Hæstiréttur íslands
Mál nr. 444/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 2. desember 2004. |
|
Nr. 444/2004. |
Og fjarskipti hf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Landssíma Íslands hf. (Andri Árnason hrl.) Póst- og fjarskiptastofnun og (Ólafur Haraldsson hrl.) úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála (enginn) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
O hf. krafðist að viðurkennt yrði að tiltekinn úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála væri ekki bindandi fyrir sig og hann yrði dæmdur ógildur gagnvart sér. Hæstiréttur tók fram að ágreiningslaust væri að niðurstaða úrskurðarins beindist sérstaklega að O hf. og varðaði hagsmuni hans. Af málatilbúnaði þess yrði ekki annað ráðið en að málsóknin væri reist á því að umræddur úrskurður hefði ekki þau réttaráhrif sem honum væru ætluð. Úrskurðurinn hefði hins vegar réttaráhrif samkvæmt efni sínu svo lengi sem dómstólar felldu hann ekki úr gildi. Ætti O hf. þess kost að krefjast dóms um ógildingu hans teldi hann annmarka á formi hans eða efni en ekki væri á færi dómstóla að breyta efni hans. Þar sem O hf. hafði ekki uppi kröfu um ógildingu úrskurðarins var fallist á með héraðsdómara að vísa málinu frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi hvers varnaraðila um sig.
Varnaraðili Landssími Íslands hf. krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili Póst- og fjarskiptastofnun krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Sóknaraðili máls þessa varð til eftir samruna Íslandssíma hf. og tveggja annarra fyrirtækja á fjarskiptamarkaði. Upphaf máls þessa má rekja til þess að 11. mars 2002 óskaði Íslandssími hf. eftir því við varnaraðila Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin hæfist þegar handa við að skilgreina kostnaðarverð af rekstri farsímanets varnaraðila Landssíma Íslands hf. og ákveða samkvæmt því svokallað innhringiverð í GSM net fyrirtækisins. Við meðferð þess máls gerði varnaraðili Landssími Íslands hf. meðal annars þær kröfur aðallega að stofnunin hafnaði erindinu en til vara að ákveðið yrði að Íslandssími hf. teldist með umtalsverða markaðshlutdeild, annars vegar á markaði fyrir rekstur farsímaneta og farsímaþjónustu og hins vegar á svokölluðum samtengingarmarkaði. Með ákvörðun 23. apríl 2003 var varnaraðila Landssíma Íslands hf. gert að lækka verð fyrir símtöl sem enda í GSM farsímaneti. Ekki var tekin afstaða til varakröfu félagsins en þess getið að sú krafa yrði tekin til meðferðar í sérstöku máli. Með bréfi varnaraðila Póst- og fjarskiptastofnunar sama dag til sóknaraðila, sem var þá orðinn aðili að málinu í stað Íslandssíma hf. vegna fyrrgreinds samruna, og varnaraðila Landssíma Íslands hf. var þessum félögum tilkynnt að stofnunin teldi ástæðu til að kanna markaðsstöðu sóknaraðila og í framahaldi þess taka ákvörðun um hvort telja bæri fyrirtækið hafa umtalsverða markaðshlutdeild í skilningi laga um fjarskipti. Bárust stofnuninni athugasemdir frá báðum þessum félögum af þessu tilefni. Með ákvörðun varnaraðila Póst- og fjarskiptastofnunar 15. júlí 2003 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili teldist fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet og farsímaþjónustu samkvæmt þágildandi lögum nr. 107/1999 um fjarskipti en hafnaði því að sóknaraðili yrði talinn með umtalsverða markaðshlutdeild á samtengingarmarkaði. Varnaraðili Landssími Íslands hf. kærði 5. ágúst 2003 þessa synjun stofnunarinnar til varnaraðila úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Ákvað nefndin að aðild að ágreiningsmálinu fyrir nefndinni skyldi þannig háttað að Landssími Íslands hf. teldist sóknaraðili en Póst- og fjarskiptastofnun varnaraðili. Var Og fjarskiptum hf. gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að „án þess þó að teljast beinn aðili að málinu.“ Með úrskurði 21. október 2003 felldi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fyrrnefnda synjun Póst- og fjarskiptastofnunar úr gildi. Skyldi sóknaraðili samkvæmt úrskurðinum talinn fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á samtengingarmarkaði.
