Hæstiréttur íslands
Mál nr. 573/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Réttaráhrif dóms
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 9. september 2014. |
|
Nr. 573/2014.
|
Sveinn Skúlason (Skúli Sveinsson hdl.) gegn Hnúksnesi ehf. (Ingi Tryggvason hrl.) |
Kærumál. Réttaráhrif dóms. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S gegn H ehf. var vísað frá dómi. Í málinu krafðist S þess að vikið yrði til hliðar ákvæði lóðarleigusamnings aðila er kvað á um leigugjald fyrir lóðina og útreikning þess sem og að viðurkennt yrði að endurgjaldið skyldi vera tiltekinnar fjárhæðar. Héraðsdómur vísaði til þess að krafa S fæli í sér að leigusamningur aðila yrði felldur úr gildi að hluta. Hefði S ásamt öðrum aðila áður höfðað mál á hendur H ehf. þar sem krafist hefði verið viðurkenningar á því að afnotaréttur H ehf. samkvæmt samningnum hefði fallið niður. Með vísan til dóms Hæstaréttar í því máli taldi héraðsdómur að fyrir lægi bindandi úrlausn um sakarefnið, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur vísaði til þess að í fyrra máli aðilanna hefði hvorki verið felldur efnisdómur á dómkröfu S né málsástæður sem byggju henni að baki. Væru því engin efni til að líta svo á að ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 stæðu málsókn S í vegi. Var hann kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. júlí 2014, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu Jóhannes Sigurðsson, þáverandi eigandi jarðarinnar Hnúks sem nú er í Dalabyggð, og Sigurður Ágústsson samning 15. október 1967 um leigu á nánar afmarkaðri lóð, sem sögð var 1.500 m2 að stærð, úr landi jarðarinnar „undir verzlunarhús, sláturhús, frystihús og fleira“. Tekið var fram í samningnum að leigutaka væri heimilt að reisa á lóðinni hver þau mannvirki, sem hann óskaði, svo og að hún væri leigð á erfðafestu, en ársleiga skyldi vera 500 krónur, sem átti að taka breytingum eftir fasteignamatsverði jarðarinnar. Sóknaraðili er nú eigandi jarðarinnar, en varnaraðili hefur tekið við réttindum og skyldum leigutaka samkvæmt samningnum.
Sóknaraðili höfðaði mál gegn varnaraðila 16. nóvember 2004 og krafðist þess að viðurkennt yrði að afnotaréttur varnaraðila samkvæmt framangreindum samningi hafi fallið niður í síðasta lagi frá 1. september 2003. Sóknaraðili reisti kröfu þessa á því að hann hafi 21. ágúst 2002 sagt samningnum upp frá 1. september 2003 að telja vegna brostinna forsendna og vanefnda varnaraðila, en jafnframt að sér hafi af sömu ástæðum verið heimilt að rifta samningnum. Í því sambandi vísaði sóknaraðili til þess að mælt væri svo fyrir í samningnum að lóðin væri leigð út í ákveðnum tilgangi og að leiga skyldi greidd fyrir hana, en varnaraðili hafi bæði hætt þessari starfsemi og vanefnt greiðsluskyldu sína. Þá hafi varnaraðili vanrækt verulega að halda við mannvirkjum á lóðinni og væru þau að grotna niður auk þess sem mengunarhætta stafaði af þeim. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 25. október 2005 var varnaraðili sýknaður af kröfu sóknaraðila og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 15. júní 2006 í máli nr. 43/2006.
Sóknaraðili höfðaði 31. október 2013 málið, sem hér er til meðferðar, og gerði þá dómkröfu í héraðsdómsstefnu „að vikið verði til hliðar 3. grein lóðarleigusamnings aðila frá 15. október 1967, er kveður á um leigugjald og útreikning þess fyrir leigulóð stefnda í Hnúksnesi í landi jarðarinnar Hnúks ... og að viðurkennt verði að framvegis skuli árlegt endurgjald fyrir leigu lóðarinnar vera að fjárhæð kr. 80.000.- og að sú fjárhæð skuli vera verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs 411,3 stig“. Í máli aðilanna, sem lauk með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 15. júní 2006, var hvorki felldur efnisdómur á þessa dómkröfu sóknaraðila né málsástæður, sem búa henni að baki. Eru því engin efni til að líta svo á að ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 standi þessari málsókn í vegi. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Hnúksnes ehf., greiði sóknaraðila, Sveini Skúlasyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. júlí 2014.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. mars sl. en endurupptekið og flutt að nýju 21. júlí 2014 er höfðað með stefnu birtri 31. október 2013.
Stefnandi er Sveinn Skúlason Flókagötu 67, Reykjavík.
Stefndi er Hnúksnes Geirmundarstöðum, Búðardal.
