Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2004
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Aðilaskipti
|
|
Fimmtudaginn 24. febrúar 2005. |
|
Nr. 375/2004. |
Blaðamannafélag Íslands(Atli Gíslason hrl.) gegn Frétt ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Aðilaskipti að fyrirtækjum.
B krafði F ehf. um vangoldin laun blaðamannsins G vegna starfa hans hjá Fréttablaðinu. Hafði blaðamaðurinn starfað hjá blaðinu þegar útgefandi þess var Fréttablaðið ehf. og gert við það ráðningarsamning. Það félag rataði hins vegar í mikla rekstrarerfiðleika og voru laun ekki greidd. F ehf. festi kaup á rekstri blaðsins, nafni, aðstöðu, vélum, tækjum og fleira. Samkvæmt kaupsamningnum tók F ehf. ekki að sér ábyrgð á ógreiddum launum annarra starfsmanna Fréttablaðsins en blaðburðarfólks. Hélt B því fram að F ehf. væri samkvæmt lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum ábyrgt fyrir ógreiddum launum G, þrátt fyrir gagnstætt ákvæði kaupsamningsins, bæði fyrir gerð samningsins og eftir hann, fram til þess að hann gerði ráðningarsamning við F ehf. Í dómi Hæstaréttar þótti, með vísan til tilgangs kaupanna og þess að flestir starfsmannanna héldu áfram störfum, fullljóst að um aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002 hefði verið að ræða. Tekið var fram að ákvæði laganna fjölluðu um réttarstöðu starfsmanna en ekki um skuldir framseljanda og leiddu til þess að starfsmenn ynnu hjá framsalshafa eftir aðilaskiptin á sömu kjörum og áður. Var talið að réttur B til ógreiddra launa G fyrir aðilaskiptin yrði því ekki byggður á lögum nr. 72/2002. Hins vegar hefði F ehf. borið að virða ráðningarsamning hans við Fréttablaðið ehf. frá því kaupsamningur var gerður og fram til þess að við G var gerður nýr ráðningarsamningur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. september 2004. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til greiðslu 1.001.081 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 151.732 krónum frá 15. janúar 2002 til 15. apríl sama ár, af 283.400 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 513.650 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 658.324 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 1.001.081 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði 8. nóvember 2004. Krefst hann sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda og greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Í máli þessu krefur aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um vangoldin laun Garðars Arnar Úlfarssonar blaðamanns vegna starfa hans hjá Fréttablaðinu. Hefur Garðar Örn framselt kröfuna til stéttarfélags síns. Garðar Örn hóf störf hjá blaðinu um mánaðarmótin apríl/maí 2001, eða skömmu eftir að útgáfa þess hófst, og var gerður við hann sérstakur ráðningarsamningur. Útgefandi var þá Fréttablaðið ehf. Það félag rataði í mikla rekstrarerfiðleika um mitt ár 2002, sem leiddi til þess að laun blaðamanna og annarra starfsmanna voru ekki greidd. Vanskil þessi urðu til þess að Garðar Örn og aðrir blaðamenn lögðu niður vinnu 24. júní 2002. Samkomulag varð þó um að blaðið kæmi út daginn eftir, en síðan hætti Fréttablaðið ehf. að gefa blaðið út. Með kaupsamningi þann dag keyptu þeir Ragnar Tómasson og Gunnar Smári Egilsson rekstur blaðsins, nafn, aðstöðu, vélar, tæki og fleira, í umboði óstofnaðs hlutafélags, sem síðar varð gagnáfrýjandi, fyrir 15.000.000 krónur. Kaupverðið skyldi efna með greiðslu launa blaðbera Fréttablaðsins allt að sömu fjárhæð, en mismunur ganga til seljanda. Sérstaklega var tekið fram að kaupandi yfirtæki ekki aðrar skuldir eða kvaðir en sem beinlínis væru tilgreindar í samningnum, þar með ekki ógreidd laun starfsmanna, skatta og gjöld Fréttablaðsins ehf. Sérstakur afhendingardagur var ekki tiltekinn í samningnum, en hann var gerður með þeim fyrirvara að kaupendur hefðu frest til 3. júlí til þess að sannreyna, hvort þeim tækist að semja um prentun blaðsins og ljúka fjármögnun kaupanna. Samþykktir gagnáfrýjanda eru frá 2. júlí 2002, Garðar Örn gerði ráðningarsamning við gagnáfrýjanda 8. júlí og Fréttablaðið kom fyrst út á vegum gagnáfrýjanda 12. júlí 2002. Fréttablaðið ehf. var hins vegar úrskurðað gjaldþrota 22. nóvember 2002 og lýstu Garðar Örn og fleiri blaðamenn kröfum sínum í þrotabúið. Einnig settu þeir fram greiðslukröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota, sem starfaði samkvæmt lögum nr. 53/1993 en starfar nú eftir lögum nr. 88/2003 um sama efni. Sjóðurinn hafnaði kröfu blaðamannanna með vísun til þess að beina ætti kröfum þeirra að gagnáfrýjanda og var af sjóðsins hálfu vitnað til 1. gr. laganna og 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Skiptastjóri í þrotabúi Fréttablaðsins ehf. neitaði jafnframt að samþykkja sölu reksturs Fréttablaðsins til gagnáfrýjanda og hótaði að láta reyna á riftun kaupsamningsins. Samkomulag náðist við skiptastjórann 14. janúar 2003 þess efnis að kaupverðið yrði hækkað í 25.000.000 krónur og héldi kaupsamningurinn fullu gildi sínu og var riftun hans afturkölluð.
