Hæstiréttur íslands

Mál nr. 353/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
  • Þinghald


                                     

Þriðjudaginn 28. maí 2013.

Nr. 353/2013.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

Y

Ý

Z

Þ

Æ

Ö

(enginn)

Kærumál. Skýrslugjöf. Þinghald.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu ákæruvaldsins er laut að því að hver og einn þeirra X, Y, Ý, Z, Þ, Æ, Ö yrði ekki viðstaddur skýrslutökur af hinum fyrir dómi. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að ef haldbær rök væru leidd að því að mál upplýstist með því að ákærði gæfi skýrslu fyrir dómi án þess að aðrir ákærðu væru viðstaddir yrði réttur ákærða til að vera við aðalmeðferð að víkja af þeim sökum. Þótti ákæruvaldið hafa fært fyrir því viðhlítandi rök að skýrsla skyldi tekin af hverjum þeirra X, Y, Ý, Z, Þ, Æ og Ö án þess að aðrir þeirra væru viðstaddir þá skýrslutöku. Til að gæta jafnræðis þótti rétt að ákærðu yrðu heldur ekki viðstaddir skýrslutökur yfir öðrum meðákærðu eftir að viðkomandi hefði gefið skýrslu, en þá gæfist einnig færi á að taka að nýju skýrslu ef fram kæmi misræmi í framburði þeirra.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila „um að ákærðu víki úr dómsal uns viðkomandi hefur gefið skýrslu.“ Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilum verði vikið „úr dómsal uns viðkomandi hefur gefið skýrslu.“

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta, sem þingfest var 3. maí 2013, var höfðað á hendur varnaraðilum með ákæru 18. apríl sama ár þar sem þeim eru meðal annars gefin að sök stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið annars vegar fjórir og hins vegar sex í sameiningu að innflutningi á miklu magni fíkniefna hingað til lands í janúar 2013. Í þinghaldi 24. maí sama ár krafðist sóknaraðili þess að varnaraðilar vikju „úr dómsal meðan skýrsla sé tekin af meðákærðu.“ Með hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað.

Í kæru rökstyður sóknaraðili kröfu sína með því að í rannsóknargögnum lögreglu komi fram að varnaraðilar hafi borið sakir hver á annan og hafi framburður þeirra ekki verið að öllu leyti stöðugur. Af greinargerðum, sem fimm varnaraðila hafi lagt fram í málinu, megi ráða að varnaraðilar beri enn sakir hver á aðra og greini þá á um málsatvik og sakaratriði. Hafi tveir þeirra breytt afstöðu sinni til sakarefnisins miðað við það sem komið hafi fram við þingfestingu þar sem þeir virðist ekki lengur játa verknaðarlýsingu samkvæmt ákæru og gera minna úr aðild sinni að hinum meintu brotum en þeir hafi gert áður. Sóknaraðili telur að skýrslutaka af varnaraðilum við aðalmeðferð málsins verði mikilvægur liður í sönnunarfærslu fyrir sekt þeirra og megi ætla að sönnunarmat héraðsdóms muni að verulegu leyti ráðast af mati á munnlegum framburði þeirra fyrir dómi. Jafnræðis milli varnaraðila verði nægjanlega gætt þar sem enginn þeirra muni hlýða á framburði hinna áður en þeir gefa skýrslu sína fyrir dómi. Þá megi ætla að meðalhófs verði gætt þar sem einungis sé gert ráð fyrir því af hálfu sóknaraðila að varnaraðilar séu fjarverandi áður en þeir gefi skýrslu, en eftir þann tíma eigi þeir þess kost að vera viðstaddir.

II

Í öðrum málslið 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um þá meginreglu að ákærði eigi rétt á að vera við aðalmeðferð í máli sem höfðað hefur verið gegn honum. Samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 114. gr. sömu laga getur dómari þó ákveðið, ef ástæða þykir til, að meðan ákærði gefur skýrslu fyrir dómi skuli aðrir ákærðu ekki hlýða á framburðinn. Í samræmi við þetta ákvæði segir í lokamálslið 1. mgr. 166. gr. að dómari geti ákveðið að ákærði víki af þingi meðan skýrsla er tekin af öðrum ákærðu í málinu.

Þegar reglur laga nr. 88/2008 um sönnunarfærslu eru skýrðar verður að horfa til þess að rík áhersla er lögð á það í sakamálaréttarfari að leiða hið sanna í ljós, eftir því sem kostur er. Ef haldbær rök eru leidd að því að mál upplýsist með því að ákærði gefi skýrslu fyrir dómi án þess að aðrir ákærðu séu viðstaddir og hlýði á framburðinn, til dæmis vegna þess að þeir hafi á fyrri stigum máls borið hverjir aðra sökum og verið óstöðugir í framburði sínum, verður fyrrgreindur réttur ákærða til að vera við aðalmeðferð að víkja af þeim sökum. Á það ekki síst við ef verjandi hans er viðstaddur til að gæta hagsmuna hans við skýrslugjöfina. Í því skyni að gæta jafnræðis gagnvart öllum ákærðu er rétt að hafa þann hátt á að hver og einn þeirra gefi skýrslu án þess að meðákærðu séu viðstaddir. Með því gefst jafnframt færi á að taka að nýju skýrslu af ákærðu ef fram kemur misræmi í framburði þeirra um atriði, sem miklu máli skipta við úrlausn um sekt þeirra eða sýknu, með það fyrir augum að leiða hið sanna í ljós.

