Hæstiréttur íslands
Mál nr. 65/2010
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fasteign
- Sakarskipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 19. maí 2011. |
|
Nr. 65/2010. |
Svanhvít Albertsdóttir (Sigmundur
Hannesson hrl.) gegn GSB veitingum ehf. (Kristín
Edwald hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Fasteign.
Líkamstjón. Sakarskipting. Gjafsókn.
S krafðist þess að viðurkennt yrði
að G bæri fulla skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir á
skemmtistað G. Fallist var á með héraðsdómi að G bæri skaðabótaábyrgð á slysi S
sökum þess að umbúnaður palls sem S féll af hefði ekki verið forsvaranlegur. Þá
var fallist á ályktun héraðsdóms um að orsakir slyssins yrðu einnig raktar til
ölvunar S, sem vissi af grindverki því sem var við brún pallsins þar sem hún
féll, þannig að hún ætti sjálf nokkra sök á slysinu. Þá var við sakarmat litið
til þess að pallurinn hefði upphaflega verið reistur fyrir flytjendur tónlistar
á veitingastaðnum og grindverkið sett upp í þeim tilgangi að halda gestum
staðarins frá tónlistarflytjendum. Á þeim tíma er slysið varð hafði pallurinn á
hinn bóginn öðlast nýtt hlutverk og hann ætlaður gestum veitingastaðarins.
Þegar litið var til þess og þeirrar starfsemi sem rekin var í húsinu var talið
að umbúnaður þessi hefði verið meginorsök slyssins þannig að G skyldi bera
ábyrgð á tjóni S að 2/3 hlutum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar
Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2010. Hún krefst þess
að viðurkennt verði að gagnáfrýjandi beri fulla skaðabótaskyldu vegna
líkamstjóns sem hún varð fyrir 7. janúar 2008 á skemmtistað gagnáfrýjanda. Þá
krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til
gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 20. apríl 2010. Hann
krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda auk málskostnaðar í héraði og
fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að verða aðeins talinn
skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns aðaláfrýjanda og að málskostnaður verði
felldur niður.
Fallist er á með héraðsdómi að gagnáfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á slysi
aðaláfrýjanda sökum þess að umbúnaður palls sem aðaláfrýjandi féll af var ekki
forsvaranlegur. Þá er fallist á ályktun héraðsdóms um að orsakir slyssins verði
einnig raktar til ölvunar aðaláfrýjanda, sem vissi af grindverki því sem var
við brún pallsins þar sem hún féll þannig að hún eigi sjálf nokkra sök á
slysinu.
Auk þeirra atriða sem rakin eru í héraðsdómi og varða umbúnað pallsins
verður litið til þess við sakarmat að hann var upphaflega reistur fyrir
flytjendur tónlistar á veitingastaðnum og grindverkið sett upp í þeim tilgangi
að halda gestum staðarins frá tónlistarflytjendum. Á þeim tíma er slysið varð
hafði pallurinn á hinn bóginn öðlast nýtt hlutverk og hann ætlaður gestum
veitingastaðarins. Á honum hafði verið komið fyrir stórum hornsófa og borði,
jafnframt því sem fjarlægð hafði verið keðja sem legið hafði ofar þverslár grindverksins
milli stöpla þess í um 50-65 cm hæð frá yfirborði
pallsins sem var 20 cm hærra en gólfið fyrir framan.
Stóð þá eftir af fyrri umbúnaði grindverk við brún pallsins með þverslá í
einungis um 40 cm hæð frá gólfi pallsins. Ekki eru í
gögnum málsins upplýsingar um flatarmál pallsins, en samkvæmt framlögðum myndum
verður ekki ráðið að mikið pláss hafi verið fyrir gesti að ganga um hann. Þegar
litið er til framanritaðs og þeirrar starfsemi sem rekin er í húsinu verður að
telja umbúnað þennan hafa verið meginorsök slyssins þannig að gagnáfrýjandi
skuli bera ábyrgð á tjóni aðaláfrýjanda að 2/3 hlutum.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og
fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Ákvæði héraðsdóms um
gjafsóknarkostnað verður staðfest. Um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda fyrir
Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að gagnáfrýjandi, GSB veitingar ehf., skuli bæta 2/3 hluta
þess tjóns er aðaláfrýjandi, Svanhvít Albertsdóttir, varð fyrir er hún
slasaðist á veitingastað gagnáfrýjanda Kaffi Akureyri 7. janúar 2008.
Gagnáfrýjandi greiði 622.500 krónur í málskostnað í héraði sem renni í
ríkissjóð.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Gagnáfrýjandi greiði 747.304 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem
renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði,
þar með talin lögmannsþóknun, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands
eystra 6. nóvember 2009.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð
hinn 11. september, er höfðað með stefnu, birtri 21. febrúar 2009, af Svanhvíti
Albertsdóttur, kt. 221159-5879, Norðurgötu 16,
Akureyri, á hendur GSB veitingum ehf., kt.
