Hæstiréttur íslands
Mál nr. 183/2001
Lykilorð
- Verksamningur
- Matsgerð
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 6. desember 2001. |
|
Nr. 183/2001. |
Hannes Arnórsson ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Aðalbirni Jóakimssyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Verksamningur. Matsgerð. Málskostnaður.
H ehf. tók að sér múrverk og flísalögn í íbúðarhúsi A. Var samið um að A skyldi greiða fyrir verk, sem H ehf. innti af hendi í hverjum mánuði, í upphafi næsta mánaðar á eftir. A þótti hægt miða hjá H ehf. og gerði samkomulag við fyrirsvarsmann félagsins um að aðrir múrarar myndu annast hluta verkanna. Vorið 1998 boðaði A fyrirsvarsmann H ehf. til fundar við sig til að ræða um verkið. Urðu lyktir mála þær að H ehf. skyldi ljúka þeim verkum, sem hafin voru. Í málinu krafði H ehf. A um greiðslu þriggja reikninga, dagsettra 3. júlí, 7. júlí og 18. ágúst 1998. A hafnaði greiðsluskyldu þar sem verk H ehf. væri uppgert að fullu. Óskaði A eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta hvert þeir teldu vera hæfilegt endurgjald fyrir vinnu við verk sem hann taldi að H ehf. hefði unnið fyrir hann vorið 1998. Hæstiréttur taldi að fyrsti reikningurinn væri tilhæfulaus með öllu og hafnaði að greiðsluskylda samkvæmt honum væri fyrir hendi. Að því er snerti síðari tvo reikningana voru þeir taldir ósanngjanir og ekki unnt að byggja á þeim, sbr. 5. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Var endurgjald H ehf. ákveðið með hliðsjón af matsgerð hinna dómkvöddu manna, en kröfu félagsins samkvæmt reikningunum um greiðslu fyrir efni og tækjaleigu hafnað. Vegna málatilbúnaðar H ehf. var félaginu gert að greiða A málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.246.757 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 431.426 krónum frá 23. júlí 1998 til 27. sama mánaðar, af 863.133 krónum frá þeim degi til 8. september 1998 og af 1.246.757 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.171.573 krónur með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu af 546.573 krónum frá 8. september 2000 til 1. október sama árs, en af 1.171.573 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að haustið 1997 tók áfrýjandi að sér umfangsmiklar framkvæmdir fyrir stefnda við breytingar á húsinu nr. 31 við Laugarásveg í Reykjavík. Fólust þær í múrverki og flísalögn og hófst áfrýjandi handa í nóvember 1997. Var samningur málsaðila munnlegur og sýnist ágreiningslaust að áfrýjandi skyldi fá greitt tiltekið tímakaup og að fyrir verk í hverjum mánuði skyldi greitt í upphafi næsta mánaðar á eftir.
Stefndi skýrði svo frá fyrir dómi að honum hafi þótt hægt miða hjá áfrýjanda og hann fljótlega orðið á eftir miðað við gerða tímaáætlun. Hafi stefndi því gert samkomulag við fyrirsvarsmann áfrýjanda, Hannes Arnórsson, um að aðrir múrarar yfirtækju hluta þess verks, sem áfrýjanda hafði áður verið falið. Hafi þeir síðan að mestu múrað veggi í húsinu, lagt í gólf og flísalagt að hluta. Taldi stefndi að áfrýjandi hafi unnið sem næst helming af flísalögn, sem gerð var í húsinu, og um 30% alls múrverks þar. Lýsti hann því svo að áfrýjandi „dagaði hálfpartinn þarna uppi bara“. Tveir þessara múrara, Böðvar Gíslason og Sveinn Bjarnason, gáfu einnig skýrslu fyrir dómi. Kom fram hjá hinum fyrrnefnda að hann hafi komið að verki í húsinu um mánaðamót mars og apríl 1998 og hafi mál skipast svo að hann hafi starfað þar beint í þágu stefnda en ekki áfrýjanda og stefndi greitt honum samkvæmt reikningum hans. Hafi hann og samstarfsmaður hans unnið við múrverk utan húss og viðgerðir inni í því, en í júlí 1998 hafi þeir eftir hlé komið aftur á staðinn og lokið þá á þremur eða fjórum dögum við flísalögn í anddyri og á útitröppum. Samkvæmt vætti Sveins Bjarnasonar tók hann til starfa um líkt leyti og Böðvar og vann einkum við húsið utanvert, en einnig flísalagt í kjallara. Vann hann þar fyrir stefnda með sama hætti og Böðvar og lauk verki sínu 22. júní 1998.
Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um greiðslu þriggja reikninga, sem dagsettir eru 3. júlí, 7. júlí og 18. ágúst 1998. Er fyrstnefndi reikningurinn fyrir vinnu 20. til 30. apríl og 19. til 30. maí sama árs að fjárhæð 431.476 krónur, sá næsti fyrir vinnu í 23 daga í júní auk efnis, samtals að fjárhæð 431.707 krónur og hinn síðasti fyrir vinnu í 15 daga í júlí, efni og tækjaleigu, samtals að fjárhæð 383.624 krónur. Er vinnuþátturinn að langmestu leyti vegna Hannesar Arnórssonar, en fáeinar vinnustundir í júní og júlí eru tilgreindar vegna vinnuframlags tveggja annarra starfsmanna áfrýjanda. Stefndi hafnaði greiðsluskyldu og telur verk áfrýjanda vera uppgert að fullu meðal annars með greiðslu fyrri reikninga. Kveðst hann hafa endursent þrjá síðustu reikningana jafnharðan og þeir bárust og með því mótmælt greiðsluskyldu sinni. Áfrýjandi andmælir því að hafa fengið reikningana senda sér til baka. Athugasemdir stefnda hafi fyrst komið fram í viðræðum lögmanna málsaðila eftir að lögmaður áfrýjanda hafði krafist greiðslu með innheimtubréfi 14. ágúst 1998. Er fallist á að mótmæli stefnda séu nægilega snemma fram komin.
II.
Vorið 1998 boðaði stefndi Hannes Arnórsson til fundar við sig til að ræða stöðu málsins. Var fundurinn haldinn að Laugarásvegi 31 og bað stefndi nokkra aðra iðnaðarmenn, sem voru þar að störfum, að vera viðstadda sem vitni. Verður ráðið að Hannes hafi á fundinum helst viljað hverfa frá verkinu vegna óánægju stefnda. Hinn síðastnefndi kvaðst hafa skorað á Hannes að ljúka við baðherbergi og flísalögn á þvottahúsgólfi og það, sem enn væri ólokið í eldhúsi, en bagalegt hefði verið ef áfrýjandi færi frá baðherberginu hálfkláruðu. Urðu lyktir mála þær að áfrýjandi skyldi ljúka þeim verkum, sem hafin voru. Ágreiningur er hins vegar um hvar þessi verk voru á vegi stödd þegar fundurinn var haldinn, auk þess sem áfrýjandi heldur fram að hann hafi eftir það einnig unnið við önnur verk. Einnig greinir málsaðila á um það hvenær fundurinn var haldinn. Telur stefndi það hafa verið í maí 1998, en áfrýjandi í júní. Samkvæmt framburði áðurnefndra vitna og Halldórs Páls Eydal, málara, var fundurinn haldinn á tímabilinu frá því um mánaðamót maí og júní til 24. júní 1998.
