Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2000
Lykilorð
- Sjúkrahús
- Læknir
- Skaðabætur
- Læknaráð
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 1. febrúar 2001. |
|
Nr. 256/2000. |
Kjartan Stefánsson(Árni Grétar Finnsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Jón G. Tómasson hrl.) |
Sjúkrahús. Læknar. Skaðabætur. Læknaráð. Gjafsókn.
K var þjáður af miklum bakverkjum og var lagður inn á sjúkrahús. Eftir tvær sjúkrahúslegur og ítrekaðar tilraunir lækna til að greina ástand K leiddi rannsókn í ljós að ígerð í brjóstholi hefði breiðst inn í mænugang og valdið lömun í báðum fótum. K krafði Í um bætur og taldi lækna ekki hafa brugðist tilhlýðilega við ástandi sínu. Landlæknir beindi máli K til læknaráðs og komst siðamáladeild þess að þeirri niðurstöðu að læknar hefðu annast K af vandvirkni og beitt þeim aðgerðum sem þeir töldu réttar á hverjum tíma. Meirihluti læknaráðs var ósammála niðurstöðu siðamáladeildar og taldi að ekki hefði verið staðið tilhlýðilega að læknismeðferð K. Héraðsdómur sýknaði Í og áleit læknismeðferðina hafa verið eðlilega í ljósi staðreynda málsins, eins og þær lágu fyrir á hverjum tíma, og að læknar hefðu ekki gerst sekir um saknæm mistök. Hæstiréttur féllst á kröfu K um bætur. Var talið, að sá dráttur, sem varð á að gera aðgerð eftir að í ljós hafi verið kominn ákveðinn grunur um ígerð í brjóstholi, hefði ekki verið skýrður til hlítar. K hefði sýnt fram á að mikil líkindi væru fyrir því að með markvissari meðferð á þessu stigi hefði farið á annan veg en raun varð á. Leiddu almennar sönnunarreglur til þess, að ríkið var látið bera fébótaábyrgð á tjóni K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2000. Hann krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.953.910 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. mars 1995 til 10. janúar 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann annarrar og lægri fjárhæðar að mati dómsins en með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi var tvívegis lagður inn á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á öndverðu ári 1995 og lá þar í fyrra skiptið frá 26. janúar til 10. febrúar og í síðara skiptið frá 24. febrúar til 14. mars. Hann lamaðist þá í fótum og var lagður inn til aðgerðar á taugaskurðalækningadeild Borgarspítala að lokinni segulómun á Landspítala.
Þegar áfrýjandi var í fyrra skiptið lagður inn á St. Jósefsspítala var hann illa haldinn af verkjum í mjóbaki og teygðu þeir sig upp í miðjan brjósthrygg, eins og lýst er í innlagnarskýrslu. Þar kemur einnig fram, að hann hafi verið móður og stunið við hvern andardrátt. Í fyrstu rannsóknum var einkum leitast við að útiloka, að um væri að ræða bráða kransæðastíflu, rifu á ósæð eða lungnasjúkdóm. Í ljós kom íferð í hægra lunga, samfall og mikill vökvi, og jafnframt greindist hjá áfrýjanda verulega hækkaður blóðsykur. Þá sýndu rannsóknir mikla hækkun á sökki. Andrés Sigvaldason sérfræðingur í lungnasjúkdómum taldi í upphafi líklegast, að um lungna- og brjósthimnubólgu væri að ræða og var áfrýjandi látinn á sýklalyf. Þá var reynt án árangurs að stinga á hægra brjósthol áfrýjanda til þess að ná vökvasýni til ræktunar.
Hinn 29. janúar 1995 var tekin tölvusneiðmynd af brjóstholi áfrýjanda. Segir í framvinduskrá Kjartans Örvar sérfræðings í lyflækningum, sem aðallega annaðist áfrýjanda, að ekki sé unnt að útiloka empyema eða ígerð í brjóstholi. Jafnframt er skráð, að rætt verði við Andrés Sigvaldason, „hvort ekki þurfi að setja inn thorax dren og drenera þetta.” Ómstýrð ástunga á fleiðruholi áfrýjanda var svo gerð 31. janúar og dregnir út 20 ml af tærum, grængulleitum vökva, en ræktun og smásjárskoðun sýndu ekki fram á bakteríugróður. Í bréfi Kjartans Örvar til aðstoðarlandlæknis 31. mars 1996 kom fram, að ítarlegar rannsóknir hafi að öðru leyti verið gerðar, „m.a. urographia, ómskoðun af kvið og ýmsar blóðprufur, en ekkert nýtt kom fram við þær mælingar.“ Líðan hans hafi síðan lagast smám saman og endurtekin lungnamynd hafi sýnt mikla minnkun á vökva.
Áfrýjandi var útskrifaður 10. febrúar og skyldi fylgjast með honum á göngudeild vegna lungna og sykursýki. Í framvinduskrá meðferðarlæknis við útskrift segir, að um lungna- og brjósthimnubólgu virðist hafi verið að ræða. Í sjúkraskýrslu sama dag er skráð: „Obs. encapsulerað empyema í thorax.“
II.
Áfrýjandi var að nýju lagður inn á St. Jósefsspítala 24. febrúar 1995 og enn vegna mikilla verkja í baki. Í innlagnarskýrslu minnist aðstoðarlæknir meðal annars á grun um empyema í fyrri innlögn og segir síðar, þegar hann hefur lýst skoðun á áfrýjanda: „Það er spurning um hvað getur valdið þessum einkennum, e.t.v. einhver þrýstingur aftur á hrygg og mætti e.t.v. taka sneiðmynd af efri hluta kviðarhols m.t.t. þess og m.t.t. hins ómsnauða svæðis í lifur.” Í framvinduskrá sama dag er empyema eða gröftur í brjóstholi nefnt meðal þess í spurnarformi, er kynni að valda bakverkjum áfrýjanda. Fyrir héraðsdómi staðfesti Kjartan Örvar læknir, að á tímabili hefði verið grunur um empyema, en læknar hafi talið sig hafa útilokað það.
