Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2009


Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Ölvunarakstur
  • Blóðsýni
  • Þvagsýn


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. október 2009.

Nr. 178/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

Rúnari Pálmarssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Umferðarlög. Ölvunarakstur. Blóðsýni. Þvagsýni.

R var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis, sviptur ökurétti ævilangt. Við ákvörðun refsingar R var litið til þess að með brotinu hafði R nú í fjórða skiptið verið sakfelldur fyrir ölvunarakstur og í fimmta sinn ítrekað verið sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti. Að þessu virtu var refsing ákærða hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi auk þess sem ævilöng svipting R var áréttuð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar refsingar.

Ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf ríkissaksóknara frá 26. maí 2009 til rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafærði. Í því er spurt um mat á ætluðu alkóhólmagni í blóði ákærða á ætluðum tíma umferðarslyss í ljósi tímasetninga töku blóð- og þvagsýna og rannsókna á þeim sýnum. Miðað er við þær forsendur að ákærði hafi drukkið tvö glös af sterku áfengi um klukkan 01.00. Einnig eru lögð fram svör rannsóknarstofunnar 12. júní 2009. Þar kemur meðal annars fram að rannsóknin bendi til þess að ákærði hafi byrjað drykkju fyrir klukkan 01.00. Síðan segir eftir frekari umfjöllun um áðurnefnd rannsóknargögn: „Samkvæmt þessu hefur viðkomandi drukkið mikið áfengi fyrr þetta kvöld og því verið ölvaður kl. 23:30. Hinn geysihái etanólstyrkur í þvaginu styður þessa niðurstöðu.“

Vitnin A og B tóku ákærða upp í bíl sinn og óku honum á Mótel Venus í Hvalfjarðarsveit. A bar fyrir dómi að ákærði hefði virst nýskriðinn upp úr skurðinum og að hann hefði ekki verið langt frá bifreiðinni. Við skýrslutöku hjá lögreglu báru þau bæði að maðurinn hefði verið ölvaður. Um þetta voru þau ekki spurð fyrir dómi eins og rétt hefði verið. Engu að síður er fram komin fullnægjandi sönnun fyrir sekt ákærða. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaðs dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Rúnar Pálmarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 260.640 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda sín fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 2. mars 2009.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn í Borgarnesi með ákæru 3. október 2008 á hendur ákærða, Rúnari Pálmarssyni, kt. 290477-4849, Álftamýri 58 í Reykjavík. Málið var dómtekið 13. febrúar 2008.

Í ákæruskjali er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot „með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 8. desember 2007, sviptur ökurétti ævilangt, ekið bifreiðinni VF-368, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði teknu kl. 01:30 var 2,21 prómill, vínandamagn í blóði teknu kl. 02:30 var 2,32 prómill, vínandamagn í þvagi teknu kl. 01:26 var 2,71 prómill), eftir Snæfellsnesvegi, þar til á móts við Hítará, þar sem akstrinum lauk með því að hann missti stjórn á bifreiðinni sem fór út af veginum og hvolfdi ofan í skurð, og síðan stungið af frá slysstað með því að fara þaðan á Mótel Venus í Hvalfjarðarsveit, þar sem hann var síðan handtekinn.“ Er þetta talið varða við 1. mgr. 10. gr. og 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., en til vara 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 með síðari breytingum.

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga. Við munnlegan flutning málsins var þess einnig krafist að ákærða yrði gert að greiða sakarkostnað.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð svo væg viðurlög sem lög frekast leyfa.

I.

Í frumskýrslu lögreglu er tildrögum málsins lýst þannig að lögreglu hafi laust fyrir miðnætti 8. desember borist tilkynning um mann á gangi á miðjum Snæfellsnesvegi skammt sunnan við Hítará. Stuttu síðar hafi borist önnur tilkynning þess efnis að bifreiðin VF-368 væri á hvolfi utan vegar skammt frá Hítará, en enginn væri í bifreiðinni né við hana. Skráður eigandi þeirrar bifreiðar er C.

