Hæstiréttur íslands

Mál nr. 826/2013


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 22. maí 2014.

Nr. 826/2013.

Halldór Karl Ragnarsson

(Jón G. Briem hrl.)

gegn

þrotabúi H-12 ehf.

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Skaðabætur.

Þrotabú H ehf. krafðist riftunar, á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., á þeirri ráðstöfun H ehf. að fella niður skuld H samkvæmt viðskiptareikningi hans hjá félaginu með færslu á tiltekinni fjárhæð inn á reikninginn. Þá krafðist þrotabú H ehf. þess jafnframt að H yrði gert að greiða því þá fjárhæð sem færð hafði verið honum til eignar á viðskiptareikningnum. Í dómi Hæstaréttar var rakið að M, einn af fjórum hluthöfum í H ehf., hefði á árinu 2009 tekið lán til að standa skil á iðgjaldaskuldum félagsins hjá lífeyrissjóði og hefði lánsfjárhæðin verið færð honum til eignar á viðskiptareikningi hans hjá H ehf. Eftir að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta hefðu verið gerðar færslur milli viðskiptareikninga hluthafanna fjögurra þannig að skuldir annarra hluthafa en M hefðu liðið undir lok. Taldi Hæstiréttur að líta yrði svo á að ráðstöfun á inneignum milli viðskiptareikninga eigenda félagsins hefði einvörðungu farið fram með færslum í bókhaldi þess svo og að þær færslur hefðu ekki verið gerðar til samræmis við samninga eða ákvarðanir sem áður hefðu verið teknar. Var því fallist á kröfu þrotabús H ehf. um riftun greiðslnanna, enda ætti ekki við nokkur þeirra undantekninga sem kæmi fram í 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Þá var H gert að endurgreiða þrotabúinu þá fjárhæð sem færð hefði verið honum til eignar samkvæmt framangreindu, en ekki var talið að H ætti gagnkröfu á hendur þrotabúinu til skuldajafnaðar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að fjárkrafa hans verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér 3.659.441 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

 Samkvæmt gögnum málsins var Húsanes ehf., sem virðist síðar hafa fengið heitið H-12 ehf., stofnað 1979, en frá 2004 var áfrýjandi hluthafi í félaginu ásamt Jóhannesi Ellertssyni, Margeiri Þorgeirssyni og Þorbirni Tjörva Stefánssyni. Ekki liggur annað fyrir en að þeir hafi átt jafna hluti í félaginu. Eigendurnir munu allir hafa starfað hjá félaginu, sem gerði ráðningarsamning við áfrýjanda 1. maí 2006, en samkvæmt samningnum gegndi hann þar stöðu framkvæmdastjóra.

Á árinu 2009 mun hafa verið svo komið fyrir félaginu að það hafi ekki getað staðið skil á iðgjöldum vegna starfsmanna sinna til Festu lífeyrissjóðs. Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu lífeyrissjóðsins tók áðurnefndur Margeir lán hjá honum 14. ágúst 2009 að fjárhæð 15.341.050 krónur til að standa skil á iðgjaldaskuldum félagsins. Af gögnum málsins verður ráðið að vegna þessa framlags Margeirs hafi 15.608.240 krónur verið færðar honum til eignar í lok ársins 2009 á viðskiptareikningi hans hjá félaginu, en áfrýjandi og hinir hluthafarnir tveir höfðu jafnframt sérstaka viðskiptareikninga hjá því. Í lok árs 2010 virðist bókfærð inneign Margeirs hjá félaginu samkvæmt viðskiptareikningi hans hafa numið 16.834.153 krónum, sem meðal annars mátti rekja til þessa framlags hans. Á sama tíma stóðu áfrýjandi og hinir hluthafarnir tveir á hinn bóginn í skuld við félagið á viðskiptareikningum sínum, en skuld áfrýjanda var 3.659.441 króna, Jóhannesar 5.267.435 krónur og Þorbjörns 2.464.334 krónur.

Árangurslaust fjárnám var gert hjá Húsanesi ehf. 18. mars 2011 og krafðist Festa lífeyrissjóður 5. apríl sama ár gjaldþrotaskipta á búi félagsins á grundvelli þeirrar gerðar. Krafa um gjaldþrotaskipti var birt ásamt fyrirkalli fyrir áfrýjanda 16. júní 2011 og tekin fyrir í héraðsdómi 23. sama mánaðar, þar sem hún náði fram að ganga með úrskurði 8. september sama ár. Fyrir liggur að eftir að bú Húsaness ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta en áður en skiptastjóri hafði tekið bókhaldsgögn þrotabúsins í sínar hendur hlutaðist Jóhannes til um að gerðar yrðu færslur milli viðskiptareikninga hluthafanna fjögurra 12. september 2011. Þessar færslur, sem voru dagsettar 31. desember 2010, fólust í því að fyrrnefndar 15.608.240 krónur voru skuldfærðar af viðskiptareikningi Margeirs, en 2.343.327 krónur færðar þar rakleitt aftur til eignar, 5.621.974 krónur voru færðar til eignar á viðskiptareikningi Jóhannesar, 3.893.704 krónur á viðskiptareikningi Þorbjörns og 3.749.235 krónur á viðskiptareikningi áfrýjanda. Áður en þetta var gert höfðu nokkrar færslur farið á árinu 2011 um viðskiptareikninga Jóhannesar, Þorbjörns og áfrýjanda, ýmist þeim til eignar eða skuldar, en hjá þeim öllum höfðu þessar færslur þau heildaráhrif að skuldir þeirra við félagið höfðu aukist. Framangreindar fjárhæðir, sem voru færðar þeim þremur til eignar á viðskiptareikningunum 12. september 2011, urðu á hinn bóginn til þess að skuldir þeirra við félagið liðu undir lok og áttu þeir eftir þetta heldur engar inneignir hjá því, en Margeir átti þar enn inni þegar upp var staðið 3.617.614 krónur. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir skýringum áfrýjanda á ástæðum þessara færslna 12. september 2011 í bókhaldi félagsins.

Í málinu leitar stefndi riftunar á ráðstöfunum, sem hann telur hafa falist í framangreindum bókhaldsfærslum 12. september 2011 að því er áfrýjanda varðar. Jafnframt krefst stefndi þess aðallega að áfrýjanda verði gert að greiða sér 3.749.235 krónur, en til vara 3.659.441 krónu.