Dómkröfur stefnanda eru þær að vikið verði til hliðar 3. grein lóðarleigusamnings aðila frá 15. október 1967, er kveður á um leigugjald og útreikning þess fyrir leigulóð stefnda í Hnúksnesi í landi jarðarinnar Hnúks, Fellsströnd, Dalabyggð, sbr. leigusamning frá15. október 1967, og að viðurkennt verði að framvegis skuli árlegt endurgjald fyrir leigu lóðarinnar vera að fjárhæð 80.000 krónur og að sú fjárhæð skuli vera verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs 411,3 stig, sem reiknuð var og útgefin af Hagstofu Íslands fyrir maí mánuð 2013.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi Hnúksnes ehf. gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara krefst stefndi þess að verða alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Krafa stefnda um frávísun málsins er til meðferðar hér.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að kveðinn hafi verið upp dómur (Hrd. 43/2006) um ágreining aðila eins og stefnandi leggur hann nú fyrir dóm og sá dómur hafi res judicata áhrif, sbr. 2. mgr. 116. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í fyrrgreindum héraðsdómi, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti, komi m.a. fram að með leigusamningnum frá 1967 hafi „lóðin verið leigð á erfðafestu ótímabundið og án heimildar til uppsagnar. Eftir óskráðum reglum sem gilda um slíka grunnleigu var því ekki unnt að binda enda á samninginn fyrir uppsögn. Þá verður ekki fallist á það með stefnendum að samningurinn hafi fallið niður á grundvelli sjónarmiða um brostnar forsendur, enda hefur ekki verið leitt í ljós að gerður hafi verið áskilnaður af nokkru tagi við leigu lóðarinnar um tiltekna nýtingu hennar. Verður slíkt ekki ráðið af því að þær byggingar sem þegar höfðu verið reistar við leigu lóðarinnar voru tilgreindar með hliðsjón af notkun þeirra á þeim tíma, auk þess sem leigutaka var beinlínis veitt sjálfdæmi um hagnýtingu lóðarinnar með því að reisa þau mannvirki á lóðinni sem hann óskaði." Í dóminum komi síðan fram að áður „en greiðsla í peningum gat farið fram í samræmi við leigusamninginn þurfti að reikna fjárhæð leigunnar í samræmi við breytingar á fasteignamati jarðarinnar í tæplega hálfa öld. Eftir almennum reglum kröfuréttar kom í hlut stefnenda sem kröfuhafa að afla slíks útreiknings og krefja síðan stefnda á grundvelli hans."
Stefndi telur að með þessum dómi hafi verið dæmt að í gildi sé leigusamningur milli aðila og engar forsendur séu til staðar til að gera breytingar á honum. Það sem eftir standi sé ágreiningur aðila um það hvernig reikna skuli út leigu fyrir 1óðina samkvæmt upphaflegum leigusamningi. Stefndi sé tilbúinn að greiða umsamda leigu en fjárhæð hennar verði að finna út á grundvelli gildandi leigusamnings. Þar sem aðilar séu ekki sammála um hvernig reikna eigi út leigufjárhæðina samkvæmt gildandi leigusamningi sé það í verkahring stefnanda að leiða þann ágreining til lykta vilji hann innheimta leigu hjá stefnda umfram það sem hann hafi greitt undanfarin ár. Um annað hafi fyrrnefndur dómur res judicata áhrif, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því verði að vísa máli þessu frá dómi.
Af hálfu stefnanda er frávísunaráköfu stefnda mótmælt og því haldið fram að með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 43/2006 hafi verið dæmt um þá kröfu stefnenda að afnotaréttur samkvæmt leigusamningnum frá 15. október 1967 hafi verið fallin niður í síðasta lagi frá 1. september 2003. Hér sé aftur á móti gerð krafa um að hluta leigusamningsins verði viki til hliðar og því um aðra kröfu að ræða en dæmt var um í nefndum dómi. Eigi ákvæði 116. gr. laga um meðferð einkamála því ekki við hér og hafna beri kröfu stefnda um frávísun.
Dómkröfur stefnanda í þessu máli fela í reynd í sér að leigusamningur aðila verði felldur úr gildi að hluta til, þ.e. að III. gr. hans, sem mælir fyrir um hvert leigugjald skuli vera og hvernig það sé reiknað út, verði vikið til hliðar. Í máli sem stefnandi höfðaði 16. nóvember 2004 ásamt öðrum aðila á hendur stefnda í þessu máli var sú krafa gerð að viðurkennt yrði að í síðasta lagi frá 1. september 2003 hafi fallið niður afnotaréttur stefnda samkvæmt leigusamningi 15. október 1967. Fyrir liggur dómur Hæstaréttar frá 25. júní 2006 þar sem fram kemur að samningur aðila sé í gildi og að honum verði ekki sagt upp og lítur dómari svo á að fyrir liggi bindandi úrlausn um það sakarefni sem hér er lagt fyrir dóminn sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og verður máli þessu því vísað frá dómi svo sem krafist er af stefnda. Eftir úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda 250.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi Sveinn Skúlason, greiði stefnda Hnúksnesi 250.000 krónur í málskostnað.