Í kjölfar þessarar niðurstöðu höfðaði sóknaraðili mál fyrir héraðsdómi með stefnu 13. apríl 2004 þar sem hann krafðist viðurkenningar á að úrskurðarorð varnaraðila úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í framangreindum úrskurði 21. október 2003 teldust ekki bindandi fyrir hann. Var kröfugerð hans meðal annars skýrð með því að samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun væri óvíst hvort honum væri heimilt að bera úrskurðinn undir dómstóla þar sem hann hefði ekki átt aðild að úrskurðarmálinu. Þá sé það almenn regla íslensks réttar að ákvarðanir í ágreiningsmálum bindi einungis aðila málsins. Með hinum kærða úrskurði var máli sóknaraðila vísað frá héraðsdómi.
II.
Fyrir Hæstarétti heldur sóknaraðili því fram að ágreiningsefni málsins lúti að því hvort héraðsdómur sé bær til að taka efnislega afstöðu til þeirrar kröfu hans að úrskurður stjórnvalds í máli sem hann átti ekki aðild að en varðaði réttarstöðu hans, verði dæmdur óbindandi og þar með ógildur gagnvart honum. Er tekið fram að ekki sé verið að fara fram á að hróflað verði við efni umræddrar stjórnvaldsákvörðunar. Heldur sóknaraðili því fram að með efnisdómi í máli aðila fáist úr því skorið hvort fyrirkomulag um aðild fyrir varnaraðila úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála standist eins og hún hefur verið ákveðin. Sé það grundvallarregla í íslenskum stjórnsýslurétti að hið lægra setta stjórnvald sem tekur kærða ákvörðun eigi ekki aðild að kærumáli. Hafi úrskurðarnefndinni því verið skylt að viðurkenna aðild sóknaraðila að ágreiningsmálinu en hafna aðild varnaraðila Póst- og fjarskiptastofnunar að því. Þá telur hann sig hafa af því lögvarða hagsmuni að bera undir dómstóla það álitamál hvort hann sé bundinn af ákvörðun æðsta úrskurðaraðila á sviði fjarskipta um hagsmuni sína og réttarstöðu enda þótt hann hafi ekki átt aðild að stjórnsýslumálinu.
Varnaraðili Landssími Íslands hf. heldur því fram að sakarefnið falli utan verksviðs dómstóla og því beri að vísa málinu frá dómi. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé ekki lagt upp með að ógilda eigi umrædda stjórnvaldsákvörðun, heldur hvort formleg tilgreining á stöðu aðila í umræddum úrskurði hafi verið eins og eðlilegt megi teljast. Þá telur hann að í kröfu sóknaraðila felist beiðni um að skilja sóknaraðila undan réttaráhrifum úrskurðarins og breyta þannig efni hans í stað þess að skera úr um gildi hans, en slíkt falli einnig utan verksviðs dómstóla. Þá bendir þessi varnaraðili á að sóknaraðili hafi átt þess kost að gæta allra þeirra hagsmuna sem stjórnsýslulög veita aðilum í málum sem þessum. Hafi hann því í reynd haft stöðu aðila við meðferð málsins hvað sem líði formlegri tilgreiningu aðila í úrskurðinum. Þá sé réttur aðila til að bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla ekki háður því að viðkomandi hafi verið tilgreindur aðili í úrskurði, hafi stjórnvaldsákvörðun beinst sérstaklega að honum. Telur hann að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo á reiki að í bága brjóti við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðili Póst- og fjarskiptastofnun bendir á að í málflutningi fyrir héraðsdómi um frávísun málsins hafi sóknaraðili skýrt kröfu sína svo að í henni fælist krafa um ógildingu úrskurðar varnaraðila úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála að því er sóknaraðila einan varðaði. Rúmist sú kröfugerð ekki innan upphaflegu kröfugerðarinnar þar sem krafist var viðurkenningar á að úrskurðurinn hafi ekki bindandi áhrif gagnvart sóknaraðila. Hafi málatilbúnaður sóknaraðila verið svo á reiki, auk þess að vera vanreifaður, að brjóti í bága við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá heldur þessi varnaraðili því fram að ekki sé hægt að kljúfa umrædda ákvörðun upp og fá hana ógilta að hluta þar sem um sé að ræða ákvörðun sem beinist að einum aðila og lúti að einum efnisþætti. Sé krafan samkvæmt því ekki dómtæk sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Í máli þessu gerir sóknaraðili þær kröfur að viðurkennt verði að tiltekinn úrskurður varnaraðila úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sé ekki bindandi fyrir sig. Hefur hann skýrt þá kröfugerð svo að í henni felist krafa um að úrskurðurinn verði dæmdur ógildur gagnvart sér. Ágreiningslaust er að niðurstaða úrskurðarins beindist sérstaklega að sóknaraðila og varðar hagsmuni hans. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki annað ráðið en að hann reisi málsókn sína á því að umræddur úrskurður hafi ekki þau réttaráhrif sem honum voru ætluð. Úrskurðurinn hefur hins vegar réttaráhrif samkvæmt efni sínu svo lengi sem dómstólar fella hann ekki úr gildi. Þar sem framangreindur úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála varðar hagsmuni sóknaraðila á hann þess kost að krefjast dóms um ógildingu hans telji hann annmarka á formi hans eða efni og standa ákvæði 3. mgr. 13. gr. laga nr. 69/2003 því ekki í vegi. Ekki er á færi dómstóla að breyta efni úrskurðarins. Eins og að framan er rakið voru dómkröfur sóknaraðila fyrir héraðsdómi eingöngu þær að viðurkennt yrði að umræddur úrskurður væri ekki bindandi fyrir hann. Þar sem sóknaraðili hefur ekki uppi kröfu um ógildingu úrskurðarins verður á það fallist með héraðsdómara að vísa verði málinu frá héraðsdómi.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Og fjarskipti hf., greiði varnaraðilum, Landssíma Íslands hf. og Póst- og fjarskiptastofnun, hvorum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2004.
