Hæstiréttur íslands

Mál nr. 332/2016

UBS AG (Geir Gestsson hrl.)
gegn
Kaupþingi ehf. (Grímur Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa K ehf. um dómkvaðningu matsmanns til að svara tíu spurningum í máli sem K ehf. höfðaði gegn U. Í dómi Hæstaréttar var rakið að samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri varnaraðila heimilt að leggja fram ný gögn fyrir Hæstarétti. Þá væri gert ráð fyrir því í lögunum að aðilar gætu aflað matsgerða á milli dómstiga. Var hinn kærði úrskurður staðfestur að öðru leyti en því að hafnað var að leggja helming matsspurninganna fyrir hinn dómkvadda matsmann þar sem þær voru taldar fela í sér mat á lögfræðilegum álitaefnum eða væru einvörðungu að leita mats á atriðum sem bersýnilega væru tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 11. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2016 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umbeðinni dómkvaðningu matsmanns hafnað, en að því frágengnu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að hluta og hafnað verði matsspurningum nr. 1, 5, 7, 8, 9 og 10. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Með dómi héraðsdóms 11. desember 2015 í máli sem varnaraðili höfðaði á hendur sóknaraðila 19. júní 2012 var sóknaraðili sýknaður af kröfum varnaraðila, annars vegar um riftun á sex greiðslum sem varnaraðili innti af hendi til sóknaraðila dagana 21., 22. og 25. ágúst 2008 og hins vegar til greiðslu á tilgreindri fjárhæð. Í niðurstöðu dómsins sagði að sóknaraðili hefði fært fyrir því viðhlítandi rök að greiðslurnar hafi virst venjulegar eftir atvikum, þannig að varnaraðila væri ekki unnt að bera fyrir sig 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá lægi ekki fyrir að með þeim viðskiptum sem um ræddi í málinu væri vikið svo frá því sem venjulegt gæti talist í rekstri banka á viðsjárverðum tímum að þau gætu ekki virst venjuleg eftir atvikum. Matsbeiðni sú sem til umfjöllunar er í máli þessu var lögð fram í héraðsdómi 25. janúar 2016, en fyrrgreindum dómi áfrýjaði varnaraðili til Hæstaréttar og var málið þingfest hér fyrir dómi 4. maí 2016.

II

Aðal- og varakrafa sóknaraðila eru studdar þeim rökum að ekkert áfrýjunarmál hafi verið rekið milli aðila, þegar matsbeiðnin var lögð fram í héraðsdómi og skilyrði 73. og 76. gr. laga nr. 91/1991 fyrir dómkvaðningu matsmanna því ekki verið uppfyllt á þeim tíma.

Samkvæmt d. lið 2. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991 getur varnaraðili komið að nýjum gögnum fyrir Hæstarétti og jafnframt aflað gagna eftir að hann hefur skilað greinargerð sinni, að því gefnu að hann leggi þau fram innan gagnaöflunarfrests, sbr. 1. mgr. 160. gr. laganna. Þá er sérstaklega gert ráð fyrir því í 1. mgr. 76. gr. sömu laga, sbr. 75. gr. og IX. kafla þeirra, að aðilar geti aflað matsgerðar milli dómstiga. Enn fremur ber að hafna beiðni um dómkvaðningu matsmanns skorti skilyrði til að fallast á hana. Að því gættu og samkvæmt því sem að framan greinir verður fyrrgreindum kröfum sóknaraðila hafnað.

III

Í matsbeiðni varnaraðila eru settar fram matsspurningar í tíu liðum og hefur sóknaraðili krafist þess að spurningum samkvæmt fyrsta, fimmta, sjöunda, áttunda, níunda og tíunda lið verði hafnað. 

Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 90/1991 leggur dómari mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Í 1. mgr. 61. gr. laganna er meðal annars kveðið á um að dómari kveðji einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat ef ekki verði farið að sem í 2. mgr. 60. gr. segir. Með fyrstu matsspurningu, þar sem meðal annars er óskað svara við því hvað skuldatryggingar séu, hvernig verð á markaði með skuldatryggingar myndist, hvað skuldatryggingarálag sé og hver séu tengslin milli markaðar með skuldatryggingar og markaðar með skuldabréf varnaraðila, er fyrst og fremst verið að leita eftir mati á öðrum sérfræðilegum álitaefnum en lögfræðilegum. Verður því fallist á með varnaraðila að heimilt sé að leita mats um þau atriði sem greinir í þessari matsspurningu.

Með fimmtu matsspurningu er leitað svara við því hvaða upplýsingar eða vísbendingar skuldatryggingarálag varnaraðila samkvæmt svari við spurningu tvö, sem lýtur að skuldatryggingarálagi matsbeiðanda á tímabilinu frá 1. maí 2008 til 25. ágúst sama ár hafi gefið markaðsaðilum um líkur á greiðslufalli hans, reiknaðar samkvæmt tilgreindri aðferð. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að hann sé ósammála forsendum héraðsdóms, sem skipaður var embættisdómara, í máli því sem áfrýjað hefur verið um að ekkert hafi legið fyrir um að sóknaraðili og aðrir aðilar á alþjóðlegum fjármálamarkaði hafi á þeim tíma er viðskipti fóru fram mátt gera sér grein fyrir því að greiðsluþrot varnaraðila væri yfirvofandi. Með matsspurningunni freistar varnaraðili þess að fá matsmann til að fjalla um þetta lögfræðilega álitaefni en það er sem fyrr segir hlutverk dómara að leggja mat á það á grundvelli lagaþekkingar sinnar. Með níundu og tíundu matsspurningu freistar varnaraðili þess á sama hátt að hrekja tilgreindar forsendur héraðsdóms, en hann hefur ekki sýnt fram á að með spurningunum sé verið að leita eftir mati á öðrum sérfræðilegum álitaefnum en lögfræðilegum.

Þá er með sjöundu og áttundu matsspurningu einvörðungu leitað mats á atriðum sem bersýnilega eru tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur að öðru leyti en því að fimm spurningar í matsbeiðni varnaraðila verða ekki lagðar fyrir hinn dómkvadda matsmann eins og nánar greinir í dómsorði.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að matsspurningar nr. 5, 7, 8, 9 og 10 verða ekki lagðar fyrir hinn dómkvadda matsmann.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2016.

I

                Með beiðni sem barst dóminum 25. janúar 2016 krafðist Kaupþing ehf., Borgartúni 26, Reykjavík, þess að dómkvaddur yrði matsmaður samkvæmt IX., sbr. XI. kafla laga nr. 91/1991.  Matsþoli, UBS AG, Bahnhofstrasse 45, Zürich, Sviss, mótmælti dómkvaðningu og var beiðnin tekin til úrskurðar 22. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi. 

                Matsbeiðandi var til slitameðferðar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum.  Slitum er nú lokið með nauðasamningi og hefur félagsformi matsbeiðanda verið breytt í einkahlutafélag.  Hinn 11. desember 2015 gekk dómur í héraði í máli sem matsbeiðandi hafði höfðað á hendur matsþola til riftunar tiltekinna ráðstafana.  Var matsþoli sýknaður af öllum kröfum matsbeiðanda í málinu.  Hefur matsbeiðandi nú áfrýjað málinu og hyggst leggja umbeðna matsgerð fram í Hæstarétti.

                Nánar krefst matsbeiðandi þess að dómkvaddur verði einn matsmaður til þess að meta eftirtalin atriði varðandi skuldatryggingarálag matsbeiðanda á síðustu mánuðum fyrir greiðsluþrot hans.  Matsspurningar eru þessar: 

1.         Óskað er lýsingar matsmanns á markaði með skuldatryggingar Kaupþings hf. frá 1. maí 2008 til 25. ágúst 2008. Í þeirri lýsingu komi m.a. fram hvað skuldatryggingar eru, hvernig verð á markaði með skuldatryggingar myndast, hvað skuldatryggingarálag sé og hver tengslin eru milli markaðs með skuldatryggingar og markaðs með skuldabréf Kaupþings hf.