II

Í málinu liggur ekkert fyrir um að samningur hafi verið gerður milli áfrýjanda, Jóhannesar Ellertssonar, Margeirs Þorgeirssonar og Þorbjörns Tjörva Stefánssonar um að skipta á milli þeirra fjögurra útgjöldum af skuldinni, sem Margeir stofnaði til samkvæmt áðursögðu við Festu lífeyrissjóð 14. ágúst 2009, áður en inneign að fjárhæð 15.608.240 krónur var færð af því tilefni á viðskiptareikning hans hjá Húsanesi ehf. í lok þess árs. Ekki fær staðist að þessir fjórir eigendur félagsins hafi á árinu 2009 eða 2010 ákveðið að skipta milli sín fjárhæð þessarar skuldbindingar á þann hátt, sem síðar birtist með færslunum á viðskiptareikningum þeirra 12. september 2011, og að þær hafi þannig falið í sér leiðréttingar á upphaflegri færslu í árslok 2009, enda voru fjárhæðirnar, sem fluttar voru til eignar á viðskiptareikninga Jóhannesar, Þorbjörns og áfrýjanda, í öllum tilvikum nákvæmlega þær sömu og skuldir þeirra á reikningunum námu þann dag að undangengnum færslum á árinu 2011. Verður þannig að líta svo á að ráðstöfun á inneignum milli viðskiptareikninga eigendanna fjögurra hafi einvörðungu farið fram með færslunum í bókhaldi félagsins 12. september 2011, svo og að þær færslur hafi ekki verið gerðar til samræmis við samninga eða ákvarðanir, sem áður höfðu verið teknar. Krafa stefnda um riftun á ráðstöfunum Húsaness ehf. snýst því réttilega um þessar færslur í bókhaldi félagsins. Frestdagur við gjaldþrotaskipti á stefnda er samkvæmt gögnum málsins 7. apríl 2011 og fóru þessar ráðstafanir þannig fram á því tímabili, sem ákvæði 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. tekur til. Þessum ráðstöfunum verður því rift samkvæmt kröfu stefnda, enda getur ekki átt hér við nokkur þeirra undantekninga, sem í ákvæðinu greinir.

Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá, sem hafði hag af ráðstöfun sem rift er með stoð í 139. gr. sömu laga, greiða bætur eftir almennum reglum. Með þeim ráðstöfunum, sem um ræðir í málinu, var að engu gerð skuld áfrýjanda samkvæmt viðskiptareikningi hans hjá Húsanesi ehf., sem eftir gögnum málsins hefði að öðrum kosti numið 3.749.235 krónum við upphaf gjaldþrotaskipta á stefnda. Er því ljóst að tjón stefnda svarar til þessarar fjárhæðar, sem hann hefur farið á mis við að geta innheimt hjá áfrýjanda vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru 12. september 2011. Með því að ekki eru efni til annars en að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um gagnkröfu að fjárhæð 6.000.000 krónur, sem áfrýjandi hefur krafist að fá að skuldajafna við kröfu stefnda á hendur sér, verður dómurinn látinn standa óraskaður.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Halldór Karl Ragnarsson, greiði stefnda, þrotabúi H-12 ehf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. september síðastliðinn, er höfðað 5. desember 2012.

Stefnandi er þrotabú H-12 ehf., Borgartúni 28, Reykjavík

Stefndi er Halldór Karl Ragnarson, Skólavegi 40, Reykjanesbæ.

Stefnandi krefst þess að rift verði ráðstöfun H-12 ehf., frá 12. september 2011, sem færð var í bókhald félagsins eins og hún hefði verið gerð 31. desember 2010, um að fella niður skuld stefnda samkvæmt viðskiptareikningi hans hjá félaginu, sem þá nam 3.659.441 krónu með færslu á 3.749.235 krónum inn á reikninginn þannig að staða hans varð jákvæð um 89.794 krónur. Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 3.749.235 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. september 2011 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 3.659.441 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. september 2011 til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að fjárhæðir dómkrafna stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

I

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 8. september 2011 var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta og Þórhallur Haukur Þorvaldsson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri í búinu. Var innköllun birt í Lögbirtingablaðinu 23. september 2011 og rann kröfulýsingarfrestur út 23. nóvember sama ár. Fyrsti skiptafundur með kröfuhöfum var haldinn 14. desember 2011 þar sem fjallað var um lýstar kröfur og önnur málefni búsins. Frestdagur í búinu var 7. apríl 2011, en þann dag barst Héraðsdómi Reykjaness gjaldþrotaskiptabeiðni frá Festu lífeyrissjóði. Fyrir gjaldþrotið fólst starfsemi félagsins í byggingu fasteigna fyrir eigin reikning og verktöku á sama sviði. Félagið stundaði starfsemina út sumarið 2011.

                Skiptastjóri fékk endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hf. til að rannsaka bókhald stefnanda í því skyni að kanna hvort einhverjar riftanlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar í rekstri stefnanda eða lögbrot framin. Voru fyrstu drög að skýrslu um bókhald stefnanda afhent í september 2012 og endurbætt drög 8. nóvember 2012. Í ljósi upplýsinga sem komu fram í skýrslunni, og til að afla skýringa á þeirri ráðstöfun sem krafist er riftunar á, tók skiptastjóri skýrslu af Jóhannesi Ellertssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnanda, 4. september 2012 og af fyrrverandi bókara félagsins, Jennýju Lárusdóttur, 15. nóvember 2012.

                Stefndi var einn fjögurra eigenda stefnanda og sat auk þess í stjórn félagsins. Aðrir eigendur félagsins voru Jóhannes Ellertsson, Margeir Þorgeirsson og Þorbjörn Tjörvi Stefánsson. Auk þess að sitja í stjórn starfaði stefndi hjá H-12 ehf. Allir eigendur stefnanda, þar á meðal stefndi, voru með viðskiptareikninga hjá stefnanda. Viðskiptareikningur stefnda var notaður með þeim hætti að lán stefnanda til stefnda voru bókuð inn á hann auk greiðslna sem hann innti persónulega af hendi fyrir stefnanda eða greiddi inn á skuld sína við hann. Staða reikningsins var þannig neikvæð ef stefndi var í skuld við stefnanda en jákvæð ef hann átti fjármuni inni hjá stefnanda. Lengst af var reikningurinn neikvæður um nokkrar milljónir króna, en staða hans 31. desember 2010 var neikvæð um 3.659.441 krónu. 

