Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfulýsing
  • Vanlýsing


                                     

Föstudaginn 8. febrúar 2013.

Nr. 19/2013.

Þrotabú Saxsteins ehf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

þrotabúi Icarusar ehf. 

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Vanlýsing.

Þb. S ehf. lýsti kröfum við gjaldþrotaskipti I ehf. sem skiptastjóri þess síðarnefnda hafnaði og var ágreiningi aðila vísað til úrlausnar héraðsdóms. Deildu aðilar um það hvort kröfur þb. S ehf. skyldu komast að við skipti á búi I ehf. á grundvelli 2. eða 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en þb. S ehf. hafði lýst kröfum sínum í bú I ehf. eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna, kom fram að undantekningar frá meginreglu 118. gr. laganna sem taldar væru upp í sex töluliðum ákvæðisins bæri að skýra þröngt. Þannig yrði orðalag 2. tl. ákvæðisins ekki skýrt og túlkað á þann hátt sem þb. S ehf. hélt fram í málinu, hvorki með rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun. Þá var jafnframt talið að þb. S. ehf. hefði ekki tekist að sanna að skiptastjóri I ehf. hefði með saknæmum og ólögmætum hætti brugðist skyldum sínum þannig að bótaábyrgð varði og komst krafa þb. S. ehf. því heldur ekki að samkvæmt 5. tl. ákvæðisins. Var kröfum þb. S ehf. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. janúar 2013. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2012, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfur hans, samtals að fjárhæð 718.165.348 krónur, verði viðurkenndar sem almennar kröfur við gjaldþrotaskiptin. Til vara krefst hann þess að varnaraðila „verði gert að þola viðurkenningu á bótaskyldu sinni vegna tjóns sóknaraðila af því, að kröfur sóknaraðila, skv. kröfulýsingum dagsettum 1. og 2. febrúar 2010, alls að fjárhæð 718.165.348,- komust ekki að við gjaldþrotaskipti varnaraðila“. Jafnframt krefst hann þess að skaðabótakrafan verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Saxsteins ehf., greiði varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2012.

I

Mál þetta var þingfest 9. desember 2011 og tekið til úrskurðar 19. nóvember sl.

Sóknaraðili er þrotabú Saxsteins ehf., áður til heimilis að Túngötu 5, Reykjavík, en varnaraðili er þrotabú Icarusar ehf. (áður Saxbygg ehf.), áður til heimilis að Skógarhlíð 12, einnig í Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila hljóða þannig:

„Aðalkrafa:

Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfur hans í þrotabú Icarusar ehf., skv. kröfulýsingum dagsettum 1. og 2. febrúar 2010, alls að fjárhæð kr. 718.165.348,-, komist að við gjaldþrotaskipti varnaraðila og að kröfur hans verði viðurkenndar sem almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.

Varakrafa:

Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., verði gert að þola viðurkenningu á bótaskyldu sinni vegna tjóns sóknaraðila af því, að kröfur sóknaraðila, skv. kröfulýsingum dagsettum 1. og 2. febrúar 2010, alls að fjárhæð kr. 718.165.348,- komust ekki að við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús Icarusar ehf.

Krefst sóknaraðili þess jafnframt að viðurkennt sé að skaðabótakrafan skuli komast að við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús Icarusar ehf. og að kröfunni beri að skipa í réttindaröð sem búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Þrautavarakrafa:

Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að viðurkennt sé að allar greiðslur sem varnaraðila berast eða hafa borist, eftir að varnaraðili var úrskurðaður gjaldþrota þann 15. maí 2009, vegna eftirfarandi eigna sóknaraðila: 

a) allt útgefið hlutafé í London Property Holding pic, (LPH), skráningarnúmer C29296, P.O. Box 556, skráð að Main Street, Charleston, Nevis.  

b) allt útgefið hlutafé í London Investment Properties pic, (LIP), skráningarnúmer C30005, P.O. Box 556, skráð að Main Street, Charleston, Nevis, sem afhentar voru Aldersgate Invest ehf., kt. 570308-0330, með kaupsamningi dags. 1. júlí 2008, hafi varnaraðili fengið á grundvelli óréttmætrar auðgunar, á kostnað sóknaraðila.

Krefst sóknaraðili þess jafnframt að viðurkennt sé að endurgreiðslukrafa sóknaraðila, á grundvelli slíkra greiðslna til varnaraðila, skuli komast að við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús Icarusar ehf. og að slíkri kröfu beri að skipa í réttindaröð sem búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Þrautaþrautavarakrafa:

Til þrautaþrautavara krefst sóknaraðili þess að viðurkennd sé riftun sóknaraðila á ráðstöfun söluandvirðis eftirfarandi eigna sóknaraðila:

a) allt útgefið hlutafé í London Property Holding pic, (LPH), skráningarnúmer C29296, P.O. Box 556, skráð að Main Street, Charleston, Nevis.  

b) allt útgefið hlutafé í London Investment Properties pic, (LIP), skráningarnúmer          C30005, P.O. Box 556, skráð að Main Street, Charleston, Nevis, en söluandvirðið rann óskipt til varnaraðila skv. kaupsamningi dags. 1. júlí 2008.

Krefst sóknaraðili þess jafnframt að viðurkennt sé að endurgreiðslukrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna þessa skuli komast að við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús Icarusar ehf. og að slíkri kröfu beri að skipa í réttindaröð sem búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.“

Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar sér til handa samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar sóknaraðila vegna greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþjónustu.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að kröfurnar verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

II

Helstu málsatvik eru þessi:

