Hæstiréttur íslands

Mál nr. 240/2013


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Stéttarfélag
  • Útgerð


                                     

Fimmtudaginn 26. september 2013.

Nr. 240/2013.

Brim hf.

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Sjómannasambandi Íslands

Afli starfsgreinafélagi Austurlands

Alþýðusambandi Vestfjarða

Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og

Félagi vélstjóra- og málmtæknimanna

(Björn L. Bergsson hrl.)

Skuldamál. Stéttarfélag. Útgerð.

S o.fl. kröfðu B hf. um greiðslu lögbundins gjalds inná svokallaða „greiðslumiðlunarreikninga“, sem B hf. hafði ekki staðið skil á þrátt fyrir skýr ákvæði laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Með dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að S o.fl. ættu lögvarið tilkall til greiðslunnar í þeim hlutföllum sem dómkrafa þeirra byggði á og var kröfu B hf. um sýknu vegna aðildarskorts því hafnað. Þá var talið að greiðsluskylda B hf. samkvæmt lögunum væri afdráttarlaus og óumdeilt að félagið hafði ekki staðið skil á greiðslunum. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um greiðsluskyldu B hf. með vísan til forsendna, þó með þeirri athugasemd að II. kafli laga nr. 24/1986, sem kvað á um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, hefði ekki falið í sér nýja gjaldtöku heldur einungis breytt þeirri aðferð við gjaldtökuna sem áður hafði tíðkast.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2013. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsástæðum áfrýjanda er lúta að því að lög nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins feli í sér fyrirkomulag sem andstætt sé  ákvæðum 40., 72. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var ekki hreyft í héraði. Með þeim yrði grundvelli málsins raskað og koma þær því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 24/1986 kom meðal annars fram að samkvæmt þeirri skipan sem áður gilti væri lagt 5,5% útflutningsgjald á nær allan fiskútflutning og skyldi 1,2% þeirra renna til samtaka sjómanna og útvegsmanna. Í  skýringum við II. kafla frumvarpsins sem bar yfirskriftina um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sagði að þegar sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði afnumið, eins og lagt væri til með frumvarpinu, yrði breyting á greiðslustraumum innan sjávarútvegsins. Þótt sjóðirnir væru lagðir af, þætti rétt og nauðsynlegt að tryggja örugga greiðslu á nokkrum mikilvægum þáttum í útgerðarrekstrinum, ásamt framlögum til samtaka sjómanna og útvegsmanna. Lög nr. 24/1986 fólu því ekki í sér nýja gjaldtöku heldur breyttu einungis þeirri aðferð við gjaldtökuna sem áður var tíðkuð. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

         Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

         Áfrýjandi, Brim hf., greiði stefndu, Sjómannasambandi Íslands, Afli starfsgreinafélagi Austurlands, Alþýðusambandi Vestfjarða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi vélstjóra- og málmtæknimanna, hverju fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2013.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 13. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sjómannasambandi Íslands, kt. 570269-2249, Sætúni 1, Reykjavík, Afli starfsgreinafélagi Austfjarða, kt. 560101-3090, Búðareyri 1, Reyðarfirði, Alþýðusambandi Vestfjarða, kt. 420169-3509, Pólgötu 2, Ísafirði, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands kt. 520169-3509, Grensásvegi 13, Reykjavík, og Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, kt. 530169-5299, Stórhöfða 25, Reykjavík, með stefnu, birtri 3. júní 2011, á hendur Brimi hf., kt. 410998-2629, Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi:

Stefnandi, Sjómannasamband Íslands, gerir þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 9.375.851 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins.

Stefnandi, Afl, starfsgreinafélag Austurlands, gerir þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 500.795 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins.

Stefnandi, Alþýðusamband Vestfjarða, gerir þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 500.795 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins.

Stefnandi, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, gerir þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 4.651.956 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins.