                Fjórum dögum eftir að stefnandi var úrskurðaður gjaldþrota, eða 12. september 2011, var færð greiðsla að fjárhæð 3.749.235 krónur inn á viðskiptareikning stefnda. Greiðslan var færð inn miðað við 31. desember 2010 og lýsing hennar í bókhaldi er „MLF. SKJ/MÞ. 2008“. Í skýrslu skiptastjóra af fyrrverandi bókara félagsins, Jennýju Lárusdóttur, staðfesti hún að hafa fært umrædda greiðslu að beiðni Jóhannesar Ellertssonar þennan dag. Sama dag var skuld Þorbjörns Tjörva Stefánssonar við stefnanda samkvæmt viðskiptareikningi lækkuð um 3.893.704 krónur og skuld Jóhannesar Ellertssonar við stefnanda samkvæmt viðskiptareikningi lækkuð um 5.621.974 krónur. Stefnanda bárust engir fjármunir vegna framangreindra lækkana á skuldum stefnda og meðeigenda hans að stefnanda. Skuld stefnanda við Margeir Þorgeirsson samkvæmt viðskiptareikningi hans var lækkuð um 13.264.913 krónur, eða sömu fjárhæð og samanlögð skuldalækkun annarra eigenda.

                Í skýrslu hjá skiptastjóra 4. september 2012 gaf Jóhannes Ellertsson þá skýringu á færslunni að einn eigenda stefnanda, Margeir Þorgeirsson, hefði tekið persónulegt lán til að greiða upp skuldir á viðskiptareikningum eigenda stefnanda. Lánið hafi Margeir tekið hjá Festu lífeyrissjóði í júlí 2009 til að greiða niður skuld stefnanda við lífeyrissjóðinn sem var færð miðað við 31. desember 2010. Fyrrverandi bókari félagsins, Jenný Lárusdóttir, staðfesti auk þess við skýrslutöku fyrir skiptastjóra að lántaka Margeirs hefði verið til greiðslu lífeyrisskuldbindinga stefnanda.

Stefndi kveður atvikalýsingu stefnanda áfátt að því leyti að í hana vanti staðreyndir sem geti gefið heildstæða mynd af þeirri greiðslu sem stefnandi vilji rifta. Félagið hafi verið stofnað árið 1991 og hafi áður heitið Húsanes. Árið 2008 hafi farið að harðna í ári hjá félaginu eins og hjá flestum aðilum á þessu sviði og hafi útgjöld orðið mun meiri en tekjur. Jafnframt hafi verið reynt að veita þeim mönnum sem störfuðu hjá fyrirtækinu áframhaldandi vinnu. Þetta megi sjá af rekstrar- og efnahagsreikningum félagsins. Á þessum tíma hafi dregist að greiða mótframlög í lífeyrissjóði starfsmanna stefnanda og hafi svo verið komið árið 2009 að félagið hafi skuldað Festu lífeyrissjóði háa upphæð. Samkomulag hafi orðið meðal eigenda félagsins að Margeir Þorgeirsson tæki lán fyrir þeirra hönd hjá lífeyrissjóðnum og greiddi inn á vanskil félagsins við sjóðinn. Hafi Margeir tekið umrætt lán fyrir hönd allra eigenda félagsins en í bókhaldi þess hafi honum einum verið fært lánið til eignar í stað þess að það væri fært á eigendur í umsömdum hlutföllum eins og falist hafði í framangreindu samkomulagi eigendanna. Um samstarf þeirra hafi gilt hluthafasamkomulag sem gert hafi verið 29. desember 2005. Færslan hafi ekki verið leiðrétt við gerð ársreiknings fyrir árið 2009, sem unninn hafi verið í júní 2010. Ársreikningurinn hafi verið sendur með skattframtali til ríkisskattstjóra 24. september 2010.

Haustið 2011 hafi verið farið að vinna að uppgjöri vegna ársins 2010. Bókari félagsins, Jenný Lárusdóttir, hafi unnið við það í samráði við Jóhannes Ellertsson fjármálastjóra félagsins. Hafi Jóhannes þá tekið eftir því að lánið hafi eingöngu verið fært sem skuld við Margeir í stað þess að vera fært sem skuld við alla eigendur og hafi Jóhannes Ellertsson því gefið bókara félagsins fyrirmæli um að leiðrétta færsluna sem gert hafi verið. Færslan hafi verið færð miðað við 31. desember 2010 þar sem ekki hafi verið gerlegt að miða hana við rétta dagsetningu, það er 31. desember 2009, þar sem búið hafi verið að skila ársreikningi og framtali fyrir árið 2009 og þar með loka bókhaldi þess árs. Skiptastjóri stefnanda hafi fengið bókhald félagsins afhent stuttu eftir úrskurð um gjaldþrotaskipti. Í framhaldinu hafi hann tekið tvær skýrslur af fjármálastjóra félagsins, aðra 13. september 2011 og hina 4. september 2012. Stefna hafi þó ekki verið birt fyrir stefnda fyrr en 5. desember 2012 en hún var lögð fram í Héraðsdómi Reykjaness fimm dögum síðar. Með henni birtust riftunar- og endurgreiðslukröfur máls þessa fyrir stefnda í fyrsta sinn.

II

Kröfuna um að rift verði þeirri ráðstöfun H-12 ehf. frá 12. september 2011 að fella niður skuld stefnda samkvæmt viðskiptareikningi hans hjá félaginu með færslu á 3.749.235 krónum inn á reikninginn kveðst stefnandi byggja á því að stefnda hafi sem forsvarsmanni félagsins verið óheimilt að gefa þáverandi bókara stefnanda þau fyrirmæli hinn 12. september 2011 að færa inn í bókhald félagsins greiðslu á 3.749.235 krónum inn á viðskiptareikning hans og miða færsluna við 31. desember 2010. Bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 8. september 2011 með vitneskju stefnda, enda hafði hann verið réttilega boðaður til þinghalds þar um. Frá þeim tíma hafi stefnda verið óheimilt að hafa afskipti af bókhaldi stefnanda, sbr. 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en stefnandi var þá orðinn þrotabú og skiptastjóra hafi verið falin skipti þess samkvæmt XIII. kafla laganna. Í ljósi þessa sé krafist riftunar ofangreindrar ráðstöfunar á grundvelli 2. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., en samkvæmt því ákvæði má krefjast riftunar ráðstöfunar sem hefur verið gerð eftir frestdag nema ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamannsins, eðlileg af tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna eða til að fullnægja daglegum þörfum. Ekki verði rift gagnvart þeim sem hafi mátt líta svo á að ráðstöfunin hafi verið þess eðlis sem á undan segi eða hvorki vissi né mátti vita um beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða kröfu um gjaldþrotaskipti.