Undir rekstri málsins í héraði óskaði stefndi eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta hvert þeir teldu vera hæfilegt endurgjald fyrir vinnu við ákveðin verk í húsinu. Kveður hann þar vera um að ræða alla einstaka þætti, sem áfrýjandi vann fyrir hann vorið 1998 og geti komið til álita í tengslum við kröfugerð hins síðastnefnda í málinu. Eftir að beiðninni var lítillega breytt á fundi með matsmönnunum fólst í henni að þeir skyldu meta hvert þeir teldu vera eðlilegt endurgjald fyrir vinnu við flísalögn í baðherbergi, vinnu við flísalögn á þvottahúsgólfi og í eldhúsi umhverfis bakhlið arins og fyrir efni og vinnu við „flotun“ á þrepum í stiga milli hæða. Var niðurstaða matsmannanna sú að hæfilegt endurgjald fyrir flísalögn á baðherbergi (mósaik, marmari, glersteinn og rakavörn) væri samtals 505.000 krónur, fyrir vinnu við að leggja marmara á þvottahúsgólf 35.000 krónur, fyrir vinnu við að leggja mósaik á arinvegg í eldhúsi 40.000 krónur og fyrir efni og vinnu við stigaþrep 45.000 krónur. Komu matsmennirnir fyrir dóm og staðfestu matsgerðina.
III.
Svo sem greinir í I. kafla að framan er reikningur áfrýjanda 3. júlí 1998 fyrir vinnu Hannesar Arnórssonar í lok apríl og í lok maí sama árs. Telur stefndi sig hafa gert að fullu upp við áfrýjanda fyrir alla vinnu Hannesar á þessum tíma, meðal annars með greiðslu reikninga áfrýjanda 24. maí 1998 að fjárhæð 575.955 krónur og 5. júní sama árs að fjárhæð 275.530 krónur. Áfrýjandi reisir kröfuna hins vegar á því að reikningarnir í maí og júní hafi einungis verið hlutareikningar fyrir vinnu í apríl og maí en ekki fullnaðarreikningar. Gaf Hannes Arnórsson þá skýringu fyrir dómi að hann hafi við gerð þessara reikninga vantað peninga og ekki haft „tíma til þess að liggja yfir tímaskýrslunum“.
Reikningar áfrýjanda 24. maí 1998 og 5. júní sama árs bera ekki með sér að þeir séu ekki fullnaðarreikningar fyrir öll unnin verk í næsta mánuði á undan. Er jafnframt fram komið að fyrri reikningar áfrýjanda til stefnda frá upphafi verksins í nóvember 1997 voru fullnaðarreikningar en ekki hlutareikningar, eins og haldið er fram í málinu um áðurnefnda tvo reikninga. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á með stefnda að reikningur áfrýjanda 3. júlí 1998 sé tilhæfulaus með öllu og hafnað að greiðsluskylda samkvæmt honum sé fyrir hendi. Verður lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu að allt verk áfrýjanda í þágu stefnda til loka maí 1998 sé uppgert að fullu.
Reikningur áfrýjanda 7. júlí 1998 er að langmestu leyti fyrir vinnu í júní, en einungis að litlu leyti fyrir efni. Reikningur hans 18. ágúst sama árs er að stærstum hluta fyrir vinnu í júlí, en að hluta fyrir efni og tækjaleigu. Varðandi þessa reikninga er fyrst til þess að líta að stefndi heldur fram að samist hafi milli hans og Hannesar á áðurnefndum fundi að allt verkið, þar á meðal það sem enn var þá ólokið, teldist vera uppgert með greiðslum, sem þegar höfðu verið inntar af hendi. Sú staðhæfing er ósönnuð og verður stefndi að bera hallann af því. Vitnin, sem komu fyrir dóm og áður eru nefnd, báru einnig að Hannes hefði komið í hús stefnda og unnið þar í júní og júlí, þótt óvíst sé af framburði þeirra hve mikil viðvera hans hafi verið. Verður samkvæmt því hafnað þeirri staðhæfingu stefnda að allt verk áfrýjanda hafi verið unnið fyrir lok maí og ekkert gert eftir það. Samkvæmt því á áfrýjandi kröfu á stefnda fyrir þann hluta verksins, sem inntur var af hendi í júní og júlí 1998. Þá eru ósannaðar staðhæfingar stefnda um að rúmlega helmingur þess endurgjalds, sem hann greiddi áfrýjanda samtals, hafi verið „í seðlum“ og til viðbótar fjárhæðum samkvæmt útgefnum reikningum hins síðastnefnda. Hvað sem öðru líður gæti slík greiðsla ekki náð til annars verks en þess, sem þegar hafði verið unnið þegar gert var upp fyrir maí 1998, en ekki er haldið fram að greitt hafi verið „í seðlum“ eftir það.
Meðal málsskjala eru svokallaðar vinnuskýrslur áfrýjanda, sem hann lagði fram undir rekstri málsins. Er þar sagt í örfáum orðum hvað unnið var við hvern dag í apríl til júlí 1998. Kemur meðal annars fram að marga daga í maí hafi verið unnið við mósaiklögn í baðherbergi og svokallaðan glervegg. Er einnig getið um flísalögn og lagfæringu á vegg í eldhúsi og „flotun“ á stiga. Aðspurður fyrir dómi um hvað hafi verið gert í júní og júlí í húsi stefnda svaraði Hannes Arnórsson svo til að það hafi verið því sem næst „öll baðvinnan á stóra baðinu. Það er sennilega búinn veggurinn í eldhúsinu en þvottahúsið, glerkubbar og annað slíkt var verið að vinna á þessum tíma“. Stefndi taldi baðherbergið hafi verið hálfklárað þegar fundur hans og Hannesar var haldinn, svo sem áður er komið fram. Vitni hafa einnig tjáð sig nokkuð um þetta. Taldi Halldór Páll Eydal að framkvæmdir við flísalögn í baðherbergi hafi verið hafnar þegar fundur stefnda og Hannesar var haldinn og að hinn síðastnefndi hafi þá verið að vinna við gólf þess. Böðvar Gíslason lýsti því svo að meginverkefni áfrýjanda í húsinu allan þann tíma, sem vitnið var þar að störfum, hafi verið við baðherbergið. Sveinn Bjarnason taldi að í júní hefði Hannes eitthvað unnið við stiga, eldhús, baðherbergi og þvottahús.