Tveir lögreglumenn fóru akandi með forgangi á vettvang og fundu bifreiðina ofan í skurði fyrir neðan Snæfellsnesveg skammt sunnan við Hítará. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að mikil áfengislykt hafi verið í bifreiðinni. Einnig segir að leitað hafi verið árangurslaust á vettvangi að ökumanni. Framhaldinu er síðan lýst þannig að eftir nokkra stund hafi komið akandi ábúendur á nærliggjandi bæ, D, hjónin A og B. Voru þau að koma frá Borgarnesi og er eftirfarandi haft eftir þeim í skýrslu lögreglu: „Hjónin tjáðu okkur það að þau hafi tekið mann upp í á vettvangi sem var blautur, drullugur og kaldur. Sögðust þau hafa ekið honum á Mótel Venus að hans ósk. Að þeirra sögn kvaðst hann hafa ekið útaf og hann væri próflaus. Einnig varð hann „vitlaus“ er þau minntust á að hafa samband við lögreglu. Aðspurð kváðu þau manninn hafa verið ölvaðan.“

Eftir að hafa hitt hjónin fóru lögreglumennirnir akandi að Mótel Venus og hittu fyrir ákærða. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að hann hafi setið með tæplega hálfa flösku af sterku áfengi fyrir framan sig. Var ákærði handtekinn og kemur fram í gögnum málsins að handtakan hafi farið fram kl. 1 um nóttina. Einnig segir að ákærði hafi verið drullugur upp fyrir haus og angað af mýrardrullu auk áfengis.

Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir E, eiganda Mótel Venus, að ákærði hafi nýlega verið kominn, illa til fara og verið búinn að drekka tvö glös af hálfri flösku af sterku áfengi sem E seldi honum.

Í þágu rannsóknar voru dregin blóðsýni úr ákærða auk þess sem tekið var þvag hjá honum. Í ákæru kemur fram hvenær sýni voru tekin og niðurstöður mælinga á alkóhóli að teknu tilliti til venjubundinna vikmarka.

Vegna ölvunarástands var ákærði ekki yfirheyrður í kjölfar handtöku. Með tölvubréfi 4. júní 2008 til lögmanns ákærða var þess farið á leit að ákærði upplýsti hvort hann væri reiðubúinn að gefa skýrslu um málið eða hvort hann ætlaði að nýta sér rétt sinn til að tjá sig ekki um málið. Þessu erindi var ekki svarað og ákærði gaf ekki skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu.

II.

Fyrir dómi neitaði ákærði sakargiftum og lýsti málsatvikum þannig að umræddan dag um kvöldmatarleytið hefði hann farið ásamt félaga sínum F akandi frá Ólafsvík áleiðis til Reykjavíkur. Ákærði sagði að F hefði ekið bifreiðinni og kvaðst ákærði hafa verið allsgáður þegar þeir lögðu af stað. Ákærði tók þó fram að hann hefði drukkið einn áfengan bjór á leiðinni. Um framhaldið sagði ákærði að F hefði misst stjórn á bifreiðinni sem hafnað hefði ofan í skurði. Við það hefði F komist í mikið uppnám þar sem hann hefði verið búinn að neyta áfengis án þess þó að ákærði gerði sér grein fyrir því. Ákærði kvaðst þá hafa sagt við F að hann ætlaði að taka þetta á sig. Þeir hefðu svo skömmu síðar stöðvað bifreið sem átti leið framhjá og hefði F fengið far með henni til Reykjavíkur. Hins vegar hefði ekki verið laust sæti fyrir ákærða í þeirri bifreið.