Með kaupsamningi 1. júlí 2008 skuldbundu sóknaraðili og varnaraðili sig til að selja  Saxbygg Investment London ehf., kt. 570308-0330, nú Aldersgate Invest ehf., hlutafé þeirra í ýmsum breskum fyrirtækjum. Meðal hins selda var allt útgefið hlutafé í London Property Holding plc., skráningarnúmer C29296, P.O. Box 556, skráð að Main Street, Charleston, Nevis, og allt útgefið hlutafé í London Investment Properties plc., skráningarnúmer C30005, P.O. Box 556, einnig skráð að Main Street, Charleston, Nevis. Tekið var fram að hlutafé þetta væri í raunverulegri eigu Saxsteins ehf., en  skráðir á nafn Interco Services Limited sem ,,nominee“. Að auki voru seldir hlutir í öðrum félögum, en þeir voru í eigu varnaraðila. Heildarkaupverð var 21.000.000 breskra punda, sem skyldi greitt með láni frá Saxbygg ehf. til kaupanda. Í kaupsamningnum var ekki sundurgreint hvert væri verðmæti eigna sóknaraðila annars vegar og eigna varnaraðila hins vegar. Undir samninginn ritaði Björn Ingi Sveinsson framkvæmdastjóri, fyrir hönd allra samningsaðila. Í greinargerð sóknaraðila telur hann að hlutur sóknaraðila í hinum seldu eignum hafi alls verið um 67%, og verðmæti þess því um 13.876.731 breskt pund. Er þá stuðst við verðmat sem fyrrverandi framkvæmdastjóri lagði fram við skýrslutöku hjá skiptastjóra sóknaraðila.

Sama dag voru undirritaðir tveir lánssamningar milli varnaraðila sem lánveitanda og Saxbygg Investments London ehf. sem lántaka, og var hvor þeirra að fjárhæð 10.500.000 bresk pund. Kemur þar fram að lánið sé til kaupa lántaka á hlutafé í  mörgum félögum, þ.m.t. London Property Holdings plc. og London Investment Properties plc.

Hinn 10. október 2008 gerðu Saxbygg Investments London ehf., sóknaraðili og varnaraðili með sér nýjan samning sem fól í sér breytingar á kaupverði samkvæmt fyrri kaupsamningi aðila, svo og breytingar á skilmálum fyrri lánssamninga. Tilefni samningsins var sagt breytingar á fjármálamarkaði vegna hruns íslenska bankakerfisins í byrjun þess mánaðar. Með þessum samningi var kaupverð hins selda lækkað úr 21.000.000 breskra punda í 7.000.000 breskra punda. Um leið voru fyrri lánssamningar felldir úr gildi, en nýr lánssamningur gerður milli varnaraðila sem lánveitanda og Saxbygg Investments London ehf. sem lántaka, að fjárhæð 7.000.000 breskra punda. Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að skiptastjóri varnaraðila hafi lýst því yfir að þetta verðmat sé raunhæfara en hið fyrra, þótt miðað sé við dagsetninguna 1. júlí 2008. Telur sóknaraðili að samkvæmt síðari samningnum hafi hlutur hans í hinum seldu eignum verið um 80%, og verðmæti þess því um 5.552.868 bresk pund, og vísar í því efni einnig til verðmats fyrrverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila.

Sama dag og síðastgreindu samningarnar voru gerðir var undirritaður lánssamningur milli sóknaraðila sem lánveitanda og varnaraðila sem lántaka. Lánið var að fjárhæð 3.500.000 bresk pund með einum gjalddaga, 31. desember 2010. Bar lánsfjárhæðin breytilega vexti, þriggja mánaða LIBOR vexti að viðbættu 2,75% álagi. Tekið var þar fram að lánssamningurinn leiddi af kaupsamningi sem undirritaður var 1. júlí sl., og sé hann í samræmi við samning um breytingu á umsömdu kaupverði o.fl., sem undirritaður sé samhliða lánssamningnum. Telur sóknaraðili að fjárhæð lánssamningsins bendi til þess að hann hafi átt 50% af heildarverðmæti hinna seldu eigna.

Með bréfi til Hlutafélagskrár 14. maí 2009 tilkynntu stjórnarmenn sóknaraðila að þeir hefðu allir sagt sig úr stjórn félagsins og framkvæmdastjóri jafnframt látið af störfum. Tilkynningin var móttekin 8. júní sama ár. Sóknaraðili var þá að öllu leyti í eigu varnaraðila.

Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2009 og skiptastjóri skipaður Einar Gautur Steingrímsson hrl. Frestur til kröfulýsinga í þrotabúið var tveir mánuðir og rann út 26. júlí 2009. Þá var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta 10. desember 2009 og skiptastjóri skipaður Árni Ámann Árnason hrl. Við könnun skiptastjóra á fjárreiðum sóknaraðila kom í ljós skuld varnaraðila við sóknaraðila, og er hún nánast eina eign þrotabúsins. Samkvæmt kröfuskrá, sem lögð hefur verið fram, nema samþykktar kröfur í þrotabú sóknaraðila alls 3.772.032.731 krónu.

Með kröfulýsingum 1. og 2. febrúar 2010 lýsti sóknaraðili tveimur kröfum í þrotabú varnaraðila. Önnur krafan var að fjárhæð 700.580.169 krónur, vegna áðurnefnds lánssamnings sóknaraðila og varnaraðila frá 10. október 2008, en hin að fjárhæð 17.571.579 krónur, vegna skuldar varnaraðila á viðskiptareikningi hans hjá sóknaraðila. Skiptastjóri sóknaraðila fór þess á leit að skiptastjóri varnaraðila hefði milligöngu um að kröfuhafar þrotabúsins hleyptu kröfum sóknaraðila að við skiptin, sbr. 1. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, en ekki var á það fallist af hálfu kröfuhafa þrotabús varnaraðila. Nokkru síðar, eða 10. maí sama ár, tilkynnti skiptastjóri í þrotabúi sóknaraðila skiptastjóra í þrotabúi varnaraðila um riftun á áðurnefndum kaupsamningum um sölu á hlutabréfum sóknaraðila í félögunum London Property Holdings plc. og London Investment Properties plc. Um leið var varnaraðili aðallega krafinn um greiðslu á 12.758.636 breskum pundum, en til vara um afhendingu fjármuna og krafna sem félagið átti vegna framangreindrar sölu á umræddum eignum.