Ljóst sé að stefndi hafi vitað eða mátt vita að bú stefnanda hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, en beiðni þess efnis hafi borist Héraðsdómi Reykjaness 7. apríl 2011. Fyrirkall hafi verið birt stefnda 16. júní 2011. Að mati stefnanda hafi ráðstöfunin hvorki verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar hans, né eðlileg af tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna og þá ekki til að fullnægja daglegum þörfum og útilokað sé að stefndi hafi talið hana vera það.

Verði talið að ráðstöfunin hafi átt sér stað 31. desember 2010 en ekki þegar hún hafi verið færð inn í bókhaldið 12. september 2011 byggi stefnandi á því að í ráðstöfuninni hafi falist gjafagerningur sem sé riftanlegur á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnanda hafi ekki borist peningar eða önnur verðmæti frá stefnda þegar skuld hans við stefnanda samkvæmt viðskiptareikningi hafi verið felld niður. Það eina sem hafi átt sér stað var að framkvæmdastjóri félagsins og meðeigandi stefnda hafi gefið fyrrverandi bókara stefnanda fyrirmæli um að ská inn í bókhaldið færslur sem felldu niður skuld stefnda og tveggja annarra eigenda stefnanda. Þetta hafi verið gert eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Á móti hafi hann gefið fyrirmæli um að skuld félagsins við fjórða eigandann yrði lækkuð um sömu heildarfjárhæð. Sú skuld hefði fengið stöðu almennrar kröfu við gjaldþrotaskipti stefnanda og stefndi og meðeigendur hans vissu að ekkert myndi koma upp í hana við skiptin. Að mati stefnanda hafi þessi eftirgjöf skulda falið í sér gjafagerning til stefnda sem fram hafi farið 31. desember 2010. Frestdagur við skipti stefnanda hafi verið 7. apríl 2011 og því hafi gjöfin verið afhent innan sex mánaða frá frestdegi, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. 

Þá kveðst stefnandi byggja riftunarkröfu sína á 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., enda hafi hin umdeilda ráðstöfun á ótilhlýðilegan hátt orðið til þess að eignir hans, í þessu tilfelli krafa á hendur stefnda, séu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum og að stefndi hafi vitað eða mátt vita á þeim tíma sem ráðstöfunin hafi verið gerð að stefnandi hafi verið ógjaldfær, hvort sem ráðstöfunin teldist gerð 31. desember 2010 eða 12. september 2011. Telja verði að stefnda, sem eins eiganda, starfsmanns og stjórnarmanns stefnanda, hljóti að hafa verið ljóst að stefnandi hafi verið orðinn ógjaldfær 31. desember 2010. Framkvæmdastjóri og einn eigenda félagsins hafi viðurkennt í skýrslutöku fyrir skiptastjóra 13. september 2011 að eigendur hefðu notað allar leigutekjur systurfélags stefnanda, Þ-1 ehf. síðasta árið fyrir þrot stefnanda, til að halda rekstri stefnanda gangandi. Þegar ráðstöfunin hafi verið gerð hafi þeim sem hafði hag af henni, það er stefnda, því verið ljóst að stefnandi var ógjaldfær.

Stefnandi kveður fjárhæð aðalkröfu sinnar um endurgreiðslu úr hendi stefnda að fjárhæð 3.749.235 krónur annars vegar byggja á framangreindum málsástæðum og hins vegar því að það sé sú fjárhæð sem stefndi hafi hagnast um og beri því að endurgreiða stefnanda samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sé ljóst að hefði umrædd færsla ekki verið skráð hefði félagið átt kröfu á hendur stefnda sem nemi umkrafinni fjárhæð. Með færslu á fyrrgreindri fjárhæð hafi staða á viðskiptareikningi stefnda breyst í inneign sem hann hafi síðan fengið greidda frá stefnanda. Fjárhæð varakröfu stefnanda um endurgreiðslu úr hendi stefnda að fjárhæð 3.659.441 króna byggi á framangreindum málsástæðum ásamt því að það hafi verið fjárhæð þeirrar skuldar sem felld hafi verið niður með hinni riftanlegu ráðstöfun og því sú fjárhæð sem hann hafi hagnast um og beri að endurgreiða stefnanda samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með færslu á fyrrgreindri fjárhæð hafi skuld stefnda við stefnanda samkvæmt viðskiptareikningi fallið niður.

Kröfuna um riftun á hinni umdeildu ráðstöfun og endurgreiðslu úr hendi stefnda styður stefnandi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., einkum 72. gr., 2. mgr. 139. gr., 1. mgr. 131. gr., 141. gr. og 142. gr. laganna. Kröfu um dráttarvexti úr hendi stefnda styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991.

III

Stefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu á því að umræddar millifærslur á viðskiptareikningi hans og annarra meðeigenda séu ekki riftanlegir gjörningar á grundvelli riftunarreglna laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Í stefnu byggi stefnandi riftunarkröfu sína fyrst og fremst á 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Telji hann að í umræddum millifærslum hafi falist „aðrar ráðstafanir“ í skilningi framangreindrar lagagreinar. Stefndi kveðst telja heimfærslu stefnanda á umræddum millifærslum undir hugtakið „aðrar ráðstafanir“ í 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 ranga. Stefndi telji að færslur þær sem gerðar hafi verið í bókhaldi stefnanda 12. september 2011 hafi ekki falið í sér ráðstafanir í skilningi laga nr. 21/1991 heldur hafi verið um að ræða leiðréttingu á rangri bókhaldsfærslu frá árinu 2009. Hafi heildarfjárhæðin 15.608.240 krónur verið millifærð af viðskiptareikningi Margeirs Þorgeirssonar og síðan deilt niður á eigendur félagsins í ákveðnum hlutföllum sem aðilar höfðu komið sér saman um. Eins og fram komi í gögnum málsins sé óumdeilt að 15.608.240 krónur hafi verið greiddar til félagsins með greiðslu til Festu lífeyrissjóðs á árinu 2009. Um hafi verið að ræða forgangskröfu Festu á hendur félaginu vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda vegna starfsmanna stefnanda, en á þessum tíma hafði verið lögð fram gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur félaginu. Greiðslan hafi verið færð í bókhald stefnanda 31. desember 2009. Mótmælt sé því þeirri fullyrðingu stefnanda, að ekki hafi verið um raunverulega greiðslu skuldar að ræða. Greidd hafi verið skuld félagsins við lífeyrissjóðinn Festu. Stefndi telji augljóst að um greiðslu skuldar hafi verið að ræða og að skuldin hafi verið þess eðlis að hún hefði greiðst við gjaldþrotaskipti á félaginu samkvæmt XVII. kafla nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og áður en almennir kröfuhafar hefðu fengið kröfur sínar greiddar. Leiði þetta af því að skuldin hafi upphaflega verið lífeyrissjóðsskuldbinding stefnanda vegna starfsmanna hans, en slíkar kröfur njóti forgangs í skuldaröð samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. sömu laga. Mótmæli stefndi því þeirri fullyrðingu stefnanda að krafa Margeirs Þorgeirssonar á hendur félaginu hefði fengið stöðu almennrar kröfu við skipti stefnanda. Hið rétta sé að krafan hefði fengið stöðu forgangskröfu og greiðsla hennar sé því ekki riftanleg á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laganna. Að mati stefnda séu millifærslurnar því ekki riftanlegar á grundvelli 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, séu þær metnar heildstætt. Óeðlilegt sé að meta bókhaldslegar færslur án þess að rannsaka þau fjárskipti sem hafi legið þeim að baki.

