Hæstiréttur íslands

Mál nr. 338/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Erfðafjárskattur


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. september 2001.

 

Nr. 338/2001.

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði

(Lárus Bjarnason sýslumaður)

gegn

Maríu Gísladóttur

Láru Gísladóttur

Katrínu Gísladóttur

Hreggviði Þorsteinssyni

Kristbjörgu Þorsteinsdóttur

Engelhart Björnssyni

Þór S. Björnssyni

Árna Þórarinssyni

Ingibjörgu Þórarinsdóttur

Friðjóni Þórarinssyni

Sólveigu Guðmundsdóttur

Katrínu Guðmundsdóttur

Herði Guðmundssyni

Þorgils Guðmundssyni

Þórunni Einarsdóttur

Kristberg Einarssyni

Sigurði Einarssyni

Láru Einarsdóttur

Önnu B. Geirfinnsdóttur og

Sigurði Geirfinnssyni

(Gunnar Sturluson hrl.)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðafjárskattur.

 

Erfingjar G óskuðu eftir leyfi sýslumanns til einkaskipta á dánarbúi G. Að fengnu einkaskiptaleyfi ákváðu þeir að selja fasteign dánarbúsins og var upplýst að söluverð eignarinnar var u.þ.b. helmingi lægra en fasteignamatsverð. Sýslumaður taldi að þrátt fyrir ráðstöfun dánarbúsins skyldi fasteignin talin fram á fasteignamatsverði við ákvörðun á gjaldstofni erfðafjárskatts erfingja G, enda hefði hún ekki verið seld við nauðungarsölu. Erfingjarnir töldu aftur á móti að þeim bæri að telja fram söluandvirði fasteignarinnar þar sem hún hefði sem slík ekki komið í þeirra hlut við lok skipta á dánarbúinu. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 83/1984 um erfðafjárskatt séu ákvæði um hvernig meta eigi þær eignir, sem þar séu taldar í einstökum stafliðum, við ákvörðun á gjaldstofni erfðafjárskatts, enda séu þær ekki seldar við nauðungarsölu. Af því leiði að aðrar ráðstafanir en nauðungarsala hafi ekki áhrif á ákvörðun gjaldstofnsins, enda sé ekki mælt fyrir um að meta skuli eign, sem sé seld áður en skiptum lýkur, með öðrum hætti. Var fallist á að umrædd fasteign skyldi talin fram á fasteignamatsverði við ákvörðun á gjaldstofni erfðafjárskatts erfingja G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. september sl. Kærður er úrskurður Héraðs­dóms Austurlands 15. ágúst 2001, þar sem var staðfest að greiðsla erfðafjárskatts að fjárhæð 1.932.795 krónur við skipti á dánarbúi Gunnars Jónssonar væri réttilega ákveðin. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánar­búum o.fl. Sóknaraðili krefst staðfestingar á ákvörðun sinni um að erfðafjárskattur varnaraðila við skipti á dánarbúi Gunnars Jónssonar skuli vera 3.481.775 krónur. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðilum verði gert að greiða sér kærumálskostnað.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknar­aðili dæmdur til að greiða þeim kærumálskostnað, en til vara að útreikningur erfðafjárskatts verði miðaður við það fasteignamat sem var í gildi þegar varnaraðilar stóðu sóknaraðila skil á erfðafjárskýrslu og „að kröfu sóknaraðila um endurskoðun málskostnaðarákvæðis úrskurðar Héraðsdóms Austurlands verði hafnað.“

I.