Mál þetta var höfðað 13. apríl 2004 og þingfest 15. sama mánaðar. Stefnandi er Og fjarskipti hf., Síðumúla 28, Reykjavík, en stefndu eru Landssími Íslands hf., Thorvaldsenstræti 4, Reykjavík, Póst- og fjarskiptastofnun, Smiðjuvegi 68-70, Kópavogi og Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, Vegmúla 2, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfur stefnda Landssíma Íslands hf. að undangengnum munnlegum málflutningi 12. október sl. Jafnframt var málið flutt um frávísunarkröfu stefnda Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sem ekki hefur sótt þing í málinu eftir að hafa lagt fram greinargerð á reglulegu dómþingi. Einnig var málið flutt um hugsanlega frávísun málsins án kröfu.
Í þessum þætti málsins gerir stefndi Landssími Íslands hf. þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi og honum dæmdur málskostnaður fyrir þennan þátt málsins.
Stefnda Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála krefst þess að kröfum stefnanda gegn nefndinni verði vísað frá dómi auk þess sem stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og honum dæmdur málskostnaður fyrir þennan þátt málsins. Þess er krafist að stefnda Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála verði dæmd til greiðslu málskostnaðar hver sem niðurstaða málsins verður.
Stefnda Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki uppi sjálfstæðar kröfur í þessum þætti málsins.
I.
Helstu atvik málsins eru þau að 15. júlí 2003 ákvað stefnda Póst- og fjarskiptastofnun að hafna kröfu stefnda Landssíma Íslands hf. um að stefnandi teldist fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á svokölluðum samtengingarmarkaði. Þessari ákvörðun skaut stefndi Landssími Íslands hf. til stefndu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Með úrskurði 21. október sama árs felldi stefnda Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála ákvörðun stefnda Póst- og fjarskiptastofnunar úr gildi og kvað á um að stefnandi skyldi teljast fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á samtengingarmarkaði.
Í framhaldi af þessum úrskurði stefndu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála höfðaði stefnandi mál þetta og eru efnislegar kröfur hans svohljóðandi: „Stefnandi [...] gerir þær dómkröfur á hendur öllum stefndu [...] að viðurkennt verði með dómi, að úrskurðarorð Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í ágreiningsmálinu nr. 3/2003 frá 21. október 2003 séu óbindandi fyrir stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu, annað hvort in solidum eða úr hendi hvers um sig að mati dómsins.“ Eru kröfur stefnanda annars vegar reistar á því að stefnandi hafi ekki notið aðilastöðu við meðferð málsins fyrir stefndu Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála og hafi ekki verið litið til sjónarmiða stefnanda við úrlausn málsins, en hins vegar hafi nefndin ekki gætt réttra lagaskilareglna við efnislega úrlausn málsins og byggt niðurstöðu sína á eldri fjarskiptalögum nr. 107/1999. Af hálfu stefnanda er á því byggt að vegna 13. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun hafi verið óvíst hvort hann gæti borið úrskurðinn undir dómstóla. Því sé málið höfðað til viðurkenningar á því að úrskurður stefnda Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sé ekki bindandi fyrir stefnanda.
II.
