Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Útivist


Miðvikudaginn 29

 

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000.

Nr. 420/2000.

M

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

K

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

                                                   

Kærumál. Niðurfelling máls. Útivist.

Við fyrirtöku máls var ekki sótt þing af hálfu M og málið því fellt niður. Ekki var fallist á það með M að lögmaður hans hefði haft lögmæt forföll samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991, þar sem hann hefði verið við kennslu í Háskóla Íslands er málið var tekið fyrir í umrætt sinn. Þá var eigi heldur talið að málsmeðferðarákvæði laga nr. 20/1992 hefðu þýðingu varðandi úrslit þessa máls.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2000 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 7. nóvember 2000 þar sem mál sóknaraðila gegn varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að boða að nýju til þinghalds í málinu. Til vara krefst hann þess að málskostnaður í héraði verði felldur niður eða lækkaður. Þá krefst hann  kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var málið tekið fyrir 11. október 2000 að viðstöddum lögmönnum aðila og því frestað til undirbúnings aðalmeðferðar til 7. nóvember 2000 kl.11:00. Síðastnefnt þinghald var ekki sótt af hálfu sóknaraðila. Krafðist lögmaður varnaraðila að málið yrði fellt niður. Kvað héraðsdómari þá upp hinn kærða úrskurð þar sem málið var fellt niður og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 140.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts.

Í kæru sóknaraðila er sú skýring gefin á fjarveru lögmanns hans að tilkynning lögmanns þess er mætti fyrir lögmann hans í þinghaldinu 11. október 2000 um þinghaldið hafi farið framhjá síðargreinda lögmanninunum, en tilkynningin hafði verið skráð á reikning vegna mætingar fyrrgreinda lögmannsins. Hafi síðargreindi lögmaðurinn verið við kennslu í Háskóla Íslands er málið var tekið fyrir hinn 7. nóvember. Hafi dómara verið kunnugt um það áður en hinn kærði úrskurður var upp kveðinn. Telur sóknaraðili að lögmaðurinn hafi haft lögmæt forföll samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Þá telur sóknaraðili að þar sem mál þetta sé forsjármál gildi sérstök ákvæði barnalaga nr. 20/1992 um málsmeðferð, en þeim sé meðal annars ætlað að tryggja að mál gangi hratt og greiðlega fyrir sig. Leiði ákvæði þeirra til frávika frá almennum reglum um meðferð einkamála meðal annars varðandi málshraða og afskipti dómara. Varakröfu styður sóknaraðili meðal annars við þau rök að ráða megi af dómum að almennt sé ástæða til að fella niður málskostnað í forsjármálum.

Varnaraðili telur að ákvæði barnalaga leiði ekki til frávika frá almennum reglum um meðferð einkamála að því er varðar það málefni, sem hér er til ákvörðunar, og af atvikum málsins leiði ekki sérstök knýjandi nauðsyn til skjótrar úrlausnar þess. Þá andmælir hann því að ástæður fyrir fjarveru lögmanns sóknaraðila í þinghaldinu 7. nóvember teljist til lögmætra forfalla. Varnaraðili andmælir því varðandi varakröfu sóknaraðila að dómvenja sé fyrir því að málskostnaður sé felldur niður í forsjármálum.

Áðurgreind ástæða fyrir fjarveru lögmanns sóknaraðila í þinghaldi 7. nóvember 2000 getur ekki talist til lögmætra forfalla í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að ákvæði laga nr. 20/1992 hafi þýðingu varðandi úrslit þessa máls. Héraðsdómara var því rétt að fella málið þegar niður, sbr. b-lið 1. mgr. 105 gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðila verður gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, samtals 160.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 7. nóvember 2000.

Mál þetta var þingfest 13. september sl., og þá frestað til 11. október til framlagningar greinargerðar stefndu, en þá var málinu frestað til dagsins í dag. Af hálfu stefnanda er ekki sótt þing og ekki boðuð forföll. Af hálfu stefndu er þess krafist að málið verið fellt niður og að henni verði úrskurðaður málskostnaður. Ber dómara að verða við þeirri kröfu skv. 2. mgr., sbr. b-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.

Dómara þykir hæfilegt að málskostnaður stefndu verði kr. 140.000 auk virðisaukaskatts.

Finnur T. Hjörleifsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Mál þetta er fellt niður. Stefnandi, M, greiði stefndu, K, kr. 140.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.