Málavextir eru þeir að Gunnar Jónsson andaðist 28. janúar 1999 og óskuðu varnar­aðilar eftir leyfi sóknaraðila til einkaskipta á dánarbúi hans. Í umsókninni kom fram að meðal eigna dánarbúsins væri fasteignin Selás 20 á Egilsstöðum. Að fengnu einkaskiptaleyfi 21. apríl sama árs ákváðu varnaraðilar í nafni dánar­búsins að selja fast­eign­ina fyrir 7.000.000 krónur. Í framhaldi af því skiluðu þeir erfðafjárskýrslu, sem dagsett er 5. október 1999, þar sem kom fram að fasteignin hafi verið seld undir skiptum og söluverð hennar væri talið með öðrum eignum búsins. Var söluverðið lægra en fasteignamatsverð. Á fylgiskjali með skýrslunni var erfðafjárskattur reiknaður 1.932.795 krónur og munu varnaraðilar hafa staðið skil á þeirri fjárhæð. Af þessu tilefni ritaði sóknaraðili umboðsmanni varnaraðila bréf 28. desember 1999 þar sem hann lýsti því viðhorfi sínu að varnaraðilum væri skylt að telja fram fasteignina á fasteignamatsverði og skoraði á þá að leggja fram nýja erfðafjárskýrslu. Þetta viðhorf ítrekaði sóknaraðili með bréfum 15. desember 2000 og 2. maí 2001 án þess að þeim væri svarað af hálfu varnaraðila. Með bréfi 16. maí 2001 tilkynnti sóknaraðili varnaraðilum að hann hafi ákveðið erfðafjárskatt þeirra 3.481.775 krónur þar sem þeir hafi ekki orðið við áskorun hans um að leggja fram nýja erfðafjárskýrslu. Á erfðafjárskýrsluna ritaði sóknaraðili athugasemd um að fasteignin Selás 20 væri talin fram á söluverði í stað fasteignamatsverðs. Í tilefni af ákvörðun sóknaraðila kröfðust varnaraðilar úrlausnar héraðsdóms um fjárhæð skattsins, sbr. 13. gr. laga nr. 83/1984 um erfðafjárskatt, eins og henni var breytt með 136. gr. laga nr. 20/1991.

II.

Sóknaraðili telur að þrátt fyrir ráðstöfun dánarbúsins skuli fasteignin talin fram á fasteignamatsverði, enda hafi hún ekki verð seld við nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 83/1984 með áorðnum breytingum. Varnaraðilar telja aftur á móti að þeim beri að telja fram söluandvirði fasteignarinnar þar sem hún hafi sem slík ekki komið í þeirra hlut við lok skipta á dánarbúinu, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Máli sínu til stuðnings vísa varnaraðilar til 1. og 2. mgr. 1. gr., en sú síðarnefnda kveður á um að erfðafjárskatt skuli greiða af öllum fasteignum hér á landi, sem eigendaskipti hafa orðið að á grundvelli lögerfða, bréferfða eða fyrirframgreiðslu arfs, án tillits til þess hvar aðilar að ráðstöfuninni séu búsettir, en í þeirra tilviki hafi ekki orðið eigendaskipti að fasteigninni á slíkum grundvelli.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 83/1984 skal greiða skatt í ríkissjóð af öllum fjárverðmætum og fjármunaréttindum, er við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans, þó með þeim undantekningum er lögin greina, enda fari búskipti fram hér á landi. Í 1. mgr. 9. gr. laganna eru ákvæði um hvernig meta á þær eignir, sem þar eru taldar í einstökum stafliðum, við ákvörðun á gjaldstofni erfðafjárskatts, enda séu þær ekki seldar við nauðungarsölu. Af því leiðir að aðrar ráðstafanir en nauðungarsala hafa ekki áhrif á ákvörðun gjaldstofnsins, enda er ekki mælt fyrir um að meta skuli eign, sem er seld áður en skiptum lýkur, með öðrum hætti. Samkvæmt A. lið 1. mgr. 9. gr. laganna skulu fasteignir taldar á fasteignamatsverði. Ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna, sem fjallar um tímamark við útreikning á gjaldstofni, verður að skýra í ljósi þess að erfðafjárskatt skal greiða af arfshlut hvers erfingja, sbr. 4. gr. og 8. gr. laganna. Arfshluturinn liggur almennt ekki fyrir fyrr en við lok skipta. Ákvæðinu er hins vegar ekki ætlað að hrófla við reglu 9. gr. um mat á einstökum eignaliðum við ákvörðun á gjaldstofni skattsins. Þá þykir skattskylduákvæði 2. mgr. 1. gr. laganna, sem á rætur að rekja til breytinga á reglum um tvísköttun þegar dánarbúi arfleiðanda, sem á fasteign hér á landi, er skipt erlendis, ekki leiða til annarrar niðurstöðu.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu sóknaraðila um að erfðafjárskattur varnaraðila skuli vera 3.481.775 krónur, og er þá miðað við það fasteignamat sem var í gildi þegar erfðafjárskýrsla þeirra var árituð af sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 83/1984, eins og henni var breytt með 136. gr. laga nr. 20/1991. Að þessu virtu er aðal- og varakröfu varnaraðila hafnað.

Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómsorð:

Staðfest er ákvörðun sóknaraðila, sýslumannsins á Seyðisfirði, um að erfðafjárskattur varnaraðila, Maríu Gísladóttur, Láru Gísladóttur, Katrínar Gísladóttur, Hreggviðs Þorsteinssonar, Kristbjargar Þorsteinsdóttur, Engelhart Björnssonar, Þórs S. Björnssonar, Árna Þórarinssonar, Ingibjargar Þórarinsdóttur, Friðjóns Þórarinssonar, Sólveigar Guðmundsdóttur, Katrínar Guðmundsdóttur, Harðar Guðmundssonar, Þorgils Guðmundssonar, Þórunnar Einarsdóttur, Kristbergs Einarssonar, Sigurðar Einarssonar, Láru Einarsdóttur, Önnu B. Geirfinnsdóttur og Sigurðar Geirfinnssonar, við skipti á dánarbúi Gunnars Jónssonar skuli vera 3.481.775 krónur.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Héraðsdómsmálið Ö 1/2001

Ágreiningur um fjárhæð erfðafjárskatts

í dánarbúi Gunnars Jónssonar

Ár 2001, miðvikudaginn 15. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Austurlands, sem háð er í dómsalnum að Lyngási 15, Egilsstöðum af Loga Guðbrandssyni, dómstjóra, kveðinn upp í málinu nr. Ö 1/2001 svohljóðandi

úrskurður:

Máli þessu, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 18. júlí 2001 var skotið til héraðsdóms með kröfubréfi sóknaraðila, dags. 15. maí 2001, á grundvelli 13. gr. laga nr. 83/1984, sbr. 119. gr. laga nr. 20/1991.  Málið var þingfest þann 12. júní 2001.

                Sóknaraðilar eru erfingjar Gunnars Jónssonar, kt. 100919-4719, sem síðast var til heimilis að Selási 20, Egilsstöðum og lést þann 28. janúar 1999.  Eru erfingjar hans sem hér segir:

María Gísladóttir, kt. 040636-3669, til heimilis að Múlalandi 12, Ísafirði, Lára Gísladóttir, kt. 080131-5509, til heimilis að Hafnarstræti 2, Ísafirði, Katrín Gísladóttir, kt. 130335-5519, til heimilis að Mjógötu 3, Ísafirði, Hreggviður Þorsteinsson, kt. 080146-2809, til heimilis að Beykihlíð 8, Reykjavík, Kristbjörg Þorsteinsdóttir, kt. 250748-4349, til heimilis að Þingási 31, Reykjavík, Engelhart Björnsson, kt. 210847-3329, til heimilis að Barrholti 9, Mosfellsbæ, Þór S. Björnsson, kt. 010361-2739, til heimilis að Mávahlíð 47, Reykjavík, Árni Þórarinsson, kt. 190452-4419, til heimilis að Straumi,  Norður-Héraði, Ingibjörg Þórarinsdóttir, kt. 111054-4879, til heimilis að Staðarbakka 1, Hvammstanga, Friðjón Þórarinsson, kt. 120858-7699, til heimilis að Flúðum,  Norður-Héraði, Sólveig Guðmundsdóttir, kt. 080358-4239, til heimilis að Smáratúni 4, Akureyri, Katrín Guðmundsdóttir, kt. 040759-3959, til heimilis í Austurríki, Hörður Guðmundsson, kt. 300663-2069, til heimilis að Refsmýri, Egilsstöðum, Þorgils Guðmundsson, kt. 130567-4259, Laugartúni 6c, Akureyri, Þórunn Einarsdóttir, kt. 080637-3579, til heimilis að Baldursheimi 1, Reykjahlíð, Kristberg Einarsson, kt. 040341-4719, til heimilis að Hafnarbyggð 47, Vopnafirði, Sigurður Einarsson, kt. 190946-4879, til heimilis að Grænukinn 19, Hafnarfirði, Lára Einarsdóttir, kt. 060348-7669, til heimilis að Grundargerði 2e, Akureyri, Anna B. Geirfinnsdóttir, kt. 010170-3709, til heimilis að Heiðarholti 30f, Reykjanesbæ, Sigurður Geirfinnsson, kt. 130864-3099, til heimilis að Greniteig 23, Keflavík.