Áfrýjandi hefur engum stoðum skotið undir þá fullyrðingu sína að hann hafi unnið við fleiri verk í húsinu í júní og júlí en þau, sem áðurnefnd matsgerð tekur til. Telja verður að þrjú af fjórum verkum, sem þar eru metin, hafi sannanlega verið hafin í byrjun júní þótt ekki liggi nákvæmlega fyrir hvar hvert og eitt var þá á vegi statt. Stærst þeirra var flísalögn í baðherbergi og þykir samkvæmt öllu framanröktu mega miða við að það hafi verið komið nokkuð áleiðis. Verður lagt til grundvallar dómi að helmingi verksins hafi þá enn verið ólokið. Samkvæmt framburði Hannesar Arnórssonar fyrir dómi var flísalögn í eldhúsi þá lokið og með hliðsjón af því, sem fram kemur í vinnuskýrslum áfrýjanda og framburði Hannesar Arnórssonar, verður heldur ekki fallist á að vinna við stiga hafi fallið til eftir lok maí. Ekki er hins vegar komið fram að vinna við flísalögn í þvottahúsi hafi verið hafin í upphafi þessa tímabils og verður miðað við að hún hafi öll verið unnin í júní eða júlí 1998.
Á reikningum áfrýjanda fyrir vinnu í júní og júlí 1998 kemur fram að unnið hafi verið í 205,5 klukkustundir í fyrri mánuðinum og 124 klukkustundir í hinum síðari. Að virtu því, sem rakið er hér að framan um stöðu verka í lok maí, uppgjör til þess tíma og matsgerð dómkvaddra manna verður fallist á með stefnda að reikningar áfrýjanda 7. júlí 1998 og 18. ágúst sama árs séu ósanngjarnir og verður ekki á þeim byggt, sbr. 5. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Matsgerðinni, sem miðast við verðlag í september 2000, hefur ekki verið hnekkt og verður endurgjald áfrýjanda ákveðið með hliðsjón af henni. Skal stefndi samkvæmt því greiða áfrýjanda samtals 287.500 krónur með vöxtum, eins og nánar geinir í dómsorði frá 8. september 2000, svo sem miðað er við í varakröfu áfrýjanda. Kröfu hans samkvæmt reikningum um greiðslu fyrir efni og tækjaleigu er hafnað með vísan til forsendna héraðsdóms.
Í málinu hefur áfrýjandi uppi kröfur með tilhæfulausum reikningum, sem hann mátti vita að stæðust ekki. Var stefndi tilneyddur að leggja í kostnað við að verjast kröfum hans, meðal annars með því að óska eftir mati dómkvaddra manna. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður honum gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Aðalbjörn Jóakimsson, greiði áfrýjanda, Hannesi Arnórssyni ehf., 287.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. september 2000 til l. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2001.
I
Mál þetta sem dómtekið var þann 2. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi var höfðað með stefnu birtri 18. mars 1999 af Hannesi Arnórssyni ehf., kt. 420997-2489, Móaflöt 41, Garðabæ á hendur Aðalbirni Jóakimssyni, kt. 121049-3849, Laugarásvegi 31, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.246.757 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 25/1987 af 431.426 krónum frá 23. júlí 1998 til 27. júlí 1998, af 863.133 krónum frá þeim degi til 8. september 1998, en af 1.246.757 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.171.573 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 25/1987 frá 8. september 1998 til greiðsludags.
Í bæði aðal- og varakröfu krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, að dráttarvextir verði ákveðnir frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms í málinu og að málskostnaður verði felldur niður.
II
Óumdeilt er að aðilar máls þessa gerðu með sér munnlegan samning um að stefnandi tæki að sér ýmis verk fyrir stefnda vegna endurbóta á fasteign stefnda að Laugarásvegi 31, Reykjavík. Verkefni þau sem stefnandi tók að sér var vinna við múrverk og flísalögn. Stefndi kveður að hann hafi í upphafi talið sig vera að semja við Hannes Arnórsson múrarameistara, persónulega, en síðan komið í ljós að hann var að semja við stefnanda og hafi hann ekki gert athugasemdir við það.
Ekki liggur fyrir í málinu skriflegur samningur milli aðila en af gögnum málsins verður ráðið að samkomulag hafi verið með aðilum um að stefnandi legði jafnóðum fram reikninga vegna vinnu starfsmanna sinna sem byggðir væru á tímaskýrslum. Ekki er ágreiningur um tímagjald vegna vinnu starfsmanna stefnanda í þágu stefnda.
Eftirtöldum reikningum framvísaði stefnandi og greiddi stefndi þá reikninga um hæl;
1. Reikningur dagsettur 7. apríl 1998. Samkvæmt þeim reikningi var um að ræða vinnu við múrverk alls 130 tímar, krónur 1926 hver tími og efni og tæki og er reikningurinn með virðisaukaskatti samtals krónur 437.419. Ekki kemur fram á reikningnum hvenær sú vinna er unnin eða efni keypt. Í málinu liggur frammi handskrifað skjal sem stefndi kveður vera fylgiskjal reikningsins og á því skjali er sundurliðað, að því er virðist, tímaskýrsla þriggja starfsmanna, efni og leiga á tækjum. Er á blaðinu nefnt sem dæmi, nákvæm útlistun á reikningi þessum og neðst á blaðinu stendur að reikningur sé krónur 437.419 en í seðlum krónur 684.500 og hefur stefndi haldið því fram að hann hafi greitt báðar þessar fjárhæðir. Stefnandi kannast ekki við að þetta skjal stafi frá honum og mótmælir því að hafa tekið á móti öðrum greiðslum varðandi þennan reikning en krónum 437.419.
2. Reikningur dagsettur 24. maí 1998. Í þeim reikningi stendur að um sé að ræða “Tilboð í flísum og múrv.” Reikningur þessi auk efnis er samtals að fjárhæð krónur 575.955. Í fylgiskjali með þeim reikningi er sundurliðuð tímaskrá vegna apríl fyrir þrjá starfsmenn. Kveður stefndi þetta skjal stafa frá stefnanda sem hefur neitað því. Þá fylgir þessum reikningi blað sem stefnandi hefur kannast við að stafi frá honum þar sem upp er talið efni. Stefndi hefur borið að auk þess að greiða stefnanda reikning þennan hafi hann greitt forsvars-manni stefnanda, Hannesi, með peningum krónur 600.000 en forsvarsmaður stefnanda neitar því alfarið.
3. Reikningur dagsettur 5. júní sem er vinna og efni samtals að fjárhæð krónur 275.530. Ekki kemur fram í reikningnum hvenær sú vinna er innt af hendi en í fylgiblaði með reikningnum sem stefndi heldur fram að stafi frá stefnanda, en stefnandi hefur mótmælt því, kemur fram sundurliðun á tímaskýrslu vegna fjögurra starfsmanna. Þá er þar sundurliðun á efni og vinnu sem er í samræmi við reikninginn.
Í málinu gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði honum þrjá reikninga, reikning dagsettan 3. júlí 1998 vegna vangreiddra tíma í apríl og maí 1998 að fjárhæð krónur 431.426 vegna vinnu Hannesar Arnórssonar, reikning dagsettan 7. júlí vegna vinnu Hannesar og Kristins Arnórssonar í júní 1998 og vegna efnis samtals að fjárhæð krónur 431.707 og reikning dagsettan 18. ágúst 1998 vegna vinnu sömu aðila í júlí og vegna efnis og tækjaleigu samtals krónur 383.624. Þessa reikninga kveðst stefnandi hafa sent stefnda. Stefndi mótmælir því ekki en kveðst hafa endursent þá og með því hafi hann verið að mótmæla þeim.