II.
Aðila greinir ekki á um að með framangreindum kaupsamningi 25. júní 2002 tók gagnáfrýjandi ekki að sér ábyrgð á ógreiddum launum annarra starfsmanna Fréttablaðsins en blaðburðarfólks. Aðaláfrýjandi reisir hins vegar kröfu sína á lögum nr. 72/2002. Lög þessi voru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við slíkar aðstæður. Heldur aðaláfrýjandi því fram að samkvæmt lögunum sé gagnáfrýjandi, þrátt fyrir gagnstætt ákvæði kaupsamningsins, ábyrgur fyrir ógreiddum launum Garðars Arnar Úlfarssonar, bæði fyrir gerð samningsins og eftir hann, fram til þess að hann gerði ráðningarsamning við gagnáfrýjanda 8. júlí 2002.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 72/2002 gilda þau um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis innan Evrópska efnahagssvæðisins til annars vinnuveitanda á grundvelli framsals eða samruna. Aðilaskipti í skilningi laganna eru skilgreind í 4. tl. 1. mgr. 2. gr. með þeim hætti að um sé að ræða aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, það er skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 72/2002, er um skýringu á aðilaskiptum í skilningi tilskipunar nr. 2001/23/EB vitnað til túlkunar dómstóls Evrópubandalaganna á 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar í máli C-24/85 (Speijkers). Taldi dómstóllinn að um aðilaskipti væri að ræða í skilningi tilskipunarinnar héldi fyrirtækið einkennum sínum. Við mat á því átti að áliti dómstólsins meðal annars að líta til þess um hvers konar fyrirtæki væri að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti væru seld og hvert væri verð óhlutbundinna verðmæta. Þá átti að líta til þess hvort meirihluti starfsmanna flyttist til nýja fyrirtækisins, hvort framsalshafi héldi viðskiptavinum framseljanda og hversu langur tími liði þar til starfsemi nýja fyrirtækisins gæti hafist. Meta ætti öll greind atriði heildstætt. Í athugasemdunum við frumvarpið var þess einnig getið að EFTA-dómstóllinn hefði litið eins á aðilaskiptin og lagt áherslu á það hvort rekstri væri haldið áfram með sambærilegum hætti.
Rétt þykir að hafa framangreind atriði í huga þegar metið er hvort við kaup gagnáfrýjanda á rekstri Fréttablaðsins ehf. hafi verið um að ræða aðilaskipti í skilningi laganna. Áður hefur verið skýrt frá efni kaupsamningsins frá 25. júní 2002. Þegar efni hans er virt heildstætt verður að líta til þess að tilgangur kaupanna var að halda áfram útgáfu Fréttablaðsins. Í 1. tölublaði þess eftir eigendaskiptin sagði að það hæfi göngu sína að nýju eftir tveggja vikna hlé. Nýtt útgáfufélag byggi á reynslu starfsmanna og stuðningi sem lesendur og auglýsendur hafi sýnt blaðinu. Flestir starfsmanna hafi áður unnið fyrir Fréttablaðið og margir þeirra frá upphafi. Með framangreint í huga þykir fullljóst að um aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002 hafi verið að ræða.
III.
Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 er sett fram sú meginregla að réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi, sem fyrir hendi eru á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað, færist yfir til framsalshafa. Þá er áréttað í 2. mgr. ákvæðisins að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda. Á þessi regla að gilda þangað til gildistími kjarasamnings er liðinn, honum hefur verið sagt upp með löglegum hætti eða nýr kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Framangreindar reglur gera ráð fyrir að réttarstaða starfsmanna breytist ekki fyrir það eitt að þeir fái nýjan vinnuveitanda í kjölfar aðilaskipta. Ákvæði þessi eru byggð á 4. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB. Fjalla þau um réttarstöðu starfsmanna en ekki um skuldir framseljanda og leiða til þess að starfsmenn vinna hjá framsalshafa eftir aðilaskiptin á sömu kjörum og áður. Réttur aðaláfrýjanda til ógreiddra launa Garðars Arnar Úlfarssonar fyrir aðilaskiptin verður því ekki byggður á lögum nr. 72/2002. Hins vegar bar gagnáfrýjanda að virða ráðningarsamning hans við Fréttablaðið ehf. frá því kaupsamningur 25. júní 2002 var gerður og fram til þess að við Garðar Örn var gerður nýr ráðningarsamningur 8. júlí sama ár.
IV.
Samkvæmt framanskráðu á aðaláfrýjandi fyrir hönd Garðars Arnar Úlfarssonar rétt á launum úr hendi gagnáfrýjanda fyrir það sem eftir lifði júní 2002 og svo til 8. júlí sama ár. Sundurliðun kröfu aðaláfrýjanda er rakin í héraðsdómi. Laun hans fyrir júní voru 230.250 krónur og því nema laun hans fyrir þá fimm daga, sem eftir voru mánaðarins þegar gagnáfrýjandi tók við rekstri Fréttablaðsins, 38.375 krónum. Laun hans frá 1. til 8. júlí námu samkvæmt kröfugerð aðaláfrýjanda 59.419 krónum. Þá átti hann rétt á 10,17% orlofi af dæmdri launafjárhæð samkvæmt 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof eða 9.946 krónur. Samkvæmt kjarasamningi átti Garðar Örn jafnframt júlí- og desemberuppbót. Uppbætur þessar eru sérgreindar og gjaldfalla í greindum mánuðum. Fjárhæð þeirra er háð starfstíma en ekki greiðslu annarra launa. Ekki er fram komið að krafa aðaláfrýjanda hafi verið greidd að þessu leyti. Þessi hluti kröfunnar er því tekinn til greina og nemur júlíuppbótin 18.900 krónum en hlutfallsleg desemberuppbót 12.483 krónum. Aðrir hlutar kröfu aðaláfrýjanda eru skuld þrotabús Fréttablaðsins ehf. verði þeir staðreyndir. Samkvæmt þessu ber gagnáfrýjanda að greiða aðaláfrýjanda 139.123 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Frétt ehf., greiði aðaláfrýjanda, Blaðamannafélagi Íslands, 139.123 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 38.375 krónum frá 1. júlí 2002 til 1. ágúst sama ár, af 126.640 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, en af 139.123 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2004.
I
Málið var höfðað 26. janúar sl. og tekið til dóms 24. maí sl.
Stefnandi er Blaðamannafélag Íslands, Síðumúla 23, Reykjavík.
Stefndi er Frétt ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér skuld að fjárhæð 1.123.163 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 151.732 krónum frá 15. janúar 2002 til 15. apríl s.á., af 283.400 krónum frá þeim degi til 1. júlí s.á., af 513.650 krónum frá þeim degi til 15. júlí s.á., af 658.324 krónum frá þeim degi til 1. ágúst s.á. og af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
II
Stefnandi kveðst í máli þessu krefja stefnda um vangoldin laun Garðars Arnar Úlfarssonar vegna starfa hans sem blaðamanns á Fréttablaðinu á árunum 2001 og 2002 en Garðar Örn hafi framselt kröfuna til stefnanda, stéttarfélags síns.
Nánari málavexti kveður stefnandi vera þá að Garðar Örn hafi hafið störf hjá Fréttablaðinu um mánaðamótin apríl/maí 2001, eða skömmu eftir að útgáfa þess hófst. Útgefandi og rekstraraðili þess á þeim tíma var Fréttablaðið ehf. Það félag hafi lent í miklum rekstrarerfiðleikum á árinu 2002 sem meðal annars hafi leitt til þess að laun blaðamanna og annarra starfsmanna voru ekki greidd. Vanskilin hafi að lokum leitt til þess að stefnandi og aðrir blaðamenn hafi lagt niður vinnu 24. júní 2002.