Meðal gagna málsins eru skjöl frá 6. júlí og 6. desember 2010, er fela í sér samkomulag milli varnaraðila annars vegar og Cromwell Holdings ehf. og þriggja annarra félaga hins vegar um uppgjör ágreiningsmála í tengslum við skipti á þrotabúi varnaraðila. Fram kemur þar að þrotabú varnaraðila hafi höfðað dómsmál til riftunar á ráðstöfunum sem fólust í samningum um sölu á þeim erlendu verkefnum sem varnaraðili hafði selt Saxbygg Investments London ehf. 1. júlí 2008. Í stefnu skiptastjóra varnaraðila vegna málsins, sem einnig liggur frammi, má sjá að riftunarkrafan lýtur aðeins að þeim verðmætum sem talin voru eign varnaraðila, Saxbygg ehf., í áðurnefndum kaupsamningi frá 1. júlí 2008. Hins vegar virðist  endurgreiðslukrafan samkvæmt stefnu skiptastjórans einnig ná til andvirðis þeirra verðmæta sem þar voru talin upp sem eign sóknaraðila. 

Með bréfi 30. maí 2011 hafnaði skiptastjóri í þrotabúi varnaraðila kröfum sóknaraðila. Fundur var haldinn 12. október það ár til þess að reyna að jafna ágreining aðila, en án árangurs. Í kjölfarið var málinu vísað til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 3. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

III

Aðalkrafa sóknaraðila, þess efnis að kröfur hans eigi að komast að við skipti á búi varnaraðila, byggist á 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 2. tl. þeirrar greinar. Samkvæmt því ákvæði geti krafa komist að eftir lok kröfulýsingarfrests, sé kröfuhafinn búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Bendir sóknaraðili á að í athugasemdum við frumvarp til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 sé til þess vísað að 118. gr. laganna eigi sér hliðstæðu í 111. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 6/1978 eða ólögfestum fordæmum. Síðastnefnda ákvæðið hafi hins vegar heimilað skiptaráðanda að samþykkja slíkar kröfur í þeim tilvikum „að afsakanlegt sé vegna búsetu kröfuhafa í öðru landi eða af svipuðum ástæðum að kröfulýsing dróst“, eins og þar sagði. Þá komi fram í athugasemdum við frumvarp til eldri laganna að reglur 111. gr. eigi að koma í veg fyrir bersýnilega ósanngjörn málalok og að skiptaráðandi verði að hafa þann tilgang í huga við skýringu á greininni.

Sóknaraðili leggur á það áherslu að hann hafi aldrei haft tækifæri til þess að koma kröfulýsingu sinni að við skipti á búi varnaraðila. Þannig hafi allir stjórnarmenn og varamenn sagt sig úr stjórn sóknaraðila deginum áður en bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta, þ.e. 14. maí 2009. Um leið hafi framkvæmdastjórinn einnig sagt sig frá félaginu. Samkvæmt lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, beri þessir aðilar því ekki skaðabótaábyrgð á því að kröfum sóknaraðila var ekki lýst í þrotabú varnaraðila. Eftir þessar úrsagnir hafi hluthafafundur einn verið bær til að ráðstafa hagsmunum sóknaraðila. Eini hluthafi sóknaraðila hafi hins vegar verið varnaraðili, sem hafði þó enga hagsmuni af því að lýsa kröfum sóknaraðila í sitt eigið þrotabú. Þvert á móti heldur sóknaraðili því fram að kröfuhafar varnaraðila hafi haft sérstaka hagsmuni af því að varnaraðili lýsti ekki kröfum sóknaraðila í bú varnaraðila. Jafnframt kveðst sóknaraðili ósammála þeim rökum varnaraðila að honum hafi ekki verið skylt að lýsa umræddum kröfum í bú varnaraðila, eða aðhafast nokkuð hvað þetta varði sem móðurfélag sóknaraðila. Byggir hann á því að varnaraðila hafi verið skylt að lýsa umræddum kröfum í þrotabúið, m.a. á grundvelli 72., 87. og 88. gr. laga  nr. 21/1991. 

Sóknaraðili bendir einnig á að kröfur hans séu í grunninn vegna láns sóknaraðila til varnaraðila í tengslum við áðurnefnd viðskipti, sem og krafa samkvæmt viðskiptareikningi. Komist kröfurnar ekki að við skipti á þrotabúi varnaraðila telur sóknaraðili að kröfuhöfum þessara tveggja félaga yrði mismunað með stórfelldum hætti. Slík niðurstaða væri í ósamræmi við markmið gjaldþrotalaga um jafnræði kröfuhafa, auk þess sem hún fæli í sér bersýnilega ósanngjörn málalok. Færi hún jafnframt í bága við vilja eða tilgang löggjafans, en sóknaraðili heldur því fram að orðin „eða af svipuðum ástæðum“ í 111. gr. eldri gjaldþrotaskiptalaga hafi af vangá fallið niður við lögfestingu á 118. gr. núgildandi gjaldþrotaskiptalaga. Í slíkum tilvikum sé heimilt að ákvarða efni lagareglu rýmra en orðalag hennar gefi til kynna. Með hliðsjón af þessu, sem og aðstæðum sóknaraðila á þeim tíma sem kröfulýsingarfrestur varnaraðila rann út, telur sóknaraðili rétt að túlka ákvæði 2. tl. 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991 rýmkandi lögskýringu, og þá með þeim hætti að aðstæður sóknaraðila teljist falla innan marka ákvæðisins. Verði aftur á móti ekki fallist á að túlka ákvæðið með rýmkandi lögskýringu, telur sóknaraðili rétt að beita lögjöfnun frá ákvæðinu svo það taki yfir tilvik sóknaraðila, enda séu skilyrði lögjöfnunar uppfyllt. Beiting lögjöfnunar væri að auki í samræmi við áðurnefndar meginreglur gjaldþrotaréttar og almenna réttarvitund. 

Varakrafa sóknaraðila byggist á því að varnaraðili sé bótaskyldur gagnvart sóknaraðila og því krefjist hann viðurkenningar á bótaskyldunni, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Byggt er á því að um sé að ræða skaðabótaábyrgð utan samninga og að slík bótaábyrgð grundvallist á hinni almennu sakarreglu, sem og ákvæðum gjaldþrotalaga og laga um einkahlutafélög. Telur sóknaraðili að öll skilyrði bótaábyrgðar séu uppfyllt og að bótakrafan komist að við skipti á þrotabúinu samkvæmt 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.