Stefnandi, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna, gerir þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 2.862.742 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

II

Málavextir

Stefnandi kveður málavexti vera þá, að stefndi hafi ekki sinnt lögbundinni skyldu samkvæmt 5. gr. laga nr. 24/1986 til greiðslu 8% af samanlögðu hráefnisverði hvers skips síns inn á sérstaka bankareikninga. Samkvæmt 2. tölulið 7. gr. sömu laga, sbr. 9. gr., eigi stefnendur lögvarða kröfu til hlutdeildar í fjármunum þessum.

Tilgangur stefnda samkvæmt samþykktum hans sé rekstur útgerðar og fiskvinnslu og verzlun með sjávarafurðir. Sem lið í starfsemi sinni hafi stefndi gert út sex skip á liðnum árum, Kleifaberg ÓF-2, Sólbak EA-1, Mars RE-205, Sólborgu RE-270, Guðmund í Nesi RE-13 og Brimnes RE-27. Skip þessi hafi öll veiðiheimildir og sé þeim úthlutað aflamarki til veiða ár hvert. Í lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sé í II. kafla fjallað um hið síðarnefnda, greiðslumiðlun. Þar sé fjallað um það í 5. gr., að áðurnefnd 8% af hráefnisverði beri að leggja inn á sérstaka bankareikninga, sem síðan sé miðlað á þann hátt, sbr. 1. tl. 7. gr. laganna, að ¾ af fjárhæðinni, eða sem svari til 6% af hráefnisverði, skuli ráðstafa inn á svonefndan vátryggingarreikning viðkomandi skips hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna með vísan til laga nr. 17/1976. Afganginum, ¼ af fjárhæðinni, eða sem svarar til 2% af hráefnisverði, beri að ráðstafa, sbr. 2. tl. 7. gr. laganna, á svonefndan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa, sem Gildi lífeyrissjóður annist um, en sá sjóður hafi tekið við réttindum og skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna á miðju ári 2005. Því fé, sem þannig safnist, beri að skipta mánaðarlega þannig að í hlut lífeyrissjóðsins komi 92%, 4% ráðstafist til Landssambands íslenskra útvegsmanna en eftirstöðvarnar, samtals 4%, eða sem nemi 0,08% af aflaverðmæti, eigi að greiðast stefnendum, sbr. 9. gr. laga nr. 24/1986.

Þessu fé skili flestar útgerðir fiskiskipa með skilvísum hætti, eins og lögin mæli fyrir um. Ein útgerð, stefndi, sem geri út sex fiskiskip, hafi látið undir höfuð leggjast að skila greiðslum af skipum sínum á lögboðinn greiðslumiðlunarreikning vegna þeirrar greiðsluskyldu, er lúti að kröfum stefnenda og Landsambands íslenskra útvegsmanna, allt frá árinu 2007. Einu greiðslurnar, sem borizt hafi, stafi af þeim hluta afla skipanna, sem hafi að öllum líkindum verið seldur á fiskmarkaði, en í slíkum tilvikum sé stefndi þess ekki umkominn að koma í veg fyrir, að greiðslurnar berist til stefnenda. Vanræksla stefnda að öðru leyti hafi leitt til þess, að einungis lítilræði hafi verið skilað til samtaka sjómanna af þessum skipum, þrátt fyrir skýr ákvæði laga nr. 24/1986, sem rakin hafi verið. Að sama skapi muni lítt hafa verið greitt til Landssambands íslenskra útvegsmanna, en eftirgrennslan landssambandsins, sem hlutazt hafi verið til um að áeggjan stefnenda, hafi leitt það eitt í ljós, að stefndi hefði ekki í hyggju að greiða samtökum sjómanna í samræmi við lagaskyldu sína. 

Stefndi gerir þær athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnenda, að ekki sé vikið að þeim markmiðum, sem að hafi verið stefnt með lögum nr. 24/1986, en um markmið endurskoðunar á þágildandi lögum og reglum um sjóði sjávarútvegsins og þeim lögbundnu greiðslum, tengdum þágildandi fiskverði, sé getið í frumvarpi með lögum nr. 24/1986 Markmið þessarar endurskoðunar skyldi vera:

• Að gera fjárstrauma og tekjuskiptingu innan sjávarútvegsins einfaldari og skýrari.