2.         Hvert var skuldatryggingarálag matsbeiðanda til skamms tíma á tímabilinu frá 1. maí 2008 til 25. ágúst 2008?

3.         Var skuldatryggingarálag matsbeiðanda mismunandi eftir því til hversu langs tíma skuldatryggingar voru gefnar út?

4.         Hvaða aðferð eða aðferðir eru notaðar til að reikna út líkur á greiðslufalli út frá upplýsingum um skuldatryggingarálag?

5.         Hvaða upplýsingar eða vísbendingar gaf skuldatryggingarálag matsbeiðanda, samkvæmt svari við spurningu nr. 2, markaðsaðilum um líkur á greiðslufalli hans, reiknaðar samkvæmt þeirri aðferð eða aðferðum sem lýst er í spurningu 4?

6.         Ef svarið við spurningu 3 er jákvætt, hver var munurinn á líkum á greiðslufalli frá 1. maí 2008 til 25. ágúst 2008, samkvæmt þeirri aðferð eða aðferðum sem lýst er í spurningu 4, miðað við skuldatryggingar gefnar út til skamms tíma annars vegar og langs tíma hins vegar?

7.         Hvaða upplýsingar eða vísbendingar gaf skuldatryggingarálag norður evrópsku fjármálastofnana Danske Bank A/S, DNB Bank ASA, Skandinaviska Enskilda Banken AB (SEB), og Nordea Bank AB á tímabilinu frá 1. maí 2008 til 25. ágúst 2008 markaðsaðilum um líkur á greiðslufalli þeirra?

8.         Hvaða upplýsingar eða vísbendingar gaf skuldatryggingarálag samkvæmt vísitölu Markit iTraxx Europe Senior Financial index markaðsaðilum um líkur á greiðslufalli þeirra fjármálastofnana sem vísitalan tekur til?

9.         Við þær aðstæður sem svör við spurningum nr. 2 og nr. 5 taka til (þ.e. út frá upplýsingum eða vísbendingum markaðsaðila um líkur á greiðslufalli Kaupþings hf. miðað við skuldatryggingarálag þess frá 1. maí 2008 til 25. ágúst 2008), var þá munur á áhættu matsbeiðanda af því að fjármagna sig með annars vegar innlánum frá almenningi og hins vegar skuldabréfaútgáfu?

10.       Ef svarið við spurningu 9 er játandi, í hverju er sá munur fólginn?

                Matsþoli mótmælir matsbeiðni þessari og krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dóminum, til vara að matsbeiðni verði hafnað.  Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar að skaðlausu. 

II

                Í matsbeiðni segir að umrætt riftunarmál varði endurkaup matsbeiðanda á hlutdeild matsþola í allsherjarskuldabréfi matsbeiðanda.  Telur matsbeiðandi að endurkaup þessi hafi í raun verið greiðsla skuldar fyrr en eðlilegt gat talist, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.  Greiðslurnar voru inntar af hendi dagana 21. til 25. ágúst 2008, nokkru áður en Fjármálaeftirlitið tók matsbeiðanda yfir og skipaði skilanefnd. 