Í síðari innlögn áfrýjanda eru enn gerðar ýmsar rannsóknir, svo sem beinskönnun, ómskoðun og tölvusneiðmyndataka. Um niðurstöðu ómskoðunar lifrar, gallvega og briss 28. febrúar 1995 segir meðal annars í umsögn Sigurðar V. Sigurjónssonar sérfræðings í geislagreiningu, að í hægra brjóstholi hafi sést „ómsnauð fyrirferð sem mælist ca. 5.5 cm á þykkt og er 8-9 cm á lengd og breidd ...” Í áliti Andrésar Sigvaldasonar þennan sama dag kemur fram, að áfrýjandi sé enn með hátt sökk, og síðan segir: „Beinaskann er eðlilegt, væri mjög gagnlegt að reyna að ná pleuravökva til ræktunar. Þær ræktanir sem teknar voru í fyrri legu voru teknar meðan sj. var á fúkkalyfjameðferð þannig að bakterologisk diagnosa mun ekki hafa fengist. Slíkt er mjög æskilegt m.t.t. þess að sj. er með ofnæmi bæði fyrir Penecillini og Sephalosporinum. Bæði ég og aðrir læknar reyndu blindar ástungur án árangurs en hinsvegar gekk vel að stinga á þessu í ómskoðun sem því væri vænlegasta leiðin nú.” Tölvusneiðmynd af brjóstholi áfrýjanda var tekin 3. mars og í umsögn segir, að breytingar frá fyrri rannsóknum veki „ákveðinn grun um empyema ...”
Í málinu liggur fyrir álit Vilhelmínu Haraldsdóttur sérfræðings í lyflækningum frá 7. mars 1995, þar sem fram kemur, að myeloma eða beinfrumuæxli sé ólíklegt, og leggur hún meðal annars til, að leitað sé að abscess eða ígerð. Í nánari útlistun hennar 9. mars segir hún líklegast, að blóðleysi áfrýjanda sé til komið vegna sýkingar eða „chronisks“ sjúkdóms.
Fyrir héraðsdómi lýsti Kjartan Örvar því, að hann hafi í kjölfar þessa talið rétt að fá brjóstholsskurðlækni til að taka sýni með aðgerð úr áfrýjanda til ræktunar frekar en að endurtaka ómstýrða ástungu, eins og Andrés Sigvaldason hafði lagt til 28. febrúar og hafi þetta verið „kannski síðasta hálmstráið af því að ég var viss um það á þessu stigi að ég yrði af fá sýni úr svæði.” Var haft samband við Bjarna Torfason brjóstholsskurðlækni á Landspítala 7. mars 1995 og honum sendar tölvusneiðmyndir af áfrýjanda sama dag. Í héraðsdómi er því lýst, að ekki náðist frekar til Bjarna næstu daga og síðdegis á föstudegi 10. mars fengust fregnir af því, að hann væri farinn úr bænum en kæmi til baka á mánudegi. Fyrir héraðsdómi kvaðst Kjartan Örvar hafa tekið þá ákvörðun að bíða Bjarna, þar sem hann hafi verið kominn inn í málin og engin merki þess, að heilsu áfrýjanda færi hrakandi á þessu stigi. Staðan hefði ekki verið verri þennan dag en dagana eða vikurnar á undan og ekki hefði verið réttlætanlegt að kalla inn nýjan mann, enda litlar líkur til þess, að aðgerðin yrði gerð um helgina. Á mánudegi var Bjarni veðurtepptur á Akureyri en kom til Reykjavíkur 14. mars og kvaðst hann þá myndu hafa samband við St. Jósefsspítala næsta dag að sögn Kjartans Örvar. Að morgni 14. mars skoðaði Kjartan Örvar áfrýjanda ítarlega, en um kl. 10.30 kom í ljós, að áfrýjandi hafði minnkandi afl í hægri fæti og ágerðist það. Var þá tekin tölvusneiðmynd af hrygg hans í Domus Medica í Reykjavík, en sú mynd leiddi ekkert í ljós. Eftir að áfrýjandi var aftur kominn til Hafnarfjarðar missti hann einnig afl í vinstri fæti. Þá var haft samráð við taugaskurðlækni á Borgarspítala og áfrýjandi lagður þar inn.
Már Kristjánsson sérfræðingur á smitsjúkdómadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi lýsti afdrifum áfrýjanda 14. mars 1995 í bréfi til þáverandi lögmanns hans 24. nóvember 1997. Þar sagði meðal annars: „Það var síðan að morgni komudags að sjúkl. kvartaði um máttleysiskennd í fótum og á skömmum tíma varð hann máttlaus í hægri ganglim og nokkru seinna einnig í þeim vinstri. Fram kom dofi neðan við mitti. Haft var samráð við Þóri Ragnarsson, taugaskurðlækni og var hann sendur á Landspítalann í bráða-segulrannsókn af hrygg og vegna niðurstöðu þeirrar rannsóknar kom hann síðan beint til aðgerðar á baki. Rannsóknin leiddi í ljós brjóskbólgu á milli IX. og X. brjóstholshryggjarliða og stóran epidural abscess á svæðinu frá VIII. thoraxlið og niður á X. Þar kom fram mikil þrýstingseinkenni á mænu en auk þess var geysistór paraspinal abscess hægra megin í thorax. Skoðun við komu sýndi að sjúklingur var veikindalegur en þó ekki toxiskur. Hann var með total paraplegiu frá því svæði sem að ofan getur. Það var hvorki hreyfing í hægri eða vinstri neðri útlimum sem voru algjörlega „flaccid” og án taugaviðbragða. Sjúklingur lá á heila- og taugaskurðlækningadeild þar sem losaðir voru u.þ.b. 2 lítrar af abscess úr thorax. Auk þess sem losaður var gröftur úr epidural bili, upp og niður thorax hryggjarliðinn. Úr öllum þessum sýnum ræktaðist Staphylococcus aureus með gott næmi fyrir hefðbundnum sýklalyfjum.”