Um grundvöll skaðabótakröfunnar vísar sóknaraðila í fyrsta lagi til 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 95/2010, þar sem fram komi að bókhaldsskyldum skuldara sé skylt að krefjast þess að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta, geti hann ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falli í gjalddaga, og ekki verði talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Þá segi þar einnig að ef þar til bærir aðilar láti hjá líða að taka ákvörðun um að leita gjaldþrotaskipta á búi slíks skuldara, beri þeir skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum skuldarans að því leyti sem þeir fari af þessum sökum á mis við fullnustu krafna sinna, enda sýni þeir ekki fram á að sú vanræksla hafi ekki verið þeim saknæm.

Þegar bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta var hann eini hluthafinn í félagi sóknaraðila, og þar af leiðandi eini aðilinn sem var bær til að leita gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila. Byggir sóknaraðili á því að skiptastjóra í þrotabúi varnaraðila hafi borið að gefa bú sóknaraðila upp til gjaldþrotaskipta strax í kjölfar úrskurðar um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta. Því til stuðnings vísar hann til ákvæða laga nr. 21/1991, þar sem mælt er fyrir um fyrstu aðgerðir, heimildir og skyldur skiptastjóra, sbr. 2. mgr. 72. gr., 2. mgr. 73. gr., 87. gr. og 122. gr. þeirra laga. Þá vekur sóknaraðili sérstaka athygli á 88. gr. sömu laga, þar sem fram komi að skiptastjóri skuli, svo fljótt sem verða megi, ákveða hvernig staðið verði að atvinnurekstri þrotabúsins, gagnkvæmum samningum þess og öðrum mikilsverðum atriðum sem þoli ekki bið, og gera þær ráðstafanir í þeim efnum sem hann telji nauðsynlegar fyrir hagsmuni búsins. Telur sóknaraðili að þessa hafi ekki verið gætt af hálfu varnaraðila. Ekki sé honum heldur kunnugt um að varnaraðili hafi reynt að takmarka tjón kröfuhafa sóknaraðila með því að vekja athygli þeirra á stöðu félagsins. Í því sambandi vísar hann til þess að samkvæmt ársreikningi sóknaraðila vegna ársins 2008, sem áritaður var af stjórn félagsins í febrúar 2009, hafi eigið fé sóknaraðila verið neikvætt um 1.811 milljónir króna. Þar segi einnig að eina langtímakrafa félagsins sé á hendur móðurfélagi þess, en ,,vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu móðurfélagsins leikur verulegur vafi á innheimtanleika kröfunnar“. Loks sé þar berum orðum tekið fram að félagið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Telur sóknaraðili að öllum sem lásu ársreikning sóknaraðila hafi mátt vera ljós bág fjárhagsstaða félagsins. Samkvæmt því telur sóknaraðili að skiptastjóra varnaraðila hafi strax í kjölfar úrskurðar um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila borið að leita upplýsinga um eignir þrotabúsins, þ. á m. um fjárhagsstöðu sóknaraðila. Að því loknu hafi honum verið skylt að sjá til þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta, og það eins fljótt og verða mátti, sbr. 64. gr. laga nr. 21/991. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að sú vanræksla hafi ekki verið honum saknæm. 

Í öðru lagi byggist varakrafa sóknaraðila á því að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 til þess að bótaskylda verði felld á varnaraðila, enda hafi hann sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að láta hjá líða að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila. Enn fremur telur sóknaraðili að aðgerðarleysi varnaraðila í þessum efnum hafi falið í sér saknæma háttsemi sem hann beri ábyrgð á samkvæmt hinni ólögfestu sakarreglu, óháð ofangreindum reglum 64. gr. laga nr. 21/1991 og 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994.

Verði ekki á það fallist að varnaraðili hafi orðið bótaskyldur af ofangreindum ástæðum, telur sóknaraðili að varnaraðili hafi með skaðabótaskyldum hætti valdið honum tjóni með því að lýsa ekki kröfum sóknaraðila í þrotabú varnaraðila innan kröfulýsingarfrests, en skyldu þessa efnis megi leiða af ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þar sem skiptastjóri gerði það ekki, hafi verðmæti eignar sóknaraðila rýrnað og kröfuhafar orðið fyrir tjóni. Beri varnaraðili skaðabótaábyrgð á því tjóni á grundvelli 4. mgr. 77. gr., sbr. 2. mgr. 73. gr. laga nr. 21/1991. Einnig er vísað til 3. mgr. 77. gr. sömu laga, en þar komi fram að skiptastjóra beri að bæta tjón sem hann kunni að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum. Áréttar sóknaraðili að skiptastjóri varnaraðila hafi einn verið bær um að gæta hagsmuna sóknaraðila og lýsa kröfum í þrotabú varnaraðila eftir að félagsstjórn og framkvæmdastjóri sóknaraðila höfðu sagt af sér. Telur sóknaraðili eðlilegt að beina skaðabótakröfum sínum að þrotabúinu sjálfu, en ekki að skiptastjóra persónulega, og vísar í því efni til ákvæða XIII. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, einkum 2. mgr. 73. gr. og 4. mgr. 77. gr. laganna.