Varnaraðili er sýslumaðurinn á Seyðisfirði.

        Dómkröfur sóknaraðila eru þær að viðurkennt verði með úrskurði Héraðsdóms Austurlands, að greiðsla erfðafjárskatts að fjárhæð kr. 1,932,795, sem innt var af hendi í október 1999 hafi verið réttilega ákvörðuð og að erfðafjárskattur vegna skipta dánarbús Gunnars Jónssonar, kt. 100919-4789, hafi verið uppgerður með framangreindri greiðslu og skiptum í búinu þar með lokið samkvæmt lögum. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

Af hálfu varnaraðili er þess krafist að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Seyðisfirði um útreikning á erfðafjárskatti dánarbús Gunnars Jónssonar þess efnis að dánarbúið eigi ógreiddan erfðafjárskatt að fjárhæð kr. 1,548,980. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

Málavextir.

Þann 21. apríl 1999 fengu sóknaraðilar í máli þessu, erfingjar Gunnars Jónssonar, kt. 100919-4789, sem látist hafði þann 28. janúar s.á, leyfi sýslumannsins á Seyðisfirði til einkaskipta á búi hins látna.  Meðal eigna búsins var fasteignin Selás 20, Egilsstöðum.  Fasteign þessi er steinhús, byggt árið 1971, ein hæð á kjallara ásamt viðbyggðum bílskúr og nam fasteignamat fasteignarinnar kr. 13,069,000. Sóknaraðilar ákváðu að leita kauptilboða í fasteignina.  Með kaupsamningi, dags. 1. ágúst 1999 var fasteignin seld á kr. 7,000,000.

Sóknaraðilar gengu að sinni hálfu frá skiptum dánarbúsins með einkaskiptagerð og erfðafjárskýrslu, dags. 5. október 2000.  Fasteignin Selás 20 var ekki talin fram á erfðafjárskýrslunni, en í athugasemdum við skýrsluna var þess getið, að fasteignin hefði verið seld undir skiptum og væri söluandvirði fasteignarinnar, kr. 7,000,000, geymt á fjárvörslureikningi umboðsmanns erfingja.  Með erfðafjárskýrslunni fylgdi greiðsla að fjárhæð kr. 1,932,795 vegna erfðafjárskatts auk kr. 5,700 í skiptagjald.  Með bréfi varnaraðila, sýslumannsins á Seyðisfirði, dags. 28. desember 1999, til umboðsmanns sóknaraðila var m.a. gerð athugasemd við, að fasteignin væri talin fram á söluverði eignarinnar, en ekki fasteignamati og óskað eftir að erfðafjárskýrslan yrði leiðrétt.  Var bréfi þessu ekki sinnt af hálfu erfingja og með bréfi 15. desember 2000 vakti varnaraðili athygli umboðsmanns sóknaraðila á, að erfðafjárskýrslan hefði ekki verið samþykkt og teldist skiptum því ekki lokið.  Þegar ekki bárust nein svör frá umboðsmanni sóknaraðila var sóknaraðilum sent bréf, dags. 2. maí 2001, þar sem gefin var 2 vikna frestur til að skila inn viðbótarerfðafjárskýrslu, en að öðrum kosti myndi sýslumaður úrskurða um fjárhæð skattsins, en sérstaklega var vakin athygli á málskotsrétti skv. 13. gr. laga nr. 83/1984.  Með bréfi, dags. 16. maí 2001, tilkynnti sýslumaðurinn á Seyðisfirði að hann hefði ákvarðað erfðafjárskatt vegna dánarbúsins og næmi hann kr. 3,481,775.  Með bréfi, dags. 15. maí 2001, skutu erfingjar málsins ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts til Héraðsdóms Austurlands.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðilar byggja kröfur sína á því að ekki hafi orðið eigendaskipti á fasteigninni Selás 20, Egilsstöðum, á grundvelli lögerfða eins og áskilið er í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 83/1984.  Eigi því að byggja alfarið á 1. mgr. 1. gr. laganna og hafi erfingjar greitt erfðafjárskatt í samræmi við þá lagagrein.