III.
Landlæknir beindi máli áfrýjanda til læknaráðs á árinu 1996 og fékk siðamáladeild ráðsins það fyrst til meðferðar og samdi greinargerð og tillögu að svari læknaráðs. Þar kemur meðal annars fram, að eftir tölvusneiðmyndatökuna 3. mars 1995 hafi verið grunur um empyema eða ígerð, en það hafi dregist til 7. mars að taka ákvörðun um, að rétt væri að gera aðgerð vegna þessa, en hún hafi síðan dregist af ófyrirséðum ástæðum. Siðamáladeildin segir, að eftir á að hyggja megi halda þeirri skoðun fram, að eðlilegra hefði verið að vista áfrýjanda á sjúkrahúsi, þar sem lungnaskurðlækningar séu framkvæmdar, enda hafi verið um slæma lungnabólgu að ræða. Þá komi ennfremur til greina, að unnt hefði verið að fá annan brjóstholsskurðlækni til að annast áfrýjanda, þegar dráttur varð á komu þess, sem valinn hafði verið. Lokaniðurstaða siðamáladeildar 19. nóvember 1996 var svofelld: „Þegar á heildina er litið telur Siðamáladeild að þrátt fyrir að framvinda sjúkdómsins hafi leitt í ljós að aðgerðar var þörf og ekki tekist að koma henni í framkvæmd þá bera gögn sjúklings það með sér að læknar þeir sem önnuðust hann á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hafi gert það af vandvirkni og beitt þeim aðgerðum sem þeir töldu réttar á hverjum tíma. Niðurstaða Siðamáladeildar Læknaráðs er sú, að tilhlýðilega hafi verið staðið að meðferð sjúklings.” Að þessari ályktun stóðu þeir Hrafn Tulinius, Gunnlaugur Geirsson og Sverrir Bergmann.
Málið var tekið fyrir á tveimur fundum læknaráðs í byrjun árs 1997. Á fyrri fundinum 29. janúar var svo bókað: „Ólafur Ólafsson, Þórður Harðarson, Sigurður Thorlacius og Jónas Magnússon eru ósammála niðurstöðu siðamáladeildar og telja að of seint hafi verið brugðist við með aðgerð eftir að greining lá fyrir. Ákveðið er að bera málið upp í læknaráði á fundi er haldinn verður að þremur vikum liðnum.” Á síðari fundinum 19. febrúar var málið afgreitt með svofelldri bókun: „Tillaga siðamáladeildar að svari læknaráðs var rædd ítarlega. Sverrir Bergmann og Hrafn Tulinius staðfestu álit sitt. Meirihluti læknaráðs, þeir Ólafur Ólafsson, Tómas Helgason, Þórður Harðarson og Sigurður Thorlacius eru ósammála niðurstöðu siðamáladeildar og telja að ótilhlýðilega hafi verið staðið að meðferð sjúklings. Jónas Magnússon mun vera sammála meirihluta læknaráðs, eins og fram kemur í fundargerð frá fundi læknaráðs þann 29. janúar 1997. Málið er því afgreitt frá læknaráði með minnihluta þriggja ráðsliða siðamáladeildar og meirihluta fimm ráðsliða læknaráðs.” Fjarstaddir þessa afgreiðslu voru Jónas Magnússon og Gunnlaugur Geirsson, sem báðir voru erlendis.
Í héraðsdómi kemur fram sú afstaða hinna sérfróðu meðdómenda, að þeir fallast ekki á álit læknaráðs. Í röksemdum þeirra segir meðal annars: „Tilgangur fyrirhugaðrar aðgerðar brjóstholsskurðlæknis var að fá greiningu á sjúkdómi í brjóstholi sjúklingsins. Tilgangur aðgerðarinnar var ekki að koma í veg fyrir að ígerð brytist inn í mænugang þar sem ekki var staðfest að um ígerð væri að ræða og aðrar sjúkdómsgreiningar komu til greina allt þar til segulómrannsókn var gerð vegna lömunar í báðum fótum.“
IV.
Áfrýjandi reisir kröfugerð sína á því, að læknum á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hafi orðið á mistök við meðferð og greiningu á sjúkdómi hans og ekki hafi verið brugðist tilhlýðilega við, eftir að grunur hafði vaknað um ígerð í brjóstholi. Stefndi leggur áherslu á, að ekki hafi verið um vítavert og saknæmt gáleysi að ræða, þótt ekki hafi tekist að greina ígerðina fyrr en 14. mars 1995, enda hafi allt verið reynt til þess að greina sjúkdóminn og nánast allt annað verið útilokað.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er sú niðurstaða staðfest, að umönnun áfrýjanda á St. Jósefsspítala dagana 26. janúar til 10. febrúar 1995 og útskrift hans þann dag hafi verið fyllilega eðlileg.
Í héraðsdómi er því lýst, að í síðari innlögn áfrýjanda 24. febrúar hafi verið fyrir hendi grunur um illkynja æxli og margs konar rannsóknir hafi farið fram til að komast að raun um meinsemdir áfrýjanda. Hinir sérfróðu meðdómendur telja, að hugmyndir um mergæxli eða meinvarp skýri á fullnægjandi hátt þær langvinnu og ítarlegu rannsóknir, sem gerðar hafi verið á honum með tilliti til sérhæfðrar meðferðar.