Stefndi heldur því fram að fljótlega eftir að aðilar gerðu með sér samning hafi komið í ljós að stefnandi hafi ekki alls kostar ráðið við þau verkefni sem hann hafði tekið að sér og hafi það leitt til þess að stefndi hafi þurft að ráða fleiri múrara í sína þjónustu til að sinna ákveðnum verkefnum sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að stefnandi framkvæmdi. Hafi vinna stefnanda í þágu stefnda því orðið umfangs-minni en ráðgert var í upphafi. Kveðst stefndi hafa verið ósáttur við framkvæmd þeirra verkþátta sem stefnandi átti að sjá um og hafi því komið upp ágreiningur milli aðila, bæði vegna vinnubragða og óhóflegs kostnaðar. Hafi verið svo komið í maí 1998 að forsvarsmaður stefnanda hygðist hætta við verkið, en þá hafi hann átt eftir að ljúka við múrverk og flísalögn í baðherbergi í norðurhluta efri hæðar hússins, flísalögn á þvottahúsgólfi á efri hæð og flísalögn á veggjum í eldhúsi sem séu umhverfis arin í stofunni, auk þess sem hann hafi átt eftir að ljúka við svokallaða flotun á þrepum í stiga milli hæða í suðausturhorni hússins.
Var haldinn fundur að Laugarásvegi 31 vegna þessa ágreinings og kveður stefndi að samkomulag hafi tekist með aðilum um að stefnandi lyki þeim verkefnum sem hann hafði ekki lokið en aðrir múrarar tækju að sér önnur ókláruð múraraverkefni. Aðilum ber ekki saman um hvenær umræddur fundur var en stefndi heldur því fram að hann hafi verið í maí en stefnandi heldur því fram að hann hafi verið í júní. Vitnum ber heldur ekki saman um tímasetningu fundarins og hafa ýmist borið að fundurinn hafi verið um mánaðarmótin maí/júní eða um miðjan júní.
Með matsbeiðni 17. desember 1999 fór lögmaður stefnda þess á leit að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta þá verkþætti sem matsbeiðandi taldi stefnanda hafa unnið í húsinu Laugarásvegi 31 á þeim tíma sem umdeildir reikningar spanni. Voru eftirtaldar spurningar lagðar fyrir matsmenn:
1. Hvað telja matsmenn vera hæfilegt endurgjald til verktaka fyrir vinnu við múrverk og flísalögn sem framkvæmd hefur verið í baðherbergi í norðurhluta efri hæðar hússins að Laugarásvegi 31?
2. Hvað telja matsmenn vera hæfilegt endurgjald til verktaka fyrir vinnu við flísalögn á þvottahúsgólfi á efri hæð hússins?
3. Hvað telja matsmenn vera hæfilegt endurgjald til verktaka fyrir vinnu við þann hluta flísalagnar í eldhúsi hússins sem er á veggjum þar umhverfis arin?
4. Hvað telja matsmenn vera hæfilegt endurgjald til verktaka fyrir efni og vinnu við flotun á þrepum í stiga milli hæða í suðausturhorni hússins?
Þann 17. desember 1999 voru Flosi Ólafsson múrarameistari og Steingrímur Hauksson tæknifræðingur dómkvaddir til að framkvæma umbeðið mat. Á matsfundi 18. ágúst 2000 voru forsvarsmaður stefnanda og stefndi mættir ásamt lögmönnum sínum. Á þeim fundi greindu matsmenn frá því að þeim væri ómögulegt að meta umfang múrverk undir flísalögn nema með lýsingum frá aðilum. Það var ákveðið og samþykkt af aðilum að matsmenn myndu eingöngu meta vinnu við flísalögn og glersteinshleðslu og verkþætti sem beint tengdust þeim framkvæmdum nema í matslið 4 þar yrði bæði metið efni og vinna við flotílögn undir parket. Þá var óskað eftir því að kostnaður við rakavörn undir flísar í blautrýmum yrði metinn sem sér liður.
Á matsfundinum benti forsvarsmaður stefnanda á að margt hafi verið til að tefja verkið meðal annars hefði verið sagt fyrir um mynstur í mosaíklögn að hluta til á baðgólfi og veggjum jafnóðum og það var lagt. Þá hafi hann þurft að tína úr stakar mósaíkflísar af baðveggjum og koma fyrir misþykkum mosaíkflísum í staðinn.
Matsþoli lagði fram sérstaka bókun á matsfundinum þar sem hann lýsir því yfir að krafa hans í máli þessu varði fleiri verk en þau sem matsbeiðandi krefjist að metin verði. Um verk matsþola á þeim tíma sem málið varði vísi hann meðal annars til dómskjals 16 sem er yfirlit hans yfir þau verk sem hann taldi sig hafa unnið í þágu stefnda á tímabilinu 1. apríl til 31. júlí 1998.
Niðurstaða matsmanna í matsgerð er miðuð við verðlag í september 2000 og miðast við verktakaverð og séu allir skattar og skyldur, tryggingar, vélaleiga, hagnaður og svo framvegis innifalið. Miðað var við að verkið væri unnið í samfellu af sama verktaka.
Varðandi spurningu nr. 1 telja matsmenn að hæfilegt endurgjald fyrir flísalögn og glersteinshleðslu sé krónur 505.000.
Varðandi spurningu 2 er niðurstaða matsmanna að hæfilegt endurgjald fyrir flísalögn á þvottahúsgólfi sé krónur 35.000.
Varðandi spurningu nr. 3 telja matsmenn hæfilegt endurgjald fyrir vinnu við þann hluta flísalagnar í eldhúsi sem er á veggjum þar umhverfis arin sé krónur 40.000.
Hvað snertir spurningu nr. 4 þá telja matsmenn hæfilegt endurgjald fyrir efni og vinnu við flotun á þrepum í stiga vera krónur 45.000.
Ágreiningur í máli þessu snýst fyrst og fremst um réttmæti kröfu stefnanda, hvort hann eigi inni ógreiddar eftirstöðvar vegna vinnu sinnar og útlagðs kostnaðar í þágu stefnda.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur Hannes Arnórsson framkvæmdastjóri stefnanda, stefndi Aðalbjörn Jóakimsson og vitnin Steingrímur Hauksson tæknifræðingur, Flosi Ólafsson múrarameistari, Böðvar Gíslason múrari, Sveinn Bjarnason múrari, Halldór Páll Eydal málari, Arnór H. Arnórsson múrari, Björn Skaftason arkitekt, Kristinn Már Arnórsson múrari og Benedikt Guðbrandsson húsgagnasmiður.