Af hálfu stefnda Landssíma Íslands hf., er í fyrsta lagi á því byggt að efniskrafa stefnanda í málinu falli utan við verksvið dómstóla og því beri að vísa málinu frá dómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessu sambandi vísar stefndi Landssími Íslands hf. í fyrsta lagi til þess að stefnandi krefjist hvorki úrlausnar um hvort lögmætra aðferða hafi verið gætt við meðferð máls hjá stjórnvaldi né hvort niðurstaða þess hafi verið í samræmi við lög. Í öðru lagi bendir stefndi Landssími Íslands hf. á að stefnandi krefjist þess í máli þessu að viðurkennt verði með dómi að hann sé ekki bundinn af umræddum úrskurði, án þess að úrskurðurinn sem slíkur verði ógiltur. Í þessu felist beiðni til dómstólsins um að hann hrófli við inntaki umrædds úrskurðar og breyti honum efnislega sem sé í andstöðu við framangreinda lagareglu.
Stefndi Landssími Íslands hf. bendir á að 13. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun geti ekki takmarkað rétt stefnanda til að bera gildi stjórnvaldsákvarðana undir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Skipti í þessu sambandi engu máli hvort stefnandi hafi verið formlegur aðili að viðkomandi máli fyrir nefndinni eða ekki. Fái því ekki staðist sú málsástæða að stefnandi sé knúinn til að höfða mál til viðurkenningar á því að hann sé óbundinn af úrskurðinum.
Af hálfu stefnda Landssíma Íslands hf. er frávísunarkrafa einnig á því byggð að í kröfugerð stefnanda felist í raun beiðni til dómstólsins um að hann veiti stjórnvaldinu, í þessu tilviki stefndu Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, leiðbeiningar um það hvernig háttað skuli formlegri tilgreiningu aðila á sviði stjórnsýslumála. Hafi stefnandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um dómkröfu sína enda felist í henni beiðni um lögfræðilegt álit, sem fer gegn meginreglu 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefndu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála er á því byggt að nefndin sé sjálfstæð úrskurðarnefnd á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar og hafi enga þá lögvörðu hagsmuni sem réttlætt geti aðild nefndarinnar að málinu.
Í munnlegum málflutningi skýrði stefnandi kröfugerð sína í efnisþætti málsins nánar á þá leið að í henni felist krafa um að úrskurður stefndu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála 21. október 2003 verði felldur úr gildi að því er varðar stefnanda. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að orðalagið „óbindandi“ þýði samkvæmt almennum og lagalegum málvenjum „ógildi“ og sé krafa, um viðurkenningu á því að umræddur úrskurður sé óbindandi, þannig krafa um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi. Í málinu sé þess þó aðeins krafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi að því er varðar stefnanda, enda hafi stefnandi ekki forræði á gildi úrskurðarins að því er varði aðra. Kom fram hjá stefnanda að hér væri um að ræða kröfugerð sem beindist að gildi stjórnvaldsákvörðunar með svipuðum hætti og gert hefði verið í fjölda dómsmála. Að því er varðar kröfu stefndu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vísaði stefnandi til þess að óvissa væri um hvernig haga bæri varnaraðild við aðstæður sem þessar og væri stefnandi því knúinn til að beina kröfum sínum að öllum stefndu. Með hliðsjón af útivist stefndu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála taldi stefnandi að dæma ætti þennan stefnda til greiðslu málskostnaðar hvernig sem málið færi.
III.
Niðurstaða
Í máli þessu verður að leggja til grundvallar það hugtakseinkenni gildrar stjórnvaldsákvörðunar að hún geti haft tilætluð réttaráhrif, en ógild stjórnvaldsákvörðun geti það að sama skapi ekki. Bindandi áhrif gildrar stjórnvaldsákvörðunar gagnvart aðila geta hins vegar verið háð frekari skilyrðum. Er gild stjórnvaldsákvörðun til dæmis að jafnaði ekki bindandi fyrr en hún hefur verið nægilega birt aðila, sbr. meginreglu 1. mgr. 20. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gildi stjórnvaldsákvörðunar og bindandi áhrif hennar gagnvart tilteknum aðila þurfa þannig ekki að falla saman, eins og haldið er fram af stefnanda málsins.
Að mati dómara verður einnig að ganga út frá því að í stefnukröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar felist krafa um að réttaráhrif stjórnvaldsákvörðunar falli niður, annað hvort frá upphafi eða síðara tímamarki. Er og almennt viðurkennt að ógildanlegar stjórnvaldsákvarðanir séu bindandi þar til þær hafa verið ógiltar, sbr. meginreglu 2. málsliðs 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Krafa um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar er samkvæmt þessu ekki viðurkenningarkrafa, eins og stefnandi málsins virðist ganga út frá, og ber að greina slíka kröfu frá kröfu um að viðurkennt verði að tiltekin stjórnvaldsákvörðun sé markleysa frá upphafi.