Eftir að hafa skilið við F sagði ákærði að hann hefði gengið eftir veginum í hálfa til eina klukkustund og bifreiðar ekið framhjá en hann loks fengið far með eldri hjónum sem hefðu ekið sér á Hótel Venus, sem er staðsett skammt sunnan við Borgarfjarðarbrú. Ákærði sagði að hann hefði verið blautur og kaldur þegar hann gekk eftir veginum. Til að halda á sér hita kvaðst hann hafa tekið með sér hálfa flösku af óblönduðu Vodka úr bifreiðinni og haldið á sér hita með göngu og drykkju. Hann hefði svo hent flöskunni áður en hann fékk far í bifreiðinni með hjónunum. Þegar ákærði kom á Hótel Venus sagðist hann hafa pantað heila flösku af Whisky og verið búinn að drekka ríflega helming af henni þegar hann var handtekinn.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki vita eftirnafn F eða geta sagt á honum frekari deili. Hann hefði síðan farið af landi brott fyrir jól og hvorki komið aftur né haft samband við ákærða. Kom fram að F hefði verið að vinna hjá ákærða án þess þó að ákærði greiddi honum laun. Einnig sagði ákærði að F hefði fyrir þennan atburð verið búinn að lenda í einhverju veseni í Bandaríkjunum og því hefði hann ekki viljað lenda í frekari vandræðum.

III.

Vitnið A bar fyrir dómi að hann og eiginkona sín, B, hefðu verið á heimleið frá Hótel Glym í Hvalfirði að D þegar þau hefðu tekið eftir bifreið ofan í skurði vestur undir Hítará. Taldi vitnið að þetta hafi verið milli kl. 11.30 og 12 um nóttina. Skömmu síðar hefðu þau séð til ákærða gangandi eftir þjóðveginum til vesturs. Hann hefði verið illa klæddur, blautur og kaldur og hefðu þau tekið hann upp í bifreiðina til sín. Þau hefðu síðan að beiðni ákærða ekið honum á Mótel Venus, en þangað hefðu þau komið milli kl. 12 og 1 um nóttina. Aðspurt taldi vitnið að ekki hefði langur tími liðið frá því ákærði lenti í slysinu og þar til þau bar að. Einnig sagði vitnið að ákærði hefði alls ekki viljað að haft yrði samband við lögreglu. Loks sagði vitnið að fram hefði komið hjá ákærða að ekki hefðu verið aðrir en hann í bifreiðinni.

Vitnið B greindi frá því fyrir dómi að hún og eiginmaður hennar hefðu verið á heimleið seint um kvöld þegar þau tóku eftir bifreið úti í skurði nærri jörðinni Brúarfossi. Skömmu síðar hefðu þau síðan tekið eftir ákærða gangandi eftir vegarkantinum. Vitnið, sem ók bifreið þeirra hjóna sagðist hafa tekið ákærða upp í en hann hefði verið kaldur og blautur en frost hefði verið úti. Að beiðni ákærða hefðu þau hjónin síðan ekið honum að Mótel Venus. Aðspurð sagði B að þau hjónin hefðu ekki kallað eftir aðstoð en ákærði hefði alls ekki viljað að haft yrði samband við lögreglu.

Vitnið E, veitingamaður á Mótel Venus, kom fyrir dóm að sagði að ákærði hefði komið í annarlegu ástandi illa til reika seint um kvöldið eða nóttina. Hann hefði verið drullugur og að því er vitnið minnti bara á öðrum skónum. Ákærði hefði beðið um gistingu sem hann hefði fengið. Aðspurt mundi vitnið ekki hvort ákærði hefði keypt áfengi en taldi það þó hugsanlegt. Frekar kvaðst vitnið ekki muna eftir atvikum málsins.

Vitnið C, skráður eigandi bifreiðarinnar VF-368, sagði fyrir dómi að hann hefði í raun ekki átt bifreiðina. Kvaðst vitnið hafa starfað hjá ákærða og þessi bifreið hefði verið notuð við þá vinnu. Fram kom hjá vitninu að F hefði stundum ekið bifreiðinni en vitnið vissi ekki til þess að hann hefði verið að aka bifreiðinni í umrætt sinn.