621003-2750, Strandgötu 49, Akureyri. Fyrir hönd hins stefnda einkahlutafélags
er stefnt Sveini Rafnssyni, kt. 150761-3449,
Reykjasíðu 1, Akureyri.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda
stefnda á líkamstjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir hinn 6. janúar 2008 vegna
ófullnægjandi aðbúnaðar á palli á skemmtistað stefnda. Þá krefst stefnandi
málskostnaðar, eins og hún nyti ekki gjafsóknar, samkvæmt málskostnaðarreikningi
og að litið verði til þess að hún sé ekki virðisaukaskattskyld.
Stefnda krefst fyrst og fremst sýknu af kröfu stefnanda
og málskostnaðar úr hennar hendi samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara
krefst stefnda þess að verða aðeins dæmt skaðabótaskylt að hluta og að
málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir.
Samkvæmt lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu var
lögreglu tilkynnt, kl. 00:46, hinn 7. janúar 2008, að kona væri slösuð á
veitingahúsinu Kaffi Akureyri og væri sjúkrabifreið á leið þangað. Þegar
lögreglu hafi borið að garði hafi sjúkraflutningamenn verið teknir að hlynna að
Svanhvíti Albertsdóttur, stefnanda, sem legið hefði á gólfinu, fyrir framan
neyðarútgang á suðurhlið hússins, nær alveg inni í enda. Við höfuð stefnanda hafi
verið allstór blóðpollur. Segir í skýrslunni að „innan við neyðarútganginn, í
suðvesturhorni staðarins [sé] upphækkaður pallur í ca
30 cm hæð, sem [sé] girtur af með járnslám, sem [séu]
í um 30 cm hæð frá gólfi pallsins, gert [sé] ráð
fyrir efri slá, en hana [vanti].“ Þá segir í skýrslunni: „Svanhvít hafði dottið
um járnslána og fram af pallinum og lent beint á andlitinu og hlaut hún við það
mikla áverka á andliti.“
Í skýrslunni segir enn fremur: „Starfsstúlka Kaffi
Akureyri kvaðst hafa séð er Svanhvít féll og hafi fallið verið mjög þungt.
Aðspurð hvers vegna efri slána vanti á afgirta svæðið kvaðst hún ekki muna
eftir því að nein efri slá hefði nokkurn tíma verið þarna eftir að hún hóf
störf á Kaffi Akureyri. Hún var beðin um að skila því til Birgis Torfasonar,
eiganda staðarins, að ráða þyrfti bót á þessu því að um augljósa slysahættu
væri að ræða.“
Þá segir í skýrslunni að kl. 02:10 hafi verið hringt til
lögreglu frá slysadeild og beðið um að stefnandi yrði sókt.
Er lögregla hafi komið á deildina hafi þar verið „hjúkrunarfræðingur að reyna
að telja Svanhvíti hughvarf varðandi það að fara heim og kvaðst vilja að hún
mundi eyða nóttinn[i] á Slysadeild svo hægt væri að
fylgjast með líðan hennar þar sem mjög líklega væri hún brotin í andliti en
erfitt væri að greina það með fullvissu vegna ölvunarástands hennar.“ Í
skýrslunni segir að lögregla hafi skilið við stefnanda á heimili hennar og þá
verið tekið að blæða úr nefi hennar. Hafi lögregla reynt „að sannfæra hana um
að betra væri að hún væri undir eftirliti í nótt, annað hvort á Slysadeildinni
eða á lögreglustöðinni en hún þvertók fyrir það og kvaðst bara vilja fara
heim.“
Í málinu liggur fyrir vottorð Vals Þórs Marteinssonar
yfirlæknis, dagsett 29. desember 2008. Segir þar að stefnandi hafi leitað á
slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hinn 7. janúar 2008 kl. 01:34
eftir að hafa dottið af palli á Kaffi Akureyri. Hafi fallið, samkvæmt frásögn
vitna og sjúkraflutningamanna, verið um metri og stefnandi fallið beint á
andlit. Er haft eftir stefnanda að hún muni ekki eftir atburðum fyrir fallið,
en kvarti yfir höfuðverk og verk hægra megin í andliti, en ekki yfir truflunum
á sjón eða heyrn. Er haft eftir henni að hún hafi „verið að drekka undanfarna
2-3 daga“ en þar áður verið allsgáð í fimm mánuði. Segir í vottorðinu að við
komu á slysadeild hafi stefnandi verið „undir áhrifum og talsverð áfengislykt
frá vitum, lífsmörk innan eðlilegra marka og taugakerfisskoðun eðlileg, var
áttuð á tíma, stað og stund. Hún man þó ekki hvað hafði gerst um kvöldið. Það var
storknað blóð í hægri nös, byrjandi glóðarauga á hægra auga en sjáöldur
eðlileg, bólgin yfir hægra kinnbeini og kjálka og verkur í kjálkalið hægra
megin við að opna munninn eða gapa. Skurður hægra megin á efri vör og smá flipi
þar en tennur að sjá óskaddaðar. Ekki blóð í eyrnagangi. Gert var að sárum
samkvæmt venju og spor sett í vörina, ráðlagt að láta fjarlægja það eftir
u.þ.b. viku. Gegn betri vilja, þá útskrifar hún sig sjálf og skrifar undir
vottorð um það að hún hafi útskrifast gegn læknisráði. Hringt er á lögreglu og
fylgdu þeir henni heim.“
Í málinu liggur fyrir vottorð Sigurðar Júlíussonar,
sérfræðings á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans í Fossvogi, dagsett 21.