• Að stuðla að sanngjarnri skiptingu tekna innan sjávarútvegsins.

• Að koma í veg fyrir að sjóðakerfið og tekjuskiptingarreglur dragi úr hagkvæmni í

uppbyggingu og rekstri sjávarútvegsins“.

Í stefnu sé í engu vikið að greinargerð, sem skýri II. kafla laga nr. 24/1986, sem fjalli um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins:

Um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Þegar sjóðakerfi sjávarútvegsins er afnumið, eins og lagt er til í þessu frumvarpi, verður breyting á greiðslustraumum innan sjávarútvegsins. Fiskvinnslan fær skv. frv. allt fobverðmæti framleiðslunnar í hendur og þarf ekki lengur að greiða útflutningsgjald við gjaldeyrisskil. Auk þess fær hún skv. frv. í hendur endurgreiðslu á söluskatti. Af þessum auknu tekjum er fiskvinnslunni svo ætlað að standa útgerðinni skil á öllu hráefnisverðinu. Í ákvæði til bráðabirgða er nýtt fiskverð ákveðið með lögum í hálfan mánuð, en komi síðan til nýrrar ákvörðunar með samningum innan Verðlagsráðs sjávarútvegsins á venjulegan hátt. Þótt sjóðirnir séu lagðir af, þykir rétt og nauðsynlegt að tryggja örugga greiðslu á nokkrum mikilvægum þáttum í útgerðarrekstrinum, svo sem vöxtum og afborgunum, vátryggingum fiskiskipa, lífeyrisiðgjöldum sjómanna ásamt framlögum til samtaka sjómanna og útvegsmanna.

Tilgangur þessa kafla frv. er að tryggja örugga innheimtu til þessara þarfa.

Frá gildistöku laga nr. 24/1986 hafi orðið verulegar breytingar á afurðasölu sjávarútvegsins. Því sem næst einokun sjávarafurðasölufyrirtækjanna, Sölumiðstöðvar Hraðfrystishúsanna og Sölumiðstöðvar íslenskra fiskframleiðenda á íslenzkum markaði sé ekki til staðar, og fjöldi stærri og smærri íslenzkra fyrirtækja annist sölu á sjávarafurðum, hvort sem um sé að ræða fisk veiddan á Íslandsmiðun, eða í lögsögu annarra ríkja.

Greiðslur vegna sölu sjávarafurða berist útgerðum og fiskvinnslu mun fyrr en verið hafi við setningu laga nr. 24/1986. Afurðalán banka séu að mestu óþekkt í rekstri útgerða, að ekki sé minnzt á þá breytingu, sem orðið hafi til einföldunar greiðslumiðlunar við tilkomu rafræns greiðslukerfis, einka- og fyrirtækjabanka viðskiptabanka. Þessar breytingar leiði til þess, að  sjávarútvegur á Íslandi greiði, líkt og almennt sé með allan rekstur í landinu, afborganir, vexti, vátryggingar og iðgjöld skipverja, auk þess sem uppgjörskerfi sjávarútvegsfyrirtækja, líkt og sé hjá fyrirtækjum í öðrum rekstri, sjái til þess, að af skipverjum séu dregin félagsgjöld og þeim skilað til þess stéttarfélags, sem viðkomandi skipverji velji að vera aðili að.  

