Hæstiréttur íslands
Mál nr. 332/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 2. júní 2010. |
|
Nr. 332/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Garðar K. Vilhjálmsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 25. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 24. júní 2010 kl. 16.00.
Kærði mótmælir kröfunni.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot á 2. mgr. 218. gr., 226. gr., 244. gr., 248. gr., 251. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að þann 9. apríl 2010 hafi lögreglan stöðvað bifreiðina [...] en í henni voru kærði, Y og Z. Þessir aðilar hafi verið grunaðir um þjófnað á verkfæratösku fyrir framan leikskólann [...] í [...]. Á vettvangi hafi Z viðurkennt að hafa tekið verkfæratöskuna ófrjálsri hendi og hafi hann verið handtekinn, færður á lögreglustöð og tekin af honum framburðarskýrsla. Hafi Z skýrt svo frá að kærði hefði svipt hann frelsi sínu aðfaranótt 9. apríl 2010. Hafi hann verið sofandi heima hjá unnustu sinni er kærði hefði komið ásamt fleirum og numið hann á brott. Ítrekað hafi verið ráðist á hann og hann neyddur til að taka umrædda verkfæratösku. Í framhaldi af framburði Z hafi kærði verið handtekinn og skömmu síðar vitorðsmaður hans, X. Í fórum X hafi fundist myndavél sem hafði að geyma myndir af árásinni á Z á heimili kærða. Lögreglan hafi gert húsleit að heimili kærða í þeim tilgangi að leggja hald á muni sem hugsanlega hefðu verið notaðir við að veita Z áverka. Við þá rannsókn hafi lögreglan fundið ýmsa muni sem væru notaðir til neyslu fíkniefna. Þá hafi lögreglan einnig gert húsleit hjá föður kærða og í fyrirtæki á vegum kærða. Við leit á þessum stöðum hafi lögreglan fundið og lagt hald á fjölda muna sem væru talin þýfi úr innbrotum á Suðurnesjum en undanfarið hafi mikil innbrotahrina gengið yfir umdæmið.
Lögreglan telur kærða vera undir rökstuddum grun um aðild að sérstaklega hættulegri líkamsárás, frelsissviptingu, þjófnuðum og fjárkúgun. Þá hafi kærði sagt hjá lögreglu að hann hyggist drepa Z. Telur lögreglan að með tilliti til hagsmuna almennings sé nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar. Sérstaklega bendir lögreglustjóri á sakaskrá kærða en þar komi fram að hann hafi tvisvar sinnum verið dæmdur fyrir mjög alvarleg ofbeldisbrot. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem þung fangelsisrefsing er lögð við, allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að meint brot séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 25. júní 2010 kl. 16.00.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 25. júní 2010, kl. 16.00.