janúar 2009. Segir þar að stefnandi hafi verið send á sjúkrahúsið frá
Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hafi tölvusneiðmynd sýnt „innkýlt brot í
framvegg kinnbeinsholu og í botni hægri augntóftar.“ Einnig hafi verið „sprunga
í kinnbeinsboga án mikillar hliðrunar.“ Segir í vottorðinu að stefnandi hafi
verið „greind með brot í hægra kinnbeini. Brotlínan náði upp og inn í gólf
augntóftar. Hún fór í aðgerð hér þar sem tilfærslan var lagfærð og beinbrot
fest saman með títan plötu.“
Málsatvikalýsing,
málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi segist í stefnu sinni, hafa fallið um þá slá,
er hafi verið meðfram hliðum áðurgetins palls, í veitingahúsi stefnda. Hún
segir kröfu sína byggða á hinni almennu óskráðu sakarreglu skaðabótaréttarins,
en stefnda hafi, sem rekstraraðili Kaffis Akureyrar, sýnt af sér stórkostlegt
gáleysi með því að aðbúnaði staðarins hafi verið verulega ábótavant. Staðurinn
sé vínveitingahús og þar megi búast við gestum undir áhrifum áfengis, sem ekki
fari eins varlega og þeir myndu ella gera. Strangar kröfur séu gerðar til
aðbúnaðar vínveitingastaða og hafi stefndi ekki uppfyllt þær skyldur sínar.
Stefnandi segir járnslá í 40 cm
hæð, á litlum palli á vínveitingastað, bjóða upp á að gestir hnjóti um hana. Þá
sé mjög þröngur gangvegur upp á pallinn. Í skýrslu lögregluþjóns vegna slyssins
komi fram að um augljósa slysagildru sé að ræða, en eigendur vínveitingastaða
verði að haga aðbúnaði á staðnum þannig að gestum stafi ekki hætta af. Þá
skyldu hafi stefnda vanrækt og verði að bæta stefnanda það tjón sem orðið hafi
af vanrækslunni.
Stefnandi kveðst vísa til hinar óskráðu sakarreglu
skaðabótaréttar auk almennra reglna hans og skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi kveðst vísa til laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og
skemmtanahald og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á
vinnustöðum og reglugerða sem settar hafi verið á grundvelli þeirra laga.
Málskostnaðarkröfu segir stefnandi byggða á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála og kveðst vísa, vegna varnarþings, til 33. gr. sömu laga.
Heimild sína til að höfða viðurkenningarmál kveðst stefnandi sækja til 2. mgr.
25. gr. einkamálalaganna.
Málsatvikalýsing,
málsástæður og lagarök stefnda.
Stefnda segir stefnanda hafa fallið á umræddum palli, en
kveðst mótmæla því að stefnandi hafi fallið um grindverkið sem sé umhverfis
hann. Ekkert í gögnum málsins bendi með óyggjandi hætti til þess að stefnandi
hafi fallið um grindverkið frekar en einfaldlega á það eða yfir, og þá vegna
jafnvægisleysis sökum ölvunar sinnar.
Stefnda segir pallinn vera um 20 cm
háan og hafa verið ætlaðan til tónlistarflutnings. Grindverk hafi verið sett
upp, í um 40 cm hæð frá pallinum, til þess að forðast
átroðning frá gestum svo tónlistarmenn gætu spilað óáreittir. Grindverkinu hafi
ekki verið ætlað að verja þá falli sem á pallinum væru. Upphaflega hafi
pallurinn verið útbúinn með keðjum milli stólpa og hafi þær legið frá 65 cm hæð niður í um hálfs metra hæð frá palli, en stöplarnir
nái mest 68 cm hæð frá palli. Keðjurnar hafi verið
fjarlægðar þar sem gestir hafi tekið að losa þær og sveifla í kring um sig.
Stefnda segir engin óhöpp hafa orðið kringum pallinn áður
en stefnandi hafi fallið og eftirlitsaðilar, svo sem heilbrigðisnefnd og
byggingarfulltrúi, hafi engar athugasemdir gert við pallinn og ástand hans.
Stefnda segist byggja sýknukröfu sína á því, að ósannað
sé að tjón stefnanda verði rakið til atvika sem stefnda beri skaðabótaábyrgð á.
Ósannað sé að aðbúnaði veitingastaðarins hafi verið ábótavant og einnig að
meint tjón stefnanda verði rakið til þess. Sé tjónið alfarið að rekja til
gáleysis stefnanda, ef til vill þó í bland við óhappatilviljun.
Stefnda kveðst mótmæla því að sérstakar og strangari
kröfur gildi um aðbúnað vínveitingastaða en almennra veitingastaða eða annarra
fasteigna. Jafnframt kveðst stefnda mótmæla því að rekja megi tjón stefnanda til
gáleysis stefnda, enda hafi aðbúnaður verið að fullu í samræmi við lög og
venju.