Stefnandi byggi á því að ef miðað sé við bókhaldslega dagsetningu þeirra millifærslna sem um sé deilt þá hafi falist í þeim gjafagerningur sem sé riftanlegur á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sé það byggt á þeim grundvelli að millifærslurnar hafi verið gerðar í bókhaldskerfi stefnanda miðað við 31. desember 2010 en sá dagur sé innan sex mánaða frá því að gjaldþrotaskiptabeiðni hafi borist héraðsdómi 7. apríl 2011 sem sé frestdagur við skiptin. Stefndi kveðst aftur á móti vísa til þess sem fyrr segi um sameiginlega greiðslu fyrrum eigenda stefnanda til Festu lífeyrissjóðs. Stefndi haldi því fram að hann, ásamt meðeigendum sínum, hafi greitt raunverulega skuld stefnanda og geti framangreind leiðrétting á bókhaldi stefnanda aldrei leitt til þess að um gjafagerning honum til handa hafi verið að ræða. 

Þá bendi stefndi á að til að gerningur verði talin gjöf að gjaldþrotaskiptarétti þurfi að hafa falist í honum skerðing á eignum skuldara“ samanber forsendur fyrir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli númer 324/2006. Hvað skerðingu á eignum skuldara í fyrirliggjandi máli varði sé ljóst að þegar skuld stefnda og tveggja meðeigenda hans við stefnanda hafi verið lækkuð hafi samtímis verið lækkuð skuld stefnanda við Margeir Þorgeirsson. Samanlagt hafi lækkanir á skuldum stefnda og tveggja meðeigenda hans verið jafnar þeirri lækkun sem gerð hafi verið á skuld stefnanda við Margeir. Af því leiði að engin breyting hafi orðið á raunverulegum eignum stefnanda við þessar bókhaldsfærslur og í þeim hafi aðeins falist tilfærsla á verðmætum sem komu inn í félagið árið 2009.

Loks byggi stefnandi riftunarkröfu sína á 141. gr. laga nr. 21/1991, með þeim rökstuðningi að með greiðslu stefnanda á skuld sinni við eigendur hafi eignum hans á „ótilhlýðilegan hátt“ verið skotið undan sameiginlegri fullnustugerð kröfuhafa. Á þetta sé ekki hægt að fallast þar sem skilyrði þess að beita megi 141. gr. laganna skorti. Í fyrsta lagi sé stefndi ekki kröfuhafi í skilningi ákvæðisins en fyrsta skilyrði greinarinnar sé að ráðstöfun hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Í öðru lagi sé ljóst að umræddar millifærslur hafi ekki orðið til aukningar á skuldum stefnanda öðrum kröfuhöfum til tjóns. Í þriðja lagi hafi stefnandi ekki verið ógjaldfær þegar skuldin við lífeyrissjóðinn Festu hafi verið greidd en hún hafi einmitt verið greidd til að forðast fullnustugerðir og stöðvun rekstrar. Framangreint telji stefndi leiða til þess að umræddar millifærslur geti ekki talist ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 og því verði þeim ekki rift á þeim grundvelli.

Stefndi kveður kröfu sína um sýknu af endurgreiðslukröfum stefnanda aðallega byggja á því að honum verði ekki gert að þola riftun á grundvelli riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti o.fl. samanber rökstuðning hans fyrir sýknu vegna riftunar. Sýknukröfu sína byggi stefndi einnig á því að hann hafi ekki auðgast við umræddar færslur eða að þær hafi valdið þrotabúi stefnanda tjóni. Aðalkrafa stefnanda um endurgreiðslu sé um 3.749.235 krónur sem stefnandi telji að sé sú fjárhæð sem stefndi hafi hagnast um við bókhaldsfærsluna 12. september 2011 sem hafi lækkað kröfu stefnanda á stefnda. Stefndi bendi á að þessi skilningur stefnanda sé rangur og mótmælir honum þar sem stefndi hafi í raun verið skuldlaus við stefnanda.

Kröfu sína um endurgreiðslu byggi stefnandi á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Endurgreiðsla samkvæmt þeirri grein eigi við ef riftun fari fram samkvæmt 131.-138. gr. laganna. Samkvæmt þeirri kröfugerð byggi stefnandi því endurgreiðslukröfu sína um riftun á 131. gr. um gjafagerninga. Stefndi mótmæli því að leiðréttingar á bókhaldi stefnanda hafi falið í sér gjafagerning honum til handa.

Varakrafa stefnanda um endurgreiðslu er um 3.659.441 krónu, en það telji stefnandi þá upphæð sem stefndi hafi skuldað stefnanda áður en 3.749.235 krónur hafi verið færðar inn á reikning hans 12. september 2011. Þetta telji stefndi ekki réttan skilning því að þá hefði stefndi í raun átt inni hjá stefnanda 89.794 krónur þar sem hluti stefnda í láni eigenda til stefnanda árið 2009 hafi verið 3.749.235 krónur. Varakröfu sína byggi stefnandi á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 en ákvæðið sé um endurgreiðslu hagnaðar. Stefndi telji ljóst að hann hafi ekki auðgast um framangreinda fjárhæð þar sem hún hafi verið uppgjör á skuld við hann að viðbættum 89.794 krónum. Stefndi telji því skorta þau skilyrði ákvæðisins að um riftanlega greiðslu hafi verið að ræða sem hann hafi auðgast á og valdið með því búinu tjóni. Varakröfu stefnanda um endurgreiðslu sé mótmælt með vísan til fyrri rökstuðnings.