                Matsbeiðandi, eða forveri hans, Kaupþing banki hf., gaf þann 27. mars 2006 út útgáfulýsingu fyrir 10 milljarða Bandaríkjadollara skuldabréfaútgáfu sem hafði að geyma almenna skilmála þeirra skuldabréfa sem gefin yrðu út.  Var gert ráð fyrir að gefnir yrðu út svonefndir verðviðaukar sem hefðu að geyma sérstaka skilmála hvers skuldabréfs og myndu skilgreina nánar hvaða almennu ákvæði útgáfulýsingarinnar giltu um skuldabréfin.  Hinn 27. september 2007 gaf matsbeiðandi út verðviðauka vegna skuldabréfa að nafnverði USD 1.000.000.000, USD 1.500.000.000 og USD 500.000.000.  Á meðal flokka þessara verðviðauka voru útgáfur sem fengu ISIN númerin US48632FAA93, US48632FAB76 og US48632GAB59. Gjalddagi skuldabréfanna í flokki US48632FAA93 var 4. október 2011, en gjalddagi skuldabréfanna í flokkum US48632FAB76 og US48632GAB59 var 4. október 2016.  Gerður var svonefndur Indenture-samningur við Deutsche Bank Trust Company Americas um að vera vörsluaðili í viðskiptunum.  Vörsluaðili tekur við greiðslum og leitar eftir atvikum fullnustu á kröfum samkvæmt bréfunum. 

                Matsþoli var eigandi alls sex hlutdeilda í skuldabréfum í útgáfum US48632FAA93, US48632FAB76 og US48632GAB59.  Dagana 21. ágúst 2008, 22. ágúst 2008 og 25. ágúst 2008 keypti matsbeiðandi hlutdeildirnar af matsþola.  Telur matsbeiðandi að með þessu hafi réttindi og skyldur komist á sömu hendi og krafa samkvæmt skuldabréfunum fallið niður.  Byggir hann á því að í þessum ráðstöfunum hafi falist greiðsla á skuld fyrr en eðlilegt var. 

                Matsbeiðandi vísar til framkominna gagna um skuldatryggingaálag hans á árinu 2008.  Segir hann að þegar álagið sé orðið hærra en 1000 punktar sé það merki um að markaðurinn búist við greiðslufalli viðkomandi. 

                Héraðsdómur hafi fallist á þá málsvörn matsþola að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.  Matsbeiðandi kveðst telja að endurkaup skuldabréfa hafi verið tilraun til þess að lækka skuldatryggingaálag bankans.  Þá kveðst hann telja að aðilar á alþjóðlegum fjármálamarkaði, t.d. matsþoli, hafi vegna skuldatryggingarálags matsbeiðanda og fleiri atriða mátt gera sér grein fyrir slæmri fjárhagsstöðu matsbeiðanda og raunar einnig yfirvofandi greiðsluþroti hans.  Kveðst hann ætla að sanna þetta með umbeðinni matsgerð og leiða í ljós að skuldatryggingarálag Kaupþings hafi gefið til kynna slæma fjárhagsstöðu bankans og að miklar líkur hafi verið á greiðslufalli hjá honum innan skamms tíma, þ .e.  innan 12 mánaða.  Telur hann að upplýsingar um fjárhagsvandræði Kaupþings og mögulegt greiðsluþrot bankans hafi mátt lesa úr skuldatryggingarálagi bankans þó nokkru áður en viðskiptin fóru fram og því sé nauðsynlegt að óska mats á líkum á greiðsluþroti frá 1. maí 2008. 

                Þá kveðst matsbeiðandi einnig vilja sanna með matsgerðinni að ekki hafi með réttu mátt leggja áherslu á innlán á Kaupþing Edge reikninga þegar fjármögnun bankans var metin.  Sú innlánssöfnun hafi verið gerð í dótturfélagi og sé jafnframt mun áhættusamari fjármögnun en hefðbundin skuldabréfaútgáfa. 

III

                Matsþoli krefst aðallega frávísunar matsbeiðninnar.  Hann bendir á að ekkert mál sé rekið milli aðila, sbr. 73. og 76. gr. laga nr. 91/1991.  Matsbeiðandi hafi ekki verið búinn að áfrýja dómi héraðsdóms þegar beiðni var lögð fram.  Því verði að vísa beiðninni frá samkvæmt meginreglum einkamálaréttarfars og 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. 