Þá byggja sóknaraðilar á því að það sé meginregla 1. og 7. gr. laga um erfðafjárskatt nr. 83/1984 að einungis beri að greiða erfðafjárskatt af þeim verðmætum sem til skipta koma.  Hafi fasteignin Selás 20 á Egilsstöðum ekki komið til skipta milli erfingja heldur andvirði hennar, sem var raunverulegt markaðsvirði eignarinnar.  Tilgangur 9. gr. A í lögum um erfðafjárskatt hljóti að vera sá að skapa jafnræði milli þegna landsins og einfalda framkvæmd þegar erfingjar skipta fasteignum sín á milli.  Geti tilgangur ákvæðisins ekki verið sá að leggja skatta á erfingja dánarbús umfram raunveruleg verðmæti þess sem til skipta kemur þeirra á milli.  Verði við álagningu erfðafjárskatts að miða við raunverðmæti eigna enda beri að leggja alla skatta og gjöld á grundvelli almenns efnislegs mælikvarða.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að sérstakar reglur gildi um gjaldstofna erfðafjárskatts og beri að ákvarða erfðafjárskatt vegna skipta á fasteignum á grundvelli sérreglu 9. gr. laga nr. 83/1984.  Þannig segi í  1. gr. laga nr. 83/1984, að greiða skuli skatt af öllum fjárverðmætum og fjármunaréttindum sem við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans.  Þá segi í  2. mgr. 1. gr. sömu laga að greiða skuli skatt af öllum fasteignum hér á landi, sem eigandaskipti verða á á grundvelli lögerfða.  Samkvæmt A. lið 1. mgr. 9. laga nr. 83/1984 skuli telja fasteignir á fasteignamatsverði sem í gildi er þegar erfðafjárskattur er greiddur.  Þá segir í 7. gr. laga um erfðafjárskatt að greiða skuli erfðafjárskatt við lok skipta viðkomandi dánarbús og skuli hann reiknaður út miðað við verðmæti arfs hvers erfingja á gjalddaga skattsins.  Þá er sérstaklega vakin athygli á 5.  mgr. 7. gr. en þar segir að ekki sé heimilt að gefa erfingjum út yfirlýsingu um eignarheimild þeirra að tiltekinni eign dánarbús fyrr en erfðafjárskattur af viðkomandi eign hefur verið greiddur. 

Niðurstaða:

Erfingjar Gunnars Jónssonar fengu þann 21. apríl 1999 leyfi til einkaskipta á dánarbúi hans frá sýslumanninum á Seyðisfirði.  Skv. 85. gr. laga nr. 20/1991 voru erfingjar hins látna til þess bærir að ráðstafa hagsmunum dánarbúsins, þ. á m. að selja fasteign búsins, áður en skiptum er lokið. 