Þá hafi stefnandi eingöngu valið að byggja endurgreiðslukröfur sínar á 1. mgr. 142. gr.,  laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þrátt fyrir að hann styðji riftunarkröfu sína bæði við 139. og 141. gr. laganna. Stefndi bendi á að grundvöllur endurgreiðslu sé annar í síðastnefndu ákvæðunum, sbr. 3. mgr. 142. gr., en í 131. gr. laganna. Ráði þar skaðabótasjónarmið og þyrfti stefnandi því að hafa sýnt fram á tjón þrotabúsins, grandsemi, og ótilhlýðileika í tilviki 141. gr. ef hann ætlaði byggja endurgreiðslukröfur sínar á 3. mgr. 142. gr. Það hafi hann þó valið að gera ekki.

Þá kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína á skuldajöfnuði 6.000.000 króna samkvæmt heimild í  1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um kröfu sé að ræða sem byggi á 5. gr. ráðningarsamnings stefnda við stefnanda frá 5. maí 2006 sem hljóði svo: „Félagið leggur til og rekur bifreið fyrir Halldór að fjárhæð kr. 6.000.000. Þetta ákvæði tekur gildi frá og með 1. nóvember 2007. Ákvæðið skal endurskoða á tveggja ára fresti, í fyrsta sinn 1. nóvember 2009.“

Um lagalegan grundvöll kröfu sinnar bendi stefndi á að öll skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt sem og þau almennu skilyrði skuldajöfnunar sem ávallt þurfi að vera til staðar. Ljóst sé þannig að skilyrði um gagnkvæmni sé uppfyllt, verði talið að stefnandi eigi endurgreiðslukröfu á stefnda. Þá sé ljóst að kröfurnar séu samkynja, þó undanþágu frá því skilyrði sé að finna í 1. mgr. 100. gr. sömu laga, þar sem segi „að hver sá sem skuldi þrotabúi, geti dregið það frá sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið“. Þá sé ljóst að kröfurnar séu hæfar til að mætast, enda hafi hlunnindagreiðslur stefnda fallið í gjalddaga eins og aðrar kröfur hans um endurgjald fyrir vinnu sbr. 4. gr. ráðningarsamnings milli hans og stefnanda. Þá leiði 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 ennfremur til hins sama þar sem fram komi að allar kröfur á hendur þrotabúi falli í gjalddaga við úrskurð um gjaldþrotaskipti.

Stefndi bendi jafnframt á að krafa hans sé gild, þar sem hún sé ófyrnd fyrir tímabilið 30. janúar 2009 til 30. janúar 2013, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá telji stefndi skuldajöfnunarkröfu sína skýra, enda hafi hann sýnt fram á tilvist kröfunnar og fjárhæð hennar. Að lokum telji stefndi öll hin sérstöku skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt. Stefndi hafi eignast kröfuna áður en þrír mánuðir hafi verið til frestdags. Stefndi hafi ekki verið grandvís um ógjaldfærni þegar hann hafi eignast kröfuna enda hafi stefnandi verið gjaldfær á þeim tíma. Þá sé ljóst að stefndi hafi ekki fengið kröfuna til að skuldajafna enda átti hann hana allan tímann og hún er komin til vegna ógreidds endurgjalds fyrir vinnu. Stefndi telji því öll skilyrði skuldajafnaðar uppfyllt í málinu og að heimila eigi honum skuldajöfnun.

Varakröfu sína um lækkun á endurgreiðslukröfum stefnanda byggi stefndi á því að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn, úttektir eða annað sem sýni hvernig meint skuld stefnda að fjárhæð 3.749.235 krónur sé tilkomin. Varakröfuna byggi stefndi einnig á því að dráttarvextir verði ekki reiknaðir á endurgreiðslukröfur stefnanda fyrr en frá og með 5. janúar 2013, þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að þær hafi fyrst verið birtar stefnda.

Stefndi kveður stefnanda hafa lagt umræddar færslur á viðskiptareikningi stefnda til grundvallar endurgreiðslukröfum sínum. Sú fjárhæð sem hafi falist í færslunni sé tala sem ákveðin hafi verið með samkomulagi eigenda stefnanda árið 2009. Fjárhæðin hafi verið lán stefnda til stefnanda, en stefnandi telji hana vera skuld stefnda við sig og ætti hann að því að geta lagt fram gögn sem sýni hvernig skuldin sé tilkomin, til dæmis með úttektum stefnda eða öðru. Þetta hafi stefnandi ekki gert og telji stefndi því endurgreiðslukröfur stefnanda vera í andstöðu við e. og g. liði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þær skuli því lækka verulega eða hafna með öllu.

Þá kveðst stefndi mótmæla framkominni dráttarvaxtakröfu stefnanda á grundvelli þess að hana skorti lagastoð þar sem stefnandi byggi endurgreiðslukröfur sínar á reglu sem ekki byggi á skaðabótasjónarmiðum, sbr. 1. mgr. 142. gr., sbr. 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnandi hafi valið að byggja riftunarkröfu sína jöfnum höndum á riftunarreglum 131., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991, en síðastnefndu greinarnar tvær byggi á öðrum endurgreiðslugrundvelli en 131. gr. laganna. Engu að síður hafi stefnandi valið að byggja endurgreiðslukröfur sínar eingöngu á 1. mgr. 142. gr. sömu laga sem ekki gerir ráð fyrir þeim skaðabótasjónarmiðum sem 139. og 141. gr. laganna byggja á. Engu síður krefjist stefnandi dráttarvaxta á endurgreiðslukröfur sínar frá og með þeim degi sem umræddar millifærslur hafi verið gerðar og hann telji að bótaskylt atvik hafi átt sér stað. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu megi reikna dráttarvexti á skaðabótakröfur frá og með þeim degi sem bótaskylt atvik eigi sér stað og megi krefjast slíkra dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna án þess að hundraðshluti þeirra sé tilgreindur í stefnu.