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 24/1986 hafi verið ákveðið, að reglugerð yrði sett af framkvæmdavaldinu, sem tryggði eftirlit með greiðslum, sem þá Lífeyrissjóður sjómanna annaðist fyrir hönd samtaka útvegsmanna og samtök sjómanna. Samkvæmt 2. mgr. 7.gr. ofangreindrar reglugerðar skuli ríkisendurskoðun „...endurskoða bókhald Lífeyrissjóðs sjómanna og samtaka þeirra og sjóða sem tilgreindir eru í 3. og 4. gr. sem við kemur greiðslum samkvæmt reglugerð þessari“. Þetta eftirlit sé ekki til staðar og annist ríkisendurskoðun ekki endurskoðun greiðslufyrirkomulags greiðslumiðlunar, sem Lífeyrissjóður sjómanna eigi að annast samkvæmt lögum nr. 24/1986, enda ástæðulaust að hafa sérstakt eftirlit ríkiendurskoðunar með starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna (nú Gildis lífeyrissjóðs), og sé sjóðurinn í engu frábrugðinn öðrum lífeyrissjóðum í landinu. Peningum, sem berist sjóðnum til að tryggja „örugga innheimtu“ vegna lífeyrisiðgjalda, sé skilað til baka til útgerða, sem greiði lífeyrisiðgjöld sinna starfsmanna, líkt og almennt sé gert af launagreiðendum, og sé fátítt, að gjöldum sé haldið eftir vegna vanskila útgerða. Þetta sé framkvæmdastjórum stefnenda vel kunnugt, enda sitji einhverjir þeirra í stjórn Gildis lífeyrissjóðs (áður Lífeyrissjóðs sjómanna), ásamt því að sitja í stjórnum annarra lífeyrissjóða.  

Reynsla stefnda fram til ársins 2007 hafi verið sú, að stefnendur endurgreiði stefnda ekki þær greiðslur, sem hafa verið ofgreiddar þeim. Með stefnu megi sjá, að stefnendur telji sér ekki skylt að endurgreiða þær greiðslur, sem þeir hafi móttekið frá stefnda, þrátt fyrir að stefndi hafi dregið félagsgjöld af félagsmönnum stefnenda og staðið skil á þeim greiðslum til stefnenda, og sé sú staða ástæða málshöfðunar þeirra.

III

Málsástæður stefnenda

Stefnendur byggja málatilbúnað sinn á því, að lögbundinn skylda stefnda til greiðslu 0,08% af aflaverðmæti sé ótvíræð, sbr. 5. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Undan þeirri greiðsluskyldu geti stefndi ekki vikizt. Kveðið sé á um hana með beinum, ótvíræðum hætti í tilfærðum ákvæðum laga nr. 24/1986. Þessi skylda sé algerlega sambærileg við þá, sem lögð sé á atvinnurekendur endranær samkvæmt lögum, sbr. t.d. 6. gr. laga nr. 55/1980 og I. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í raun sé eini munurinn sá, að kveðið sé á um aðra aðferð við greiðslu þessara gjalda, þar sem greitt sé inn á einn reikning, sem svo sé deilt út af. Megi ætla, að stefndi, sem og aðrir útgerðarmenn, hefðu hagræði af slíku í stað þeirra þyngsla að þurfa að greiða mörgum aðilum smáar fjárhæðir. Með miðlægri greiðslumiðlun sé komizt hjá slíku óhagræði, enda hafi hagkvæmni af því tagi verið í huga löggjafans, þegar lög 24/1986 voru sett.

Þá sé til þess að líta, að með því að inna greiðslur þessar réttilega af hendi hefði stefndi efnt meðal annars skyldu sína samkvæmt kjarasamningi, sbr. til dæmis grein 1.35 í kjarasamningi Landssambands íslenzkra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands. Kjarasamningar sjómanna séu bindandi lágmarkskjör í landinu, sem stefnda, eins og öðrum, beri að hafa í hávegum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980. Með því að vanrækja greiðsluskyldu sína brjóti stefndi þannig ekki einvörðungu gegn afdráttarlausum skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 24/1986, heldur einnig gegn kjarasamningi og þar með gegn lögum nr. 55/1980.

Í öndverðu hafi verið gert ráð fyrir því, að lög nr. 24/1986 fælu í sér tímabundna ráðstöfun af hálfu löggjafans, en afstaða aðila vinnumarkaðarins til þeirra efnisákvæða, er lutu að greiðslumiðluninni, sé hins vegar ótvíræð, enda hafi þegar verið samið um, hvernig við verði brugðizt, falli lögin úr gildi, sbr. dskj. nr. 5.