Samkvæmt framanrituðu telur sóknaraðili ljóst að varnaraðili hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem valdið hafi honum tjóni, og að ekki fari á milli mála að tjónið sé sennileg afleiðing af hinni saknæmu og ólögmætu háttsemi. Þannig hafi varnaraðila verið skylt að gefa bú sóknaraðila upp til gjaldþrotaskipta. Hefði skiptastjóri gert það strax í kjölfar þess að bú varnaraðila var úrskurðað gjaldþrota, hefði kröfulýsingarfrestur í þrotabú varnaraðila ekki verið liðinn þegar skiptastjóri var skipaður yfir búi sóknaraðila. Skiptastjóri sóknaraðila hefði þá getað lýst kröfum í bú varnaraðila í tæka tíð, og hefði sóknaraðili þar af leiðandi ekki orðið fyrir tjóni. Þá hefði sóknaraðili ekki heldur orðið fyrir tjóni ef skiptastjóri í þrotabúi varnaraðila hefði lýst kröfum sóknaraðila í þrotabú varnaraðila. Telur sóknaraðili að varnaraðila hafi mátt vera ljóst að tjón myndi að öllum líkindum hljótast af hinni saknæmu háttsemi. Tjón sóknaraðila felist í því að hann kom ekki kröfum sínum að við skipti á þrotabúi varnaraðila. Endanlegt tjón liggi þó ekki fyrir þar sem enn sé óljóst um eignir í þrotabúi varnaraðila, en samkvæmt upplýsingum sóknaraðila séu eignir í þrotabúi varnaraðila þó verulegar. Telur sóknaraðili engu að síður rétt að haga kröfugerð sinni með þeim hætti sem fram komi í varakröfunni, þ.e.a.s. að viðurkennd sé bótaskylda varnaraðila og í hverju tjónið felist, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Fjárhæð tjónsins muni hins vegar liggja fyrir þegar komi til úthlutunar úr þrotabúinu.

Sóknaraðili byggir á því að skaðabótakrafa hans eigi að njóta rétthæðar sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. gjaldþrotaskiptalaga, enda sé um að ræða tjón sem búið bakaði sóknaraðila eftir að varnaraðili var tekinn til gjaldþrotaskipta. Á grundvelli 5. tl. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga komist krafan að við skipti á búi varnaraðila þar sem henni hafi verið lýst án ástæðulausra tafa, og áður en boðað var til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Þrátt fyrir þá niðurstöðu telur sóknaraðili að engin röskun muni verða á röð kröfuhafa í bú varnaraðila eða jafnræði þeirra, heldur verði niðurstaðan að öllu leyti gagnvart öðrum kröfuhöfum eins og sóknaraðili hefði komið kröfum sínum að fyrir lok kröfulýsingarfrests.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi með ólögmætum hætti auðgast við sölu á eignum sóknaraðila á árinu 2010 og eigi hann af þeim sökum endurkröfu á hendur varnaraðila. Vísar sóknaraðili í þessu efni til framlagðra skjala frá 6. júlí og 6. desember 2010, sem feli í sér samkomulag milli varnaraðila annars vegar og Cromwell Holdings ehf. og þriggja annarra félaga hins vegar um uppgjör ágreiningsmála í tengslum við skipti á þrotabúi varnaraðila. Telur sóknaraðila að í samkomulagi þessara aðila hafi falist greiðslur til varnaraðila vegna afhendingar á eignum sem sóknaraðili átti, þ.e. öllu útgefnu hlutafé í London Property Holding plc. og öllu útgefnu hlutafé í London Investment Properties plc. Krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að hann eigi endurkröfu á varnaraðila vegna þessa. Telur hann eðlilegt að tímamark slíkrar auðgunarkröfu miðist við tímabilið eftir að varnaraðili var úrskurðaður gjaldþrota, enda muni fjármunir sem greiddir eru eftir þann tíma renna óskipt til greiðslu krafna sem lýst hafi verið í þrotabú varnaraðila. Hins vegar tekur sóknaraðili fram að hann búi ekki yfir upplýsingum um hve háar greiðslur hafi borist eða muni berast varnaraðila vegna sölu á umræddum eignum. Kröfu sinni lýsir sóknaraðili sem búskröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, og krefst þess að hún komist að við skiptin, sbr. 5. tl. 118. gr. sömu laga.

Fallist dómurinn ekki á framangreindar kröfur, krefst sóknaraðili þess til þrautaþrautavara að viðurkennd verði riftun hans gagnvart varnaraðila á afhendingu söluandvirðis eigna sóknaraðila samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi frá 1. júlí 2008, þ.e. vegna sölu á öllu útgefnu hlutafé í London Property Holding plc. og öllu útgefnu hlutafé í London Investment Properties plc. Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði að endurgreiðslukrafa sóknaraðila vegna slíkrar riftunar komist að við gjaldþrotaskipti varnaraðila á grundvelli 3. tl. 110. gr., sbr. og 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.

Sem rökstuðning fyrir kröfunni bendir sóknaraðili á að með kaupsamningi 1. júlí 2008 hafi helstu eignir sóknaraðila verið afhentar út úr félaginu. Varnaraðili hafi hins vegar fengið allar greiðslur vegna kaupanna, í formi kröfu á hendur Saxbygg Investments London ehf. (nú Aldersgate Invest ehf.), að fjárhæð 21.000.000 breskra punda. Með réttu hefði sóknaraðili a.m.k. átt að fá í sinn hlut 67% af kröfunni, enda hafi hann lagt til 67% af seldum verðmætum. Síðar hafi verið talið að verðmæti sóknaraðila hafi í raun numið a.m.k. 80% af umræddum verðmætum eða jafnvel meira. Sóknaraðili hafi þó hvorki fengið greiðslu til sín samkvæmt upphaflega samningnum, síðari samningi milli sömu aðila, né samkvæmt lánssamningi sem sóknaraðili og varnaraðili gerðu með sér 10. október 2008, að fjárhæð 3.500.000 breskra punda. Raunar telur sóknaraðili að öllum aðilum hafi verið ljóst, bæði 1. júlí 2008 og 10. október það ár, að sóknaraðili og varnaraðili væru komnir í veruleg fjárhagsvandræði.

