Hæstiréttur íslands
Mál nr. 660/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kæruheimild
- Útivist í héraði
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 20. nóvember 2012. |
|
Nr. 660/2012.
|
Ideal fasteignir ehf. (Bjarni G. Björgvinsson hrl.) gegn Sýslumanninum á Seyðisfirði (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kæruheimild. Útivist í héraði. Frávísun máls frá Hæstarétti.
I ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. I ehf. sótti ekki þing í héraði þegar krafa um gjaldþrotaskipti var þar til meðferðar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að allt frá dómi Hæstaréttar 9. desember 1992 í máli nr. 427/1992, hafi ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra bæri kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig yrði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefði orðið af hálfu skuldara í héraði, heldur yrði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 2. október 2012, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu sóknaraðila er ekki vísað til kæruheimildar. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Ekki var sótt þing af hálfu sóknaraðila er málið var tekið fyrir á dómþingi 2. október 2012 og var málið tekið til úrskurðar þá þegar og hann kveðinn upp sama dag. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 17. ágúst 2012 í máli nr. 475/2012 hefur allt frá dómi réttarins 9. desember 1992 í máli nr. 427/1992, sem birtur er á blaðsíðu 2028 í dómasafni réttarins það ár, ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig verði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Af þeim sökum brestur heimild til kæru máls þessa og verður því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 2. október 2012.
Með bréfi, sem barst dóminum 31. júlí 2012, hefur sýslumaðurinn á Seyðisfirði, kt. 490169-5479, Bjólfsgötu 7, Seyðisfirði, krafist þess að bú Ideal fasteigna, kt. 691008-0880, til lögheimilis að Hleinagarði á Fljótsdalshéraði, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Í kröfu skiptabeiðanda kemur fram að ofangreindur skuldari skuldi opinber gjöld, sem að höfuðstól nemi 6.581.815 krónum, en með vöxtum og kostnaði nemi krafan 7.911.877 krónum, auk 15.000 króna gjalds í ríkissjóð vegna gjaldþrotaskiptabeiðni. Hinn 3. júlí 2012 hafi verið gert fjárnám hjá skuldaranum sem lokið hafi án árangurs. Krafan um gjaldþrotaskipti sé reist á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, en ekkert gefi til kynna að skuldari sé fær um að standa í skilum við skiptabeiðanda nú þegar eða innan skamms tíma.
Við þingfestingu málsins í dag var þing ekki sótt af hálfu skuldara þrátt fyrir lögmæta boðun. Verður því að líta svo á að skuldari viðurkenni fullyrðingar skiptabeiðanda um að skuldari standi í skuld við skiptabeiðanda og um ógjaldfærni hans. Var ógjaldfærni hans staðfest með árangurslausu fjárnámi eins og að framan greinir. Með því að fullnægt er skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga verður orðið við kröfu skiptabeiðanda og bú skuldara tekið til gjaldþrotaskipta.
Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Bú Ideal fasteigna ehf., kt. 691008-0880, er tekið til gjaldþrotaskipta.