Vitnið Trausti Jónsson, lögreglumaður, bar fyrir dómi að hann hefði farið á vettvang þar sem bifreið hefði verið ekið út af á Snæfellsnesvegi. Bifreiðin hefði verið mannlaus og hvorki fundist ökumaður né hugsanlegir farþegar. Eftir að hafa hitt ábúendurna á D sagðist vitnið hafa farið að Mótel Venus þar sem ákærði hefði verið handtekinn. Þar sagði vitnið að komið hefði verið að ákærða þar sem hann sat við borð með tæplega hálfa flösku af áfengi og glas fyrir framan sig. Einnig sagði vitnið að E veitingamaður hefði sagt að ákærði væri búinn að drekka tvö glös af áfengi.

Vitnið Kristján Ingi Hjörvarsson, lögregluvarðstjóri, greindi frá því fyrir dómi að tilkynningar hefðu borist lögreglu um að bifreið hefði hafnað utan vegar við Hítará og að þar væri maður í vegarkantinum. Á vettvangi hefði engan verið að sjá en síðan hefðu komið ábúendur að D og sagt að þau hefðu ekið ákærða að Mótel Venus. Vitnið kvaðst þá hafa farið rakleitt þangað til að handtaka ákærða. Á mótelinu hefði lögregla komið að ákærða drullugum með áverka þar sem hann sat í sófa með glas og hálfa flösku af sterku áfengi hjá sér. Einnig sagði vitnið að fram hefði komið hjá veitingamanni að ákærða hefði verið seld áfengisflaska sem hann hefði lítillega verið búinn að drekka af.

IV.

Ákærði hefur fyrir dómi staðfastlega neitað að hafa ekið bifreiðinni VF-368 aðfaranótt 8. desember 2007, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Hefur ákærði skýrt svo frá að maður að nafni F hafi ekið bifreiðinni áður en hún hafnaði utan vegar, en sá maður hafi fengið far til Reykjavíkur með bifreið sem átti leið hjá. Í þeirri bifreið hafi hins vegar ekki verið laust sæti fyrir ákærða. Þá hefur ákærði borið að hann hafi fyrst eftir að akstrinum lauk drukkið áfengi, ef frá er talinn einn bjór sem hann drakk á leiðinni.

Ákærði hefur ekki getað sagt nein deili á umræddum F að öðru leyti en því að hann sé útlendingur sem dvelji ekki lengur hér á landi. Einnig liggur ekkert nánar fyrir hver á að hafa verið á ferð sem tók umræddan mann upp í bifreið sína og yfirgaf ákærða undir miðnætti um hávetur á Snæfellsnesvegi, illa til reika eftir að hafa lent í umferðarslysi. Er þessi frásögn öll, sem fær enga stoð í því sem komið hefur fram í málinu, með miklum ólíkindum. Þá er einnig ríkur ólíkindablær á þeim framburði ákærða að hann hafi nánast allsgáður sturtað í sig taumlaust miklu magni af sterku áfengi eftir slysið, fyrst á gangi eftir Snæfellsnesvegi og síðan á Mótel Venus.

Vitnin A og B, sem tóku ákærða upp í bifreið sína, hafa bæði sagt fyrir dómi að ákærði hafi verið illa til reika, bæði blautur og kaldur. Einnig sögðu þau að ákærði hefði lagt ríka áherslu á að ekki yrði kallað eftir aðstoð lögreglu. Þá sagði A að fram hefði komið hjá ákærða að aðrir hefðu ekki verið í bifreiðinni. Jafnframt er til þess að líta að það dregur úr trúverðugleika frásagnar ákærða að hann hreyfði því fyrst við meðferð málsins hér fyrir dómi að hann hefði verið farþegi í bifreiðinni en augljóst tilefni var fyrir ákærða að greina frá þessu sem fyrst svo þetta yrði kannað við rannsókn málsins, ef það gat orðið til að létta grunsemdum af ákærða. Að öllu þessu virtu þykir sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn.