Lögbundin og kjarasamningsbundin greiðsluskylda stefnda sé ekki háð neinum fyrirvörum svo sem um félagsaðild. Greiðslur beri að inna af hendi á grundvelli hlutfalls af aflaverðmæti, óháð fjölda skipverja eða því, hvernig hver og einn þeirra kunni að haga sínum félagslegu réttindum með aðild að tilteknu stéttarfélagi eða með því að standa utan slíkra félaga. Í greiðsluskyldunni felist engin félagsleg nauð eða óbein skattlagning, ekkert frekar en endranær um þau réttindi, sem aðilar vinnumarkaðarins hafi samið um í kjarasamningum í gegnum tíðina og löggjafinn svo kosið að gera að sínum með sérstakri löggjöf.

Stefnendur efni til málssóknar þessarar sameiginlega á grundvelli samlagsaðildar samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991, enda séu kröfur þeirra samrættar í skilningi þess ákvæðis. Ákvæði 16. gr. laga nr. 24/1986 takmarki ekki rétt stefnenda til heimtu lögvarinna hagsmuna sinna, enda feli lagaákvæðið ekki í sér málsóknarumboð í skilningi einkamálalaga. Réttur stefnenda til heimtu fjárhagslegra hagsmuna sinna sé því ótvíræður, enda í samræmi við meginreglur réttarfarslaga sbr. 1. mgr. 16. gr., sbr. 24. gr. laga nr. 91/1991.

Krafa stefnenda byggist á útreikningi Sjómannasambands Íslands, sbr. dskj. nr. 3, en útreikningur á hinu lögbundna hlutfalli byggist á opinberum upplýsingum um aflaverðmæti skipa stefnda. Gerð sé grein fyrir þeim fjárhæðum, sem vangoldnar séu vegna hvers skips fyrir sig, þ.e. að hvert 0,08% af aflaverðmæti sé að frádregnum þeim greiðslum, sem inntar hafi verið af hendi.

Dráttarvaxtakrafa stefnenda byggist á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, en í samræmi við það ákvæði sé krafizt dráttarvaxta, þegar mánuður var liðinn frá því að stefnendur kröfðu stefnda milliliðalaust um greiðslu vangreiddrar kröfu.

Málsókn sína styðji stefnendur við settar lagareglur, einkum laga nr. 24/1986, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 55/1980, og reglur vinnuréttar um réttar efndir kjarasamningsbundinna skyldna.

Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988, en stefnendur séu ekki virðisaukaskattsskyldir og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnda

Málsástæður stefnda eru þær, að samkvæmt 2. ml., 2. mgr. 9. gr. laga nr. 24/1986 sé það Lífeyrissjóðs sjómanna að annast skiptingu þeirra peninga, sem berist inn á greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa, sem stefnendur telji sig eiga hlut í. 

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 24/1986 sé umsýsla greiðslumiðlunar hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Það sé síðan Ríkisendurskoðunar að endurskoða bókhald Lífeyrissjóðs sjómanna, samanber 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 147/1998.  Með lögum nr. 24/1986 sé Lífeyrissjóði sjómanna falin ábyrgð á framkvæmd greiðslumiðlunar, sem ákveðin sé með lögum nr. 24/1986.

Að mati stefnda sé það Lífeyrissjóðs sjómanna (nú Gildis lífeyrissjóðs), að ákvarða, hvort innheimta eigi gjöld samkvæmt 5. gr. laga nr. 24/1986. Stefnendur eigi ekki aðild að þeirri innheimtu, þótt þeir hafi hagsmuni af innheimtu. Það sé augljóst af lögum nr. 24/1986, að stefnendum hafi ekki verið treyst til þess að annast innheimtu, heldur hafi traust verið lagt á lífeyrissjóð, sem hafi lotið eftirliti Ríkisendurskoðunar.    

Stefnendur eigi ekki aðild að máli til innheimtu gjalda samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 24/1986.    