Stefnda kveðst hafa rekið veitingastaðinn Kaffi Akureyri
undanfarin ár. Umræddan dag hafi stefnda verið með gilt vínveitingaleyfi skv.
lögum nr. 67/1985, sbr. reglugerð nr. 288/1987, til reksturs veitingahúss,
skemmtistaðar, dansstaðar og kaffihúss við Strandgötu 7, og hafi leyfið gilt
til sjö ára frá 13. september 2006. Nýtt leyfi hafi verið gefið út frá og með
30. apríl 2008 og hafi engar athugasemdir verið gerðar þá. Pallurinn hafi verið
á staðnum allt frá því fyrra leyfi hafi verið veitt og verið eins útbúinn þegar
lögbundnir umsagnaraðilar hafi skoðað staðinn vegna veitingar leyfisins í apríl
2008.
Stefnda kveðst einlægt hafa uppfyllt reglur opinberra
eftirlitsaðila sem gert sé að fylgjast með því að búnaður sé með lögbundnum og
viðurkenndum hætti. Kveðst stefnda alfarið mótmæla því að um slysagildru hafi
verið að ræða eða að aðbúnaði hafi verið ábótavant. Umrætt óhapp hafi verið
einstakt og stefnda hafi aldrei haft ástæðu til að ætla aðbúnað á staðnum
óviðunandi. Stefnandi hafi hvorki bent á hvaða ströngu kröfur gildi um aðbúnað
vínveitingastaða né hvaða reglur eða venjur stefnda eigi að hafa brotið. Ekkert
bendi til þess að stefnda hafi sýnt af sér gáleysi með því að haga frágangi
pallsins eins og gert var.
Stefnda segir að ráða megi af gögnum málsins að stefnda
hafi verið mjög drukkin og verið við drykkju í tvo til þrjá daga samkvæmt
læknisvottorði. Í vottorðinu komi enn fremur fram að stefnandi hafi farið af
sjúkrahúsinu um nóttina, gegn ráðleggingum starfsfólks þar. Af lögregluskýrslum
megi sjá að ölvun stefnanda hafi verið slík að lögregla og sjúkrahússtarfsmenn
hafi talið nauðsynlegt að fylgjast með stefnanda heima fyrir fram undir morgun.
Stefnda kveðst telja að ölvunarástand stefnanda hafi
verið slíkt að stefnda geti ekki með neinu móti borið ábyrgð á athöfnum hennar
eða gert slíkar ráðstafanir að gestir í því ástandi geti ekki slasað sig, enda
hafi tilviljun ráðið því að hún hafi fallið á pallinum en ekki annars staðar í
veitingasalnum.
Stefnda segir stefnanda hafa vegna ölvunar ekki borið
hendur fyrir sig í fallinu og því ekki komið í veg fyrir eða að minnsta kosti
takmarkað meiðsli sín verulega. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að fall sitt
hafi ekki verið vegna eigin ölvunar eða óhappatilviljunar og beri því að sýkna
stefnda.
Varakröfu sína um skiptingu sakar segist stefnda byggja á
því að eigin sök stefnanda, sem stefnda kveðst rökstyðja með sömu sjónarmiðum
og aðalkröfu sína, eigi að leiða til þess að stefnandi verði að bera tjón sitt
að stærstum hluta.
Verður nú rakið það sem fram kom við skýrslugjöf og
vitnisburð fyrir dómi, eftir því sem ástæða þykir til.
Stefnandi kvaðst hafa farið umrætt kvöld á Kaffi Akureyri
en þangað hefði hún aldrei áður komið. Hún hefði farið á barinn og fengið sér campari og setzt í leðursóffa sem verið hefði á palli. Hún hefði farið um hlið
til að komast á pallinn. Þangað hefðu komið þrír menn sem hún ekki þekkti og
eftir nokkura stund hefði hún fengið nóg af þeim
félagsskap og ákveðið að yfirgefa staðinn. Hefði hún þá gengið beint á
grindverk, sem hún hefði ekki séð, og steypzt fram
af. Er hún hefði fallið hefði hún haldið á myndavél og tösku. Grindverkið hefði
valdið fallinu, en stefnandi hefði ekki verið í ójafnvægi áður. Grindverkið sem
hún hefði gengið á, hefði verið hægra megin við útganginn af pallinum.
Vitnið kvaðst fyrst hafa setzt
í miðjan sóffann en svo fært sig til er mennirnir
hefðu komið, og þá setið nær neyðarútgangi. Á pallinum hefði verið stórt borð
og hefði hún þurft að smokra sér fram hjá því, svo þröngt hefði þar verið. Hún
hefði tekið eftir grindverkinu þegar hún hefði verið setzt
í sóffann. Einu sinni hefði barþjónn komið til þeirra
á pallinn.