Stefndi telji stefnanda þennan hátt þó ekki heimilan í fyrirliggjandi máli því hann hafi sjálfur valið að byggja endurgreiðslukröfur sínar alfarið á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sem ekki byggi á skaðabótagrundvelli. Af því leiði að hann geti ekki krafist dráttarvaxta frá 12. september 2011, heldur verði hann að byggja dráttarvaxtakröfu sína á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem miði við mánuð frá því að sannarlega var krafið um greiðslu. Stefnda hafi verið birt stefna í málinu 5. desember 2012 og þá hafi riftunar- og endurgreiðslukröfur stefnanda verið birtar honum í fyrsta sinn. Stefndi telji því að stefnandi geti ekki krafið hann um dráttarvexti fyrr en frá og með 5. janúar 2013 þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að stefnandi beindi endurgreiðslukröfum sínum fyrst að stefnda.

Stefndi byggir mál sitt í meginatriðum á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., meginreglum gjaldþrotaskiptaréttar og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá styður stefndi einnig mál sitt við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og almenn hegningarlög nr. 19/1940. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Bú félagsins H-12 ehf., áður Húsaness ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 8. september 2011. Frestdagur við skiptin var 7. apríl sama ár. Fyrirkall vegna kröfu um gjaldþrotaskipti á félaginu var birt fyrir stefnda 16. júní 2011.

Í málinu krefst stefnandi riftunar á ráðstöfun frá 12. september 2011, sem færð var í bókhaldi félagsins eins og hún hefði verið gerð 31. desember 2010, um að fella niður skuld stefnda samkvæmt viðskiptareikningi hans hjá félaginu, þá að fjárhæð 3.659.441 króna, með færslu á 3.749.235 krónum á viðskiptareikninginn sem leiddi til þess að inneign að fjárhæð 89.794 krónur myndaðist á reikningnum. Riftunarkröfuna byggir stefnandi aðallega á 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar segir að heimilt sé að rifta öðrum ráðstöfunum sem gerðar hafa verið eftir frestdag nema ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamanns, eðlileg af tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánadrottna eða til að fullnægja daglegum þörfum.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og byggir aðallega á því að heimfærsla stefnanda á nefndri bókhaldsfærslu undir „aðrar ráðstafanir“ samkvæmt 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé röng. Vísar stefndi til þess að færslur í bókhaldi stefnanda sem gerðar voru 12. september 2011 feli ekki í sér ráðstafanir í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. heldur hafi verið um að ræða leiðréttingu á rangri færslu bókhalds frá árinu 2009. Bendir stefndi á að 15.608.240 krónur, sem hafi verið greiddar til félagsins í því skyni að greiða skuld við Festu lífeyrissjóð, hafi verið millifærðar af viðskiptareikningi Margeirs Þorgeirssonar og deilt niður á eigendur félagsins í ákveðnum umsömdum hlutföllum. Samkvæmt þessu deila aðilar um það hvort tilgreindar færslur í bókhaldi félagsins feli í ráðstafanir í skilningi 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Fram er komið að endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hf. rannsakaði bókhald stefnanda að beiðni skiptastjóra. Í skýrslu um rannsóknina segir að 1. janúar 2008 hafi stefndi skuldað H-12 ehf. 7.059.082 krónur en 8. september 2011 hafi engin krafa verið á hendur stefnda. Um hinar umdeildu færslur segir orðrétt: „Þann 31. desember 2010 lækkaði skuld Halldórs við H-12 ehf. um kr. 3.749.235. Hér var um að ræða skuldajöfnun á viðskiptareikning Margeirs Þorgeirssonar. Telja verður óvenjulegt að umrædd skuldajöfnun hafi verið gerð þar sem Margeir tók persónulegt lán til þess að greiða skuldir H-12 ehf. ...... Með þessari skuldajöfnun er félagið að greiða Margeiri skuld sína við hann með kröfu sem félagið átti á Halldór. Bent skal á að skv. gögnum úr bókhaldi félagsins var umrædd færsla gerð þann 12. september 2011.“

Í skýrslu sem skiptastjóri þrotabús H-12 ehf. tók af Jennýju Lárusdóttur, fyrrverandi starfsmanni og bókara hins gjaldþrota félags 4. september 2012, kemur fram að hún kannist við að krafa Margeirs hafi verið notuð til að lækka skuld annarra eigenda við félagið. Hún þekki þó ekki það samkomulag á milli eigenda sem kunni að liggja að baki færslunum en telur að hún hafi fært færslur sem jöfnuðu viðskiptareikninga eigenda í bókhaldið 12. september 2011. Með því hafi menn eingöngu verið að ljúka ófrágengnum málum og líklegt sé að Jóhannes Ellertsson hafi óskað eftir því að þessar færslur yrðu gerðar á þessum tíma. Haft er eftir Jennýju í skýrslunni að allar tölur sem færðar hafi verið á viðskiptamannareikninga og beiðnir um slíkar færslur hafi verið komnar frá Jóhannesi Ellertssyni.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að lækkun skuldar á viðskiptareikningi stefnda var tilkomin vegna skuldajöfnunar við viðskiptareikning Margeirs Þorgeirssonar sem greiddi skuldir H-12 ehf. með persónulegu láni sem hann tók 14. ágúst 2009. Þannig var tilgangurinn með umræddum breytingum á stöðu á viðskiptareikningum eigenda sá að félagið greiddi skuldina við Margeir með kröfum sem félagið átti á stefnda og aðra fyrrum eigendur félagsins. Þá er upplýst að færslan hafi verið gerð 12. september 2011 og verður að miða breytinguna við það tímamark óháð því að henni hafi verið ætlað að taka gildi við lok ársins 2010 og hafi verið færð í bókhaldið 31. desember það ár. Að því virtu koma ekki til álita sjónarmið stefnanda um að umþrætt breyting á færslum í bókhaldi stefnanda sé gjafagerningur sem sé riftanlegur samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. enda eru sjónarmið stefnanda í þá veru einvörðungu byggð á því að ráðstöfunin verði miðuð við 31. desember 2010.

Að mati dómsins þykir ekkert það fram komið í málinu sem styður sjónarmið stefnda um að nefndar bókhaldsfærslur hafi verið leiðréttingar á rangri færslu bókhalds frá 2009. Þá þykir heldur ekki hafa verið sýnt fram á það að heimild hafi verið til slíkrar skuldajöfnunar sem að framan er getið og nægir í þeim efnum að vísa til þess að þegar færslurnar voru gerðar í bókhaldi stefnanda hafði bú H-12 ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Var Jóhannes Ellertsson því á engan hátt bær til þess að gefa fyrirmæli um að gera færslurnar, enda hafði skipaður skiptastjóri þegar tekið við umráðum búsins, sbr. 72. og 74. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnda var eða mátti vera kunnugt um gjaldþrot félagsins en fyrirkall vegna kröfu um gjaldþrotaskiptin var birt fyrir honum 16. júní 2011. Þá greindi Jóhannes Ellertsson frá því fyrir dómi að honum hefði verið kunnugt um það að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta þegar færslan var gerð.  

