Hæstiréttur íslands
Mál nr. 125/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 7. mars 2007. |
|
Nr. 125/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X(Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. mars 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði fundust fíkniefni við leit tollgæslu í bifreið, sem hafði þá nýlega verið flutt inn til landsins frá Þýskalandi. Voru fíkniefnin fjarlægð og gerviefnum komið fyrir í staðinn. Liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi leyst bifreiðina úr tollgeymslu, flutt hana í skemmu utan Reykjavíkur og fjarlægt úr henni umrædd gerviefni ásamt öðrum manni. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. mars 2007, kl. 16.00 en þó eigi lengur en þar til dómur fellur í málum hans, sbr. 106. gr. s.l.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki nú innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins sem fundust við leit tollgæslu í bifreið á hafnarsvæði Samskipa í Reykjavík. Bifreiðin hafði nýlega verið flutt til landsins frá Þýskalandi og hafði fíkniefnunum verið komið fyrir í bifreiðinni. Grunur leikur á því að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu hér á landi. Lögregla kom gerviefnum fyrir í bifreiðinni og hefur fylgst með henni síðan. Þann 6. febrúar leysti kærði bifreiðina svo út úr tollgeymslu vöruafgreiðslu Samskipa og í kjölfarið lét kærði flytja bifreiðina á bifreiðastæði við dvalarstað sinn. Þann 8. febrúar sl. ók kærði svo bifreiðinni að bænum [...]. Gögn lögreglu benda til þess að bifreiðinni hafi verið ekið inn í skemmu við [...] um hádegi 9. febrúar sl. og að þar hafi kærði ásamt ónafngreindum manni losað fíkniefnin úr mælaborði bifreiðarinnar. Kærði hafi í kjölfarið verið handtekinn kl. 15:45 á Kringlumýrarbraut vegna rannsóknar málsins. Bráðabirgðaniðurstaða frá tæknideild lögreglunnar hafi leitt í ljós að á kærða sé að finna sönnunargögn sem sýni fram á að hann hafi haldleikið áðurnefnd gerviefni. Sé nánar vísað til gagna málsins.
Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins en hann neiti sök. Um afstöðu hans til sakarefnisins og nánar um framburði hans sé vísað til framburðarskýrslna af kærða í gögnum málsins. Rannsókn málsins miði áfram og sé málið talið umfangsmikið. Framundan séu frekari yfirheyrslur af kærða og meintum samverkamönnum hans, en lögregla leiti nú tveggja aðila sem taldir séu tengjast málinu. Þá sé frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla framundan sem skýrt geti frekar aðdraganda brotsins og samskipti kærða við meinta samverkamenn sem kunni að tengjast málinu. Í því sambandi beri að geta að öll bankagögn hafi ekki borist lögreglu. Upplýsa þurfi hvar, hvenær og hvernig fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í bifreiðinni og hverjir komu þeim fyrir. Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi, en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geta sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Með vísan til framlagðra rannsóknargagna er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 svo sem krafist er og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldstímanum skemmri tíma. Ber því að verða við kröfu saksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. mars 2007, kl. 16:00.