Stefndi hóf útgáfu Fréttablaðsins skömmu síðar og kom það út að nýju 12. júlí 2002. Stefnandi kveður Garðar Örn hafa haldið áfram störfum sem blaðamaður á Fréttablaðinu og ritaði hann undir ráðningarsamning við stefnda 8. júlí 2002. Útgáfa stefnda á Fréttablaðinu hafi grundvallast á kaupsamningi frá 25. júní 2002, en samkvæmt honum hafi tveir menn, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, nú stefnda, keypt allan rekstur Fréttablaðsins, þar með talið nafn, aðstöðu, vélar, tæki, hugbúnað og fleira sem þurfi til útgáfu dagblaðs. Kaupverðið hafi verið greitt með því að greiða laun blaðbera Fréttablaðsins og sé tekið fram í samningnum að stefndi yfirtaki engar aðrar skuldir Fréttablaðsins ehf.
Í máli þessu sækir stefnandi stefnda til greiðslu launa Garðars Arnar sem hann kveður vera í vanskilum. Nánar er krafan sundurliðuð svo að laun vegna júní 2002 séu að fjárhæð 230.250 krónur, laun vegna júlí 2002 að fjárhæð 59.419 krónur, árangurstengdar greiðslur samkvæmt ráðningarsamningi eru 428.074 krónur, vaktaálag vegna maí til desember 2001 að fjárhæð 152.000 krónur, greiðsla vegna tveggja skoðanakannana 10.000 krónur, júlíuppbót samkvæmt ákvæðum kjarasamnings 18.900 krónur, hlutfallsleg desemberuppbót samkvæmt ákvæðum kjarasamnings 12.483 krónur, uppsafnað orlof vegna tímabilsins maí til júlí 2002 89.955 krónur og uppsafnaður réttur til þriggja mánaða leyfis 122.082 krónur.
Stefnandi kveður Fréttablaðið ehf. hafa verið úrskurðað gjaldþrota 2. nóvember 2002 og hafi Garðar Örn lýst kröfu í þrotabúið. Samhliða hafi verið sett fram greiðslukrafa á hendur Ábyrgðarsjóði launa. Enginn tölulegur ágreiningur hafi verið um kröfuna og hafi skiptastjóri samþykkt hana. Ábyrgðarsjóður launa hafi hins vegar hafnað greiðslu á þeirri forsendu að beina bæri kröfunni að stefnda og vísaði sjóðurinn í því sambandi til 1. gr. laga nr. 53/1993 um Ábyrgðarsjóð launa og 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.
Stefndi tekur fram í málavaxtalýsingu sinni að áður en kaupsamningurinn á milli Fréttablaðsins ehf. og stefnda hafi verið undirritaður hafði fyrirsvarsmenn Fréttablaðsins ehf. reynt að selja rekstur þess í heilu lagi en enginn kaupandi fengist að honum. Fréttablaðsins ehf. hafi því ekki beðið annað en gjaldþrot og því hafi forsvarsmenn þess ákveðið að selja úr félaginu tiltekin verðmæti, enda líklegra að finna kaupendur að þeim heldur en félaginu í heild sinni. Þá hafi fyrirsvarsmenn félagsins talið að verðmætin, sem síðan voru seld stefnda, yrðu að engu ef félagið færi í gjaldþrot en með sölunni hafi verið stefnt að því að hægt væri að gera upp skuldir við blaðburðarbörn og einnig að hefja á ný útgáfu á dagblaði. Með áðurgreindum kaupsamningi hafi stefndi keypt tiltekin verðmæti af Fréttablaðinu ehf., það er nafn, aðstöðu, vélar og tæki til útgáfunnar og að auki hugbúnað og aðgang að bókhaldsgögnum. Einnig fylgdi í kaupunum útbúnaður sem keyptur hafði verið í nafni Póstflutninga ehf. Eingöngu hafi verið um að ræða kaup á ofangreindum verðmætum og stefndi hafi ekki keypt fasteignir af Fréttablaðinu ehf. og þá hafi hann heldur ekki haldið viðskiptavinum þess. Tekur stefndi fram að ekki hafi verið um það að ræða að viðskiptasamningar, svo sem auglýsingasamningar, hafi færst yfir til stefnda. Þá hafi sérstaklega verið tekið fram í samningnum að engin kvöð væri um yfirtöku stefnda á samningum sem í gildi kynnu að vera milli Fréttablaðsins ehf. og viðsemjenda þess, enda hafi stefndi ekki yfirtekið neina slíka samninga. Varðandi greiðslu stefnda á launum blaðburðarbarna tekur hann fram að þar eð hann hugðist ekki gefa út blað sem yrði til sölu heldur borið í hús þá hafi það verið algjör forsenda fyrir rekstri og útgáfu blaðsins að gera upp við blaðbera til að þeir fengjust til þess að bera blaðið út áfram. Þá hafi einnig ráðið ákvörðun hans að hér var um börn að ræða og taldi hann ekki annað verjandi en að gera upp við þau. Stefndi kveðst hafa ráðið þó nokkra fyrri starfsmenn að blaðinu eftir að hann tók við rekstri þess og þar á meðal Garðar Örn.