Hæstiréttur íslands
Mál nr. 455/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Föstudaginn 28. nóvember 2003. |
|
Nr. 455/2003. |
Ríkislögreglustjóri (Haraldur
Johannessen ríkislögreglustjóri) gegn X og Y ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Hæstiréttur heimilaði að skýrsla yrði tekin af tveimur erlendum vitnum gegnum myndfundarbúnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2003, þar sem fallist var á að skýrslur yrðu teknar af tveimur erlendum vitnum gegnum svokallaðan myndfundarbúnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að „staðfest verði að óheimilt sé að taka skýrslur af umræddum vitnum gegnum myndfundarbúnað.“
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að heimilt sé að taka skýrslur á dómþingi af vitnunum A og B gegnum myndfundarbúnað.
Dómsorð:
Heimilt er að taka skýrslur á dómþingi af vitnunum A og B gegnum myndfundarbúnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. nóvember 2003.
Ákæra í málinu lýtur að ætluðum
brotum ákærða X, sem daglegs stjórnanda ákærða Y ehf. Í I. kafla ákæru er honum, sem slíkum, gefið
að sök að hafa á árinu 1999 keypt sjö bifreiðar af gerðinni [...] árgerð 1999
af fyrirtækinu D, fengið framkvæmdastjóra þess fyrirtækis, A, til að gefa út
tvo vörureikninga vegna sölu hverrar bifreiðar fyrir sig, þar sem samanlögð
fjárhæð reikninganna skyldi svara til kaupverðs hverrar bifreiðar og hærri
vörureikningurinn vera á nafn hins meðákærða félags, en sá lægri á nafnið C,
og í framhaldi, við tollmeðferð hverrar bifreiðar hjá tollstjóranum í Hafnarfirði
vegna innflutnings þeirra til Íslands, einungis lagt fram þann vörureikning,
sem var á nafn meðákærða og þannig reynt án árangurs að komast undan greiðslu
aðflutningsgjalda, samtals að fjárhæð krónur 3.565.942. Er umræddri háttsemi nánar lýst í ákæru og
hún talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 með
áorðnum breytingum.
I.
A átti að koma fyrir dóminn sem vitni vegna þessa
ákæruefnis, sem og B, en samkvæmt lögregluskýrslu hans frá 30. maí 2001, sem
gefin var í Kanada, mun herra A hafa aðstoðað ákærða X við að útvega [...] í
Kanada, til innflutnings á Íslandi, bæði gegnum fyrirtækið E, sem herra A vann
fyrir og gegnum aðra bifreiðasala, hann kynnt ákærða fyrir herra B, sem séð
gæti um skattalegar hliðar mála og einnig tekið við rúmlega [...] dala (CAD)
greiðslu frá ákærða vegna kaupa á þremur [...], sem fengnir voru hjá E.
Skömmu fyrir ráðgerða aðalmeðferð, sem hefja átti 19.
nóvember síðastliðinn, kom á daginn að ofangreind vitni, sem eru kanadískir
ríkisborgarar og búsett í [...] í Kanada, færðust undan því að koma til Íslands
og bera vitni í dómsal og báru fyrir sig að þau vildu ekki ferðast um svo
langan veg í þessu skyni. Vitnin
kváðust hins vegar vera reiðubúin til samstarfs við íslensk dómsmálayfirvöld,
svo sem með skýrslugjöf, að því gefnu að unnt væri að framkvæma hana frá
Kanada.
Til úrlausnar er hvort rétt sé að heimila
ákæruvaldinu að leiða umrædd vitni á dómþingi gegnum síma eða svokallaðan
myndfundarbúnað, sem er til staðar hér í dómhúsinu. Telur sækjandi að lagaskilyrði séu til þess að svo verði gert og
að annar hvor hátturinn skuli hafður á við skýrslugjöf vitnanna, jafnvel þannig
að herra B gefi skýrslu gegnum síma og herra A gegnum myndfundarbúnað. Verjandi mótmælir slíku fyrirkomulagi og
telur hvoruga aðferðina vera heimila eins og háttar til í þessu máli.
II.
Við úrlausn þessa ágreiningsefnis má hafa til
hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. nóvember 2002 í máli réttarins nr. 519/2002, en
þó ber að gjalda varhuga við því að leggja málin að jöfnu, enda um gjörólík
sakarefni að tefla. Í því máli var
ákært fyrir kynferðisbrot gagnvart konu og voru engin vitni að hinum kærða
atburði. Stóð því orð ákærða gegn orði
konunnar um atvikið sjálft. Ákæruvaldið
hugðist leiða hana sem vitni við aðalmeðferð máls, sem og sambýlismann hennar
og stóð ekki til að önnur vitni yrðu leidd í tengslum við sakarefnið. Á þeim tíma voru þau hins vegar búsett
erlendis og höfðu því óhagræði af því að koma til landsins og bera vitni í
dómsal. Sökum þessa óskaði ákæruvaldið
eftir því að teknar yrðu skýrslur af þeim á dómþingi gegnum síma, en því var
synjað með úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti. Var meðal annars vísað til þess að þau væru
bæði mikilvæg vitni og að skýrslugjöf þeirra gegnum síma gæti veikt
sönnunargildi vitnisburðarins. Þá var
ákvörðunin einnig studd þeim rökum að það væri réttur viðkomandi sakbornings að
fá vitnin fyrir dóm og á það bent að tíðar flugsamgöngur væru milli Íslands og
búsetulands þeirra og því hægur vandi að haga fyrirtöku í málinu á þann veg að
hentaði þeim.