Ekki eru efni til að ætla, að þessar rannsóknir hafi ekki verið nauðsynlegar og markvissar og nokkurn tíma hafi þurft til að sinna þeim. Á hinn bóginn verður að telja ljóst af gögnum málsins, sem rakin hafa verið, að frá febrúarlokum og eigi síðar en eftir tölvusneiðmyndatöku 3. mars 1995 hafi verið fram kominn svo ákveðinn grunur um ígerð í brjóstholi, að frekari aðgerða hafi verið þörf gagngert vegna hans. Undir þetta sýnist siðamáladeild læknaráðs taka með þeim orðum, að frá þessum tíma hafi dregist til 7. mars að taka ákvörðun um, að rétt væri að gera aðgerð, en hún hafi síðan dregist af ófyrirséðum ástæðum. Þessi dráttur hefur ekki verið skýrður til hlítar, en meirihluta læknaráðs og sérfróða meðdómendur virðist greina á um það, hvort greining á sjúkdómi í brjóstholi áfrýjanda hafi á þessu stigi verið fengin eða ekki.
Þegar allt er virt verður að telja, að áfrýjandi hafi nægilega sýnt fram á, að dráttur á frekari aðgerðum í byrjun mars 1995 hafi verið of langur og mikil líkindi séu fyrir því, að með markvissari meðferð á þessu stigi hefði farið á annan veg en raun varð á. Af hálfu stefnda hefur á hinn bóginn ekki verið sannað, að lömun í fótum áfrýjanda hefði allt að einu borið að höndum, þótt fullrar árvekni hefði verið gætt. Verður hann því eftir almennum sönnunarreglum að bera fébótaábyrð á tjóni áfrýjanda.
V.
Jónas Hallgrímsson læknir skilaði örorkumati um áfrýjanda 2. desember 1997. Í niðurstöðu hans segir, að ætla megi, að áfrýjandi hefði átt að ná sér til fulls, ef tekist hefði að koma í veg fyrir, að ígerð breiddist inn í mænugang. Til þess hefði þurft brjóstholsaðgerð og hefði mátt búast við sjúkralegu og veikindum í einn til tvo mánuði eftir þá aðgerð. Áfrýjandi hafi verið rúmliggjandi frá 26. janúar 1995, þar til hann útskrifaðist af Grensásdeild 1. september sama ár, eða í samtals 218 daga. Hann hafi svo meira og minna verið í sjúkraþjálfun fram til 1. júní 1997 og sé ekki að vænta frekari bata eftir þann tíma. Læknirinn mat varanlegan miska áfrýjanda samtals 50% og taldi hann allan stafa af afleiðingum sýkingarinnar í mænugangi.
Stefndi óskaði álits örorkunefndar 1. október 1998 samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Nefndin lét álit sitt í té 12. október 1999 og taldi varanlegan miska áfrýjanda hæfilega metinn 55%.
VI.
Áfrýjandi reisir kröfugerð sína á örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis og niðurstöðu örorkunefndar, sbr. lög nr. 50/1993. Krafan er þannig sundurliðuð:
I. Þjáningabætur samkvæmt 3. gr.
a) Áfrýjandi rúmfastur í 218 daga, að frátöldum
30 dögum, x kr. 1.410 kr. 265.080
b) Áfrýjandi veikur frá 1.9.1995-1.6.1997,
638 dagar x kr. 760 kr. 484.880
II. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr.,
55% af kr. 4.378.900 kr. 2.407.900
Frádráttur vegna aldurs, 50% kr. 1.203.950
Samtals kr. 1.953.910
Stefndi hreyfir ekki öðrum andmælum við kröfugerð áfrýjanda en þeim, að ekki sé rétt að miða fjölda rúmlegudaga við upphaf fyrri innlagnar 26. janúar 1995.
Eins og hér háttar til þykir rétt að miða útreikning þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga við 14. mars 1995, er áfrýjandi varð fyrir áfalli sínu, þótt ætla megi, að hann hefði á þessum tíma verið rúmfastur um nokkurt skeið við eðlilegar aðstæður. Verður þá dagafjöldi samkvæmt a. lið kröfugerðarinnar talinn 171 og bætur vegna þeirra 241.110 krónur. Að öðru leyti er fallist á kröfugerð áfrýjanda og verður stefndi þá dæmdur til að greiða honum samtals 1.929.940 krónur með vöxtum, eins og krafist er.
Þar sem áfrýjandi hefur gjafsókn á báðum dómstigum eru ekki efni til að dæma stefnda til að greiða honum málskostnað. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest, en um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti mælir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Kjartani Stefánssyni, 1.929.940 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. mars 1995 til 10. janúar 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars sl, var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 21. sept. 1998.
Stefnandi er Kjartan Stefánsson, kt. 150624-2829, Stekkjarkinn 5, Hafnarfirði.
Stefndi er íslenska ríkið vegna heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, kt. 600169-6109, Laugavegi 116, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda:
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.953.910 kr. ásamt 2% ársvöxtum frá 14. mars 1995 til 10. janúar 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða aðra og lægri fjárhæð að mati dómsins en með sömu vöxtum og í aðalkröfu.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt tveimur framlögðum málskostnaðar-reikningum úr hendi stefnda eins og mál þetta væri eigi rekið sem gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 10. júlí 1998.
Dómkröfur stefnda:
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Til vara er gerð krafa um verulega lækkun stefnufjárhæðar.
Málavextir
Hinn 16. janúar 1995 var stefnandi lagður inn á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði vegna mikilla bakverkja sem höfðu samkvæmt sjúkraskrá þjáð hann í 10 daga fyrir innlögn. Við rannsókn greindist hann með lungnabólgu og fleiðruholsvökva hægra megin. Voru honum gefin sýklalyf. Stefnandi var útskrifaður af St. Jósefsspítala þann 10. febrúar 1995. Hinn 24. febrúar s.á. var stefnandi lagður að nýju inn á St. Jósefsspítala vegna mikilla bakverkja sem virtust ná fram í kvið. Þar gekkst stefnandi undir fjölda rannsókna.