III
Stefnandi kveður að samkomulag hafi verið milli aðila um að stefnandi tæki að sér vinnu við uppsteypu veggja, viðgerð á múr, flísalagnir og aðrar framkvæmdir við endurbætur á húsi stefnda. Hafi verið samkomulag um að stefndi greiddi stefnanda þóknun fyrir vinnuna í samræmi við vinnuframlag starfsmanna stefnanda og að stefnandi héldi skráningu um þann tíma sem starfsmenn hans ynnu að verkinu. Hafi ekki verið leitað tilboða um fast verð þar sem óljóst hafi verið í upphafi hversu umfangsmikið verk þetta væri og hafi það átt að skýrast á framkvæmdartíma. Hafi stefnandi hafið störf hjá stefnda í lok nóvember 1997 og hafi starfsmenn stefnanda unnið þrotlaust fyrir stefnda allt þar til í júlí 1998.
Starfsmenn stefnanda hafi meðal annars unnið við breytingar á inngangi í húsið sem breytt hafi verið í baðherbergi. Auk þess hafi þeir unnið að múrviðgerðum, uppsteypu veggja, flísalögnum, afréttingum á veggjum með gipsi, niðurrif móta og hreinsun.
Starfsmenn stefnanda hafi lagt mjög mikla vinnu í múrviðgerðir, niðurbrot veggja og uppsteypu nýrra veggja. Stefnandi bendir á að þeir veggir sem ekki voru brotnir niður og byggðir upp á ný hafi þurft á mikilli viðgerð að halda, enda hafi verið fræst upp úr nær öllum veggjum í húsinu til að koma fyrir lögnum.
Í samræmi við samkomulag aðila hafi stefnandi skilað stefnda tímaskýrslum með reikningum sínum og hafi stefndi þegar greitt reikninga er stefnandi gaf út þann 9. febrúar 1998, 1. mars 1998, 7. apríl 1998 og 24. maí 1998. Stefndi hafi greitt þá reikninga án athugasemda og fallist á einingarverð fyrir vinnu starfsmanna stefnanda, 1.926 krónur þmt. vsk. fyrir hverja vinnustund múrarameistara, 1.350 krónur þmt. vsk. og 1.245 krónur þmt. vsk. fyrir vinnu annarra starfsmanna stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa lokið verki sínu þann 31. júlí 1998 og tilkynnt stefnda um fyrirhuguð verklok með 2 vikna fyrirvara. Stefndi hafi ekki gert athugasemdir við verk það sem stefnandi framkvæmdi og er því ekki ágreiningur um gæði verks stefnanda. Þá sé ekki ágreiningur um einingaverð fyrir vinnu starfsmanna stefnanda, enda hafi stefndi samþykkt þau einingaverð með greiðslu á fyrri reikningum stefnanda.
Stefnandi kveður að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur hafi stefndi ekki enn greitt stefnanda eftirtalda reikninga:
|
Reikningur nr. 23, útg. 3. júlí 1998 |
kr. 431.426.- |
|
Reikningur nr. 27, útg. 7. júlí 1998 |
kr. 431.707.- |
|
Reikningur nr. 29, útg. 18. ágúst 1998 |
kr. 383.624.- |
|
Samtals |
kr.1.246.757.- |
Skuld stefnanda sé því að höfuðstól 1.246.757 krónur sem sé stefnufjárhæð aðalkröfu í málinu.
Reikningur nr. 23 sé vegna vinnu múrarameistara í apríl og maí 1998, 127,5 vinnustundir í apríl og 96,5 vinnustundir í maí.
Reikningur nr. 27 sé vegna vinnu starfsmanna stefnanda í júní 1998 og sundurliðast hann þannig: múrarameistari, 187,5 vinnustundir, annar starfsmaður stefnanda, 18 vinnustundir. Þá er hluti reiknings stefnanda nr. 27 vegna efnis sem stefnandi lagði til verksins, 30.663 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.
Reikningur nr. 29 sé vegna vinnu múrarameistara í júlí 1998, 120 tímar og annars starfsmanns stefnanda, 4 tímar. Þá sé hluti reiknings nr. 29 vegna efnis sem stefnandi lagði til verksins og vegna tækja er hann leigði til verksins samtals 116.305 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefnandi sundurliðar varakröfu sína svo:
Fjárhæð samkvæmt matsgerð krónur.....625.000
Útlagður kostnaður m/vsk. krónur........182.975
Tímavinna krónur..................................363.598
Samtals krónur...................................1.171.573
Tímavinna fyrir tímabilið 20. apríl 1998 til 1. maí 1998 og frá 19. maí 1998 til 31. júlí 1998, samtals 173 tímar á krónur 1.926 tímann og 18 tímar á krónur 1.800 tímann.
Stefnandi kveðst hafa sent stefnda fyrrgreinda reikninga þegar eftir útgáfu þeirra og hafi stefndi ekki mótmælt þeim. Stefnandi byggir meðal annars á því að stefndi hafi með því að mótmæla ekki reikningum stefnanda viðurkennt skyldu sína til greiðslu þeirra, og vísar stefnandi því til stuðnings m.a. til ÍST 30, greina 32.3 og 32.13.1. og reglna kröfuréttar. Stefnandi telur að stefnda hafi verið skylt að mótmæla þegar reikningum stefnanda ef hann taldi þá of háa. Hvað snertir matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna þá kveður stefnandi matsgerðina einungis fjalla um hluta þeirrar vinnu sem stefnandi innti af hendi í þágu stefnda.
Stefnandi styður kröfur sínar við reglur samninga- og kröfuréttar. Þá vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar sem lögfestar séu í 5. og 6. gr. kaupalaga nr. 39/1922. Þá vísar stefnandi til ÍST 30, sbr. einkum greinar 32.3. og 32.13.1. Kröfu sína um dráttarvexti kveður stefnandi styðjast við lög nr. 25/1987 og kröfu um málskostnað við 21. kafla laga nr. 21/1991.
IV
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að hann sé búinn að greiða stefnanda meira en fullt verð fyrir þau verk sem stefnandi tók að sér að vinna fyrir hann. Telur hann kröfur stefnanda vanreifaðar að því leyti, að stefnandi geri ekki grein fyrir því í málsútlistun sinni hvaða verk hann hafi unnið fyrir stefnda í húsinu að Laugarásvegi 31, hve háir heildarreikningar hafi verið fyrir þau verk og hve mikið stefndi hafi þegar greitt vegna þeirra. Þetta sé alvarlegur annmarki á málatilbúnaði stefnanda, því vitað sé að hann hafi fengið til muna meira greitt en nemur öllum þeir reikningum sem hann hafi gefið út á hendur stefnda.
Stefndi bendir á, að ekki hafi verið gerður skriflegur verksamningur milli málsaðila. Af því leiði samkvæmt meginreglu 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, að stefndi verði að greiða reikninga stefnanda fyrir verkin ef þeir verða ekki taldir óhæfilega háir.