Sóknaraðili kveðst einkum byggja riftunarheimild sína á 141. gr. laga nr. 21/1991. Telur hann að uppfyllt séu öll skilyrði ákvæðisins til þess að verða við kröfunni. Þannig liggi fyrir að langstærsta eign sóknaraðila hafi verið hin seldu hlutabréf. Aðrar eignir hafi verið markaðsverðbréf, sem veðsett voru til tryggingar skuldum varnaraðila, og kröfur á tengd félög. Fjárhagsstaða varnaraðila, sem móðurfélags sóknaraðila, hafi við sölu eignanna verið slík að engum gat dulist að félagið stefndi í þrot. Á sama tíma hafi legið fyrir að fjárhagsstaða sóknaraðila væri einnig mjög slæm, eins og fram komi í ársreikningi félagsins vegna ársins 2008. Við afhendingu eignanna hafi sóknaraðili ekki aðeins orðið ógjaldfær, heldur hafi hvers kyns krafa á hendur varnaraðila um leið orðið verðlaus. Eignir þessar séu nú ekki til reiðu fyrir kröfuhafa sóknaraðila. Þar sem sömu aðilar hafi setið í stjórn sóknaraðila og varnaraðila telur sóknaraðili að varnaraðili hafi við gerð umræddra samninga vitað um ógjaldfærni sóknaraðila og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. 

Riftunarkrafan byggist einnig á 131. gr., sbr. 194. gr. laga nr. 21/1991. Vísar sóknaraðili þá til þess að samkvæmt áðurnefndum samningi frá 1. júlí 2008 hafi varnaraðili átt að fá allt kaupverð greitt til sín, þ.e. kröfu á hendur Saxbygg Investments London ehf. (nú Aldersgate Invest ehf.), að fjárhæð 21.000.000 breskra  punda, þrátt fyrir að sóknaraðili hafi lagt til allar verðmestu eignirnar. Telur sóknaraðili að lánssamningur sóknaraðila og varnaraðila frá október 2008 hafi verið til málamynda, enda hafi þá legið ljóst fyrir að bæði varnaraðili og sóknaraðili yrðu úrskurðaðir gjaldþrota. Þá telur sóknaraðili að lánssamningurinn hafi ekki endurspeglað raunverulega hlutdeild sóknaraðila í umræddum eignum. Eftirgjöf á kröfu sóknaraðila um greiðslu kaupverðs til sín hafi því einnig falið í sér gjöf og sé  ráðstöfunin því riftanleg.

Krafa sóknaraðila um að viðurkennt verði að hann eigi endurgreiðslukröfu á sóknaraðila vegna ofangreindra viðskipta styðst við 142. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar tekur sóknaraðili fram að hann hafi ekki upplýsingar um hvaða greiðslur hafa runnið til varnaraðila vegna þessa, en slíkar upplýsingar séu þó nauðsynlegar til að meta raunverulega auðgun varnaraðila af umræddri ráðstöfun, sbr. 1. mgr. 142. gr. tilvitnaðra laga. Þá telur sóknaraðili að hann hefði ekki getað endurheimt frekari fjármuni vegna umrædds kaupsamnings frá 1. júlí 2008, heldur en þær greiðslur sem varnaraðili hefur þegar endurheimt með samningum sínum við Aldersgate Invest ehf. o.fl. Felist því tjón sóknaraðila í auðgun varnaraðila á umræddri ráðstöfun. Um rétthæð kröfunnar vísar sóknaraðili til 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til 5. tl. 118. gr. sömu laga komist krafan að við skipti á þrotabúi varnaraðila, þótt henni hafi ekki verið lýst í búið innan kröfulýsingarfrests.

Málskostnaðarkrafa sóknaraðila byggist á 129. gr. og 130. gr. l. nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa hans um að tekið verði tillit til greiðslu sóknaraðila á virðisaukaskatti vegna lögmannsþjónustu, styðst við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 118. gr. laga nr. 21/1991 til þess að kröfulýsing sóknaraðila komist að við skipti á búi varnaraðila. Hvorki rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun verði heldur beitt í því skyni. Þvert á móti beri að gagnálykta frá umræddri lagagrein og hafna kröfu sóknaraðila.

Að því er varðar varakröfu sóknaraðila mótmælir varnaraðili því að á honum hafi hvílt athafnaskyldur gagnvart kröfuhöfum sóknaraðila, sem hann hafi brotið. Því síður fellst hann á að fyrir hendi sé bótaskylda gagnvart sóknaraðila. Byggir hann á því að kröfuhafar sóknaraðila hafi hvenær sem er getað fengið félagið tekið til gjaldþrotaskipta, og ekki þurft annað en að senda skiptastjóra varnaraðila tölvupóst með beiðni um að hann tryggði kröfuhöfum Saxsteins ehf. gjaldþrotaheimild. Með því móti hafi þeir getað brugðist við þeim aðstæðum sem upp voru komnar eftir að allir stjórnarmenn sóknaraðila höfðu sagt af sér. Engin réttarheimild leiði til þeirrar niðurstöðu sem sóknaraðili byggi mál sitt á. Skyldur skiptastjóra séu gagnvart kröfuhöfum varnaraðila, en ekki óbeinn erindrekstur gagnvart kröfuhöfum félaga sem viðkomandi þrotabú kunni að eiga hlut í. Þá skorti bæði saknæmi og ólögmæti til að koma fram bótakröfu á hendur varnaraðila. Orsakasamband sé heldur ekki fyrir hendi. Staðhæfir varnaraðili að hlutafélagalög leggi engar þær skyldur á einstaka hluthafa, sem sóknaraðili haldi fram. Skyldur skiptastjóra til að ráðstafa hagsmunum þrotabús lúti að því að hámarka virði eigna þess, en ekki að hefjast handa um ígildi málshöfðunar á hendur því.

Varnaraðili tekur fram að skiptastjóri í búi varnaraðila hafi haldið hluthafafund í félagi sóknaraðila, Saxsteini ehf., sem veitt hafi honum umboð til að undirrita eignaleysisyfirlýsingu og vera í fyrirsvari vegna yfirvofandi gjaldþrotabeiðni Landsbankans hf. Án slíkrar heimildar hafi skiptastjóri ekki verið bær um að ráðstafa nokkrum hagsmunum sóknaraðila. Hins vegar kveðst varnaraðili ekki fallast á að í 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, felist að hluthafi baki sér skaðabótaskyldu gagnvart kröfuhöfum félags fyrir að vera ekki á hluthafafundi í félagi sem hann fari með hlut í. Eldri félagsstjórn hafi verið í fyrirsvari varðandi kröfur á hendur félaginu, fyrst ný stjórn hafði ekki verið skipuð. Bar að beina innheimtu að henni, en ekki þeim sem fór með hlutaféð. Varnaraðili hafnar því einnig að honum hafi borið skylda til að yfirfara stöðu dótturfyrirtækja á kröfulýsingarfresti varnaraðila, í því skyni að afla upplýsinga um hvort tilefni væri til að lýsa kröfum í bú varnaraðila. Málefni sóknaraðila hafi því verið óskoðuð þegar kröfulýsingarfresti í bú varnaraðila lauk. Telur hann að meint tjón sóknaraðila verði því ekki rakið til atvika sem varnaraðili beri ábyrgð á. Á hinn bóginn hafi það staðið kröfuhöfum sóknaraðila nær að gæta hagsmuna sinna og bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin. 