                Matsþoli mótmælir því að umbeðin matsgerð geti haft þýðingu fyrir úrslit hugsanlegs áfrýjunarmáls.  Hann geti raunar ekki séð hvort svo væri, þar sem málinu hafi ekki verið áfrýjað og málsástæðum teflt fram. 

                Matsþoli fjallar um viðskiptin sem um er deilt í riftunarmálinu og reifar sjónarmið sín um riftunarkröfu matsbeiðanda.  Telur hann að kaupin eða greiðslan á kröfunum hafi verið hefðbundin ráðstöfun til þess að lækka skuldatryggingaálag.  Byggir matsþoli á því að jafnvel þótt skuldatryggingaálagið hefði gefið til kynna að félagið yrði ógjaldfært innan skamms, væru viðskiptin ekki riftanleg þar sem það hefði virst venjulegt og hagstætt fyrir skuldara að sporna við hækkun álagsins með því að kaupa eigin bréf.  Matsgerð um álagið sé því bersýnilega þýðingarlaus. 

                Þá byggir matsþoli á því að viðskiptin hafi verið matsbeiðanda hagstæð.  Viðskipti með skuldabréf matsbeiðanda hafi verið stunduð allt til 1. október 2008, m.a. af matsbeiðanda sjálfum. 

                Reifar matsþoli nánar sjónarmið sín um riftunarkröfuna og segir að lokum að grundvallaratriðið sé þó það að matsgerð sem unnin sé á árinu 2016 og eigi að hnekkja áliti matsþola (og stjórnar matsbeiðanda sjálfs) frá árinu 2008 um gjaldfærni matsbeiðanda, sé bersýnilega þýðingarlaus við matið á því hvort viðskiptin hafi virst venjuleg á sínum tíma.  Því verði að hafna matsbeiðni. 

                Matsþoli byggir á því að það sé dómara að meta hvort viðskiptin hafi virst venjuleg eftir atvikum í skilningi 134. gr. gjaldþrotalaga.  Því beri að hafna matsbeiðni, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.  Þá geti matsmenn ekki metið hvaða áhrif skuldatryggingaálagið hafi haft, þegar gögn sýni að það hafði enga þýðingu þegar viðskiptin fóru fram. 

                Matsþoli segir að beðið sé um mat á því hvað greina hafi mátt af skuldatryggingaálagi Kaupþings.  Með þessu sé beðið um mat á vitneskju ótilgreindra utanaðkomandi aðila um gjaldfærni matsbeiðanda.  Þetta verði heldur ekki metið nema með hreinni ágiskun.  Þá ítrekar matsþoli að þetta mat sé lögfræðilegt. 

                Matþoli byggir á því að matsspurningar séu óskýrar og því beri að hafna matsbeiðni samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.  Bendir hann á að ekki sé ljóst hvaða markaði átt sé við í beiðni eða hvaða markaðsaðila. 

                Loks gerir matsþoli athugasemdir við einstakar matsspurningar.

                Um fyrstu spurningu segir hann að orðalagi gangi út frá því að tengsl séu á milli skuldatryggingamarkaðar og eftirmarkaðar með skuldabréf.  Spurningin sé því ekki hlutlæg, spyrja hefði átt að því hvort tengsl væru þarna á milli.  Spurningin sé leiðandi og því beri að hafna henni.  Ítrekar matsþoli hér að skuldatryggingaálag skipti ekki máli þegar skuldabréf séu staðgreidd.  Þá sé í orðalagi fyrstu spurningar einnig gert ráð fyrir því að skuldatryggingar séu tengdar greiðslufallsáhættu.  Þessi spurning sé því leiðandi. 

                Matsþoli byggir á því að það sé dómara að meta hvort viðskipti hafi virst venjuleg.  Það eigi ekki að fara fram mat sérfræðinga á því hvort viðskipti séu eðlileg. 

