Hæstiréttur íslands

Mál nr. 668/2010


Lykilorð

  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Kröfugerð
  • Ómerking
  • Heimvísun


Þriðjudaginn 21. júní 2011.

Nr. 668/2010.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

Milliliðalaus málsmeðferð. Kröfugerð. Ómerking. Heimvísun.

X var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið án þess að hafa til þess gild ökuréttindi og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, sbr. 1. mgr. 48. gr. og 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í héraði var falið með málið sem útivistarmál og ákærða gerð sektarrefsing, auk þess sem hann var sviptur ökurétti. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að hvorki yrði séð að ætluð brot ákærða skyldu einungis varða sektarrefsingu, né hefði ákærði komið fyrir dóm við rannsókn máls og játað skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Væru því ekki lagaskilyrði til að fallast á kröfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti um þyngri refsingu ákærða. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. nóvember 2010 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að refsing ákærða verði þyngd og hann sviptur ökurétti ævilangt, en til vara þess að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

          Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar héraðsdóms.

          Með ákæru 2. maí 2010 var ákærða gefið að sök að hafa 17. febrúar sama ár ekið bifreið „án þess að hafa gild ökuréttindi ... óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls.“ Voru brot ákærða heimfærð undir 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. umferðarlaga nr. 50/1987 og auk refsingar krafist að ákærði yrði sviptur ökurétti samkvæmt 101. og 102. gr. laganna. Í fyrirkalli, sem birt var ákærða 8. ágúst 2010 í samræmi við 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var þess getið að fjarvist ákærða kynni að verða metin til jafns við játningu hans og að dómur kynni að ganga um málið þótt hann sækti ekki þing. Áður, eða 6. maí og 3. júní 2010, hafði héraðsdómari tvisvar sinnum gefið út sams konar fyrirkall sem ekki hafði tekist að birta ákærða.

          Ákærði mætti ekki til dóms við þingfestingu málsins 26. ágúst 2010 og var það tekið til dóms í því þinghaldi. Gekk hinn áfrýjaði dómur þann sama dag þar sem ákærði var dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar fyrir framangreind brot og hann sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu dómsins. Með bréfi ríkissaksóknara 7. september 2010 til Hæstaréttar var óskað leyfis til að áfrýja héraðsdóminum til ómerkingar honum. Í beiðninni var rakið að ekki hafi mátt að fara með málið sem útivistarmál samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 sökum þess að refsing ákærða hefði átt að vera fangelsi í 30 daga ef litið væri til sakarferils hans auk þess sem honum hefði borið ævilöng ökuréttarsvipting. Með bréfi Hæstaréttar 10. nóvember 2010 var beiðni ríkissaksóknara um áfrýjunarleyfi samþykkt. Áfrýjunarstefna var gefin út 11. nóvember 2010 en nú með þeirri kröfu einni að „viðurlög verði þyngd.“ Í greinargerð ákæruvalds fyrir Hæstarétti voru á hinn bóginn gerðar tvær kröfur, aðallega að „refsing verði þyngd og ákærði verði sviptur ökurétti ævilangt, en til vara er krafist að dómurinn verði ómerktur og máli heimvísað.“ Ítrekað var í málatilbúnaði ákæruvaldsins að með hliðsjón af sakarferli ákærða hefði ekki átt að ákveða honum sektarrefsingu og tímabundna sviptingu ökuréttar. Í málflutningi fyrir Hæstarétti var viðurkennt af hálfu ákæruvaldsins að ekki væri unnt að verða við aðalkröfu þess vegna annmarka sem ákæruvaldið taldi vera á meðferð málsins í héraði án þess að þó væri fallið frá aðalkröfunni.

          Samkvæmt c. lið 2. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008 hefði verið rétt af ákæruvaldinu að tilgreina þegar í áfrýjunarstefnu um kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins. Það stendur því þó ekki í vegi að til athugunar komi hvort slíkir gallar hafi verið á meðferð máls í héraði að ómerkja beri héraðsdóm þar sem þetta er atriði sem Hæstiréttur aðgætir án kröfu, sbr. 1. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt að leggja dóm á mál þótt ákærði mæti ekki fyrir dóm, án lögmætra forfalla, hafi honum verið löglega birt ákæra þar sem þess er getið í fyrirkalli að mál kunni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laganna, og svo stendur á: „a. að brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sekt, upptöku eigna og sviptingu réttinda og dómari telur framlögð gögn nægileg til sakfellingar eða  b. að ákærði hefur komið fyrir dóm við rannsókn máls, játað skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, enda verði ekki dæmd þyngri refsing en sex mánaða fangelsi.