Með hliðsjón af ofanrituðu áréttar varnaraðili að hluthafar beri ekki ábyrgð á starfsemi félaga, aðeins kjörnir stjórnarmenn. Enginn hluthafafundur hafi verið haldinn hjá sóknaraðila frá því að bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 15. maí 2009 og þar til kröfulýsingarfresti lauk, 29. júlí sama ár. Skiptastjóra í þrotabúi varnaraðila hafi þá ekki verið kunnugt um þessa skuld, enda verði sú krafa ekki gerð að fyrsta verk hans sé að kanna bókhald dótturfyrirtækja, með tilliti til þess hvort þau eigi að lýsa kröfum í móðurfélag sem tekið hafi verið til skipta. Byggir varnaraðili á því að varakrafa sóknaraðila sé ekki dómhæf. Jafnframt er því mótmælt að sóknaraðili geti stutt kröfu sína við 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Því er einnig mótmælt að krafa þessi geti komist að við skiptin eftir að kröfulýsingafrestur er liðinn. Á því er byggt að kröfunni hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa, þótt henni hafi verið lýst áður en frumvarp til úthlutunar hefur verið gert. 

Varnaraðili hafnar málsástæðum sóknaraðila að baki þrautavarakröfu hans. Mótmælir hann því að sóknaraðili eigi auðgunarkröfu á hendur varnaraðila og að réttarheimild standi til slíkrar kröfugerðar. Því síður telur hann að krafan komist að eftir að kröfulýsingarfresti lýkur og/eða að krafan geti fengið stöðu búskröfu. Þá telur hann að krafan sé ekki dómhæf eins og hún er sett fram.

Af hálfu varnaraðila er ekki fallist á að fyrir hendi séu skilyrði til riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, eins og þrautaþrautavarakrafa sóknaraðila hljóði um. Heldur varnaraðili því fram að upphaflegur samningur frá 1. júlí 2008 hafi verið sóknaraðila hagfelldur. Varnaraðili hafi á sama tíma verið álitinn gjaldfær, og miklu meira en það. Hafi hann ábyrgst gagnvart dótturfélagi sínu að það fengi sinn hluta greiddan, á sama tíma og varnaraðili hafi aðeins getað fengið greitt í samræmi við árangur umræddra verkefna í London. Ástæðan væri sú að hlutafé kaupanda hafi verið 500.000 krónur. Telur varnaraðili að í raun hafi hann verið að afhenda kaupandanum öll réttindi til eignanna og möguleika á hagnaði, á sama tíma og varnaraðili tæki á sig tapið ef illa færi. Af sömu ástæðu komi riftun á grundvelli 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga ekki til greina, enda hafi ekki um neinn gjafagerning verið að ræða. Þá telur hann að allir tímafrestir samkvæmt því ákvæði séu liðnir.

Varnaraðili kveðst heldur ekki fallast á að þrautaþrautavarakrafa sóknaraðila geti notið stöðu búskröfu, og byggir á því að kröfuna hefði þurft að gera áður en kröfulýsingarfrestur var á enda. Hins vegar telur hann ástæðu til að benda á að hefði kröfunni verið lýst tímanlega kynni sóknaraðili að fá hærri fjárhæð greidda úr búinu en næmi hans hlut í verðmæti krafnanna í London. Í því samhengi tekur hann fram að aðeins 100.000 bresk pund hafi verið greidd þrotabúi varnaraðila vegna allra verkefna sem seld voru 1. júlí 2008, án þess að fjárhæðin hafi verið sundurgreind á einstök verkefni. Því telur hann að löggerningurinn sem slíkur hafi ekki valdið sóknaraðila neinu tjóni.

V

Eins og fram er komið var sóknaraðili dótturfélag varnaraðila, Icarusar ehf. (áður Saxbygg ehf.), og að öllu leyti í eigu þess félags. Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 15. maí 2009 og lauk fresti til kröfulýsinga í búið 26. júlí það ár. Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 10. desember sama ár. Með kröfulýsingum 1. og 2. febrúar 2010 lýsti sóknaraðili tveimur kröfum í þrotabú varnaraðila, en báðum var þeim hafnað á þeirri forsendu að kröfulýsingarfrestur væri liðinn.

Sú meginregla kemur fram í upphafi 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að krafa fellur niður gagnvart þrotabúi sé henni ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur, nema við eigi undantekningar sem þar eru taldar upp í sex töluliðum. Samkvæmt 2. tl. fellur krafa þannig ekki niður sé kröfuhafinn búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Samkvæmt 5. tl. fellur krafa heldur ekki niður ef um kröfu samkvæmt 1.-3. tl. 110. gr. er að ræða, eða hún hefur annars fyrst orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og henni er lýst án ástæðulausra tafa, og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Aðalkrafa sóknaraðila, þess efnis að kröfur hans komist að við skipti á búi varnaraðila, er rökstudd með vísan til 2. tl. 118. gr. tilvitnaðra laga, en varakrafan, þrautavarakrafan og þrautaþrautavarakrafan með vísan til 5. tl. sömu greinar.

Undantekningar frá meginreglu 118. gr. áðurnefndra laga ber að skýra þröngt, enda fela þær í sér frávik frá þeirri reglu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 117. gr. sömu laga um að sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi verði að lýsa henni fyrir skiptastjóra. Orðalag 2. tl. greinarinnar er skýrt og verður ekki túlkað á þann hátt sem sóknaraðili heldur fram, hvorki með rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun. Ekki stoðar sóknaraðila heldur að vísa til orðalags 111. gr. eldri laga um gjaldþrotaskipti, enda féllu þau lög niður við gildistöku laga nr. 21/1991. Samkvæmt því verður aðalkröfu sóknaraðila hafnað.