Sú háttsemi sem að framan er lýst um breytingar á viðskiptamannareikningum eigenda, er að mati dómsins ráðstöfun sem fellur undir regluna í 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. sem mælir fyrir um að heimilt sé að rifta öðrum ráðstöfunum. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða ráðstafanir geti talist aðrar ráðstafanir og verður að líta svo á reglan sé víðtæk og nái til hvers konar ráðstafana annarra en greiðslna sem gerðar hafa verið eftir frestdag. Fyrir liggur að skuld stefnda á viðskiptareikningi hans hjá félaginu var ekki lengur til staðar vegna hinnar umdeildu ráðstöfunar og er því uppfyllt það almenna skilyrði riftunar að þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni og að riftunin leiði til hærri úthlutunar úr búinu. Ekki eru nein efni til að fallast á að hin umdeilda ráðstöfun hafi verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamanns, að hún hafi verið eðlileg með tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánadrottna eða til að fullnægja daglegum þörfum.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sínar einnig á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem ráðstöfunin hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið til þess að krafa á hendur stefnda hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum og að stefndi hafi vitað eða mátt vita á þeim tíma sem ráðstöfunin var gerð að stefnandi var ógjaldfær. Stefndi mótmælir þessu og bendir á að skilyrði skorti til þess að beita megi 141. gr. laganna þar sem stefndi sé ekki kröfuhafi í skilningi laganna. Fallist er á þetta með stefnda enda er ekki upplýst í málinu að stefndi sé kröfuhafi í búi stefnanda og verður krafa stefnanda um riftun því ekki byggð á ákvæðum 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Samkvæmt því sem fram er komið verður fallist á dómkröfu stefnanda um að rift verði samkvæmt 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 þeirri ráðstöfun H-12 ehf. frá 12. september 2011 að fella niður skuld stefnda á viðskiptareikningi hans hjá félaginu. Að því er varðar gildi ætlaðs samnings á milli hluthafa félagsins vegna láns frá Festu lífeyrissjóði þá hefur hann ekki áhrif á niðurstöðu málsins þegar af þeirri ástæðu að hvorki stefndi né aðrir hluthafar félagsins voru bærir til þess að ráðstafa hagsmunum félagsins eftir að það hafði verið úrskurðað gjaldþrota.

Sú ráðstöfun að millifæra 3.749.235 krónur inn á viðskiptareikning stefnda hjá hinu gjaldþrota félagi og fella með því niður skuld hans við félagið var til hagsbóta fyrir stefnda að því leyti að hann varð við þá ráðstöfun skuldlaus við félagið. Fari riftun fram samkvæmt 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal sá sem hag hafði af ritanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Í samræmi við framangreinda niðurstöðu dómsins um riftun verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda bætur sem nema sömu fjárhæð og þeirri sem stefndi hagnaðist um með ráðstöfuninni, eða 3.749.235 krónur, með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Varakrafa stefnda um lækkun á umkröfðum fjárhæðum er studd sömu rökum og sýknukrafa stefnda. Í samræmi við niðurstöðu dómsins um að fallast á riftunarkröfu stefnanda og greiðslu á fjárhæð aðalkröfu stefnanda, 3.749.235 krónur, kemur varakrafa stefnda ekki til álita.

Krafa stefnda um sýknu er öðrum þræði byggð á skuldajöfnuði, 6.000.000 króna, samkvæmt heimild í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfuna byggir stefnandi á 5. gr. í ráðningarsamningi milli Húsaness ehf. og stefnda. Þar segir að félagið leggi til og reki bifreið fyrir stefnda að fjárhæð 6.000.000 króna. Að mati dómsins felur ákvæðið í sér fyrirheit félagsins um að leggja stefnda til bifreið að greindu verðmæti til afnota fremur en að stefndi hafi á grundvelli ákvæðisins öðlast fjárkröfu á hendur stefnanda. Verður því ekki fallist á það með stefnda að ákvæði ráðningasamningsins feli í sér fjárkröfu sem stefndi eigi á stefnanda þannig að uppfylli skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Er kröfu stefnda um skuldajöfnuð hafnað.

Stefnandi krefst dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 á endurgreiðslukröfuna frá 12. september 2011 eða frá þeim degi þegar umþrættar millifærslur voru gerðar og til greiðsludags. Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda á þeim grundvelli að hana skorti lagastoð enda byggi stefnandi endurgreiðslukröfuna á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., það er reglu sem ekki byggi á skaðabótasjónarmiðum. Fallist hefur verið á riftun þeirra ráðstafana sem um ræðir á grundvelli 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og endurgreiðslu samkvæmt aðalkröfu stefnanda. Byggir sú niðurstaða á 3. mgr. 142. gr. laganna en til greinarinnar er vísað í stefnu í kaflanum um lagarök. Að auki þykir ljóst að stefnandi reisir kröfu sína um endurgreiðslu úr hendi stefnda á því að búið hafi orðið fyrir tjóni af ráðstöfuninni. Á hinn boginn liggur fyrir að stefnandi krefst einvörðungu dráttarvaxta á endurgreiðslu kröfu sína samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Rétt þykir að fallast á kröfu stefnanda um að greiðslan beri dráttarvexti, en þó þannig að upphafstími dráttarvaxta verði 5. janúar 2013 þegar mánuður var liðinn frá því að stefndi beindi fyrst endurgreiðslukröfu að stefnda en það var með birtingu stefnu í máli þessu 5. desember 2012, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til þess að mál þetta er samkynja tveimur öðrum málum sem rekin hafa verið samhliða máli þessu.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Rift er þeirri ráðstöfun H-12 ehf. frá 12. september 2011, sem færð var í bókhald félagsins eins og hún hefði verið gerð 31. desember 2010, um að fella niður skuld stefnda, Halldórs Karls Ragnarssonar, samkvæmt viðskiptareikningi hans hjá félaginu, sem nam 3.659.441 krónu, með færslu á 3.749.235 krónum inn á reikninginn þannig að staða hans varð jákvæð um 89.794 krónur.

Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi H-12 ehf., 3.749.235 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtyggingu frá 5. janúar 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.