Stefndi gerir athugasemdir við reikninga stefnanda. Hvað snerti reikning nr. 23 þá krefji stefnandi stefnda um meinta vangreidda tíma í apríl og maí. Hafi vinna fyrir apríl 1998 verið gerð upp með reikningi stefnanda nr. 19. Á handskrifuðum blöðum frá stefnanda, sem fylgi reikningnum, komi fram tímaskýrsla sem liggi að baki þeim reikningi. Þar séu tilgreindar allar þær vinnustundir í apríl sem stefnandi krefji nú um. Sömuleiðis hafi með reikningi stefnanda nr. 21 verið gerð upp vinna sem unnin hafi verið í maí 1998. Á handskrifuðum blöðum frá stefnanda, sem fylgi reikningnum, komi fram tímaskýrsla sem liggi að baki þeim reikningi. Þar séu tilgreindar allar þær vinnustundir í maí sem stefnandi krefji nú um.
Sé því ljóst að stefnandi sé að krefja um greiðslu vegna vinnustunda sem allar hafi verið greiddar og því þegar af þeirri ástæðu beri að hafna þeim reikningi.
Varðandi reikning stefnanda nr. 27 þá sé gerð krafa um greiðslu fyrir vinnustundir í júní 1998, samtals 205,5 klst. Þessum reikningi mótmæli stefndi sem gersamlega tilhæfulausum, enda fylgi reikningnum ekki annað en svokölluð tímaskýrsla, unnin af stefnanda í beinum tengslum við málssókn þessa. Mótmælir stefndi því harðlega að starfsmenn stefnanda hafi unnið þessa tíma í húsinu, þó svo að þeir hafi á þessum tíma átt eftir að fjarlægja þaðan eitthvað af því dóti sem þeir höfðu notað við verk sín þar. Bendir stefndi á að reikningur stefnanda nr. 19 hljóði á „tilboð í flísum og múrv.“, en þessi reikningur hafi einmitt verið gerður í framhaldi af verkfundi í maí 1998, þar sem samið hafi verið um það við stefnanda að hann lyki þeim verkþáttum sem hann þá hafi verið byrjaður á og ekki átt að vera mikið mál að ljúka við. Um leið og þeim reikningi hafi verið framvísað hafi stefndi greitt stefnanda 1.153.355 krónur, þó svo að fjárhæð reikningsins sé aðeins rétt tæpur helmingur þeirrar fjárhæðar, eða 575.955 krónur. Þá mótmæli stefndi sérstaklega þeim lið reikningsins sem varði efniskostnað vegna vanreifunar.
Hvað snertir reikning stefnanda nr. 29 þar sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu fyrir 124 vinnustundir í júlí 1998. Kveðst stefndi mótmæla þessum reikningi sem gersamlega tilhæfulausum, enda engin gögn lögð fram honum til stuðnings önnur en svokölluð tímaskýrsla, unnin af stefnanda í beinum tengslum við málssókn þessa. Stefndi mótmælir því harðlega að starfsmenn stefnanda hafi unnið þessa tíma í eða við húsið að Laugarásvegi 31. Rökstyður stefndi mótmæli sín gegn þessum reikningi á sama hátt og gert var um reikning nr. 27 bæði varðandi svokallaðan vinnuþátt og um „efni og tækjaleigu“ sem stefnandi krefji um með þessum reikningi.
Af framangreindu telur stefndi ljóst, að lengi vel eftir að starfsmenn stefnanda hafi tekið til starfa í húsi stefnda hafi hann greitt reikninga stefnanda umyrðalaust eins og þeir voru fram settir, enda hafi hann talið þá vera í samræmi við það sem um hafði verið rætt við Hannes Arnórsson. Með þeim reikningum sem ágreiningurinn standi um telur stefndi hins vegar að stefnandi sé að krefja sig um allt annað og meira en stefnandi hafi unnið í hans þágu, og þegar tekið sé tillit til þess sem stefndi hafi þegar greitt fyrir þessi verk séu kröfur stefnanda langt umfram það sem hæfilegt geti talist.
Í málsútlistun stefnanda komi m.a. fram, að stefndi hafi ekki mótmælt reikningum stefnanda og beri af þeirri ástæðu að líta svo á að hann hafi viðurkennt skyldu sína til að greiða reikningana. Vísi stefnandi um þetta til ÍST 30. Þetta telur stefndi vera út í hött og bendir á að í þeim tilvikum þar sem stefnandi framvísaði reikningum til stefnda allt fram til þess að þeir reikningar bárust frá honum sem þetta mál snúist um, hafi stefndi greitt reikningana undantekningarlaust innan 3 sólarhringa. Stefnanda hafi frá upphafi verið ljóst að ástæða þess að stefndi greiddi ekki umrædda reikninga var sú að hann taldi reikningana ekki fá staðist.
Kveður stefndi stefnanda hafa farið með reikninga sína til lögmanns mjög fljótlega eftir útgáfu þeirra. Innheimtubréf lögmanns stefnanda sé dagsett 14. ágúst 1998 og varði reikning útgefinn 7. júlí 1998. Hafi stefndi leitað til lögmanns vegna kröfubréfs lögmanns stefnanda, og áttu lögmenn þeirra viðræður um þessa reikninga fram eftir haustinu 1998. Þetta sé staðfest með bréfi lögmannsins 24. október 1998.
Kveður stefndi matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna styðja það að reikningar stefnanda séu óhæfilegir. Matsgerðinni hafi ekki verið hnekkt.
Stefndi kannast ekki við að samkomulag hafi verið um að fara eftir ÍST 30 í lögskiptum aðilanna, og telur ákvæði þess staðals ekki koma þessu máli neitt við. Varðandi málskostnaðarkröfu sína vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.
V
Ágreiningur í máli þessu lýtur að þremur reikningum sem stefnandi krefur stefnda nú um greiðslu á. Reikningar þessir eru dagsettir 3. júlí 1998, 7. júlí 1998, með eindaga 9. júlí 1998, og 18. ágúst 1998. Stefnandi sendi reikninga þessa til stefnda eftir útgáfu þeirra og hefur haldið því fram að þar sem stefndi hafi ekki mótmælt þeim hafi hann sökum tómlætis glatað rétti til að hafa uppi mótmæli gegn þeim. Í þessu sambandi vísar hann til ÍST 30, íslensks staðals um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir. Vísar stefnandi til greina 31.3 og 31.13.1 í staðlinum þar sem talað er um að greiðslu skuli lokið innan þriggja vikna frá því að hennar er krafist nema verkkaupi hafi borið skriflega fram rökstudd andmæli gegn reikningi og ef verktaki hefur ekki fengið í hendur skrifleg mótmæli við framlögðum upplýsingum innan hálfs mánaðar frá því verkkaupi tók við þeim sé litið svo á að þær séu samþykktar. Staðall þessi og skilmálar hans gilda um útboð verka og um samninga um verk er þau hafa verið boðin út. Þá gilda þeir einnig um samninga um verk án útboðs eftir því sem við getur átt. Staðall þessi hefur ekki lagagildi og hefur stefnandi ekki sýnt fram á gegn mótmælum stefnda að samkomulag hafi verið með aðilum um að staðallinn hafi átt að gilda í samskiptum þeirra, en skriflegur samningur er ekki milli aðila. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að hann geti byggt rétt á hendur stefnda á grundvelli hans. Þá er þess að geta að stefndi hefur haldið því fram að umrædda reikninga hafi hann endursent strax eftir að honum bárust þeir þar sem hann hafi talið að þeir stæðust ekki og ekki hafi liðið á löngu þar til stefnandi hafði falið lögmanni sínum innheimtu þeirra. Verður því ekki talið að stefndi hafi fyrirgert rétti til að mótmæla reikningum stefnanda á grundvelli tómlætis.