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 83/1984 er gjalddagi erfðafjárskatts sá dagur, sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu, skv. 2. mgr. 12. gr., ef um einkaskipti er að ræða. Samkvæmt 7. gr. sömu laga skal greiða erfðafjárskatt við lok skipta viðkomandi dánarbús og skal hann reiknaður út miðað við verðmæti arfs hvers erfingja á gjalddaga skattsins.

Samkvæmt þessu er ekki gert ráð fyrir því í lögum, að erfðafjárskattur skuli lagður á heildareignir búsins í einu lagi, hvorki eins og þær voru við andlát arfleifanda, né eins og þær eru við skiptalok, heldur skal erfðafjárskatturinn reiknaður út miðað við verðmæti arfs hvers erfingja við skiptalok, enda er yfirfærslu eignaréttar til handa erfingjum ekki lokið, fyrr en þeim er lögð út eign við það tímamark. Þá fyrst kemur einnig í ljós, hverjar eignir falla til hvers einstaks erfingja. Ekki er gefið, að allir erfingjar hljóti hlutdeild í fasteign, sem til skipta kemur við skiptalok, jafnvel þótt fasteign væri skipt með erfingjum. Með því að erfðafjárskatt skal leggja á arfshluta hvers erfingja um sig, verður í þessu tilfelli einnig að skoða, hvort fasteign, eða önnur eign, sem reikna skal eftir lögbundnum gjaldstofni, hafi í raun komið í hlut hvers og eins og skattur þess erfingja reiknaður án tillits til heildareigna, sem til skipta eru.

Ákvæði A. liðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 83/1984 um að telja skuli fasteign fram til erfðafjárskatts á fasteignamatsverði, verður aðeins beitt, að fasteign renni raunverulega til erfingja við skiptin, en á ekki við ef fasteign er ekki lengur í eigu búsins við skiptalok.

 Ekki er tölulegur ágreiningur um fjárhæð erfðafjárskatts að öðru leyti en því, sem leiðir af mismunandi skilningi málsaðila á því, hvort telja skuli fram fasteignina Selás 20, Egilsstöðum á fasteignamatsverði sem gjaldstofn, eða hvort telja skuli fram andvirði eignarinnar, sem hluta af peningaeign dánarbúsins.

Fasteignin Selás 20, Egilsstöðum, var á meðal eigna Gunnars Jónssonar við andlát hans 28. janúar 1999. Í skýringum í erfðafjárskýrslu kemur fram, að fasteign dánarbúsins hafi verið seld undir skiptum á kr. 7.000.000. Hefur verið lagður fram kaupsamningur um þetta efni dagsettur 1. ágúst 1999, afhentur til þinglýsingar 2. september s.á. og innfærður 3. s.m. við sýslumannsembættið á Seyðisfirði. Kaupandi er Hjalti Heiðar Þorkelsson, en seljandi dánarbú Gunnars Jónssonar. Fasteignin var því ekki lengur eign dánarbúsins og réttilega ekki á meðal þeirra eigna, sem taldar voru fram í erfðafjárskýrslu, enda skal miða erfðafjárskýrslu og erfðafjárskatt við arfshluta við skiptalok.

Samkvæmt framansögðu ber að fallast á með sóknaraðila að greiðsla erfðafjárskatts að fjárhæð kr. 1.932.795, vegna skipta dánarbús Gunnars Jónssonar, kt. 100919-4789, sem lést 28. janúar 1999, hafi verið réttilega ákvörðuð.

Ekki er ágreiningur um að greiðsla þessi var innt af hendi í október 1999.

Varnaraðili, sýslumaðurinn á Seyðisfirði, greiði sóknaraðilum, erfingjum Gunnars Jónssonar,  kr. 150.000 í málskostnað.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Staðfest er, að greiðsla erfðafjárskatts að fjárhæð kr. 1.932.795, vegna skipta dánarbús Gunnars Jónssonar, kt. 100919-4789, sem lést 28. janúar 1999, hafi verið réttilega ákvörðuð.

Varnaraðili, Sýslumaðurinn á Seyðisfirði greiði sóknaraðilum, erfingjum Gunnars Jónssonar kr. 150.000 í málskostnað.