Þegar ákærði var handtekinn á Mótel Venus kl. 1 um nóttina sat hann með glas og flösku af sterku áfengi. Vitnið E, veitingamaður, bar fyrir dómi að hann gæti ekki fullyrt hvort hann hefði selt ákærða áfengi en það væri vel hugsanlegt. Þeir lögreglumenn sem handtóku ákærða sögðu hins vegar í vitnisburði sínum að veitingamaðurinn hefði við handtökuna sagt að ákærði hefði ekki verið búinn að drekka teljandi magn af áfengi. Þá er ekki hægt að útiloka að ákærði hafi á vettvangi drukkið eitthvað af áfengi eftir slysið. Loks benda niðurstöður mælinga á alkóhóli í blóði ákærða til að hann hafi rétt fyrir handtökuna neytt áfengis, en magn áfengis í blóði sem dregið var kl. 2.30 var lítillega hærra en magn áfengis í blóði sem dregið var klukkustund fyrr. Þegar á hinn bóginn er virt það mikla magn áfengis sem mældist í þvagi ákærða, sem tekið var frá honum tæpum hálftíma eftir að ákærði var handtekinn kl. 1 um nóttina, er óhætt að slá því föstu að ákærði hafi ekki aðeins drukkið áfengi eftir slysið sem varð þegar langt var liðið á kvöldið, eftir því sem ákærði hefur sjálfur sagt. Er þá einnig til þess að líta að ákærði hefur tæplega getað dvalið lengi úti við eins og hann var búinn og á sig kominn miðað við vætti þeirra sem um hafa borið. Að þessu virtu og þar sem ekki verður byggt á ótrúverðugri og á köflum fráleitri frásögn ákærða er heldur ekki varhugavert að leggja til grundvallar að ákærði hafi verið mjög ölvaður þegar hann ók í umrætt sinn.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, að ákærði hafi sviptur ökurétti ekið í umrætt sinn undir áhrifum áfengis. Verður brot ákærða talið varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Að öllum aðstæðum virtum verður ákærði hins vegar ekki sakfelldur fyrir að hafa yfirgefið vettvang, eins og honum er gefið að sök.

V.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.

Ákærði, sem er 31 árs að aldri, hefur frá árinu 1995 hlotið sex dóma og fimm sinnum gengist undir viðurlög fyrir dómi og hjá lögreglu fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði hlaut síðast dóm 26. mars 2007 en þá var hann sakfelldur fyrir að hafa þrívegis ekið sviptur ökurétti og í eitt sinn undir áhrifum áfengis. Með þeim dómi var ákærði einnig sakfelldur fyrir nytjastuld og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var refsing ákveðin sex mánaða fangelsi.

Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann í fjórða sinn ítrekað verið sakfelldur fyrir ölvunarakstur og í fimmta sinn ítrekað verið sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti. Að virtum þessum sakaferli þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi.

Ákærði hefur verið sviptur ökurétti ævilangt frá 4. október 2004. Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga ber að árétta þá sviptingu.

Loks verður ákærði samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar samkvæmt yfirliti lögreglu um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærði dæmdur til að greiða ferðakostnað verjanda. Er nægjanlegt að krafa um greiðslu sakarkostnaðar hafi komið fram við munnlegan flutning málsins, en ákæran var gefin út í tíð eldri laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, þar sem ekki var gerður sá áskilnaður að slík krafa kæmi fram í ákæru, sbr. nú e-liður 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

 Ákærði, Rúnar Pálmarsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 294.701 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlendar Þórs Gunnarssonar, héraðsdómslögmanns, 223.104 krónur og ferðakostnað verjandans 15.400 krónur.