Stefnandi kvaðst hafa komið ódrukkin á staðinn og ekki
hafa orðið ölvuð þar. Hefði hún keypt sér tvö campari-glös
en kvaðst telja að hún hefði ekki fulldrukkið úr hinu síðara. Þá hefði hún ekki
verið undir áhrifum annarra vímuefna. Hún kvaðst hins vegar hvorki muna eftir
sér á sjúkrahúsi um kvöldið og ekki eftir skýrslugjöf hjá lögreglu, en hún
hefði vankazt og líklega rotazt
við fallið. Hún kvaðst þó muna að hafa á sjúkrahúsinu gert athugasemdir við
hvernig saumað væri í vör hennar og að hún hefði ekki viljað vera á
sjúkrahúsinu, vegna slæmrar reynslu sinnar af slíkum stöðum, en lögregluþjónninn
María hefði boðizt til að fylgja sér heim og fylgjast
með sér þar.
Stefnandi kvaðst vísa því á bug sem segði í vottorði Vals
Marteinssonar læknis, að hún hefði sagzt hafa drukkið
tvo til þrjá daga fyrir atvikið. Hefði hún ekki drukkið mánuðum saman fyrir
atvikið og kvaðst hún ekki kannast við að hafa talað við umræddan lækni. Hefði
hún hins vegar verið ósátt við sjálfa sig fyrir að hafa fengið sér í glas á
staðnum um kvöldið, en áður hefði hún verið allsgáð í fimm mánuði.
Stefnandi kvað bein hafa kurlazt
og taugar farið í sundur, nef hefði skekkzt og væri
þar enn kuldatilfinning. Liðbönd hefðu farið í sundur og þá kenndi hún enn til
í hönd eftir þetta.
Stefnandi kvað dimmt hafa verið á staðnum þegar atvikið
hefði orðið. Sjón sín væri ekki óeðlileg. Ætti hún ekki vanda til slíkra óhappa
sem í þetta sinn.
Birgir Torfason veitingamaður gaf skýrslu fyrir dómi sem
fyrirsvarsmaður stefnda. Kvaðst hann ekki vita nákvæmlega hversu hár pallurinn
væri en grindverk væri í kring um hann með góðu og aðgengilegu hliði til
umferðar, á að gizka 60 til 70 cm
breitt. Á pallinum væri hornsóffi og borð og aðstæður
mjög góðar, enda hefði aldrei áður orðið þar slys. Þá hefði staðurinn fullt
leyfi, sem síðast hefði verið endurnýjað sumarið áður, og aldrei verið sett út
á pallinn. Ekki hefðu gestir heldur kvartað.
Birgir sagði fyrri eigendur staðarins hafa notað pallinn
undir hljómsveitir er leikið hefðu á staðnum og hefði þá efri slá verið á
grindverkinu. Því hefði hins vegar verið breytt áður en núverandi eigendur hefðu
tekið við staðnum, og þá farið í það horf er verið hefði er stefnandi hefði slasazt. Kvaðst Birgir ekki telja háskalegt að hafa grind í
40 cm hæð inni á skemmtistað eins og þarna hefði
verið, en grindin hefði ekki verið á dansgólfi heldur á svæði þar sem gert væri
ráð fyrir fáum gestum, sex til sjö í sætum. Fyrr á þessu ári hefði pallurinn
verið teppalagður og við það tækifæri hefði grindverkið verið fjarlægt „til að
koma í veg fyrir svona slys“.
María Jespersen lögregluþjónn
kvað lögreglu hafa verið kallaða á vettvang og er hún hefði komið hefði
stefnandi legið á gólfinu, blóðug í framan og vönkuð. Stefnandi hefði fallið af
palli í einu horni staðarins. Pallurinn hefði verið afgirtur með grindverki og
efri slá grindverksins hefði vantað. Áður hefði kaðall verið í stað efri slár
en nú enginn slíkur verið. Stefnandi hefði sagt vitninu að hún hefði fallið um
þetta grindverk, en auk þess hefði það verið greinilegt af því hvernig hún hefið legið. Vitnið kvaðst telja mjög ólíklegt að stefnandi
hefði dottið vegna ójafnvægis síns.
Vitnið kvað lögreglu hafa rætt eitthvað við starfsfólk á
staðnum en lítið muna eftir því. Þó hefði verið farið fram á að þegar yrðu
gerðar úrbætur á aðstöðunni þar eð hún væri stórhættuleg, jafnt fyrir drukkna
sem allsgáða.
Vitnið sagði að farið hefði verið með stefnanda á
sjúkrahús, en þar hefði stefnandi ekki viljað vera og borið við slæmum
minningum af sjúkrahúsi. Stefnandi hefði verið undir talsverðum áfengisáhrifum
en skýr í svörum; mjög vönkuð en ekki ofurölvi.
Vitnið kvaðst hafa komið heim til stefnanda á
klukkustundarfresti um nóttina og hugað að henni. Um sexleytið hefði vitnið
vakið stefnanda og upplýst hana um hvaða lögregluþjónn næstu vaktar tæki við
því hlutverki.