Þann 7. mars 1995 var haft samband við brjóstholsskurðlækninn, Bjarna Torfason, með tilliti til þess að gera aðgerð og tæma út þennan absess. Lækninum voru sendar tölvusneiðmyndir af stefnanda sama dag. Að sögn læknis stefnanda, Kjartans Örvars, var reynt að hafa samband við Bjarna Torfason 9. og 10. mars en ekki náðist í hann. Síðdegis föstudaginn 10. mars fréttist að Bjarni Torfason væri farinn úr bænum. Læknar á St. Jósefsspítala töldu ástand stefnanda það gott á þessu stigi og að óhætt væri að bíða til mánudags en þá yrði Bjarni Torfason kominn til baka. Að morgni mánudags 13. mars kom í ljós að Bjarni Torfason var veðurtepptur á Akureyri. Að morgni þriðjudagsins 14. mars náðist í Bjarna Torfason og taldi hann rétt að fara inn á þetta og ætlaði að hafa samband við St. Jósefsspítala daginn eftir. Sama morgun skoðaði Kjartan Örvar læknir stefnanda ítarlega og var hann þá góður fyrir utan bakverkinn. Um það bil klst. eftir skoðun kom í ljós að stefnandi hafði minnkandi afl í hægri ganglim og ágerðist það. Var þá tekin tölvusneiðmynd af hrygg frá TH12 niður að L5. Sú mynd leiddi ekkert í ljós. Eftir að stefnandi var aftur kominn til Hafnarfjarðar kom í ljós lömun á báðum fótum. Þá var haft samráð við taugaskurðlækni á Borgarspítala og stefnandi lagður þar inn.
Í vottorði Más Kristjánssonar, sérfræðings á smitsjúkdómadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 27. nóvember 1997, segir m.a. svo um stefnanda:
“Um er að ræða 70 ára gamlan karlmann sem kemur bráðainnlögn frá St. Jósepsspítala í Hafnarfirði til aðgerðar vegna paraspinal abscess og epidural abscess í thorax ... Fram kom dofi neðan við mitti. Haft var samráð við Þóri Ragnarsson, taugaskurðlækni og var hann sendur á Landspítalann i bráða- segulrannsókn af hrygg og vegna niðurstöðu þeirrar rannsóknar kom hann síðan beint til aðgerðar á baki. Rannsóknin leiddi í ljós brjóskbólgu á milli IX. og X. brjóstholshryggjarliða og stóran epidural abscess á svæðinu frá VIII. thoraxlið og niður á X. Þar kom fram mikil þrýstingseinkenni á mænu en auk þess var geysistór paraspinal abscess hægra megin í thorax.
Skoðun við komu sýndi að sjúklingur var veikindalegur en þó ekki toxiskur. Hann var með total paraplegiu frá því svæði sem að ofan getur. Það var hvorki hreyfing i hægri eða vinstri neðri útlimum sem voru algjörlega “flaccid” og án taugaviðbragða.
Sjúklingur lá á heila- og skurðlækningadeild þar sem losaðir voru u.þ..b. 2 lítrar af abscess úr thorax. Auk þess sem losaður var gröftur ú epidural bili, upp og niður thorax hryggjarliðinn. Úr öllum þessum sýnum ræktaðist Staphylococcus aureus með gott næmi fyrir sýklalyfjum.”
Að lokinni aðgerð og lyfjameðferð dvaldi stefnandi á Grensásdeild til endurhæfingar, og var útskrifaður þaðan þann 1. september 1995. Frá þeim tíma og allt fram á þennan dag hefur hann þurft stöðugrar sjúkraþjálfunar við. Hann býr nú við afleiðingar mænuskaða, varanlega skerta göngugetu og jafnvægisleysi, skyntruflanir í fótum og truflanir á starfsemi þvagblöðru og við hægðir.
Á árinu 1996 leitaði stefnandi til landlæknis og óskaði þess að læknaráð fjallaði um læknismeðferð hans og hvort tilhlýðilega hefði verið að henni staðið. Landlæknir beindi erindi stefnanda fyrst til siðamáladeildar læknaráðs, og var niðurstaða siðamáladeildar, dags. 19. nóvember 1996, að tilhlýðilega hafi verið staðið að meðferð stefnanda og að læknar þeir sem önnuðust hann á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hafi gert það af vandvirkni og beitt aðgerðum sem þeir töldu réttar á hverjum tíma.
Læknaráð fjallaði um erindi stefnanda þann 19. febrúar 1997 og var það álit meirihluta læknaráðs að ekki hefði verið tilhlýðilega staðið að læknismeðferð stefnanda.
Hinn 2. desember 1997 skilaði Jónas Hallgrímsson læknir örorkumati vegna stefnanda. Í niðurstöðu læknisins segir að stefnandi hafi verið rúmliggjandi frá 26. janúar 1995 þar til hann útskrifaðist af Grensásdeild 1. sept. 1995 eða í 218 daga. Stefnandi hafi verið meira og minna í sjúkraþjálfun til 1. júní 1997. Læknirinn taldi ekki frekari von um bata eftir þann tíma. Læknirinn mat varanlegan miska stefnanda vegna takmarkaðrar göngugetu af völdum mænulömunar 30%. Varanlegan miska vegna truflunar á starfsemi þvagblöðru mat læknirinn 10%. Varanlegan miska vegna truflunar á hægðum mat læknirinn 5%. Varanlegan miska vegna skyntruflunar í fótlegg mat læknirinn 5%. Þannig mat læknirinn varanlegan miska stefnanda samtals 50% og sagði miskann allan stafa af afleiðingum sýkingarinnar í mænugangi.
