reyndist vera eftir löngutöng hægri handar ákærða. Þá fannst og hráki á tröppum hússins að Y, sem við DNA-rannsókn reyndist vera úr ákærða. Ákærði hefur enga skýringu gefið á því að fingrafar hans og hráki hafi fundist á tilgreindum stöðum.
Þegar ofangreint er virt, verður að telja að fram sé komin sönnun um að ákærði hafi brotist inn í húsið að Y umrædda nótt og verið staddur þar inni í svefnherbergi B þegar hún og A vöknuðu upp um nóttina. Þykir engu breyta í því sambandi þótt B hafi ekki borið kennsl á ákærða við myndflettingu eða sakbendingu, enda hefur hún lýst því að hún hafi ekki séð vel framan í manninn vegna myrkurs.
Eins og fyrr hefur verið rakið lýsti telpan A því mjög skilmerkilega hvernig hún hefði vaknað við að skeggbroddar á manninum snertu kynfæri hennar þegar hann var að sleikja þau. Þá lýsti hún því jafnframt að hún hefði verið í náttbuxum þegar hún sofnaði og að hún héldi að maðurinn hefði togað þær af henni. Hefur dómurinn horft á myndupptöku af skýrslugjöfinni og telur framburð telpunnar á allan hátt mjög trúverðugan. Þá styrkir vitnisburður B, um það hvernig telpan sagði henni frá háttsemi mannsins gagnvart henni, strax eftir að maðurinn var farinn út úr húsinu, eindregið framburð telpunnar þar um. Þá fær framburður telpunnar stoð af vitnisburði B um veru mannsins við fótagafl rúmsins þegar telpan vaknaði, um að hún hafi vaknað við hreyfingu telpunnar í rúminu og um að telpan hafi verið buxnalaus, þrátt fyrir að hafa sofnað bæði í nærbuxum og náttbuxum. Telur dómurinn engu skipta við mat á sönnunarstöðu í þessu tilviki þótt ekki hafi greinst munnvatn úr ákærða á sýnum sem tekin voru af skapabörmum telpunnar, enda kom fram í framburði Björgvins Sigurðssonar, sérfræðings við tæknideild lögreglunnar, að margt gæti þar komið til. Þannig gæti það hafa haft áhrif að telpan klæddi sig aftur í buxur eftir að hún vaknaði og að hún hefði ekki farið í skoðun fyrr en nokkrum klukkustundum síðar. Þá gætu niðurstöður reynst mismunandi eftir því hvar sýnin væru tekin á skapabörmunum.
Þegar framangreindir framburðir telpunnar A og ömmunnar B eru vegnir saman, og í því sambandi haft huga að ákærði kveðst ekkert muna um atburði næturinnar og annað það sem hér hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Hefur ákærði með þessu gerst sekur um brot gegn 231. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvörðun refsingar, skaðabætur o.fl.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ákærða nær sakaferill hans allt til ársins 2000 og verður hér getið þeirra hegningarlagabrota sem hann hefur gerst sekur um. Hinn 1. febrúar 2000 gekkst hann undir greiðslu sektar fyrir húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi 5. desember sama ár var ákærða gert að sæta 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi 30. apríl 2001, var ákærða gert að sæta 90 daga fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir líkamsárás skv. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var ákærði í því máli sakfelldur fyrir að hafa tekið konu föstum tökum og þannig hindrað að hún kæmist leiðar sinnar á snyrtingu í svefnskála. Var dómur þessi hegningarauki við dóminn frá 5. desember 2000 og sáttina frá 28. mars 2001. Ákærði var aftur dæmdur fyrir húsbrot hinn 25. apríl 2003. Var honum þá gert að sæta fangelsi í 4 mánuði og þar af voru 3 mánuðir skilorðsbundnir í 2 ár. Rauf ákærði með brotum sínum skilorð dómsins frá 30. apríl 2001. Hinn 25. nóvember 2003 var ákærða gert að sæta 9 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 209., 1. mgr. 217., 1. mgr. 226. og 231. gr. almennra hegningarlaga, en í því máli var hann meðal annars fundinn sekur um að hafa veist að konu á salerni veitingahúss, farið höndum um líkama hennar, fellt hana í gólfið, barið höfði hennar margsinnis í vegg, dregið buxur hennar og nærbuxur niður að hnjám og farið höndum um kynfæri hennar. Þá var ákærði, með dómi 28. maí 2004, dæmdur í 2 ára fangelsi fyrir brot gegn 193., 1. mgr. 226. og 231. gr. almennra hegningarlaga. Var ákærði í því máli sakfelldur fyrir að hafa í tvígang farið í heimildarleysi inn í íbúðarhús að næturþeli og einnig framið sifskaparbrot og brot gegn frjálsræði með því að taka fjögurra ára gamalt stúlkubarn sofandi úr rúmi sínu og fara með það út úr húsi um hánótt um miðjan vetur.
Í máli þessu hefur ákærði verið fundinn sekur um að brjótast inn í hús að næturlagi og fremja þar kynferðisbrot gagnvart 5 ára telpu, sofandi við hlið ömmu sinnar. Eru brot hans alvarleg og beinast að mikilvægum hagsmunum. Þykir refsing ákærða, með vísan til 1. og 5. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár. Til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt óslitið frá 8. september 2008.
Af hálfu brotaþola er gerð krafa um miskabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 900.000 krónur auk vaxta. Ákærði hefur með kynferðisbroti sínu gerst sekur um refsiverða meingerð gagnvart brotaþola, sem er mjög ung að árum, og á hún rétt á bótum úr hans hendi skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og tilgreint er í dómsorði.
Ákærði greiði 794.808 króna réttargæslu- og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hdl., og 237.048 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Hefur í báðum tilvikum verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði Friðjónsdóttur, settum vararíkissaksóknara.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari sem dómsformaður ásamt meðdómendunum, Hervöru Þorvaldsdóttur og Allan V. Magnússyni héraðsdómurum.
Dómsorð:
Ákærði, Jóhann Sigurðarson, sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar refsivistinni komi gæsluvarðhald ákærða frá 8. september 2008.
Ákærði greiði A 800.000 krónur í miskabætur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2008 til 21. október 2008 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 794.808 króna réttargæslu- og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hdl., og 237.048 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Hefur í báðum tilvikum verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.