Vitnið Tara Björt Guðbjartsdóttir fyrrverandi starfsmaður
Kaffis Akureyrar sagði stefnanda hafa verið komna á staðinn þegar vakt
vitnisins hefði hafizt kl. 20:00. Sá starfsmaður, sem
vitnið hefði leyst af hólmi, hefði sagt vitninu að þrír gestir, og þar á meðal
stefnandi, hefðu mjög drukkið áfengi og reykt vindlinga á staðnum og því beðið
vitnið um að vera frammi en ekki baka til. Vitnið hefði því staðið við barinn
allan tímann, og meðal annars afgreitt stefnanda um drykki, sem vitnið myndi þó
ekki hverjir hefðu verið, en þó fleiri en tveir. Stefnandi hefði nokkurum sinnum kveikt sér í vindlingum þarna inni og
vitnið þá sagt henni að slíkt væri bannað. Stefnandi hefði jafnan drepið í
vindlingunum en látið í ljós vilja til að fá að reykja þarna inni. Vitnið kvað
stefnanda hafa verið mjög ölvaða, en vitnið kvaðst vel geta metið slíkt.
Vitnið kvaðst hafa staðið við barinn, nokkura
metra frá stefnanda, er það hefði séð stefnanda standa upp og „hún einhvern
veginn bara flýgur fram fyrir sig“, en kaðall, sem hefði átt að vera „á milli“,
hefði ekki verið þar. Vitnið sagði hins vegar að stefnandi hefði allt að einu
dottið þó að kaðallinn hefði verið á sínum stað. Kvaðst vitnið telja að
stefnandi hefði ekki stigið fram fyrir sig, heldur verið að færa sig til hliðar
þegar stefnandi hefði dottið vegna jafnvægisleysis. Stefnandi hefði skollið
beint niður og lent á andlitinu og ekki borið hendur fyrir sig við fallið.
Vitnið taldi að þrír eða fjórir gestir hefðu setið á pallinum er þetta gerðist.
Þegar vitnið var nánar spurt um grindverkið á pallinum
sagði það að stangir hefðu verið á pallinum og milli þeirra hefði átt að vera
kaðall. Enginn kaðall hefði hins vegar verið milli stanganna. Er vitnið var
fyrst spurt taldi það enga lárétta slá hafa verið milli stanganna er stefnandi
féll, en þegar vitninu var sýndar mynd af vettvangi, úr lögregluskýrslu er
liggur fyrir í málinu, kvað vitnið myndina lýsa vettvanginum eins og hann hefði
verið er atvikið hefði orðið; vitnið
hefði ekki munað eftir slánni.
Niðurstaða
Af gögnum málsins, fyrst og fremst lögregluskýrslu og
vottorði Vals Þ. Marteinssonar læknis, er ljóst að stefnandi varð fyrir
líkamstjóni inni á veitingahúsinu Kaffi Akureyri aðfaranótt 7. janúar 2008.
Stefnandi heldur því fram, að hún hafi fallið um
grindverk er hafi verið á palli þeim er hún hafi setið á, sem gestur á
veitingahúsinu. Þessu mótmælir stefnda sem ósönnuðu. Fyrir dómi ítrekaði
stefnandi þessa fullyrðingu sína og hlaut nokkura
stoð í vætti Maríu Jespersen lögregluþjóns sem kvað
stefnanda hafa tjáð sér þetta þegar eftir fallið en einnig hefði þetta verið
greinilegt af því hvernig stefnandi hefði legið í gólfinu. Á hinn bóginn kemur
vitnisburður Töru Bjartar Guðbjartsdóttur, sem var barþjónn á Kaffi Akureyri er
atvikið varð. Kvaðst Tara Björt telja stefnanda ekki hafa fallið um grindverk
heldur af eigin jafnvægisleysi. Að mati dómsins dregur það hins vegar úr vægi
þess mats Töru Bjartar, að stefnandi hafi ekki hnotið um grindverksslána, að
fyrir dómi mundi Tara Björt ekki eftir slánni fyrr en henni var sýnd mynd af
vettvangi.
Í málinu liggja fyrir myndir af pallinum eins og hann mun
hafa verið á umræddum tíma. Má af þeim ráða að þröngt hefur verið á pallinum
eftir að þar er kominn hornsóffi og borð við.
Ljóst er að stefnandi var stödd á pallinum þegar hún féll
og lenti á gólfinu fyrir neðan hann. Þar á milli er margnefnt grindverk, 40 cm hátt samkvæmt lögregluskýrslu sem hvorki hefur verið
hnekkt né mótmælt. Stefnandi hefur verið eindregin í þeim framburði sínum að
hún hafi fallið um grindverksslána og eins og áður segir þykir sá framburður fá
stoð í því sem María lögregluþjónn hefur eftir henni á slysstað, skömmu eftir
fallið, en lögreglan kom að stefnanda þar sem hún lá enn á gólfinu. Að mati
dómsins er lárétt grindverksslá, í 40 cm hæð, almennt
til þess fallin að skapa hættu ef hún er þar sem vænta má fólks á hreyfingu.
Þegar á allt framanritað er litið er það niðurstaða dómsins að telja megi
sannað að stefnandi hafi, svo sem hún segir, fallið um grindverksslána er hún
ætlaði að yfirgefa pallinn þar sem hún hafði setið.