Hinn 12. október 1999 skilaði örorkunefnd áliti varðandi varanlegan miska stefnanda vegna afleiðinga veikinda sem hann varð fyrir í janúar/febrúar 1995. Niðurstaða nefndarinnar var að stefnandi hefði hlotið 55% varanlegan miska.
Málsástæður og rökstuðningur stefnanda
Krafa stefnanda er á því byggð að læknum á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði hafi orðið á mistök við greiningu og meðferð stefnanda. Í fyrri innlögn á spítalann frá 26. janúar til 10. febrúar 1995 hafi greinst íferð í hægri lunga sem síðar leiddi til ígerðar í brjóstholi sem náði inn í mænugang og þrýsti á neðri hluta mænunnar og taugar þær sem frá henni ganga á svæðinu. Ekki hafi í upphafi verið brugðist tilhlýðilega við þeirri íferð sem leyndist í hægra lunga og hættunni á ígerð í mænugangi. Þrátt fyrir lyfjameðferð í fyrri innlögn hafi stefnandi þó áfram haft slæma bakverki sem hafi leitt til síðari innlagnar þann 24. febrúar s.á. Við rannsókn þá hafi fljótlega vaknað grundsemdir um graftarkýli í lunga en ekki hafi tilhlýðilega verið brugðist við og reynt að tæma það út fyrr en 7. mars s.á. Þá hafi ekki reyst unnt að ná til brjóstholsskurðlæknis og hafi stefnandi verið látinn bíða komu hans allt til 14. s.m. Ígerðin í brjóstholi stefnanda hafi þá náð inn í mænugang og valdið honum mænuskaða með lömun sem hann búi enn við.
Þá er á því byggt að stefnandi hefði að öllum líkindum náð fullum bata ef læknar hefðu brugðist rétt við í tæka tíð, skynjað hættuna á því að ígerð frá brjóstholi breiddist inn í mænugang og þegar leitað uppi annan brjóstholsskurðlækni eftir að grunsemdir vöknuðu um graftarkýli í lunga. Vakin er athygli á því að a.m.k. 7 dagar hafi liðið frá því að grunur vaknaði um graftarkýli í lunga án þess að brugðist hafi verið við á annan hátt en þann að reyna að ná sambandi við brjóstholsskurðlækni.
Krafa stefnanda sé og studd áliti meirihluta læknaráðs sem álíti að þeir læknar sem önnuðust stefnanda á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hafi ekki gengið nægilega fram við að koma sjúklingi í þá sérhæfðu meðferð sem nauðsynleg var. Læknaráð starfi skv. lögum um læknaráð nr. 14/1942. Hlutverk þess sé að láta í té sérfræðilegar umsagnir um læknisfræðileg efni. Telur stefnandi að álit siðamáladeildar sem starfi innan vébanda læknaráðs geti ekki hrundið faglegu sérfræðiáliti læknaráðs enda sé það ekki hlutverk þess.
Stefnandi telur að stefndi, íslenska ríkið, sem rekstraraðili að St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og vinnuveitandi þeirra lækna sem unnu að læknismeðferð stefnanda, beri skaðabótaábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni á því tjóni sem stefnandi varð þar fyrir sökum gáleysis og ótilhlýðilegrar meðferðar lækna
Endanleg kröfugerð stefnanda er reist á matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 svo og niðurstöðu örorkunefndar. Krafan sundurliðast þannig:
I.Þjáningabætur skv. 3. gr.
a. Stefnandi rúmfastur í 218 daga, að frádr. 30 dögum,
x kr. 1.410,- kr. 265.080
b. Stefnandi veikur frá 1/9 1995 -1/6 1997,
samtals 638 dagar x kr. 760,- “484.880
II.Varanlegur miski skv. 4. gr. 55% af kr. 4.378.000,- “ 2.407.900
Frádr. v/aldurs 50% “ 1.203.950
kr. 1.953.910
Þá er skv. 16. gr. skaðabótalaga krafist 2% ársvaxta af stefnufjárhæðinni frá 14. mars 1995 til 10. janúar 1998, en frá þeim degi dráttarvaxta skv. 15. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, til greiðsludags. Krafa stefnanda var kynnt stefnda með bréfi dags. 10. desember 1997.
Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum aðra og lægri fjárhæð, að mati dómsins, en með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og í aðalkröfu greinir.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, þá á meðal alls útlagðs kostnaðar vegna læknisvottorða og matsgerðar, 69.280 kr. Stefnandi nýtur gjafsóknar skv. gjafsóknarbréfi dómsmálaráðherra, dags. 10. júlí 1998, og er sú krafa gerð að málskostnaður verði tildæmdur stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Málsástæður og rökstuðningur stefnda
Stefndi telur kröfu stefnanda aðallega byggjast á tveimur málsástæðum, annars vegar þeirri, að mistök hafi orðið við greiningu og meðferð á stefnanda við innlögn á St. Jósefsspítala 26. janúar til 10. febrúar 1995 og hins vegar að ekki hafi verið reynt að tæma út graftarkýli sem grunsemdir höfðu vaknað um að væri í lunga eftir innlögn 24. febrúar 1995 fyrr en 7. mars sama ár, en þá hafi ekki reynst unnt að ná til brjóstholsskurðlæknis fyrr en viku síðar.
Að því er fyrra atriði varðar er af hálfu stefnda bent á að mjög erfitt sé að greina graftarsöfnun við mænu og yfirleitt líði tiltölulega langur tími frá því að fyrstu einkenni komi fram og þar til niðurstaða liggi fyrir. Í sjúkraskrá stefnanda og skýringum læknis komi fram að læknar hafi gert margar rannsóknir og athuganir til að leitast við að ganga úr skugga um hvað þjakaði stefnanda en einkenni hafi getað gefið vísbendingu um lungnabólgu og/eða ígerð, sýkta eða ósýkta. Meðal annars komi fram í skýrslu röntgendeildar St. Jósefsspítala frá 31. janúar 1995 að rannsókn með ómskoðun hafi ekki leitt í ljós ígerð og í röntgenskýrslu frá Domus Medica 28. febrúar 1995 um beinaskann sé talið ólíklegt að um meinvörp sé að ræða en hins vegar bent á miklar slitbreytingar. Hafi þá verið mælt með frekari röntgenmyndatöku. Í skýrslu frá röntgendeild Domus Medica 14. mars 1995 sé bent á miklar slitbreytingar en tekið fram að hvergi sé merki um brjósklos.