Í málatilbúnaði sínum hefur stefndi haldið því fram að hann hafi greitt stefnanda eða forsvarsmanni hans með peningum samtals krónur 1.284.500 fyrir utan þá reikninga sem stefnandi gerði stefnda. Hefur stefndi ekki lagt fram önnur gögn varðandi þetta en tvö handskrifuð blöð þar sem á öðru stendur að Hannesi sé greitt með peningum krónur 600.000 þann 26. maí og á hinu er sundurliðað að 437.419 sé reikningur og 684.500 “í seðlum”. Önnur skrifleg gögn þetta varðandi eru ekki í málinu og þykir ósannað gegn neitun stefnanda að fullyrðing stefnda sé rétt að þessu leyti, og óljóst hvort meintar greiðslur voru greiddar stefnanda eða forsvarsmanni hans sem ekki er aðili að máli þessu.
Reikning dagsettan 3. júlí 1998 kveður stefnandi vera vegna vangreiddrar vinnu Hannesar Arnórssonar í apríl og maí 1998. Hefur stefnandi lagt fram vinnuskýrslu þar sem fram kemur sundurliðun á tímafjölda eftir dögum vegna 20. apríl til 30. apríl 1998 og 19. maí til 30. maí 1998. Er tímafjöldinn nokkurn veginn sá sami og tíundaður er í þeim skjölum sem stefndi hefur framvísað sem fylgigögnum með þeim reikningum sem stefnandi hefur greitt. Stefnandi hefur mótmælt því að umrædd fylgigögn með reikningum stafi frá honum. Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi hélt tímaskýrslur vegna vinnu manna sinna og gerði stefnda reikninga. Hins vegar er ekki ljóst af gögnum málsins yfir hvaða tímabil reikningur stefnanda sem dagsettur er 7. apríl 1998 tekur. Hins vegar þykir ljóst af fyrirliggjandi gögnum að reikningar dagsettir 24. maí og 5. júní taka yfir tímabilið apríl og maí og þrátt fyrir neitun stefnanda þykja þau skjöl sem stefndi hefur látið fylgja reikningunum styðja þær fullyrðingar stefnda að þau sýni svo ekki verði um villst, tímaskýrslur vegna starfsmanna stefnanda og að þegar reikningur 24. maí var gerður hafi legið fyrir nákvæmlega samkvæmt tímaskýrslum hve mikið var unnið í apríl og þegar reikningur 5. júní var gerður hafi legið fyrir samkvæmt tímaskýrslum hve mikið var unnið í maí. Reikningar þeir sem hér um ræðir voru greiddir stefnanda um hæl og gerði hann engan fyrirvara um að hann liti svo á að hér væri einungis um að ræða innborgun. Vinnuþáttur þessara reikninga er samtals að fjárhæð krónur 442.892 með virðisaukaskatti. Þegar af þeirri ástæðu sem nú hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda samkvæmt reikningi dagsettum 3. júlí 1998 að fjárhæð krónur 431.426.
Stefndi hefur haldið því fram að stefnandi hafi ekki verið að vinna fyrir hann í júní og júlí 1998. Hann hafi einungis tekið að sér eftir áðurnefndan fund sem haldinn var í maí eða júní 1998 að ljúka við þau verkefni sem hann átti ólokið, en þar sem hann hafi verið búinn að fá greitt að fullu fyrir verkið hafi sú vinna sem eftir var átt að vera stefnda að kostnaðarlausu. Reikningar stefnanda vegna vinnu í júní og júlí eru samtals að fjárhæð krónur 632.356 auk efnis samtals að fjárhæð krónur 182.975. Af framburðum vitna verður því slegið föstu að starfsmenn stefnanda hafi verið við vinnu í húsi stefnda í júní og júlí 1998, án þess að fyrir liggi svo óyggjandi sé hvaða starf þeir inntu þar af hendi. Aðila greinir á um hvort sú vinna hefur þegar verið greidd.
Stefndi hefur haldið því fram að matsgerð sú sem liggur frammi í málinu taki af öll tvímæli um að stefnandi hafi fengið greitt mun meira fyrir verkið en matsmenn telji hæfilegt. Stefnandi hefur lagt fram yfirlit yfir þá verkþætti sem hann hefur haldið fram að unnir hafi verið af hans starfsmönnum, sundurliðað eftir dögum á tímabilinu 1. apríl til og með 31. júlí 1998. Samkvæmt þeirri sundurliðun virðist fyrirferðamest sú vinna sem stefnandi innti af hendi við flísalögn á baðherbergi á efri hæð. Samkvæmt bókun á matsfundi tók matsþoli fram að krafa hans í máli þessu væri um greiðslu fyrir fleiri verk en þau sem matsbeiðandi óskar mats á og vísar hann í því sambandi til framangreinds yfirlits án þess að sundurgreina sérstaklega hvaða verk hann telur matsgerðina ekki ná til. Á matsfundinum voru aðilar sammála um framkvæmd mats að öðru leyti en lýtur að bókun þessari. Ekki var sérstaklega farið yfir það með matsmönnum hvaða verk væru undanskilin. Liggur því ekki fyrir svo óyggjandi sé hvaða verk stefnandi telur sig hafa unnið sem ekki eru innifalin í því sem metið var og verður stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Þar sem matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt verður hún lögð til grundvallar þegar meta skal hæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefnanda í þágu stefnda.
Stefnandi hefur lagt fram ljósrit reikninga 9. febrúar 1998 og 1. mars 1998 samtals að fjárhæð krónur 1.252.203 sem hann kveður stefnda hafa greitt sér en stefndi er ekki skráður greiðandi þeirra heldur Tréver s.f.. Reikningar þessir eru vegna tímavinnu á múrverki auk efnis. Ekki er sundurliðað á reikningum þessum fyrir hvaða tímabil unnið var. Stefnandi lagði jafnframt fram yfirlit yfir verkþætti unna í desember og nóvember 1997, janúar, febrúar og mars 1998. Er hér um að ræða ljósrit af handskrifuðu skjali sem ber ekki með sér frá hverjum stafar eða fyrir hvern er unnið og er ekki auðséð hver er tilgangur með framlagningu þessara skjala, en henni hefur ekki verið mótmælt.