Kaffi Akureyri, sem stefnda rekur, er veitingahús, opið
almennum gestum, og er sala áfengis þáttur í starfsemi staðarins. Verður að
ætlast til þess að útbúnaður á staðnum sé miðaður við að þar fari um ölvað
fólk, ekki sízt síðla kvölds í takmarkaðri birtu.
Ekki verður þó á slíka staði lagt að hafa alla hluti í því horfi að gestum sé
útilokað að slasa sig á þeim, enda seint hægt að sjá við öllu því sem orðið
getur til tjóns ef óheppnin er með. Umræddur pallur var búinn leðurhornsóffa og við hann stóð borð. Er augljóst að gert
var ráð fyrir að þar sætu gestir og nytu veitinga. Eins og áður segir, er það
mat dómsins að lárétt grindverksslá, í 40 cm hæð, sé
almennt til þess fallin að skapa hættu ef hún er þar sem vænta má fólks á
hreyfingu. Telur dómurinn það hafa verið sérstaklega varasamt hér, í ljósi þess
að á staðnum mátti vænta ölvaðs fólks sem ekki myndi sýna sömu varkárni og aðgæzlu og allsgátt. Fyrir liggur
í málinu að lóðréttar stangir grindverksins eru hærri en 40 cm.
Stefnda segir í greinargerð sinni að stöplarnir nái mest 68 cm
hæð frá palli og hefur því ekki verið andmælt í málinu. Þá liggur fyrir að áður
hafði keðja verið milli stöplanna, fyrir ofan margnefnda járnslá, en hafði
verið fjarlægð á umræddum tíma. Stefnda segir í greinargerð sinni að keðjan
hafi verið í 50-65 cm hæð frá pallgólfi.
Fyrirsvarsmaður stefnda segir að keðjan hafi verið fjarlægð í tíð fyrri eigenda
en í bréfi þáverandi lögmanns stefnda, til lögmanns stefnanda, dags. 16. maí
2008, segir að keðjurnar hafi orðið til vandræða þegar eftir að núverandi
eigendur hafi tekið við staðnum. Allt að einu er ljóst að stefnda var ljóst að
keðja hafði áður verið fyrir ofan slána. Að mati dómsins hefði keðja eða önnur
slá, ofar þeirri sem var á umræddum tíma, horft til þess að draga úr líkum þess
að gestir féllu um grindverkið, þó ráða megi af 202. gr. byggingarreglugerðar
nr. 441/1998 að grindverkið hefði þurft að vera nokkuru
hærra ef það hefði beinlínis átt að nýtast sem fallvörn.
Umrætt grindverk hefur nú verið fjarlægt. Fyrir dómi sagði
fyrirsvarsmaður stefnda að það hefði verið gert „til að koma í veg fyrir svona
slys“. Þykir dóminum óhjákvæmilegt að skýra þau orð svo, að stefnda hafi þá
talið að slíkt grindverk gæti að minnsta kosti átt þátt í atvikum sem þessum.
Stefnda hefur mótmælt því að ríkari kröfur um aðbúnað
skuli gerðar til vínveitingahúsa en annarra veitingahúsa. Að mati dómsins er
eðlilegt og í samræmi við dómaframkvæmd að við mat á því, hvað teljist
eðlilegur aðbúnaður, sé höfð hliðsjón af þeirri starfsemi sem fram fer á staðnum,
en sala áfengis til gesta er þáttur í starfsemi veitingahúss stefnda. Að mati
dómsins má hér líta til dóma Hæstaréttar Íslands í málum númer 76/1966, sem upp
var kveðinn hinn 20. desember 1967, og 119/1988, sem upp var kveðinn hinn 17.
október 1989.
Stefnda hefur borið því við að eftirlitsaðilar hafi farið
um staðinn og engar athugasemdir gert, þrátt fyrir pallinn og keðjulaust
handriðið. Hafi stefnda fengið leyfi til rekstrarins án nokkurra athugasemda að
því leyti. Að mati dómsins leiðir athugasemdaleysi við leyfisveitingu eða
athugun eftirlitsaðila ekki sjálfkrafa til þess að veitingamenn geti sér að
áhættulausu notazt við allan þann útbúnað sem ekki
hreyfir við eftirlitsmönnum. Þó hið opinbera hefji eftirlit á tilteknu sviði
leiðir það ekki til þess að ábyrgð á öllum hugsanlegum misfellum þar, hafi þar
með færzt frá þeim, sem þar starfa og stunda rekstur,
og yfir til hins opinbera. Skylda umráðamanns veitingastaðar til þess að sjá
til þess að gestir hans geti farið eðlilegra ferða sinna um staðinn sér að
stórslysalausu, helzt óbreytt þó úttektarmaður
stjórnvalds hafi ekki gert athugasemdir á staðnum. Er það mat dómsins, að með
því að hafa á veitingastað sínum lárétta járnslá, svo lágt frá gólfi sem rakið
hefur verið, á þeim stað þar sem vænta mátti tilfæringa misölvaðra gesta, hafi
stefnda gerzt sekt um gáleysi sem hafi orðið til þess
að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni. Þykir stefnda hafa með þessu unnið
sér til ábyrgðar á tjóni stefnanda og verður ekki fallizt
á aðalkröfu stefnda um sýknu.