Í skýrslu Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði frá 6. mars 1995 sé bent á breytingar, sem teljist geta verið grunsamlegar fyrir mergfrumuæxli (myeloma multiplex), en í niðurstöðu rannsóknardeildar Borgarspítalans frá 9. sama mánaðar sé talað um “minor kritera fyrir greiningu og myeloma”. Hins vegar sé talið ólíklegt að þetta útskýri einkenni sjúklings og líklega sé blóðleysið komið til vegna sýkingar eða “chronisks sjúkdóms”.
Meðal annars af þessum skýrslum og fleiri rannsóknum sem fylgi sjúkraskrá stefnanda komi glöggt fram að læknar stefnanda hafi lagt sig fram um að greina íferðina sem hrjáði stefnanda og hafi leitað þeirra leiða sem tiltækar hafi verið.
Vegna fullyrðinga í stefnu um að ekki hafi verið reynt að tæma út graftarkýli í lunga fyrr en 7. mars 1995 er bent á álit Andrésar Sigvaldasonar sérfræðings, dags. 28. febrúar 1995, þar sem segir: “Bæði ég og aðrir læknar reyndu blindar ástungur án árangurs en hins vegar gekk vel að stinga á þessu í ómskoðun sem því væri vænlegasta leiðin nú.” Ómstýrð ástýrð ástunga hafi verið gerð 31. janúar 1995, sbr. skýrslu röntgendeildar St. Jósefsspítala frá þeim degi.
Í siðamáladeild læknaráðs sitji þrír sérfræðingar á því sviði læknavísindanna sem tengist því álitamáli sem hér sé til umfjöllunar. Niðurstaða þessara sérfræðinga hafi verið að tilhlýðilega hafi verið staðið að meðferð sjúklings. Þá komi einnig fram í álitinu að yfirlæknir sjúkdómadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur hafi lýst þeirri skoðun sinni að stefnanda hafi verið sinnt eftir bestu getu þótt ytri aðstæður hafi leitt til tafa á réttri greiningu og meðferð sem auðvelt sé að benda á eftirá.
Meirihluti læknaráðs hafi hinsvegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið staðið tilhlýðilega að meðferð sjúklings. Byggi meirihlutinn á því að læknar sjúklingsins “hafi ekki gengið nægilega fram við að koma sjúklingi í þá sérhæfðu meðferð sem þurfti.”
Af þessu tilefni er af hálfu stefnda áréttað að 7. mars 1995 hafi verið haft samband við sérfræðing á Landsspítalanum sem hafi óskað eftir frekari upplýsingum og skoðun á tölvusneiðmyndum áður en hann tæki sjúkling í aðgerð. Það hafi verið eðlilegt miðað við að ástand stefnanda hafi ekki farið versnandi á þeim tíma, þótt tímalengd einkenna væri orðin nokkuð löng. Umræddur sérfræðingur hafi síðan farið úr bænum og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist að ná í hann fyrr en viku síðar, eða 14. mars. Á þeim tíma hafi ástand stefnanda hins vegar verið óbreytt og hafi það verið mat læknis að reyna fremur að ná til nefnds sérfræðings en blanda öðrum lækni inn í mál stefnanda enda hafi ástand stefnanda verið stöðugt. Að morgni 14. mars hafi stefnandi síðan fengið einkenni um lömun sem síðan ágerðust þegar leið á daginn og hafi þegar verið haft samráð við taugaskurðlækni og stefnandi lagður inn til aðgerðar.
Af þessu verði ekki ráðið að læknar á St. Jósefsspítala hafi gerst sekir um svo ótilhlýðilega meðferð á stefnanda að varðað geti bótaskyldu samkvæmt sakarreglunni, þ.e. að þeir hafi gerst sekir um saknæmt og ólögmætt atferli eða sýnt af sér vítavert gáleysi. Fjórir sérfræðingar sem hafa gefið álit í málinu séu ekki þeirrar skoðunar og af niðurstöðu læknaráðs eins og hún er orðuð verði heldur ekki dregin sú ályktun.
Þá hafi heldur ekki verið sýnt fram á læknisfræðilega að aðgerð á stefnanda einhverjum dögum fyrr hefði komið í veg fyrir tjón hans.
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og Kjartan Björnsson Örvar, læknir á St. Jósefsspítala, skýrslu fyrir dóminum.
Forsendur og niðurstaða
Þá er stefnandi var lagður inn á St. Jósefsspítalann 26. janúar 1995 hafði hann haft verki í baki í 10 daga og verið móður. Fyrstu rannsóknir gengu út á að útiloka bráða kransæðastíflu, rifu á ósæð, lungnasjúkdóm o.fl. Í ljós kom íferð í hægra lunga, samfall og mikill vökvi. Jafnframt greindist verulega hækkaður blóðsykur.
Strax var reynt að ná í ræktanir og var m.a. stungið ítrekað á hægra brjósthol án þess að vökvi kæmi út. Fengið var álit Andrésar Sigvaldasonar sérfræðings í lungnasjúkdómum, sem reyndi að stinga á hægri thorax án árangurs. Hann taldi líklegast að um lungna- og brjósthimnubólgu væri að ræða. Í framhaldi af því var stefnandi látinn á sýklalyf.