Þá sé krafa um sýknu einnig á því byggð, að skipverjar, sem starfi hjá stefnda, séu í skilum með félagsgjöld til stefnenda. Ákvæði 5. gr. laga nr. 24/1986 sé ekki viðbótargreiðsla á framlögum félagsmanna í viðkomandi stéttarfélagi, heldur, líkt og fram komi í greinargerð með II. kafla laga nr. 24/1986, sé með lögunum verið að tryggja örugga innheimtu. Lög nr. 24/1986 ákvarði miðlun á greiðslu, en ekki sé með lögunum verið að ákvarða, líkt og stefnendur telji, skyldu framleiðanda sjávarafurða til þess að greiða félagsgjöld til tilgreindra samtaka sjómanna og útvegsmanna.

Þá vísi stefnendur í stefnu til liðar 1.35 í kjarasamningi (dómskjal nr. 4). Líkt og ákvæði 1.35 ákvarði, sé ágreiningur stefnenda og stefnda ekki um það ákvæði kjarasamnings. Um það sé ekki deilt, að stefndi hafi staðið skil á félagsgjöldum skipverja, sem starfi hjá stefnda. Tilgreining í stefnu til atvika, er öðlist gildi, komi til þess að lög nr. 24/1986 falli úr gildi, eigi ekki við í máli þessu, þar sem lög nr. 24/1986 hafi ekki verið úr gildi fallin við þingfestingu stefnu. Þá leiði ofgreiðsla einstaka framleiðanda sjávarafurða og fiskmarkaða á „stéttarfélags­gjöldum atvinnurekenda“ til stefnenda, ekki til hækkunar lágmarkskjara, samkvæmt lögum  nr. 55/1980.        

Ef túlkun stefnenda á ákvæðum laga nr. 24/1986, væri rétt, bæri öllum, sem selji sjávarafurðir, að standa stefnendum skil á greiðslu. Þannig sé það ekki, og sé stefnendum það ljóst, að þeir taki ekki á móti greiðslum frá umboðsfyrirtækjum, sem annist sölu sjávarafurða.

Veruleg breyting hafi orðið á sölu sjávarafurða frá gildistöku laga nr. 24/1986 og taki stefnendur, líkt og önnur stéttarfélög, við greiðslum frá þeim aðilum, sem séu félagsmenn í félögum stefnenda. Útgerðir dragi félagsgjöld af skipverjum og greiði til stefnenda. Til áréttingar þessum skilningi vísi stefndi til greinargerðar með 3. mgr. 8. gr. laga nr. 24/1986, þar sem fjallað sé um fyrirkomulag greiðslna til hins þá nýstofnaða Landssambands smábátaeigenda, en þar segi:

Loks er ætlað, að 3% af greiðslumiðlunarfé smábáta renni til hins nýstofnaða Landssambands smábátaeigenda, sem fengi þannig starfsfé frá sínum eigin félagsmönnum á sama hátt og önnur samtök útvegsmanna og sjómanna, en án þess að fé sé fært á milli aðila í innheimtukerfinu.

Samkvæmt fylgiskjali 2 með frumvarpi með lögum nr. 24/1986, sem er samantekt Þjóðhagsstofnunar, hafi samtök sjómanna haft um kr. 8.000.000 í tekjur af útflutningsgjöldum á árinu 2005. Þetta fyrirkomulag greiðslna, þ.e. greiðsla til samtaka sjómanna með 0,6% hlut í útflutningsgjaldi, sem reiknað hafi verið af fob-verðmæti fiskútflutnings, sem bundið hafi verið fiskverðsákvörðun, sem hafi verið allt aðrar fjárhæðir en markaðsverðmæti, hafi verið afnumið og skiptahlutfall til sjómanna hækkað. Með hækkun á skiptahlutfalli til sjómanna hafi framlag til samtaka sjómanna hækkað, þar sem félagsgjöld til samtaka sjómanna hafi verið, og séu, hlutfall af launatekjum sjómanna. Sem dæmi megi nefna, að félagsgjöld til Félags skipstjórnarmanna séu 0,8% af öllum launum, líkt og segi á heimasíðu félagsins.