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því að kaup stefnda á Fréttablaðinu af Fréttablaðinu ehf. hafi falið í sér aðilaskipti að rekstri blaðsins í skilningi ákvæða laga nr. 72/2002. Samkvæmt 3. grein laganna færist réttindi og skyldur framseljanda, Fréttablaðsins ehf., samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað, yfir til framsalshafa, stefnda, þar með talin launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi. Þegar aðilaskipti urðu að rekstri Fréttablaðsins hafi ráðningarsamningur Garðars Arnar verið virkur og hafi hann haldið áfram störfum hjá stefnda í kjölfar aðilaskiptanna. Við aðilaskiptin hafi stefndi þannig yfirtekið skyldur Fréttablaðsins ehf. til greiðslu launa en samningsákvæði á milli Fréttablaðsins ehf. og stefnda um hið gagnstæða hafi hvorki gildi að lögum gagnvart Garðari Erni sem starfsmanni stefnda né stefnanda. Krafa stefnanda hafi verið samþykkt af hálfu skiptastjóra þrotabús Fréttablaðsins ehf. og sé hún þannig tölulega óumdeilanleg.
Auk framangreindra laga vísar stefnandi, máli sínu til stuðnings, til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar svo og til ákvæða kjarasamnings.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að með kaupum hans á tilteknum verðmætum af Fréttablaðnu ehf. hafi ekki orðið aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002. Aðilaskipti í skilningi laganna séu skilgreind í 4. tl. 2. gr. sem aðilaskipti á efnahagslegri einingu, sem haldi einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verði í efnahagslegum tilgangi. Stefndi byggir á því að hann hafi einungis keypt tiltekin verðmæti af Fréttablaðinu ehf. en stefndi hafi alls ekki haldið einkennum Fréttablaðsins ehf., þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð séu í efnahagslegum tilgangi. Þvert á móti séu fyrirtækin um margt ólík þó svo að grunneiningarnar séu svipaðar, enda verði ekki hjá því komist við rekstur dagblaðs. Lögin geri ráð fyrir því að aðilaskipti verði í fyrirtækjum í þeim skilningi að nýr aðili verði ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækisins. Um slíkt hafi ekki verið að ræða þar sem stefndi hafi einungis keypt réttinn til að framleiða og gefa út vöruna sem Fréttablaðið ehf. hafði áður framleitt og gefið út. Rekstur stefnda sé frábrugðinn rekstri Fréttablaðsins ehf., með öðru starfsfólki, á nýjum stað, og breytingum á blaðinu sjálfu. Þá bendir stefndi á að ekki hafi allir starfsmenn verið endurráðnir og yfirstjórn blaðsins hafi verið breytt verulega.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að samkvæmt 3. gr. laganna færist skuldir ekki frá framseljanda til framsalshafa. Byggt er því að þetta ákvæði laganna verði ekki skýrt á annan veg en þann að efnislegt innihald ráðningarsamninga skuli virða, bæði hvað varði fjárhæð launa, stöðugildi og fleira. Hins vegar kveði ekkert á um það í lögunum að launaskuldir framseljanda, sem fyrir hendi séu á aðilaskiptadegi, skuli einnig flytjast til framsalshafa og greiðast af honum. Hér sé um að ræða undantekningarákvæði sem túlka skuli þröngt og hefði því þurft að taka það sérstaklega fram í lögunum ef ætlunin hafi verið að launaskuldir framseljanda skyldu falla á herðar framsalshafa við aðilaskiptin.
Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á 4. mgr. 3. gr. laganna, þ.e. að ákvæðið eigi ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta. Vísar stefndi til þess að stöðu Fréttablaðsins ehf. megi jafna til stöðu þrotamanns þegar aðilaskiptin urðu, enda rekstrargrundvöllur þess félags ekki lengur til þegar stefndi keypti réttinn til að gefa út Fréttablaðið ásamt ýmsum öðrum verðmætum. Byggir stefndi á því að þarna sé um lögjöfnun að ræða frá 4. mgr. 3. gr. laganna. Enn fremur bendir stefndi á að eftir að Fréttablaðið ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta hafi hann greitt skiptastjóra þrotabúsins aukalega fjárhæð til að komast undan riftun kaupsamningsins við Fréttablaðið ehf.