Dómstólar eru til þess bærir samkvæmt 2. gr. og 1. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að fjalla um gildi stjórnvaldsákvarðana. Bein réttaráhrif dóms, þar sem stjórnvaldsákvörðun er felld úr gildi, eru eðli málsins samkvæmt þau að viðkomandi stjórnvaldsákvörðun er svipt þeim réttaráhrifum sem henni var ætlað að hafa. Enda þótt dómur sé aðeins bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila, og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem dæmdar eru að efni til í dómi, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, felur dómur um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar þannig í sér bindandi úrlausn um það sakarefni hvort stjórnvaldsákvörðun geti haft tilætluð réttaráhrif eða ekki. Andstætt því sem stefnandi málsins heldur fram getur gildi stjórnvaldsákvörðunar við þessar aðstæður því ekki verið afstætt þannig að ákvörðun sé ógild gagnvart einum aðila en gild gagnvart öðrum, allt eftir því hvernig aðild að dómsmáli var hagað. Haggar það ekki þessari niðurstöðu að ákvörðun getur við ákveðnar aðstæður verið bindandi fyrir einn aðila en óbindandi fyrir annan, t.d. vegna annmarka á birtingar ákvörðunar í einstöku tilviki. Sömuleiðis hefur það ekki þýðingu um þetta atriði að ákvörðun, sem beint er til fleiri aðila, getur verið ógild að hluta og af þeim sökum ekki haft tilætluð réttaáhrif gagnvart einum tilteknum aðila enda þótt hún sé gild gagnvart öðrum.
Eins og áður segir hefur stefnandi skýrt efnislega kröfu sína svo að í henni felist krafa um ógildingu úrskurðar stefndu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála 21. október 2003 að því er varðar stefnanda. Í málatilbúnaði stefnanda eru þó hvergi færð að því að rök að skilyrðum sé fullnægt til þess að fella úr gildi umræddan úrskurð. Þess í stað virðist á því byggt að stefnandi sé óbundinn af úrskurðinum án tillits til hugsanlegs gildis eða ógildis hans.
Þá er það til að taka að krafa stefnanda er sett fram sem viðurkenningarkrafa. Fær slík tilhögun kröfugerðar ekki samrýmst því að krafist sé ógildingar á umræddum úrskurði, enda verður málatilbúnaður stefnanda ekki skilinn á þá leið að krafist sé viðurkenningar á því að úrskurðurinn sé markleysa frá upphafi. Er þetta til þess fallið að skapa enn meiri vafa um það hvort stefnandi krefjist ógildingar úrskurðarins eða hvort hann krefjist einungis viðurkenningar á því að hann sé óbundinn af honum án tillits til gildis eða ógildis hans.
Að lokum felur kröfugerð stefnanda, eins og hann hefur skýrt hana fyrir dómi, í sér að krafist er ógildingar umrædds úrskurðar „einungis að því er varðar stefnanda“. Er það álit dómara að með þessum síðastnefnda lið í kröfugerð stefnanda sé í raun farið fram á að dómari undanskilji stefnanda réttaráhrifum úrskurðarins og breyti þannig efni hans í stað þess að skera úr um gildi hans, eins og dómara er heimilt samkvæmt áðurnefndri 2. gr. og 1. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Er kröfugerð stefnanda að þessu leyti í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, eins og sú grein verður skýrð til samræmis við áðurnefnd ákvæði stjórnarskrár.
Að öllu þessu virtu er það álit dómara að kröfugerð stefnanda og grundvöllur máls hans sé svo á reiki að brjóti gegn d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála auk þess sem málatilbúnaður stefnanda gangi gegn 1. mgr. 24. gr. sömu laga sem fyrr segir. Verður málinu því vísað sjálfkrafa frá dómi. Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda Landssíma Íslands hf. og stefndu Póst- og fjarskiptastofnun málskostnað sem ákveðst hæfilegur 60.000 krónur til hvors aðila um sig. Rétt þykir að málskostnaður gagnvart stefndu Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, sem ekki hefur sótt þing í málinu, falli niður.
Af hálfu stefnda Landssíma Íslands hf. flutti málið Andri Árnason hrl.
Af hálfu stefnda Póst- og fjarskiptastofnunar flutti málið Ólafur Haraldsson hrl.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ragnar Aðalsteinsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Og Fjarskipti hf., greiði stefnda Landssíma Íslands hf. og stefnda Póst- og fjarskiptastofnun hvoru um sig 60.000 krónur í málskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.