Ekkert samræmi sé milli 6. gr. laga nr. 55/1980, sem skyldi atvinnurekendur til að greiða umsamið framlag til sjúkrasjóða og orlofssjóða í samræmi við kjarasamning hverju sinni, og stefnukröfu, hvað þá að I. kafli laga nr. 129/1997, sem skyldi atvinnurekenda til að greiða lágmarksiðgjald eða umsamið iðgjald til lífeyrissjóðs starfsmanns atvinnurekanda.  „Stéttarfélagsgjald atvinnurekanda“ sé aukin heldur í engu samræmi við þá augljósu hagsmuni félagsmanna stéttarfélaga, að rekstur stéttarfélags, sem félagsmenn greiði félagsgjald til, sé óháð framlagi frá atvinnurekendum. Í því sambandi megi vísa til b-liðar 4. gr. laga nr. 80/1938.

Þá vísi stefndi til dóms Hæstaréttar nr. 114/2004, Íslensk Erfðagreining ehf. gegn Rafiðnaðarsambandi Íslands. Í niðurstöðu Hæstaréttar komi fram eftirfarandi túlkun réttarins á 6. gr. laga nr. 55/1980:

Í 1. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um skyldur allra atvinnurekenda að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld sem samið sé um hverju sinni í kjarasamningum. Kröfur samkvæmt þessari lagagrein eiga stéttarfélögin á hendur öllum atvinnurekendum vegna þessara tvenns konar sjóða og er það tæmandi talning. Verða kröfur þeirra vegna annarra sjóða en þar eru tilgreindir ekki reistar á þessu lagaákvæði.

Stefndi geri kröfu til þess, að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað, samanber 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að teknu tilliti til skyldu lögmanns stefnda til greiðslu virðisaukaskatts.

IV

Forsendur og niðurstaða

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, gaf skýrslu fyrir dómi.

Samkvæmt 3. tl. 7. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 24/1986 skulu framleiðendur sjávarafurða greiða ákveðið hlutfall af samanlögðu hráefnisverði afla hvers skips síns inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa hjá Lífeyrissjóði sjómanna, sem annast síðan skiptingu þess fjár, sem berst inn á reikninginn, til stefnenda máls þessa.

Það er óumdeilt í málinu, að stefndi hefur ekki greitt umkrafða fjárhæð inn á greiðslumiðlunarreikning hjá Lífeyrissjóði sjómanna, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Byggir stefndi á því, að stefnendur hafi ekki aðild að málinu, þar sem aðildin liggi hjá umsjónaraðila greiðslumiðlunarreikningsins, Lífeyrissjóði sjómanna.

Samkvæmt lögunum er lífeyrissjóðurinn ekki eigandi þess fjár, sem kemur inn á greiðslumiðlunarreikninginn, heldur einungis umsýsluaðili, sem tekur við fénu og sér um skiptingu þess til þeirra, sem tilkall eiga til þess. Stefnendur eiga þannig lögvarið tilkall til greiðslunnar í þeim hlutföllum, sem endanleg dómkrafa byggir á, og ekki er ágreiningur um. Er ekki fallizt á, að 16. gr. laga nr. 24/1986 feli í sér takmörkun á aðild stefnenda að innheimtu kröfunnar í dómsmáli, enda þótt ákvæðið leggi innheimtuskyldur á Lífeyrissjóðinn. Er því ekki fallizt á, að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts stefnenda.

Greiðsluskylda stefnda samkvæmt lögunum er afdráttarlaus. Málsástæður stefnda, sem lúta að félagsgjöldum, koma ekki til álita til sýknu, enda er um lögboðnar greiðslur að ræða, án fyrirvara. Þar sem óumdeilt er, að stefndi hefur ekki staðið skil á þeim greiðslum til umsýsluaðilans, ber að taka kröfur stefnenda til greina, eins og þær eru fram settar. Þá ber stefnda að greiða hverjum stefnenda kr. 300.000 í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, Sjómannasambandi Íslands, kr. 9.375.851, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, Afli, starfsgreinafélagi Austurlands, kr. 500.795 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, Alþýðusambandi Vestfjarða, kr. 500.795 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, kr. 4.651.956, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, kr. 2.862.742, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2011 til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.