Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-78

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

    Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
    Með beiðni 23. janúar 2019 leitar X eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. desember 2018 í málinu nr. 43/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dómurinn mun hafa verið birtur fyrir leyfisbeiðanda 8. janúar 2019. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
    Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í tvö skipti káfað á kynfærum dóttur sinnar utan klæða, en í héraði hafði leyfisbeiðandi verið sakfelldur fyrir þrjú slík tilvik. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í níu mánuði, en fullnustu sex mánaða hennar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi almenna þýðingu, auk þess sem meðferð þess hafi verið verulega ábótavant. Í þeim efnum vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að verknaðarlýsing í ákæru hafi verið óskýr og ónákvæm, auk þess sem sakfelling hans í Landsrétti og fyrir héraðsdómi hafi verið í ósamræmi við ákæru. Þá hafi tafir á málinu verið óforsvaranlegar sem leiða hefði átt til skilorðsbindingar dómsins að öllu leyti. 
    Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Ekki eru efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Þá byggir niðurstaða Landsréttar um sakfellingu jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.