Í fjórða lagi byggir stefndi á því að þegar aðilaskiptin urðu 25. júní 2002 hafi enginn gildur ráðningarsamningur verið á milli Fréttablaðsins ehf. og Garðars Arnar. Þetta sé vegna þess að daginn áður, eða þann 24. júní, hafi stefnandi lagt niður vinnu ásamt öðrum starfsmönnum Fréttablaðsins ehf. og þar með rift ráðningarsamningnum.
Í fimmta lagi byggir stefndi á því að stefnandi geti aðeins átt skaðabótakröfu á hendur sér, teljist stefndi hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 72/2002, sbr. 8. gr. þeirra. Stefnandi hafi hins vegar ekki rétt til þess að krefjast greiðslu skuldar á grundvelli laganna eins og gert sé í stefnu.
Stefndi byggir á því og mótmælir því að stefnandi eigi rétt á árangurstengdum greiðslum, greiðslum fyrir vaktaálag og greiðslum vegna skoðanakannana. Bendir stefndi á að kröfuliðir þessir séu með öllu ósannaðir og engin gögn fyrirliggjandi sem réttlæti að stefnanda verði dæmdar þessar fjárhæðir. Þá sé og ósannað að stefnandi eigi rétt á að fá þriggja mánaða leyfi eins og krafist er. Bendir stefndi á að stefnandi hafi sjálfur slitið ráðningarsamningi sínum og samkvæmt kjarasamningi falli niður réttur hans til leyfisins. Þá er og mótmælt kröfu um uppsafnað orlof og telur stefndi ósannað að stefnandi hafi ekki tekið orlof hjá Fréttablaðinu ehf.
IV
Með kaupsamningi 25. júní 2002 keyptu tveir menn, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, er síðar varð stefndi, rekstur Fréttablaðsins af Fréttablaðinu ehf. Nánar tiltekið var hið selda samkvæmt samningnum: “Rekstur Fréttablaðsins, nafn, aðstaða, vélar og tæki sem til þarf við útgáfuna og til eru. Einnig fylgir með allur hugbúnaður og aðgangur að öllum bókhaldsgögnum sem að gagni geta komið, svo sem með upplýsingum um viðskiptavini og einstaka rekstrarþætti Fréttablaðsins frá upphafi. Þá fylgir allur útbúnaður sem keyptur hefur verið í nafni Póstflutninga ehf. En verðmæti þeirra hluta er metið á kr. 1 milljón. Seljendur samþykkja að kaupendur megi ganga inn í hverja þá samninga sem í gildi kunna að vera á milli Fréttablaðsins og viðsemjenda þess (húsaleiga, fréttaþjónusta við visir.is o.s.frv.) og sem kaupendur hafa áhuga á að yfirtaka. Engin kvöð um slíka yfirtöku er þó á kaupendum. Ekkert af því sem Fréttablaðið á eða ræður yfir, og sem kaupendum finnst að skipti máli að hafa aðgang að við áframhaldandi útgáfu blaðsins, skal haldið frá kaupendum á þeirri forsendu að það hafi ekki verið tilgreint í þessum minnisatriðum/samningspunktum.”
Það er meginmálsástæða stefnanda að með kaupum stefnda á Fréttablaðinu samkvæmt samningnum hafi orðið aðilaskipti að rekstri Fréttablaðsins í skilningi ákvæða laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Stefndi beri því ábyrgð á skuld Fréttablaðsins ehf. við Garðar Örn Úlfarsson, er unnið hafi sem blaðamaður hjá félaginu við útgáfu Fréttablaðsins.