Hinn 31. janúar var gerð ómstýrð ástunga á fleiðruholi og dregnir út 20 ml af tærum, grængulleitum vökva. Ræktun og smásjárskoðun sýndu ekki fram á bakteríugróður.
Líðan stefnanda lagaðist smám saman. Hinn 8. febrúar var líðan hans mjög góð. Stefnandi vildi útskrifast 10. febrúar. Við útskrift var niðurstaða sú að stefnandi hefði verið með lungna- og brjósthimnubólgu. Lungnabreytingar voru að mestu gengnar til baka en ákveðið var að fylgjast með honum á göngudeild. Stefnanda var vísað til Andrésar Sigvaldasonar læknis varðandi lungun en til Gunnars Valtýssonar læknis varðandi sykursýki. Jafnframt var stefnanda sagt að hafa strax samband við sjúkrahúsið ef einkenni kæmu aftur.
Það er álit hinna sérfróðu meðdómenda að læknismeðferð stefnanda á St. Jósefsspítala á tímanum 26. janúar til 10. febrúar 1995 og útskrift hafi verið fyllilega eðlileg.
Við síðari innlögn 24. febrúar sýna gögn málsins að fyrir hendi var grunur um illkynja æxli. Niðurstöður rannsókna voru taldar geta samrýmst annað hvort mergæxli eða meinvarpi. Reynt var að komast að meinsemd sjúklings með margháttuðum rannsóknum. Jafnframt var leitað til margra sérfræðinga í undirgreinum læknisfræðinnar.
Hinir sérfróðu meðdómendur telja að hugmyndir um mergæxli eða meinvarp skýri á fullnægjandi hátt þær langvinnu og ítarlegu rannsóknir sem gerðar voru á stefnanda með tilliti til sérhæfðrar meðferðar.
Hinn 7. mars ráðgaðist Kjartan Örvar læknir við Bjarna Torfason brjóstholsskurðlækni, sem óskaði eftir því að fá tölvusneiðmyndir sendar. Myndirnar voru sendar.
Samkvæmt sjúkraskrá fór Kjartan Örvar yfir niðurstöður af tölvusneiðmyndarannsókn á brjóstholi með röntgenlækni þann 8. mars. Niðurstaðan var sú að breytingar í hægra brjóstholi hafi gengið verulega til baka. Á því mun Kjartan Örvar m.a.hafa byggt mat sitt um að óhætt væri að bíða nokkra daga eftir að ná til þess brjótholsskurðlæknis sem hann hafði ráðgast við munnlega 7. mars. Kjartan Örvar reyndi að hafa samband við Bjarna Torfason næstu daga án árangurs þar sem Bjarni hafði farið úr bænum í leyfi. Það vissi Kjartan Örvar ekki fyrr en síðdegis 10. mars en frétti um leið að læknirinn væri væntanlegur til vinnu mánudaginn 13. mars. Þann dag varð Bjarni Torfason veðurtepptur á Akureyri. Hann kom svo til Reykjavíkur 14. mars. Þá um morguninn, áður en lömun í fótum stefnanda hafði komið fram, ráðgaðist Kjartan Örvar við Bjarna Torfason. Þá var talið rétt að gera aðgerð. Ekki kemur fram í sjúkraskrá að bráðaaðgerð hafi verið talin nauðsynleg.
Hinir sérfróðu meðdómendur telja ekki óeðlilegt að læknar hafi talið að um skaða á taugarótum gæti verið að ræða þegar lömun kom fram í hægra fæti þann 14. mars. Byggist sú skoðun á því að stefnandi var þá einkennalaus frá vinstra fæti. Meðdómendurnir telja það hafa verið eðlileg vinnubrögð að byrja á því að fá strax tölvusneiðmynd af lendhrygg. Stefnandi var fluttur frá Hafnarfirði til Reykjavíkur í tölvusneiðmyndarannsóknina. Eftir að stefnandi var aftur kominn til Hafnarfjarðar kom í ljós lömun á báðum fótum. Þá var stefnandi fluttur aftur til Reykjavíkur á Landspítalann í segulómrannsókn og þá kom í ljós hvað um var að ræða. Þá var stefnandi fluttur á Borgarspítalann í bráðaaðgerð.
Hinir sérfróðu meðdómendur fallast ekki á álit læknaráðs.
Tilgangur fyrirhugaðrar aðgerðar brjóstholsskurðlæknis var að fá greiningu á sjúkdómi í brjóstholi sjúklingsins. Tilgangur aðgerðarinnar var ekki að koma í veg fyrir að ígerð brytist inn í mænugang þar sem ekki var staðfest að um ígerð væri að ræða og aðrar sjúkdómsgreiningar komu til greina allt þar til segulómrannsókn var gerð vegna lömunar í báðum fótum.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að læknismeðferð sú sem stefnandi fékk á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði í janúar til mars 1995 hafi verið eðlileg í ljósi staðreynda málsins, eins og þær lágu fyrir á hverjum tíma, og þá um leið að læknar þeir sem önnuðust stefnanda hafi ekki gerst sekir um saknæm mistök. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Stefnanda var veitt gjafsókn í málinu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 548.080 kr., greiðist úr ríkissjóði, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hans Ingimundar Einarssonar hrl., sem fór með mál stefnanda í upphafi, 250.000 kr. og málflutningsþóknun Bjarna Lárussonar hdl., sem tók við málinu af Ingimundi Einarssyni hrl., 225.000 kr., og útlagður kostnaður 73.080 kr. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.
Málið dæma Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari, Elías Ólafsson prófessor og Grétar Ólafsson yfirlæknir.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kjartans Stefánssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 548.080 kr., greiðist úr ríkissjóði, þ.e. málflutningsþóknun Ingimundar Einarssonar hrl., 250.000 kr., málflutningsþóknun Bjarna Lárussonar hdl., 225.000 kr., og 73.080 kr. í útlagðan kostnað.