Niðurstaða matsgerðar er sú að hæfilegt verð fyrir þá vinnu sem stefnandi innti af hendi í þágu stefnda og metin er í matsgerð er samtals krónur 625.000. Stefnandi heldur því fram að hann hafi unnið fleira fyrir stefnda á tímabilinu apríl til júlí sem hann hafi ekki fengið greitt fyrir. Hann hefur hins vegar ekki sýnt fram á það hvaða verkþættir það eru og einungis vísað til umrædds yfirlits í heild sinni. Af lestri yfirlitsins verður ekki ráðið svo óyggjandi sé hvaða verkþættir það eru sem ekki falla undir matsgerðina og verður stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Stefndi hefur lagt fram reikninga, dagsetta 7. apríl, 24. maí og 5. júní 1998, sem hann hefur greitt og hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á að sú vinna sem þar er tilgreind og hefur verið greitt fyrir, samtals að fjárhæð krónur 742.544 fyrir utan efniskostnað, sé vegna annarrar vinnu en metin er í umræddri matsgerð
Í 5. gr. laga nr. 39/1922 kemur fram að þegar kaup eru gerð og ekkert fastákveðið um hæð kaupverðs, beri kaupanda að greiða það verð sem seljandi heimtar ef eigi verður að telja það ósanngjarnt. Þykir ljóst að ákvæði þetta eigi við um viðskipti aðila. Með vísan til framlagðrar matsgerðar sem ekki hefur verið hnekkt, þykir augljóst að stefnandi hefur fengið mun hærra verð fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi heldur en matsmenn telja hæfilegt. Er því augljóst að krafa hans um frekari greiðslur fyrir sömu vinnu eru ósanngjarnir og því verður stefndi sýknaður af kröfum vegna þeirra.
Í matsgerðinni er ekki tekin afstaða til efnis nema að því leyti sem snertir lið 4 í matinu vegna stiga í suðaustur horni. Þá er í matsgerð gert ráð fyrir kostnaði vegna tækjaleigu. Hefur stefnandi gert kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar vegna efnis og tækja í þágu stefnda og er krafa hans að fjárhæð krónur 182.975. Hefur stefnandi lagt fram ljósrit reikninga sem hann kveður standa að baki kröfu þessarar Er um að ræða eftirtalda reikninga:
1. Húsasmiðjan samtals að fjárhæð krónur 6.747. Reikningurinn er dagsettur 10. júní 1998 og ber hann ekki með sér að efni það sem þar er tilgreint sé ætlað stefnda.
2. Byko samtals að fjárhæð krónur 1.646. Reikningur dagsettur 2. júní 1998 og ber ekki með sér að efni það sem þar er tilgreint sé ætlað stefnda.
3. Metró-Normann ehf. samtals að fjárhæð krónur 901 og ber ekki með sér hver greiðir eða að efni það sem þar er tilgreint sé ætlað stefnda.
4. Steinprýði ehf. samtals að fjárhæð krónur 2.168. Þessi reikningur er dagsettur 5. júní 1998 og greiddur af Hannesi Arnórssyni vegna Laugarásvegar 31.
5. Tveir reikningar Sendibílastöðvarinnar hf. annar á nafni Hannesar Árnasonar vegna Laugarásvegar 31 krónur 3.590 dagsettur 1. júní 1998 og hinn ber ekki með sér á hvers nafni en er sagður vera vegna Laugarásvegar 31, að fjárhæð krónur 2.000.
6. Reikningur Múrklæðningar dagsettur 30. júní 1998 að fjárhæð krónur 85.000 ber ekki með sér að efni sé ætlað stefnda.
7. Reikningur Múrklæðningar hf. dagsettur 10. júní 1998 er sagður vera vegna Laugarásvegar 31, samtals að fjárhæð krónur 40.321.
8. Reikningur Víddar hf. dagsettur 30. júní 1998 samtals að fjárhæð krónur 1.734, ber ekki með sér að efni sé vegna stefnda.
9. Reikningur Gólflagna að fjárhæð krónur 13.720 dagsettur 19. júní 1998 er sagður vera vegna “Skýr” og verður því ekki séð að hann varði stefnda
10. Reikningur ÓM. búðarinnar að fjárhæð krónur 2.970 dagsettur 10. júlí 1998 ber ekki með sér að vera vegna stefnda.
11. Reikningur Teppabúðarinnar dagsettur 21. júlí 1998 að fjárhæð krónur 1.318 ber ekki með sér hver greiddi eða hverjum efnið var ætlað.
12. Reikningur dagsettur 24. júlí 1998 að fjárhæð krónur 2.062, reikningur 10.júlí 1998 að fjárhæð krónur 3.924 og reikningur13. júlí 1998 að fjárhæð krónur 5.275 bera ekki með sér að efni sé vegna stefnda.
13. Reikningur Víddar dagsettur 29. júlí að fjárhæð krónur 8.736 ber ekki með sér að vera vegna stefnda.
Þeir reikningar sem beinlínis bera með sér að vera vegna Laugarásvegar 31 eru þrír. Reikningur dagsettur 5. júní 1998 er að fjárhæð krónur 2.168. Samkvæmt þessum reikningi er keypt ELGO Eðalpússning og akríl. Gegn andmælum stefnda þykir ósannað að stefndi eigi að greiða þennan kostnað og af hvaða tilefni efni þetta er keypt. Þá þykir reikningur Múrklæðingar dagsettur 10. júní 1998 bera það með sér að vera gerður eftir á þar sem fyrir liggur samkvæmt reikningnum hversu lengi umræddur blásari er leigður, eða í 42 daga. Kemur ekki fram á reikningnum hvaða tímabil er um að ræða, en samkvæmt fylgiskjali með reikningi þeim sem stefndi hefur greitt og er dagsettur 24. maí og er vegna tilboðs stefnanda í flísalagningu og múrverk, er gert ráð fyrir leigu á blásara í 42 daga í skjali sem stefnandi hefur upplýst að stafi frá sér. Er því ekki loku fyrir það skotið að með reikningi 24. maí 1998 hafi stefndi þegar greitt fyrir leigu á umræddum blásara auk þess sem matsgerðin gerir ráð fyrir að tækjaleiga sé innifalin. Reikningar Sendibílastöðvarinnar eru illlæsilegir en annar virðist hafa verið vegna aksturs með stillansa og pressu en hinn með marmara. Ekki þykir sannað svo óyggjandi sé, gegn neitun stefnda að reikningar þessir séu vegna verka sem stefnandi vann fyrir stefnda. Þá er ekki samræmi í kröfufjárhæð og þeim gögnum sem styðja eiga hana. Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á það, svo ekki verði um villst, að stefndi beri ábyrgð á greiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð krónur 182.975 og verður hann sýknaður af þeirri kröfu.
Af því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða máls þessa að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eftir þeim málsúrslitum þykir rétt að stefnandi greiði stefnda krónur 400.000 í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til matskostnaðar og virðisaukaskatts.
Þorsteinn Einarsson hrl. flutti málið af hálfu stefnanda en Ragnar H. Hall hrl. af hálfu stefnda.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi Aðalbjörn Jóakimsson er sýkn af kröfum stefnanda Hannesar Arnórssonar ehf.
Stefnandi greiði stefnda krónur 400.000 í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar vegna mats og virðisaukaskatts.