Samkvæmt 4. tl. 2. gr. laganna merkja aðilaskipti “aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.” Í tilvitnuðu samningsákvæði kemur fram að stefndi keypti af Fréttablaðinu ehf. flest það sem þarf til að gefa út dagblað. Hann hélt útgáfunni áfram í þeirri mynd, sem hún hafði verið frá upphafi en hefur þróað blaðið og stækkað allt til dagsins í dag. Við aðalmeðferð kom fram að meginhluti starfsmanna Fréttablaðsins ehf., um 30 af u.þ.b. 45, fékk vinnu hjá stefnda. Yfirstjórn var að vísu breytt og fækkaði fólki þar, sömuleiðis mun enginn hafa verið endurráðinn á skrifstofu og aðeins einn í dreifingardeild, en það hafði engin áhrif á útgáfu Fréttablaðsins. Með vísun til þessa er það niðurstaða dómsins að með kaupum stefnda á Fréttablaðinu af Fréttablaðinu ehf. hafi orðið aðilaskipti í skilningi tilvitnaðra laga. Ekki er fallist á að stutt hlé, sem varð á útgáfu Fréttablaðsins, breyti hér einhverju, enda var það ákvörðun stefnda að gera hlé á útgáfunni og að því loknu kom blaðið út í sama búningi og fyrr. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna færðust því réttindi og skyldur Fréttablaðsins ehf. samkvæmt ráðningarsamningi Garðars Arnar Úlfarssonar yfir til stefnda 25. júní 2002. Þetta ákvæði ber að skýra samkvæmt hljóðan sinni og ber því stefnda að efna skyldur Fréttablaðsins ehf. samkvæmt ráðningarsamningnum við Garðar Örn, þar með talið að greiða það sem félagið kann að skulda samkvæmt samningnum.
Í 4. mgr. 3. gr. laganna segir að ákvæði greinarinnar gildi ekki um aðilaskipti að fyrirtækjum, sem tekin hafi verið til gjaldþrotaskipta. Eins og áður sagði urðu aðilaskiptin 25. júní 2002 en Fréttablaðið ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 22. nóvember sama ár og frestdagur við skiptin var 4. júlí. Hvernig svo sem fjárhagsstaða félagsins var við aðilaskiptin breytir hún ekki þeirri staðreynd að Fréttablaðið ehf. hafði ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta þegar þau urðu og á því tilvitnað ákvæði laganna ekki við hér.
Í gögnum málsins, þ.m.t. framburði vitna, kemur fram að starfsmenn Fréttablaðsins ehf. hafi lagt niður störf 24. júní 2002 vegna þess að þeim höfðu ekki verið greidd laun. Það hafi svo verið ákveðið þennan dag að ljúka vinnu við blað morgundagsins og bar annar þeirra er stóðu að félaginu, er síðar varð stefndi, að það hefði verið gert fyrir sín orð. Síðasta tölublað Fréttablaðsins á vegum Fréttablaðsins ehf. kom svo út 25. júní 2002 og lauk þar með útgáfusögu þess félags. Starfsmennirnir lögðu niður störf til að knýja á um greiðslu vangoldinna launa en það var ákvörðun Fréttablaðsins ehf. að hætta starfsemi. Með vísun til þessa er ekki fallist á það með stefnda að ráðningarsamningur hafi ekki verið í gildi á milli Garðars Arnar og stefnda þegar rekstri Fréttablaðsins ehf. lauk.
Stefndi byggir á því að stefnandi geti aðeins átt skaðabótakröfu á hendur sér, sbr. 8. gr. laga nr. 72/2002, en ekki skuldakröfu. Í 8. gr. segir að vinnuveitandi, hvort heldur framseljandi eða framsalshafi, sem af ásettu ráði eða gáleysi brjóti gegn lögunum, sé skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Í málinu sækir stefnandi stefnda til greiðslu launaskuldar og byggir þá kröfu á 1. mgr. 3. gr. laganna en heldur því ekki fram að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum þeirra. Þessi málsástæða stefnda á því ekki við og er henni hafnað.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnda beri að greiða stefnanda það sem stefndi kann að skulda honum vegna vinnu Garðars Arnar hjá Fréttablaðinu ehf. og kemur þessu næst hin tölulega kröfugerð til athugunar. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að kröfugerðin sé tölulega óumdeild vegna þess að skiptastjóri þrotabús Fréttablaðsins ehf. hafi samþykkt hana þegar henni var lýst í bú þess. Á þetta verður ekki fallist. Hvergi í lögum er heimild til handa skiptastjórum til að binda, með aðgerðum sínum og yfirlýsingum tengdum skiptastjórn tiltekinna þrotabúa, aðra lögaðila en viðkomandi þrotabú. Öll mótmæli stefnda við kröfugerð stefnanda komast því að við úrlausn málsins.
Í fyrsta lagi krefst stefnandi greiðslu launa Garðars Arnar fyrir júní og júlí 2002. Stefndi hefur ekki mótmælt þessum kröfulið sérstaklega, en hann ber sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi greitt launin. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi greitt þau og verður þessi liður því tekinn til greina.