Samkvæmt framansögðu hefur sóknaraðili fært fyrir því viðhlítandi rök að skýrsla skuli tekin af hverjum varnaraðila um sig við aðalmeðferð málsins án þess að aðrir þeirra séu viðstaddir þá skýrslutöku. Með vísan til síðari málsliðs 2. mgr. 114. gr., sbr. lokamálslið 1. mgr. 166. gr., laga nr. 88/2008 verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og krafa sóknaraðila tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að haga skýrslutöku þannig í máli ákæruvaldsins gegn varnaraðilum, X, Y, Ý, Z, Þ, Æ. Ö, að meðan hver þeirra gefur skýrslu fyrir héraðsdómi skuli aðrir varnaraðilar víkja brott úr þinghaldinu.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2013.

                Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 18. apríl 2013, á hendur sjö einstaklingum og var þingfest 3. þ.m. Við fyrirtöku málsins 24. þ.m. óskaði ákæruvaldið eftir því að undir aðalmeðferð málsins myndu ákærðu víkja úr þingsal meðan teknar væru skýrslur af meðákærðu. Ákærðu hlýði þannig ekki framburð meðákærðu fyrir eigin skýrslugjöf. Vísaði ákæruvaldið til heimildar í 2. mgr. 114. gr. og 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008. Telur ákæruvaldið að annar háttur á skýrslutökum fyrir dómi geti orðið til þess að ákærðu samræmdu framburð sinn.

                Verjendur allra ákærðu andmæltu þessu og kröfðust þess fyrir hönd skjólstæðinga sinna að þeir fái að sitja aðalmeðferð málsins eins og kveðið er á um í meginreglu 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 og að um grundvallarréttindi ákærðu sé að ræða. Kröfðust verjendur þess að dómurinn hafnaði kröfu ákæruvaldsins.

                Niðurstaða

                Í máli þessu eru sjö einstaklingar ákærðir. Allir sættu gæsluvarðhaldi undir rannsókn málsins og gera enn, utan tveir sakborninganna. Samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008, getur dómari ákveðið að ákærði hlýði ekki á framburð annarra ákærðu ef ástæða þykir til. Í greinargerð með þessu lagaákvæði segir að séu fleiri en einn ákærðir í sama máli verði almennt ekki lagðar hömlur á það að þeir hlýði hver á framburð annars. Þá segir í 1. mgr. 166. gr. sömu laga að ákærði eigi rétt á því að vera við aðalmeðferð máls. Þá segir jafnframt að dómari geti ákveðið að ákærði víki af þingi meðan skýrsla er tekin af öðrum sem ákærðir eru í málinu. Í greinargerð með þessu lagaákvæði segir að ákærði eigi rétt á að vera við aðalmeðferð með undantekningum sem greindar eru í lagagreininni, sbr. 1. og 2. mgr. 123. gr. laganna, sem ekki á við hér. Grundvallarréttur ákærða er því sá að hann geti verið viðstaddur aðalmeðferð í máli á hendur sér, kjósi hann það. Sú framkvæmd sem ákæruvaldið óskar eftir við aðalmeðferðina að ákærðu hlýði ekki á framburð meðákærðu fyrr en viðkomandi hafi gefið skýrslu fyrir dómi hefur það í för með sér að sá sem fyrstur gefur skýrslu getur hlýtt á framburð annarra. Réttur ákærðu til að hlýða á framburð meðákærðu skerðist þannig eftir því sem þeir eru aftar í röðinni við skýrslugjöfina fyrir dóminum. Sá sem síðastur gefur skýrslu hefur því ekki tök að hlýða á neinn framburð meðákærðu. Þetta hefur í för með sér ójafnvægi. Heimildina til að víkja ákærða af þingi ber að túlka þröngt og þarf að mati dómsins eitthvað sérstakt að koma til. Að mati dómsins er engu slíku til að dreifa í máli þessu og er málið því líkt öðrum málum þar sem margir eru ákærðir í sama máli. Ítarlegar lögregluskýrslur liggja fyrir af ákærðu sem teknar voru er þeir sættu einangrun í gæsluvarðhaldi undir rannsókn málsins. Margar vikur eru síðan verjendur og sakborningar fengu gögn málsins í hendur og hafa sakborningar síðan haft tök á því að samræma framburð sinn og/eða breyta, standi hugur þeirra til þess. Að öllu ofanrituðu virtu er það mat dómsins að ekki séu fram komin rök sem leiða eiga til þess að meina ákærðu í málinu setu undir aðalmeðferðinni. Samkvæmt þessu er kröfu ákæruvaldsins hafnað.

                Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er kröfu ákæruvaldsins um að ákærðu víki úr dómsal uns viðkomandi hefur gefið skýrslu.