Í máli þessu horfir svo við að ákærði X neitar fyrir
dómi sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru.
Í framburðarskýrslum hans hjá lögreglu kemur skýrt fram að hann kannast
ekki við að hafa beðið B að gefa út tvo vörureikninga vegna sölu hverrar
jeppabifreiðar fyrir sig, segir þann vitnisburð herra B vera rangan og fullyrðir
að hann hafi ekki vitað um tilvist hinna lægri vörureikninga, stílaða á nafn C,
fyrr en eftir að rannsókn málsins hófst.
Í lögregluskýrslum ákærða kemur einnig fram að herra A og B hafi staðið
saman að sölu bifreiðanna og hafi nefndur C verið „kúnni“ hjá herra A, hann
fylgst með viðskiptunum og eftir atvikum átt að fá einhver umboðslaun vegna
þeirra frá ákærða eða herra A. C hefur
ekki kannast við þetta við skýrslugjöf hjá lögreglu og hann neitað öllum
tengslum við ákærðu og herra A vegna umræddra viðskipta.
Ákæruvaldið hyggst leiða á annan tug vitna um sakarefni
samkvæmt I. kafla ákæru. Öll eru þau
íslenskir ríkisborgarar og búsett hér á landi, nema vitnin A og B. Ekkert hinna íslensku vitna mun vera í
aðstöðu til að tjá sig um samskipti ákærða X við herra A og herra B í
Kanada. Verður því að telja að þeir séu
báðir mikilvæg vitni um téð sakarefni og að skýrslugjöf þeirra gegnum síma
geti veikt sönnunargildi vitnisburðar þeirra.
Ber í því sambandi að hafa í huga að ekki er útilokað að vitnin tvö
verði samprófuð við ákærða X og/eða vitnið C, enda ber mikið á milli í frásögn
um staðreyndir málsins. Ólíkt aðstæðum
í ofangreindum dómi Hæstaréttar eru herra A og herra C ekki skyldugir til að
koma til landsins og bera hér vitni á dómþingi, enda eru þeir kanadískir ríkisborgarar,
búsettir í Kanada og hvílir því alls engin vitnaskylda á þeim í málinu. Í ljósi þeirrar staðreyndar telur dómurinn,
eins og hér stendur sérstaklega á, að víkja megi frá meginreglu opinbers réttarfars
um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi, enda verði réttur ákærða til að
spyrja vitnin beint á dómþingi nægilega tryggður á þann veg að vitnin mæti á
lögreglustöð eða í dómhús í Kanada, þar sem til staðar er sambærilegur myndfundarbúnaður
og hér er í dómhúsinu, sem unnt er að tengja sambandi við dómhúsið, vitnin
sanni þar á sér deili og gefi skýrslu við samsvarandi aðstæður og væru þau hér
stödd í eigin persónu. Er í því
sambandi vísað til niðurlagsákvæðis 3. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991 um
meðferð opinberra mála, sbr. 17. gr. laga nr. 36/1999, þ.e. að skýrslugjöf
vitnanna verði hagað þannig að allir sem staddir verða á dómþingi hér heyri
bæði orðaskipti við vitnin og geti horft á þau bera vitni á sjónvarpsskjá. Hefur slíkur háttur verið viðhafður hér
fyrir dómi um árabil við skýrslugjöf ætlaðra brotaþola í kynferðisbrotamálum,
sem mætt hafa í Barnahús í Reykjavík og gefið skýrslu gegnum myndfundarbúnað,
án þess að slíkt hafi verið talið brjóta í bága við meginregluna um milliliðalausa
sönnunarfærslu og réttláta málsmeðferð fyrir dómi, sem sakborningi er tryggð
með 1. mgr. 48. gr. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, 1. mgr. 70. gr.
stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995
og 1. mgr. 6. gr. og d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr.
lög nr. 62/1994.
Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að synja
beri um heimild til að taka símaskýrslur af vitnunum A og B í þágu dómsmeðferðar
málsins, en á hinn bóginn sé ákæruvaldinu heimilt að taka skýrslur á dómþingi
af vitnunum tveimur gegnum myndfundarbúnað.
Jónas
Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu ákæruvaldsins um að teknar verði skýrslur á
dómþingi af vitnunum A og B gegnum síma er synjað.
Ákæruvaldinu er heimilt að taka skýrslur á dómþingi
af sömu vitnum gegnum myndfundarbúnað.