Í öðru lagi er krafist árangurstengdra greiðslna og vísar stefnandi til ákvæða ráðningarsamnings Garðars Arnar og Fréttablaðsins ehf. Í samningnum segir að Garðar Örn eigi að fá árangurstengda greiðslu og er vísað til skýringa á fylgiblaði. Á því blaði segir að “Garðar Örn Úlfarsson þiggur árangurstengdar greiðslur í sérstökum bónusstokki lykilmanna á Fréttablaðinu. Alls eru 15 hlutir í stokknum; hlutur Garðars er 1 (hásetahlutur). Greitt er úr stokknum 15. apríl, 15. júlí, 15. október og 15. janúar og miðast greiðslan við auglýsingatekjur Fréttablaðsins í þá nýliðnum ársfjórðungi. Bónusstokkurinn er stigvaxandi hlutfall af auglýsingatekjum blaðsins eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Hlutfallið hækkar þegar hverju þrepi hefur verið náð.” Taflan, sem vitnað er til, virðist sett upp í dæmaskyni en af henni verður ekki ráðið hverjar hinar árangurstengdu greiðslur til Garðars Arnar hafi átt að vera á þeim tímabilum sem krafist er greiðslu fyrir. Engin önnur gögn hafa verið lögð fyrir dóminn um þetta, en byggt er á skjali frá þáverandi fjármálastjóra Fréttablaðsins ehf. frá 2. ágúst 2002 um staðfestingu á skuldastöðu félagsins við annan mann, er átti inni árangurstengdar greiðslur hjá félaginu. Samkvæmt þessu fellst dómurinn á það með stefnda að krafa stefnanda um þessar greiðslur sé ósönnuð og verður stefndi sýknaður af henni.
Í þriðja lagi er krafist greiðslu fyrir vaktaálag í maí desember 2001. Um vaktavinnu segir í kjarasamningi stefnanda og Samtaka atvinnulífsins að heimilt sé að taka hana upp samkvæmt samkomulagi á hverjum vinnustað. Skuli gerður samningur um það við hvern vinnuhóp, svo sem blaðamenn. Síðar í kjarasamningnum segir að sé unnið eftir vaktafyrirkomulagi samkvæmt framangreindu skuli greiða álag. Hvorki af ráðningarsamningi Garðars Arnar né öðrum gögnum málsins verður séð að hann hafi unnið vaktavinnu og gegn mótmælum stefnda er ósannað að svo hafi verið. Stefndi verður því sýknaður af þessum kröfulið.
Í fjórða lagi er krafist greiðslu vegna skoðanakannana. Engin gögn eru í málinu um þennan lið og er ósannað að stefnda beri að greiða hann. Stefndi verður því sýknaður af þessari kröfu.
Í fimmta lagi er krafist greiðslu svonefndrar júlí- og desemberuppbótar. Hvorutveggja er í samræmi við ákvæði kjarasamnings og verður þessi kröfuliður því tekinn til greina.
Þá krefst stefnandi greiðslu orlofs fyrir tímabilið maí til júlí 2002. Fyrir dómi bar Garðar Örn að hann hefði tekið sér sumarfrí í tvær vikur, sem hafi hafist 10. júlí, og ekki fengið greitt fyrir það tímabil frá stefnda. Það er stefnda að sanna að Garðari Erni hafi verið greitt orlof fyrir þann tíma sem krafist er greiðslu fyrir og einnig að í framangreindu orlofi hafi hann verið á launum og eigi því ekki rétt á frekari orlofsgreiðslum. Þetta hefur stefnda ekki tekist og verður því orðið við þessum kröfulið stefnanda.
Krafa stefnanda um greiðslu fyrir þriggja mánaða leyfi er byggð á ákvæði kjarasamnings þar sem segir að blaðamenn, sem hafa unnið óslitið í 5 ár eða lengur hjá sama blaði, skuli, að loknu 5 ára starfi, fá þriggja mánaða frí á fullum launum. Garðar Örn hafði ekki unnið óslitið í 5 ár hjá Fréttablaðinu ehf. þegar rekstri þess lauk og hafði því ekki áunnið sér rétt til leyfis hjá félaginu samkvæmt þessu ákvæði kjarasamningsins. Stefndi verður því sýknaður af þessum kröfulið.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 411.007 krónur (230.250+59.419+18.900+12.483+89.955). Miðað við úrslit málsins skal fjárhæðin bera dráttarvexti frá þingfestingardegi til greiðsludags eins og nánar greinir í dómsorði. Þá skal stefndi greiða stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, Frétt ehf., greiði stefnanda, Blaðamannafélagi Íslands, 411.007 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. janúar 2004 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.