          Hvorki verður séð að ætlað brot ákærða skuli einungis varða sektarrefsingu né hefur ákærði komið fyrir dóm við rannsókn máls og játað skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök, eins og gerður er áskilnaður um í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008. Af þeim sökum verður ekki talið að farið hafi verið með málið að réttum lögum í héraði og haggar það engu þótt ákæruvaldið hafi ekki látið þegar við þingfestingu málsins í ljós andmæli við þeirri meðferð. Ekki eru lagaskilyrði til að fallast á kröfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti um þyngri refsingu ákærða. Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

          Áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 26. ágúst 2010.

Mál þetta, sem þingfest var í dag og dómtekið samdægurs, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 2. maí 2010 á hendur X, kt. [...], [...], [...],

 „fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, síðdegis 17. febrúar 2010 ekið bifreiðinni [...] án þess að hafa gild ökuréttindi vestur Suðurlandsveg við Rauðalæk í Rangárþingi ytra, óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakakostnaðar.“

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir löglega birtingu ákæru þann 8. ágúst sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði framdi brot það sem greinir í ákæru og er það réttilega fært til refsiákvæðis. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt sakavottorði sem liggur frammi í málinu hefur ákærða margsinnis  verið gerðar refsingar.  Þann 29. október 1993 var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir tilraun til ráns og nytjastuld.  Þann 10. apríl 1995 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir þjófnað.  Þann 6. júní 2001 gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt fyrir ávana- og fíkniefnabrot og var gert að greiða 31.000 kr. í sekt.  Þann 14. maí 2004 var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár og til 100.000 kr. sektargreiðslu fyrir þjófnað, ölvunarakstur og fleiri brot.  Þá var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í 1 ár.  Þann 14. september 2004 var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár og til 30.000 kr. sektargreiðslu fyrir þjófnað, gripdeild, skjalafals og ávana- og fíkniefnabrot.  Var dómurinn hegningarauki og fyrri skilorðsdómur dæmdur með.  Þann 25. janúar 2005 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað en ekki gerð sérstök refsing.  Þann 13. mars 2007 var ákærði dæmdur til að greiða 200.000 kr. sekt fyrir ölvunarakstur og of hraðan akstur.  Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í 2 ár.  Með broti sínu þá gerðist ákærði sekur um fyrstu ítrekun vegna ölvunaraksturs.  Þann 22. maí 2007 var ákærði dæmdur til að greiða 50.000 kr. sekt fyrir ölvunarakstur, ávana- og fíkniefnaakstur og ávana- og fíkniefnabrot.  Var dómurinn hegningarauki.  Þann 23. janúar 2008 var ákærði dæmdur til að greiða 80.000 kr. sekt fyrir ávana- og fíkniefnaakstur auk annarra umferðarlagabrota, og var ákærði sviptur ökurétti í 9 mánuði.  Var dómurinn hegningarauki.  Brotin sem ákærði var sakfelldur í síðastgreindum tveimur dómum voru öll framin fyrir uppsögu dómsins frá 13. mars 2007, en eftir uppsögu dómsins frá 14. maí 2004, og því voru brot ákærða metin sem fyrsta ítrekun vegna ölvunaraksturs. 

Ákærði er nú sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en ekki fyrir ölvunarakstur.  Í dómi 14. maí 2004 var ákærði sakfelldur fyrir ölvunarakstur, en ekki fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákvæði um víxlverkun ítrekunaráhrifa vegna brota á 45. gr. og 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 komu í lög með lögum nr. 66/2006, sem tóku gildi löngu eftir uppsögu dómsins frá 14. maí 2004.  Þykir því óvarlegt að láta dóminn frá 14. maí 2004 hafa þau áhrif í málinu að litið verði á brot ákærða nú sem aðra ítrekun.  Verður litið á brot ákærða sem fyrstu ítrekun, svo sem gert var í dómum 13. mars 2007, 22. maí 2007 og 23. janúar 2008 og refsing og svipting ökuréttar við það miðuð, sbr. 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Í matsgerð frá Rannsóknastofu í lyfja-og eiturefnafræðum kemur fram að ópíöt og tetrahýdrókannabínólsýra hefðu fundist í þvagi ákærða og að í blóði ákærða hefði mælst morfín 45, ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,5 ng/ml. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals.

Refsing ákærða, sem ákveða ber með vísun til  1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er ákveðin 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í 8 daga. Þá ber að svipta ákærða ökurétti í 2 ár frá birtingu dómsins að telja.

Samkvæmt yfirliti er sakarkostnaður vegna lyfjarannsókna og matsgerðar 140.317 krónur sem ber að dæma ákærða til að greiða með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað krónur 140.317.