Víkur þá sögunni að varakröfu stefnda. Stefnandi hefur í
málinu gert lítið úr ölvun sinni umrætt kvöld. Kvaðst stefnandi fyrir dómi hafa
komið allsgáð á veitingahúsið og drukkið þar úr rúmlega einu glasi af campari. Stefnda byggir hins vegar á því að stefnandi hafi
verið verulega drukkin er atvikið varð. María Jespersen
bar fyrir dómi að hún teldi stefnanda hafa verið talsvert ölvaða er hún hefði
komið að henni. Tara Björt Guðbjartsdóttir kvað stefnanda hafa verið mjög
ölvaða um kvöldið. Að mati dómsins eru þær báðar vanar að eiga við ölvað fólk,
María sem lögregluþjónn og Tara Björt sem barþjónn.
Þá segir í lögregluskýrslu Maríu Jespersen
að kl. 02:10 um nóttina hafi verið hringt frá slysadeild til lögreglu og óskað
eftir því að stefnandi yrði sókt á deildina. Er
þangað hafi verið komið hafi starfsmaður verið að „reyna að telja [stefnanda]
hughvarf varðandi það að fara heim og kvaðst vilja að hún myndi eyða nóttinn[i] á Slysadeild svo hægt væri að fylgjast með líðan
hennar þar sem mjög líklega væri hún brotin í andliti en erfitt væri að greina
það með fullvissu vegna ölvunarástands hennar.“
Í vottorði Vals Þ. Marteinssonar læknis segir að
stefnandi hafi verið „undir áhrifum og talsverð áfengislykt frá vitum“. Þá
segir í vottorðinu að stefnandi hafi sagzt hafa verið
við drykkju í tvo til þrjá daga, en þeirri frásögn andmælti stefnandi eindregið
fyrir dómi. Læknirinn var ekki leiddur fyrir dóm til staðfestingar vottorðinu
og verður ekki byggt á því hér að stefnandi hafi drukkið í tvo til þrjá daga
fram að atvikinu. Allt að einu þykir dóminum óhætt að slá föstu, með vísan til
framanritaðs, einkum vitnisburðar þeirra Maríu og Töru Bjartar og vottorðs
Vals, að stefnandi hafi verið talsvert ölvuð er hún slasaðist.
Fyrir dómi kvaðst stefnandi hafa tekið eftir margnefndu
grindverki er hún hefði gengið upp á pallinn. Hefur henni þannig verið ljóst,
fyrr um kvöldið, að grindverk væri við brún pallsins.
Dómurinn álítur að almennt megi ætla að ölvaður maður
gangi ekki fram af sömu varkárni og allsgáður. Hér vill svo til að stefnandi
slasast eftir að hafa gengið á slá sem hún hafði fyrr um kvöldið vitað af.
Telja má afar sennilegt að ölvun stefnanda hafi átt ríkan þátt í því að svo
tókst til. Þegar horft er á þetta tvennt, ölvun stefnanda og þá staðreynd, að
stefnandi hafði fyrr um kvöldið gert sér grein fyrir því að grindverk væri þar
sem það var, þykir dóminum sem stefnandi verði að bera tjón sitt að tveimur
þriðju hlutum sjálf en þriðjung verði stefnda að bera. Ekki þykir hins vegar
skipta sérstaklega máli að stefnandi hafi ekki borið hönd fyrir sig við fallið,
en ekki hefur verið sýnt fram á að tjón stefnanda hefði þannig orðið minna.
Í dómkröfum sínum krefst stefnandi þess að viðurkennd
verði skaðabótaskylda stefnda á líkamstjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir hinn
6. janúar 2008. Samkvæmt lögregluskýrslu, sem ekki hefur verið sérstaklega
andmælt, barst tilkynning um atvikið til lögreglu kl. 00:46 hinn 7. janúar.
Verður að álíta að stefnandi hafi í raun orðið fyrir tjóninu hinn 7. janúar, en
þetta þykir engu breyta um niðurstöðu málsins, sem verður eins og í dómsorði
greinir, en þessu hefur ekki verið hreyft af hálfu stefnda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Dóms- og kirkjumálaráðherra veitti stefnanda gjafsókn
hinn 31. október 2008. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr
ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 622.500 krónur og hefur þá
verið litið til reglna um virðisaukaskatt. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr.
laga nr. 19/1991.
Mál þetta fluttu héraðsdómslögmennirnir Auður Björg
Jónsdóttir fyrir stefnanda og Ásgeir Helgi Jóhannsson fyrir stefnda.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að stefnda, GSB veitingar ehf., beri
skaðabótaábyrgð á þriðjungi þess tjóns sem stefnandi, Svanhvít Albertsdóttir,
varð fyrir á veitingastað stefnda, Kaffi Akureyri, 7. janúar 2008.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Úr ríkissjóði greiðist allur gjafsóknarkostnaður
stefnanda, þar á meðal þóknun lögmanns hennar, 622.500 krónur