                Matsþoli segir um spurningu nr. 6 að skuldatryggingaálag matsbeiðanda sé málinu óviðkomandi, hvort sem um sé að ræða álag til lengri eða skemmri tíma.  Af því leiði einnig að spurning nr. 7 sé þýðingarlaus.  Það sama eigi við um Markit vísitöluna. 

                Matsþoli segir að spurning nr. 9 sé leiðandi og því beri að hafna henni.  Þá sé spurningin þýðingarlaus þar sem hnekkja eigi mati matsþola á gjaldfærni matsbeiðanda.  Aðilar hafi verið sammála um gjaldfærni bankans á sínum tíma og því gæti það ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins þótt matsmaður kæmist að annarri niðurstöðu. 

                Loks byggir matsþoli á því að matsbeiðandi hafi ekki teflt því fram sem málsástæðu í stefnu að innistæðusöfnun væri ótrygg fjármögnunarleið.  Kæmi hún fram fyrir Hæstarétti væri hún of seint fram komin.  Því sé spurningin þýðingarlaus. 

IV

                Niðurstaða

                Umræddum dómi héraðsdóms í máli aðila hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar.  Matsbeiðni verður ekki vísað frá dóminum þótt hún hafi verið lögð fram áður en áfrýjunarstefna hafði verið gefin út.  Áfrýjunarfrestur var ekki liðinn þegar matsbeiðni var lögð fram og sagt er í beiðninni að málinu verði áfrýjað. 

                Varnir þær sem matsþoli byggir á í greinargerð sinni lúta að talsverðu leyti að sjálfri riftunarkröfunni.  Ekki verður leyst úr henni í matsmáli þessu, það hefur þegar verið gert í héraði og bíður sú úrlausn nú endurskoðunar í Hæstarétti. 

                Matsspurningar lúta að skuldatryggingaálagi á kröfur á hendur Kaupþingi á tilteknu tímabili.  Svör telur matsbeiðandi að gætu stutt þann málatilbúnað hans að bankinn hafi greitt skuldir sínar við matsþola fyrr en eðlilegt gat talist.  Ekki verður leyst úr því í þessu matsmáli hvort málsástæður matsbeiðanda í riftunarmálinu séu haldlausar eins og matsþoli heldur fram.  Matsbeiðandi vill sanna tiltekin atriði varðandi skuldatryggingaálagið.  Því verður ekki vísað á bug með því að það sé augljóslega þýðingarlaust eins og matsþoli heldur fram. 

                Matið er ekki þýðingarlaust þótt báðir aðilar hafi talið að bankinn væri gjaldfær þegar greiðsla var innt af hendi.  Riftunarregla 134. gr. gjaldþrotalaganna er hlutlæg. 

                Sú málsástæða matsþola að greiðsla lánanna hafi verið matsbeiðanda hagstæð getur ekki hindrað það að matsgerðar verði aflað.  Þá mun því ekki verða svarað beint í matsgerð hvort viðskiptin hafi verið eðlileg eftir atvikum.  Matsbeiðandi telur nauðsynlegt að afla matsgerðar til þess að dómur geti svarað þeirri málsástæðu hans að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var. 

                Matsspurningar eru nægilega skýrar til þess að þeim verði svarað afdráttarlaust.  Ekki verður fallist á að þær séu svo leiðandi að þeim beri að hafna.  Loks getur dómurinn ekki neitað um dómkvaðningu matsmanna þótt svo kynni að fara að málsástæða sem styrkja skal með matsgerðinni kæmist ekki að fyrir Hæstarétti.  Héraðsdómur getur ekki leyst úr því hvaða málsástæður komast þar að. 

                Mótmælum matsþola verður hafnað.  Rétt er að hann greiði matsbeiðanda 250.000 krónur í málskostnað. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Dómkvaddur skal matsmaður samkvæmt framangreindri beiðni Kaupþings ehf.

                Varnaraðili, UBS AG, greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.