Varakrafa sóknaraðila um að viðurkennd verði bótaskylda varnaraðila byggist á því að varnaraðili hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að láta hjá líða að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta strax í kjölfar gjaldþrots varnaraðila. Um bótagrundvöllinn vísar hann til 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. lög nr. 95/2010, og 2. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, en einnig til almennu sakarreglunnar.

Í gjaldþrotaskiptalögum nr. 21/1991 er að finna ýmis fyrirmæli um fyrstu aðgerðir skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, heimildir hans, skyldur og ábyrgð. Ljóst er af þeim að frumskylda skiptastjóra er að tryggja hagsmuni þrotabúsins sem hann er skipaður til, í því skyni að sem mest af andvirði eigna búsins komi til úthlutunar til kröfuhafa. Hvergi verður þar séð að skiptastjóri beri ríkari skyldur eða ábyrgð gagnvart kröfuhafa sem svo háttar til um að er dótturfélag þess félags sem til skipta er. Sóknaraðili í máli þessu var sjálfstætt félag, rétt eins og varnaraðili, með eigin stjórn og framkvæmdastjóra, og var félagsstjórn sóknaraðila skylt að afhenda búið til gjaldþrotaskipta, ef svo var ástatt fyrir félaginu sem segir í 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. sömu greinar og 80. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þótt félagsstjórn og framkvæmdastjóri sóknaraðila hafi sagt upp störfum sínum fyrir félagið degi áður en bú móðurfélagsins, þ.e. bú varnaraðila, var tekið til gjaldþrotaskipta, fær dómurinn ekki séð að sú aðstaða hafi átt að leiða til þess að skiptastjóra í þrotabúi varnaraðila bæri að afhenda bú sóknaraðila tafarlaust til gjaldþrotaskipta að viðlagðri bótaábyrgð samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 eða 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Fyrrnefnda ákvæðið tók reyndar ekki gildi fyrr en 28. júní 2010, með lögum nr. 95/2010, en bú sóknaraðila hafði þá þegar verið tekið til gjaldþrotaskipta. Því síður verður séð að skiptastjóranum hafi verið skylt að lýsa kröfum sóknaraðila í bú varnaraðila. Breytir engu í þessu efni þótt sóknaraðili hafi að öllu leyti verið í eigu varnaraðila, enda var sóknaraðili sjálfstætt einkahlutafélag eins og áður segir. Hins vegar þykir ástæða til að benda á að þótt sóknaraðili hafi verið án stjórnar skoðast fyrri stjórnarmenn félagsins formlega í fyrirsvari fyrir það uns ný stjórn er skipuð, sbr.  3. mgr. 40. gr. laga nr. 138/1994. Að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 gátu lánardrottnar sóknaraðila því krafist gjaldþrotaskipta á búi félagsins.

Samkvæmt ofanrituðu er það álit dómsins að sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á að skiptastjóri varnaraðila hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brugðist skyldum sínum þannig að bótaábyrgð varði. Þess utan nýtur engra upplýsinga við um meint tjón sóknaraðila af háttsemi varnaraðila. Ber því einnig að hafna varakröfu sóknaraðila.

Þrautavarakrafa sóknaraðila felur í sér að viðurkennt verði að allar greiðslur, sem varnaraðila muni berast, eða hafi borist honum vegna afhendingar á eignum sóknaraðila samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi frá 1. júlí 2008, hafi varnaraðili fengið á grundvelli óréttmætrar auðgunar á kostnað sóknaraðila.

Krafa þessi er einkar óljós, þótt ekki sé nema vegna þess að afhending umræddra eigna var með fullu samþykki sóknaraðila og fékk sóknaraðili síðar greiðslu fyrir þær í formi kröfu á hendur varnaraðila. Að auki felur krafan í sér sjálfstæða málsástæðu henni til stuðnings. Augljóst er hins vegar að verði krafan tekin til greina leiðir hún ekki til málaloka um sakarefnið þar sem hún skírskotar til atvika sem liggja ekki fyrir og óljóst er að muni gerast. Þá liggur ekkert fyrir um hvort eða að hve miklu leyti meint auðgun varnaraðila hafi verið á kostnað sóknaraðila. Þegar af þessum ástæðum þykir ekki annað fært en að hafna kröfunni með öllu.

Í þrautaþrautavarakröfu sinni krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði riftun hans á afhendingu söluandvirðis þeirra eigna sem taldar voru upp sem eign sóknaraðila í kaupsamningi 1. júlí 2008, ásamt því að viðurkennd verði endurgreiðslukrafa hans vegna þessa. Í kröfunni er tekið fram að söluandvirði eignanna hafi runnið óskipt til varnaraðila.

Af umfjöllun sóknaraðila um kröfu þessa er með öllu ómögulegt að henda reiður á hvort krafan og málsástæður að baki henni lúti að riftun á áðurnefndum kaupsamningi frá 1. júlí 2008, greiðslu kaupverðsins til varnaraðila í formi kröfu á hendur kaupandanum, lánssamningi sóknaraðila og varnaraðila frá 10. október 2008 eða meintri eftirgjöf varnaraðila á kröfu sóknaraðila um greiðslu kaupverðs samkvæmt fyrirliggjandi samningum. Því síður verður að telja að sóknaraðili hafi fært fyrir því rök að fyrir hendi séu skilyrði til að rifta þeim ráðstöfunum á grundvelli 141. eða 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Verður kröfunni því hafnað.

Samkvæmt ofanrituðu er niðurstaða dómsins sú að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 650.000 krónur.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, þrotabús Saxsteins ehf., sem lýst var í þrotabú varnaraðila, Icarusar ehf., 1. og 2. febrúar 2010, alls að fjárhæð 718.165.348 krónur, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 650.000 krónur í málskostnað.